Leita í fréttum mbl.is

Ríkisstjórn í taugaáfalli

Don Quixote og Sancho Panza 

Ég á bágt með að skilja vanda ríkisstjórnarinnar. Af hverju tekur hún sér ekki bara alræðisvald og fangelsar stjórnarandstöðuna?

Það er nefnilega með ólíkindum að hlusta á fýluna, sem lekur af Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra yfir því að Alþingi vilji hafa eitthvað um það að segja hvaða lög ná fram að ganga hjá löggjafanum. Hún virðist blátt áfram undrandi á þessari ósvífni þingsins að vilja ekki bara taka við frumvörpum og samþykkja þau sisona.

Ég heyrt þessi sömu sjónarmið enduróma hjá ýmsum vinum mínum, sem fylgja Samfylkingunni eða vinstrigrænum að málum (taka verður fram að ekki eru allir mínir vinstrigrænu vinir á þessari skoðun), en það er eins og þeir átti sig ekki á því að ríkisstjórnin er minnihlutastjórn og getur ekki farið sínu fram í krafti þingstyrks.

Raunar er engu líkara en að forystumenn ríkisstjórnarinnar séu haldnir sömu afneitun. Þegar litið er til verkefnaskrár ríkisstjórnarinnar hefði hún verið afar metnaðarfullt plagg hjá ríkisstjórn með 2/3 þings að baki sér og heilt kjörtímabil framundan. Hjá minnihlutastjórn með 24 þingdaga í kortunum er það auðvitað tómt mál að tala um. Hreinlega galið. Mesta undrið er þó að þetta skuli gerast hjá ríkisstjórn, sem studd er af þingflokkum, sem sjálfir hafa sagt að þeir séu umboðslausir. Og nú vill hin umboðslausa minnihlutastjórn, sem var mynduð sérstaklega til þess að flýta kosningum (af því að þær máttu ekki bíða eina stund) fara að fresta kosningunum mikilvægu! Skyldu ráðherrarnir lúra á nýrri könnun?

Ruglið í þinginu

Þetta ástand hefur haft áhrif á ráðherraliðið og þingið, sem manni er svo sem sama þótt að skjálfi lítils háttar. En þetta er farið að valda vanda úti í þjóðfélaginu og það má ekki við meiru af svo góðu. Það er styttist í að landinu væri betur komið stjórnlausu en með þennan söfnuð; óvissan væri minni þannig. En áfram heldur ruglandinn í stjórninni og hann eykst með tímanum. 

Þetta rugl hefur sést afar vel í Seðlabankafrumvarpinu. Það ber með sér að vera hrákasmíð og ætlað til einhvers allt annars en sagt er opinberlega, sumsé að reka Davíð án þess að reka hann af því að lögin leyfa þessu liði ekki að reka hann. Eða aðra Seðlabankastjóra. Og það er fín ástæða fyrir því að það er þannig. Þar með er ekki sagt að Seðlabankastjóra geti ekki orðið svo á í messunni að hann verði að fara, en þá þarf líka að sýna fram á það og gera það rétt. En þessari ríkisstjórn virðist fyrirmunað að gera nokkurn skapaðan hlut rétt.

Þessi ofuráhersla á Seðlabankafrumvarpið og hvernig stjórnin getur ekkert annað aðhafst bendir til þráhyggju, sem stjórnin verður að ráða bót á. Verri eru þó ranghugmyndirnar og hið brenglaða sjálfsmat Jóhönnu & co. Ef þetta Seðlabankamál skyldi nú taka enda á undan ríkisstjórninni eru nefnilega fleiri stórmál á döfinni. Þar ber hæst harla metnaðarfullar og róttækar breytingar á stjórnarskránni, en fyrirhugaðar breytingar á kosningalöggjöfinni eru litlu minna róttækar.

Hvað stjórnarskrárbreytingarnar áhrærir er erfitt að sjá hvers vegna þær eru svona brýnar. Allra síst þó tillagan um að gera stjórnarskrárbreytingar auðveldari og einfaldari, sem manni skilst að eigi að vera einhvers konar undanfari innlimunar Íslands í Evrópusambandið. Þá er þetta lið að misskilja tilgang stjórnarskrárinnar fullkomlega. Stjórnarskráin er sá grundvöllur, sem öll önnur lög eru reist á, og það á að vera erfitt að breyta henni. Helst ætti hún náttúrlega að vera þannig að henni þyrfti aldrei að breyta. Fyrirætlun þessarar umboðslausu minnihlutastjórnar er hins vegar að búa svo um hnútana að henni megi breytast nánast eftir hentugleikum. En hún á ekki að blakta í vindinum, nóg er nú af vindhönunum samt.

Hvað má þá segja um fyrirhugaðar breytingar á kosningalögunum? Enginn af stjórnarliðinu hefur verið fáanlegur til þess að greina frá því nákvæmlega út á hvað þær gangi, af þeirri einföldu ástæðu að minnihlutastjórnin hefur ekki hugmynd um það sjálf. Hún vill bara „auka persónukjör“. Og enginn er neinu nær. Þó að kosningabaráttan sé hafin, út um allar trissur séu flokkarnir að velja á listana með margs konar hætti og menn miði þátttöku sína í gangverki lýðræðisins við þokkalega og vel þekkta löggjöf, ætla þessir snillingar að fara að hringla í henni kortér fyrir kosningar og hóta alls kyns ákvæðum til þess að hjálpa flokkunum að raða fólki „rétt“ á listana. Þessa sömu lista og kjósendum verður svo falið að ryðja með „auknu persónukjöri“! Og það er í alvöru ásetningur minnihlutastjórnarinnar að þjösna þessu dularfulla frumvarpi í gegnum þingið, jafnvel þó ekki ríki eining um það. Eru þess nokkur dæmi að breytingar á kosningalögum séu keyrðar í gegn nema með breiðri samstöðu? Kannski það verði ekki vanþörf á alþjóðlegum kosningaeftirlitsmönnum.

Hver er sinnar ógæfu smiður 

Ekki þar fyrir, ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því að nokkurt af þessum frumvörpum nái fram að ganga. Innan stjórnarinnar eru þegar talsverðir brestir og hún er hratt og örugglega að uppgötva hinn hryllilega sannleika: að hún er aðeins með minnihluta á þinginu og getur ekki farið sínu fram að geðþótta Jóku og Gríms. Það hefðu flestir áhugamenn um stjórnmál getað sagt þeim fyrirfram. Jafnframt, að einmitt þess vegna yrði stjórnin að velja mál sín af stakri kostgæfni og þoka þeim áfram af mikilli tillitssemi í þingi, vildi hún á annað borð aðhafast eitthvað frekar en starfsstjórn ber.

Það hentar stjórnarflokkunum að hamast að Framsóknarflokknum og kenna honum um allar sínar ófarir. En það er þýðir ekki að kenna framsóknarmönnum um ruglið. Þeir sögðu hátt og snjallt að þeir myndu að svo stöddu verja stjórnina vantrausti. Í því felst skuldbinding þeirra og öðru ekki, þó stjórnarliðið vilji ímynda sér eitthvað annað fyrst hún hafði fyrir því að kynna framsóknarmönnum helstu áform sín þegar verið var að mynda stjórnina. 

Enn síður fer það þessari ríkisstjórn vel að krefjast þess að þingmaður í flokki utan stjórnar hlíti ímynduðu samkomulagi og reglum ríkisstjórnarinnar í störfum sínum á þinginu. Hún er með öðrum orðum að segja að sannfæring þingmannsins skipti engu þegar ríkisstjórninni finnst annað. Já, hún er mikil lýðræðisástin hjá stjórninni, að ekki sé minnst á geðprýðina og jafnvægið. Einmitt þannig fólk, sem best er að fela að breytingar á stjórnarskrá og kosningalöggjöf.


Bloggfærslur 24. febrúar 2009

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband