Leita í fréttum mbl.is

Vanreifun stefnda um að kenna?

Úr Hæstarétti.

Enn um þennan dæmalausa dóm í höfundarréttarmáli Halldórs Kiljan Laxness & co. Andspunalæknirinn Guðmundur Rúnar Svansson spyr hvort lyktir hefndarleiðangurs Dunu Laxness gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og Bláu höndinni (biting the hand that fed you?!) megi rekja til vanreifunar  eins þáttar þess. Í dómnum segir (með feitletrunum Guðmundar Rúnars):

Ekki verður talinn á því vafi að ritun ævisögu rithöfundar telst út af fyrir sig viðurkenndur tilgangur í merkingu 14. gr. höfundalaga. Vafinn lýtur að því hvort fullnægt sé öðrum skilyrðum greinarinnar um að tilvísun sé innan hæfilegra marka og rétt með efni farið, sem og hvort áðurnefndum skilyrðum 10. gr. Bernarsáttmálans hafi verið fullnægt. Í sáttmálanum er beinlínis vísað til venja við mat á því hvort tilvitnun teljist heimil og venjur hljóta einnig að skipta miklu við mat á fyrrnefndum skilyrðum 14. gr. höfundalaganna þótt ekki sé bein vísun til venja í ákvæðinu. Hefur gagnáfrýjandi, sem ber fyrir sig undanþáguákvæði 14. gr. höfundalaga, ekkert gert til að leiða í ljós hvaða venjur gilda hér á landi um tilvísanir í verk höfunda við ritun á ævisögum þeirra, hvorki með matsgerð né á annan hátt. Verður hann að bera hallann af skorti á þeim upplýsingum að því marki sem slíkt kann að skipta máli við úrlausn málsins, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ég hjó einnig eftir þessu í dómnum og það er auðvelt að afgreiða það sem vanreifun, en þá verður að hafa í huga að dómur Hæstaréttar byggir á málflutningi í héraði. Af dómsorðinu þaðan verður ekki ráðið að venjan í þeim efnum hér á landi hafi verið sérstakt álitamál. Þar segir:

„Telur dómari stefnda hafa með þessu farið út fyrir hæfileg mörk við meðferð texta Halldórs Laxness er stefndi ritaði verk sitt.“ Þar á dómarinn ekki við samfléttuna heldur að skort hafi á skýra auðkenningu á heimild í hvert sinn.


Ég er út af fyrir sig ekki fyllilega sammála dómaranum um þetta. Í fræðilegri ritgerð eða bók af svipuðum toga kynni það að eiga við, en í bók almenns eðlis — alþýðlegri jafnvel — þar sem mikil áhersla er lögð á lipran texta, samfellda framvindu, fróðleik og  skemmtan væru þau vinnubrögð svo hamlandi og íþyngjandi að eftir stæði mun lakara rit og óaðgengilegra.

Hæstiréttur hefur nú mótað jafnvel enn stífari hefð í þeim efnum, jafnvel þannig að líta má á sem fyrirmæli til rithöfunda um hvernig þeir skuli haga pennum sínum. Það jaðrar við fyrirfram ritskoðun taki maður dóminn til röklegrar afleiðingar og kann að gera út af við þessa tilteknu bókmenntagrein.

Það dómsorð byggir að töluverðu leyti á þessari meintu vanreifun. Í ljósi þess að ekki verður séð að um þann þátt hafi verið fjallað í héraði hefði verið ástæða til þess að taka það til sjálfstæðrar skoðunar í Hæstarétti. Það gera dómararnir ekki, enda fylgja þeir út í ystu æsar þeirri absúrdhefð að forðast eiginlegan málflutning í sölum sínum. Þetta mál sýnir ljóslega réttarháskann, sem fylgir þeirri hefð.

Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að dómararnir taki það til sjálfstæðrar rannsóknar, hvort sem þeir óska atbeina málsaðila við það eða ekki. Af dómnum er augljóst að dómararnir töldu ekki eftir sér að leggjast í verulega rannsóknarvinnu við samanburð á hinum umdeildu textum (240 talsins!) til þess að leggja á það mat. Af hverju í dauðanum létu þeir þetta grundvallaratriði þá liggja milli hluta eins og þeim eða réttlætinu kæmi það ekki við?

Hefði verið ofverkið fyrir Hæstarétt að skipta með sér verkum og kanna hvernig höfundar eins og Guðjón Friðriksson, Gylfi Gröndal og fleiri, sem leikið hafa sér að þessu formi, hafa gert þetta? Nei, ætli það hefði mátt gera á einni ánægjulegri kvöldstund.

Dómararnir kusu hins vegar að láta slíkt alveg eiga sig. Miðað við textamatið er tæplega unnt að saka þá um leti, svo þá býr eitthvað annað að baki. Kannski dómararnir tjái sig eitthvað um það, þannig maður fari ekki að ímynda sér að þessi nóta um vanreifunina sé þeim skálkaskjól.

En áður en menn velta þessu öllu fyrir sér væri kannski rétt að spyrja annarar spurningar fyrst: Er það stefnda að bera af sér sakir, sem ekki verður séð að hafi verið reifaðar gegn honum eða komið til álita í réttarhaldi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og ég hef áður skrifað er ég alla jafna mjög hrifinn af skrifum þínum, þegar heitar tilfinningar bera ekki skynsemina ofurliði, en í dag finnst mér þú ekki hafa átt góðan dag.

Um "Háðung Hæstarréttar" segir þú sjálfur í athugasemd: "

"Nú fylgdist ég ekki með réttarhaldinu og hef ekki séð málsskjöl. En miðað við dómsorðið er ég ekki frá því að Hannes gæti freistað þess að láta taka málið upp á þeim vettvangi á þeirri forsendu að hann er látinn gjalda meintrar vanreifunar um „hvaða venjur gilda hér á landi um tilvísanir í verk höfunda við ritun á ævisögum þeirra“, sem ekki verður séð af dómsorðinu úr héraði að stefnandi hafi reifað neitt eða vísað til í kröfum sínum."

Hæstiréttur gerir væntanlega ráð fyrir að prófessor við Háskóla Íslands kunni að umgangast texta samkvæmt akademískum venjum og kurteisi.

Þráinn Bertelsson (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 21:38

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Það er nú ekki svo að ég hafi afskaplega heitar tilfinningar í þessu máli, en mér finnst Hæstiréttur ekki hafa auðsýnt góða lögvísi í því. Það gremst manni vitaskuld, því við eigum nokkuð undir því að dómar Hæstaréttar séu í lagi. Þessi dómur er um margt óvenjulegur, ekki síst fyrir það að rétturinn fer sjálfur að véla um sönnunarfærsluna í stað þess að einbeita sér að lögunum.

Hæstiréttur getur vitaskuld gert ráð fyrir einu og öðru, en hann þarf að byggja dóma á traustari grunni. Þar fyrir utan tel ég að „akademískar venjur og kurteisi“ eigi ekkert sérstakt erindi utan akademíunnar. Hefði Hannes sáldrað niður neðanmálsgreinum aftan við hvert orð, sem rekja mætti til viðfangsefnis ritsins, hvarvetna auðkennt þau með gæsalöppum, inndrætti á lengri tilvitnunum og þar fram eftir götum, hefði ritið einfaldlega verið eyðilagt.

En punkturinn, sem Þráinn vísar til að ofan, kemur því ekki við, heldur hinu að Hæstiréttur lætur málsaðila gjalda þess að hafa ekki tekið til varna fyrir sakir, sem ekki virðast hafa verið bornar á hann. Þar gerði Hæstiréttur það að lykilatriði að Hannes hefði þurft að sýna fram á að aðferð hans samræmdist íslenskri venju við ævisagnaritun um fólk, sem skilið hefði drjúgt safn ritaðs máls eftir sig. Það hafi hann ekki gert og því teljist einhver sök sönnuð. Vandinn er sá að af dómi héraðsdóms verður ekki séð að það hafi verið talið nokkru varða, hvorki af dómara né stefnanda. Í einkamálum gilda að vísu ekki sömu reglur um sönnunarbyrði og í opinberum málum, en það hlýtur þó að teljast lágmark að menn séu ekki dæmdir fyrir annað en þeir eru saksóttir fyrir.

Skyldi Þráinn lesa þessar línur mætti hann gjarnan leggja orð í belg um hvort hann teldi að framtíðarsagnfræðingur gæti skrifar ævisögu sína án þess að styðjast rækilega við Einhvers konar ég og án þess að endurspegla orðfæri hans, kaldhæðni, stíl og annað, sem gerir Þráinn að því sem hann er (á ritvellinum að minnsta kosti). Tækist honum það nú, að hreinsa allan Þráinn úr textanum, hefði honum þá ekki mistekist  ætlunarverk sitt hrapalega, það að draga upp raunsanna mynd af manninum?

Andrés Magnússon, 14.3.2008 kl. 23:36

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Það væri nú gaman að taka úttekt á því hvernig prófessorar og aðrir í HÍ umgangast heimildir. Einu sinni var lenska í skóla þeim að geta ekki þeirra tilgátna, kenninga eða fræðimanna sem manni var í nöp við. Listin að þurrka út störf manna og minnast ekki á þau er gömul á Íslandi. Mig grunar að slíkar aðferðir séu enn notaðar í Hí, og eins tel ég öruggt að Þráinn Bertelsson viti það vel og jafnvel dómarar í Hæstarétti líka.

Eins grunar mig að venjulegar akademískar venjur og kurteisi sé ekki sterkasta hlið starfsmanna HÍ, sem flestir berjast með klóm og kjafti um lítið fjármagn og til að halda hugsanlegum keppinautum á braut.  

Hæstiréttur á vonandi ekki eftir að verða rannsóknarréttur sem sker úr um fræðilegar deilur, eða hvernig menn eiga að vitna í hvern annan? 

það lítur út fyrir því að Hæstiréttur hafi fjallað um málið á mjög lágu akademísku stigi, sem auðvitað gæti bent til þess að valinkunnt lið dómaranna hafi fengið menntun sína að miklu leyti í HÍ.

Ég held að allir menn með heilbrigða réttlætiskennd taki undir þessi orð þín Andrés: "Í ljósi þess að ekki verður séð að um þann þátt hafi verið fjallað í héraði hefði verið ástæða til þess að taka það til sjálfstæðrar skoðunar í Hæstarétti. Það gera dómararnir ekki, enda fylgja þeir út í ystu æsar þeirri absúrdhefð að forðast eiginlegan málflutning í sölum sínum. Þetta mál sýnir ljóslega réttarháskann, sem fylgir þeirri hefð" .

Þegar dómarar gleyma mikilvægum málaflutningi í sölum Héraðsdóms og forðast hann í salarkynnum Hæstaréttar, mætti ætla að þeir fylgi vart akademískum venjum og þeirri prudens sem kennd er við jus .

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 14.3.2008 kl. 23:37

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Sá sem kvalist hefur með mörgum áhlaupum í gegnum Halldór Hannesar (sem líkist helst hinu klassíska riti Gagn og Gaman: Dóri á ömmu, amma sá Dóra) finnst að dæma mætti Hannes einnig fyrir að misvirða ritstíl Halldórs.

María Kristjánsdóttir, 15.3.2008 kl. 08:35

5 Smámynd: Andrés Magnússon

Ritdómarar eiga að dæma menn fyrir stíl en ekki Hæstaréttardómarar. En það er vandlifað fyrir Hannes ef hann er bæði fordæmdur fyrir að fara of nákvæmlega eftir forskrift Killa og fyrir að herma stílinn ekki nógu vel.

Þetta stagl Hannesar um „Dóra litla“ í Halldóri kom manni eilítið spánskt fyrir sjónir, þó það kæmi ekki upp úr engu, drengurinn var kallaður þetta eins og fram kemur í Í túninu heima. Ég held hins vegar að Hannes hafi hamrað á því til þess að undirstrika hinn margbrotna mann og þroskaferil hans. Rétt eins og hvert ritanna undirstrikaði með nafni sínu hinar ólíku persónur þeirra Halldórs, Kiljans og Laxness (sem mér fannst nú harla snjallt hjá Hannesi), þá mátti vel aðskilja Dóra litla frá Halldóri.

Halldór (bókin þ.e.a.s) galt talsvert fyrir það að helstu heimildirnar voru þessar bernskuminningar Killa, sem eru tæpast mjög áreiðanlegar. Skáldið var ekki þekkt fyrir að fara endilega rétt með atburði og samtöl, sem voru honum í fersku minni, og var þá mikil von til þess að hann myndi bernskuna betur? Ég hygg að öll þekkjum við að bernskuminningarnar eru afar brotakenndar og — þegar að er gáð — ekki alltaf í fullu samræmi við staðreyndir máls.

Hvort sem það er af þeirri ástæðu eða öðrum, þá er Halldór lökust bóka Hannesar um HKL og það eru einmitt þessir bernskukaflar, sem mest draga hana niður. En bæði Kiljan og Laxness má lesa kvalalaust. Öðru nær raunar; þær eru fróðlegar, skemmtilegar og prýðilega skrifaðar.

Andrés Magnússon, 15.3.2008 kl. 13:01

6 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég verð að viðurkenna að ég treysti mér ekki til að lesa hin bindin eftir að hafa barist í gegnum það fyrsta. En sennilega get ég það núna. Staðhæfing mín var nú fremur sett fram í gamni en alvöru og hefði átt skilið upphrópunarmerki-  þó stíllinn hafi farið fyrir brjóstið á mér.

María Kristjánsdóttir, 15.3.2008 kl. 14:59

7 identicon

Blessaður aftur, Andrés. Framtíðarsagnfræðingarnir sem skrifa um mig og aðra þá sem lifðu á hinum köldu tímum þegar Flokkurinn fór með ægivald á landinu mega að sjálfsögðu nota texta minn að vild og þörfum með tilvitnunum og gæsalöppum. Vona bara að Flokkurinn ríki ekki svo lengi að það verði búið að brenna öllum heimildum um lífið í landinu - ekki bara skýrslum um njósnir og símahleranir.

Þráinn Bertelsson (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband