Leita í fréttum mbl.is

Veðrið í Víti

Ég undraðist netveðurfréttirnar frá Helvíti þar til ég fylgdist með kvöldfréttunum og komst að því að Gísli Marteinn Baldursson hefði beðist undan viðtölum. 


Hneykslið heldur áfram

Það ber vissulega vott um að það sé að rofa til í kollinum á þessum herramönnum, að nú eigi allir starfsmenn Orkuveitunnar að fá að njóta peningaprentvélarinnar í kjallara kastalans á Bæjarhálsi 1. En það ber vott um slægð og sjálfsbjargarviðleitni, ekki réttsýni og siðferðisvitund. Eins og þeir greina sjálfir frá:

Ljóst sé að umræða undanfarinna daga hafi ekki jákvæð áhrif á REI og það góða starf sem þar sé unnið. Þar hafi meginþungi umræðunnar beinst að afmörkuðum þætti sem sé sala á hlutabréfum til starfsmanna. Viðkomandi starfsmenn séu sammála því að það séu hagsmunir þeirra og fyrirtækisins að friður ríki um starfsemi þess og sýna því niðurstöðunni fullan skilning.

Þetta er sem sagt almannatengslaaðgerð, ekkert annað.

Á hitt má fallast, að það er miður að meginþungi umræðunnar skuli hafa beinst að þessum afmarkaða þætti hennar. Við getum þá kannski tekið að ræða veigameiri þætti málsins; af nógu er að taka.

Ég vil þó staldra við þennan afmarkaða þátt aðeins lengur. Gefum okkur eitt augnablik að það sé alveg frábært mál að almenningsfyrirtæki noti einokunartekjur sínar til þess að breyta sér í vogunarsjóð. Í þá stöðu komst fyrirtækið með því að hafa borgarbúa og borgarsjóð í ábyrgðum um leið og tekjurnar komu einnig úr vasa borgarbúa. Þessir sömu borgarbúar eru jafnframt eigendur fyrirtækisins.

Skýrt hefur verið frá því að stefnt sé að skráningu hins nýja sameinaða Reykjavík Energy Invest á hlutabréfamarkað, sem hugsanlega gefur vísbendingu um hversu lengi atvinnumennirnir í áhættufjárfestingum hyggjast staldra við. Ef helmingurinn af framtíðarsýn forystumanna fyrirtækjanna reynist á rökum reistur er ekki ólíklegt að verðmæti þess aukist næsta hratt, þó auðvitað sé ekkert í hendi um það. Svo ég spyr:

Af hverju í ósköpunum er eigendum fyrirtækisins
ekki gefinn kaupréttur í fyrirtækinu?

Það voru þeir, sem byggðu Orkuveituna og fyrirrennara hennar upp, og það eru þeir, sem hafa lagt fram megnið af verðmætunum, sem hið nýja fyrirtæki er reist á. Um það höfðu þeir ekkert val, hvorki um uppbyggingu fyrirtækisins né hvort þeir keyptu þjónustu hennar.

Það er alveg ljóst að fyrirtækið hefur okrað á eigendum sínum og viðskiptamönnum fyrst það á alla þessa fjármuni aflögu og hefur það þó einbeitt sér að því að gereyða peningum í vitleysu, bruðl og gæluverkefni mörg undanfarin ár. Þá var hafður uppi alls kyns fyrirsláttur og fals um það hvers vegna fjárþörf fyrirtækisins væri svo rúm. Eins voru arðgreiðslur til Reykjavíkurborgar oft býsna ríflegar, sem vitaskuld var ekkert annað en dulin skattheimta.

Allt þetta báru borgarbúar, borguðu og brostu. Nú skilst manni að auðgast megi á verðmætum, sem þrátt fyrir allt hafi byggst upp hjá fyrirtækinu, víðar en hjá hinum einokuðu viðskiptamönnum og eigendum fyrirtækisins. Og þess vegna eru nú allar þessar vélar, að græða á því pening, þó svo að stjórnendum borgarinnar og fyrirtækisins hafi ekki viljað spyrja kjörna fulltrúa eigendanna, hvað þá eigendurna sjálfa. Þeir vildu ekki einu sinni umræðu um það, hvað þá meir, sem vekur ákveðnar spurningar um tilganginn og meðölin.

En hvað verður um arðinn ef allt gengur vel? Fá eigendurnir hann? Nei, en það er talað um að þeir muni njóta hans. Já, já, eins og þeir hafa notið arðsins af Orkuveitunni til þessa. Þessa óljósa arðs af einokunni á þeim sjálfum. Og öll vitum við hvað borgin fer vel með fjármuni almennings. Næstum því jafnvel og Orkuveitan. Það verður aðeins enn ein tegund skattheimtu, en menn skyldu ekki ímynda sér eitt augnablik að það verði til þess að útsvarið lækki.

Ég bíð spenntur eftir að borgarstjóri eða stjórnarformaður fyrirtækisins sýni það frumkvæði að bjóða eigendunum kaupréttartilboð, fyrst nú liggur fyrir viðurkenning þeirra á því að einhver tiltekinn hópur eigi það skilið. Getur nokkur hópur verið betur að því komin en hinn óspurði eigendahópur, sem jafnframt hefur unað eiginfjársöfnun úr öllu hófi og það á eigin kostnað? Það hlyti enda að styrkja fyrirtækið mjög ef það yrði raunverulegt almenningshlutafélag á fyrsta degi skráningar á markaði, með dreift eignarhald,
áþreifanlega tiltrú almennings og svo framvegis.

Hvernig væri að ræða það mál sérstaklega og til hliðar við aðra anga málsins? Án þess að draga af okkur við að brjóta þá til mergjar. 


mbl.is Samþykkt að endurskoða sölu á hlutabréfum í REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. október 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband