Leita í fréttum mbl.is

Tilbrigði um stef

Á forsíðu Fréttablaðsins í morgun var sniðug mynd eftir Gunnar V. Andrésson, sem ég held að sé djákni íslenskra blaðaljósmyndara. En hún minnti mig á eitthvað.

Það var að rifjast upp fyrir mér á hvað hún minnir. Þarna er á ferð svipað myndmál og Brynjar Gauti Sveinsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, fangaði við svipað tækifæri fyrir tæpum þremur árum.


Þá var Þórólfur Árnason, borgarstjóri, við það að hrökklast frá völdum, og sú mynd sagði eiginlega alla söguna án þess að frekari skýringa væri þörf. Á henni sést Þórólfur borgarstjóri á hlaupum undan fjölmiðlafólki. Hann reisir upp fingur til merkis um að hann hafi engin svör, vilji frið og þurfi meiri tíma en aftast á myndinni sést sama táknið og Gunnar V. notaði líka, en það vísar á neyðarútgang úr Ráðhúsinu, sem borgarstjóra veitti ekki af. Myndin nær asa augnabliksins fullkomlega, fangar ringulreiðina í Ráðhúsinu á þessum dögum og  er um leið táknræn fyrir atburðarrásina sem leiddi til afsagnar Þórólfs.

Það er Ólöf Rún Skúladóttir, sem er holdgervingur gervallrar fjölmiðlastéttarinnar á myndinni, en það er líka gaman að benda á að í hópi þeirra, sem á eftir ganga, grillir í Dag B. Eggertsson, nýráðinn borgarstjóra. 

Þessi mynd Brynjars Gauta þótti svo snilldarleg að hún var valin fréttamynd ársins 2004 af Blaðaljósmyndarfélagi Íslands (BLÍ) og var þó sægur annarra sögulegra atburða það ár, sem gáfu af sér fjölda frábærra fréttamynda.

Stundum heyrir maður það viðhorf utan að sér að á Íslandi gerist svo fátt, að lítil von sé til þess að fá almennilegar fréttaljósmyndir, og aðrir láta eins og fréttaljósmyndir séu nánast eins og skraut með hinum skrifuðu fréttum. Þetta er hvort tveggja rangt. Það er raunar með ólíkindum hvað við eigum mikið af snjöllum blaðaljósmyndurum og frá þeim streymir urmull góðra fréttamynda, eins og við njótum á hverjum degi í blöðunum. Þær eru ekki bara eitthvert skraut, því sé myndin nógu góð verður hin skrifaða frétt lítið annað en skýringartexti. Ekkert íslensku blaðanna nálgast Morgunblaðið í myndnotkun, en Fréttablaðið hefur verið að sækja sig á, þó hönnum þess leyfi ekki miklar æfingar í þá veru. DV getur síðan öðrum blöðum fremur gert góðum myndum sérstök skil, en geldur þess að fréttastefna blaðsins er aðeins á ská við hina miðlana.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að taka fram, að ég er alls ekki að gefa í skyn að Gunnar V. Andrésson hafi gerst fingralangur eftir mótífi myndar sinnar. Öðru nær, enda þarf Gunnar ekkert að fá að láni annars staðar frá. Nær er að tala um tilbrigði við stef og með mynd sinni er hann að hreyfa hattbarðið til Brynjars Gauta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vil einnig benda á þessa. Þessi var tekin af Kristni Ingvarssyni er Ingibjörg hélt úr borginni í landsmálin.

http://www.mbl.is/mm/myndasafn/detail.html?id=92185;group_id=1;leit_id=IngibjrgSl-1192704957;leit=%22Ingibj%F6rg%20S%F3lr%FAn%20G%EDslad%F3ttir%22%20Kristinn%20Ingvarsson;booltype=and;wordtype=exact;start=;end=;;offset=27

Hilmar Þór (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband