Leita í fréttum mbl.is

Mogginn sannar nauðsyn kristinfræðikennslu

Það er talsvert skeggrætt og kristnina og menntakerfið þessa dagana og ég get alveg tekið undir þá gagnrýni, sem fram hefur komið á frumvarp menntamálaráðherra, þar sem fjölmenningargrauturinn er tekinn fram yfir kristindóminn. Siðmenning okkar og siðfræði, sem byggist á snjallri blöndu kristni, gyðingdóms og grískrar heimspeki með síðari lagfæringum og viðbótum, tekur að mínu viti öllu öðru fram. Hún er samofin íslenskri menningu og þjóðlífi, en það væri beinlínis verið að ala á ranghugmyndum með því að láta öðru vísi. Ég tel að menn ættu að hugsa sig mjög vandlega um áður en þeir kasta því fyrir róða í nafni hins fjölmenningarlega umburðarlyndis. Með því væri verið að höggva að rótum þjóðarinnar og við vitum hvernig rótlausum, skjálfandi, litlum grösum vegnar. Verst af öllu þykir mér þó þessi póst-móderníska nálgun, að allt skuli lagt að jöfnu, en með því er í raun verið að innræta börnum, að stórt séð skipti ekkert nokkru máli.

En síðan sé ég í jólablaðinu, sem fylgdi Morgunblaðinu í dag, að það veitir örugglega ekki af aukinni kristinfræðikennslu í íslenska menntakerfinu. Þar er á síðu 83 að finna viðtal Hrundar Hauksdóttur við Láru Sveinsdóttur, leikkonu, sem fer með hlutverk Maríu Magdalenu í væntanlegri uppfærslu Borgarleikhússins á rokkóperunni Jesúsi Kristi súperstjörnu. Þar gætir óviðjafnanlegs misskilnings, sem er opinberaður í fyrirsögn og inngangi:

Leikur móður Jesú Krists

Borgarleikhúsið setur upp á næstunni Súperstar — hina sígildu og kraftmiklu rokkóperu frá 1970. Lára Sveinsdóttir fer með hlutverk Maríu Magdalenu og lék Hrund Hauksdóttur forvitni á að vita hvernig Lára upplifir hlutverk Maríu Magdalenu, móður Jesús Krists.

Það var og. Fyrir utan mismunandi beygingu á nafni frelsarans í fyrirsögn og texta kemur þarna fram ný kenning um uppruna hans. Er virkilega til of mikils mælst að fólk gerir greinarmun á Maríu Magdalenu og Maríu Guðsmóður? Það er ekki eins og menn þurfi að vera doktorar í Nýja-Testamentinu til þess að kunna á því skil, Da Vinci lykillinn ætti að duga. Hér að ofan má hins vegar sjá hluta af málverki Grecos af Maríunum tveimur.

Lára nefnir svo í viðtalinu, að í uppfærslunni komi fram að María Magdalena hafi stundað vændi, en það hefur ekkert að segja;  Hrund kippir sér ekkert upp við það að María mey hafi verið hóra, eins og hún hefur skilið það. Engin frétt í því.

Á venjulegum degi væru svona vinnubrögð eftirtektar og ámælis verð. En í jólablaði? Hrund er heppin að kjarni kristindómsins er takmarkalaus fyrirgefning og kærleikur Guðs.

 

....................

Viðbót 28.XII.2007: Vek athygli á athugasemd frá Hrund Hauksdóttur í athugasemdakerfinu, þar sem hún ber af sér sakir. Rétt skal vera rétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Pat Condell talar hér fyrir mig...

http://www.youtube.com/watch?v=I5cXWElb-GE

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 12:14

2 Smámynd: Linda

hahahahah jáhá María Magdalega móðir Jesú, Hrund sem og aðrir starfsmenn mbl ættu nú að vita betur, ég er svo aldeilis hissa. Hún veit kannski betur núna

Þakka þér fyrir skemmtilegan pistil.

Linda, 30.11.2007 kl. 12:17

3 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Skemmtileg athugsemd við meinbugur hjá íslenskum blaðamönnum. Hló hátt fyrir því að engin frétt væri í því að mamma Jesú væri hóra. Kannski þú takir við hatti Ólafs Teits sem fjölmiðla(gagn)rýnir?

Sigurjón Sveinsson, 30.11.2007 kl. 12:35

4 identicon

ehhh er verið að reyna að tengja þetta inn í innflytjendur.. er verið að ala á þjóðrembu með kristilegu ívafi..
Sorglegt

DoctorE (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 12:41

5 identicon

Það er athyglisvert þegar misfarið er með og fólki ruglað saman.  Ekki vil ég ætla leikkonunni þennan rugling.  Hún hefur væntanlega sett sig betur inn í hlutverkið en svo.  Þetta er hins vegar leitt fyrir morgunblaðið og blaðamanninn.

 Hins vegar leiðist mér þessi ætlan að María Magdalena hafi verið vændiskona.  Þetta kemur fram bæði í leikritum og kvikmyndum samtíma okkar og hefur verið margspunnið í skifum í gegnum aldirnar.  Fyrir þessu er enginn staður eða áreiðanleg heimild.    Þetta má líkast helst rekja til getgáta einna og vangavelta framámanna (páfa) kirkju og kristni á fimmtu öld.   Síðan, eftir að svona getgáta er sett fram þá þykir mörgum sem sannleikurinn verði auðsær þó aðeins hafi verið laumað inn í umræðu getgátu.  

Hvað skyldi valda því að öflug kona sé svo útsett fyrir túlkun sem þessari?  Nú getur hver spurt sig en fram hjá því verður ekki litið að María Magdalena er ein stærsta persóna frumkirkjunnar og þess virði að góður gaumur sé gefinn að persónu hennar og framlagi.

Gunnar Rúnar (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 15:39

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Barnlaus hjón, Jósef og María.  Önnur María, í Magdölum, rabbínadóttir á glapstigum og ólétt eftir Rómverja, reddaði krakka handa þeim og afhenti þeim á móteli í Betlehem. Jósef og óbyrjan María ættleiddu barnið sem fékk nafnið Jesús. Svo var Guði bendlað við þetta mál og úr varð að lokum kúlt sem kallst Kristni. Fylgismenn eru margir: Alls kyns kaþólikkar, Vottar Jehóva, Lúteristar og svoleiðis fólk. Allir lifa í sátt og samlyndi. Ef þeir hatast ekki út í hvern annan búa þeir til orð eins og fjölmenningarsúpu, sem smakkast best með miklu hatri.

Allt er þetta til á Íslandi samofið íslenskri menningu og ómenningu, alveg eins og bráðinn ostur á pizzu. Íslensk menning er og hefur alltaf verið fjölmenningargrautur, en mismunandi ímyndunarveikt fólk hefur hins vegar talið sér trú um að eitthvað sé til sem sé alíslenskt.

Ekki held ég að Jesú hafi þótt ónýtt að blaðakona á Mogganum hafi loks leitt heiminn í allan sannleika um móður hans Jesús. Hann var líka alltaf góður við Magdala Maju og sumir hafa meira að segja reynt að misskilið það líkt og þeir sem halda að Guð lesi Moggann, eða var það Mogginn er Guðs orð. Mér er tjáð af áreiðanlegum engli, að Guð lætur sér nægja að blogga í gegnum ákveðna menn. Ég nefni enginn nöfn. Æi, ég vona að ég hafi ekki móðgað of marga.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.11.2007 kl. 16:22

7 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Andrés, voða ertu annars búinn að vera lengi með Hirsi Ali á náttborðinu. Ertu ekki að verða búin með hana.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.11.2007 kl. 16:26

8 Smámynd: Andrés Magnússon

Varðandi hana Hirsi Ali og aðrar bækur á náttborðinu, þá skal játað að þar hafa orðið verulegar breytingar, sem ekki eru vel endurspeglaðar hér í netheimum. Skal reyna að græja það á næstunni.

Andrés Magnússon, 30.11.2007 kl. 16:44

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Andrés

Gamall vesturbæingur hér.

Þú ert nú ekki alveg með puttan á þessari umræðu. Nauðsyn þess að taka út eyrnamerkinguna "Kristilegt siðgæði" úr lögum byggist á því að það er ekki hægt að mismuna trú- og lífsskoðunarfélugum og breytir þar engu um hvort um fjölmenningu eða mismunandi "heima-menningu" er að ræða. Það sem sett er í staðinn eru þau gildi sem skipta máli og eru alveg í samræmi við þá blöndu sem þú nefnir í blogginu.

Hvergi í mannréttindasáttmálum er það nefnt að þeir byggi á einum trúarbrögðum sérstaklega, heldur eru þeir byggðir á því sem fólk hefur komið sér saman um að séu algild réttindi og siðferðisverðmæti fyrir alla í heiminum (SÞ).

Það að taka út klausu um Kristið siðferði gerir lögin ekki verri og tryggir að þau séu ekki notuð sem afsökun fyrir trúboði í skólum á vegum kristinna söfnuða. Vinsamlegast kíktu nánar á fréttayfirlýsingu Siðmenntar um þetta mál á www.sidmennt.is

Bk - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 30.11.2007 kl. 20:14

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vilhjálmur Örn, ég undrast afskaplega þitt ljóta og tilefnislausa guðlast á þessari síðu hans Andrésar. Þér verður hér með varpað út sem bloggvini mínum.

Jón Valur Jensson, 1.12.2007 kl. 18:23

11 Smámynd: Sigurður Hólm Gunnarsson

 Satt og logið um stefnu Siðmenntar

Ég hef ákveðið að taka saman á einn stað flestar (en ekki allar) þær greinar sem ég hef skrifað vegna rangfærslna um Siðmennt. Satt að segja er ég orðin þreyttur á að hrekja sömu rangfærslurnar ofan í oft sama fólkið aftur og aftur. Ég hvet lesendur því að lesa þessar greinar fyrst og gagnrýna svo stefnu Siðmenntar. Það fer ótrúlega mikill tími í að svara fyrir stefnu sem Siðmennt hefur alls ekki.

<a href="http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php">http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php</a>

http://www.skodun.is

Sigurður Hólm Gunnarsson, 1.12.2007 kl. 20:50

12 identicon

Gat svo sem verið að þú Andrés væri bróðir Jesús. Vissir þú ekki að hann var ekki til? Þetta er allt tilbúningur. Þú trúir kannski enn á jólasveininn?

Sá þarna að Jón Valur er að henda út bloggvin vegna ummæla, já hann jón þolir illa þá sem eru honum ekki sammála. Þetta kallast vist kristilegt umburðalyndi

Valsól (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 10:06

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kristinn maður á ekki að umbera guðlast, svo mikið er víst.

Jón Valur Jensson, 8.12.2007 kl. 02:37

14 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Jón Valur, þú getur ekki meinað þetta. Að kasta mér út sem bloggvini fyrir svona smá blasfemí. Ég er viss um að Kristur hefði ekki tekið þetta eins illa upp og sé búinn að fyrirgefa mér fyrir löngu. Hverju má ég búast við. Einhverjum ofsakatólikkum sem vilja drepa mig fyrir hugmyndaflug mitt.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 14.12.2007 kl. 13:25

15 identicon

Komdu sæll, Andrés.

Þótt ófermd sé og eigi barn með múslima fékk undirrituð ávallt hæstu einkunn í kristinfræði. Þurfti eigi Da Vinci lykilinn til kristilegrar uppfræðslu - enda ekki lesið skrudduna þá.

Unnur Jónsdóttir, umsjónamaður aukablaða Morgunblaðsins, sá hinsvegar ástæðu til þess að breyta kristinni sögu undir mínu nafni, mér til mikillar hrellingar. Fyrirsögnin mín hafði verið: Vel gift inn í laufabrauðsfjölskyldu ... Að auki henti hún út innganginum sem ég hafði skrifað og segir í staðinn að ég hafi verið forvitin um að vita hvernig leikkonan upplifði að leika Maríu Magdalenu - móður Jesús Krists.

Afar leitt þykir mér að vera krossfest fyrir þennan glæp - en hugga mig við loforð þitt um að hinn kristilegi kærleikur sjái aumur á mér. Og Unni.

Gleðilega hátíð,

Hrund Hauksdóttir

 



Hrund Hauksdóttir (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband