Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.2.2008 | 14:02
Vandinn við Villa
Nú berast af því fregnir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hyggist leita eftir því að verða áfram oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í Reykjavík og taka þá við embætti borgarstjóra að ári. Með því vilji hann freista þess að standa af sér storma undanfarinna vikna og ná fyrra trausti Reykvíkinga. Hvað hæft er í þessu er óvíst. Fréttablaðið segir að Vilhjálmur hafi verið mjög tvístígandi í þessum efnum undanfarna daga og hafi raunar verið búinn að ákveða það að sækjast ekki eftir borgarstjóraembættinu.
Margir stuðningsmenn Vilhjálms hafa hins vegar lagt hart að honum um að halda sínu striki og segja uppgjöf af hans hálfu nánast viðurkenningu á að hann hafi eitthvað óhreint í pokahorninu. Einkum mun fjölskylda Vilhjálms halda þessu sjónarmiði á lofti, en jafnframt hefur Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra staðið fast á því að Vilhjálmur megi ekki segja af sér. Ég sé að hinn innvígði en útmúraði Friðjón R. Friðjónsson telur í bloggi sínum á Eyjunni að hann hafi riðið baggamuninn í þeim efnum og kann honum engar þakkir fyrir. Þeir Vilhjálmur og Guðlaugur Þór hafa verið í gagnkvæmu stuðningsbandalagi í prófkjörum, þar sem hvor hefur eindregið beint því til stuðningsmanna sinna að kjósa hinn og má segja að það bandalag hafi verið lykillinn að prófkjörssigrum beggja.
Mér skilst að aðeins eitt sé á hreinu: Vilhjálmur hafi ekki viljað segja opinberlega af eða á fyrr en eftir helgi því honum hafi mislíkað mjög sá frestur sem Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi sett honum í Silfri Egils um liðna helgi. Þá sagði Geir að Vilhjálmur hefði aðeins umþóttunartíma út vikuna. Geir hefur eindregið gefið til kynna að hann vilji að Hanna Birna Kristjánsdóttir taki við oddvitastöðunni og til marks um það höfðu menn samhljóma ummæli Borgars Þórs Einarssonar stjúpsonar Geirs og Þórlinds Kjartanssonar, formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, í liðinni viku, en þeir eru í innsta hring Geirs og telja menn ómögulegt að þeir fóstbræður hafi báðir sagt í sama mund að beinast lægi við að Hanna Birna tæki við forystunni í borgarstjórnarflokknum án samráðs við Geir.
Vilhjálmur er sagður taka þá afstöðu Geirs nærri sér, því hann hafi ævinlega stutt Geir af heilindum og talið að það væri gagnkvæmt. Vinir Villa benda á að Geir hafi stutt hann í síðasta borgarstjórnarprófkjöri Sjálfstæðisflokksins, meðal annars til þess að stöðva framgöngu Gísla Marteins Baldurssonar, sem flestir litu á sem frambjóðanda Davíðsæskunnar. Er rifjað upp að aðalræðumaðurinn við opnun kosningaskrifstofu Vilhjálms um árið hafi einmitt verið Inga Jóna Þórðardóttir svo ekkert færi nú milli mála. Geir gat trauðla gert upp á milli Vilhjálms og Gísla Marteins opinberlega, enda nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins.
Þverrandi stuðningur, ný vandamál
Nú segir Vísir þá frétt að hvorki Geir né Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vilji að Vilhjálmur haldi áfram sem oddviti. Heimildirnar eru ekki tilgreindar, en mér þykir afar sennilegt að þetta sé rétt. Að minnsta kosti er það í nokkru samræmi við það, sem heyrst hefur úr þeim áttum að undanförnu. Þau eru sögð ætla að hitta Vilhjálm á fundi síðar í dag til þess að telja hann af þessari fyrirætlan sinni. Sjáum nú til hvernig það fer, en það hlýtur að vera fróðlegt að fylgjast með því á næstunni hvort að þessi ágreiningur Guðlaugs Þórs og Geirs hefur einhver eftirmál. Til þessa hefur ekki komist hnífurinn á milli þeirra.
Þó Vilhjálmur hafi legið undir feldi í tvær vikur (þegar Ljósvetningagoðanum dugðu þrjár nætur) er ég mjög efins um að Vilhjálmur meti stöðu sína rétt. Eða að hann átti sig á vandanum þessi langi tími bendir til þess að markmið hans hafi verið eigin lausn en ekki Sjálfstæðisflokksins. Ég skil vel að hann vilji endurheimta pólitíska æru sína, en vandinn er sá að til þess hefur hann þröngan kost. Ef nokkurn. Í stjórnmálum er nefnilega aðeins ein leið til slíks og hún felst í því að bera mál sín undir kjósendur. Þeir einir geta reist menn við. Vilhjálmur hefur þegar sagt að hann hyggist ekki bjóða sig fram í næstu kosningum. Því er von að menn spyrji til hvers leikurinn sé gerður; pólitísk uppreisn hans getur ekki falist í því að sitja sem fastast í skjóli hálfvolgra og kreistingslegra stuðningsyfirlýsinga annara borgarfulltrúa.
Menn geta þá líka velt fyrir sér framhaldinu. Vilhjálmur þyrfti þá að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið fyrir tveimur vikum, og svara því hvernig lá í svörum hans um samráð við borgarlögmann í REI-málinu. Það mun reynast snúið og þegar í stað rífa ofan af sárinu. Við bætist að Umboðsmaður Alþingis er loks að taka REI-málið fyrir og ekki verður það léttara fyrir Vilhjálm, hvorki út á við né í borgarstjórnarflokkinum. Sjálfsagt eru svo enn fleiri fletir á REI-málinu, sem eiga eftir að koma í ljós, aðallega hvað varðar aðdraganda þess. Ekki styttast svipugöngin við það. Þegar svo við bætast alvarlegar ásakanir um spillingu eins og lagðar eru fram á hendur Vilhjálmi í Vísi í dag blasir við alger skelfing.
Eins má ljóst vera að minnihlutinn í borgarstjórn mun ekki láta sitt eftir liggja í aðsúg að Vilhjálmi og borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna öllum. Þar í eru veruleg efni og ekki síður skiptir hitt máli að hann myndi tala máli mjög margra borgarbúa ef marka má skoðanakannanir, orðið á götunni og þá hárskera og leigubílstjóra, sem ég hef ráðfært mig við.
Langdregið pólitískt sjálfsmorð
Ég óttast því að úr gæti orðið eitt langdregnasta pólitíska sjálfsmorð í manna minnum, Death of a thousand cuts, eins og það heitir á ensku. Þegar að kæmi að borgarstjóraskiptum næði það sjálfsagt nýjum hæðum og við tæki ömurlegur aðdragandi sveitarstjórnakosninga. Sú passía myndi ekki varða Villa einan, Sjálfstæðisflokkurinn allur myndi fyrir gjalda, bæði hér í borginni og á landsvísu, enda hefur flokksforystan fengið æ meiri gagnrýni upp á síðkastið fyrir að vera ekki vandanum vaxin.
Henni er auðvitað vandi á höndum, rétt eins og borgarstjórnarflokknum, því heitstrengingar um stuðning við Vilhjálm er erfitt að taka til baka. Þar hefur líka hver keppt við annan í fullyrðingum um að ákvörðunin sé alfarið í höndum Vilhjálms. Vegna þess hversu vandasöm hún sé, ekki síst fyrir Vilhjálm, þurfi að veita honum tilfinningalegt svigrúm til þess arna.
Sú kenning er hrein firra og er einmitt rót vandans. Það er hreint ekki í valdi og vilja Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar eins hvort hann verður borgarstjóri í Reykjavík. Borgarstjórinn er ráðinn af borgarfulltrúum og það eru því þeir, sem ráða þessu. Rétt eins og það eru borgarfulltrúar sjálfstæðismanna, sem velja sér oddvita úr sínum röðum. Oddvitinn situr í þeirra friði, rétt eins og borgarstjórinn. Mistök Vilhjálms í REI-málinu voru einmitt þau að hann taldi sig á einhvern hátt geta skipað borgarfulltrúunum fyrir verkum, en gleymdi að því var öfugt farið: Hann sat í umboði þeirra. Fyrir vikið missti hann borgarstjórastólinn.
Borgarstjórnarflokkurinn taki af skarið
Þó að borgarfulltrúar sjálfstæðismanna, að ógleymdum formanni og varaformanni flokksins, trúi því ennþá, vilji trúa því eða þykist trúa því, að allt sé þetta á forræði Vilhjálms, er gallinn er sá að því trúir enginn annar. Alls enginn.
Taki Vilhjálmur ekki af skarið blasir við að einhver annar verður að gera það. Fyrst og fremst liggur vandinn fyrir dyrum borgarstjórnarflokksins og þar ætti að leysa hann. Væri þá ekki eðlilegast að Hanna Birna Kristjánsdóttir sýndi forystuhæfileika sína með afgerandi hætti og hyggi á hnútinn? Hún er máske rög við það, annars vegar af tillitssemi við Vilhjálm og hins vegar kann hún að óttast að menn reki það til eigin metnaðar. Það eru ástæðulausar áhyggjur. Vilhjálmi hefur nú þegar verið sýnd ýtrasta tillitssemi. Á hinn bóginn er fyllilega tímabært að sjálfstæðismönnum, kjósendum Sjálfstæðisflokksins, borgurum Reykjavíkur og Íslendingum öllum sé sýnd sú tillitsemi að láta stjórn höfuðborgarinnar ekki reka lengur á reiðanum. Hvað hitt varðar þá er margsannað að Reykvíkingar kæra sig ekki um metnaðarlausa borgarstjóra.
Láti borgarstjórnarflokkurinn það vera að taka af skarið, hættir málið að snúast um traust og trúverðugleika Vilhjálms. Þá fer það að snúast um traust og trúverðugleika borgarstjórnarflokksins alls og í framhaldinu Sjálfstæðisflokksins. Þó ég sé bara úr máladeild er það reikningsdæmi ekki flókið. En úrlausn þess er brýn. Leysi Vilhjálmur það ekki í dag eða á morgun þarf borgarstjórnarflokkurinn að gera það á mánudag. Geri hann það ekki hefur hann lagt eigin trúverðugleika og flokks síns að veði með Vilhjálmi. Þá ætti hann að hafa hugfast að það er enginn einn maður stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Eða hvað?
23.2.2008 | 10:31
Jobbi frændi biðst forláts
Það mætti halda að það væri að koma prófkjör, svo ótt og títt sem Jakob Frímann Magnússon, frændi minn og tónlistarmaður, kveður sér hljóðs á síðum blaðanna um þessar mundir. Hann skrifar afsökunarbeiðni í Morgunblaðið í dag til handa Gísla Marteini Baldurssyni vegna þeirra orða, sem Össur Skarphéðinsson lét falla í hans garð í alræmdri bloggfærslu á dögunum. Að sögn rennur honum blóðið til skyldunnar þar sem þeir Össur báðir hafi notið þeirrar gæfu að meðtaka kristilegt hugarþel á kné síra Friðriks Friðrikssonar, upphafsmanns KFUM á Íslandi. Kappið hafi hins vegar borið bróður Össur ofurliði.
Af því að ég er gamall KFUM-maður finnst mér þetta fallega gert hjá bróður Jakobi. En af því að ég er einnig gamall skógarmaður líkt og þeir eru nefndir er dvalist hafa í Vatnaskógi finnst mér rétt að minnast á annað þessu tengt. Í Vatnaskógi hefur alla tíð verið mikið lagt upp úr því að venja drengi af þeim ljóta ósið að bölva. Ekki blóta! gall við úr öllum áttum ef einhverjum varð það á. Íþróttaiðkun var snar þáttur í Vatnaskógi og þar gilti þetta líka. Blót inni á velli kostaði fríspark. Innan vítateigs kostaði það víti. Ég þarf ekki að orðlengja það að maður vandist hratt og örugglega af því að blóta í Vatnaskógi. Össur mætti rifja það upp.
Hitt er annað mál að Össur hefur alla tíð verið blendinn í trúnni, enda ólst hann að hluta upp inni á gafli hjá mínum góðu grönnum í Aðventkirkjunni. Ég fæ ekki betur séð en að Jobbi frændi sé líka orðinn blendinn í sinni trú:
Í þeim ljúfa vangadansi sem við bróðir Össur stígum við íhaldið um þessar mundir, í sölum bæði ríkis og borgar, hljótum við að framvegis að temja okkur betra íhald, þ.e. að læra að halda betur í okkur, a.m.k. á meðan dansinn er stiginn.
Það var og. Ég áttaði mig ekki á því að Jakob ætti aðild að dansinum. Var hann ekki í efsta sæti á framboðslista Íslandshreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi í kosningunum síðasta vor? Af þessum orðum er ekki annað að sjá en að hann sé kominn heim til Samfylkingarinnar aftur. Eða fór hann kannski aldrei?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.2.2008 | 10:04
Dómharka er meiri löstur en fjárhættuspil
Ég skrifaði færslu á Eyjuna í gærkveldi, þar sem ég vék að spilamennsku Birkis Jóns Jónssonar. Þar setti ég í stuttu máli fram þá skoðun að hún kæmi engum við nema Birki Jóni sjálfum.
Nú les ég hugleiðingar Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, um þessi mál. Þar heldur hann því fram að Birkir sé haldinn spilafíkn og verði að leita sér hjálpar. Það byggir hann á því að Birkir hafi komið í spilavíti á Suðurgötu fyrir sex árum!
Mér finnast svona sleggjudómar og dómharka ekki boðleg. Hvað þá að þeir eigi erindi í fjölmiðla. Bendir eitthvað til þess að spilamennska Birkis hafi háð honum á einhvern hátt? Eða að almenningur eða almannavaldið þurfi að grípa til sinna ráða vegna hennar? Nei, svo er ekki. Hins vegar er verið að stilla manninum upp við vegg, knýja hann til þess að bera af sér ósannaðar sakir og um leið láta hann svara því hvort hann sé fíkill eða ekki. Það finnst mér ósæmilegt í meira lagi.
En kannski þetta lýsi einhverjum breyttum viðhorfum í þjóðfélaginu, að menn telji samfélagið eiga einhverja kröfu á breytni einstaklinganna umfram þessar lágmarkskröfur, sem settar eru fram í lögum. Að það sé tækt til opinberar umræðu hvort Bubbi reykir eða ekki, Birkir spili eða Bjarni Harðar sé of feitur.
Tillitssemi og umburðarlyndi eru dyggðir; afskiptasemi og dómharka ekki. Dómharka er meira að segja meiri löstur en fjárhættuspil, því hún smitar út frá sér en mögulegur skaði af fjárhættuspilum er næsta takmarkaður við þann, sem þau stundar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2008 | 01:46
Pressudagur
Á laugardag er opinber bakklappsdagur íslenskra fjölmiðlunga, en þá er pressudagurinn svonefndi. Klukkan 15.00 verður opnuð ljósmyndasýning á vegum Blaðaljósmyndarafélags Íslands í Gerðarsafni í Kópavogi. Þar verður til sýnis úrval blaðaljósmynda síðasta árs og verðlaun veitt fyrir myndir ársins í ýmsum flokkum. Ástæða er til þess að hvetja alla áhugamenn um fjölmiðlun til þess að sjá sýninguna, en vel má halda því fram að þar rísi fagmennskan hæst í íslenskri fjölmiðlun, enda starfsmannavelta þar minni en í öðrum greinum hennar og svigrúm til listræns metnaðar meira.
Klukkan 17.00 verða hins vegar veitt Blaðamannaverðlaunin, en þau eru þrjú talsins. Fyrst skal telja Blaðamannaverðlaun ársins 2007, þá eru veitt verðlaun fyrir bestu umfjöllun ársins 2007 og loks fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2007. Nefnd fór yfir tilnefningar frá félögum í Blaðamannafélaginu, valdi þrjár í hverjum flokki og loks verðlaunahafana. Verðlaun af þessu tagi eru ávallt umdeilanleg og ekki síður hvernig staðið er að vali þeirra, en minna má á það hneyksli þegar Sigríður Dögg Auðunsdóttir var verðlaunuð fyrir ritstuld annars vegar og umfjöllun upp úr þýfi hins vegar. Eins komu upp efasemdir um það þegar Gerður Kristný fékk verðlaun fyrir bókarskrif, þó bókin hafi vissulega verið alls góðs makleg.
Í ár er ólíklegt að verðlaunin valdi mikilli úlfúð, þó sjálfsagt yrðu einhverjir hissa ef gervöll ritstjórn DV yrði verðlaunuð fyrir nærgætna umfjöllun um vistheimilið í Breiðavík eða Baldur Arnarson á Morgunblaðinu fyrir röð frétta og fréttaskýringa um svifryk, jafnágæt og hún var.
Hér skal spáð að Pétur Blöndal fái Blaðamannaverðlaun ársins fyrir frábæra umfjöllun sína um REI-málið í Morgunblaðinu, sem sló öllu öðru við, bæði hvað varðaði efnistök og fréttagildi. Eins að Þóra Tómasdóttir og Sigmar Guðmundsson hljóti rannsóknarblaðamennskuverðlaun fyrir umfjöllun sína um Breiðavíkurmálið í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Loks að Jóhannes Kr. Kristjánsson og Kristinn Hrafnsson fái umfjöllunarverðlaunin fyrir margvíslega umfjöllun í Kompási á Stöð 2. Um helgina má svo að líkindum lesa langt mál um það á þessum stað hvers vegna spáin gekk ekki eftir.
10.2.2008 | 13:37
Mannkynssagan í Silfrinu
Þegar nýi meirihlutinn var myndaður á dögunum náðu Samfylkingarmenn varla upp í nefið á sér af bræði og hneykslan yfir því hvernig meirihlutinn var myndaður. Það hefði nú verið eitthvað annað en þegar REI-listinn var myndaður. Hann hefði verið myndaður þegar Björn Ingi Hrafnsson hrökklaðist úr meirihlutasamstarfinu og Samfylkingin og hinir hefðu komið til bjargar, gert skyldu sína til þess að mynda meirihluta í borgarstjórn og blablabla. Sjálfstæðismenn hefðu á hinn bóginn farið með slægð og pukri á fund Ólafs F. Magnússonar með yirboð til þess eins að splundra meirihlutanum. Og blablabla.
Þá var eins og allir hefðu gleymt því hvernig Dagur B. Eggertsson og Björn Ingi lýstu myndun meirihlutans á Tjarnarbakkanum forðum daga. Þá kom skýrt fram að Björn Ingi hefði verið öldungis heill og heiðarlegur í samstarfinu og raunar á leið til fundar við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson vin sinn, þegar það barst símtal. Og frá hverjum? Jú, margnefndum Degi B. Eggertssyni! Hann hefði viljað ræða meirihlutasamstarf og úr því varð meðan Villi beið og beið. Ég minni bara á Ununarlagið vinsæla, sem finna má í spilaranum hér til hægri: Ljúgðað mér.
En nú virðist Dagur aftur hafa skipt um skoðun sína á mannkynssögunni, því í Silfri Egils núna áðan talaði hann um frumkvæði sitt við myndun REI-listans. Hér er verðugt rannsóknarefni fyrr áhugamenn um samtímasögu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
10.2.2008 | 13:12
Silfrað um auðlindir og einokun
Það er merkilegt að hlusta á Dag B. Eggertsson ræða um skýrslu stýrihópsins í Silfri Egils, sem honum þykir afar merkileg heyrist manni. Ekki síst finnst honum sem það álit stýrihópsins að Orkuveitan eigi að vera í almenningseigu meitli í stein að allar auðlindir landsins eigi að vera þjóðnýttar. En þar ræðir um tvennt gerólíkt. Annars vegar er Orkuveitan, sem er einokunarfyrirtæki í eigu borgarbúa með skýr markmið um að hún skuli þjóna þeim. Það má því ekki nota einokunartekjur hennar í hvað sem er og miðað við reynsluna þykir ljóslega varhugavert að vera í samkrulli með einkafyrirtækjum í áhættusömum verkefnum.
Hitt atriðið verður væntanlega tekið til kostanna á Alþingi innan skamms og lýtur að eðli eignarréttarins, þeirrar heimspekilegu spurningar hvort auðlindir eigi að lúta sérstökum lögmálum í þeim efnum og hvort þjóðnýting sé endilega heppilegasta, réttlátasta eða skilvirkasta leiðin til ábyrgrar nýtingar þeirra.
Nú nokkrum mínútum síðar ber hann sér svo á brjóst og segir að hann og Samfylkingin hafi verið á móti því að afhenda einkaaðilum fjármuni og á móti sameiningu REI og Geysi Green Energy! Hvað varð um allar yfirlýsingar hans um hvernig hann og Samfylkingin vildu græða milljarða, nei tugmilljarða króna í slíkum bissnessævintýrum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2008 | 12:58
Silfurslegin umræða um borgina
Silfur Egils er í loftinu og málefni borgarstjórnar vitaskuld í brennidepli.Þar er margt mælt af mismiklu viti. Þannig heyri ég menn efast um að meirihlutinn standist ef Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson segir af sér. Af hverju ætti það að vera? Hafa enn eitthvað sérstakt fyrir sér að Sif Sigfúsdóttir muni ekki styðja meirihlutann? Nei, auðvitað er það ekki svo. Það er rétt að minna á að í samkomulagi meirihlutans kom ekkert fram um að hann tengdist persónu Vilhjálms sérstaklega og raunar athyglisvert að ákvæðið um borgarstjóraskiptin var fremur loðið, þannig að við því má augljóslega ýmsu hrófla.
Ég held einnig að það sé beinlínis rangt að sexmenningarnir geti ekki komið sér saman um oddvita ef Villi fer. Ætli vandinn sé ekki fremur sá að í þeirra hópi vill enginn ræða slíkt af fyrra bragði af ótta við að vera brigslað um hnífslag í bak Villa. Við munum umræðuna frá síðasta hausti. Þá ættu menn ekki að gleyma því heldur, að þrátt fyrir allt sem á undan er gengið er sexmenningunum hlýtt til Villa og vilja ekki gera honum dagana þungbærari en orðið er. Ég er efins um að honum sé nokkur greiði gerður með því að bíða og bíða eftir að hann taki af skarið, en það er annað mál.
Ég heyri það út um allan bæ meðal sjálfstæðismanna, að Hanna Birna Kristjánsdóttir sé augljós arftaki Villa og engin hreyfing um annað. Umræðan um Guðfinnu S. Bjarnadóttur sem utanaðkomandi borgarstjóra er svo gersamlega úr lausu lofti gripin, en kann að helgast af því að sögusagnir hafa verið uppi um að henni líki ekki stjórnmálin jafnvel og hún hafi vonast til og að hún hafi látið spyrjast út að hún væri ekki afhuga góðum atvinnutilboðum. Ég veit ekki hvað er hæft í þeim, en ætli hún hafi sérstakan áhuga á því að fara yfir í Ráðhúsið þar sem fyrirsjáanlegt er að hríðin verði öllu harðari.
En síðan kann fleira að spila inn í. Einhverjir kunna að vera því mótfallnir að einhver úr borgarstjórnarflokknum verði leiddur í borgarstjórastól, þeir hinir sömu hafa sjálfsagt hugmyndir um að leiða fram nýjan forystumann í næsta prófkjöri og vilja helst veikja stöðu borgarstjórnarflokksins sem mest fyrir það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2008 | 15:21
Aumkunarvert Alþingi
Undanfarin ár hefur nokkuð verið rætt um að skilin milli hinna þriggja greina ríkisvaldsins séu orðin óljós. Sérstaklega þykir mönnum halla á Alþingi í því samhengi, það sé orðið lítið annað en afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins, sem sendi því frumvörp og fyrirmæli eftir þörfum.
Þetta sást glögglega nú í vikunni. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, þurfti ekki annað en að byrsta sig í pontunni um að ófært væri að leyfa reykingar í þar til gerði reykkompu í kjallara þinghússins og þá hleypur forsætisnefnd til eins og rakkar kjölturakkar nánar til tekið og flýtir sér að samþykkja allsherjar reykbann í þinginu.
Nú geta menn haft skoðanir á því hversu vel fari á því að Alþingi hafi slíkt reykafdrep á meðan það setur öðrum harða löggjöf um að þeim sé það bannað. Um það hefur hins vegar verið rætt síðan Helgi Seljan upplýsti um reykkompuna í Kastljósi RÚV fyrir allnokkrum mánuðum. Kráareigendur bentu síðan á þetta misræmi þegar þeim var nóg boðið og almenningur hefur látið í sér heyra um málið í auknum mæli. Ekkert af þessu hafði hins vegar minnstu áhrif á þingheim, í mesta lagi tautað um að einhvers staðar yrðu vondir að vera (sem Alþingi er vitaskuld glæsilegt dæmi um). En það þurfti ekki nema eina ræskingu úr ráðuneyti til þess að forsætisnefnd Alþingis hlypi til, móð og másandi, og færi að óskum yfirvaldsins.
Svo undrast stjórnmálamenn að virðing Alþingis fari þverrandi. Ætli það standi ekki í einhverju samhengi við sjálfsvirðinguna?
![]() |
Bannað að reykja í Alþingishúsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2008 | 14:14
Andleg eyðimerkurganga stjórnmálaflokka
Í forystugrein Morgunblaðsins í dag er fjallað talsvert um erindi íslenskra stjórnmálaflokka og hugmyndagerjun innan þeirra. Það er raunar gert í lengra máli en tilefni má teljast til, en af því að Styrmir hefur trassað það um helgina að setja ritstjórnarefnið inn á morgunbladid.blog.is leyfi ég mér að setja snilldina inn hér:
Hvar eru hugmyndirnar?
Pólitík byggist á hugmyndum. Ef hugmyndagrunnur stjórnmálaflokkanna er ekki í stöðugri endurnýjun kemur fljótt í ljós, að þeir hafa ekkert nýtt fram að færa. Þetta á við um alla íslenzku stjórnmálaflokkana eins og nú standa sakir.Það kom mjög fljótt í ljós í sumar, að Samfylkingin kom ekki með neinar nýjar hugmyndir inn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Núverandi ríkisstjórn fylgir í öllum meginatriðum sömu stefnu og fyrri ríkisstjórn. Það hafa engar nýjar hugmyndir komið fram í utanríkismálum, í umhverfismálum, í samgöngumálum, í iðnaðarmálum eða í viðskiptamálum eftir að Samfylkingin gerðist aðili að ríkisstjórn.
Það stendur engin hugmyndaleg endurnýjun yfir í Sjálfstæðisflokknum. Sú endurnýjun að þessu leyti, sem fram fór í Sjálfstæðisflokknum fyrir tveimur áratugum eða svo og mótaði stefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins á síðasta áratug síðustu aldar og fram á þessa öld, hefur runnið sitt skeið á enda. Það hefur ekkert nýtt komið í staðinn. Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn?
Framsóknarflokkurinn er í öngstræti og er ekki búinn að gera upp við sig hvers konar flokkur hann ætlar að verða. En það er að vísu orðið ljóst hvað Framsóknarflokkur Guðna Ágústssonar ætlar ekki að verða. Hann ætlar ekki að verða flokkur sem berst fyrir aðild að Evrópusambandinu.
Vinstri grænir eru heldur ekki uppfullir af nýjum hugmyndum. Þeir eru ekki búnir að gera upp við sig hvort þeir ætla að vera vinstri eða grænir. Þessi togstreita er sennilega djúpstæðari innan flokksins en margir gera sér grein fyrir.
Frjálslyndir hafa frá upphafi byggt á ákveðinni pólitík í sjávarútvegsmálum og á því hefur engin breyting orðið. Þess vegna þurfa þeir ekki á hugmyndalegri endurnýjun að halda.
Þessi skortur á nýjum hugmyndum stendur öllum íslenzku stjórnmálaflokkunum fyrir þrifum. Þeir hafa ekkert nýtt fram að færa og þess vegna er ekkert merkilegt að gerast á vettvangi stjórnmálanna.
Jafnvel þegar Sjálfstæðisflokkurinn fær loksins yfirráð yfir heilbrigðisráðuneytinu stendur á því að flokkurinn leggi fram nýjar hugmyndir í heilbrigðismálum. Það er vissulega eðlilegt að nýr flokkur, nýr ráðherra og nýir ráðgjafar fái tíma til að móta og leggja fram nýjar hugmyndir en tíminn er að renna út. Kom Sjálfstæðisflokkurinn ekki með neitt veganesti inn í heilbrigðisráðuneytið?
Flokkarnir þurfa allir að taka sig taki og hrista upp í hugmyndabönkum sínum. Annars verður stöðnun í þróun og uppbyggingu samfélags okkar.
Þetta er ekki slæm greining. Ég held að vísu að það sé ekki hægt að halda því fram um flokka í heild sinni, að þar megi engar ferskar hugmyndir finna. Vandinn er fremur sá að þeir hugmyndaríkustu eru ekki í forystu flokka sinna. Ennþá.
Sumir kunna að setja þessa gagnrýni Mogga á Sjálfstæðisflokkinn í samhengi við nótur, sem hann hefur verið að senda hinum og þessum í forystu flokksins og hefði einhverntíman þótt ganga heimsslitum næst að lesa á síðum Morgunblaðsins. Það má vera að því sé þannig farið, en ég held ekki. Eru þetta ekki alveg réttmætar áhyggjur, sem verið er að lýsa? Þegar ég gramsa í eigin skrifum undanfarin ár greini ég vel svipaðan þráð, að forysta flokksins virðist ekki hafa erindi hans á hreinu, umfram það að sjálfsagt fari best á því að hann sé við völd og almennar hugmyndir um að frelsið sé betra en nauðung.
Þetta verður fleirum yrkisefni og ég má til með að benda á færslu Dharma um þetta. Efni henni leynir sér ekki, því fyrirsögnin er Hugmyndafræðileg auðn Sjálfstæðisflokksins. Ég er að vísu ekki alveg sammála því að Sjálfstæðisflokkinn skorti hugmyndafræði. Umfram sjálfstæðisstefnuna skortir hann enga hugmyndafræði, enda eru slík kenningakerfi ávallt stórvarasöm. Hægriflokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, þar sem frjálshyggjumenn og íhaldsmenn geta setið saman, byggist á lífsviðhorfi en ekki kenningakerfi. Það er hinu megin í hinu pólitíska litrófi sem menn byggja á kreddunni. Með ömurlegum afleiðingum eins og saga síðustu aldar var glöggt dæmi um.
Hitt held ég að sé rétt athugað hjá Dharma, að Sjálfstæðisflokkinn virðist skorta hugmyndir og það má vafalaust að miklu leyti rekja til þess að forysta hans hefur misst sjónar á þeim grunngildum, sem gerðu hann að því afli, sem hann hefur lengst af verið. Slík feilspor geta leitt menn í megnar og langvarandi ógöngur. Slíkar eyðimerkurgöngur geta tekið áratugi áður en menn rata til fyrirheitna landsins.
Án þess að ég skrifi undir allt, sem Dharma hefur fram að færa í þessu skrifi sínu, held ég að það sé skyldulesning allra borgaralega þenkjandi manna.
14.1.2008 | 03:02
Dellumakarí í Silfrinu
Ég var að horfa á Silfur Egils nú áðan og þar kom ýmislegt forvitnilegt fram. Nefni nokkur dæmi:
Álfheiður Ingadóttur, þingmaður vinstrigrænna, vitnaði í tvo aðra stjórnmálamenn. Annars vegar Halldór Blöndal, fyrrverandi forseta Alþingis, sem hefði játað það í pistli í Morgunblaðinu í dag að hafa aulast til þess í forsetatíð sinni að fallast á flutning hússins að Vonarstræti 12 bak við Herkastalann, nú teldi hann óhjákvæmilegt að endurskoða þá ákvörðun vegna þess, sem væri að gerast við Laugaveg. Lofaði hún svo Halldór fyrir það að vera annan tveggja stjórnmálamanna, sem hefðu séð að sér og játað mistök. Hinn væri Árni Þór Sigurðsson, samflokksmaður hennar. Já, má vera og enginn efast um að þeir Halldór og Árni Þór eru ærlegir stjórnmálamenn.
En hversu mikils virði eru slíkar játningar? Ég man líka eftir iðrunartárum Árna Þórs, Dags B. Eggertssonar, upprennandi leiðangursstjóra, og fleiri R-listamanna þegar á daginn kom að Hringbrautarflutningurinn var algert heimskuklúður frá upphafi til enda. Við erum hins vegar enn að bíða eftir yfirbótinni og á henni bólar ekki. Hún kom ekki hjá R-listanum og það hefur ekki heyrst múkk um hana hjá REI-listanum. Vegfarendur mega hins vegar enn þola þennan óþolandi umferðartappa, sem myndast daglega þar sem hin flutta Hringbraut slengist inn á gamla bútinn milli Snorrabrautar og Lönguhlíðar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sá alkunni hófsemdarmaður í málflutningi, sem nú er í samstarfi við samviskulausa síbrotamenn og mexíkóskan bófaflokk eins og hann komst að orði um Sjálfstæðisflokkinn síðastliðið vor, hafði ýmislegt til málanna að leggja. Sérstaklega hvað varðaði leiðara Morgunblaðsins um vinnubrögð vegna skipunar í embætti héraðsdómar. Árni Páll var beinlínis miður sín yfir þessu öllu saman og kallar hann þó ekki allt ömmu sína:
Mér finnst leiðarahöfundurinn hafa verið í alveg ótrúlegri skógarferð. Mér fannst sérstaklega ómaklegt núna í vikunni hvernig hann í leiðara fór að vega að starfsheiðri og faglegum heiðri Péturs Kr. Hafstein og dómnefndar um hæfi dómarefna, sem er algerlega með þeim hætti að maður átti ekki til orð yfir þeirri framgöngu.
Að vísu tókst Árna Páli að lokum að finna allnokkur orð um hana, en um hvað er hann eiginlega að tala? Það má lesa umrædda forystugrein Morgunblaðsins hér en í henni er alls ekki að finna neinar þær ávirðingar, sem Árni Páll þykist hafa lesið þar. Í forystugreininni er sagt að nefndin hafi farið út fyrir valdsvið sitt og raunar seilst til valda. Ég er sammála þeirri greiningu, en jafnvel þó svo ég væri það ekki, þætti mér það alveg gild skoðun og umræðunnar virði. Hinn vammlausi og heilagi Árni Páll vill hins vegar ekki einu sinni ræða það og telur það ganga guðlasti næst að efast um óskeikulleik Péturs Kr. Hafstein. Hvaða della er þetta?
Dellan átti þó eftir að verða meiri í þættinum og enn var það Morgunblaðið, sem var til umfjöllunar. Að þessu sinni var það Reykjavíkurbréf fyrri helgar, sem hafði vakið hugsuðina til umhugsunar, en þar hafði verið fjallað sérstaklega um stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og færð rök fyrir því að forystu Sjálfstæðisflokksins hafi orðið á veruleg skyssa með því að efna til þess samstarfs. Fastir lesendur mínir þekkja vafalaust svipað stef úr þessum penna og það hefur svo sem mátt heyra og sjá víðar, enda þarf ekki mikla nasasjón af refskák stjórnmálanna til þess að átta sig á afleiknum.
Flestir hafa nefnt til hið augljósa, að Geir H. Haarde hafi skorið Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur niður úr þeirri snöru, sem hún hafði sjálf snúið sér, en án þess vinarbragðs væru hennar pólitísku dagar sjálfsagt taldir. En þá líta þeir hjá hinu, að með því margefldi Geir einnig erindi Samfylkingarinnar, sem er eini raunhæfi keppinautur Sjálfstæðisflokksins um hina víðfeðmu miðju íslenskra stjórnmála eftir að Framsóknarflokkurinn lagðist banaleguna.
Morgunblaðinu hefur orðið það á að benda á þetta og uppskar það m.a. að forsætisráðherra varði rými í að mótmæla þeim aðfinnslum í áramótagrein sinni í blaðinu. Sem sýnir að hann tekur þær ásakanir alvarlega, þó hann vilji ekki gangast við réttmæti þeirra og svari þeim með einhverjum flatneskjum um að hann sýti það ekki að hafa blásið lífi í hnignandi stjórnmálahreyfingu og ýmsa forystumenn hennar, sem ella hefðu horfið af hinu pólitíska sjónarsvið, enda líti hann ekki á það sem sitt meginhlutverk sem forystumaður í stjórnmálum sé að koma öðrum stjórnmálaforingjum fyrir pólitískt kattarnef
Nei, auðvitað er það ekki meginhlutverk neins stjórnmálamanns að gera úti um pólitíska framtíð keppinauta sinna, það verður hver og einn stjórnmálamaður að gera fyrir sig. En markmið hvers stjórnmálamanns hlýtur að vera að sannfæra kjósendur um ágæti sitt, stefnumála sinna og grundvallarskoðana og fái hann til þess umboð að gera sitt ýtrasta til þess að hrinda téðum stefnumálunum í framkvæmd og greiða götu grundvallarskoðana þeirra, sem kjósendur hans samsömuðu sig með. Liggur það ekki í augum uppi? Um leið hlýtur hann að forðast það að ýta undir framgang annara stjórnmálaskoðana og sérstaklega þeirra, sem líklegastar eru til þess að verða til spillingar eigin hugsjónum eða Þrándur í Götu.
Kannski þarna sér fundinn munurinn á pólitíkusi og stjórnmálaleiðtoga. Pólitíkusinn býður sig bara fram til þess að fá að vera með í leiðangrinum og þykist jafngóður og hver annar til þess að leysa aðsteðjandi vanda á leiðinni. Og getur jafnvel verið það. Stjórnmálaleiðtoginn veit hins vegar hvert leiðin liggur og til hvers hún er farin. Þá velur hann ekki þá samferðamenn, sem líklegastir eru til þess að afvegaleiða hann, tína af honum fylgið eða yfirgefa á ögurstundu.
Þess vegna var sannarlega athyglisvert að hlýða á viðhorf þeirra pólitíkusa, sem voru gestir Egils að þessu sinni, þeirra Álfheiðar Ingadóttur, Árna Páls Árnasonar, Björns Inga Hrafnssonar og Ragnheiðar E. Árnadóttur. Þeim þóttu það firn mikil að Morgunblaðið hvetti til langtímamarkmiða í stjórnmálum og að stjórnmálamenn hugsuðu lengra en einn leik í einu. Þetta var augljóslega hugsjónalaust fólk, allt með tölu. Viðfangsefni dagsins eru tæk til pólitískrar afstöðu sem flokkarnir eiga þá væntanlega að taka fyrirsjáanlega og andstæða afstöðu til en hugsjónir og langtímahagsmunir gilda einu. Það er þá gott að vita það.
Þá má hins vegar velta fyrir sér til hvers er verið að kjósa þetta lið til fjögurra ára. Eða til hvers er yfir höfuð verið að kjósa stjórnmálamenn til valda. Ef þetta streð allt snýst aðeins um einhver minniháttarúrlausnarefni dagsins, má þá ekki allt eins eftirláta þau grandvörum embættismönnum, sem vinna samkvæmt faglegum ferlum (eins og við erum fullvissuð um að þeir geri allir)? Þarf eitthvert fulltrúaþing til þess? Við gætum þá bara tekið upp sæmilega upplýst einveldi og krýnt einhvern huggulegan, vel menntaðan mann til þess að stýra ríkinu, gjarnan með doktorspróf. Gott ef við eigum ekki einn slíkan!
Nei, auðvitað er því ekki þannig farið. En við vitum þá hvert erindi ofagreindra í stjórnmálum er: ekkert.
Á sinn hátt má segja að það sé jafnframt vandi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna í hnotskurn, að erindi þeirra í stjórnmálum er fjarskalega óljóst. Treystir einhver sér til þess að tilgreina hver eru höfuðmarkmið ríkisstjórnarinnar umfram almennt suð um að hún vilji elska sitt land, auðga sitt land, efla þess dáð og styrkja þess hag? Jafnvel eftir að hafa lesið stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er það ekki létt verk. Ekki einu sinni um stórpólitískustu mál samtímans. Enn síður þegar hlýtt er á forystumenn stjórnarflokkanna, sem tala af stakri kurteisi í kross í flestum málum, en sjaldnast þannig að hönd sé á festandi.
Ekki minnkaði dellan þegar Grétar Mar Jónsson gekk í salinn til þess að ræða kvótakerfið í ljósi þess álits, sem meirihluti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna lét frá sér um daginn. Hann tönnlaðist á því að nú væri Íslendingum ekki stætt á því að fjalla frekar um málið fyrst nefndin hefði mótað álit sitt. Rétt eins og málið hefði aldrei verið rætt hér af neinu gagni. Að rökræða undanfarinna 24 ára skipti engu fyrir áliti þessara herra. Meira um það síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.5.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar