Leita í fréttum mbl.is

Freiheit und Frieden durch Kraft

Kraftur

.pdf

Ég er ekki viss, en ég er ekki frá því að ámóta slagorð hafi heyrst á vitlausum áratugi í Þýskalandi á síðustu öld. En þetta á sumsé að vera inntak hinnar nýju og endurbættu ímyndar Íslands ef farið verður að ráðleggingum ímyndarnefndar forsætisráðherra.

Nefndin skilaði yfirgripsmikilli skýrslu um viðfangsefni sitt eftir hálfs árs umhugsun. Í nefndinni sátu þau Svafa Grönfeldt, rektor við Háskólann í Reykjavík og formaður nefndarinnar, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Jón Karl Ólafsson, forstjóri JetX/Primera Air, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs í utanríkisráðuneytinu, Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og Sverrir Björnsson, framkvæmdastjóri hönnunarsviðs Hvíta hússins. Allt hið mætasta fólk og skýrslan ber það með sér að það sló ekki slöku við að inna starf sitt af hendi.

Á hinn bóginn verður seint sagt að niðurstöðurnar séu frumlegar. Eða sérstaklega líklegar til þess að skila tilætluðum árangri.

Þvaðrið um kraft, frelsi og frið segir eiginlega allt sem segja þarf.

Nefndin leggur til að ímyndaruppbygging Íslands miði að því að skapa jákvæða og sterka ímynd af fólki, atvinnulífi, menningu sem og náttúru. [...] Nefndin leggur til að kjarninn í ímynd Íslands sé kraftur, frelsi og friður.

Með hvaða hætti á það að aðgreina Ísland frá flestum öðrum löndum hins siðmenntaða heims? Eða bæta einhverju við þá óljósu hugmynd, sem útlendingar hafa um þetta sker við Grænlandsstrendur? Til þess að undirstrika þessa loðnu óra er birt „skýringarmynd“ í skýrslunni, sem ég sver og sárt við legg að er ekki grín af minni hálfu:

Órar

Ekki skánar ástandið þegar farið er að ræða hvernig boða eigi fagnaðarerindið. Af skýrslunni verður vart annað ráðið en að nánast sé búið að stofna sérstaka ríkisstofnun til þess að sinna þeim verkefnum, en hún skal heita Promote Iceland.

[...] þar sem aðilar í útflutningi, ferðaþjónustu, fjármálastarfsemi, menningarlífi og þekkingariðnaði kæmu til samstarfs við hið opinbera. Með þessu móti yrði mun auðveldara að móta og styrkja ímynd sem byggði á samhæfðum skilaboðum og sameiginlegu merki og sem tengdi saman kynningarþáttinn í starfsemi stofnana eins og Útflutningsráðs, Fjárfestingarstofu og Ferðamálastofu að ógleymdri utanríkisþjónustunni sem einnig gegnir afar mikilvægu kynningarhlutverki. Einnig lægi beint við að tengja inn í slíkan vettvang kynningarþátt verkefna eins og Film in Iceland, Útflutningsskrifstofu tónlistarinnar, Kynningarmiðstöð myndlistarinnar o.fl. Brýnt er að verkefni, hlutverk og ábyrgð þess vettvangs yrðu mjög vel skilgreind.

Promote Iceland þarf að hafa fasta starfsmenn sem lúta stjórn sem skipuð er fulltrúum stjórnvalda og þeirra málaflokka sem Promote Iceland kæmi til með að starfa hvað mest fyrir. Hlutverk Promote Iceland er að bera ábyrgð á og samræma ímyndarstarf fyrir Íslands hönd. Í því felast m.a. eftirfarandi verkefni:

  • Fylgjast með ímynd Íslands og þróun hennar.
  • Miðla upplýsingum til uppbyggingar á sterkri og jákvæðri ímynd Íslands.
  • Samræma aðgerðir sem snerta ímyndarmál Íslands.
  • Bregðast við neikvæðri umfjöllun sem snertir íslenska hagsmuni (e. crisis management).
  • Veita opinberum aðilum og atvinnulífi þjónustu við framkvæmd ímyndar- og kynningarverkefna tengdum Íslandi.

Það verður gaman að sjá hvernig hinni nýju ríkisstofnun mun ganga við að laga það, sem Útflutningsráði, Fjárfestingarstofu og Ferðamálastofu, að ógleymdri utanríkisþjónustunni hefur mistekist að halda til haga á umliðnum árum (ella væri þessa ímyndarátaks ekki þörf eða hvað?). Vitaskuld í samstarfi við Útflutningsráð, Fjárfestingarstofu og Ferðamálastofu, að ógleymdri utanríkisþjónustunni.

Það er þó ekki fyrst og fremst við nefndarmenn að sakast í þessum efnum, þeir gerðu eins vel og þeir kunnu og gátu. Mistökin liggja hjá verkkaupanum. Þegar ætlunin er að sigra heiminn er ekki ráðlegt að reiða sig á lókal talent, jafnágætur og hann kann að vera. Tala nú ekki um þegar aðsteðjandi ímyndarvandi er jafnbrýnn og raun ber vitni.

Hér á landi er enginn, sem kann til verka á þessu sviði. Svo einfalt er það. En jafnvel þó svo væri hygg ég að það væri varhugavert að fá hann til þessa starfa. Rétt eins og ímyndarnefndarmennirnir stæði hann of nálægt viðfangsefninu. Við Íslendingar höfum margvíslegar hugmyndir um land og þjóð, eflaust góðar hver fyrir sinn hatt, en þær henta tæpast til útflutnings.  Þegar um er að ræða jafnviðamikið og óhlutbundið verkefni og ímyndarvanda alheimsins um Ísland veldur íslenskt þjóðerni umsvifalausu vanhæfi.

Þeim mun einkennilegra er að lesa af skýrslunni að lagst hefur verið í mikla rýnihópavinnu um ímynd Íslands, bæði til þess að greina vandann og finna lausnir. Capacent ræddi við fimm rýnihópa og sjálf skipulagði nefndin eigin rýnihópa, þannig að rætt var við á annað hundrað manns. Tveir rýnihópar Capacent voru mannaðir á höfuðborgarsvæðinu, tveir á Akureyri og einn á Ísafirði! Rýnihópar nefndarinnar voru allir héðan úr höfuðstaðnum (aðallega hagsmunaaðilar og þeir sem hafa sinnt landkynningu með þessum líka árangri til þessa), nema einn... en það voru viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar. Síðastnefndi hópurinn hefur sjálfsagt nokkuð fram að færa, en hinir? Maður hristir bara höfuðið. Niðurstöðurnar voru enda fullkomlega fyrirsjáanlegar flatneskjur, sem enginn veit hvort er í nokkru samhengi við ímynd Íslands í hugum útlendinga. Eða voru þeir kannski aldrei markhópurinn?

Úti í hinum stóra heimi eru til alþjóðleg fyrirtæki, sem sérhæfa sig í verkefnum af þessu tagi. Greina ástandið og markmið viðskiptavinarins, gera tillögur um úrbætur og hrinda þeim í framkvæmd, einatt með misjöfnum áherslum eftir löndum og heimshlutum. Þau sinna bæði auglýsingagerð og almannatengslum, finna talsmenn ef þörf er á og sum hafa jafnvel hálfopinbera erindreka (lobbýista) á sínum snærum ef þörf krefur. Dæmi um slík fyrirtæki eru Weber Shandwick, Ogilvy, Fleishman-Hillard, Burson-Marsteller, Hill & Knowlton og Huntsworth. Það kostar skildinginn að nota þjónustu fyrirtækja þessara, en þau kunna sitt fag og hafa sum náð að bæta málstað jafnvel ömurlegustu einræðisríkja. Ætli þau hefðu ekki eitthvað betra til málanna að leggja en ímyndarnefndin góða? Fyrir lítið, meinlaust og gott land eins og Ísland?

En nei, kraftur, frelsi og friður skal það vera. Power, Freedom & Peace! Hljómar eins og eitthvað frá Woodstock. ’68-kynslóðin er greinilega komin til valda.

Woodstock


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Andrés, Andrés, Andrés...

...hvað ertu að meina með því að Íslendingar eigi ekkert fólk sem geti stýrt svona ímyndarherferð???

Hvað með Jón Hákon Magnússon? Ég veit ekki betur en hann hafi boðað kraft, frelsi og frið svo áratugum skipti!

Slettum nokkrum millum í Jón Hákon og pr-inu er reddað. 

SP (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 00:41

2 identicon

Ágæti Andrés.

Á þessum síðustu og verstu tímum höfundarréttar og lögboðinna gæsalappa er ég logandi hræddur um að við sitjum uppi með stolinn gæsagang frá þýskum nasistum á síðustu öld,  mottó Marsbúa, fræga setningu frá Hollywood - eða einhverjum.

Kraft durch Freude! Make my Day! May the Force be with you! 

Hinir einu þjóðlegu slóganar sem fólk kannast við eru: Deutschland ueber alles! og Dirty Weekend in Iceland. Efast um að þetta geri mikið gagn. 

Þráinn Bertelsson (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 01:05

3 Smámynd: Andrés Magnússon

Kæri Stefán! Ég vil alls ekki gera lítið úr reynslu og kunnáttu manna á borð við Jón Hákon, það eru vissulega til ýmsir snjallir menn í almannatengslum á Íslandi. Þetta verkefni — telji menn á annað borð þörf á því — er þeim ofvaxið og í eðli sínu utan þekkingarsviðs þeirra. Svo verð ég að játa að ég er engan veginn sannfærður um að það sé í verkahring hins opinbera að standa í svona löguðu, en það er nú önnur umræða.

Andrés Magnússon, 9.4.2008 kl. 01:33

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nú vantar bara einhvern, sem er á pari við hann Göbels blessaðan.

ÞAð vantar mikið á, að þetta verði eins flott og Unter den Linden í gamla daga.

Ein R einF ein Fuhrer.

SVo sárvantar almennilegan Fuhrer.

Iss Ingibjörg er ekkert flott, þó svo, að hún láti henda rósum að fótum sínum og eiginmanns líkt og gert var þegar þau gengu niður stigann til aðdáenda he´r forðum.

Iss Sé engann svoleiðis nema niður í Svörtu Loftum.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 9.4.2008 kl. 12:09

5 Smámynd: Þarfagreinir

Þetta er ansi fyndið hjá þér, Andrés. Ég glotti alla vega yfir þessu.

Auðvitað er viðvangsefnið í eðli sínu fyndið (enda finnst mér þessi ímyndarherferð með öllu kjánaleg, svo ekki sé meira sagt), og því mjög auðvelt að gera grín að því, en þú bætir um betur, og skellir meira að segja slatta af málefnalegri gagnrýni með.

Ég er líka sammála því að gera má töluverðan fyrirvara við það hvort hið opinbera á yfirhöfuð að standa í svona vafstri. 

Þarfagreinir, 9.4.2008 kl. 14:02

6 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Nýjustu fregnir herma að þau hafi á síðustu stundu skipt um slagorð; nýja slagorðið sé "Blóð og Fold".

Elías Halldór Ágústsson, 9.4.2008 kl. 20:20

7 identicon

Þakka þér Andrés. Þessi heimóttalega tillaga fékk mig til að fara hjá mér. Hún er eins og sniðin fyrir neðribekki grunnskólans, þar sem börnin trúa því enn að orð og gerðir fari saman.

Kannski er það full mikið sagt, á kannski betur við um neðri deildir leikskólanna.  

ragnhildurkolka (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 09:19

8 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Í þessu landi búa tvær þjóðir. Önnur lætur sér detta í hug kjörorð eins og "Kraftur, frelsi, friður" og sér ekki neinn undirtexta í forsíðumynd smáralindarbæklingsins. Hin er sífellt að semja og yrkja hluti sem krefjast gríðarlegs menningarlæsis til að skilja til fullnustu. Ég spái því að þær munu að lokum greinast í tvær mismunandi dýrategundir, eins og Elojar og Mórlokkar í Tímavél HG Wells.

Elías Halldór Ágústsson, 15.4.2008 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband