Leita í fréttum mbl.is

Hvaða „við“ eigum lífeyriskerfið?

Helgi í Góu á miklu kúluláni að fagna.

Ég sé að minn kæri Bjarni Harðarson er ánægður með framtak gotterísfurstans Helga Vilhjálmssonar í Góu gagnvart lífeyrissjóðunum. Segir hann hreyfa mikilsverðu máli, sem sé „brask og hálaunastefna lífeyrissjóðakerfisins“. Það má vel vera, enda er Helgi sjálfsagt hvorki ókunnur braski né háum launum.

Mér leikur hins vegar hugur á að vita annað: Í hvaða lífeyrissjóði er Helgi og af hverju reynir hann ekki fyrst að betrumbæta hann áður en hann gengst fyrir því að Jóhanna Sigurðardóttir taki allan lífeyri landsmanna undir sinn náðarfaðm? Og það undir kjörorðunum „Við eigum lífeyrissjóðina!“

Ég á einhver lífeyrisréttindi, en mér dettur ekki í hug að fyrir vikið eigi ég kröfu á aðra lífeyrissjóði líkt og Helgi lætur. Enn síður að með því að setja inn nafn og kennitölu á „undirskriftasöfnun“ Helga á netinu geti ég eða hann eða Jóhanna í nafni þjóðarinnar slegið eign sinni á lífeyriskerfið og látið það haga sér að þörfum mínum, hans eða Jóhönnu.

Þetta er kannski einkennandi fyrir þjóðfélagsumræðuna heima þessi misserin, í upplausninni og umrótinu í kjölfar áfallsins stíga fram allir landsins lukkuriddarar til þess að koma á framfæri sérstökum áhugamálum sínum, gamalkunnum að vísu, en eiga að sögn sérstakt erindi nú. Ég hugsa að þeir keisarar muni flestir reynast klæðaminni en þær dansmeyjar, sem nú liggur mest á að uppræta. Væntanlega til þess að slá skjaldborg um heimilin og koma hjólum atvinnulífsins í gang, svo vitnað sé til vinsælustu flatneskjunnar.


Bloggfærslur 30. mars 2009

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband