Leita í fréttum mbl.is

MMMM!

 Andríki

Fjögur þúsundasta tölublað elsta dagblaðsins á íslenska vefnum kom út í dag. Það er Vef-Þjóðviljinn, sem hér um ræðir, en hann hefur komið út á hverjum degi frá 24. janúar 1997 og fagnar því 11 ára afmæli sínu eftir 2½ viku.

Það þarf mikla elju til þess að halda úti skrifum af þessu tagi hvern einasta dag ársins, því ekki gefur líðandi stund alltaf augljós tilefni til brýninga og athugasemda eins og Vef-Þjóðviljinn hefur flutt í meira en áratug. En þau finnast nú samt og list Vef-Þjóðviljans er einmitt sú að gera það með talsverðum broddi og er fátt óviðkomandi: þar má finna umfjöllun um menningu og dægurmál rétt eins og stjórnmál og sagnfræði. Í ljósi þess að útgáfan heitir Andríki eru tilefnin þó jafnan næg, því erindrekar hins opinbera virðast óþreytandi við að leggja nýjar hömlur á borgarana og blása báknið út. Einu virðist gilda þótt „nýfrjálshyggjuöflin“ í Sjálfstæðisflokknum hafi verið við völd í bráðum 17 ár, að því er manni skilst á vinstrimönnum.

Til allrar hamingju er Vef-Þjóðviljinn málgagn klassískrar frjálshyggju, en ekki þessarar nýju, vondu, sem er í þann veginn að sjá til þess að meira en helmingurinn af striti landsmanna renni til hins opinbera, sem svo ráðstafar gæðunum af óendanlegri ráðdeild sinni og skynsemi. Ætli það sé nokkur hætta á að hið opinbera muni láta þar staðar numið?

Þetta samsetta stöpla- og línurit sýnir glögglega skelfilegar afleiðingar hinnar taumlausu „nýfrjálshyggju“, sem er á góðri leið með að gera hagkerfið fullkomlega sósíalískt. Skyldi þar vera fundin enn ein skýring útrásarinnar? Að menn séu aðeins að freista þess að bjarga verðmætum undan eyðileggingarafli hins opinbera?

Nei, erindi klassísks frjálshyggjudagblaðs eins og Vef-Þjóðviljans hefur glögglega aldrei verið meira en einmitt núna. Öfugt við önnur blöð nýtur það engra tekna frá hinu opinbera, heldur er það rekið í sjálfboðavinnu og fyrir frjáls framlög lesenda, auk þess sem að hin ágæta Bóksala Andríkis skilar einhverjum tekjum. Það er full ástæða til þess að skora á fólk að styðja þetta góða og nauðsynlega framtak með því að láta fé af hendi rakna. Það má bæði gera með föstu framlagi, sem dregið er mánaðarlega af krítarkorti, eða með því að leggja inn á reikning útgáfunnar: reikningsnúmer hennar er 0512-26-000200 og kennitalan 510795-2379. Væru 4.000 krónur ekki við hæfi? Króna fyrir hvert tölublað er ekki mikið.

Umfram allt skiptir þó máli að lesa Vef-Þjóðviljann. Daglega!


Þjófkenningar

 Hjörleifur B. Kvaran

Ég á erfitt með að botna í fréttaflutningi 24 stunda af bókaþjófnaði í Kvaransfjölskyldunni. Þar fær sá stálheiðarlegi náungi Hjörleifur B. Kvaran, núverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, að tjá sig að vild um hvað orðið hafi um bækur, sem hurfu úr dánarbúi föður hans, Böðvars E. Kvaran. Böðvar var annálaður bókamaður og átti margvíslega dýrgripi, þó mér sýnist nú raunar að verðmat Hjörleifs á þeim sé út úr öllu korti, en í fréttinni er rætt er um hundrað milljónir í því samhengi. Þá hefur verðlagið á fornbókum heldur betur breyst á skömmum tíma.

Hið merkilega er að Hjörleifur talar enga tæpitungu, en vanalega verst hann allra frétta í fjölmiðlum, ekki síst þegar um ræðir eignaumsýslu hans sjálfs fyrir almenning. Hann kveðst vita að bækurnar hafi ratað í fornbókaverslun feðganna Braga Kristjónssonar og Ara Gísla Bragasonar og gott betur, þeir séu beinlínis samsekir þjófnum: „Það er ljóst að eigendur verslunarinnar voru vitorðsmenn í málinu,“ segir Hjörleifur hiklaust og gefur eitt og annað fleira til kynna.

Blaðamaðurinn Freyr Rögnvaldsson, sem skrifar fréttina, virðist ekki með forvitnari mönnum, því hann spyr ekkert út í önnur málsatvik en þau sem Hjörleifur tilreiðir honum. Til dæmis með hvaða hætti bókunum hafi verið stolið eða hver þjófurinn hafi verið. Lesandinn getur eiginlega enga ályktun dregið af fréttinni aðra en að þeir feðgar séu glæpamennirnir og engir aðrir. En það er þá sjálfsagt að taka ómakið af þeim Frey og Hjörleifi og upplýsa málið án þess að hlífa neinum.

Hinn meinti þjófur er Böðvar Yngvi Jakobsson, heimspekingur og systursonur Hjörleifs. Hann hafði aðgang að dánarbúinu og sakar fjölskyldan hann um að hafa komið einu og öðru úr því í verð með ýmsum hætti. Þar á meðal voru bækur, sem hann fór með í Fornbókabúð Braga Kristjónssonar. Hvort þær voru keyptar af honum eða teknar í umboðssölu veit ég ekki og gildir víst einu, en ég fæ ekki séð hvernig feðgarnir máttu átta sig á því að bækurnar voru illa fengnar. Hafi þeir vitað að þær hefðu komið úr dánarbúi Böðvars E. Kvaran, sem lést fyrir liðlega fimm árum, var þá eitthvað óeðlilegt við að dóttursonur hans hefði þær undir höndum?

Nú vill svo til að ég hef átt viðskipti við Braga og Ara Gísla um áratugaskeið og aldrei orðið var við annað en að þeir séu strangheiðarlegir í viðskiptum sínum. Faðir minn heitinn, Magnús Þórðarson, var mikill bókasafnari og átti dágott safn fornbóka. Þeir bóksalar bæjarins, sem keyptu og seldu notaðar bækur, voru í misjöfnu áliti hjá honum og af sumum fór jafnvel misjafnt orð. Bragi Kristjónsson var sá bóksali, sem hann hafði í mestum metum. Ég efast því fyrirfram um það að nokkuð sé hæft í ásökunum Hjörleifs. Tala nú ekki um þegar honum er svo mikið í mun að stimpla þá sem þjófsnauta, þýfissala og nánast Fagína höfuðborgarinnar, sem leiði saklausa unga menn á hálar brautir. Svo saklausa að þeirra er í engu getið!

Ég fæ ekki betur séð en að feðgarnir eigi að leita bæði til siðanefndar Blaðamannafélagsins og dómstóla til þess að fá nöfn sín hreinsuð, sem kostur er. Málið er enn á rannsóknarstigi og engin ákæra hefur verið gefin út og þeir geta því illa varist ásökunum af þessu tagi.


mbl.is Stærsti bókastuldur Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. janúar 2008

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband