Leita í fréttum mbl.is

Lífsleikni í MK

Ég les hjá Birni Bjarnasyni að hann hefur verið að fá fyrirspurnir frá Kópavogi, nokkuð á misskilningi byggðar:

Greinilegt er, að lífsleiknikennari í Menntaskólanum í Kópavogi hefur bent nemendum sínum á að senda mér tölvuspurningar um refsingar og þyngd þeirra. Þetta sannar mér enn, hve nauðsynlegt er, að kenna nemendum, að dómarar ákveða þyngd refsinga en ekki dómsmálaráðherra. Alþingi ákveður refsirammann með lögum en dómarar, hve mikið af honum er nýtt hverju sinni.

Áhyggjur Björns, fyrrverandi menntamálaráðherra, eru skiljanlegar, því ekki verður annað af færslu hans skilið en að menntaskólakennari í lífsleikni átti sig ekki á undirstöðuatriðum í stjórnskipulagi landsins. Svo geta menn velt því fyrir sér hvort ábendingar kennarans um fjöldafyrirspurnir til dómsmálaráðherra séu í einhverjum öðrum tilgangi en einungis til uppfræðslu nemendanna.

En ég hjó eiginlega eftir öðru. Lífsleikni í menntaskóla?! Hér ræðir um fólk á barmi þess að vera fullorðið og það er verið að kenna því lífsleikni. Nasasjón sú, sem ég hef af þeirri námsgrein í grunnskólum, varð ekki til þess að efla tiltrú mína á menntakerfinu, námskrárgerð eða virðingu pedagóga fyrir tíma skjólstæðinga sinna.

Ég hef hins vegar ekki nennt að fetta fingur út í það, því það er ekkert nýtt að grunnskólar séu öðrum þræði dagvistarstofnanir. Þannig var það líka þegar ég var að slæpast þar fyrir 30 árum eða svo. En þurfi fólk að læra lífsleikni í menntaskóla leyfi ég mér að draga í efa að það sé nægilega vel undirbúið til þess að eiga erindi í menntaskóla. Sem aftur leiðir til spurninga um hvort það sé endilega hið eina rétta hlutverk íslenska menntakerfisins að gera stúdenta úr öllum, sama hvað það kostar. Sama hvaða „fræði“ eru lögð til grundvallar eða ekki. En það er nú efni í aðra færslu.


Lofsöngur til Krónunnar

Ég var gerður út af örkinni til þess að kaupa inn til helgarinnar og fór eins og oftast út í Bónus í Kjörgarði. Ég veit að maður á helst ekki að leggja í verslunarferð þangað eftir kl. 15.00, allra síst á föstudegi, en ákvað að taka sjensinn. Það voru mistök. Búðin var enn stappaðri en venjulega og grískt Ginnungagap við kassana, enda sýndist mér afgreiðslufólkið flest vera erlendir unglingar í starfskynningu. Eins og atvinnuástandið er hérna er erfitt eða vonlaust við það að eiga og Bónus engan veginn sér á báti hvað það varðar, eins og ég minntist á í síðdegisútvarpi Ríkisútvarpsins fyrr í dag.

En þetta varð mér um megn, svo ég sneri frá og leitaði hælis í kjallaranum í Kjörgarði, í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar nánar tiltekið, en þar ræður ríkjum frændi minn Þorlákur Einarsson, sem sjálfsagt er gáfaðasti, fróðasti og skemmtilegasti verslunarstjóri Reykjavíkur, að Braga Kristjónssyni fornbóksala undanskildum.

Eftir andlega nærandi samræður við Þorlák hóf ég verslunarleiðangurinn á ný og þá rifjaðist upp fyrir mér að einhverjir höfðu mjög mært hina nýju verslun Krónunnar við Fiskislóð úti á Granda. Ég var aldrei neitt hrifinn af Krónunni úti í JL-húsi, en ég ákvað að slá til og prófa þessa nýju Krónu-verslun.

Það er skemmst frá að segja að þessi verslun var ekki nógsamlega dásömuð í mín eyru. Hún er alveg frábær. Þarna er hátt til lofts og vítt til veggja, bjart og hreinlegt. Þó það væri föstudagseftirmiðdagur og klukkan að verða sex var engin örtröð þarna. Vöruúrvalið var alveg ágætt og það er sérstök ástæða til þess að benda á dagvöruna. Grænmetið var ekki lagerafgangur vikunnar eins og maður lendir alltof oft í hjá keppinautnum og mér finnst alveg til sérstakrar fyrirmyndar að kjötiðnaðarmennirnir starfa fyrir allra augum bak við glervegg. Verðið var sambærilegt við það, sem gerist hjá Bónus, en upplifunin var miklu nær því sem maður á að venjast í Hagkaupum eða Nóatúni. Þannig að mér fannst ég fá miklu meira fyrir peningana, bæði hvað varðar vörugæði og þægindi, sem ég met nokkurs. Þarna voru næg bílastæði og starfsfólkið sýndi af sér þjónustulund og gott viðmót, alveg frá kerrumeistaranum til kassadömunnar.

Ég mun halda tryggð við Melabúðina þegar ég vil gera okkur dagamun og Nóatún eða Hagkaup þegar ég vil njóta breiðs vöruúrvals. En hvað stórinnkaupin varðar held ég að Krónan hafi verið að eignast nýjan fastakúnna.


Bloggfærslur 28. september 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband