6.6.2008 | 00:31
Á Hreinn Loftsson að segja af sér?
Ég sá í fréttum að Hreinn Loftsson, hrl., er þeirrar skoðunar að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, ætti að segja af sér vegna sakfellingar yfir Baugsmönnum í Hæstarétti í dag. Ég verð að játa að ég átta mig ekki á því hvað Hreinn er að fara.
Nú hefur heift og hatur Baugsmanna í garð Björns ekki farið fram hjá neinum (sbr. auglýsingu Jóhannesar Jónssonar í Bónus á kjördag þar sem hvatt var til útstrikana gegn honum), en það hefur aldrei komið almennilega fram af hverju. Þeir hafa nefnt aðkomu hans að Baugsmálinu, en virðast algerlega veruleikafirrtir í þeim efnum. Eða ekki kunna á dagatal. Rannsókn Baugsmálsins hófst í lok ágúst árið 2002. Þá var Björn nýkjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík, en hann hafði látið af störfum sem menntamálaráðherra hinn 1. mars 2002, nærri hálfu ári áður en málið hófst. Dómsmálaráðherra varð hann ekki fyrr en 23. maí 2003, tæplega níu mánuðum eftir að rannsóknin hófst. Hver á aðkoma Björns að hafa verið að upphafinu?
Hreinn nefnir sérstaklega að sem dómsmálaráðherra hafi Björn stutt [ríkislögreglustjóra og saksóknara efnahagsbrotadeildar] með ráðum og dáð, leynt og ljóst og þar af leiðandi ætti hann að sjá sóma sinn í að segja af sér. Það segir kannski sína sögu að þarna notaði Hreinn nákvæmlega sama orðalag og Jói í auglýsingunni forðum. En hvernig dettur lögmanninum Hreini í hug að setja svona dellu fram? Þá fyrst hefði nú verið ástæða til þess að Björn tæki pokann sinn ef hann hefði verið krukka í hvernig lögregluembætti eða saksóknari höguðu einstökum rannsóknum. Því það var það, sem Baugsmenn vildu: sérmeðferð vegna þess að þeir ættu svo mikið undir sér. Og hver veit nema það hafi þeim tekist?
Látum það samt ligga milli hluta að sinni. Stóra spurningin er hvort Hreinn Loftsson ætli ekki að segja af sér. Hreinn er stjórnarmeðlimur í Baugi Group, en hann var stjórnarformaður í almenningshlutafélaginu Baugi þegar þau brot áttu sér stað, sem forstjórinn hans og aðstoðarforstjóri voru dæmdir fyrir. Blasir ekki við að Hreinn hefur ekki staðið undir þeirri ríku eftirlitsskyldu, sem honum bar sem stjórnarformanni í almenningshlutafélagi? Af yfirheyrslum yfir honum vegna kaupanna á Vöruveltunni, sem lesa má ásamt ýmsu öðru forvitnilegu á baugsmalid.is, er bersýnilegt að hann var alveg sérstaklega lítið heima í helstu verkefnum Baugs Group. Nú þegar dómur hefur loks gengið hlýtur Hreinn að axla sína ábyrgð þó seint sé og segja af sér sem stjórnarmeðlimur í Baugi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:52 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er mikið vatn runnið til sjávar frá því Hreinn Loftsson var ein helsta vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins.
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 01:41
Það er nú fullmikið að segja að hann hafi verið helsta vonarstjarnan, hann reyndi fyrir sér í prófkjöri en hlaut ekki þann hljómgrunn, sem vænst var. Ég þekki það ágætlega, því ég var í hópi stuðningsmanna hans. Það hefur enda alltaf verið gott á milli okkar, þó okkur hafi greint á um eitt og annað í seinni tíð.
En eina sögu skal ég segja af því þegar Hreinn sóttist eftir metorðum innan Sjálfstæðisflokksins. Það var á landsfundi 1989 sem hann bauð sig fram til miðstjórnarkjörs og var útnefndur af SUS ef ég man rétt. Ég agíteraði talsvert fyrir hann á gólfinu og færði það meðal annars í tal við minn góða kennara Ólöfu Benediktsdóttur, föðursystur áðurnefnds Björns Bjarnasonar. Hún tók því fremur dræmlega og hafði á orði að hún vildi ekki vera að kjósa fólk af próvinsunni. Ég sagði henni þá að óhætt væri að kjósa Hrein, hann ætti heima á Flókagötunni. Hún hvessti þá á mig sjónirnar og benti mér á að hann væri úr Vestmannaeyjum. Ég gafst ekki upp og svaraði að bragði að sjálfsagt væri að fagna aðkomumönnum eins og Hreini, sem hefðu þá skynsemi og smekkvísi að flytjast í siðmenninguna. Þá var frú Ólöfu nóg boðið: „Uss, það þurfti náttúruhamfarir til!“ Hreinn hafði flúið upp á fastaland í gosinu, nýorðinn 17 ára gamall.
Andrés Magnússon, 6.6.2008 kl. 02:13
Alveg dásamleg saga Andrés! Og gott að það er búið að færa hana til bókar - nú þarftu bara að koma henni á varanlegra form.
Jú, sennilega er það ofmælt hjá mér að hann hafi verið ein "helsta" vonarstjarnan. En hitt er ljóst að það þarf ekki að skanna fjölmiðla fyrri tíðar mjög nákvæmlega til að gera sér það ljóst að Hreinn var þóknanlegur.
bkv.
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 02:48
Sú var tíð, að þeir félagar, sem Hreinn nú hamast mjög gegn, þeir Kjartan og Davíð, greiddu götu hans mjög.
Ef mér skjátlast ekki, hefur Björn verið innanhandar með vinum sínum Kjartani,sérstaklega, að liðka nokkuð fyrir göngu Hreins.
Ég geri mér svosem grein fyrir hvað angraði mína kæru Ólöfu, fyrrum kennara og sómakonu. Augun ljúga seint.
Eins og þú veist, bjó ég nokkurn tíma vestra en var í nokkuð góðu sambandi við Flokkinn. Mér varð ekkert um, að Davíð veldi Hrein sem náinn aðstoðarmann. Taldi skynsamlegra að leita annað en hann réð þessu auðvitað.
líklega voru Baugsmenn að kaupa tengingar og annað sem Davíð hafði komið Hreini í, þegar þeir réðu hann til starfa.
Húsbændur Hreins hafa fengið vel fyrir peninga sína en líkt og forðum er nokkuð þéttur peningapungur seiðandi sumum gerðum manna.
Annars veit ég auðvitað ekkert um siðferði nútímans og er líklega eins og Ólöf Ben, fornfálegur forstokkaður íhaldsmaður á ,,góða siðu forna".
Með kveðjum úr 101
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 6.6.2008 kl. 09:52
Skemmtileg lesning Andrés. Sé að landsfundir breyttust ekkert eftir brottför SUS toppsins ´84. Hreinn var einn dyggasti stuðningsmaður Davíðs Oddsonar og boðaði frjálshyggjuna. En hann er betri júristi en stjórnmálamaður. Vinberjafundurinn í London skákaði honum endanlega út af Valhallarlóðinni. Er verið að ýta Villa út?
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 11:19
Sagan af frú Ólöfu og andstöðu hennar við Hrein í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins er skemmtileg. En kellingin hefur ekki farið rétt með, Hreinn á kannski ættir að rekja til Eyja en hann bjó í næstu götu við mig í Kópavoginu mörgum árum fyrir gos. Það veit ég vel enda hann og einn bróðir minn bekkjar- og leikfélagar á þessum árum, um og innan við fermingu.
Ágúst Ásgeirsson, 6.6.2008 kl. 12:40
Ágúst, ég tel líklegra þetta með augun.
Frú Ólöf var Míbæjaríhald af Guðs náð.
Kveðju
Miðbæjaríhaldið
mun lélegra en frú Ólöf að vísu
Bjarni Kjartansson, 6.6.2008 kl. 13:22
Æi, Andrés, nú er sjálfstæðismaðurinn í þér alveg að drukkna í já-bræðrakórnum. Mér finnst með ólíkindum að nokkrum manni detti í hug að ákæruvaldið og aðrir þeir sem bökkuðu þetta mál upp hafi komið knarrreistir frá því. En ég sé að það er einhver hópur innan "bláu fylkingarinnar" sem er þessarar skoðunar.
Þau "svik" sem Tryggvi og Jón Ásgeir eru dæmdir fyrir byggja á túlkun á bókhaldslögum og framsetningu gagna. Ég þori að fullyrða að hver einasti atvinnurekandi í landinu veltir því fyrir sér í hverjum mánuði hvort tiltekin bókhaldsfærsla eigi að vera á þennan háttinn eða hinn. Og ég þori að fullyrða að ekki eitt einasta fyrirtæki í landinu myndi koma athugasemdalaust út úr jafn ítarlegri skoðun á bókhaldi og Baugur fór í gegnum. Það getur vel verið að menn hafi ákveðið að láta reyna á einhverjar túlkanir og hugsanlega fært "hagstæðara" bókhald, en það hefur ekki ennþá verið sýnt fram á að einn eða neinn hafi skaðast eða hagnast á þessu. Það hafi því ekkert auðgunarbrot verið framið.
Ég hélt, þegar þetta mál fór af stað, að nú hefðu Baugsmenn verið teknir í bólinu. Þetta gat varðað ímynd landsins í viðskiptum að ungir auðmenn gætu ekki valtað yfir lög og reglur. Svo komu ákærurnar og þvílíkur sparðatíningur. Að telja upp færslur af VISA-korti til að sýna fram á að Jón Ásgeir hefði keypt sér dýr jakkaföt. Þeir hefðu haft meira upp úr því að krefja hann um virðisaukaskattinn af jakkafötunum, en að eltast við þetta sem umboðssvik eða fjárdrátt. Ekki fór heldur erlenda pressan mjúkum höndum um ákærurnar og þar var sagt, að greinilegt væri að þessir menn hefðu ekki skilning á því hvernig fyrirtæki væru rekin.
Ég veit ekki hvort Björn Bjarnason eigi að segja af sér eða ekki út af þessu, en mér finnst það með ólíkindum að hann (og Össur) telji sig geta verið ráðherra og haldið á sama tíma úti blogg-síðum, þar sem þeir veitast að nafngreindum mönnum og fyrirtækjum. Það er ekki að mínu mati ekki sæmandi, eða eins og Vilmundur Gylfason sagði: "Löglegt en siðlaust." Ég ætla ekki að setja út á það, að þeir tjái sig um málefni, en í hvert sinn sem þeir beina skrifum sínum að aðila sem gæti þurft að leita til stjórnvalda um afgreiðslu sinna mála, þá setur þá niður í mínum huga. Efast ég ekki um að þetta séu vænstu menn og miklir vinir vina sinna, en óvild í garð annarra verða þeir að bera í hljóði.
Marinó G. Njálsson, 6.6.2008 kl. 14:21
Marino lítur framhjá því að Hæstiréttur taldi þá seka um umboðssvik, og var ekki einhuga um hvort þau væru fyrnd eður ei.
Ég þekki það að "lenda í skattinum" og er viss um eftir þá reynslu að Baugsmenn fengu betri meðferð heldur en við "Jónarnir"
Það voru líka þeir og þeirra lögmenn sem voru ekkert að reyna að hraða málinu.
Mennirnir sviku þá sem þeir unnu fyrir, og þá skiptir engu máli hvort tap eða gróði varð af. Svik eru svik og lýsa innræti, það fyrnist aldrei.
Haugur (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 23:52
Haugur segir: ,,Mennirnir sviku þá sem þeir unnu fyrir." Lýstu því fyrir mér í hverju þau svik voru fólgin. Baugur græddi á tá og fingri á þeim tíma sem rannsóknin nær til. Kreditreikningurinn sem málið snýst um (og lögreglan hélt fyrst að væri debetreikningur) hann gerði ekkert annað en að auka arðgreiðslur, ef eitthvað var. Tryggvi var dæmdur fyrir að draga sér rúmlega hálfa milljón en átti á sama tíma 2 milljónir inni hjá fyrirtækinu. Ég sé ekki svikin, því miður. Ég sé aftur stjórnendur sem að hluta beittu óhefðbundnum aðferðum við að efla almenningshlutafélag, samt ekki óhefðbundnari en svo að um viðtekna venju var að ræða hjá íslenskum fyrirtækjum. Og ég sé hluthafa almenningshlutafélags sem högnuðust alveg ágætlega á þessum vinnubrögðum.
Og eitt í viðbót. Ég sé réttaröryggi borgaranna í hættu, þar sem lögregla getur fengið húsleit af sáralitlu tilefni, en vegna þess að þeir eru komnir með skóna í dyragættina, þá getur hún umturnað öllu til að leita að óskyldu sakarefni. Og annað sem vekur furðu mína. Það er að JGS var vitni á fyrri stigum málsins, en síðan er vitnisburður hans notaður til að birta honum kæru. Fyrir utan að kæruefnið átti sér stað í Bandaríkjunum og því fyrir utan lögsögu íslenskra dómstóla að maður skyldi halda.
Marinó G. Njálsson, 8.6.2008 kl. 02:49
Aðeins til þess að draga úr furðu Marinós:
Baugur græddi á tá og fingri, sem talsvert er til í, en hlutverk stjórnenda almenningshlutafélags er það og það eitt að hámarka arð hluthafa. Almenningshlutafélagið Baugur, undir stjórn Jóns Ásgeirs, stóð hins vegar í umtalsverðum viðskiptum við félög í eigu fjölskyldu sinnar og bauð hættunni á hagsmunaárekstri þannig heim. Þar varð þó enginn árekstur, því hann lét hagsmuni almeningshlutafélagsins ávallt víkja úr vegi fyrir sínum eigin.
Varla er hægt að álasa lögreglunni fyrir að vera í vafa um eðli kredit/debetreikningsins góða; bókhaldið hjá Baugi óð sömu villu.
Marinó segist ekki skilja hvar svikin hjá Tryggva liggi, þar sem hann hafi átt eitthvað inni hjá Baugi, hafi hann mátt draga sér fé! Hafi Tryggvi átt fé inni hjá Baugi átti hann einfaldlega að óska eftir uppgjöri þess og útborgun. Ekki að valsa um heimsbyggðina með kort í nafni Baugs, ætlað til úttekta á vegum fyrirtækisins, og taka út alls kyns gæði í eigin þágu. Tryggvi var einn fremsti endurskoðandi landsins, hluthafi í KPMG og öllum hnútum kunnugur. Honum var því fullljóst að þessi breytni var óleyfileg og ólögleg. Sé Marinó það illskiljanlegt ætti hann að spyrja endurskoðandann sinn.
Áhyggjur Marinós af réttarörygginu eru á misskilningi byggðar. Tilefnið var ekki sáralítið heldur 33 falskir reikningar (ekki aðeins stóri vafareikningurinn) og vitnisburður um mun fleira misjafnt.
Það er rétt hjá Marinó að það er vægast sagt sérkennilegt að taka vitnisburð af manni skv. vitnaskyldu og án réttinda grunaðs manns, en snúa því svo við að vitnisburðinum fengnum og gefa út ákæru eftir á. Lítil réttarvörn í því og enn sérkennilegra er þó að Hæstiréttur bannaði verjanda Jóns Geralds Sullenberger það fyrir fram að reifa þá málsvörn við Arnarhól. Hitt skiptir engu, hvar Jón Gerald bjó til reikninginn (þó máske hefði verið örugara hjá saksóknara að vísa til bandarískra laga þar að lútandi). Brotið var ekki fullframið fyrr en Tryggvi Jónsson lagði þennan reikning, sem hann sjálfur samdi, inn í bókhaldið hjá Baugi.
Andrés Magnússon, 8.6.2008 kl. 17:06
Andrés, það er gott að þú svarar og gaman að sjá að þú kannt enn að snúa út úr. Ég var ekki að vísa til Baugsmálið þegar ég tala um "sáralítið tilefni". Þar var ég að tala almennt. Húsleitarheimildin var gefin út út af reikningum frá JGS. Mér finnst það draga úr réttaröryggi borgaranna, að málatilbúnaður vegna þessara 33 reikninga (sem ég ætla ekkert að leggja mat á frekar) skuli enda í því að verið er að birta kreditkortafærslur á netinu, farið að skoða viðskiptatengsl Baugs og Gaums vegna útrásar og skoða kaup Baugs á Vöruveltunni, svo dæmi séu tekin. Ég spyr bara: Getur Jón Jónsson átt von á því að brotið stöðuljós verði til þess að fjárhagur hans verði skoðaður? Það er nefnilega jafn langt á milli viðskipta JGS og Baugs annars vegar og kreditkortareiknings JÁJ hins vegar og stöðuljósins og fjármála Jón Jónssonar. Það er þetta sem mér finnst draga úr réttarörygginu og kæmi mér ekkert á óvart þó Mannréttindadómstóll Evrópu tjái sig um þetta. Ég er ekki að dæma um hvað mennirnir gerðu rétt eða rangt, en ef lögreglan hefur fengið heimild til að skoða fjármálafærslur vegna 33 reikninga, þá á ekki að felast í því heimild til að skoða allt annað líka. Hafi þeir aftur fengið opna heimild út á þessa 33 reikninga, þá er dómskerfið að bregðast. Á hvorn veginn sem er, hefur réttaröryggið minnkað.
Varðandi kreditreikninginn. Ég sé ekki að það sé neitt athugunarvert við hann, ef hann hefur verið notaður til þess að lækka viðskiptaskuld Baugs við JGS. Ef hann aftur lækkaði ekki viðskiptaskuldina, þá er hann vafasamur. Ef hann var notaður til að greiða fyrir eitthvað annað, þá er hann fjársvik. Hafi Baugur kúgað JGS til að búa reikninginn til, þá átti hann að fara í einkamál við Baug eða lögreglan að rannsaka málið sem slíkt. Af hverju var það ekki gert?
Marinó G. Njálsson, 9.6.2008 kl. 17:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.