Færsluflokkur: Menning og listir
29.6.2008 | 02:37
Rafmagnað rokk
Mér er sagt að þetta hafi verið frábærir tónleikar, en ég fór nú ekki. Finnst enda eilítið spes að koma á 200.000 watta tónleika til þess að undirstrika andstöðu við orkuútflutning. Settist þess vegna frekar upp í þýskan benzíndrifinn blæjubíl (undursamlegan Audi A3 Cabriolet) og reykspólaði til Póra og Heiðu í Laxnesi, þar sem verið var að fagna 40 ára afmæli hestaleigunnar. Stelpurnar mínar komu með og skipuðu mér án afláts að hækka í Ramones á leiðinni inn í dal. Þangað komnar dönsuðu þær svo frá sér allt vit í hlöðunni við íslenskt kántrí.
Í laugardagsmogganum var annars ágætt viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Björk, þar sem hún gerði stuttlega grein fyrir afstöðu sinni í þessum málum. Það var gott hjá henni. Með fylgdi afbragðsportrett eftir Bernhard Ingimundarson, sem sjá má hluta af hér að ofan.
Myndin minnti mig á portrett af öðrum söngvara, David Lee Roth, sem prýddi sólóplötuna Eat 'em and Smile, frumraun hans eftir að leiðir skildu með honum og Eddie Van Halen hér um árið. Eins og sjá má er meiri villimaður í Dave, en fremur kabuki í Björk. Eins og vera ber.
Af þessu tilefni hlustaði ég á Dave aftur eftir langt hlé og þetta var bara skolli góð plata hjá honum. Það sakaði ekki að hann var með einvalalið með sér; Steve Vai á gítar, Billy Sheehan á bassa og Gregg Bisonette á trumbum. Bætti þess vegna við laginu Yankee Rose í tónlistarspilarann efst til hægri.
Óður til náttúrunnar í Laugardal | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2008 | 21:32
Hr. Rokk, langflottastur!
Það var sérdeilis ánægjulegt að sjá greifann af Keflavík, sjálfan hr. Rokk, Rúnar Júlíusson, heiðraðan fyrir sitt æviframlag á hátíðarsamkomu Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Rúnni Júl er og hefur alltaf verið langflottastur, sbr. goðsögnina um það þegar hann spilaði með landsliðinu í fótbolta á daginn, með landsliðinu í músík á kvöldin (Hljómum) og gekk svo til náða með Ungfrú Ísland (konu sinni Maríu Baldursdóttur) að loknu ærlegu dagsverki. Til þess að nýta tímann til fullnustu var hann einnig að smíða einbýlishúsum þær mundir. Íslenski draumurinn eða hvað?
Auðvitað hefur tónlistarferillinn ekki verið einstefna alla tíð, skárra væri það nú á 45 árum. En hann er eiginlega eins og Elvis Íslands: fyrir Rúnna var ekkert rokk. Einhverjir reyndu að spila þessa bítmúsík að utan, en það var hann, sem kom með rokkið í íslenska rokkið. Og hann er enn að. Geri aðrir betur!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.10.2007 | 21:08
Tilbrigði um stef
Á forsíðu Fréttablaðsins í morgun var sniðug mynd eftir Gunnar V. Andrésson, sem ég held að sé djákni íslenskra blaðaljósmyndara. En hún minnti mig á eitthvað.
Það var að rifjast upp fyrir mér á hvað hún minnir. Þarna er á ferð svipað myndmál og Brynjar Gauti Sveinsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, fangaði við svipað tækifæri fyrir tæpum þremur árum.
Þá var Þórólfur Árnason, borgarstjóri, við það að hrökklast frá völdum, og sú mynd sagði eiginlega alla söguna án þess að frekari skýringa væri þörf. Á henni sést Þórólfur borgarstjóri á hlaupum undan fjölmiðlafólki. Hann reisir upp fingur til merkis um að hann hafi engin svör, vilji frið og þurfi meiri tíma en aftast á myndinni sést sama táknið og Gunnar V. notaði líka, en það vísar á neyðarútgang úr Ráðhúsinu, sem borgarstjóra veitti ekki af. Myndin nær asa augnabliksins fullkomlega, fangar ringulreiðina í Ráðhúsinu á þessum dögum og er um leið táknræn fyrir atburðarrásina sem leiddi til afsagnar Þórólfs.
Það er Ólöf Rún Skúladóttir, sem er holdgervingur gervallrar fjölmiðlastéttarinnar á myndinni, en það er líka gaman að benda á að í hópi þeirra, sem á eftir ganga, grillir í Dag B. Eggertsson, nýráðinn borgarstjóra.
Þessi mynd Brynjars Gauta þótti svo snilldarleg að hún var valin fréttamynd ársins 2004 af Blaðaljósmyndarfélagi Íslands (BLÍ) og var þó sægur annarra sögulegra atburða það ár, sem gáfu af sér fjölda frábærra fréttamynda.
Stundum heyrir maður það viðhorf utan að sér að á Íslandi gerist svo fátt, að lítil von sé til þess að fá almennilegar fréttaljósmyndir, og aðrir láta eins og fréttaljósmyndir séu nánast eins og skraut með hinum skrifuðu fréttum. Þetta er hvort tveggja rangt. Það er raunar með ólíkindum hvað við eigum mikið af snjöllum blaðaljósmyndurum og frá þeim streymir urmull góðra fréttamynda, eins og við njótum á hverjum degi í blöðunum. Þær eru ekki bara eitthvert skraut, því sé myndin nógu góð verður hin skrifaða frétt lítið annað en skýringartexti. Ekkert íslensku blaðanna nálgast Morgunblaðið í myndnotkun, en Fréttablaðið hefur verið að sækja sig á, þó hönnum þess leyfi ekki miklar æfingar í þá veru. DV getur síðan öðrum blöðum fremur gert góðum myndum sérstök skil, en geldur þess að fréttastefna blaðsins er aðeins á ská við hina miðlana.
Til þess að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að taka fram, að ég er alls ekki að gefa í skyn að Gunnar V. Andrésson hafi gerst fingralangur eftir mótífi myndar sinnar. Öðru nær, enda þarf Gunnar ekkert að fá að láni annars staðar frá. Nær er að tala um tilbrigði við stef og með mynd sinni er hann að hreyfa hattbarðið til Brynjars Gauta.
Menning og listir | Breytt 18.10.2007 kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2007 | 14:50
Grímur tvær
Ég horfi stundum á einhvern hollívúddþátt í sjónvarpinu og verð djúpt snortinn af honum og finnst hann eiga við mig brýnt erindi. Svo fer ég í Þjóðleikhúsið og horfi á eitthvað sem lagðir hafa verið í miklir norrænir peningar og samískir danshöfundar hafa fórnað húsi og fjölskyldu til að gera að veruleika. Og mér finnst ég hafa farið hreina erindisleysu. Kannski er þetta partur af moldviðrinu. Það er ekki lengur allt sem sýnist. Mér finnst ég t.d. hafa upplifað á þorrablóti úti á landi meiri og sterkari leiklist en á stóra sviði Borgarleikhússins. Þarna eiga sér stað sterkari tjáskipti og það er meira rafmagn í loftinu og leiklistin er eins og heilandi hönd sem gerir alla glaða. Ef ég ætti að veita verðlaun fyrir annað hvort þá myndi þorrablótið fá Grímuna frá mér.
Þetta minnir mig á orðaskipti þeirra Einars Benediktssonar og Guðmundar Kambans í Kaupmannahöfn, sem Jakob F. Ásgeirsson skráði eftir meistara Kristjáni Albertssyni í bókinni Margs er að minnast. Kristján hafði tekið sér það fyrir hendur að leiða þessa tvo vini sína saman, en fundurinn varð ekki sérlega árangursríkur; kergja var í Kamban yfir blankheitum, óréttlæti heimsins og því skilningsleysi, sem honum fannst hann mæta sem leikritaskáld, og Einar hóf samtalið á því að biðjast afsökunar á því að hann væri um stundarsakir í bindindi:
Hafið þér nokkurn áhuga á leikritaskáldskap? spurði Kamban Einar Benediktsson og auðheyrt að svo fannst honum ekki vera.
Einar svaraði: Það hafa víst fáir Íslendingar eytt fleiri kvöldum í leikhúsum en ég.
Þá sagi Kamban: Ég hef svo háar hugmyndir um hlutverk leikhúsanna að ég fer nær aldrei á leiksýningar, því flest af því sem þar er sýnt er svo lítils virði.
Benni lýsir gerólíkri afstöðu og vafalaust heilbrigðari. Bæði fyrir sig og áhorfendur. Hann áttar sig líka á því að leikhúsið getur verið með ótal mörgu sniði:
Leikhúsið er byssa og í það er sett kúlan sem er verk höfundarins, og púðrið eru leikararnir og sá sem miðar er leikstjórinn en það er leikhússtjórinn sem tekur í gikkinn því hann ákveður hvenær hleypt skuli af. Og stundum er miðað á höfuð áhorfandans, stundum hjartað en svo eru líka til leikhús sem miða á kynfæri áhorfandans. Það er eitt í Kópavogi.
....................
Annars er sérstök ástæða til þess að mæla með fyrrgreindri bók þeirra Jakobs og Kristjáns, sem fá má í nýútkominni kilju. Hún er bráðskemmtileg og fróðleg, enda var Kristján þriggja alda maður, hann fæddist í Fróðafriði 19. aldar, upplifði hvernig heimurinn breyttist í stríðinu mikla og enn frekar í Seinni heimsstyrjöldinni, því hann bjó í Þýskalandi þegar það braust út, dvaldi þar til 1943 og var síðan í Kaupmannahöfn til stríðsloka. Því var ekki fyrr lokið en Kalda stríðið skall á og þar var Kristján þátttakandi, bæði fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi og ekki síður fyrir eigin hönd og frjálsrar hugsunar í hinni hörðu hugmyndabaráttu áratuganna, sem á eftir sigldu.
Kristján hafði ótrúlegt minni og gat farið orðrétt með ræður, sem hann hafði heyrt einu sinni, endur fyrir löngu. Ísland hefur sjálfsagt ekki átt annan eins heimsborgara fyrr og síðar, hann var víðförull, höfðingjadjarfur og forvitinn menningarjöfur, sem hitti ótrúlegasta fólk á lífsleiðinni og náði trúnaði þeirra flestra. Má nefna Matthías Jochumsson og Þorstein Erlingsson, Konrad Adenauer og Maxím Gorkí. Sjálfur lýsir hann líkast til öldunum sínum þremur best þegar hann minnist á það undur þegar hann 13 ára frétti af því afreki Louis Blériot að fljúga með naumindum yfir Ermarsund þar sem það er styst, en aðeins 50 árum síðar sat hann skemmtilegan kvöldverð með Neil Armstrong og félögum, sem flogið höfðu til Tungslins án verulegra vandkvæða.
28.5.2007 | 15:42
Purple enn í Höllinni
Ég fór á afskaplega skemmtilega tónleika Deep Purple, sem Concert hélt í Laugardalshöll í gær. Það lifir lengi í gömlum glæðum og Ian Gillan náði að hita upp furðukaldan sal án vandræða. Það sást langar leiðir að bandið skemmti sér konunglega við þessa iðju, þó stofninn í henni sé kominn á sjötugsaldur. Röddin í Gillan er vitaskuld ekki alveg sú sama og áður, en þó er mesta furða hvað hann nær að keyra hana. Trumbuslagarinn Ian Paice er svo nánast náttúruundur og hefur engu gleymt. Ég hafði sérstaklega gaman af því að þó manni sýndist að hann hefði alveg nóg að gera við hendurnar á sér, þá munaði hann ekki um það að pota gleraugunum ofar á nefið með reglulegum hætti án þess að það kæmi niður á bumbubarningum. Það var helst að ég væri óánægður með gítarleikarann Steve Morse. Ég er ekki að ætlast til þess að hann stæli hinn eina sanna Ritchie Blackmore, en mér finnst gítarstíllinn hans alveg út úr kú með Purple. Hann er fingrafimur og getur leikið sér að 80's hármetal riffum með rifjárns ívafi, en mér fannst hann hvorki gera það vel né svo hæfði hljómsveitinni. Það ætti einhver að kynna Deep Purple fyrir Gumma Pé.
Þetta truflaði þó ekki upplifunina og það var frábært að rifja upp kynnin við slagara á borð við Strange Kind of Woman, Lazy, Space Truckin', Highway Star, Hush, Black Night og Smoke on the water. Og það var fjölskyldustemming í Höllinni, þar mátti finna fólk sem var á tónleikunum 1971, fólk á miðjum aldri eins og mig, glænýja metalhausa og krakka, sem kunnu lögin utan af og sungu þau með af lífs og sálar kröftum á háhesti á pabba.
Ian Gillan er merkilegur náungi fyrir margra hluta sakir, vel skrifandi og heimspekilega þenkjandi. Á vef sínum hikar hann ekki við að taka Richard Dawkins til bæna, gagnrýna hvernig Evrópusambandið er að fara með hans heittelskaða England og svo framvegis. Þar er líka að finna sambland af bloggi og sagnabanka, sem er gaman að glugga í. Gillan er ágætur sögumaður eins og sjá má á myndbandinu að neðan, þar sem hann greinir frá ýmsum örðugleikum árið sem hann söng með Black Sabbath. Það er eins og beint úr Spinal Tap, þó líkindin séu nær örugglega tilviljun. Í ræmunni minnist Gillan á Ronnie James Dio, fyrirrennara sinn í Sabbath, en hann hefur löngum verið talinn með allralágvöxnustu mönnum rokksins og er samkeppnin þó hörð.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.1.2007 | 15:57
Úr byrgi til andlegra auðæfa
Kristján B. Jónasson, bókmenntafræðingur, bókagerðarmaður og formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, er með alskemmtilegustu mönnum og heldur úti bloggi hér í sókninni, sem er ljúf skyldulesning fyrir alla bókkæra menn. Og fleiri raunar, því það er mikið varið í lýsingu á samtímanum með hliðsjón af bókmenntum aldanna.
Í nýjustu færslunni minnist hann á bókmenntalegan grunn Byrgis-málsins og harmar að varla sé til snifsi af grunnritum þeirra fræða á íslensku, ekkert eftir markgreifann de Sade eða von Sacher-Masoch og segir hið eina, sem komið hafi út af viti hérlendis vera Sögu augans eftir Georges Bataille í þýðingu Björns Þorsteinssonar.
Varðandi Leopold von Sacher-Masoch, sem sjá má hér að ofan, var hann ljóslega hinn merkasti maður, þó ekki væri nema fyrir þá einstæðu að bæði nöfn hans hafa ratað í orðabækur, annars vegar í alþjóðlega orðinu masókismi og hins vegar í Sacher-tertunni, sem er ekki síður alþjóðleg í vinsældum sínum þó hún dragi raunar nafnið af Franz, frænda hans. Ég las einhverntíman snotra gotneska novelettu eftir hann, Marzella eða Æfintýrið um hamingjuna, sem kom út 1929. Það var alveg ágætt, en þar var ekki eftir neinu fyrir leðurmenn í Byrginu (dýflyssunni?) að slægjast.
Svo ég fletti Sacher-Masoch upp í Gegni og viti menn, þar var miklu meira að finna eftir karlinn en mig hafði órað fyrir, jafnt og þétt frá 1889 til 1949. Og hvað skyldi hafa verið hið fyrsta, sem kom út á íslensku eftir hann? Auðvitað var það grein í Sögusafni Þjóðólfs undir fyrirsögninni Besti grundvöllur hjónabandsins! Svo kom fleira út eftir hann í sögusafni Ísafoldar, skáldsagan Fjegraftarmaðurinn virðist hafa verið útgefin tvisvar með 27 ára millibili, 1903 og 1930, og loks kom út bókin Dómarinn með hljóðpípuna árið 1949.
Nú var það auðvitað stórmerkilegt, hve mikið af fagurbókmenntum (og ritgerðum og vísindagreinum) var þýtt á íslensku á þessum árum, gefið út í alþýðlegum og aðgengilegum útgáfum, og lesið upp til agna. Það hefur örugglega orðið þessari nýendurfæddu þjóð til mikillar blessunar. Hún var þá að komast frá örbirgð til auðlegðar með undraskjótum hætti og orsakasambandið þar á milli var vafalaust gagnkvæmt.
Þessi árin upplifum við annan eins uppgang í efnalegum skilningi, en er upplýsingin með samsvarandi hætti? Aðgangur að margvíslegu efni til dægrastyttingar er nægur og með fylgir líka fræðsluefni í einhverjum mæli. En þegar kemur að hinu djúpristara óttast ég að það sé nær ekkert framboð af alþýðlegu efni og þvert á móti í tísku að þvæla fræðin svo mjög, að þau komast aldrei úr fílabeinsturnum akademíunnar með illum afleiðingum, beggja vegna múranna. Samt mætti draga þá ályktun af vinsældum Draumalands Andra Snæs Magnasonar (sama hvað mönnum kann að finnast um efnistökin), að almenning þyrsti í slíkt efni. Væri ekki verðugt viðfangsefni fyrir íslenska útgefendur og fjölmiðla að reyna að bæta úr því?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 04:29
Sykursæt endurkoma
Ég má til með að skjóta því að hér hvað ég hafði einstaklega gaman af 20 ára afmælistónleikum Sykurmolanna á föstudag. Ég var staddur í Duus-húsi fyrir 20 árum þegar Ammæli var frumflutt á pínulitlum útgáfutónleikum og einhversstaðar luma ég enn á plötunni. Þegar ég heyrði tónana úr því öldungis frábæra lagi duna í Laugardalshöll fékk ég gæsahúð. Ég eilítið sentímental á stundum.
En tónleikarnir voru hreint út sagt æði. Ég sá Sykurmolana nokkuð oft hér um árið miðað við meðal-Íslendinginn að minnsta kosti og ég held að spilagleðin hafi aldrei verið meiri. Björk var í fantaformi og Einar Örn sló ekki af gömlum töktum (þó hann játaði raunar fyrir mér eftir tónleika að hann hefði betur haft súrefniskút til taks beggja vegna sviðsins!). Sigtryggur hefur sjálfsagt aldrei lamið trumburnar af meira öryggi og það var gaman að sjá að Bragi hefur engu gleymt þó hann hafi um hríð ekki snert bassann. Það leyndi sér heldur ekki hvað hann hafði gaman af þessu. Hið sama má segja um Möggu Örnólfs. Og sjálfur gítarguðinn Þór Eldon, sem fæstir hafa séð bregða svip, mátti ekki halda aftur af breiðu brosinu. Þegar Johnny Triumph steig svo á svið ásamt þeim Örnólfi Eldon og Hrafnkatli Flóka Einarssyni til þess að úrskýra Lúftgítar fyrir þjóðinni var þetta svo fullkomnað. Þið fyrirgefið hrifninguna, en þetta var fyrsta flokks fjölskylduskemmtun.
Menning og listir | Breytt 24.11.2006 kl. 03:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2006 | 00:48
Íslenskudagurinn
Dagur íslenskrar tungu er nýliðinn. Jafnvel nafngiftin felur í sér þá upphafningu, sem ég held að reynist málinu síst til framdráttar. Eða finnst einhverjum (sem ekki drekkur reglulega te í Norræna húsinu, gengur í fótlaga skóm eða heldur að hann sé skáld) uppskrúfað orðfar aðlaðandi? Mér heyrðist raunar í útvarpsviðtali við Njörð P. Njarðvík, hinn nýbakaða handhafa Jónasarbikarsins í íslensku innanhúss, að hann væri fremur á því.
Ekki er það betra stofnanamálið, sem furðumargir virðast ímynda sér að geri texta á einhvern hátt virðulegri, nú eða faglegri eða bara eitthvað annað en ótínd alþýðan notar í fánýti sínu dags daglega. Þeir skriffinnar lifa í veröld þar sem fólk fer á bifreiðum í söluturna til þess að leigja myndbönd, en hér á Íslandi látum við okkur bíla, sjoppur og spólur duga. Ef maður fyndi óhugnaðinn aðeins í rituðu máli hjá opinberum starfsmönnum væri ástandið kannski þolandi, en einkageirinn fylgdi illu heilli eftir og nú verð ég æ oftar var við þetta hrognamál hjá Jóni og Gunnu, sem maður hefði haldið að væri ekki í smithættu. Það notar ósköpin ekki hversdags, en ég tek eftir því þegar önnur hver sjónvarpsstöðin stingur hljóðnema upp í aumingja fólkið til þess að spyrja frétta eða álits. Þá setja margir sig í einhverjar stellingar, fara að tala um aðila og ferli frekar en fólk og aðferðir.
Alla mína ævi hef ég þurft að hlusta á fólk, sem hefur haft áhyggjur af hnignun íslenskunnar, en samt verð ég nú ekki var við annað en að flest fólk geti talað hana skammlaust þegar á þarf að halda. Sérstaklega þegar það skammast (sem er kannski ástæðan fyrir því hve mörgum finnst Steingrímur J. Sigfússon bera af öðrum þingmönnum í málnotkun að ég segi ekki málflutningi!). Í fyrrnefndu viðtali nefndi Njörður, að hann hefði einna mestar áhyggjur af skeytingarleysi um málið. Ég held hann hafi rangt fyrir sér, flestir sem ég þekki og hitti hafa áhuga á málinu og er sæmilega umhugað um að tala gott mál. En kannski letin komi við sögu, menn nenna ekki alltaf að vanda sig. Kannski það sé skeytingarleysi eða vanræksla.
Eitt tíndi Njörður þó til, sem ég var honum hjartanlega sammála um, en það var að orðaforði hefði jafnt og þétt rýrnað á undanförnum áratugum. Hann rakti það helst til þess að menn læsu ekki jafnmikið og áður og það held ég að sé líka hárrétt hjá honum. En ég ætla ekki að kenna síbyljunni, erlendu sjónvarpsefni eða tölvuleikjum um. Þarna hefur menntakerfið nefnilega brugðist í einu og öllu. Hvað þurfa grunnskólabörn að lesa margar bækur á skólagöngu sinni? Alvörubækur ekki námsbækur á kjarnyrtri og góðri íslensku? Ætli þær séu ekki 3-4 alls og þá ekki fyrr en undir lok grunnskóla. Í stað þess, að kenna börnum málið með því að lesa, skrifa og tala, er dýrmætustu námsárunum gereytt í málfræði, setningafræði og ámóta ömurð. Er einhver viðvarandi skortur á málfræðingum, sem mér er ókunnugt um?
Menn tala varla um íslenskuna án þess að minnast á aðsteðjandi hættur og þá er enskan vinsælasti ógnvaldurinn. Ég hef raunar alltaf verið fremur efins um þá tilgátu og held að hættulegasta málmengunin komi enn frá dönsku eða skandinavísku. Vissulega sletta menn mikið á ensku, en þær slettur eru alltaf augljósir aðskotahlutir, norrænu áhrifin eru hins vegar lymskulegri og leynast betur, enda skyldleikinn miklu meiri. Ensku áhrifin eru hins vegar að aukast og sérstaklega á það við skriffinnamálið, sem ég vék að orðum að ofan, en það ber óneitanlega sterkan keim lélegra þýðinga úr ensku. Nafnorðastíllinn er sjálfsagt að mestu þaðan kominn líka.
En eitt til má nefna illt um enskuna og það þar sem síst skyldi. Einar skáld Benediktsson kvaðst skilja, að orð væri á Íslandi til um allt, sem væri hugsað á jörðu, en auðvitað var það ofmælt. Upp á síðkastið hafa hins vegar margir reynt að gera þetta að sannindum með því að smíða orð um sérhvert hugtak og hlut. Þar eru fremstar í flokki íðyrðanefndir, málstöðvar og þess háttar þing, en enskan sem er hið alþjóðlega tungumál tækni og vísinda er ljóslega fyrirmyndin. En þetta starf er einatt á miklum misskilningi byggt, misskilningi á eðli málsins. Oddur biskup Einarsson hafði áttað sig betur á þessu í Íslandslýsingu sinni í upphafi 17. aldar:
Ekki var heldur ætlunin að fjölyrða um auðgi og frjósemi þessarar tungu, svo auðvelt sem er að sýna fram á það, því einu og sama orðtakinu eða orðatiltækinu má í íslensku umbreyta með margvíslegu móti, og er það ekki síst á færi þeirra, sem handgengnir eru hinni fornu smekkvísi í máli, sem næg verksummerki sjást um í handritum. Er þetta að þakka geysilegum fjölda samheita og undraverðri fjölbreytni í óeiginlegum merkingum orða og talshátta, svo að ef tekið er nákvæmt tillit til orð- og setningarskipunar, verður mál vort alls ekki talið óheflað eða losaralegt.
Þorsteinn heitinn Gylfason, sem var afbragðsþýðandi og íslenskumaður auk alls hins, sem honum var til lista lagt, kunni einnig á þessu skil. Sumsé að íslenskan þarf ekki orð um hvern hlut, því merking orðanna felst ekki síður í samhengi þeirra. Þannig gefum við þeim merkingu eftir þörfum fremur en að þurfa að eiga eitt og einstakt orð yfir sérhvern hlut og hugtak. Kaffibolli breytist þannig í öskubolla með því einu að drepið sé í sígarettu í honum. Allir skilja orðið, en ætli nokkrum detti í hug að senda seðil um það til Orðabókar Háskólans?
Þess vegna finnst mér merkilegt að Námsgagnastofnun gengst fyrir samkeppni um nýyrðasmíð, þar sem auglýst er eftir íslenskum orðum yfir tíu ensk hugtök, sem talsvert er slett hér. Ég fæ ekki séð að nokkurt þeirra feli í sér merkingu, sem ekki er þegar til orð yfir á íslensku, sum eru þegar í notkun, önnur eru yfirfærðrar merkingar en myndu hæglega skiljast. Að neðan gef ég dæmi í samræmi við forskrift Námsgagnastofnunar, en það er svo sem skemmtilegt að stofnunin gefur engar skýringar á orðunum umfram samhengið!
casual Hann var í mjög hversdags fatnaði
crossover Músíkin hans er flakk milli popps og rokks
date Ég var að hitta hana lengi
fusion Á hótelinu er samsuðu-eldhús
nick Ég sendi þér nefnið mitt á MSN
outlet Ég fór í lagerbúð í Bandaríkjunum
skate Við skautuðum á Ingólfstorgi í gær
surf Ég þvældist um á Netinu í gær
trendsetter Hún er mikill hvatamaður í tískunni
wannabe Hann er uppskafnings-rokkstjarna
Hitt er svo annað mál hvort nokkurt ofangreindra orða nái fótfestu í daglegu máli, enda eru flestar sletturnar á jaðrinum fyrir. Flestir kjósa að nota sletturnar frekar íslensk orð til þess að gefa til kynna að þeir séu sér á parti, tiltekinnar kynslóðar eða ámóta. Og er það ekki allt í lagi? Þegar ég var unglingur tíðkuðust alls kyns orð, sem fáir myndu nota núna kinnroðalaust. En við vildum einmitt temja okkur annað tungutak en við áttum að venjast af foreldrum okkar og kennurum. Plus ça change og allt það.
Njörður P. Njarðvík fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 24.11.2006 kl. 03:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar