Leita í fréttum mbl.is

Ísland á móti lýðræðinu

 

Kínverska fréttastofan Xinhua er ekki ávallt sú áreiðanlegasta, þannig að ekki er öruggt að það sé rétt eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, haft, að Íslendingar geti ekki stutt þjóðaratkvæðagreiðslu Taívana um aðildarumsókn að Sameinuðu þjóðunum, að áformuð þjóðaratkvæðagreiðsla sé mistök og að Íslendingar styðji stefnuna um „eitt Kína“ heilshugar. En það er ekkert ósennilegt að þetta sé rétt hermt hjá Xinhua.

Að því gefnu að svo sé held ég hins vegar að þar sé ráðherrann á villigötum. Má það vera að Lýðveldið Ísland sé á móti þjóðaratkvæðagreiðslum í öðrum löndum? Alveg burtséð frá efni atkvæðagreiðslunnar eða afleiðingum niðurstöðu hennar, sem Ísland getur vel haft skoðanir á, hlýtur það að ganga gegn öllum hugmyndum Íslendinga um erindi sitt í alþjóðasamfélaginu og lýðræðishugsjóninni sjálfri, að leggjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslum.

Málefni Taívans og Kína eru að sönnu flókin og af einhverjum ástæðum hafa íslenskir ráðamenn kosið að binda trúss sitt við alræðisstjórnina í Peking fremur en lýðræðisstjórnina í Taípei. Þessi mikla áhersla á tengsl Íslands við einræðisríkið hafa aldrei verið rædd eða skýrð með fullnægjandi hætti. Vonandi rennur sá dagur upp innan tíðar.

Hitt vekur hins vegar furðu, að utanríkisráðherra Íslands leggi lykkju á leið sína til þess að ítreka stefnuna um „eitt Kína“ í sama mund og blóðið flýtur á götum Lhasa, hinnar fornu höfuðborgar Tíbets. Hvernig ber að skilja þá yfirlýsingu ráðherrans?

Kínversk stjórnvöld hafa gefið mótmælendum í Tíbet frest til mánudags til þess að gefast upp og gefa sig fram. Eftir það verður alþýðuherinn láta koma á sínum himneska friði líkt og 1989. Ef það verður gert með sams konar blóðbaði og fjöldahandtökum er erfitt að sjá hvernig íslensk stjórnvöld geta mótmælt því eftir að hafa svo nýverið ítrekað stuðning sinn við „eitt Kína“. Sá er líka munurinn nú og 1989 — og það á við um flest Vesturlönd — að viðskipta- og efnahagstengsl við Rauða-Kína hafa margfaldast síðan. Í viðtalinu við Xinhua lýsti Ingibjörg Sólrún enda  „yfir ánægju með þróun samskipta landanna tveggja og sagði að miklir möguleikar fælust í frekari samvinnu Íslands og Kína.“ Þeir hagsmunir einir og sér kunna að verða þess valdandi að lýðveldið Ísland þegi þunnu hljóði ef til frekari ódæða kemur í Lhasa.

En Ingibjörg Sólrún og ríkisstjórnin öll má vita að hún talar og þegir ekki í nafni Íslendinga. Það þarf enga þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að leiða það í ljós.


mbl.is Íslendingar styðja ekki SÞ-umsókn Taívan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. mars 2008

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband