Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Fasisminn og afstæðishyggjan í Femínistalandi

Femíníska bræðralagið

Það er með ólíkindum að lesa um fjörlega umræðu á póstlista femínista, sem Pétur Gunnarsson vekur athygli á, þar sem meint málsmetandi fólk er að taka upp hanskann fyrir eitthvað, sem það nefnir „pólitískt íslam“ og fagnar að sé í sókn.

Nú er í gangi stórsókn heimsvaldasinna gegn múslimalöndum undir yfirskriftinni „stríð gegn hryðjuverkum.“ Það er ekki tilviljun; af því þetta eru olíuauðug lönd og í öðru lagi af því pólitískt íslam er í sókn og er um þessar mundir öflugasta skipulega aflið gegn yfirgangi heimsvaldasinna (og á lítið skylt við hryðjuverk). Nauðug eða viljum þurfum við að taka afstöðu í því stríði. Ef vestrænir femínistar taka ekki skýra afstöðu gegn heimsvaldastefnunni lenda þeir óhjákvæmilega í gíslingu hjá henni.
          Þórarinn Hjartarson.

Hið „pólitíska íslam“ er ekkert annað en fasismi, hvort sem menn nenna að brjóta hinn hugmyndafræðilega vaðal til mergjar eða horfa til sögulegrar þróunar íslamismans allt frá Amin Al-Husseini til vorra daga.

Með orðinu „fasismi“ á ég við alræðiskerfi þar sem mannréttindi og lýðræðishefðir eru að engu hafðar í nafni hins almáttuga kerfis, hvort sem markmiðin snúast um baráttu stétta, kynþátta eða trúarbragða. Nú eða kynjanna. Íslamisminn, hið „pólitíska íslam“ hæfir þeirri skilgreiningu algerlega.

Nú grunar mig að þessum óvæntu málsvörum fasismans renni blóðið til skyldunnar aðallega vegna ímugusts á hinni meintu en óljósu heimsvaldastefnu Vesturlanda, sem Þórarinn Hjartarson víkur að. En þeim væri þá kannski hollt að kynna sér viðhorf íslamistanna vina sinna (eða óvina óvina sinna), því barátta þeirra er fyrst og fremst fyrir endurreisn kalífdómsins, sem á að ríkja yfir öllu því svæði, sem múslimar hafa einhverju sinni ráðið, og að lokum heimsbyggðinni allri. Það er nú heimsvaldastefna í lagi!

Íslamisminn kýs vitaskuld að ná þessum markmiðum með sem minnstri fyrirhöfn ef unnt er, en dregur enga dul á að það skuli gert með sverði ef ekki vill betur. Það væri því fróðlegt ef friðarpáfinn Þórarinn Hjartarson, formaður Norðurlandsdeildar Samtaka hernaðarandstæðinga, deildi með okkur skoðunum sínum á markmiðum hins „pólitíska íslams“ við að leggja af veraldlegt lýðræði í Tyrklandi, að lögfesta sharía (lögbók íslams) meðal múslíma á Vesturlöndum þannig að hún verði landslögum æðri eða að endurheimta hinn serkneska hluta Spánar, svo fátt eitt sé nefnt. Skyldi hann telja þeim leyfilegt að beita hervaldi eða öðru ofbeldi til þess að ná þeim markmiðum? Eða fórnarlömbunum leyfilegt að verja sig?

Póstmódernísk nálgun á póstlista
Enn galnara er þó þegar Sóley Tómasdóttir, ritari Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs, lætur sig hafa það að afsaka kynbundnar limlestingar vegna þess að „ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins“ leyfði þær. Póstmódernisminn og afstæðishyggjan er svo alger þegar umræðan en ekki efnið er aðalatriðið og augljóst að henni finnst verra að einhverjir aðrir en innvígðir og innmúraðir femínistar skuli ræða um þessi mál. Tekur reyndar fram að öðrum þræði sé það sjálfsagt slæmt!

Þetta er áhugaverð umræða. Dáldið sérstakt að karlar, sem alla jafna hafa ekki mikinn áhuga fyrir femínisma skuli taka eftir baráttu þessara kvenna og sjálfsagt er það bæði gott og slæmt.

Svo heldur hún áfram að tönnlast á því að það sé umgjörð umræðunnar sem öllu skipti:

Það hlýtur að vera lykilatriði svo umræðan sé konum í hag og heimsvaldastefnunni síður, að ræða um stöðu kvenna út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra. […] Lykillinn að almennilegri umfjöllun um þetta mál sem önnur hlýtur að vera sá að fjölga konum í áhrifastöðum á fjölmiðlum. Karllæg sýn á heiminn er allt of dómínerandi.

Jájá, the Medium is the Massage og allt það. Lykilsetningin í þessu orðagjálfri er hins vegar sú, að ræða verði um „stöðu kvenna út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra.“ Var það virkilega?! Er sumsé allt þetta tal hennar um kvenréttindi og hvernig hún vill breyta heiminum algerlega háð umhverfinu og ríkjandi viðhorfum? Að kvenréttindin séu alveg frábær, nema náttúrlega í feðraveldum steinaldartrúarbragða? Að mannréttindi séu ekki algild réttindi allra manna (og konur eru líka menn), heldur mismunandi eftir því hvar og með hverjum fólk elur manninn? Þvílík endemis della!

Mannréttindi eru ekki afstæð
Mannréttindi eru einmitt algild. Þau eru sjálfsögð og ófrávíkjanleg réttindi manna, algerlega burtséð frá ætt, uppruna, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, háralit eða tónlistarsmekk ef því er að skipta. Þau byggjast á því að mannleg reisn í heild sinni hvíli á því, að allir menn njóti ófrávíkjanlegs réttar til lífs, frelsis og ýmissa gæða annarra. Að viðurkennt sé, „að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin“, en það sé undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum, eins og segir í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þar segir ennfremur að séu mannréttindi fyrir borð borin og lítilsvirt, hafi slíkt í för með sér siðlausar athafnir, er ofbjóði samvisku mannkynsins, enda sé æðsta markmið almennings um heim allan að skapa veröld, þar sem menn fái notið málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um einkalíf og afkomu.

Það er því alveg með ólíkindum að hér á landi fyrirfinnist fólk, sem vill að það sé tekið alvarlega í opinberri umræðu og lætur eins og það eitt standi í fylkingarbrjósti mannréttinda, en heldur því svo fram kinnroðalaust, að einhverjir menningarheimar eða afkimar njóti réttinda eða griða, sem gangi framar mannréttindum. Ætli Sóley mæli fyrir hönd vinstrigræna um þessi mál?

Fordómar og firring
Þessi afstaða hefur þó jafnvel enn alvarlegri blæ en vikið er að að ofan. Með henni er nefnilega tekið undir þau sjónarmið að tiltekin tegund fólks eigi réttindi sín undir því en ekki algildum mannréttindum. Er það þingmannaleið frá kynþáttahyggju eða kynþáttafordómum?

Þrælahaldarar fyrri tíma reyndu að réttlæta athæfi sitt með því að þrælarnir væru tæpast menn, í besta falli börn meðal manna, sem þeir væru að aumka sig yfir og reyna að koma til einhvers þroska. Hver er munurinn á þeim málflutningi og að halda því fram, að um stöðu og réttindi kvenna einhverstaðar í svörtustu Afríku verði ekki rætt nema út frá „samfélögum og hugmyndakerfum þeirra“? Má ekki réttlæta hvaða viðbjóð sem er á þeim forsendum?

Gamalkunnug stef
Þessi orðræða er ekki ný af nálinni. Bandung-kynslóðin kynnti þessa hugmynd í nafni baráttu gegn heimsvaldastefnu og hún var meira að segja innleidd í ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna um tíma. Þar gengu vitaskuld fremstir einræðisherrar vanþroskaheimsins, sem vildu hafa blóðböð sín og mannfyrirlitningu í friði og allt í nafni sérstakrar menningar og einstakra aðstæðna í landi sínu. Þessi söngur hljómar enn, bæði í Arabaheiminum og sums staðar í Afríku, en einnig í löndum á borð við Búrma og Kína. Og nú hljómar hjáróma bakrödd Sóleyjar Tómasdóttur við þann falska kúgunarbrag.

Um allt þetta hefur verið rætt og ritað í nokkru máli á undanförnum árum, en aðallega þó í tengslum við fjölmenningarsamfélagið eða innflytjendavanda (eftir því hvernig menn eru stemmdir í þeirri deilu). Ég leyfi mér hins vegar að benda á framúrskarandi bók um þessi efni, sem gefin var út fyrir 20 árum og því ómenguð af tilfinningablandinni deilu dagsins, en um leið næsta laus við umræðuhefð eftirstríðsáranna. Hún er eftir franska heimspekinginn Alain Finkielkraut og bar nafnið Dauði hugsunarinnar eða La Défaite de la pensée. Ég mæli óhikað með ensku þýðingu bókarinnar, sem fá má á Amazon fyrir um 1.700 krónur.

Femínismi á villigötum
Ég hef aldrei hrifist af femínisma fremur en annarri hugmyndafræði, enda er hugmyndafræði helst til þess fallin að binda menn á klafa kreddu. Hvað þá þegar sjálfskipaðir hugmyndafræðingar eins og Sóley leiða menn á villigötur eða hreinar ógöngur eins og að ofan er greint. Mér er meira að segja meira í nöp við femínisma en marga hugmyndafræði aðra, vegna þess hún miðast við að sækja tilteknum hópi óljós réttindi í stað þess að berjast einfaldlega fyrir mannréttindum allra, óháð því hverrar gerðar maðurinn er að öðru leyti eða í hvaða aðstæður hann hefur ratað. Eins og ég hef áður ritað um tel ég ljóst að þau réttindi þurfi nauðsynlega að vera neikvæð, það er að segja að réttindin feli í sér frelsi frá áþján annarra, en gef hins vegar lítið fyrir hin jákvæðu réttindi, sem jafnan snúast um réttinn til tiltekinna gæða. Hin fyrrnefndu snúa jafnan að einstaklingnum en hin síðarnefndu oftast að hópum. Hópar þurfa engin slík réttindi ef einstaklingarnir njóta hinna og þau eru beinlínis skaðleg, því jákvæð réttindi verða trauðla veitt án þess að vera öðrum íþyngjandi, hvort heldur er hópum eða einstaklingum.

En ég skil afstöðu femínista, sem álíta að konur séu órétti beittar sakir kynferðis síns og því verði þeir að snúa vörn í sókn. Gangi þeim allt í haginn. Það þýðir hins vegar ekki að ég sé eða þurfi að vera sammála öllum greiningum þeirra og lausnum. Og enn síður að ég eða nokkur annar — allra síst konur af því að þær séu konur — þurfi að gangast undir ok hins pólitíska rétttrúnaðar femínismans, sem er sjálfum sér verstur með því að ganga út frá því að allar konur hljóti að hugsa eins af því að þær eru konur og því megi og eigi að líta á þær sem hóp með eina rödd. Það er nefnilega fasismi líka.

 

 

 

....................

Umræða um umræðu um umræðu
Fyrst maður er fallinn í þá gryfju eftiráhyggjumannanna (póstmódernistanna), að ræða umræðuna til þrautar, er rétt að maður haldi áfram. Ég sé að Sóley hefur áttað sig á því að hún hefur eina ferðina enn verið opinskárri en málstað hennar er framdráttar. Hún telur alvarlegast að sér sé gerð upp vörn fyrir umskurð kvenna og segir að sér sé ekkert fjær, þó hún hafi tekið vörn gerendanna, þar sem þeir væru aðeins fórnarlömb samfélagsins. En hver er þá ábyrgð samfélagsins? Og hvernig er unnt að láta það sæta ábyrgð? Þessi afstaða Sóleyjar er siðlaus með öllu, því með henni eru einstaklingar ævinlega firrtir ábyrgð á gerðum sínum, svo framarlega sem „samfélagið“ lætur athæfið óátalið eða stuðlar að því. Mér hefur skilist á femínistum að það hafi átt við um heimilisofbeldi hér fyrr á árum. Var ábyrgðin á ósköpunum aðeins samfélagsins en ekki hrottanna?

Að öðru leyti telur Sóley sig ekki þurfa að skýra mál sitt frekar og stendur því að líkindum við annað í málflutningi sínum, sem ég tel þó ekki minna alvarlegt eins og fram kom eins og tveimur km ofar í þessari færslu. En mér þykir einnig athyglisverð sú vörn, sem Katrín Anna Guðmundsdóttir, fyrrverandi talskona Femínistafélagsins, setur fram fyrir Sóleyju og raunar sjálft tjáningarfrelsið. Hún er ekki síður en Sóley upptekin af umgjörð umræðunnar og gagnrýnir það að einhverjir skuli dirfast að vitna í orð, sem látin eru falla á lokuðum póstlista. Nú má vissulega taka undir það, að það er ófyrirgefanleg ókurteisi að vitna í einkabréf án leyfis, jafnvel þó maður sé að vitna í skrif sjálfs sín til annars! En póstlisti femínista er hreint ekki einkabréf, eins og Katrín Anna gefur til kynna, heldur póstdreifingarlisti, sem mér skilst að hundruð manna eða þúsundir séu áskrifendur að. Orðsendingar á honum eru ekki innan sérstakra vébanda, þó reglur listans kveði á um að ekki megi birta hann annars staðar. Það má t.d. höfða mál vegna ærumeiðinga á honum og eins hygg ég að dómstólar myndu fallast á að birting úr honum, líkt og Pétur Gunnarsson, Egill Helgason og nú ég höfum leyft okkur, falli innan skilgreiningar á sanngjarnri tilvitnun (e. fair use) í fréttaflutningi eða lýðræðislegri umræðu.

Katrín Anna segir að póstlistinn hafi þennan skilmála til þess að mynda umræðuvettvang, þar sem fólk þorir að tjá skoðanir sínar án ótta við eftirmál utan vallar. Það sjónarmið er gott og gilt, þar sem það á við, en mér finnst það þó hæpið þegar um er að ræða póstlista, þar sem engar takmarkanir eru á þátttöku að skilmálunum undanskildum og bréfriturum er ljóst að verulegur fjöldi manna, sem þeir kunna að öðru leyti lítil skil á, fær orðsendingarnar undir nafni umsvifalaust. Þar fyrir utan er eitthvað sérstaklega galið að halda því fram, að þetta geti orðið til þess að Sóley hætti að þora að tjá skoðanir sínar. Ætli það finnist óttalausari manneskja á Íslandi hvað það varðar? Þess utan er Sóley stjórnmálamaður, sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir flokk sinn og Reykvíkinga, og því eiga orð hennar um hvaðeina, annað en einkamálefni, brýnt erindi við almenning.

Þá finnst mér skörin færast upp á bekkinn þegar Katrín Anna heldur því fram að umfjöllun þessi sé „tilraun til að þagga niður í einni konu. Femínista.“ Já, femínista, eins og það sé til refsiþyngingar. Í umfjöllun Péturs og Egils (mín skrif voru ekki kominn út í ljósvakann þegar Katrín Anna skrifaði) var vakin athygli á orðum hennar og skoðunum, sem augljóst er af viðbrögðunum, að mörgum þykja athyglisverð, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hver lét orðin falla skipti líka máli og því var frá því greint, en þeir voru engan veginn að hjóla í manninn. Egill átti síðan auðvitað sérstakt tilefni til þess að tjá sig um málið, þar sem Sóley hafði séð ástæðu til þess að víkja orðum að honum (að Agli fjarstöddum).

Þetta þykir mér því harla fáfengileg málsvörn. En það er kannski umhugsunarvert, að aðalatriðið er sem fyrr umgjörð umræðunnar fremur en efni hennar. Lýsir það miklu trausti á málstaðnum? Eða hitt, að fólk sem hefur stigið sérstaklega fram á svið þjóðmálaumræðu til þess að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd og „breyta heiminum“, skuli vilja halda því skýrt aðgreindu, sem það heldur fram á opinberum vettvangi og hinu, sem liggja þarf í þagnargildi og aðeins má ræða í eigin hóp eiðsvarinna.


Stöð 2 og samsærið mikla


Í gærkvöldi var ég í Kastljósi Ríkissjónvarpsins hjá Þóru Arnórsdóttur til þess að fara yfir fréttir vikunnar ásamt Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, stöllu minni, sem nú er milli bæja í fjölmiðlahreppnum. Þar var meðal annars tæpt á uppsögn hennar á fréttastofu Stöðvar 2.

Ég lagði meðal annars það orð í belg, að mér þætti fjölmiðlaumfjöllunin um uppsögn hennar hafa verið furðumikil, á sama tíma og uppsögn 64 starfsmanna Icelandair hefði lítið rými fengið.

Þá var því til svarað að ef til vill gegndi öðru máli þarna um, þarna hefði verið einhverjar pólitískar vélar á ferð. Ég verð að játa að ég þekki málið ekki til hlítar, en mér heyrðist á Þóru Kristínu, að þarna hefði verið um vinnustaðapólitík að ræða, sem er allt annar handleggur en pólitískar atvinnuofsóknir eða hefndaraðgerðir, líkt og sumir gáfu til kynna þegar uppsögnin spurðist út.

Á fjölmiðlum þurfa ritstjórar að skipa liði sínu með ýmsum hætti og taka tillit til alls kyns sjónarmiða. Ekki síst á það við um sjónvarpsmiðlana, sem eru öðrum þræði í skemmtanabransanum. Slíkar ákvarðanir eru byggðar á smekk og tilfinningu, sem engin leið er að deila um af neinu viti.

Hin „faglegu“ sjónarmið
Það tíðkast mjög þessi árin að svokölluð „fagleg“ sjónarmið eigi að ráða á öllum sviðum. Ekki síst er skírskotað til þeirra þegar mannaráðningar eru annars vegar, en þær virðast hafa orðið mun viðkvæmari með árunum, ekki endilega vegna þess að réttlætistilfinning manna bjóði það, heldur kannski ekki síður vegna þess að fólk virðist í auknum mæli líta á sérhverja höfnun í lífinu sem endanlegan og óréttmætan dóm yfir persónu sinni. Hins vegar man ég nú ekki eftir því að það hafi nokkurn tíman verið skýrt til hlítar við hvað er átt með orðaleppnum „faglegu“.

Með hinni „faglegu“ orðræðu er hins vegar gefið til kynna, að unnt sé að leggja menn við eina tiltekna mælistiku til þess að reikna út mannkosti hans. Rétt eins og það nægi að safna saman einhverri tiltekinni tölfræði úr lífshlaupi manna, slá hana inn í Excel og nota einhverja glæsilega formúlu til þess að finna út lokaeinkunn hvers og eins. En auðvitað er það ekki hægt; maðurinn er óendanlega fjölbreytt skepna og því má eins reyna að deila í hann með óendanleikanum eða núlli. Með álíka skynsamlegum niðurstöðum.
Við höfum horft upp á það undanfarin ár hvernig gengur að leggja slíkt mat á menn. Þær rannsóknir hafa líka áhrif á niðurstöðuna, rétt eins og skammtafræðin kennir okkur. Fólk fer að haga sínu „faglega“ lífi til þess að líta betur út á pappírnum, en verður fráleitt hæfara fyrir vikið.

Auðvitað má finna atvinnugreinar, þar sem „faglegar“ mælistikur má leggja á störf manna, fyrst og fremst í greinum þar sem auðvelt er að mæla afköst og ástæðulaust að taka tillit til annarra þátta. En þær eru fáar og fer fækkandi. Að mínu viti er fjölmiðlun alveg sérstaklega galin atvinnugrein til þess að stunda þessar „faglegu“ mælingar. Í blaðamannastétt hafa þrifist alls kyns kynlegir kvistir, sem sumir hverjir hefðu tæpast verið umbornir á öðrum vinnustöðum. Fjölmiðlar eru enda óvenjulegir vinnustaðir; þversagnakenndar verksmiðjur þar sem skapandi fólk stendur við færiböndin. Það þarf að hafa nasasjón af öllu milli himins og jarðar og geta fyrirvaralaust gengið í öll verk. Um leið eru menn tilbúnir til þess að líta hjá alvarlegum göllum meðan kostirnir vega þyngra þegar á reynir.

Það er unnt að mennta sig í blaðamennsku og læra góð og rétt vinnubrögð, en ágætiseinkunn úr slíkum skóla er engin trygging fyrir því að menn reynist góðir blaðamenn. Starfsaldur eða afköst eru ekki heldur áreiðanlegur mælikvarði í þeim efnum. Hvað þá blaðamannaverðlaun, eins og dæmin sanna!

Pólitík hvað?
En í þessarri umræðu allri skildi ég aldrei almennilega hvað menn voru að fara með þessum ásökunum í garð Steingríms Ólafssonar, að pólitík væri rót uppsagnar Þóru Kristínar. Það hafði enda enginn fyrir því að skýra það út. En tesan var eitthvað á þá leið, að fyrst Steingrímur værir framsóknarmaður, sem meira að segja hefði unnið fyrir Halldór Ásgrímsson í forsætisráðuneytinu, þá hlyti sérhver ákvörðun hans að vera af pólitískum rótum runninn. Einmitt.

Auðvitað er það ekki nóg, að pólitísk afstaða Steingríms sé þekkt, svo álykta megi að allar hans ákvarðanir stýrist af henni. Umræddar ákvarðanir verða þá að hafa einhverja pólitíska vídd til þess að slíkt sé til umræðu (nema menn telji að hann taki mjólk í kaffið til þess að sýna samstöðu með Guðna Ágústssyni og kúabændum).

Haldi menn því fram að það hafi verið flokkspólitísk ákvörðun hjá honum að segja Þóru Kristínu upp þurfa þeir jafnframt að útskýra hvað Framsóknarflokkurinn eigi að græða á uppsögn hennar eða hvað hún eigi að hafa gert á hans hluta.

Þá ættu menn að fara varlega, því með slíkum ásökunum eru þeir í raun að gefa í skyn að Þóra Kristín hafi ekki gætt hlutleysis í fréttaflutningi sínum, að hún hafi dregið pólitískan taum, verið framsóknarmönnum sérlega mótdræg eða ámóta. Eru dæmi slíks?

Eða Halldór Ásgrímsson að hafa fyrirskipað sínum gamla undirmanni að láta nú sverfa til stáls gegn dóttur Sigríðar Jóhannesdóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingar og Alþýðubandalags, af því honum fannst Sigríður alltaf hafa horft hálfillilega til sín í þinginu hér í den?

Nei, ætli framsóknarmenn hafi ekki að einhverju þarfara að huga til þess að ná sér á strik á ný. Það starf mun eiga sér stað innan flokks þeirra og á Alþingi. Steingrímur hugsar vafalaust hlýlega til flokkssytskina sinna, en ég hef engin merki séð um það að fréttastofu Stöðvar 2 hafi verið í neinu beitt fyrir vagn Framsóknarflokksins.

Það má vel hafa þá skoðun, að Steingrímur hafi gert mistök með því að segja upp þrautreyndum fréttamanni eins og Þóru Kristínu, en þá er það fréttastofan, sem sýpur seyðið af því, og Steingrímur sjálfur áður en yfir lýkur, ef trúverðugleiki fréttastofunnar bíður varanlegan hnekki af. Eins og dæmin sanna lifa flestir fréttamenn Stöðvar 2 fréttastjóra sína af í starfi. Það kemur þá bara í ljós. En að láta eins og það sé reginhneyksli, pólitískt samsæri og óbærilegt áfall fyrir íslenska fjölmiðlun er bara bull.


Hveitibrauðsdagarnir að baki

Í dag er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 100 daga gömul og þar með telst hveitibrauðsdögum hennar lokið. Sagt er að í stjórnmálum verði nýjum valdhöfum að verða vel úr verki þessa fyrstu 100 daga, því það sé þá, sem einhver von sé til þess að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd. Afgangurinn af kjörtímabilinu fari í að sinna daglegri húsvörslu og slökkva elda. En svo má líka minna á að þessi hugmynd um 100 örlagadaga í pólitík má rekja aftur til ársins 1815, en þá liðu einmitt 100 dagar frá því að Napóleon rauf útlegð sína á Elbu þar til þeir von Blücher, Vilhjálmur prins af Óraníu og hertoginn af Wellington réðu niðurlögum herja Frakka í Waterloo, sem Abba gerði ódauðlegt hér um árið.

Það væri því ekki úr vegi að staldra við á þessum tímamótum og líta yfir farinn veg. Það veldur þó vanda, að pólitíkin hefur ekki verið fyrirferðarmikil síðan ríkisstjórnin tók við völdum, þingið í sumarleyfi, fá knýjandi mál hafa komið upp og afrekaskráin eftir því stutt. Jafnvel stórmál eins og niðurskurður þorskveiðiheimilda reyndist ekki hafa neina pólitíska vídd, en það er helst að sláttur á sumum ráðherrum Samfylkingar hafi vakið athygli. Það er kannski helst núna, sem opinber ágreiningur innan stjórnarinnar er að koma upp á yfirborðið, um vatnalögin!

Að því leytinu er vart hægt að taka störf stjórnarinnar til kostanna enn. Hins vegar vill svo til að Capacent Gallup var að birta niðurstöður skoðanakönnunar um fylgi flokkanna. Það er langur vegur frá því að í þeim felist nokkur stórtíðindi, en það má vel reyna að lesa eitthvað í þau og horfa eilítið fram á veginn, það styttist í þingsetningu og maður heyrir á þingmönnunum niðri í bæ, að þá er marga farið að klæja í fingurna. Ég hef nú reyndar ekki heyrt í nema þremur þeirra um þessa skoðanakönnun og þeir voru allir stjórnarliðar. Þeir voru á einu máli um að könnunin sýndi að stjórnarandstaðan ætti sér engrar viðreisnar von og nefndu svo ýmis dæmi um hvernig hún væri að veslast upp. Það má vera rétt athugað, en af því leiðir ekki sjálfkrafa, að allt sé í himnalagi á stjórnarheimilinu.

Mér finnst að vísu hæpið að halda því fram að fylgi við ríkisstjórnina sé að dala, líkt og gert er í fyrirsögn á mbl.is, þó það fari úr 83% í 80% á sama tíma og samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er um 69%. Án þess að hafa séð tölur um úrtak, heimtur og skekkjumörk myndi ég láta mér nægja að segja fylgið á svipuðu róli.

Nú er það altítt hér á landi, sem víðast hvar í vestrænum lýðræðisríkjum, að nýmyndaðar ríkisstjórnir njóta mikils velvilja fyrsta kastið. Það er líka athyglisvert að þegar menn eru spurðir að því hvað þeir kusu í síðustu kosningum er eins og minni margra bili; ef marka mætti þær niðurstöður hefðu ríkisstjórnarflokkarnir átt að vinna mun glæsilegri kosningasigra, en raunin var þegar talið var úr kjörkössunum. Þrátt fyrir það allt held ég að það hljóti að vera harla fátítt, að nokkur ríkisstjórn njóti stuðnings fjögurra af hverjum fimm kjósendum, nema á stríðstímum eða við álíka óvenjulegar aðstæður. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að þó ríkisstjórnarmeirihlutinn sé afar ríflegur (43 þingmenn af 63 eða 68,25% þingheims), þá fengu stjórnarflokkarnir „ekki nema“ 63,4% atkvæða í kosningunum í vor. Umframstuðningurinn nú nemur því liðlega 17%. Ætli það verði ekki skálað í kampavíni á næsta ríkisstjórnarfundi?

Hins vegar gæti forysta Sjálfstæðisflokksins velt því fyrir sér hvers vegna fylgi flokksins dalar úr 45% í 42%, sem miðað við fyrri fylgni er ábending um að það myndi reynast í kringum 38% í kjörklefum. Það er erfitt að benda á eitthvað sérstakt, sem gerst hefur milli þessara kannana, sem gæti skýrt þá rénun. Auðvitað má vera að þetta sé innan allra vikmarka, sveiflurnar hjá flokknum hafa áður verið svipaðar og meiri án þess að sérstök tilefni hafi legið í augum uppi. Mér koma þó í hug þrjár mögulegar skýringar.

  • Sú fyrsta er að nokkrar blikur eru uppi í efnahagslífinu og fleiri en áður óttast að góðærinu kunni að vera að ljúka, erlendur lánsfjárskortur kann að hafa áhrif hér, vanskil eru að aukast í fyrsta skipti í sex ár, væntingar um næstu misseri eru minni en lengi hefur verið og svo má áfram telja. Þó í því felist kannski ekki mikil sanngirni, kann sá kvíði um efnahagsmálin helst að bitna á Sjálfstæðisflokknum, hann hefur hagstjórnina alla í sínum höndum og hið undralanga góðæri verið honum tengt. Dvíni það er ekki óeðlilegt að einhverjir spyrji hvort flokknum sé að förlast. — Þessu að mestu ótengt má svo benda á umræðu liðinna vikna um Grímseyjarferjuna, sem auðvitað varð Sjálfstæðisflokknum ekki til álitsauka, hún var sérstaklega tengd fyrrverandi samgönguráðherra hans, klúðrið átti sér stað á síðustu vakt flokksins í stjórnarráðinu og viðbrögðin við umræðunni nú voru ekkert sérstaklega traustvekjandi.

  • Önnur skýringin kann að vera sú, að sjálfstæðismenn hafa sáralítið haft sig í frammi á hveitibrauðsdögum hinnar nýju ríkisstjórnar (og afsakið innskotið, en hvað varð um hina gagnmerku umrræðu um Bleikjuna, Þingvallastjórnina, Baugsstjórnina og allt það?). Auðvitað hafa þeir margir nýtt þetta dýrðlega sumar til þess að safna orku eftir snarpa kosningabaráttu og ekki haft mörg tilefni til þess að vera að sprikla mikið á hinu pólitíska sviði. Á sama tíma hafa flestir ráðherrar Samfylkingarinnar haft sig töluvert í frammi, þó sumpart beri tilburðirnir helst keim af kátum kúm á vori eftir langa vetrarveru í fjósi. Sumir telja að þetta lagist í haust þegar þing kemur saman, en ég er ekki viss. Stjórnunarstíll forsætisráðherra er afar lágstemmdur og svipmótið er fremur í ætt við það, sem menn hafa átt að venjast úr embættismannakerfinu en pólitíkinni. Mér kæmi ekki fullkomlega á óvart þó einhverjir dustuðu rykið af spurningunni „Hvar er Geir?“, sem nokkuð bar á í fyrra.

  • Þriðja skýringin er sú, sem Morgunblaðið hefur verið að ýja að upp á síðkastið og ekki síst í Staksteinum föstudagsblaðsins, sem lesa má í heild sinni hér að neðan. Hún er sú að mörgum sjálfstæðismönnum lítist hreint ekki á blikuna hvað varðar samstarfið við Samfylkinguna. Þeim þykir ýmsum nóg um tilburði sumra ráðherra hennar. Ég heyri ýmsa gegna sjálfstæðismenn lýsa áhyggjum sínum af því að flokkur þeirra sýni samstarfsflokknum allt of mikið eftirlæti og sumir þeirra segja jafnvel að miðjusókn flokksins ætli engan enda að taki og hann endi vinstra megin við miðju áður en kjörtímabilið er hálfnað. Það finnst mér djúpt tekið í árinni, en í þeirri gagnrýni felst sannleikskorn og hún lýsir raunverulegum áhyggjum gegnheilla flokksmanna. Það eitt og sér ætti að vera áhyggjuefni fyrir flokksforystuna, þó ekki geti þessi 3% „dýfa“ valdið henni andvökunáttum. En í því samhengi er hins vegar vert að horfa til þess hversu margir yfirlýstir sjálfstæðismenn hafa verið óragir við að hjóla í borgarstjórann í Reykjavík á opinberum vettvangi upp á síðkastið. Sjálfsagt er þeim í raun og sann uppsigað við tiltekin ummæli hans eða ákvarðanir, en ég á erfitt með að verjast þeirri hugsun, að einhverjir þeirra séu aðallega að hafa í hótunum við Albaníu.

Sem fyrr segir er öldungis ástæðulaust fyrir flokksforystu Sjálfstæðisflokksins að rjúka upp til handa og fóta þó fylgi Sjálfstæðisflokksins hreyfist 3% til eða frá. En það er vert að gefa því gaum ef óánægja kraumar meðal harðkjarnans svo snemma á kjörtímabilinu. Eins ef það er almennt túlkað sem áhuga- eða erindisleysi þegar lítið fer fyrir ráðherraliði flokksins. Það er síðan rétt, sem vakið er máls á í fyrrnefndum Staksteinum, að gengi Sjálfstæðisflokksins er ekki í pólitísku tómarúmi, þó ég telji fullsnemmt að rekja fléttur á borð við þær, sem lesa má að neðan. En hitt er dagljóst að framganga margra ráðherra Samfylkingarinnar undanfarna 100 daga hefur ekki orðið til þess að treysta stjórnarsamstarfið eða auka trúnað milli stjórnarflokkanna. Var hann þó ekki ærinn fyrir.

 

Staksteinar Morgunblaðsins, föstudaginn 31. ágúst, 2007. 

Ólund hér og þar

Það má finna í ýmsum hornum Sjálfstæðisflokksins, að nú þegar nýjabrumið er farið af samstarfinu við Samfylkinguna þykir sjálfstæðismönnum það samstarf ekki sérlega skemmtilegt. Sumir þeirra telja að talsmáti bæði formanns Samfylkingar og ýmissa annarra forystumanna flokksins sé ögrandi gagnvart Sjálfstæðisflokknum.

Sjálfstæðismenn eru byrjaðir að finna að Samfylkingin getur orðið erfiður samstarfsaðili.

Framsóknarmenn finna þennan pirring innan Sjálfstæðisflokksins og þykjast sjá hann langar leiðir. Þess vegna er nú að vakna aukin bjartsýni innan Framsóknarflokksins um að þeir komist í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Þeir telja að Samfylkingin leiti að heppilegu máli til að kljúfa stjórnarsamstarfið á og stöðva við umræður um gjaldmiðilinn. Eigum við að halda krónunni eða taka upp annan gjaldmiðil?

Í ljósi þess hvernig framsóknarmenn tala er ekki hægt að útiloka að þeir heyri svona raddir innan Samfylkingar.

Vandi bæði Samfylkingar og framsóknarmanna er sá að þriðji samstarfsflokkurinn sem þeir sjá fyrir sér í slíkri ríkisstjórn, Vinstri grænir, eru ekki ginnkeyptir fyrir gjaldmiðilsskiptum.

Hins vegar mundi aðild Vinstri grænna að ríkisstjórn leysa þann flokk úr þeirri tilvistarkreppu sem hann er í og jafnvel framlengja pólitískt líf Steingríms J. Sigfússonar.

Geir H. Haarde verður að gæta að sér.


mbl.is Stuðningur við ríkisstjórnina dalar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband