Leita í fréttum mbl.is

Gegnsæi ráðherrann

Ég minntist á það hér um daginn hvílík furða það væri að Valgerður Sverrisdóttir væri að hælast um af því að hafa aflétt leynd af viðaukum við varnasamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1951, þegar hún hefði  hvergi komið nálægt þeirri ákvörðun. Í framhaldinu sá ég svo á innleggi Péturs Gunnarssonar, að framsóknarmenn eru svo sannfærðir um frábærleika Valgerðar, að þeir eru beinlínis í afneitun. Að minnsta kosti stendur Pétur á því fastar en fótunum, að ákvörðunin hafi verið hennar og er nánast agndofa yfir þessum skelegga utanríkisráðherra. Mér finnst því enn mikilvægara en fyrr, að utanríkisráðherra aflétti leyndinni yfir því hver tók ákvörðunina og hvenær. Tala nú ekki um eftir að Pétur lýsir því yfir að Valgerður hafi innleitt glasnost á Íslandi. Minna mátti það nú ekki vera! En þá er kannski vert að minnast þess hver örlög Míkhaíls Gorbatsjovs urðu. Eða ríkisins, sem hann veitti forstöðu.

Nú veit ég að margir framsóknarmenn eru orðnir harla taugaveiklaðir vegna komandi kosningar, en halda þeir virkilega að Valgerður verði þeirra sterkasta tromp? Auðvitað má vera að hún kunni að njóta einurðar sinnar í stóriðjumálum, enda í margra augum holdgervingur hennar, en mér finnst hæpið að embættisfærsla hennar sem utanríkisráðherra verði henni til vegsauka.

Í því samhengi er svo stórkostlegt að lesa um það hvernig Valgerður sér fyrir sér aukin umsvif Íslands á alþjóðavettvangi. Hvar liggja þau tækifæri? Jú, auðvitað í Afganistan. Og með hvaða hætti? Jú, auðvitað vill Álgerður virkja þar syðra! En ekki hvað?

Meira er nú rætt í NATO um borgaralegt framlag en áður og það má kannski segja að Afganistan sé vendipunkturinn í þeirri umræðu, í þessu felast tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að leggja meira af mörkum en áður. Ég gerði grein fyrir áætlunum okkar um aukin framlög til uppbyggingar og endurreisnar í landinu […] og höfum ákveðið að leggja fram fé í vatnsaflsvirkjanir.

Það er eins og svo oft, að raunveruleikinn er fjarstæðukenndari en nokkur lygasaga. En þegar kemur að leyndarafhjúpuninni miklu veit maður ekki hvort það er hlægilegt eða grætilegt hvernig alls konar skynsamt fólk — eins og Pétur — lætur með hana, líkt og Valgerður hafi tekið af skarið um eitthvað með sögulegum hætti. Í því samhengi er rétt að rifja upp að Valgerður sjálf treysti sér ekki til þess að leiða samningana um varnarmálin, sem vissulega var hárrétt ákvörðun. En það að framkvæma annarra manna ákvörðun í tengslum við þá samninga, sem hún kom hvergi nærri, og miklast af því, hvað er það? Og hvað segir það um þessa þernu almennings?

Mönnum kann að þykja það lofsvert hjá Valgerði að lýsa sig helsta andstæðing leyndarhyggju og pukurs; almennt þykir það betra í fari stjórnmálamanna, að þeir séu opnir og einlægir við umbjóðendur sína. En í samningum þykir yfirleitt óskynsamlegt að sýna á spilin sín og í milliríkjasamskiptum er trúnaður algerlega nauðsynlegur, jafnvel þannig að meira að segja frú Valgerður kann að þurfa að ræða fleira í reykræstum bakherbergjum en hún getur látið uppi. Nema náttúrlega að hún haldi áfram að úthýsa mikilvægari utanríkismálefnum til annarra ráðuneyta. Sjálfur myndi ég ekki leggjast gegn því, eins og nánar verður rakið.

En auðvitað er ýmislegt í utanríkisráðuneytinu, sem sjálfsagt er að aflétta leynd af og kann jafnvel að vera brýnt í þágu almannahagsmuna, að upplýsa. Mér dettur t.d. í hug, hvort ekki væri tilvalið að Valgerður — trú andúð sinni á leyndarhyggju — afétti trúnaði af skýrslunni um Byrgið frá 2002, sem skilað var til varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins af öllum stöðum? Þar er hún þó ekki bundin neinum trúnaði við þriðja aðila eða annað ríki. Valgerður, hleyptu ljósinu inn og skjölunum út!

Ástæðan fyrir því að varnamálaskrifstofa fékk skýrsluna inn á borð til sín var vitaskuld sú að í upphafi Kalda stríðsins voru öll málefni, sem tengdust varnasamningnum og varnarliðinu, á könnu utanríkisráðuneytisins, þar á meðal flugumsjón á Keflavíkurflugvelli og lögreglan þar. Raunar er lögreglustjóraembættið þar nýverið komið undir dómsmálaráðuneytið eins og vera ber, en miðað við vefsíðu utanríkisráðuneytisins virðist þeim ókunnugt um það. En það eru alls konar verkefni enn hjá utanríkisráðuneytinu, sem þar eiga engan veginn heima, en eru þar samt af sögulegum ástæðum eða vegna þeirrar hneigðar opinberrar stjórnsýslu að belgjast sífellt út og taka til sín fleiri verkefni ef ekkert er sérstaklega að gert.

  • Af hverju er flugumsjón á Keflavíkurflugvelli undir utanríkisráðuneytinu en ekki Flugmálastjórn eins og á öllum öðrum flugvöllum?
  • Af hverju er Ratsjárstofnun enn undir hatti utanríkisráðherra?
  • Af hverju í ósköpunum er Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. undirstofnun utanríkisráðuneytisins en ekki á snærum samgönguráðuneytisins eða fjármálaráðuneytis (ef menn vilja ekki einfaldlega selja sjoppuna?). 

Hugsanlega veldur eðlislæg tregða hins opinbera til breytinga nokkru um að þessi verkefni hafa ekki verið flutt frá utanríkisráðuneytinu, en breytingin á lögreglustjóraembættinu þar syðra ætti að vera fordæmi um skynsamlegar breytingar þar á. Og dugi það ekki til, ætti embættisfærsla Valgerðar að gera það æ augljósara, að eitthvað þarf að gera. Það væri þá dulin blessun við ráðherradóm Völlu frá Lómatjörn. 

Staðreyndin er sú, að utanríkisráðuneytið hefur höndlað viðskilnaðinn við varnarliðið ákaflega illa. Innan þess er mikil spenna vegna brottfarar varnarliðsins, þar sem ráðuneytið missir svo stóran spón úr aski sínum, að það treystir sér ekki að horfast í augu við missinn og reynir að halda í eitthvað, sem alls ekki fellur að eðlilegu hlutverki utanríkisráðuneytis, eins og öryggisþjónustu eða rekstri ratsjárstöðva, svo að ekki sé minnst á öryggissvæði á flugvelli. Þar gætir fyrrnefndrar hneigðar, enda mæla opinberir starfsmenn mátt sinn í deildarstjórum og milljónum á fjárlögum, en líkt og við flest vilja þeir vaxa fremur en visna.

Sérkennilegast í þessari stöðu er þó sú tilhneiging ráðuneytisins og ráðherrans að tala eins og það sé í og með varnamálaráðuneyti, en á sama tíma ber ráðherrann sér á brjóst um herleysi eins og hún vonist eftir friðarverðlaunum Nóbels fyrir kosningar (þau eru til ólukkunnar veitt í desember).

Morgunblaðið og Ólafur Þ. Stephensen, utanríkisráðherra þess, er í liði með þeim í utanríkisráðuneytinu, sem telja sér trú um, að þeir geti rætt við aðrar þjóðir um hernaðarleg málefni á jafnréttisgrundvelli. Það er engu líkara en að þeir hafi steingleymt því að Íslendingar lögðu aðeins til land í þágu hernaðarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna en ekki mannafla, tæki eða tól. Enn síður virðast þeir átta sig á því að þó utanríkisráðuneytið hafi gætt íslenskra hagsmuna á varnarsvæðum þeim, sem um var samið 1951, kemur utanríkisráðuneytinu ekki til annað umboð eða vald til þess að fara með varnarmál Íslands. Þeir hafa kannski ekki tekið eftir því við Rauðarárstíginn eða í Hádegismóum, en með brottför varnarliðsins hurfu varnarsvæðin. Að því leyti til má því ræða um valdþurrð ráðherra, þó Valgerður sé enn yfirhúsvörður á gömlu varnarsvæðunum með alkunnum afleiðingum.

Undir stjórn Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, sem státar sig af því, að Ísland verði herlaust land (hún er svo góð manneskja), fara erindrekar hennar, sem höfðu umboð í varnarmálum af því að bandarískur her var í landinu, til viðræðna við aðrar þjóðir, eins og þeir styðjist ennþá við einhvern her!

Þetta er náttúrlega tómt rugl. Utanríkisráðherra hefur ekki meira umboð til þess en umhverfisráðherra og herlaus hefur hún ekki um neitt að ræða í fundaherferð sinni um hernaðarlegt samstarf við aðrar þjóðir. Eða er hún kannski með einhver plön um friðargæsluna, sem við vitum ekki um?

En Morgunblaðið hefur aldrei vitað betri hugmyndir en þær, sem nú fæðast ein af annarri við Rauðarárstíginn. Síðasta sunnudag mátti þannig lesa Reykjavíkurbréf, þar sem rætt var af andakt um greiningarstarf á vegum ráðuneytisins — það er gagnnjósnadeild um hernaðarleg málefni! En væri ekki nær að spyrja hvernig slíkt starfsemi fellur að starfi utanríkisráðuneytisins? Hvar er alþjóðlegt fordæmi? Hvernig samræmist það alþjóðasamningum um diplómatískt samband, að utanríkisráðherra sé jafnframt yfirmaður gagnnjósnastofnunar á erlendri grund? Eða á deildin að starfa innan lands? Hvar eru lögheimildir ráðuneytisins til að reka hernaðarlega gagnnjósnadeild? Ætlar gegnsæi ráðherrann að flytja frumvarp til laga um þetta efni?

Samkvæmt yfirlýsingu forystumanna ríkisstjórnarinnar eru varnir landsins á ófriðartímum tryggðar með tvíhliða samningi við Bandaríkin. Hitt er svo annað mál að allur er varinn góður og sjálfsagt er að efla samstarf við vina- og grannþjóðir um eftirlit og ámóta starfsemi á friðartímum, en að utanríkisráðuneytið leiði þá umræðu með einhverjum órum um hernaðarsamstarf er út i hött. Það eru stofnanir á vegum dómsmálaráðuneytisins, sem unnt er að beita til raunhæfs samstarfs við aðrar þjóðir á þessu sviði, og öldungis fráleitt að utanríkisráðuneytið skuli ekki tengja ratsjárstofnun og öryggissamband við NATO þessum stofnunum.

En ætli það sé nokkur hætta á því? Athafnir ráðherrans og ráðuneytisins benda til þess að það séu einmitt hagsmunir ráðherrans og ráðuneytisins, sem séu hafðir að leiðarljósi, fremur en öryggishagsmunir Íslands.


mbl.is Meira rætt um borgaralegt framlag en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrés Magnússon

Punkturinn í þessum skrifum mínum er einmitt sá, að þetta sé hrein yfirborðsmennska hjá gegnsæja ráðherranum. Merkilegt nokk voru það karlhlunkar og það stækustu íhaldsmenn, sem ákváðu að aflétta þessari leynd, enda ástæðulaus orðin. Og fannst ekki ástæða til þess að hreykja sér á haugnum af því, en ráðherrann fékk fjaðrirnar lánaðar til þess.

Þetta er af svipuðum toga og það útspil Valgerðar að láta eins það sé fyrir hennar einstaka frumkvæði, sem utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að koma reglu á skjalasafn sitt. Ótrúlega margir hafa ljáð bakraddir við þann falska söng og virðast líta framhjá hinu augljósa, að ráðuneytið er að taka til í geymslunni vegna ályktunar alþingis um aðgang fræðimanna að þessum skjölum. Þetta kallar ráðherrann að aflétta karlægri leyndarhyggju. Það kalla ég innantómt þvaður.

Andrés Magnússon, 27.1.2007 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband