Leita í fréttum mbl.is

Samfylkingin lagar lýðræðið

Nútímalegur jafnaðarmannaflokkur á nýrri öld

Samfylkingin í Suðvesturkjördæmi mun velja í 5 efstu sætin á framboðslista flokksins í komandi alþingiskosningum með netprófkjöri. Við uppröðun á listann verði fylgt svokölluðum fléttulista. Fimm efstu sætin í prófkjörinu eru bindandi með fyrirvara um uppröðun samkvæmt fléttulista.

Mér sýnist Samfylkingin vera að ná nýjum hæðum í lýðræðinu. Held ég, því auðvitað getur maður ekki verið viss um að skilja þetta stagl rétt. Spurningin er þó kannski frekar til hvers verið er að standa í þessu fyrst Samfylking vill óð og uppvæg — aðallega þó óð — setja ótilgreindar reglur í lög um „aukið persónukjör“. Hvað sem það nú þýðir. Ekki persónukjör, heldur aukið persónukjör.

Af hverju stígur Samfylkingin ekki bara skrefið til fulls, býður liðið fram í stafrófsröð og eftirlætur kjósendum það algerlega að raða inn á þingið?

Svarið er auðvitað það að það myndi óhjákvæmilega og undantekningalaust riðla fléttulistunum góðu. Og til hvers væru þeir þá? Nema náttúrlega Samfylkingin ætli líka að setja það í lög að persónukjörið virki, en þó aðeins þannig að til skiptis komi kona og karl.

En af hverju að láta þar staðar numið? Reglubinda mætti að aldursdreifing á þingi skulii vera hin sama og meðal kjósenda, menntunarstigið sömuleiðis, að tíundi hver þingmaður skuli vera áfengissjúkur og svo framvegis. Tækist krötunum nú að búa til hina fullkomnu og faglegu reikniaðferð til þess að þingmenn endurspegluðu ólíka samsetningu þjóðarinnar, þyrfti sjálfsagt ekki einu sinni að kjósa. Það væri raunar helber tímasóun, því reglurnar yrðu ávallt vali kjósenda yfirsterkari. En mun „réttari“ að sögn helstu hugsuða Samfylkingarinnar.

Það kæmi hins vegar lýðræði ekki á nokkurn hátt við.

Ekki frekar en fléttulistarnir og hræsnin um „aukið persónukjör“. Þetta er ekki illa meint hjá þeim blessuðum, en alveg skelfilega grautarlegt og án þess að menn hugsi afleiðingarnar til enda. Eða bara einn, tvo leiki fram í tímann. Það er mannlegt að finnast að göfug markmið hljóti að helga aðferðirnar, en það er rangt (eins og þeir Kristur og Marx bentu báðir á). Það er mannlegt að skjátlast og að því leyti virðist manni minnihlutastjórnin vera ein sú manneskjulegasta um langa hríð.

Þessa dagana tala stjórnmálamenn í kapp um það að auka verði lýðræðið og undir það má taka, en það þýðir ekki að menn eigi að líta á gangverk lýðræðisins sem tilraunaverkefni. Eða hafa menn ekki nóg fengið af áhættusækni á annarra kostnað?


Bloggfærslur 20. febrúar 2009

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband