Leita í fréttum mbl.is

Sumarfrí

Sá fráneygi Pétur Gunnarsson bendir á það í bloggi sínum að Nyhedsavisen, systurblað Fréttablaðsins í Danmörku, verði lokað vegna sumarleyfa, líkt og tíðkaðist hjá Ríkissjónvarpinu skömmu eftir landnám. Þetta kemur fram á viðskiptasíðum Berlingske Tidende, sem vitna í Svenn Dam, forstjóra Nyhedsavisen, en hann segir að lokunin muni standa í 2-5 vikur.

Þetta þykja mér tíðindi. Nú höfðu vísir menn raunar reiknað út að Nyhedsavisen yrði búið að brenna upp öllu hlutafé sínu í fyrstu viku júlí, eins og greint var frá í febrúar í fagblaðinu Journalisten, málgagni danska blaðamannafélagsins. Sú spurning er því ekki út í loftið, hvort Nyhedsavisen komi nokkuð úr sumarfríi.

Ég hef unnið á mörgum blöðum á tveggja áratuga blaðamannsferli og sum hafa verið býsna blönk. En ég hef aldrei vitað slíka erfiðleika að loka verði yfir sumarið. Eða yfir háveturinn þegar auglýsingatekjurnar eru hvað rýrastar. Það er eitthvað óendanlega aumt við það að gefast upp með þessum hætti, yppta bara öxlum og halda því fram, að það gerist nánast ekkert þegar sumarið stendur sem hæst, eins og Damm segir í viðtali við Berling. Mig grunar því að verið sé að kaupa tíma til þess að finna ferskt hlutafé til þess að brenna upp.

En það er svo skrýtið, að það er ekki nema um vika síðan minn gamli vinur Gunnar Smári Egilsson, forstjóri eignarhaldsfélags Nyhedsavisen, átti varla orð til um það hvað framtíð blaðsins væri ofboðslega björt:

Við reiknum með því að í næsta mánuði eða í síðasta lagi þarnæsta verðum við komnir með flesta lesendur í þessum þremur borgum. Ég reikna með því að við verðum komnir með flesta lesendur í Danmörku á endanum, en það er í rauninni ekki okkar meginmarkmið. Allur rekstur og hugsunin snýr að því að búa til eitthvert batterí sem þjónar auglýsendum vel með því að finna þá lesendur sem henta þeim.

Það var og. En blaðið verður varla með flesta lesendur ef það kemur ekki út, hvað þá að það þjóni auglýsendum vel eða finni handa þeim hentuga lesendur! Nema náttúrlega þeir telji hagsmunum auglýsenda, lesenda og eigenda best borgið með því að koma alls ekki út.

Í sama mund og þessi undursamlega viðskiptahugmynd blómstrar með ofangreindum hætti meðal vorra læsu frænda í Danmörku, hyggjast Íslands fremstu útrásarvíkingar herja á nýja heiminn með sömu hugmynd, bara á enn stærri vísu. Það á að byrja í Boston, en markmiðið mun vera að gefa út blöð með sama sniði í 8-10 bandarískum borgum.

Eftir gjaldþrot smávörukeðju Baugs í Bandaríkjunum árið 2002 hafði Jón Ásgeir Jóhannesson á orði að sú þriggja milljarða króna sneypuför hafi verið dýrt námskeið, en á því hafi Baugsmenn lært að halda sig við Evrópu. Síðastliðinn nóvember hafði sú lexía loksins gleymst, en þá skýrði Jón Ásgeir Viðskiptablaðinu frá því, að Baugur stefndi að því að hefja starfsemi í Bandaríkjunum á ný árið 2008 og notast við sama „viðskiptamódel“ og hefur reynst svo arðbært á Englandi. Jón Ásgeir taldi að Baugsmálið myndi ekki verða fyrirtækinu til trafala vestanhafs, enda fyrirtækið lítt þekkt þar, ólíkt því sem gerist í Bretlandi. Já, kannski Baugi vegni best þar sem enginn þekkir til félagsins. En lýsir það mikilli fyrirhyggju af hálfu Baugs, að fyrsta dótturfélagið, sem sent er inn á völlinn vestra, skuli vera fullkomnasta peningabrennsluvél, sem fundin hefur verið upp á Íslandi?

Það er ekki að sjá að Baugsmenn hafi mikið lært á fjölmiðlanámskeiði sínu, sem aðeins hér á Íslandi kostaði ótal miðla lífið og litla sjö milljarða króna á síðasta ári (og Jón Axel Ólafsson setti í samhengi fyrir oss auma launþega, sem þekkjum ekki milljarða nema af afspurn). Nema náttúrlega tilgangur þessa rekstrar sé hreint ekki viðskiptalegs eðlis. Síðastliðinn föstudag var haldinn starfsmannafundur hjá 365 miðlum og farið yfir hrakfarir liðins árs. Það er skemmst frá því að segja að þar var Gunnari Smára bara svo og svo fínlega kennt um allt saman, hinum sama og nú ætlar að kenna Bandaríkjamönnum hvernig eigi að búa til blöð. Í boði Baugs.

Ætli einhverjir Baugsmiðlarnir hérna heima fari líka í svona sumarfrí eins og Nyhedsavisen? Hvenær hefst réttarhlé?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband