Leita í fréttum mbl.is

Til varnar Villa

Það er merkilegt hvernig menn láta eins og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafi orðið uppvís að einhverri lygi í Orkuveituóperunni, af því að fram kemur í greinargerð frá Bjarna Ármannssyni, stjórnarformanni REI, Hauki Leóssyni, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur og Hjörleifi B. Kvaran, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, að honum hafi verið kynnt tiltekið minnisblað Bjarna Ármannssonar á „löngum fundi“, sem þeir Haukur og Bjarni héldu með borgarstjóra á heimili hans.

Ástæðan fyrir því að menn líta á þetta sem mikil teikn er sú, að Vilhjálmur hafði sagt í viðtali við Morgunblaðið á sunnudag að sér hefði verið ókunnugt um þennan 20 ára þjónustusamning, sem ég hygg að flestum hafi blöskrað hversu mjög batt hendur Orkuveitunnar. Ekki síður sætti það undrun að hann skyldi ekki hafa verið nefndur einu orði þegar samruni félaganna var kynntur. En nú var því sumsé haldið fram að Villa hefði verið kynntur samningurinn fyrir löngu, löngu áður en samningurinn var tilbúinn. En hvað kynntu þessir herramenn fyrir borgarstjóra á fundinum langa?

Ég veit ekki hvernig þeim mæltist fyrir, en á þessu minnisblaði er rætt um hlutina með allt öðrum hætti en gert var í samningnum, sem nánari grein er gerð fyrir að neðan. Það er talað um að tryggja aðgang að þekkingu og starfsfólki, að notkun vörumerkisins sé heimil og að OR beini verkefnum til REI. Það er svolítið annað en einkaréttur að þekkingu, skuldbinding um að hafa ávallt sérfræðinga tiltæka eftir þörfum og dyntum REI, eða fortakslaus forgangur að öllum verkefnum OR utan landsteinanna. Orðið „einkaréttur“ kemur ekki einu sinni fyrir!

Er unnt að draga aðra ályktun en að þetta almenna orðalag sé til þess fallið að afvegaleiða lesandann? Nema málið hafi síðan breyst svona mikið í meðförum síðan. Það væri ekki í fyrsta sinn, sem æðstu stjórnendur Orkuveitunnar leika slíkan blekkingaleik gagnvart fulltrúum eigenda sinna. Nú hafa þeir verið staðnir að verki með kámugar lúkurnar í fjárhirslum fyrirtækisins, úthlutandi sjálfum sér kauprétti eftir þörfum, og enn leika þeir lausum hala. Menn hafa verið kærðir fyrir tilraun til umboðssvika af minna tilefni.

Ég hef engan veginn verið sáttur við alla framgöngu Vilhjálms í þessu máli öllu og áfellist hann talsvert fyrir að hafa vanrækt eftirlitsskyldu sína sem stjórnarmaður í OR og borgarstjóri. Reynsla hans af feitu köttunum í OR átti að vera honum brýning til þess að trúa þeim ekki sisona, lúslesa allt sem frá þeim kom og telja á sér fingurna eftir handabönd við þá. Hvað þennan einkaréttarsamning áhrærir er hins vegar verið að hafa hann fyrir rangri sök og að mér sýnist af ásettu raði. Menn geta sjálfir reynt að ráða í hvatirnar, sem að baki liggja. En þá ættu þeir að hafa hugfast hverjir hafa mestu að tapa úr því sem komið er. Það er ekki Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.

...................

Samningurinn

Orkuveitan Reykjavíkur (OR) skuldbatt sig samkvæmt þessum 20 ára þjónustusamningi til að veita einvörðungu Reykjavík Energy Invest (REI) sérfræðiþjónustu á vettvangi jarðhita, rannsókna, ýmiss konar áætlanagerðar og markaðsmála. Þá fékk REI m.a. forgangsrétt að öllum erlendum verkefnum sem kunna að falla í skaut Orkuveitunnar á samningstímanum. Leiti einhverjir aðilar til OR varðandi möguleika á hagnýtingu jarðhita til orkuvinnslu, annars staðar en á Íslandi, ber Orkuveitunni að vísa slíkum fyrirspurnum til REI sem síðan hefur 60 daga forgangsrétt til að semja við viðkomandi aðila. OR má svo hirða hratið eða framselja það. Eins skuldbatt OR sig til að hafa sérfræðinga sína tiltæka á grundvelli ársfjórðungslegra áætlana REI, en geri REI breytingar á þeim eru þær samt bindandi fyrir OR. Samningurinn kvað og á um að REI skuli fá öll markaðsgögn OR og beinan aðgang að öllum gögnum „um þekkingu“, sem og upplýsingum á tölvutæku formi, sem tiltæk eru á hverjum tíma. Og auðvitað afnot af vörumerkinu Reykjavík Energy, en þannig er Orkuveitan sjálf þekkt á erlendum vettvangi.

Þessi samningur var undirritaður af þeim kaupréttarköttunum Guðmundi Þóroddssyni og Hjörleifi Kvaran, forstjórum OR og REI.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ætli mér og fáeinum öðrum íbúum Reykjavíkur sé ekki skylt að biðjast afsökunar á þeim skilningi að borgarstjórinn eigi, ja eiginlega svona, ja helst ekki að skrifa undir gerninga sem hann hefur ekki lesið eða skilið?

Árni Gunnarsson, 15.10.2007 kl. 23:31

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka greinargóðan pistil Andrés.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.10.2007 kl. 00:08

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég tek undir bæði með Árna og Andrési.  Þríeykið sem fær sína vænu sneið af kökunnni er ekki öruggasta heimildin í þessu máli og sömuleiðis hefði Villi átt að kynna sér málið í þaula og vara sig á samstarfsmanninum.

Sigurjón Þórðarson, 16.10.2007 kl. 00:18

4 Smámynd: Guðmundur Jóhannsson

Borgarstjóri, bæjarstjóri og aðrir stjórnendur hafa menn sér við hlið sem þeir treysta, þeir verða að hafa marga aðila sem taka að sér trúnaðarstörf fyrir þá.  Þessum mönnum verður stjórnandinn að treysta, annars gerist ekkert í málunum. 

Eftir Kastljósþáttinn í kvöld er ág sannfærur um að þessir ágætu menn sem Vilhjálmur treysti hafa allir svikið hann og blekt.  Þessi svo kallaður kynningarfundur heima hjá Vilhjálmi hefur verið að þeirra ósk, þar fara þeir yfir málið munnlega, leggja fullt af pappírum á borðið og freista þess að fá að halda málinu áfram.  Auðvitað þurfti samþykki borgarstjóra til að halda málinu áfram, gera samning um að flytja verðmæta partinn, (þennan óefnislega) í REI.  Fyrirtækið sem Bjarni keypti í fyrir 500mill í, ekki gerist Bjarni fjárfestir í svona félagi nema til þess að hagnast.  Enda fengu þeir félagar heimild til að halda málinu áfram.

Það er alveg ljóst að Vilhjálmur var blekktur, ekki einu sinni heldur margsinnis, Vilhjálmur hefur greinilega ekki haft ábyggilegan mann með sér í þessu stóra máli, þar á ég við Hauk Leósson.   Svo þessi greinargerð, af hverju að senda hana út, jú til að draga kastljósið að Vilhjálmi, hann lyggur svo vel við höggi.  Svo skil ég ekki af hverju fréttamenn taka ekki fastar á Bjarna, Hjörleifi, Hauki og Guðmundi, þessir menn stýrðu atburðarásinni. 

Guðmundur Jóhannsson, 16.10.2007 kl. 01:41

5 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Fyrst eftir þáttinn var ég sannfærður um að Vilhjálmur væri að ljúga en svo fór ég að hugsa.

Þetta var mjög langur fundur, já, mjög langur fundur. Vilhjálmur treystir þremenningunum og margt ber á góma á löngum fundi. Það má vel vera að eitthvað minnisblað hafi dúkkað upp sí svona ásamt aragrúa af öðru lesefni. Venjulegt fólk man bara aðalatriðin á löngum fundum. Minnisblaðið hefur ekki verið kjarni málsins þótt það sé kannski tæknilega rétt að það hafi verið innan um haug af skjölum.

Ég held að bæði Vilhjálmur og Bjarni hafi báðir farið með rétt mál í Kastljósþættinum en Bjarni hafi gert óljósu aukaatriði að aðalatriði málsins og komið þannig höggi á Vilhjálm sem man ekki eins vel og upptökutæki enda minntist hann ekki að umrætt minnisblað í mogganum.

Benedikt Halldórsson, 16.10.2007 kl. 03:49

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það má af þessu álykta að Villi sé bara einfeldningur, sem hefur í bláeygri auðtrú látið lymskufulla klækjarefi leika á sig.  Tel það ekki fjarri sannleikanum. Það er ótrúlegt að sjá að nú keppast menn á báða bóga við að gera blóraböggul ú Vilhjálmi og reyna að telja okkur trú um að með því að setja hann í gapastokk, sé málinu lokið. Það er sko aldeilis ekki, enda er ljóst að þegar samningurinn er dreginn upp er breytt út af hinni óformlegu samþykkt.

Hér er logið á alla kanta og það er gott að þessi staða sé uppi, því þá þyrlast skíturinn upp á báða bóga og alþýða manna fær að sjá hve gerspillt stjórnsýslan er auk viðskiptaelítunnar.

Það er aum stjórnsýsla, sem sem stendur og fellur með yfirsjónum eins manns.  Það hljóta að vera fleir sem horfa yfir öxl Villa í svo mikilvægum samningamálum.  Hann er ekki einráður, svo það sé alveg ljóst.

Ég kenni í brjósti um kallinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.10.2007 kl. 05:20

7 Smámynd: Guðmundur Jóhannsson

Í mínum huga er klárt að minnisblaðið var ekki stílað á Borgarstjóranní Reykvavík, málefni,; "Samningur OR við REI"   Minnisblöð eru skrifuð til  aðila máls honum til upplýsinga.  Í minnisblaði er dregin saman aðalatriðin og málið skýrt út á skýran hátt.  Ef þetta svokallaða minnisblað var ekki til Vilhjálms þá hefur hann ekki fengið það.

Á stæða þess að þessir menn senda frá sér greinagerð er óskiljanleg, hver er tilgangurinn. 

Vilhjálmur er ekki sökudólgurinn í þessu máli.

Guðmundur Jóhannsson, 16.10.2007 kl. 10:57

8 identicon

Mér fannst Vilhjálmur koma vel frá Kastljósi Sjónvarpsins. Hann var pollrólegur, yfirvegaður og trúverðugur. Bjarni Ármannsson var hinsvegar fölur, niðurlútur, flóttalegur og ótrúverðugur. Mín skoðun er sú að Vilhjálmur hafi ekkert haft í kænsku og taumlausa græðgi Bjarna að gera og látið hann blekkja sig og fara á bak við sig. Bjarni er að koma skammarlega illa út úr þessu máli öllu saman, enda er strákslega glottið af honum og græðgislegur fullorðins svipur tekinn við.  

Stefán (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 11:08

9 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Eins og ég skynjaði framkomu þeirra Bjarna og Vilhjálms í Kastljósi fannst mér eins og Bjarna liði illa yfir hversu illa Vilhjálmur var að sér í máli þessu og að hann þyrfti að bera upp á hann hvað hann hefur kynnt sér málin illa.

Gísli Sigurðsson, 16.10.2007 kl. 18:30

10 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Góður pistill Andrés

Vilborg G. Hansen, 17.10.2007 kl. 11:45

11 identicon

Hvaða stjórnsýslulegu álitaefni eru uppi í þessu máli? nú er maður ekki nógu vel að sér í þessu. Er þetta ekki einkarréttarlegur gerningur sem þarf ekki að lúta reglum stjórnsýslunnar??

innherjinn.blog.is (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband