Leita í fréttum mbl.is

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins

Þá er Geir H. Haarde búinn að kynna ráðherralista sinn og hann er lýsandi fyrir Geir, þar er að öllu farið með gát og engar byltingar boðaðar. Ráðherrarnir eru sex og valinn maður í hverju rúmi.

Eigi að síður má gera athugasemdir við samsetninguna á listanum, þó ekki sé unnt að finna að verjum ráðherra fyrir sig. Ég hygg að snöggasti bletturinn á listanum felist í kynjasamsetningunni. Líkt og í þingflokki Samfylkingarinnar er um þriðjungur þingmanna konur, en samt er ekki nema einn ráðherra flokksins kvenkyns. Einn sjötti. Það þykir mér nokkuð á skjön við þær jafnréttisáherslur, sem gætt hefur í auknum mæli í málflutningi flokksins að undanförnu. Sérstaklega sker það í augu í samanburði við Samfylkinguna með sína jöfnu kynjaskiptingu í ráðherrastólum.

En það má líka finna að því hversu misjöfn dreifing er á ráðherrum eftir kjördæmum. Í raun er Einar K. Guðfinnsson eini landsbyggðaráðherrann, þó Árni M. Mathiesen sitji á þingi fyrir Suðurkjördæmi; það er eiginlega ekki hægt að verða hafnfirskari en Mathiesenar. En á móti má auðvitað nefna að Guðlaugur Þór Þórðarson er Borgnesingur að uppruna og var eitt sinn varaþingmaður fyrir Vesturland.

Það þarf ekki að fjölyrða um hæfileika Geirs H. Haarde sem forsætisráðherra, en ég skal játa að ég varð eilítið hissa að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skyldi kjósa að vera um kyrrt í menntamálaráðuneytinu. Hún hefur vaxið mjög sem stjórnmálamaður upp á síðkastið og vann glæsilegan sigur í kjördæmi sínu. Því hefði ég haldið að hún kysi eitthvað annað en kyrrstöðu í ráðherrastóli. Nú er hætta á að menntamálin eignist hana í stað þess að hún tileinki sér fleiri málaflokka. En menntamálaráðuneytið er auðvitað valdamikið og hún telur sig líkast til eiga mikilvægum verkefnum þar ólokið.

Markaðurinn fagnar því vafalaust að Árni M. Mathiesen skuli áfram vera fjármálaráðherra; hann kann fáu betra en stöðugleika og Árni hefur til að bera þá nauðsynlegu gætni og kostgæfni, sem embættið krefst. Eins er ég sérstaklega ánægður með að Einar K. Guðfinnson skuli áfram vera sjávarútvegsráðherra og fá landbúnaðarráðuneytið að auki. Hann hefur að mínu viti verið afar farsæll í embætti og bryddað upp á nýjungum í ráðuneytinu. Hann er líka frjálslyndur maður, þannig að það má vonast til þess að honum verði ágengt í landbúnaðarráðuneytinu. En ég skal játa að ég hefði ekki sýtt ef Samfylkingin hefði tekið við landbúnaðarráðuneytinu, hún eru sannast sagna mun líklegri til þess að koma landbúnaðinum úr forneskjunni en Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég er einstaklega ánægður með að Björn Bjarnason skuli vera dómsmálaráðherra áfram. Ekki aðeins vegna þess að hann er einstaklega duglegur og skeleggur ráðherra, heldur eiginlega ekki síður vegna þess að með skipun hans sýnir forsætisráðherra að hann lætur hið nýja auðvald ekki skelfa sig.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur undanfarna landsfundi samþykkt ályktanir um að flokkurinn þurfi að taka heilbrigðismálin að sér. Þar bíða mörg knýjandi verkefni, en hið stærsta er allsherjar kerfisbreyting þeirra, því við það verður ekki lengur unað við árlega krísu í heilbrigðisgeiranum, þar sem peningar eru ávallt upp urnir sama hve mikið fé er látið til hans renna. En jafnvel þó menn einhendi sér ekki í slíkan slag er heilbrigðisráðuneytið afar erfitt, eins og best sést á því að sjúkraþjálfinn Siv Friðleifsdóttir náði ekki einu sinni tökum á ráðuneyti sínu, hvað þá heilbrigðiskerfinu á þessu rúmlega ári sínu þar á bæ. Sagan bendir til þess að starfinn sé í besta falli vanþakklátur, þennig að þetta er mikil áskorun fyrir Gulla að ganga beint í þetta erfiða ráðuneyti. En hann er vanur að taka sjensa á sínum pólitíska ferli og lengst af verið sigursæll. Af sama leiðir að hann er bardagamaður og það veitir sjálfsagt ekki af því í þessu ráðuneyti. Það er mikils krafist af honum en það er líka til mikils að vinna.

Ég heyri í kringum mig að sumir eru óánægðir með að Bjarni Benediktsson skuli ekki hafa orðið ráðherra. Ég get tekið undir það. Alveg eins og ég hefði kosið að sjá Illuga Gunnarsson fara beint í ráðherrastól og að ráðherraliðið hefði betur endurspeglað hina öru endurnýjun þingflokksins í undanförnum tvennum kosningum. En ég hef líka heyrt hinu fleygt, að Bjarni kunni að vera kvaddur í ráðherraliðið síðar á kjörtímabilinu. Ég vona að það gangi eftir, því annars óttast ég að hann ákveði að snúa sér alfarið að fyrirtækjarekstri og það er illt ef stjórnmálalífinu helst ekki á mönnum af hans kalíberi.


mbl.is Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. maí 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband