Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

En bankaráðið?

Jón Sigurðsson, varaformaður bankaráðs Seðlabankans: Ætlar þú að segja af þér?

Það er merkilegt að Helgi Hjörvar og fleiri Samfylkingarmenn láta eins og að allar heimsins hörmungar hvíli á herðum bankastjóra Seðlabankans. Nú skal ekki lítið gert úr völdum þeirra og ábyrgð, en hvernig er það með bankaráðið, hefur það ekkert verið að fylgjast með og ber það enga ábyrgð? Það er vert að hafa í huga að í það eru kjörnir trúnaðarmenn þingsins, þannig að Helga væri næst að spyrja þá út úr. Og kjósa nýja ef honum þykir ástæða til. Á hans vegum hafa þar setið peningamálasérfræðingar á borð við sjálfa Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, en núna má þar finna Jón Sigurðsson þjóðhaga og Guðnýju Hrund Karlsdóttur varaþingmann. Ég legg til að Helgi byrji á að krefjast afsagnar þeirra, það eru hæg heimatökin.


mbl.is Stjórn Seðlabankans víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin og Samfylkingin

Framtíðarhópurinn kynnir síðustu framtíð. Þessa sem kom ekki.

Já, það er ekki seinna vænna að framtíðarhópur Samfylkingarinnar hefji aftur störf. Til þess að kynna sér hans merku störf um gömlu framtíðina geta menn farið á framtid.is og hlakkað til þess að fá línuna um Framtíðina 2.0. Ef menn eru á þeim buxunum geta þeir líka skemmt sér við að ná í skýrslu Samfylkingarinnar um efnahagsmál, sem unnin var undir ritstjórn Jóns Sigurðssonar, en hann hefur bæði staðið við stjórnvölinn í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Í því samhengi skal sérstaklega bent á hvernig fjallað er um stöðu viðskiptabankanna og þýðingu þeirra fyrir hagkerfið. Það er nánast eins og Jón og félagar hafi ekki tekið eftir því að þeir væru til.


mbl.is Framtíðarhópur Samfylkingar hefur störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til upprifjunar

Um daginn var útgáfu 24 stunda hætt enda gömlu erkióvinirnir Morgunblaðið og Fréttablaðið við það að ganga í það heilaga og ófært að hafa elju annars þeirra áfram í húsinu. Af þeim sökum er Morgunblaðið sneisafullt af blaðamönnum þessa dagana, þó mig gruni að þeim muni nokkuð fækka í dag. Hvort af hjónabandinu verður er svo annað mál, samkeppnisyfirvöld eiga eftir að blessa það áður en það verður gilt. Kannski ég leggi orð í belg um það síðar.

Í tilefni af endalokum 24 stunda fór að gramsa í skrifum mínum fyrir Blaðið, sem seinna varð 24 stundir, en þar annaðist ég einkum skoðanaskrif ýmis. Þar fann ég m.a. eftirfarandi forystugrein, sem þar birtist 29. ágúst 2006:

Traust og siðferði

Undraskjótur vöxtur íslensks viðskipta- og fjármálalífs hefur verið þjóðfélaginu öllu mikil lyftistöng, en á sama tíma hefur það valdið ýmsum áhyggjum, einmitt vegna þess hve hratt þessar breytingar hafa orðið. Lím samfélagsins er traust manna á meðal og hið sama á við um viðskiptalífið, en á það kann að hafa hallað. Í hinu nýja íslenska hagkerfi eru leikreglurnar ekki öllum ljósar, skjótfenginn gróði sumra hefur valdið öðrum uggi í brjósti og gegnsæi á markaði er hér einatt fremur gruggugt.

Starfsemi banka og fjármálafyrirtækja hefur til dæmis þanist svo hratt út að Fjármálaeftirlitið hefur ekki fylgt henni eftir og draga má í efa að það hafi styrk til þess að veita nauðsynlegt aðhald. Fjármálaeftirlitið getur þannig ekki á nokkurn hátt keppt við bankana um bestu sérfræðingana á því sviði og bestu starfsmennirnir, sem þar eru þjálfaðir innan dyra, eru keyptir út af þeim sem þeir eiga að vera að fylgjast með. Er það eðlilegt eða heilbrigt fyrir íslenskt fjármálalíf?

Á sama hátt má efast um það að Kauphöllin hafi afl og efni til þess að fylgjast nógsamlega með fyrirtækjum, sem þar eru skráð á markað. Almenningshlutafélög eiga að vera háð afar ströngum reglum, svo allur almenningur geti treyst því, að hann hafi jafngreiðan aðgang að upplýsingum um stöðu þeirra og sérfræðingar fagfjárfesta eða innherjar. Á dögunum bar það hins vegar við, að öllum að óvörum og án nokkurra afkomuviðvarana, tilkynnti ein af máttarstoðum íslensks viðskiptalífs um að 1.500 milljóna króna tap, þvert ofan í allar væntingar. Algert aðgerðaleysi Kauphallarinnar bendir til þess að hún sé ekki í stakk búin til þess að halda reglu í sínum húsum.

Undanfarna mánuði hafa dómstólar ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að stjórnendur almenningshlutafélaga megi sækja sér fé að láni í sjóði þeirra, nota það til þess að kaupa eignir, sem þeir selja svo aftur til fyrirtækisins með hagnaði án þess að eigendurnir, hluthafarnir, verði nokkurs vísari en hagnaður þeirra verður minni en ella fyrir vikið. Þetta telja dómstólarnir að séu venjuleg viðskipti og ósaknæm. Verður því trúað að slíkur trúnaðarbrestur milli stjórnenda og eigenda fyrirtækja sé viðtekin venja í íslensku viðskiptalífi?

Ef íslenskt viðskiptalíf á að dafna og þroskast verður það að njóta trausts, bæði á markaði og í samfélaginu öllu, en það vinnst ekki ef uppi eru ríkar efasemdir um viðskiptasiðferðið. Eins og fyrrgreind dæmi sýna er langur vegur frá að það gerist af sjálfu sér eða fyrir tilstilli veikburða stofnana, sem kunna að vera háðar málsaðilum. Löggjafinn þarf að skakka leikinn.

En það gerði hann nú ekki. 


Glitnis-myndband

Komið er á YouTube enn ein ræman um afkima íslenska viðskiptalífs. Að þessu sinni er fjallað um Glitni, en þetta kvað víst aðeins vera 1. hluti. Ýmsir athyglisverðir vinklar eru settir þarna fram.

 


Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband