Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
9.6.2007 | 20:28
Setning helgarinnar
Ég er mjög viðkvæmur fyrir klisjuskotnu máli og forðast það eins og pestina.
Egill Helgason útskýrir það í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Blaðinu hinn 9.VI.2007, að sér sé lífsins ómögulegt að taka svo til orða að eitthvað stæði sem stafur á bók, eins og málpípur 365 hafa hvað eftir annað fullyrt að hann hafi gert um samningaumleitanir milli hans og Ara Edwald. Það forðist hann eins og sjálfa pestina. Klisjupestina sumsé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.7.2007 kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.6.2007 | 15:42
Laun og öfund
Það er nokkuð fjargviðrast þessi dægrin yfir launamálum í Seðlabankanum og það er ekki örgrannt um að það hvarfli að manni að sá mikli áhugi sé lítillega litaður af því hver gegnir stöðu formanns bankastjórnar í kastalanum við Kalkofnsveg. Hvað sem því líður finnst mér nánast sjálfgefið að æðstu yfirmenn hafi hærri laun en undirsátar sínir, bæði í samræmi við ábyrgð en einnig til þess að viðhalda eðlilegri valdauppbyggingu innan fyrirtækis eða stofnunar.
Þess þekkjast auðvitað dæmi að undirmenn séu betur launaðir en yfirboðarar sínir, en það á þó yfirleitt aðeins við um millistjórnendur og eru undantekningartilvik, sem yfirleitt stafa af mjög sérstökum aðstæðum. Ég man t.d. eftir því í netbólunni að góðir forritarar (eða bara forritarar, góðir sem slakir) voru svo fágætir, að margir stjórnendur réðu þá til sín á talsvert hærri launum en þeir sjálfir nutu. Maður heyrir sjaldan af ámóta núorðið. Það gaf enda ekki alltaf góða raun fremur en við ofeldi kálfa og mér skilst að mannauðsfræðingar vari mjög við slíku.
Það þarf hins vegar ekki að hafa nein áhrif út fyrir fyrirtækið eða stofnunina, því slík launastefna snýst aðallega um strúktúrinn innanhúss, þó hvatinn að launahækkunum komi að utan líkt og í tilviki Seðlabankans, sem þarf að keppa við viðskiptabanka og fjármálafyrirtæki um sérfræðinga, en þar tíðkast afar há laun, enda kvartar fjármálageirinn undan manneklu. Hjá viðskiptadeildum háskólanna er hins vegar mikið af upprennandi starfskröftum langt komnir í pípunum, þannig að það lagast vonandi brátt.
Ofurlaun á fjármálamarkaði
Þessi ofurlaun í fjármálaheiminum eru ekki séríslenskt fyrirbæri, þau tíðkast um heim allan. Þau helgast að miklu leyti af því að sérþekking þessi er afar dýrmæt og verðmætaskapandi og væru menn ekki nægilega vel haldnir ykist hættan á því að þeir færu einfaldlega að praktísera í eigin nafni á markaðnum, eins og er raunar mikið um engu að síður. Og svo eru ábatakerfin og kaupréttarákvæðin við, mönnum til enn frekari hvatningar.
En þar kemur einnig annað til. Erlendis er litið á störf af þessu tagi sem a young man's game, því menn brenna harla hratt upp í þessum geira og það er ör nýliðun af áræðnum og kappsömum mönnum, sem þurfa ekki að vera nema hársbreidd betri eða hraðari en hinir lítillega eldri samstarfsmenn til þess að afraksturinn sé milljörðum hærri. Þegar ég var við nám í Lundúnum var mér t.d. boðið starf sem gjaldeyrismiðlari af kunningja, sem hélt að ég kynni eitthvað á peninga fyrst ég væri að læra við London School of Economics. Kaupið var gersamlega klikkað; mér reiknaðist svo til að árslaunin væru meiri ég hafði gert ráð fyrir að þéna um dagana sem blaðamaður. Þegar ég hváði var hins vegar útskýrt fyrir mér að það væri sjálfsagt ekki hægt að finna meira slítandi starf í City, vinnutíminn væri langur og ömurlegur, streitan gífurleg og flestir væru útbrunnir eftir tvö ár. Enginn hefði verið lengur á gólfinu hjá þessu fyrirtæki en fjögur ár. Hefðu menn áhuga á rólegra starfi ættu þeir að reyna við skóla eða stofnanir, en þá væri kaupið líka mun lægra fyrir mun lengri starfsævi. Væri ég ekki til í að leggja hart að mér til þess að geta farið á eftirlaun vel fyrir þrítugt?
Nú hefur maður reyndar ekki séð neitt svipað upp á teningnum hér heima. Maður heyrir af ofurlaunum hjá hinum og þessum snillingum á fjármálamarkaði, en eins hafa þeir margir auðgast með því að spila sjálfir á markaðnum, svona til hliðar (sem aftur kann að vekja aðrar spurningar). En ég hef ekki orðið var við að mönnum sé vikið til hliðar fyrir aldurs sakir fyrr en komið er undir fimmtugt og þá er mönnum einatt kippt út og upp, sumsé færðir ofar í virðingarstigann en hið daglega at minnkað.
Veikt stoðkerfi
Þannig að kannski er hér um aðra hefð að ræða en ytra, sjálfsagt hefur smæð þrælamarkaðarins hér veruleg áhrif og svo má ekki gleyma því, að þrátt fyrir allt er þessi geiri atvinnulífsins vart búinn að slíta barnskónum. Hann hefur að sönnu vaxið gríðarlega hratt og mikill árangur náðst, en umhverfið ekki náð að fylgja á eftir. Gleggsta dæmið um það er að það er nú fyrst, sem menn hafa ákveðið að breyta viðskiptaráðuneytinu úr skrifstofuskúffu í ráðuneyti. Lagalegt umhverfi þessarar starfsemi er á margan hátt frumstætt (og hið sama má svo sem segja um lög um hlutafélög og bókhald) og tilsjón með fjármálastarfsemi mætti vera margfalt betri.
Þar á ég fyrst og fremst við Fjármálaeftirlitið (FME), sem ég tel að sé einfaldlega ekki í stakk búið til þess að halda fjármálastofnunum og eigendum þeirra við efnið og almenningi og lánadrottnum rólegum. Ekki vegna þess að FME sé lélegt, heldur vegna þess að það á sáralítið í þessa jötna, sem íslenskar fjármálastofnanir eru orðnar. Þar veldur þrennt helst:
Í fyrsta lagi eru lagaheimildir FME ekki nægilega skýrar og dómstólar hafa mjög látið fjármálastofnanir og eigendur þeirra njóta vafans, rétt eins og um hefðbundin fyrirtæki í einkaeigu væri að ræða. En svo er ekki. Fjármálafyrirtæki hafa traust almennings á fjármála- og jafnvel efnahagslífi allrar þjóðarinnar í hendi sér. Fari einn banki á hausinn veikjast allir hinir og geta riðað til falls þó allt sé í stakasta lagi hjá þeim. Eins og hræðileg dæmi eru um utan úr heimi. Samskonar skilningsleysi íslenskra dómstóla á sérstöku eðli almenningshlutafélaga hefur bæði veikt stöðu almennra hluthafa og hlutafjármarkaðarins, sem er vanþroskaðri fyrir vikið.
Í öðru lagi hefur FME átt í miklum vandræðum við að haldast á sérfræðingum. Það getur ekki boðið launakjör á við bankana og til þess að bæta gráu ofan á svart hafa bankar og fjármálastofnanir hirt af þeim heimalingana. Fyrir vikið er stofnanaminnið þannig skemmra, þeir sem best þekkja styrk og veikleika FME færast jafnharðan hinu megin borðsins og þannig mætti áfram telja. Að vísu ber að nefna að bankarnir munu hafa haldið að sér höndum hvað ráðningar frá FME áhrærir síðustu misseri, að mér skilst fyrir vinsamleg tilmæli frá Jónasi Fr. Jónssyni forstjóra þess. Rétt er að geta þess að hann hefur eflt stofnunina mikið undanfarið ár, en hefur skort ytri stuðning til þess að gera eftirlitið klárt í þann krappa sjó, sem því er ætlað að sigla.
Í þriðja lagi er afleiðing þessa tvenns, sem er að FME hefur ekki það vægi, sem fjármálamálamarkaðnum er nauðsynlegt. Þegar erfitt er að laða til sín hæfa og reynda starfsmenn bitnar það á vinnubrögðunum og minna mark er á því tekið, bæði af fjármálastofnunum og hinum sem eiga að geta treyst á umsagnir þess. Einstaklingar innan fjármálastofnana (sem margir eru mjög áhættusæknir) kunna því að tefla á tæpara vað en ella, en aðrir markaðsaðilar, ekki síst erlendir, eiga erfiðara með að átta sig á íslenskum fjármálastofnunum, af því að FME er næsta óþekkt stærð í þeirra huga.
Ég hygg að það kunni að vera eitt mikilvægasta verkefni Björgvins G. Sigurðssonar, nýskipaðs viðskiptamálaráðherra, að styrkja FME til mikilla muna. Ég veit að það yrði stóru bönkunum þremur alls ekki á móti skapi. Þeir vilja að sönnu ekki meira reglugerðarfargan eða meira íþyngjandi skýrslugjöf í daglegum rekstri, en eru á hinn bóginn vel tilbúnir til þess að fallast á meiri inngrip FME og samstarf við það, þegar ástæða þykir til, sumsé þegar grunur er uppi um að eitthvað sé að. Að undanförnu hefur það reglulega gerst að erlendar greiningardeildir hafa efast mjög um íslensku bankana og erlendir fjölmiðlar hafa gert því skóna að þeir kunni að tengjast peningaþvætti úr austurvegi eða ámóta. Þetta hafði veruleg áhrif á störf íslenskra fjármálastofnana og hefði getað farið á versta veg. Þar munaði kannski minnu en flestir gera sér grein fyrir. Sterkt, virkt og virt Fjármálaeftirlit hefði getað fyrirbyggt að slíkar efasemdir, og hviksögur, byggðar á þekkingarleysi, kæmust af stað eða að minnsta kosti kveðið þær niður hratt og örugglega með óyggjandi hætti. FME eins og það var þá, var þess engan veginn megnugt og naut ekki þeirrar virðingar eða trúverðugleika sem til þurfti.
Mér finnst vel koma til greina að fjárframlög til FME séu í ríkari mæli veltutengd við umfang fjármálastarfsemi og nauðsynlegt er að gera stofnunina miklu sjálfstæðari. Meðal annars þannig að Fjármálaeftirlitið geti ráðið til sín milljónkrónumenn eftir þörfum í stað þess að vera bundið af opinbera launakerfinu. Um leið væri æskilegt að í ráðningarsamninga þeirra væri bann við starf hjá íslenskum fjármálastofnunum í 5 ár eftir að störfum við FME lýkur.
Öfundin
Ég man ekki eftir því að menn hafi býsnast yfir hlutnum hjá duglegum togarasjómönnum á aflahæstu skipum flotans, þó þar væri oft um ævintýralegar upphæðir að ræða. Þvert á móti var jafnan um það talað af virðingu og aðdáun. Menn eru ekki síður fengsælir á fjármálamarkaðnum í dag, en menn vita að starfið er slítandi og ekki á vísan að róa; duttlungar markaðarins eru ekki minni en duttlungar náttúrunnar. Þess vegna æsa fæstir sig yfir háum launum á þeim vettvangi (þó menn hafi gert athugasemdir við suma kaupréttarsamninga og ekki af ástæðulausu).
Hlutverk Seðlabankans hefur einnig breyst á umliðnum árum, en það er ekki minna mikilvægt en fyrr, öðru nær. Það ríður engu minna á en áður, að Seðlabankinn hafi yfir færustu sérfræðingum að ráða, og sennilegast hefur aldrei verið mikilvægara en nú, að bankastjórnin sé algerlega sjálfstæð og óháð, en í því felst meðal annars að hún þarf að geta horft þráðbeint í augun á stjórnendum annarra banka, stjórnmálamönnum og aðilum vinnumarkaðarins án þess að blikna.
Það er vinsælt að agnúast út í launakjör og eftirlaun æðstu stjórnenda hins opinbera, helst með þeirri afleiðingu að Alþingismenn eru svo illa launaðir að hæfileikaríkt fólk þarf að færa umtalsverðar fjárhagslegar fórnir til þess að gefa sig að þeim veigamiklu störfum fyrir þjóðina. Ekki síst hafa verkalýðsrekendur verið duglegir við reka upp öfundarkvein. Þannig sagði Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, í viðtali við RÚV, að undanfarin ár hefði sjálftökuliðið í þjóðfélaginu tekið sér launahækkanir, sem séu langt umfram það, sem verkalýðshreyfingin hafi samið um. Kröfugerð hennar í næstu kjarasamningum myndi væntanlega taka mið af því.
Forysta Starfsgreinasambandsins er að vísu óvenjugalin miðað við það sem gengur og gerist í verkalýðsiðnaðinum, en frá ASÍ heyrðust svipuð sjónarmið. Ég get ekki tekið mark á pípunni í verkalýðsrekendum um laun annarra fyrr en þeir aflétta launaleyndinni af sjálfri sér. Þessi tónn um sjálftökuliðið er því einkar falskur, enda hlýtur Kristjáni Gunnarssyni að vera kunnugt um að þannig var þessi tiltekna launahækkun alls ekki þannig vaxin, ekki fremur en hjá æðstu stjórnendum ríkisins. Og Guðrún Zoëga, formaður kjararáðs, hafði raunar greint frá því að laun seðlabankastjóra hafi sem slík engin áhrif á ákvarðanir um launakjör æðstu embættismanna. Hvers vegna er Kristján þá að hræsna í málinu og tala um að þetta muni hafa áhrif á næstu kröfugerð sína? Kannski hann hafi vakið falskar vonir hjá einhverjum félagsmanna sinna, en þetta er innantómt bull hjá manninum og hann veit það.
Kannski vandinn sé sá, að Íslendingar hafa alltof lengi lagt trúnað við það að launajöfnuður sé markmið í sjálfu sér og engir lengur og meir en íslenskir stjórnmálamenn (og þar er enginn flokkur undanskilinn). Um leið ganga flestir út frá því sem vísu að einhverjir þar til bærir aðilar eigi að véla sérstaklega um það, að enginn beri nú örugglega of mikið úr býtum. Maður heyrir enda oft að menn hafa meiri áhyggjur af því en að einhver búi við of krappan kost. Þau viðhorf má kannski kenna við kreppusósíalisma síðustu aldar, en ég hygg að þar búi að baki mun eldri kennd, sumsé öfund. Af þeirri dauðasynd ætti enginn að láta stjórnast, jafnvel þó einhverjir reyni að klæða hana í búning stjórnmálastefnu.
Launahækkun seðlabankastjóra var málamiðlun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.6.2007 | 01:00
Frelsið í Fréttablaðinu
Í Fréttablaðinu á sunnudag má lesa forystugrein eftir Kristínu Evu Þórhallsdóttur þar sem hún fjallar um fortakslaust reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum undir fyrirsögninni Aukið frelsi eða frelsissvipting? Niðurstaða leiðarans er sú að það þurfi stundum að víkja af leið frelsisins til þess að tryggja fólki frelsi. Þessi orwellska þversögn minnir mann á Víetnam-stríðið, þegar bandarískur herforingi útskýrði að menn sínir hefðu neyðst til þess að brenna þorp til grunna til þess að bjarga því frá kommúnismanum.
Frelsi tvö
Kristín Eva hefur mál sitt á því að útskýra, að hér takist á frelsi tvö: annars vegar frelsi veitingamanna til þess að ráða því hvernig aðstæður þeir vilja bjóða í von um að fylla salarkynni sín og hins vegar frelsi fólks til þess að geta fengið sér mat, kaffisopa eða áfengi án þess að þurfa að þola reykjarmengun. Síðan kemur eitthvert dæmalaust þvaður um neikvætt frelsi og jákvætt, sem höfundur kann greinilega engin skil á, en misskilningurinn er settur fram sem einhver grundvallarlögmál heimspekinnar!
Í stuttu máli heldur hún að frelsi manna til þess að reykja flokkist undir það að vera neikvætt frelsi, af því að það leiðir til ávanabindingar sem sé auðvitað voða neikvætt. Síðan gleymir hún reyndar að skilgreina jákvætt frelsi með sama hætti, en lesandanum skilst að vegna þess að það sé jákvætt að aðrir gestir og starfsmenn verði ekki fyrir heilufarsskaða af völdum reykjar sé það hin sortin. Er svona heimska boðleg í forystugrein útbreiddasta dagblaðs þjóðarinnar?
Það hefur gengdarlaus gnótt verið rituð um neikvætt frelsi og jákvætt. Menn geta lesið sér til gagns um neikvætt frelsi hjá John Locke, Gottfried Wilhelm Leibniz, Thomas Hobbes og Adam Smith, en um hið jákvæða fremur hjá Hegel, Rousseau og Marx. Menn geta svo velt því fyrir sér hvor hópurinn hafi orðið mannkyni til meiri blessunar. Til ofureinföldunar má orða muninn á þessum tveimur greinum frelsis svo: Neikvætt frelsi er frelsi frá áþján, en jákvætt frelsi er frelsi til tiltekinna gæða eða réttinda. Hið neikvæða frelsi er jafnan tengt frelsi einstaklingsins, en hið jákvæða oftast frelsi heildarinnar eða hópa. Um þetta flutti Sir Isaiah Berlin lærðan fyrirlestur í Oxford árið 1958, Two Concepts of Liberty, sem einnig hefur komið út á bók. Ég mæli með Liberty: Incorporating Four Essays on Liberty; ekki síst fyrir leiðarahóp Fréttablaðsins. Það er alveg ljóst hvort frelsið Sir Isaiah telur mikilvægara.
Svo má auðvitað deila um það hvort jákvætt frelsi sé frelsi í venjulegum skilningi. Getur frelsið átt við annað en einstaklinginn og frelsi hans undan oki annara? Rétt er að hafa í huga að orðið frelsi á í eðli sínu við hið neikvæða frelsi einstaklingsins. Orðsifjafræðin kennir okkur að orðið frjáls sé dregið af frí-háls, sumsé maður, sem ekki er hlekkjaður um hálsinn, ekki þræll. Andyrði orðsins frelsi er helsi, sem þýðir hálsfjötrar, og þá geta menn rakið afganginn sjálfir. Orðið sjálft er auðvitað miklu eldra heimspekilegum vangaveltum um eðli hugtaksins, en skýr merkingin vafðist ljóslega ekki fyrir áum okkar þó ekki hafi þeir lesið Hobbes. Hitt sakaði örugglega ekki heldur að þeir höfðu ekki Fréttablaðið að rugla í sér.
Ofbeldi hvað?
Hins vegar þarf ekki að fara út í svo lærða gagnrýni á þessa forystugrein Fréttablaðsins. Um leið og maður les eftirfarandi setningu í henni er rökvillan ljós.
Vel er hægt að færa fyrir því rök að með því að hleypa tóbaksreyk út í andrúmsloftið sé verið að beita aðra ofbeldi. Enginn á rétt á því að beita aðra manneskju ofbeldi í skjóli eignarréttar síns eða frelsis.
Eru einhver dæmi þess að menn hafi verið neyddir til þess, beittir frelsissviptingu, til þess að húka inni á veitinga- eða skemmtistað þannig að þeir komist ekki hjá því að anda að sér reyk úr öðrum? Auðvitað ekki (en hins vegar eru þess nokkur dæmi að mönnum sé með handafli meinað að vera inni á þeim af ýmsum ástæðum). Mönnum er fullkomlega frjálst að vera annars staðar en á skemmtistöðum, reyklausum sem reykfylltum. Allt tal um ofbeldi í þessu samhengi er því marklaus þvæla. Rétt eins og reykingafólk hefur til þessa sneitt hjá reyklausum stöðum, ætti reyklausu fólki, sem ekki vill vera nálægt reyk, að vera vandalaust að sneiða hjá reykingastöðum. Fólk, sem ekki reykir, en fer samt sem áður á reykstaði, er greinilega til í að leggja það á sig, þó því sé vonandi fullkunnugt um óhollustu reykinga og óþægindi, sem þeim fylgja. Rétt eins og fólk með góðan tónlistarsmekk getur hugsað sér að þola lyftutónlist fremur en að klífa stiga.
Er minna val betra?
Eins og fólk þekkir eru veitinga- og skemmtistaðir afskaplega mismunandi. Á einum er gert út á írska þjóðlagatónlist, en annar höfðar til íþróttaáhugamanna, sá næsti leikur gamla rokktónlist og enn einn sérhæfir sig í ódýrum bjór. Sumir miða við að gera hinum breiða fjölda til hæfis, aðrir þjóna þörfum jaðarhópa. Þetta er dásemd markaðarins í hnotskurn, eftirspurnin er margbreytileg en framboðið nægilega fjölbreytt til þess að flestir finni eitthvað við sitt hæfi. Þar á meðal voru reyklausir staðir. Sumir þeirra hafa blómstrað, en hið sama má auðvitað segja um marga reykstaðina fornu. En reyklausu staðirnir spruttu ekki upp eins og gorkúlur, líkt og ætla mætti ef eftirspurnin væri víðtæk og reyklausir litu á reykingar sem frágangssök. Hefði maður þó haldið að þar væri viðskiptatækifæri í lagi. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna því er þannig farið, nema náttúrlega að það fólk, sem á annað borð hefur sérstaka ánægju af því að sækja barina, er sennilega meiri nautnaseggir en hinir og því líklegra til þess að reykja en ella.
Af þeirri ástæðu tók ég aldrei mark á neinum skoðanakönnunum, sem Lýðheilsustofnun pantaði, um að svo og svo stór hluti þjóðarinnar væri hlynntur reykbanni á veitinga- og skemmtistöðum. Ég hefði tekið meira mark á könnunum, þar sem úrtakið hefði verið fólk sem stundar slíka staði, en á endanum er aðeins mark takandi á einni könnun: hvað fólk velur sér sjálft í þessum efnum. En þar sem áður var val milli reyklausra staða og reykingastaða er nú ekkert val lengur sakir löðboðs. Í vali felst vald, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson, nýskipaður heilbrigðisráðherra, benti á í viðtali við mig í föstudagsblaði Viðskiptablaðsins. Með því að taka fyrir valið hefur löggjafinn svipt borgarana valdi: því valdi sem felst í vali þeirra á veitinga- og skemmtistöðum. Það gladdi mig því að heyra að Guðlaugur Þór útilokaði ekki endurskoðun þessara ólaga, en hann taldi rétt að fá af þeim einhverja reynslu fyrst. Gott hjá honum.
En hvað um starfsfólkið og rétt þess? Auðvitað væri veitingamönnum í lófa lagið að ráða aðeins fólk, sem reykir, eða er til í að ráða sig upp á þau býti að vinna í andrúmslofti, sem vísast er ekki hið heisusamlegasta í bænum. Starfsfólk á börum þarf enda að sætta sig við alls kyns áreiti frá drukknu fólki, aukna ofbeldisáhættu, hávaða, megnan mannaþef og þungt loft, þó ekki sé tóbaksreyknum fyrir að fara. Rétt eins og starfsfólk á smurstöðvum þarf að sætta sig við sóðaskap, lögregluþjónar vita að þeir geta hæglega orðið fyrir barðinu á ofbeldismönnum, hafnarverkamenn leggja sig í áhættu við flutninga á sprengiefnum og heilsuspillandi efnum, það þykir bara svo og svo fínt að vera í öskunni, það fer ekki vel með lungu eða heila neins að rústberja og lakka tankadekk í skipum, klóakshreinsunarmenn eru ekki öfundsverðir og svo framvegis ad nauseam. Staðreynd málsins er nefnilega sú að fólk er til í að leggja ótrúlegustu hluti á sig í lífinu, bæði innan veggja heimilis og í vinnu. Svo framarlega, sem það telur ávinninginn eða umbunina dýrmætari.
Lágkúra í leiðara
Seinni helmingi forystugreinar Fréttablaðsins ver Kristín Eva til þess að taka dæmi til samanburðar og þar kemur hún upp um sig sem tröll í þeim skilningi, sem við netverjar þekkjum mætavel af Usenet og hinum ýmsu spjallborðum. Hún minnist að vísu ekki á Hitler, sem jafnan er öruggasta merkið um tröllsskap, en það er kannski ekki skrýtið vegna þess að hann var einnig ötull og lítt umburðarlyndur andstæðingur reykinga. Nei, hún líkir andstæðingum hins fortakslausa reykingabanns við barnaníðinga!
Hún dregur þar fram frægt mál vestanhafs, þar sem ACLU tóku fyrir dómstólum málstað málfrelsis samtakanna NAMBLA, sem berjast fyrir því að karlar og drengir megi njótast refsilaust. Inn í málið dregur hún öfga frjálshyggjumanninn Bill O'Reilly, sem hefur nú hingað til talist íhaldsmaður í flestum skilningi og tók einmitt þann pólinn í þessu máli og fannst málfrelsið verða að víkja fyrir frelsi barna til að verða ekki fyrir kynferðislegu ofbeldi eins og Kristín Eva útskýrir. Nú verður raunar ekki annað séð en að Kristín Eva og Fréttablaðið taki sér stöðu með O'Reilly gegn málfrelsinu, en hún telur það víst að ekki sé hægt að verja hvað sem er í nafni frelsis.
Þarna fellur hún í eigin gildru rökleysu og ógrundvallaðra fullyrðinga. ACLU voru ekki að verja hvað sem er. Samtökin voru að verja málfrelsið og ekkert annað. Þau voru ekki að taka afstöðu til, hvað þá með, baráttumála NAMBLA, heldur aðeins réttar þeirra til þess að flytja mál sitt. Alveg eins og ACLU hafa barist fyrir málfrelsi nazista, andstyggðarmálflutningi Westboro Babtist Church og tjáningarfrelsi vegna fleiri ógeðfelldra málsstaða. Með því eru ACLU engan veginn að taka undir málflutninginn heldur aðeins frelsið til þess að láta hann í ljósi. Rétt eins og Voltaire forðum. Þau tóku enda dyggilegan þátt í mannréttindabaráttu svertingja í Bandaríkjunum, börðust mjög gegn gyðingaandúð og birtingarmyndum hennar þar vestra og eiga mestan stuðning hjá borgaralegum vinstrisinnum á bandaríska vísu, aðallega á austurströndinni.
Til varnar vondum skoðunum
Punkturinn við málfrelsisákvæði í stjórnarskrá og lögum er nefnilega sá, að þau eru sett þar til varnar óvinsælum og umdeildum skoðunum, jafnvel röngum og heimskulegum. Almælt tíðindi og viðteknar skoðanir þarfnast engra slíkra varna.
Alveg á sama hátt tryggjum við margs konar grundvallarréttindi önnur í stjórnarskrá, lögum og jafnvel alþjóðasamningum. Auðvitað má finna dæmi um það hvernig takmarka þurfi þau réttindi á ýmsan hátt, en fyrir því þurfa þá að vera afar sterk og knýjandi rök, sem meðal annars þurfa að sýna fram á að ella sé brýnum hagsmunum stefnt í bráðan og öruggan voða. Um leið þarf að vera sýnt, að ekki sé hægt að girða fyrir hættuna með öðrum og vægari hætti. Sú meðalhófsregla er raunar rauður þráður í allri löggjöf réttarríkisins, að ekki sé gengið þumlungi lengra en nauðsynlegt er og að löggjöfin sé ekki meira íþyngjandi en nauðsyn ber til.
Hvað reykingabannið áhrærir er þar skautað glannalega framhjá öllum þessum sjónarmiðum. Þar er í fyrsta lagi gengið á eignarrétt veitingamanna til þess að haga rekstri sínum og nýtingu eigna sinna með öðrum hætti en þeim sjálfum sýnist. Í öðru lagi er í hávegum hafður réttur fólks, sem þarf ekki að vera þar frekar en það vill, því er frjálst að vera annars staðar, meðan eðlilegur og lögmætur áhugi reykingafólks til þess að hittast og ástunda ósið sinn er í engu virtur. Í þriðja lagi er allt meðalhóf látið lönd og leið, þannig að veitingamenn mega ekki koma sér upp sérstökum reyksölum eða öðru ámóta fyrirkomulagi þannig að bæði reykjandi og reyklausir geti við unað.
Lágmarkskröfur til leiðara og siðleysi
Um þetta allt má vel deila og lengi, en þá er lágmarkskrafa að menn viti um hvað þeir eru að tala, falli ekki í eigin rökgildrur og forðist lágkúru eins og að líkja andmælendum sínum við barnaníðinga. Þá kröfu hlýtur að mega gera til blaðs eins og Fréttablaðsins, sem manni sýnist að taki sjálft sig alvarlega og vilji að aðrir geri það líka. Síðan getum við skeggrætt um jákvætt frelsi og neikvætt og komist að niðurstöðu, niðurstöðu sem byggjandi er á og gefur ekki fordæmi um það að frelsið sé afgangsstærð og eignarrétturinn aðeins helgur þegar það hentar stjórnvöldum og áhugamönnum um félagsverkfræði.
Til allrar hamingju á Kristín Eva Þórhallsdóttir ekki síðasta orðið um þessi mál á leiðarasíðu Fréttablaðsins, því við hliðina á skrifar Illugi Gunnarsson, minn góði vinur og 3. þingmaður Suður-Reykjavíkur, einnig um reykingabannið og það af mun meiri skynsemi. Ég mæli eindregið með greininni, því hann skrifar hana af hófsemi og í talsvert styttra máli en ég hér (sem kannski er fullseint fyrir lesandann að vita hingað kominn!) En í lok greinarinnar fjallar hann um hinn siðferðislega þátt málsins og hann gerir það svo vel og skýrt, að ég vildi óska þess að ég hefði skrifað það. Því mig minnir endilega að ég hafi hugsað eitthvað á svipaða lund. Látum Illuga eftir lokaorðin, sem allir áhugamenn um stjórnmál og stjórnlög ættu að tileinka sér:
[ ] ef stjórnmála- og embættismenn ætla með bönnum að koma í veg fyrir alla siðferðislega ámælisverða hegðan eða tryggja að við förum okkur ekki að voða, þá er verið að afsiða þjóðfélagið og gera hvert og eitt okkar ábyrgðarlaust. Siðferði hvers og eins okkar felst til dæmis í því að þurfa að velja og hafna, gera okkur grein fyrir því hverjar afleiðingar gerða okkar eru. Ef búið er að ákveða fyrir okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt og allt rangt er bannað með lögum þá er siðferðið orðið ríkisvætt og þjóðfélagið nánast siðlaust. Þessar hugleiðingar leiða ekki til þeirrar niðurstöðu að allt eigi að leyfa, en það á að beita ríkisvaldinu af mikilli hófsemi, það á að gæta meðalhófs og það á að leyfa fólki að lifa lífi sínu eins og því sjálfu hentar, ábyrgðin á að vera fólksins, ekki ríkisins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
1.6.2007 | 11:04
Tala dýrsins
Í nýjasta tölublaði tímaritsins Ísafoldar er grein, sem mér skilst að fjalli um hagi dansmeyja á skemmtistaðnum og menningarsetrinu Goldfinger í Kópavogi. Ég hef ekki séð greinina og get því ekki fjallað um hana, en samkvæmt tilkynningu frá Birtíngi, útgáfufélagi Ísafoldar, er aðstæðum þeirra líkt við mansal. Aðalsölupunkturinn felst þó í myndbirtingu af staðnum, þar sem Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, er í aðalhlutverki, en með honum á myndinni eru að mér skilst tvær dansmeyjar af staðnum. Er svo gefið til kynna að Ásgeir Þór Davíðsson, staðarhaldari á Goldfinger, kunni að hafa notið kunningskapar við Gunnar í samskiptum sínum við bæinn. Ég ítreka að þessi lýsing er byggð á frásögnum en ekki af lestri greinarinnar.
Á vef Mannlífs, þar sem títt má finna ýmsan orðróm, var greininni lýst svo hinn 30. maí í færslu númer 661:
Nektardansmeyjar og bæjarstjóri
Nektardansmeyjar á súlustaðnum Goldfinger upplýsa í Ísafold sem dreift verður á morgun að erlendir dansarar hafi sætt meðferð sem einna helst líkist mansali. Stúlkunum var jafnvel óheimilt að fara frjálsar ferða sinna. Í tímaritinu er einnig sagt frá tengslum Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi, og því að hann hafi verið tíður gestur á staðnum. Því til sönnunar er birt mynd af honum með tveimur dansmeyjum. Mikill titringur er þegar vegna málsins og hafa áhrifamenn reynt að stöðva birtingu greinarinnar
Samkvæmt þessu er ekki verið að skafa utan af hlutunum. Sérstaklega á það auðvitað við um ásakanir um mansal, sem er grafalvarlegt mál. Mansal er ekkert annað en þrældómur, sem á síðustu árum hefur hlotið nýja aukamerkingu sem kynlífsánauð og þá er auðvitað verið að gefa í skyn að sitthvað fleira eigi sér stað en súludans. Nú veit ég auðvitað ekki hvað er nákvæmlega átt við þegar sagt er að Stúlkunum [hafi verið] jafnvel óheimilt að fara frjálsar ferða sinna, en ég minnist þess þó að þegar mest var rætt um nektardansstaði hér fyrir nokkrum árum og mjög var látið að því liggja af andstæðingum þeirra, að þar væri stundað vændi, þá brugðust eigendur staðanna við með því að samningsbinda útgöngubann dansmeyjanna um nætur til þess að fyrirbyggja slíkar aukabúgreinar. Þá var gerður góður rómur að því siðvæðingarátaki.
En sölukrókur greinarinnar er sem fyrr segir myndbirtingin af Gunnari. Nú kann að vera að sú myndbirting eigi erindi við lesendur til stuðnings meginefni greinarinnar, en að óséðu á ég erfitt með að verjast þeirri hugsun að með henni sé verið að gera út á bælda gægjuhneigð fremur en annað. Mannlíf segir að áhrifamenn [hafi] reynt að stöðva birtingu greinarinnar og er það merkilegt ef satt reynist, en hvers vegna í dauðanum er þá ekki upplýst hverjir þessir áhrifamenn eru?
Mér er raunar sagt að eigendur útgáfunnar hafi lýst óánægju sinni með greinarbirtinguna fyrir dreifingu, svo kannski er átt við þá, en ritstjórinn Reynir Traustason mun ekki hafa gefið eftir ritstjórnarlegt sjálfstæði sitt. Það má svo til gamans geta þess að sumir eigendanna eru ekki fullkomlega ókunnir þeim geira, sem um ræðir, og áttu hagsmuna að gæta í Óðali á sínum tíma.
En birtingin virðist hafa farið fyrir brjóstið á fleirum. Í gærkvöldi birtist nefnilega annar orðrómur á vef Mannlífs, ekki með meiri tæpitungu en sá fyrri. Þar stóð:
Verslunarkeðja með mansali
Verslanakeðjan Kaupás tók í dag nýjasta hefti tímaritsins Ísafoldar fyrirvaralaust úr sölu án þess að gefa skýringar. Í Ísafold er fjallað um meint mansal og niðurlægingu kvenna á súlustaðnum Goldfinger í Kópavogi og tengsl Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra við staðinn. Birt er mynd af bæjarstjóranum illa til reika með dansmeyjum. Ein þeirra lýsir því að bæjarstjórinn hafi áreitt hana. Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Kaupáss, er aðaleigandi Byko-veldisins sem hefur höpfuðstöðvar í Kópavogi og vinskapur er milli hans og bæjarstjórans. Einsýnt er að Jón Helgi standi fyrir því að Ísafold en hann sýndi þann fádæma ruddaskap að skella á Elínu Ragnarsdóttur, framkvæmdastjóra Birtíngs, þegar hún leitaði í símtali skýringa á því að Ísafold var fjarlægt úr hillum verslanana síðdegis í dag. Því hefur ekki fengist skýring á því hvers vegna Jón Helgi er því svo andsnúinn að fjallað sé um mansal opinberlega
Þarna er auðvitað gengið skrefinu lengra og sagt að Jón Helgi Guðmundsson í Byko sé ruddi, sem vilji með einhverjum hætti bera blak af mansali. Og þar af leiðandi aðhylist Kaupáss-keðjan mansal. Síðan er ýjað að því að kunningsskapur við bæjarstjórann jafngildi sekt um eitthvað. Hvílík röksemdafærsla og endemis della! Enn og aftur skal ítrekað að ég hef ekki lesið greinina, en samkvæmt fyrri Mannlífs-færslunni var þar lýst meðferð sem einna helst líkist mansali en í seinni færslunni er því slegið föstu að greinin fjalli um meint mansal eins og þar sé um augljóst brot að ræða, sem aðeins eigi eftir að fara sína leið í dómskerfinu.
Sjálfsagt hafa einhverjir áhrifamenn haft samband, því skömmu eftir að færslan kom á vefinn var hún fjarlægð. En samt ekki fullkomlega. Hún lifir enn í kerfinu hjá þeim og má finna hér og ber vitaskuld færslunúmerið 666.
Svo leið nóttin en í býtið í morgun, um hálfsjöleytið sýnist mér, kom svo enn ein færslan, nokkuð samstofna þeirri horfnu. Þar hefur aðeins verið dregið úr, en nú er í fyrirsögn staðhæft að Kaupáss hylmi yfir með mansali! Gengur eitthvað á?
Í færslu númer 667 er enn hamrað á því að þungavigtarmennhafi reynt að stöðva útgáfuna. Af hverju er Mannlíf að hylma yfir með þeim með því að láta þá njóta nafnleysis? Það er óskiljanlegt, nema það sé aðeins getgátur eða tilbúningur til þess að auka söluna. Eins kemur fram að til séu fleiri myndir af Gunnari undir svipuðum kringumstæðum og hvað skyldi það nú þýða? Væru þær fréttnæmar hefðu þær vitaskuld verið birtar, en það að nefna það eitt að þær séu til í pokahorninu ber keim af einhverju allt öðru en eðlilegri fjölmiðlun.
Það á vafalaust fleira eftir að koma upp í þessu máli og ég hef sterklega á tilfinningunni að það verði engum hlutaðeigandi til sóma, hvorki umfjöllunarefnum, heimildarmönnum, blaðamönnum né útgefendum. Þá stendur aðeins eftir sæmd lesenda.
.......................
Viðbót, færð inn kl. 13.22.
Reynir Traustason, ritstjóri Ísafoldar, hringdi í mig og við áttum ágætt samtal. Hann fullvissaði mig um það, að engin samsæri hefðu legið að baki horfnu færslunni. Hann hafi fyrir rataskap á tölvur gloprað henni burt og ekki verið jafnfundvís og ég á hana. Þess vegna hafi hann í morgunsárið skrifað færsluna aftur eftir minni og það skýri muninn á þeim. Ég trúi honum alveg.
Hann sagði mér einnig að starfsmenn Birtíngs myndu stilla sér upp fyrir utan verslanir Kaupáss og selja Ísafold þar í lausasölu, enda hefði hún jafnan verið söluhæsta tímaritið í þeim.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.6.2007 | 10:40
Sjómannadagurinn
Sjómannadagurinn er á sunnudag. Þessi grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar er að sönnu ekki jafnumfangsmikill og áður, sérstaklega ekki þegar litið er til hversu margir starfa við sjávarútveg, en á hinn bóginn stendur greinin í heild sinni með blóma og færir björg í þjóðarbú með miklu minni fyrirhöfn en áður. Þar valda meðal annars gríðarlegar tækniframfarir á öllum sviðum sjósóknar, en einnig verður ekki hjá því litið að það fiskveiðistjórnunarkerfi, sem við búum við, hefur reynst afar farsælt, bæði fyrir fisk og fiskimenn.
Ég get alveg játað það, að ég hef aldrei fellt mig við hvernig staðið var að tilurð kvótakerfisins og hending eða happdrætti í Hæstarétti varð til þess að útgerðarmenn fengu þar mikil réttindi í hendur með hætti sem margir telja ósanngjarnan. Í því samhengi er einnig rét að hafa í huga að til kerfisins var stofnað sem bráðabirgðakerfis og engum dat í hug að það yrði varanlegt. Á hinn bóginn var það á sína vísu mikið gæfuspor að koma á eignarrétti í greininni, en þannig höfum við Íslendingar sloppið við að miðin yrðu fyrir harmleik almenningsins, því menn ganga af meiru hirðuleysi um það, sem allir eiga (enginn á) en hitt þar sem þeir eiga beinna hagsmuna að gæta. Þess vegna get ég fellt mig við kvótakerfið, en nú orðið hafa nær allir kvótahafar orðið sér úti um kvótann með kaupum í góðri trú. Frá því verður ekki snúið án gífurlegs herkostnaðar fyrir þjóðarbúið allt.
En um leið eiga sér stað óþolandi atburðir eins og Flateyringar vöknuðu við á dögunum og nú reynir á hina nýju ríkisstjórn, þó fyrst og síðast verði það auðvitað Önfirðingar sjálfir, sem hafa gæfu sína í hendi sér. Ég vona af heilu hjarta að þar rætist skjótt úr, enda er á Vestfjörðum að finna dugnaðarfólk sem lætur ekki deigan síga þó á móti blási í eiginlegri sem óeiginlegri merkingu.
Í minningunni skein sól ávallt í heiði á sjómannadeginum. Þegar ég var lítill fór pabbi með mig í langar gönguferðir og á sjómannadag lá leiðin niður að Reykjavíkurhöfn, þar sem jafnan var múgur og margmenni. Skipin voru fánum prýdd, hreystimenni kepptu í stakkasundi og kappróðri, en mest spennandi þótti mér þó koddaslagurinn á ránni, þar sem annar keppandinn að minnsta kosti steyptist að lokum í sjóinn með miklum gusugangi. Þetta var mikill hátíðardagur.
Hann fékk aðra þýðingu fyrir mér á unglingsárunum þegar ég fór sjálfur á sjó (sem ég held að hafi verið mér lífsins hollasti skóli). Þá var það brýningin í öryggismálum sjómanna, sem hæst bar, og þó Ægir og Rán beri enn sín skelfilegu nöfn með rentu er ástandið með allt öðrum hætti en var, þegar menn litu nánast á mannskaða á sjó sem þolanlegar fórnir. En það er fleira, sem Sjómannadagsráð hefur áorkað og þar má helst telja ótrúlega elju og framsýni frumkvöðlanna við að reisa dvalarheimili fyrir aldraða og slitna sjómenn. Þeir töldu að í þeim efnum væri nær að treysta á sjálfa sig en hið opinbera. Af því má enn draga lærdóm í dag.
Ég vinn niðri við höfnina, í Slipphúsinu nánar til tekið, og þaðan hef ég útsýni yfir gömlu höfnina og slippinn. Sit aðeins kippkorn þar frá, sem Magnús Magnússon langafi minn hafði skrifstofur útgerðar sinnar um og upp úr aldamótum, en hann var jafnan kenndur við Alliance. Sjálfur var hann harðduglegur sjómaður, sem fór að stunda sjóinn á barnsaldri, var varla fermdur þegar hann var orðinn formaður á bát, tók síðar stýrimannapróf og kenndi í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Um leið gaf hann sig að menntun og menningu, hafði ægifagra rithönd og skrifaði fullkomna spegilskrift af gamni sínu, hann var sigursæll í skautahlaupi hér á Tjörninni og var meðal stofnenda ÍR. Ætli það megi ekki kalla hann 20. aldar renaissance-mann?
Nú eru uppi hugmyndir um að reisa bryggjuhverfi þarna við höfnina og hið fyrsta sem borgaryfirvöldum hugkvæmdist, til þess að gera það að veruleika, var að flytja slippana burtu. En af hverju fylla þau þá ekki bara upp í höfnina? Ég held einmitt að það, sem gæði höfnina lífi, sé atvinnulífið og náin snerting við það. Skipin í slippnum gnæva eins og skúlptúrar á stöllum sínum og hamarshögg og logsuðuurg minna á að gangverk atvinnulífsins er undirstaða hins, að menn geti rölt um bryggjuhverfið og sötrað espresso sem farmenn fluttu hingað á norðurhjara í friði og spekt. Er nokkur ástæða til þess að hrófla við þeirri nálægð okkar borgarbúa við hafið og hetjur þess?
Til hamingju með daginn sjómenn!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar