17.2.2007 | 19:31
Sjálfstæði þingmanna og flokksagi
Ég sé að sveiflukóngurinn Hjörtur J. Guðmundsson er að atast í Sigurlín Margréti Sigurðardóttur fyrir að segja sig ekki frá varaþingmennsku fyrst hún er gengin úr Frjálslynda flokknum. Þar er hann að vísa til hástigsorðræðu frjálslyndra þegar Gunnar Örlygsson sagði sig úr flokknum hér um árið. Minnir Hjörtur á orð Sigurlínar af því tilefni:
Hin almenna skoðun mín er að svona eiga menn ekki að gera. Nái sannfæring þeirra ekki að samræmast þeirri stefnu sem þeir voru kosnir á þing fyrir, eiga þeir einfaldlega að segja af sér og bíða eftir næstu umferð í nýjum flokki þar sem sannfæring þeirra sameinast stefnu þess flokks sem þeir hafa valið sér.
Auðvitað er það tóm hræsni hjá frjálslyndum hvort sem þeir eru enn í náð flokksforystunnar eða ekki, utan flokks eða innan að fagna hreppaflutningi stjórnmálaleiðtoga eins og Kristins Halldórs Gunnarssonar og Valdimars Leós Friðrikssonar á meðan ylvolgar fordæmingar þeirra á ákvörðun Gunnars Örlygssonar standa óhaggaðar. Þær kalla máske á uppgjör við fortíðina?
En ég veit ekki hvað á að vera nudda þeim mikið upp úr þessu, blessuðum, vegna þess að þetta raus þeirra um Gunnar var nákvæmlega það: raus, byggt á misskilningi, vanþekkingu og grunnhyggni.
Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að skipan mála á Alþingi elstu stofnunar stjórnskipunar okkar hefur orðið til fyrir þróun og aðlögun en ekki eftir að vísir landsfeður settust niður og ákváðu rökrétta og fullkomna tilhögun, sem skilyrt var í stjórnarskrá. Þingið er eldra þingflokkum og þingflokkarnir eru eldri stjórnmálaflokkum.
Eftir endurreisn Alþingis 1843-1845 var þorri þingmanna kjörinn (þó kosningaréttur væri langt í frá almennur) en þeir buðu sig fram í eigin nafni og engir flokkar að störfum. Þeir fengu kjörbréf í hendur, sem var stílað á þeirra nafn. En auðvitað gerðist það fljótlega að flokkadrættir urðu á þingi; menn bundust samtökum um tiltekin þingmál, hópuðust eftir grundvallarafstöðu til lífsins og fylktu sér um helstu skörunga. Þannig urðu innan tíðar til óformlegir þingflokkar, afar lausir í reipunum að vísu (mikið ráp yfir ganginn og hurðaskellir voru ekki ótíðir). Er leið að heimastjórn urðu þeir mun sýnilegri og opinberari, en þeir voru óformleg bandalög á þingi og þingmönnum var í sjálfsvald sett hvar eða hvort þeir skipuðu sér í því samhengi.
Eftir að kosningaréttur varð almennur árið 1915 (það voru ekki aðeins konur, sem þá fengu loks kosningarétt) hófst hins vegar atburðarás, sem leiddi til núverandi flokkakerfis, en bæði Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur voru stofnaðir 1916. Í þessu samhengi er einkar fróðlegt að lesa eitt höfuðrit Max Weber, Stjórnmál sem starfi, sem kom út 1919, en þar lýsir hann einmitt og segir næsta nákvæmlega fyrir um þróun vestrænna flokkakerfa allt til okkar dags og Ísland hefur ekki skorið sig úr í neinum aðalatriðum hvað hana varðar.
Þrátt fyrir að hér væri komið á kjördæmum með fleiri en einum þingmanni og listakosningum, sem sættu sérstökum lögum og reglum (og hafa tekið hinum ýmsu breytingum í rás tímans), breyttist hitt aldrei, að það voru þingmennirnir, sem tóku kjöri. Raunar er það stutt sérstöku stjórnarskrárákvæði, 48. greininni, sem hljóðar svo:
Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.
Raunar hefur þess misskilnings stundum gætt að þingmenn verði að vera einstaklega sannfærðir um þau þingmál, sem þeir greiða atkvæði um, en þetta ákvæði snýst engan veginn um neitt slíkt, heldur hitt, að tryggja það að ekki sé unnt að skuldbinda þingmenn til þess að haga atkvæðum sínum með tilteknum hætti. Þannig eru landsfundarsaamþykktir einungis ábendingar til þingmanna en ekki fyrirskipanir, frambjóðendur þurfa ekki að koma sér upp hugmyndafræði eða kenningakerfi, sem þeir þurfa þá að kynna og hlíta, og einu gildir hvað stjórn BSRB samþykkir, Ögmundur Jónasson á það aðeins við sjálfan sig hvernig hann greiðir atkvæði innan vébanda þingsins.
(Í framhjáhlaupi: Hitt er svo annað mál, að stjórnmál snúast um eilífar málamiðlanir og þingmenn geta þannig stutt mál, sem þeir hafa e.t.v. efasemdir um út af fyrir sig, en telja miklu varða að komist í gegn af öðrum ástæðum, t.d. til þess að halda stjórnarsamstarf í heiðri, nú eða þegar verið er að semja um mál, eins og alsiða er í þinginu. Sumum kann að finnast það bera vott um ístöðuleysi og málaliðveislu, en tilgangur hins frjálslynda fulltrúalýðræðiskerfis er ekki síst að tryggja öfgaleysi, sviptingalausa siglingu þjóðarskútunnar og tillitssemi við sem flest sjónarmið. Samningar á þingi eru betur til þess fallnir en ýtrasta beiting meirihlutavalds.)
Hugmyndir um að þingmenn eigi fyrr að segja sig af þingi en úr flokkum ganga þvert á allar hugsjónir um sjálfstæði þeirra, frelsi til þess að hlýða sannfæringu sinni og persónulega ábyrgð gagnvart kjósendum. Um leið eru þær vegvísir að enn harðari flokksaga og ógrundvölluðu valdi flokksforystu eða flokksskrifstofu eftir atvikum. Þróunin undandfarin ár hefur raunar verið mjög í þá átt og það án opinberrar umræðu eða breytingar á stjórnskipunarlögum í þá veru. Að mínu viti er það mikil óheillaþróun, sem hefur grafið undan völdum þingsins og komið ójafnvægi á þrískiptingu ríkisvaldsins, þar sem mörk og mótvægi (checks and balances) greinanna þriggja eru lýðræðinu bráðnauðsynleg.
En þessar hugmyndir eru annarlegar á fleiri vegu. Þær ganga nefnilega út frá því að þingmenn séu ekki hugsandi menn heldur hópsálir, þeir séu einungis atkvæðahandlangarar flokkanna, að flokkarnir eigi sér eina og augljósa stefnu í öllum málum sem fyrir þingið geta borið og svo framvegis. Haldi menn að heimurinn virki þannig og að lýðræðinu sé best þjónað á þann hátt þurfum við enga þingmenn, heldur aðeins atkvæðaþjarka. Í þeirri staðleysu þurfa engir þingmenn að koma til Alþingis, gott tölvuforrit gæti séð um að afgreiða frumvörp ráðuneytanna í takt við yfirlýsta stefnu flokkanna og atkvæðastyrk þeirra.
Við erum hins vegar fólk af holdi og blóði og fyrir þingið koma mál, sem eru flóknari en svo að unnt sé að reikna út hvernig þau ættu að fara. Önnur snúast ekki síður um tilfinningar en rökhugsun. Fyrst og fremst þar þingið þó að geta brugðist við nýjum og óvæntum viðfangsefnum og þá dugir engin stefnuskrá til, heldur þurfa kjósendur að geta reitt sig á að þeirra eigin hyggjuvit og brjóstvit hafi valið réttu fulltrúa þjóðarinnar, sem hafa nægilega skynsemi, réttsýni, heiðarleika, umhyggju og einurð til þess að ráða fram úr vandanum landi og þjóð til heilla.
Það verður ekki gert með því að skylda þingmenn þó þeir heiti Valdimar Leó eða Kristinn Halldór til þess að fylgja flokkslínunni í blindni. Við skulum ekki gleyma að hún er líka frá breyskum mönnum komin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 37
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Andrés.
Atast í ?
Má hann ekki hafa sína skoðun , min skoðun er sú að ég prívat og persónulega sé eftir því að hafa átt þátt í því að koma fólki á þing fyrir minn flokk sem síðan hleypst undan merkjum.
Það er vanvirðing við kjósendur fyrst og fremst þar sem hver flokkur og flokksmenn hans tala fyrir sig.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 18.2.2007 kl. 01:20
Þekkjandi Andrés held ég að hann hafi ekki verið að nota orðið ,,atast" í neikvæðum skilningi.
Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 10:20
Það er kannski ósamræmið sem ergir fólk. Það var enginn sem kaus Gunnar Örlygsson á þing. Það er ekki hægt. Það er hins vegar hægt að merkja við F, eða einhvern annan bókstaf.
Þrátt fyrir að aðeins sé hægt að velja bókstaf eru þingmenn aðeins bundnir sannfæringu sinni, ekki flokknum, en það er flokkurinn sem er kosinn.
Það er viðeigandi að menn geti skipt um flokka þar sem einmenningskjördæmi eru við lýði. Ekki þar sem enginn hefur möguleika á að kjósa menn, aðeins flokka.
Árni Gunnar Ásgeirsson, 18.2.2007 kl. 15:58
Auðvitað eigum við að taka upp einmenningskjördæmi. Miklu eðlilegra fyrirkomulag sem myndi fyrirbyggja svona rugl.
Þangað til það verður tekið upp þá verðum við bara að vera dugleg og strika út fólk.
Davíð Örn Jónsson, 19.2.2007 kl. 16:59
Er spurningin ekki frekar hvort Alþingi er ekki orðið úrelt og við eigum að taka upp beint lýðræði?
Einar Þór Strand, 25.2.2007 kl. 00:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.