Leita í fréttum mbl.is

Þjófkenningar

 Hjörleifur B. Kvaran

Ég á erfitt með að botna í fréttaflutningi 24 stunda af bókaþjófnaði í Kvaransfjölskyldunni. Þar fær sá stálheiðarlegi náungi Hjörleifur B. Kvaran, núverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, að tjá sig að vild um hvað orðið hafi um bækur, sem hurfu úr dánarbúi föður hans, Böðvars E. Kvaran. Böðvar var annálaður bókamaður og átti margvíslega dýrgripi, þó mér sýnist nú raunar að verðmat Hjörleifs á þeim sé út úr öllu korti, en í fréttinni er rætt er um hundrað milljónir í því samhengi. Þá hefur verðlagið á fornbókum heldur betur breyst á skömmum tíma.

Hið merkilega er að Hjörleifur talar enga tæpitungu, en vanalega verst hann allra frétta í fjölmiðlum, ekki síst þegar um ræðir eignaumsýslu hans sjálfs fyrir almenning. Hann kveðst vita að bækurnar hafi ratað í fornbókaverslun feðganna Braga Kristjónssonar og Ara Gísla Bragasonar og gott betur, þeir séu beinlínis samsekir þjófnum: „Það er ljóst að eigendur verslunarinnar voru vitorðsmenn í málinu,“ segir Hjörleifur hiklaust og gefur eitt og annað fleira til kynna.

Blaðamaðurinn Freyr Rögnvaldsson, sem skrifar fréttina, virðist ekki með forvitnari mönnum, því hann spyr ekkert út í önnur málsatvik en þau sem Hjörleifur tilreiðir honum. Til dæmis með hvaða hætti bókunum hafi verið stolið eða hver þjófurinn hafi verið. Lesandinn getur eiginlega enga ályktun dregið af fréttinni aðra en að þeir feðgar séu glæpamennirnir og engir aðrir. En það er þá sjálfsagt að taka ómakið af þeim Frey og Hjörleifi og upplýsa málið án þess að hlífa neinum.

Hinn meinti þjófur er Böðvar Yngvi Jakobsson, heimspekingur og systursonur Hjörleifs. Hann hafði aðgang að dánarbúinu og sakar fjölskyldan hann um að hafa komið einu og öðru úr því í verð með ýmsum hætti. Þar á meðal voru bækur, sem hann fór með í Fornbókabúð Braga Kristjónssonar. Hvort þær voru keyptar af honum eða teknar í umboðssölu veit ég ekki og gildir víst einu, en ég fæ ekki séð hvernig feðgarnir máttu átta sig á því að bækurnar voru illa fengnar. Hafi þeir vitað að þær hefðu komið úr dánarbúi Böðvars E. Kvaran, sem lést fyrir liðlega fimm árum, var þá eitthvað óeðlilegt við að dóttursonur hans hefði þær undir höndum?

Nú vill svo til að ég hef átt viðskipti við Braga og Ara Gísla um áratugaskeið og aldrei orðið var við annað en að þeir séu strangheiðarlegir í viðskiptum sínum. Faðir minn heitinn, Magnús Þórðarson, var mikill bókasafnari og átti dágott safn fornbóka. Þeir bóksalar bæjarins, sem keyptu og seldu notaðar bækur, voru í misjöfnu áliti hjá honum og af sumum fór jafnvel misjafnt orð. Bragi Kristjónsson var sá bóksali, sem hann hafði í mestum metum. Ég efast því fyrirfram um það að nokkuð sé hæft í ásökunum Hjörleifs. Tala nú ekki um þegar honum er svo mikið í mun að stimpla þá sem þjófsnauta, þýfissala og nánast Fagína höfuðborgarinnar, sem leiði saklausa unga menn á hálar brautir. Svo saklausa að þeirra er í engu getið!

Ég fæ ekki betur séð en að feðgarnir eigi að leita bæði til siðanefndar Blaðamannafélagsins og dómstóla til þess að fá nöfn sín hreinsuð, sem kostur er. Málið er enn á rannsóknarstigi og engin ákæra hefur verið gefin út og þeir geta því illa varist ásökunum af þessu tagi.


mbl.is Stærsti bókastuldur Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hvert orð við hæfi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 6.1.2008 kl. 01:49

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er ekki viss um að ég geti verið sammála þér með siðanefndina, vegna þess að Hjörleifur er ábyrgur orða sinna, sem eru hans en ekki fjölmiðilsins. Hjörleifur skorar á feðgana á hólm, að þeir stefni sér fyrir meiðyrði. Þeir hafa látið í veðri vaka að það muni þeir gera. Láti þeir verða af því og Hjörleifur getur ekki sannað sitt mál verður hann dæmdur.

Sjáum hvað setur.... 

Sigurður Þórðarson, 6.1.2008 kl. 03:11

3 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Þakka þér þessar upplýsingar Hallur. Ég er búinn að velta þessari "frétt" mikið fyrir mér, að vísu er þetta ekki í fyrsta skipti sem svona ekki fréttir eru birtar, það er eins og blaðamenn  nenni ekki lengur að spyrja, og oftar en ekki virðast þeir skrifa umhugsunarlaust beint eftir viðmælanda sínum.

En þessi frétt um bókastuldinn er svo götótt að viðvaningur gæti ekki gert betur. Ég skil ekkert í þeim feðgum að kæra þennan Hjörleif fyrir gróf meiðyrði,ég myndi ekki sitja þegjandi undir svona ásökun, og allra síst frá manni sem er í opinberri stöðu.

Ég er kannski á hálum ís í gagnrýni minni á fréttaflutning, þar sem þú ert sjálfur blaðamaður,en ég held að ég eigi margt skoðannabræðra og systra, um þessa gagnrýni mína á fréttaflutning

En þakka þér enn og aftur fyrir að upplýsa okkur sem höfum fylgst með þessu máli um hvað það snýst.

En hvað er lögreglan að rannsaka svona lengi ef þjófurinn er til staðar,er verið að leita að enhverjum blóraböggli til að skemma ekki fína ættarnafnið?

Ari Guðmar Hallgrímsson, 6.1.2008 kl. 06:42

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir að bera blak af vinum mínum og gæðablóðum, Ara og Braga. Mér dettur helst að Hjörleifur hafi aldrei hitt eða umgengist þá feðga, þegar hann vogar sér slíkan áburð opinberlega.  Mín kynni af Braga og ara, spanna áratugi og hef ég aldrei kennt annað að heldur halli á þá í viskiptum því einarðlega hafa þeir stungið að mér aukabók að gjöf eða hreinlega vinkað mér burt, þegar ég hef ætlað að borga.

Þessi blaðamennska (ef blaðamennsku skyldi kalla) er í besta falli fúsk og í versta falli grunnur til meiðyrðamálsóknar.  Það að birta nöfn þeirra feðga sem þjófsnauta eða þjófa, áður en rannsókn er lokið eða jafnvel byrjuð er óforskammað og tillitslaust.  þessi hrægammataktík og sensationalismi er því miður allt of algeng í blaðamennsku og hefur skaðað margan saklausann manninn.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.1.2008 kl. 13:38

5 identicon

Já, ég tek undir þér hér Andrés, enda hef ég skrifað á sama hátt á mínu eigin moggabloggi.

Mér finnst þetta mál fyrst og fremst leiða hugann að persónunni sem setur fram svona ásakanir, Hjörleif Kvaran. 

Mér skilst að þetta sé einhver latasti embættismaður sem fyrirfinnst í kerfinu, leti sem hafi þegar komið fram í skóla.

Líklega er hann besta dæmið um mann sem fengið hefur bitlinga út á vinasambönd, í þessu tilviki bekkja- og skólafélaga sína eins og Geir Haarde og Davíð Oddsson.

Mér skilst að sá maður sem tók við af Hjörleifi sem borgarlögmaður hafi hætt í því starfi eftir ár, því Hjörleifur hafði komið því svo fyrir að borgarlögmaður þyrfti ekki að gera neitt. Og nú er þessi dugnaðarforkur orðinn forstjóri Orkuveitunnar!

Munsturdæmi um heiðarlegar embættisveitingar? 

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 14:06

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Tek undir flest af því sem sagt hefur verið hér á undan og ég skrifaði um þetta á mínu bloggi. Allt tal um óhemjulegt verðmæti bókanna er líka yfirdrifið. Ég held líka að lögreglan hafi farið fram í offorsi vegna þess að þeim var hugsað til bókaþjófnaðarins á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Öll lögregluembætti Norðurlandanna fengu ítarlegar upplýsingar um það þegar málið var í gangi. Þar var aðeins hærri klassi á bókunum. Þó svo að maður sé Kvaran, eru bækurnar manns ekki dýrari en annarra.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 6.1.2008 kl. 15:11

7 identicon

Siðareglur Blaðamannafélags Íslands, 3. grein:

"Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum
málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu."

Viðkomandi blaðamaður, fréttastjóri og ritstjóri bera að sjálfsögðu ábyrgð á að ofangreint sé virt í öllum tilvikum og nú er siðlaus umfjöllun Moggans um Britney spíruna búin að leiða þá frómu dömu á barm glötunar.

Steini Briem (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband