12.5.2007 | 15:58
Um hvað er svo kosið?
Það hefur verið vinsælt umræðuefni í aðdraganda kosninga, að hún hafi reynst í bragðdaufara lagi. Það er ekki hægt að tala um að kosningabaráttan hafi helgast af neinum tilteknum málefnum, líkt og t.d. sjávarútvegsmálin voru í síðustu kosningum. Eins eru leiðtogastjórnmálin engan veginn jafnafgerandi og síðast, þegar Davíð Oddsson tók sinn síðasta slag og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var boðin fram sem forsætisráðherraefni og manni skildist að það væri síðasti sjens fyrir mannkyn að taka því kostaboði að geta kosið sér konu í það embætti, sem þó var ekki í boði. Af hverju hefur maður ekki heyrt orðið forsætisráðherraefni í þessari baráttu?
Hvað sem því líður held ég að kosningarnar snúist í flestra hugum um Geir H. Haarde og hæfni hans til þess að vera forsætisráðherra. Kannanir um fylgi flokkanna hafa verið á ýmsa lund og sumar misvísandi, en allar kannanir um hvernig menn vilja sjá Stjórnarráðið skipað að kosningum loknum eru á eina lund: Þorri þjóðarinnar vill greinilega að Geir verði áfram við stjórnvölinn. Til þess að svo megi verða er aðeins ein leið til þess að tryggja það, en hún er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það dugir ekki að kjósa einhvern annan flokk í von um að gera hann líklegri til þess að komast í ríkisstjórn með Geir, orð leiðtoga stjórnarandstöðunnar í sjónvarpssal í gærkvöldi tóku af öll tvímæli um það, að stjórnarandstöðuflokkarnir miða enn að því að mynda vinstristjórn.
Hér gæti ég skrifað langt mál um það hvers vegna það væri afleit ógæfa, að yfir landið kæmi vinstristjórn, en vísa nú bara til fyrri skrifa um það allt. En ég var spurður um það af bestu vinkonu minni, nokkuð vinstrisinnaðri, hvers vegna það væri svo afleitt að gefa gömlu stjórninni frí og leyfa vinstrimönnum að spreyta sig við landsstjórnina. Ég vissi sem var að ég kæmist ekki langt með röksemdafærslu frjálshyggjunnar við hana, en af því að ég þekki talsvert til haga hennar, fór ég aðra leið. Við nánari umhugsun finnst mér með ólíkindum að hafa ekki heyrt þau rök í kosningabaráttunni.
Íslendingar hafa lifað ótrúlegt hagsældartímabil undanfarin ár. Því hafa fylgt miklar fjárfestingar heimilanna, sem að miklu leyti hafa verið fjármagnaðar með lántökum í trausti þess að efnahagslífið haldist stöðugt og hér verði engar kollsteypur. Að hagur manna haldi áfram að vænkast, kaupmáttur aukist, atvinnuástandið blómstri enn og allt það. Svo ég spurði þessa mína góðu vinkonu, af því að hún hefur fjárfest í litlu huggulegu húsi hér í Þingholtunum: Mátt þú við því að órói komist á peningamarkaðinn og greiðslubyrðin þyngist, jafnvel hið minnsta? Mátt þú við því að kaupmátturinn standi í stað, hvað þá að hann minnki? Mátt þú við því að missa vinnuna, þó ekki væri nema í 2-3 mánuði?
Hún svaraði öllum þessum spurningum neitandi og ég hygg að þeir séu æði margir aðrir, sem eins er ástatt fyrir. Ég veit að ég er einn þeirra.
Vinkona mín getur ekki fengið af sér að kjósa íhaldið, en hún fór að spyrja mig talsvert út í Framsóknarflokkinn. Hvort það væri ekki rétt skilið hjá sér að framsóknarmenn stæðu við gefin loforð, þó þeir væru lúðalegir og ekki með ýkja spennandi hugmyndafræði. Jú, ég gat tekið undir það, að þeir legðu nokkuð upp úr því og eins að flokkurinn væri sem kjörinn fyrir hana, því fyrst og fremst stæði hann fyrir öfgaleysi og hófstillta framfarastefnu með félagslegu ívafi. Ég held að Jón Sigurðsson fái a.m.k. einu fleira atkvæði en síðustu kannanir gáfu til kynna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.5.2007 | 15:17
Hátíðardagur í Norður-Reykjavík
Ég var alinn upp við það að kjördagur væri hátíðardagur og eins og vant er klæði ég mig upp í tilefni dagsins, vel fallegt bindi og pússa skóna. Svo er að kjósa rétt.
Í mínu kjördæmi getur verið vandi að velja milli lista, þó það vefjist ekki fyrir mér. Minn gamli vopnabróðir, Guðlaugur Þór Þórðarson, leiðir lista sjálfstæðismanna og hefur náttúrlega nokkuð forskot í mínum huga. En ef heimurinn væri svo skrýtinn, að ég væri fráhverfur Sjálfstæðisflokknum þennan annars ágæta dag, þá er ýmislegt gott fólk í framboði hjá öðrum flokkum. Katrín Jakobsdóttir, ágæt vinkona mín, leiðir lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og ég er viss um að Alþingi verður betri staður með hana þar. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, leiðir lista hans, en að mínu viti er hann sá stjórnmálamaður, sem mest hefur vaxið í þessari kosningabaráttu. Það væri slys ef hann kæmist ekki á þing. Og ekki má gleyma Össuri Skarphéðinssyni, leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna, sem fer fyrir lista Samfylkingarinnar í kjördæminu.
Á hinn bóginn verð ég að játa að það kitlar ekki mikið að geta kosið Magnús Þór Hafsteinsson, oddvita frjálslyndra. Fyrir nú utan það að ég átta mig ekki á því hvaða erindi sá tækifærissinnaði orðhákur á á Alþingi, þá kann hluti máflutnings hans að hafa haft áhrif á mig: Sem Reykvíkingur get ég ekki hugsað mér að kjósa einhvern Akurnesing á þing. Ég þekki hans gömlu flokkssystur, Margréti Sverrisdóttur, af góðu einu (ef undan er skilið daður hennar við kynþáttastefnu frjálslyndra á síðasta landsfundi þeirra), en ég held að ljóst sé orðið að Íslandshreyfingin fer erindisleysu í þessum kosningum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2007 | 15:07
Dauflegur lokasprettur
Umræðuþáttur stjórnmálaleiðtoganna í gærkvöldi var upplýsandi, en ekki var hann nú ýkja skemmtilegur eða til þess fallinn að skerpa skilin fyrir kjósendur. En þegar hér er komið í kosningabaráttunni eru það kannski ekki karp um einstök málefni, sem mest áhrif hafa á kjósendur, heldur fremur persónuleg frammistaða, ímynd og útgeislun. Í þeim efnum veittist ýmsum betur.
Ég fékk að vísu ekki séð að ímyndarráðgjafar hafi komist í tæri við stjórnmálaleiðtogana nema Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem bar af í klæðaburði. Karlarnir voru hins vegar allir fremur gráir og guggnir í því samhengi; helst að Jón Sigurðsson hefði valið sér bindi, sem tískulöggur gætu fellt sig við. Hvað framkomuna áhrærði voru leiðtogarnir flestir sjálfum sér líkir. Geir H. Haarde var öryggið uppmálað og óneitanlega sá eini, sem bar með sér fas forsætisráðherra. Mér fannst Ingibjörg Sólrún líka standa sig vel, þó á annan hátt væri, hún var brattari en maður hefur séð hana um langan tíma og það kann að hafa sitt að segja.
Sem fyrr segir er ég efins um að kappræðan í Kastljósinu hafi haft mikil áhrif á lokasprettinum. Gæti trúað því að kosningaþáttur Stöðvar 2 á miðvikudagskvöld hafi reynst sá vettvangur, sem mótaði afstöðu flestra óvissra kjósenda. Þátturinn bar líka af sem gull af eir þegar litið er til kosningaaðdraganda sjónvarpsstöðvanna.
12.5.2007 | 14:53
Siðferðismælikvarðar barónsins af Bónus
Það hafa margir fært í tal við mig auglýsingaherferð Jóhannesar Jónssonar í Bónus, þessari sem er beint gegn Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Menn spyrja hvað megi lesa út úr henni, hvort hún hafi áhrif og hvort svona auglýsingar séu passandi.
Helgi Hjörvar sagði mér þá sögu einu sinni, að vorið 1996 hefði hann verið afskaplega upptekinn ungur maður í kosningastjórn Ólafs Ragnars Grímssonar, sem þá þóttist hættur í pólitík og vildi komast á Bessastaði. Talsvert fyrir kosningar hafi pabbi hans hins vegar boðið honum að koma með sér og nokkru fylgdarliði í mikinn reiðtúr, en til ólukkunnar var hann einmitt ráðgerður um kosningahelgina, svo Helgi þurfti að afþakka boðið þó hann dauðlangaði með. Á fimmtudag fyrir kosningar birtust hins vegar auglýsingar í fjölmiðlum, sem kostaðar voru af athafnamönnunum Björgólfi Guðmundsyni, Ómari Kristjánssyni og Sigurði Helgasyni, en þar voru kjósendur vaktir til umhugsunar um pólitíska fortíð Ólafs Ragnars. Þær auglýsingar ollu ekki minni titringi en auglýsing Bónus-barónsins nú, enda ýmislegt í fortíð hans sem orkaði tvímælis. Kosningaskrifstofa Ólafs fór á taugum og sendi frá sér svör, þar sem raunar var ekki aðeins farið með rétt mál. En Helgi fór ekki á taugum. Þvert á móti. Hann lagði frá sér blaðið við morgunverðarborðið, tók upp símann og sagði pabba sínum, að auðvitað kæmist hann með, það væri ekki fleira að gera í kosningabaráttunni.
Þetta mat Helga reyndist auðvitað rétt. Einu gilti þótt auglýsingarnar vektu athygli á réttmætum efasemdum um forsetaframbjóðandann, sem sagan hefur raunar staðfest síðan, að full ástæða var til þess að hafa áhyggjur af. Kjósendur virtust flestir líta á þessa íhlutun manna úr athafnalífinu sem óviðurkvæmileg afskipti af gangverki lýðræðisins. Þeir vildu ekki láta peningamenn segja sér fyrir verkum og voru þeir félagarnir þó fráleitt með auð eða áhrif í einhverri líkingu við Jóhannes nú.
Ég dreg því í efa að auglýsing Jóhannesar hafi mikil áhrif, þó sjálfsagt muni einhverjir verða við áskorun hans. Því má ekki gleyma að margir líta til hans sem velgjörðamanns alþýðunnar og ekki síður hinu, að hann er vinnuveitandi þúsunda manna.
En hvað býr að baki þessari heift hans í garð Björns Bjarnasonar? Björn hefur vissulega ekki legið á skoðunum sínum um vinnubrögð Baugsmanna í opinberri umræðu, en það er nákvæmlega ekkert, sem bendir til þess að hann hafi sem dómsmálaráðherra haft neinn atbeina að Baugsmálinu umfram það, sem skyldan hefur boðið. Enda nefnir Jóhannes ekkert um það. Hann talar aðeins um hina löngu rannsókn og ferð málsins um dómskerfið, en hvernig í veröldinni má kenna Birni um það? Enginn vafi virðist vera um það lengur að Baugsmenn brutu lög, en vera kann að þeir sleppi með skrekkinn vegna óljósra refsiheimilda laga. En hvað kemur það samsærinu mikla við, sem Jóhannes hefur dylgjað um öðru hverju?
Rannsóknin var vissulega löng og viðamikil, enda gaf umfangið og alvarleikinn tilefni til, en hver skyldi nú hafa valdið mestum töfum þar á? Gæti hugsast að þar hafi nokkru um valdið eilífar frestanir á viðtölum við sakborninga (að sögn vegna anna erlendis, þó á sama tíma hafi birst fréttir af þeim í lystireisum), bið eftir alls kyns boðuðum gögnum (sem skiluðu sér misvel), og endalausar vífilengjur fyrir dómstólum, þar sem ekkert tækifæri hefur verið látið ónotað til þess að draga málið á langinn? Spyr sá, sem veit.
Heift Jóhannesar má þannig ljóslega rekja til þess, sem Björn hefur sagt og skrifað um baróninn af Bónus, son hans og húskarla. Ekkert af því hefur verið tilefni til lagalegra aðgerða Baugsmanna gegn honum og eru þeir þó seinþreyttir til slíkra verka. Eins liggur fyrir dómsorð um að málflutningur ráðherrans sé öldungis innan þess ramma, sem stjórnmálamenn hafa til þess að ræða veigamikil mál samfélagsins. En orðin komu við kaunin og þess vill Jóhannes hefna.
Það er sjálfsagt alvarlegasti hluturinn við þessar auglýsingar, að með þeim er Jóhannes ekki aðeins að reyna að hefna sín á Birni, heldur er hann um leið að senda viðvörunarskot fyrir bóginn á öllum stjórnmálamönnum eða því fólki, sem gæti hugsað sér að leggja þá iðju fyrir sig, um að þeir skuli ekki voga sér að láta í ljós skoðanir á nokkrum þeim málum, sem Jóhannesi eru á móti skapi. Það er skelfileg þróun og ömurleg afstaða auðjöfurs til lýðræðisins og umræðuhefðar þess.
Nú má auðvitað segja sem svo, að Jóhannes megi sem hver annar kjósandi láta í ljós skoðanir sínar á Birni, að hann sem stjórnmálamaður verði bara að þola það. Og þannig er það auðvitað. Jóhannes má neyta málfrelsis síns með þeim hætti, sem hann velur, og auglýsingar eru betur til þess fallnar en stæði hann á sápukassa á Ráðhústorgi á Akureyri að þusa þetta. Í því samhengi hefði ég samt talið eðlilegra að hann sem kjósandi hefði sig í frammi í eigin kjördæmi en annarra. En eins og Jóhannes víkur að, þá er hann ekki að þessu í pólitísku skyni, heldur segist hann vilja stöðva það, sem honum finnst vera siðleysi. Gott og vel, krafa um siðferðisstyrk á þingi á tæpast að vera einskorðuð við kjördæmi. En er þá ekki merkilegt, að á siðferðismælikvarða Jóhannesar Jónssonar baróns af Bónus skuli frambjóðandinn Árni Johnsen engum tíðindum sæta? Hvað þá áskorun um útstrikanir?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.5.2007 kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggfærslur 12. maí 2007
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.10.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 406310
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar