Leita í fréttum mbl.is

Lífsleikni 201


Það má rétt vera að ekki sé unnt að láta lokið við tilsögn í lífsleikni fyrir átta ára aldur, þó undirstöðuatriðinum sé komið á hreint þá. Þegar krakkar fara að stálpast blasa við ný viðfangsefni og nýr vandi. Þá mætti halda framhaldsnámskeið í lífsleikni, helst ekki síðar en um 13 ára aldur. Það er alltof seint að fara að halda því að fólki í menntaskóla.

Ég ætla ekki að gera lesendum það að birta þann bálk allan, en hann heitir Hávamál og stendur fyllilega fyrir sínu, þó uppruninn sé aftur í grárri forneskju en við kunnum fyllilega skil á. Það má lesa þau öll á netútgáfu Snerpu. Þar er tæpt á öllu því, sem er verið að býsnast við að kenna í lífsleikni í Menntaskólanum í Kópavogi, og miklu, miklu meira.

„læri að meta áhuga- og hæfnisvið sín á gagnrýninn og raunhæfan hátt“
Sá er sæll
er sjálfur um á
lof og vit meðan lifir.
Því að ill ráð
hefir maður oft þegið
annars brjóstum úr.

[…]

Skósmiður þú verir
né skeftismiður,
nema þú sjálfum þér sér.
Skór er skapaður illa
eða skaft sé rangt,
þá er þér böls beðið.

„þjálfist í að skoða sjálfan sig og aðra á gagnrýninn og uppbyggjandi hátt“ 
Sá einn veit
er víða ratar
og hefir fjöld um farið
hverju geði
stýrir gumna hver,
sá er vitandi er vits.

[…]

Það er enn um þann
er þú illa trúir
og þér er grunur að hans geði:
hlæja skaltu við þeim
og um hug mæla.
Glík skulu gjöld gjöfum.

„þjálfist í að tjá og fylgja eftir skoðunum sínum, tilfinningum og hugðarefnum á opinberum vettvangi og í vinahópi“
Kópir afglapi
er til kynnis kemur,
þylst hann um eða þrumir
Allt er senn,
ef hann sylg um getur,
uppi er þá geð guma.


„fái tækifæri til að taka þátt í og njóta list- og menningarviðburða“

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.


„læri að taka ábyrga afstöðu til kynlífs“

Og nær morgni,
er eg var enn um kominn,
þá var saldrótt sofin.
Grey eitt eg þá fann
innar góðu konu
bundið beðjum á.

[…]

Ráðumk þér, Loddfáfnir,
að þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Annars konu
teygðu þér aldregi
eyrarúnu að.


„taki ábyrga afstöðu til fíkniefna og lyfja“

Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Vegnest verra
vegur-a hann velli að
en sé ofdrykkja öls.

[…]

Óminnishegri heitir
sá er yfir öldrum þrumir.
Hann stelur geði guma.
Þess fugls fjöðrum
eg fjötraður var'g
í garði Gunnlaðar.


„geti átt auðgandi og gefandi samskipti við einstaklinga óháð kyni, kynferði, þjóðerni, trú og líkamlegu og andlegu atgervi“ 

Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Auði betra
þykir það í ókunnum stað.
Slíkt er volaðs vera.

[…] 

Haltur ríður hrossi,
hjörð rekur handarvanur,
daufur vegur og dugir.
Blindur er betri
en brenndur sé:
Nýtur manngi nás.

„læri að taka ábyrga afstöðu sem neytandi í flóknu og margbreytilegu samfélagi“
Mikið eitt
skal-a manni gefa:
Oft kaupir sér í litlu lof.
Með hálfum hleif
og með höllu keri
fékk eg mér félaga.

„læri að umgangast sjálfan sig og umhverfi sitt af virðingu“
Hjarðir það vitu
nær þær heim skulu
og ganga þá af grasi.
En ósvinnur maður
kann æva-gi
síns um mál maga.


Lífsleikni 101


Í athugasemdum við færslu um lífsleikni hér að neðan er meðal annars sett fram sú rhetoríska spurnig hvort lestur ljóða sé ekki ámóta tímaeyðsla á skólagöngunni og lífsleikni. Ég held reyndar alls ekki að svo sé. Því birti ég hér á eftir námskeiðið Lífsleikni 101 í heild sinni, eins og síra Hallgrímur Pétursson gekk frá því. Það má kenna og temja börnum á nokkrum stundum fyrir átta ára aldur.

Heilræði

Ungum er það allra best,
að óttast Guð, sinn herra,
þeim mun viskan veitast mest,
og virðing aldrei þverra.

Hafðu hvorki háð né spott,
hugsa um ræðu mína,
elska Guð og gjörðu gott,
geym vel æru þína.

Foreldrum þínum þéna’ af dyggð,
það má gæfu veita,
varast þeim að veita styggð,
viljir þú gott barn heita.

Hugsa um það helst og fremst,
sem heiðurinn má næra
Aldrei sá til æru kemst,
sem ekkert gott vill læra.

Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum.
Hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.

Oft er sá í orðum nýtur,
sem iðkar menntun kæra,
en þursinn heimskur þegja hlýtur,
sem þrjóskast við að læra.

Vertu dyggur, trúr og tryggur,
tungu geymdu þína,
við engan styggur né í orðum hryggur,
athuga ræðu mína.

Lítillátur, ljúfur og kátur,
leik þér ei úr máta.
Varast spjátur, hæðni, hlátur;
heimskir menn sig státa.

Víst ávallt þeim vana halt:
vinna, lesa, iðja,
umfram allt þó ætíð skalt
elska Guð og biðja.


Bloggfærslur 30. september 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband