Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
7.12.2009 | 10:36
Vélað gegn lýðræðinu — Steingrímur verður að segja af sér
Fregnirnar af tölvupóstsamskiptum Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra og þá settum ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, og Mark Flanagan, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í málefnum Íslands, hinn 13. og 14. apríl síðastliðinn, sem Wikileaks hafa birt, eru alveg hreint ótrúlegar. Þar í felast ótal hneyksli á báða bóga. Það er t.d. varla sætt lengur fyrir fulltrúa AGS, sem nú hafa orðið uppvísir að ósannindum og óþolandi starfsháttum.
Stóri skandallinn er hins vegar hjá Indriða og yfirmanni hans, Steingrími J. Sigfússyni, sem hafði sannanlega vitneskju um hvernig í pottinn var búið og við blasir að stýrði ferðinni. Það snýr ekki aðeins að efni málsins, heldur miklu fremur hinu, að þarna var vélað gegn sjálfu gagnverki lýðræðisins.
Í þessu einu veigamesta viðfangsefni Íslendinga kaus ráðherrann að láta þrönga pólitíska hagsmuni sína og ríkisstjórnarinnar ganga fyrir hagsmunum hins opinbera og almennings. Það hlýtur að kalla á tafarlausa lausnarbeiðni Steingríms. Ella hlýtur einhver sómakær þingmaður að leggja fram vantrauststillögu á ráðherrann. Ekki ríkisstjórnina, heldur þennan tiltekna ráðherra, sem með leynimakki, pukri, lygum og falsi tók völdin fram yfir almannaheill.
Í tölvupóstinum hinn 13. apríl segir Indriði afar skýrt að nú verði lausn málsins að bíða, að minnsta kosti fram yfir kosningarnar hinn 25. apríl:
[ ] a loan agreement along the previous lines (increased governmental debt) would be politically impossible to accomplish before the election on April 25 and possibly very difficult for a considerable period of time after the elections [ ]
Vandinn er ekki sá að drápsklyfjarnar séu óaðgengilegar, nei, hann er aðeins sá að þær séu pólitískt erfiðar fyrir ríkisstjórnina. Var einhver að tala um forgangsröðun?
Alvarlegra en Icesave-málið
Þetta er grafalvarlegt mál, mun alvarlegra en sjálft Icesave-málið, því hér var vegið að rótum sjálfs lýðræðisins. Í kosningunum var tekist um ýmis mál, fyrst og fremst uppgjör hrunsins, hverjir bæru ábyrgð á því og hverjir væru líklegastir til þess greiða úr óreiðunni. Þar var Icesave-málið eitt hið brýnasta og mikilvægasta, eins og Steingrímur sjálfur og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra þreyttust ekki á að hamra á. Þar mátti engan tíma missa og framtíð landsins sögð hanga á spýtunni.
Kjósendur sárvantaði upplýsingar um framvindu Icesave-málsins til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun í kjörklefanum, en Steingrímur ákvað að leyna þá því; hann ákvað að afvegaleiða þá með þögninni og biðinni. Og þó hann þagði ekki alveg um Icesave; hann sagði glæsilega niðurstöðu í augsýn!
Og það gekk upp, vinstrigrænir unnu sinn glæstasta kosningasigur. En biðinni og þögninni linnti ekki, þó samningunum yndi fram í kyrrþei. Undir lok maí fór þó að kvisast út að lyktir kynnu að vera í nánd og hinn 3. júní var Steingrímur spurður að því á Alþingi hvað Icesave-samningunum liði. Hann kom upp í pontu, en sagði lítið sem ekkert af þeim að frétta. Fullvissaði þó þingheim um að ef svo ólíklega færi að eitthvað gerðist á þeim vígstöðvum yrði þeim vitaskuld gert viðvart:
Viðræður eða þreifingar milli aðila hafa gengið hægar en ætlunin var, m.a. vegna þess að Bretar hafa ítrekað óskað eftir frestun á fundum sem fyrirhugaðir voru. Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.
Á sama tíma voru hann, Indriði og Svavar að leggja lokahönd á samningana við stjórnarerindreka frá Lundúnum og Haag, en aðeins tveimur dögum síðar lagði hann samninginn fyrir ríkisstjórnina, sem samþykkti hann án þess að menn hefðu fyrir því að lesa hann yfir. Jafnvel ríkisstjórnin var ekki fyllilega upplýst um inntak samningsins, eins og forsætisráðherra átti raunar eftir að reka sig á. En ekki fyrr en búið var að undirrita samninginn í skjóli nætur. Þó ekki án fyrirvara um samþykkt Alþingis.
Alþingi átti að samþykkja óséða leynisamninga
Laumuspilinu var þó langt í frá lokið. Ríkisstjórnin vildi að Alþingi samþykkti ríkisábyrgð á Icesave-samningum hennar án þess að samningarnir væru birtir þingmönnum, hvað þá aumingja þjóðinni, sem átti að borga fyrir þessa glæsilegu niðurstöðu. Fjármálaráðherra og forsætisráðherra báru fyrir sig trúnað við Hollendinga og Breta, en á daginn átti eftir að koma að sá trúnaður hentaði aðeins íslensku ríkisstjórninni og svonefndum samningamönnum hennar.
Efni samninganna lak þó út í fjölmiðla, svo sú ráðagerð fór út um þúfur, það þurfti að birta uppgjafarsamningana. Eftir að spunalæknar ríkisstjórnarinnar höfðu gert yfirmönnum sínum grein fyrir að þeir hefðu valdið sjálfum sér verulegum skaða fór Steingrímur allt í einu að tala á þann veg að auðvitað yrði allt uppi á borðum í þessum efnum, allt í kringum samningana yrði birt. En það var ekki þannig. Lögð voru fram skjöl, sem áttu að vera allt heila klabbið, en fljótlega komu í ljós eyður í þeim. Þegar eftir var gengið var játað að eitthvað væri enn ókomið og svo gekk áfram nokkrum sinnum, alltaf átti allt að vera komið upp á yfirborðið og alltaf kom hið gagnstæða í ljós. Loks fór svo að hluti skjalanna var settur í sérstakar möppur, sem þingmenn máttu skoða en ekki taka afrit af, færa til bókar eða vísa í á opinberum vettvangi.
Leyndin og hagsmunir Steingríms
Fyrir slíku geta verið málefnalegar ástæður. Það er hins vegar fróðlegt að hafa í huga að fyrrnefndir tölvupóstar Indriða og Flanagans voru hluti af þeim trúnaðarskjölum. Og þá má spyrja: Hvað í þessum tölvupóstum er svo viðkvæmt að ekki megi sýna nema með eftirgangsmunum í luktu bakherbergi Alþingis og þá aðeins ef þingmenn hafa undirritað sérstakan trúnaðareiðstaf? Er það eitthvað gagnvart viðsemjendunum? Gagnvart AGS? Alþjóðasamfélaginu? Nei, hið eina í þessum póstum sem ekki þolir dagsins ljós eru nákvæmlega þessi vélabrögð gegn lýðræðinu, vel heppnuð tilraun til þess að hafa áhrif á niðurstöður almennra kosninga.
Eftirleikinn þekkja menn svo. Steingrímur fullyrti hvað eftir annað að þetta væru langbestu, mögulegu samningarnir í stöðunni og í þeim væru margvíslegar varnir reistar fyrir Íslendinga. Þegar efast var um það lagði hann pólitískt líf sitt að veði með þeim glæsilegu samningsdrögum og lagði gífurlega áherslu á að hvergi mætti við þeim hrófla. Það gerði Alþingi nú samt og samt tórði Steingrímur. Þegar Bretar og Hollendingar höfðu skoðað fyrirvara Alþingis breyttu þeir þeim bara aftur og sendu til Steingríms til þess að láta Alþingi stimpla. Þá bar svo við að Steingrímur þrátt fyrir fyrri fullyrðingar um ágæti upphaflega samningsins sagði að þessi útgáfa væri jafnvel enn betri og hagfelldari fyrir Íslendinga en sú fyrsta og sú önnur með fyrirvörunum! Án þess að blikna.
Er manninum fyrirmunað að koma hreint og beint fram í þessu máli?
Fjármálaráðherra er ekki trúandi um neitt lengur
Í ljósi þess hvernig Steingrímur hefur opinberað sig sem raðlygara í Icesave-málinu er óskiljanlegt að nokkur maður, hvað þá fjölmiðlar og þingheimur, skuli taka við nokkrum athugasemdum frá honum um Icesave (eða annað) án þess að krefjast skjalfestra og vottaðra sannana þar um.
Mér þykir því einsýnt að hann verði að biðjast lausnar, ellegar þola vantraustsumræðu (það væri raunar athyglisvert að sjá hvaða þingmenn vilja taka þátt í lygavefnum hans svona eftir á). Það er niðurlæging fólgin í því, en þó skárra en hitt sem gæti beðið hans. Og Indriða, gleymum ekki ábyrgð hans í málinu.
Í þessari sömu viku í apríl tók Morgunblaðið viðtal við Steingrím og hvað skyldi hann hafa helst að segja því?
Fólk vill heiðarleg, hreinskiptin og opinská stjórnmál.
Það var einmitt það. Framhaldið var líka athyglisvert í ljósi annarra viðburða:
Ég held að það sé borin virðing fyrir því að við segjum það skýrt fyrir kosningar hvað við teljum að gera þurfi að loknum kosningum. Okkar tillögur í skattamálum sem og öðrum eru mjög hófstilltar og ábyrgar.
Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.
Stjórnin á einn sjens enn
En er ekki stjórnin fallin og allt í voða ef Steingrímur fer? Nei, í lýðræðisþjóðfélagi eru engir ómissandi menn. Allra síst af þessari sortinni. Það vill raunar svo til að vinstrigrænir eiga óþreyttan forystumann á hliðarlínunni, sem er þekktur fyrir hreinskiptni og að standa við sín prinsipp. Lausan við valdafíkn. Ekki bara í orði, heldur líka á borði.
Icesave-póstar á Wikileaks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar