Leita í fréttum mbl.is

Klám

24 stundir, 7. mars 2008.

Þegar ég staulaðist fram að dyrum eftir blöðunum í morgun blasti þessi forsíðufyrirsögn við mér á 24 stundum: „Vændi á netsíðu“. Sem mér fannst nú álíka fréttnæmt og að finna mætti nígeríska svikahrappa á netinu. Eða að íslenskar bloggsíður bentu sumar til þess að móðurmálskennslu væri ábótavant. „En fréttin“ snerist sumsé um þetta, að til væri fólk á Íslandi, sem falbyði sig og þætti bara ekkert að því, eins og lesa mátti úr svörum vændiskonu til blaðsins. Jamm og já. Síðan flettir maður á næstu síðu og þar blasti við burðarfréttin á síðu 2: „Vantar alls staðar konur“. Samhengi?

Þessi forsíðufrétt 24 stunda þarf tæpast að koma mönnum í opna skjöldu, þó blaðinu þyki þetta greinilega firn mikil. Og sjálfsagt hefur fréttin verið lesin upp til agna, hún gerir út á gægjuhneigð lesenda en frá sjónarhóli púritanans, þar sem fordæmingin á athæfinu á að gera yfirbót fyrir áhugann á beðmálum annara. En er það ekki sem hvert annað klám?

Þetta þversagnakennda viðhorf, að mönnum komi við hvað aðrir aðhafast á holdlega sviðinu í nafni siðferðishreinleika, hefur verið í verulegri sókn á undanförnum árum og ber vott um minnkandi umburðarlyndi. Sumir stæra sig meira að segja af því að hafa ekkert umburðarlyndi í þessum efnum og færa fyrir því alls kyns rök þar sem allt er lagt að jöfnu: nektardans, klám og erótík, vændi, sérviskur í kynlífi, kynferðisofbeldi, þrælkun og barnaníð. Ég gat samt ekki varist því að velta einu fyrir mér: Í umræðu um fóstureyðingar ber jafnan mest á þeirri röksemd að konan eigi sinn eigin líkama og megi því gera það sem henni sýnist. Í öðru samhengi hafa menn svo ítrekað rétt kvenna til kynfrelsis. En þegar kemur að vændi virðast þau rök hverfa sem dögg fyrir sólu og allt í einu er kvenlíkaminn orðinn á forræði og ábyrgð samfélagsins alls. Er það ekki umhugsunarvert?


mbl.is Vændi á netsíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. mars 2008

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband