Leita í fréttum mbl.is

Fjárlagaboginn spenntur

Þá er fjárlagafrumvarpið komið og það fór fram úr mínum myrkustu martröðum. Eins og ég hafði tæpt á í færslunni um fund Geirs H. Haardes, forsætisráðherra, þótti mér líklegt að aukning ríkisútgjalda yrði á bilinu 8-10%. Því var raunar haldið fram af Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, að útgjaldaaukningin næmi um 8%, en sá útreikningur er hæpinn í meira lagi. Þá lítur ráðherrann til áætlana um heildarútgjöld ríkisins fyrir 2007 að meðtöldum fjáraukalögum og því öllu og ber hið nýja fjárlagafrumvarp saman við það. Hvaða líkur standa til þess að útgjöld vegna 2008 verði aðeins þau, sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu? Eru uppi áform um að leggja af fjáraukalög?

Nei, því er ekki þannig farið og raunar frekar varlegt að áætla að hlutföllin milli fjárlaga og endanlegra reikningsskila verði hin sömu. Hinn rétti mælikvarði er vitaskuld að bera saman fjárlög 2007 og fjárlög 2008, en þar til frumvarpið verður afgreitt sem lög höfum við ekki annað í höndunum en frumvarpið. Við getum a.m.k. verið nokkuð viss um að ekki munu upphæðirnar lækka í meðförum þingsins.

Lítum þá á fjárlagafrumvarpið, A-hluta þess, nánar til tekið. Þar inni eru ráðuneytin öll, æðsta stjórn ríkisins og vaxtagjöld ríkissjóðs. Í sjálfu sér eiga vaxtagjöldin ekki heima þarna, þau eru ekki rekstarkostnaður í neinum skilningi, en látum gott heita, þau lækka meðaltal útgjaldaaukningarinnar eilítið, sem þá vegur að einhverju leyti upp á móti verðbólgunni, sem ekki er tekið tillit til í þessum tölum. Væri hún tekin með lækkaði útgjaldaaukningin sjálfsagt um 2% í viðbót, en ég læt þar vera; í fjárlagafrumvörpum er enda reynt að gera ráð fyrir verðbólgu fyrirfram.

En svona lítur þetta þá út samkvæmt frumvarpinu, í milljörðum talið:

 Fjárlög ’07Frumv. ’08Mismunur
Æðsta stjórn ríkisins3,3103,183-3,85%
Forsætisráðuneyti1,1871,31110,46%
Menntamálaráðuneyti46,25250,95810,17%
Utanríkisráðuneyti9,70811,76621,20%
Landbúnaðarráðuneyti13,82214,0161,41%
Sjávarútvegsráðuneyti3,0043,39413,01%
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti20,81523,43212,57%
Félagsmálaráðuneyti32,69840,19822,94%
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti144,649156,6038,26%
Fjármálaráðuneyti36,38648,76034,01%
Samgönguráðuneyti23,32942,34581,51%
Iðnaðarráðuneyti4,2564,6809,96%
Viðskiptaráðuneyti1,6691,86011,47%
Hagstofan0,5950,6295,64%
Umhverfisráðuneyti4,9515,45610,20%
Vaxtagjöld ríkissjóðs20,63021,7645,50%
Alls367,260430,35517,18%

 

Sem sjá má er útgjaldaaukningin meiri en tvöföld sú, sem fjármálaráðherra boðaði. Jafnvel þó svo við reiknuðum verðbólguna inn í og væri hún aðeins rétt tæplega tvöföld.

Ég er auðvitað bara úr máladeild, dæmi eru um að Excel reikni ekki alltaf rétt og ég er viss um að tölspekingar fjármálaráðuneytisins geta nefnt hitt og þetta, sem þurfi að taka með í reikninginn til þess að dæmið líti betur út. Það kann jafnvel að vera sanngjarnt að horfa til einhvers af því. En það verður bitamunur, ekki fjár.

Svo á ég alveg eftir að fara út í þá sálma í hvað þessum gegndarlausum fjármunum er varið. Það verður efni í lengri færslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Takk fyrir þennan pistil Andrés, ég ætla að ná í fjárlögin og skoða.

Haukur Nikulásson, 3.10.2007 kl. 12:13

2 Smámynd: K Zeta

Ég skil ekki hvers vegna Dóms og Kirkjumálaráðuneytið fer svona upp?  Eru það frekari þyrlukaup?

K Zeta, 4.10.2007 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband