8.6.2008 | 14:16
Misskilningur og spuni
Í athugasemdum við þarnæstu færslu hér á undan stakk Marinó G. Njálsson niður penna og fannst lítil ástæða til þess að vera að gera athugasemdir við málflutning Baugsmanna og raunar nánast ámælisvert að leyfa sér það. Ég geri það nú sjaldnast að svara athugasemdum lesenda minna öðru vísi en með nótum á sama stað, þær eru yfirleitt ekki tilefni sjálfstæðra færslna. Viðbrögð Marinós þykja mér hins vegar að mörgu leyti dæmigerð fyrir útbreidd viðhorf, sem mér þykja á misskilningi byggð. Því er sjálfsagt að huga nánar að þeim, hluti fyrir heild og allt það.
Æi, Andrés, nú er sjálfstæðismaðurinn í þér alveg að drukkna í já-bræðrakórnum. Mér finnst með ólíkindum að nokkrum manni detti í hug að ákæruvaldið og aðrir þeir sem bökkuðu þetta mál upp hafi komið knarrreistir frá því. En ég sé að það er einhver hópur innan "bláu fylkingarinnar" sem er þessarar skoðunar.
Skoðanir mínar á Baugsmálinu snúast fyrst og fremst um áhuga minn á því að réttvísin nái fram að ganga. Það þykir mér ekki hafa gerst í þessu máli og upphaflegir sakborningar sloppið með ólíkindum frá armi laganna. Ákæruvaldinu hafa vafalaust orðið á mistök, en ekki síður eru dómstólarnir þó gagnrýnisverðir. Það kemur pólitík ekkert við. Hins vegar hafa sumir sakborningarnir ekki þreyttst á að því að gera málið pólitískt og sumir hafa trúað þeim. Í máli Hreins Loftssonar er svo vikið að einhverri óljósri pólitískri ábyrgð dómsmálaráðherra, sem af dagatali má sjá að er úr lausu lofti gripin. Ég sé að ýmsir þingmenn hafa tekið undir það og þá er pólitíkin kannski loks farin að spila inn í. Hitt er svo annað mál, að ég fæ illa séð að ég sé að drukkna í einhverjum já-bræðrakór sjálfstæðismanna; ég hef ekki tekið eftir því að margir sjálfstæðismenn séu að hafa sig í frammi um þessi mál á þeim forsendum. Fyrir nú utan hitt, að ég er í mikilli fýlu út í Sjálfstæðisflokkinn þessa dagana eftir að þingflokkur hans tók upp þjóðnýtingarstefnu í auðlindamálum.
Þau "svik" sem Tryggvi og Jón Ásgeir eru dæmdir fyrir byggja á túlkun á bókhaldslögum og framsetningu gagna. Ég þori að fullyrða að hver einasti atvinnurekandi í landinu veltir því fyrir sér í hverjum mánuði hvort tiltekin bókhaldsfærsla eigi að vera á þennan háttinn eða hinn. Og ég þori að fullyrða að ekki eitt einasta fyrirtæki í landinu myndi koma athugasemdalaust út úr jafn ítarlegri skoðun á bókhaldi og Baugur fór í gegnum. Það getur vel verið að menn hafi ákveðið að láta reyna á einhverjar túlkanir og hugsanlega fært "hagstæðara" bókhald, en það hefur ekki ennþá verið sýnt fram á að einn eða neinn hafi skaðast eða hagnast á þessu. Það hafi því ekkert auðgunarbrot verið framið.
Það er einfaldlega rangt að Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson hafi aðeins verið dæmdir fyrir túlkun á bókhaldslögum og framsetningu gagna, eins og Marinó heldur. Þeir voru dæmdir fyrir að misnota aðstöðu sína til þess að hlunnfara almenningshlutafélag með margvíslegum hætti. Minnsti vafi í málinu var allur færður þeim í hag, í mörgum tilfellum þvert á fyrri dómafordæmi. Þess vegna er í dómnum einnig lýst margháttuðum lögbrotum, sem þó þykir ekki ástæða til þess að dæma þá til refsingar vegna. Í ljósi þeirra fjárhæða, sem um var að tefla, má ætla að þarna sé komið nýtt fordæmi, sem gera muni hvítflibbaglæpi nánast ókeypis héðan í frá.
Marinó tekur upp tuggu Baugsmanna um að ekki hafi ennþá verið sýnt fram á að einn eða neinn hafi skaðast eða hagnast á þessu. Þetta er liður í þeirri lygi, sem þeir hafa verið óþreytandi að halda fram, að fyrirtækið Baugur hafi ekki haft neitt við neitt að athuga, enda hafi í raun verið að ásaka þá fyrir að stela frá sjálfum sér. Á þessum tíma var Baugur almenningshlutafélag, en ekki einkafyrirtæki fjölskyldunnar. Það laut því sérstaklega ströngum skilyrðum, sem stjórnendurnir litu fullkomlega hjá. Þegar þeir tóku peninga út úr fyrirtækinu, veittu sjálfum sér ólöleg lán (með veði í óútfylltum víxli Schrödingers, sem kannski eða kannski ekki var í tiltekinni skúffu), fölsuðu afkomutölur, gáfu út falska reikninga, létu fyrirtækið borga margvíslegan einkakostnað og hvaðeina er þá ekki ljóst að einhver skaðaðist af því? Og að einhver hagnaðist?
Í því samhengi geta menn einnig velt því fyrir sér hvernig eignarhlutur Bónusfjölskyldunnar í Baugi komst úr fjórðungi í þrjá fjórðu á tveimur árum. Hvaðan komu peningarnir? Við því hafa engin viðhlítandi svör fengist.
Fyrst og fremst voru það þau Jón og Gunna, almennir hluthafar í Baugi, sem sköðuðust af þessu. Þau fjárfestu í almenningshlutafélagi, fullviss um að strangar reglur og lög, tryggðu að þar væri ekkert óhreint á ferð, að upplýsingagjöf væri í stakasta lagi og annað eftir því. Svo var ekki og arðurinn var minni, en hann hefði ella verið. Til þess að gera illt verra er ljóst að stjórnendurnir voru uppteknari af því að sinna eigin hagsmunum en hagsmunum almenningshlutafélagsins, en hið versta var þó að þeir hagsmunir sköruðust og stjórnendurnir lögðu sig raunar í líma við að láta þá skarast. Þarf einhver að efast um ásetninginn?
Þessu til viðbótar verður að nefna að það voru ekki aðeins hluthafar í almenningshlutafélaginu Baugi, sem sköðuðust af þessum myrkraverkum. Allur markaðurinn skaðaðist af þeim, bæði vegna þess að tiltrú fjárfesta á regluverk, skilvirkni og viðskiptasiðferði hefur minnkað, en einnig vegna þess að með því að krukka í afkomutölurnar var verið að skekkja allar markaðsupplýsingar, sem fjárfestum voru tiltækar. Þegar þeim leist svona ljómandi vel á afkomuna hjá Baugi varð raunveruleg afkoma annarra fyrirtækja á verðbréfaþingi ekki jafnálitleg og ella.
Baugsmenn voru þó ekki aðeins að tjakka afkomuna upp, þeir tjökkuðu hana líka niður, þegar leið að afskráningu félagsins af markaði. Tilboð þeirra í hlutina var síðan aðeins í samræmi við meðalverð Baugs á markaði (sem hafði raunar haldist furðustöðugt). Hin óskráða regla er sú, að þegar stjórnendur og ráðandi hluthafar kaupa út aðra hluthafa, gera þeir það á yfirverði, því gengið er út frá því sem vísu að þeir hafi gleggri þekkingu og yfirsýn á rekstur þess en almennir hluthafar, enda felist í því áhugi þeirra á afskráningunni. Þar fyrir utan er það svo beinlínis rangt að engir hluthafar almenningshlutafélagsins Baugs hafi gert athugasemdir og talið sig hlunnfarna. Nú, fimm árum eftir að Baugur var afskráður úr Kauphöllinni, eru enn til meðferðar mál hluthafa, sem ekki vildu sætta sig við útkaupin og töldu verðið rangt.
Ég hélt, þegar þetta mál fór af stað, að nú hefðu Baugsmenn verið teknir í bólinu. Þetta gat varðað ímynd landsins í viðskiptum að ungir auðmenn gætu ekki valtað yfir lög og reglur. Svo komu ákærurnar og þvílíkur sparðatíningur. Að telja upp færslur af VISA-korti til að sýna fram á að Jón Ásgeir hefði keypt sér dýr jakkaföt. Þeir hefðu haft meira upp úr því að krefja hann um virðisaukaskattinn af jakkafötunum, en að eltast við þetta sem umboðssvik eða fjárdrátt. Ekki fór heldur erlenda pressan mjúkum höndum um ákærurnar og þar var sagt, að greinilegt væri að þessir menn hefðu ekki skilning á því hvernig fyrirtæki væru rekin.
Sparðatíningurinn, sem Marinó nefnir, nam tugmilljónum króna í einkaneyslu, sem Jón Ásgeir og Tryggvi reyndu að láta almenningshlutafélagið Baug bera. Stór hluti af því var siðferðislega ámælisverðari en kaup á jakkafötum. Verjendur þeirra nefndu þeim til varnar, að þeir félagar hefðu ávallt átt verulegar fjárhæðir inni hjá félaginu. Sú vörn er reynd í nær öllum fjárdráttarmálum, að sakborningar hafi aðeins tekið sér fjármuni, sem þeim bar á einhvern hátt. Fram til þessa hafa dómstólar aldrei virt þau rök viðlits.
Hvað erlendu pressuna áhrærir er Marinó væntanlega að vísa til frásagnar lausamannsins Ians Griffiths, sem skrifaði grein í The Guardian, þar sem hann gerði gys að því að Jón Ásgeir væri sakaður um að hafa dregið sér hamborgara. Ian Griffith var sá blaðamaður, sem Baugsmenn handvöldu til þess að afhenda ákæruskjölin á sínum tíma, en hann er jafnframt annar höfundur bókarinnar The Ice Man Cometh, sem boðuð var útgáfa á í fyrra (hún átti upphaflega að heita Sex, Lies and Supermarkets), en hefur af einhverjum ástæðum enn ekki komið út á almennum markaði, þó sent hafi verið út kynningarefni, mynd af kápunni birt og ISBN-númer útgefin. Hinn höfundurinn, Jonathan Edwards, hefur ótrúlegt en satt unnið fyrir Baug hjá Capcon-Argen, sem á sínum tíma gaf út heilbrigðisvottorð um bókhaldið hjá Baugi.
Ég veit ekki hvort Björn Bjarnason eigi að segja af sér eða ekki út af þessu, en mér finnst það með ólíkindum að hann (og Össur) telji sig geta verið ráðherra og haldið á sama tíma úti blogg-síðum, þar sem þeir veitast að nafngreindum mönnum og fyrirtækjum. Það er ekki að mínu mati ekki sæmandi, eða eins og Vilmundur Gylfason sagði: "Löglegt en siðlaust." Ég ætla ekki að setja út á það, að þeir tjái sig um málefni, en í hvert sinn sem þeir beina skrifum sínum að aðila sem gæti þurft að leita til stjórnvalda um afgreiðslu sinna mála, þá setur þá niður í mínum huga. Efast ég ekki um að þetta séu vænstu menn og miklir vinir vina sinna, en óvild í garð annarra verða þeir að bera í hljóði.
Björn Bjarnason og Össur Skarphéðinsson eru fyrst og fremst kjörnir þingmenn, svo ráðherrar. Málfrelsi þeirra á ekki að skerðast vegna upphefðar þeirra í stjórnarráðinu, síður en svo. Það er síðan rangt að þeir hafi veist að nafngreindum mönnum og fyrirtækjum, þó þeir hafi fjallað um bæði menn og fyrirtæki án þess að það hafi verið tómt lof. Stundum jafnvel gagnrýni. Ég leyfi mér að fullyrða að það hafi þeir aldrei gert að tilefnislausu og ávallt innan þeirra marka, sem opinber umræða býður. Bæði með lögmætum hætti og siðlegum. Það sér það enda hver maður að þeir væru harla ónýtir stjórnmálamenn ef þeir þegðu af ótta við að einhverjum kynni ekki að líka það, sem þeir segja. Svo framarlega, sem það tengist ekki stjórnarathöfnum þeirra.
Baugsmálið kann að vera útkljáð fyrir Hæstarétti en af því má og þarf margvíslega lærdóma að draga. Menn geta deilt um upphafið ef þeir vilja, en að mínu viti er augljóst að þar var um einföld, subbuleg fjársvik að ræða. Annað er í besta falli misskilningur, en í rótina spuni í þágu hinna seku.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
"Það er einfaldlega rangt að Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson hafi aðeins verið dæmdir fyrir „túlkun á bókhaldslögum og framsetningu gagna“, eins og Marinó heldur. Þeir voru dæmdir fyrir að misnota aðstöðu sína til þess að hlunnfara almenningshlutafélag með margvíslegum hætti."
Þessi setning hjá þér er röng og gefur sterklega til kynna að þú skiljir ekki fyrir hvað Jón Ásgeir var dæmdur. Hann var dæmdur fyrir að færa tilhæfulausan kreditreikning í bókhald. Svo einfalt er það. Þannig að varðandi Jón Ásgeir er ljóst að Marinó hefur rétt fyrir sér og þú ekki. Þá veltir maður fyrir sér hvort þú farir þarna vísvitandi með rangt mál eða hvort þú sért með einhverja annarlega hagsmuni.
IG (IP-tala skráð) 8.6.2008 kl. 19:20
Það á að færa minnsta vafa í sakamálum, sakborningum í hag, og ef fordæmi Hæstaréttar segja annað, þá eru þau röng og rétt að hverfa frá þeim. Í ríkjum sem virða grundvallarreglur réttarríkisins, eru menn ekki dæmdir á líkum, hvers sterkar sem þær eru. Það þarf sönnun á sekt umfram vafa (sama hver á í hlut).
Hryggilegt þykir mér ef öllum er þetta ekki ljóst.
Aðalheiður Ámundadóttir, 8.6.2008 kl. 22:22
Það er rétt að það á að færa minnsta vafa í sakamálum sakborningi í hag, þar sem verra er ef að einn saklaus maður sé dæmdur, en ef tíu sekir sleppa. Dómstólar hérlendis og í örðum vestrænum ríkjum hafa haldið sig að mestu við það viðhorf.
Það er meðal annars þess vegna sem maður getur ekki sagt að sú staðreynd að Hæstiréttur hafi sýknað þá (með réttu) af hverjum ákæruliðnum á fætur öðrum, að þeir hafi ekki verið sekir um miklu fleiri og alvarlegri hluti en þeir voru dæmdir fyrir. Það er ekki samasem merki milli þess að vera sýknaður í refsimáli og að vera í raun saklaus. Það hefur bara ekki verið unnt að fullnægja kröfum refsiréttarins hvað varðar lang flesta ákæruliðina.
Sindri Guðjónsson, 9.6.2008 kl. 03:58
IG Í hvaða skyni, skyldi reikningurinn nú hafa verið pantaður og færður til bókar? Bara upp á grín? Fyrir ótrúlega röð mistaka? Nú eða „lánin“ öll, sem Hæstiréttur dæmdi ólögleg?
Aðalheiður segir að minnsta vafa skuli færa sakborningum í hag, en það er ekki alls kostar rétt. Það þarf að vera skynsamlegur vafi, þannig að sakborningum nægi ekki að þyrla upp ryki og segja allt í heiminum vera vafa undirorpið. Trúgirni dómara í héraðsdómi reyndist hins vegar umtalsverð og þeir lögðu á sig umtalsverðar krókaleiðir til þess að sannfæra sjálfa sig um efahyggjuna. Vafinn sem þeir fundu við bílainnlutning Bónusfjölskyldunnar var t.d. ein frumlegasta nálgun íslenskrar dómasögu, en skynsemin var einhversstaðar víðs fjarri. Þar fóru dómarar beinlínis í skógarferð af því þeir ætluðu að sýkna sakborningana, hvað sem það kostaði. Og það kostaði.
Athugasemd Sindra er af sama meiði og víst er það, að ekki veitir af áminningum um það að ákæruvaldið verður að sýna fram á sekt, en vörnin þarf ekki að sýna fram á sakleysi frekar en hún vill. Hann — eins og margir aðrir raunar — lítur þó hjá því að í dómnum er komist að því að Baugsmenn hafi gerst brotlegir að mörgu öðru leyti. Þar var þeim hins vegar sérstaklega fært til tekna hve málið hefði dregist og sumar sakir fyrndar er rannsókn hófst. Þetta með fyrninguna er hæpið, sbr. sératkvæði Páls Hreinssonar, en þetta með dráttinn þykir mér afar kyndugt.
Mál af þessu tagi taka jafnan verulegan tíma (það á við erlendis sem hér) enda snýst rannsóknin um feykilegt skjalamagn, þar sem ekki þarf aðeins að horfa til þess sem fram kemur í þeim, heldur að leggja mat á sannleiksgildi hvers og eins, því það er mergurinn málsins: rangfærslur og fals í skjölum. Ekki síður skiptir þó hitt máli að verulegur dráttur varð á rannsókn málsins að frumkvæði sakborninga, fyrst og fremst Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem hvað eftir annað frestaði yfirheyrslum á þeirri forsendu að hann væri í mikilvægum viðskiptaerindum erlendis, sem lögreglan tók fullt tillit til. Síðan birtust fregnir af honum í lystireisum í blöðunum. Svipaða sögu var að segja af afhendingu skjala og skýringa, það var allt dregið eins og kostur var af sakborningum.
Nokkrir lærdómar, sem aðrir hvítflibbaglæpamenn geta dregið af Baugsmálinu:
Andrés Magnússon, 9.6.2008 kl. 12:40
Ég verð að seg að mér innst með ólíkindum að menn sem gefa kost á sér og eru kosnir til stjórnarstarfa í almenningshlutafélögum skuli geta komist upp með að hagnast persónulega á viðskiptum amenningshlutfélagsins.
Ég held að það dyljist engum að Jón Ásgeir réði því sem hann ráða vildi í þessu fyrirtæki Fjárfari (væntanlega vegna þess að hann átti það) sem keypti 10-11 búðirnar og seldi Baugi svo korteri seinna með góðri álagningu.
Sama gerði Björgúlfur Thor þegar hann kaupir af KEA eitthvert fyrirtæki sem ég kann ekki að nefna núna og selur Straumi, þar sem hann var stjórnarmaður, gott ef ekki stjórnarformaður.
Ef frávísun Hæstaréttar á þessum lið er klúður saksóknar þarf að skipta honum út. Ef þetta er leift samkvæmt lögum þarf að skipta þeim út. Ef þetta er klúður Hæstaréttar þarf að skipta honum út.
Það sem vekur athugli í þessu máli ölu er að það virðist sem saksóknarembættið ráði ekki við svona viðamikil mál. Þessi langi tími er alveg út úr korti og óásættanlegur fyrir þá sem liggja undir grun. Það hlýtur að vera hægt að gera þetta á skemri tíma, öllum til góða.
Einnig er það einkennilegt hjá aðilum sem eru sannfærðir um sakleysi sitt, að í stað þess að verjast þeim sökum sem á þá voru bornar með aðstoð færustu lögfræðinga, gekk meginvörnin út á að finna tæknilegar villur í málatilbúnaði saksóknara og draga málið sem mest þeir máttu á langinn með endalausum kærum.
Kaupa fjölmiðlaveldi (blöð, útvarp og sjónvarpstöðvar) til að tryggja sér almenningsálitið fyirfram. Láta gera nýjan sjónvarpsþátt þar sem höfuð fjölsskyldunnar er eins og fyrir tilviljun valin til að sega sína hlið á málinu. Get ekki að því gert að þetta virkaði afskaplega mikið sviðsett á mig.
Að hann skyldi telja það sinn mesta örlagadag í lífinu að vera birt ákæran í Bugsmálinu finnst mér furðulegt hjá jafn lífsreyndum manni. Ekki þegar hann eignaðist þessa samheldu fjölskyldu, ekki þegar hann lagð flöskuna á hilluna, ekki þegar hann fór út í þetta stórkostlega ævintýri sem varð þegar hann stofnaði fyrstu Bónusbúðina og tók við af Alberti Guðmundssyni sem Vinur (með stórum staf) litla mannsins. Nei allt þetta skipti engu máli miðað við hitt, sem hann þó vissi allan tímann, að eigin sögn, að var allt bull og misskilningur.
Annað hvort hef ég brenglað gildismat eða hann. Læt öðrum eftir að dæma það. Held reyndar að hann viti betur en þessi atburður hafi hentað best tilgangi þáttarins.
Það er greinilega öruggast að vera ekkert að dansa á línunni heldur halda sig vel innan við strikið. Ekk hefð ég efni á þessum málsvörnum ef maður lenti á borði ríkissaksóknara.
Landfari, 9.6.2008 kl. 20:51
Það að færa reikning upp á 60 milljónir + vitlaust fyrir slysni, ég er hræddur em að þarna sé ekki hægt að halda uppi neinum eðlilegum vörnum. þetta gerir einfaldlega enginn. Og það er af og frá að þetta séu bókhaldsvenjur fyrirtækja almennt.
Flest fyrirtæki myndu standast skoðun alveg ágætlega og er það naívismi að sjá hér hálft þjóðfélagið sínkróniserað í þeim ásetningi að klekkja á þessum mönnum.
sandkassi (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 13:16
Sæll Andrés, ég fór á mis við þessa umræðu þína, þar sem ég einblíndi á upphaflegt blogg þitt. Þú hefðir mátt vísa á milli.
Ég held að IG segi allt sem segja þarf. Jón Ásgeir var dæmdur fyrir eitt atriði, þ.e. blessaðan kreditreikninginn eða var það debetreikningur, nei það var víst kreditreikningur. Það er í mínum huga vafamál hvort þessi kreditreikningur hafi átti erindi fyrir íslenska dómstóla af þeirri einföldu ástæðu að hann snerist um viðskipti milli tveggja fyrirtækja. Annað fyrirtækið taldi sig eiga inni afslátt hjá hinu og vegna viðskiptahagsmuna samþykkti hið síðara að skrifa út þennan reikning. Ef kreditreikningurinn varð til þess að lækka viðskiptaskuldir Baugs við Nordica, þá voru engin svik í gangi og reikingurinn átti því ekkert erindi fyrir íslenska dómstóla. Það er mjög eðlilegt að menn geri upp á 6 - 12 mánaðafresti viðskipti sem áttu sér stað mánuðina á undan. Það er ekkert í bókhaldslögum sem bannar slíkt og það er ekkert í ársreikningalögum sem bannar slíkt. Grundvallaratrðiðið er að bókhaldsfærslan fylgi réttu uppgjörstímabili. Ef kreditreikningurinn var notaður til að fjármagna einkaneyslu Tryggva og Jóns Ásgeirs eða eingöngu til að fegra bókhald Baugs án þess að viðskiptastaða Baugs við Nordica breyttist, þá eru þetta bókhaldssvik sem eiga erindi fyrir íslenska dómstóla. Síðan gat kreditreikningurinn verið fjárkúgun, en þá átti hann erindi inn í bandaríska dómsali, þar sem verið var að kúga bandarískan lögaðila með varnarþing í Bandaríkjunum.
Varðandi sparðartíninginn, auðgunarbrotin og sýknanir. Fjöldi ákæruliða í þessu máli er svo mikill að eingöngu innvígðir þekkja tölu þeirra, hverjum var vísað frá, á hvaða dómstigi, í hvaða umferð, í hverjum var sýknað og hvenær og loks fyrir hvað var dæmt. Andrés, þér hefur greinilega ekki tekist að fylgjast með þessu, það er ljóst. Ég er ekki löglærður og legg því ekki lögfræðilegt mat á niðurstöðu dómstólanna, en beiti í staðinn rökrænu og siðferðislegu mati. Það er alveg á hreinu að mjög margt í Baugsmálinu var á gráu svæði hvort heldur lögfræðilega eða siðferðilega. Annað var klárlega löglegt, en siðlaust, eins og minni gamli kennari Vilmundur heitinn Gylfason hefði sagt. Högnuðust einstaklingar umfram það sem eðlilegt gæti talist? Örugglega, en Hæstréttur taldi ekkert ólöglegt hafa átt sér stað. Voru þetta auðgunarbrot? Ekki að mati Hæstaréttar. Ert þú að segja, Andrés, að Hæstiréttur hafi dæmt vitlaust? Það hefur svo sem komið fyrir og lögskýringar breytast með tíðarandanum. Ég heyrði um daginn skemmtilegt orðaval: Í lögfræði er ekki til neitt sem heitir rétt eða rangt, bara síðasta ákvörðun dómstóla.
Annars ferð þú með rangt mál í innleggi þínu, Andrés, þegar þú talar um að Jón Ásgeir og Tryggvi hafi reynt að hlunnfara Baug með tugmilljóna einkaneyslu. Ákæra er eitt og staðreyndir annað. Þessum liðum var vísað frá dómi með heldur niðurlægjandi dómsorði, ef ég man rétt. Það var ekki kallað beint "tittlingaskítur" en nokkuð nærri því. Eftir stóð svo um 500.000 kr. sem Tryggvi var dæmdur fyrir að hafa látið Baug borga fyrir sig. Þannig að tugmilljóna einkaneysla á kostað Baugs varð að hálfri milljón.
Ég hef sérstaklega gaman að þessu tali um auðgunarbrot. Það er talað um refsiramma vegna auðgunarbrota í XXVI. kafla Almennra hegningalaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Mig langar að klippa út nokkrar greinar:
Ég reyndi að klippa út þau sem mér fannst líklegast að ætti við Baugsmálið og lít á hluthafa sem lánadrottna, þar sem þeir hafa í reynd lánað fyrirtækinu fé til rekstrarins. Gr. 250 lýkur með þessum góðu orðum: "skal þá því aðeins mál höfða, að sá krefjist þess, sem misgert var við." Þetta eru lögin. Ákæruvaldið hafði samkvæmt þessu ekki rétt á að höfða mál varðandi flest þeirra atriða sem málið snerist um, þar sem enginn hluthafi hafði krafist þess. Um þetta snýst m.a. réttaröryggið okkar. Ef við teljum ekki á okkur brotið, þá má hið opinbera ekki kæra fyrir okkar hönd. Hluthafar Baugs töldu ekki á sér brotið og því var ekki grundvöllur til málshöfðunar. Ég er ekki að segja með þessu að Baugsmenn hafi verið einhverjir englar og ekki aðhafst neitt athugunarvert, en það voru ekki efni til að höfða mál gegn þeim fyrir auðgunarbrot, þar sem meintir brotaþolar höfðu ekki krafist þess.
Stopult er minni þitt, Andrés. Össur veittist heiftarlega að Gísla Marteini Baldurssyni í bloggi sínu fyrir skömmu. Og Björn hefur uppnefnt ákveðna fjölmiðla sem Baugsmiðla og jafnvel neitað þeim um viðtöl.
Marinó G. Njálsson, 27.6.2008 kl. 18:08
Marinó, með fullri virðingu fyrir áhuga þínum á lögum og þrátt fyrir þá vinnu sem þú augsýnilega hefur lagt í þennann pistil, þá vantar nú nokkuð upp á hjá þér.
Eitt er að tala um lög, annað er að tala um hefðir og starfsvenjur. Það er rétt að það samræmist kannski ekki lögum að fara inn í bókhald fyrirtækja á miðju ári undir venjulegum kringumstæðum. En ef að ég skil málið rétt þá fjallaði ákæran um brot á hlutafélagalögum þar sem að ásetningur var um að falsa stöðu hlutafélags. Þá var fjallað um umtalsverða fjárhæð í því sambandi.
Það er ekki hægt að pota fram greinum úr refsiramma almennra hegningarlaga og segja - sko -. Svo einfalt er þetta ekki vinur minn.
Þú fjallar einnig um lögsögu þessara mála og fæ ég ekki séð að þú hafir rökstutt mál þitt í þeim hluta heldur. Það er misskilningur hjá þér að halda það að hægt sé að brjóta af sér í einu landi og sleppa við ákæru annarsstaðar. Í raun er dómskerfið mjög skilvirkt hvað lögsögu varðar og engin sérstök ástæða til þess að hafa áhyggjur af þeim hluta málsins.
sandkassi (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 18:55
Gunnar, þetta varðandi fölsun á stöðu félagsins, þá er það ekki fölsun ef kreditreikningurinn varð til þess að lækka viðskiptaskuld Baugs við Nordica. Það er það eina sem ég sagt um bókhald Baugs.
Varðandi tilvísanir í lagagreinar, þá hefur ítrekað verið talað um auðgunarbrot og ég skoðaði því hvað er sagt um slíkt í hegningarlögum. Þetta var engin ítarleg greining á lögum, enda læt ég lögfræðinga um slíkt. Þessi uppfletting tók mig 5 mínútur.
Varðandi lögsöguna, þá er ég ekkert að efast um að íslenskur dómstóll hefur lögsögu í málinu út frá ákveðnum forsendum. Það eina sem ég segi, að ef við breytum forsendunum, þ.e. úr bókhaldsfölsun í kúgun, þá færist lögsagan.
Marinó G. Njálsson, 27.6.2008 kl. 19:08
jú jú, en það sem nagar mig í þessu máli er það að ég trúi stráknum (Jóni Gerald). Ég trúi því að hann fari með rétt mál, og get ég ekki útskýrt það frekar.
En ég er farin út úr bænum og bið að heilsa á meðan.
sandkassi (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 19:34
Gunnar, ég tek alveg undir með þér að ég held að JGS sé að greina rétt frá og allt það, þó hann sé að sjálfsögðu með sína sýn á atburðarásinni. Það sem ég samþykki ekki í þessu máli er að kreditreikningar frá honum geti orðið til þess að hægt er að snúa við öllu bókhaldi Baugs, kafa ofan í fjárfestingar, einkareikninga stjórnenda, VISA-reikninga og ég veit ekki hvað. Ég get ekki séð að kreditreikningurinn sé svo alvarlegur að hann hafi kallað á húsleit og allan þann málatilbúnað sem tók síðan 6 ár að ljúka fyrir dómstólum á Íslandi og er hugsanlega ekki lokið enn þar sem menn ætla fyrir Mannréttindadómstól Evrópu með málið. Mér finnst það varða réttaröryggi okkar að ekki sé hægt að leita þar til eitthvað skítugt finnst. Það er kannski kaldhæðnin í þessu máli að í nær öllum atriðum málsins, nema því sem sneri að kreditreikningnum, var ýmist sýknað eða ákæruliðum vísað frá.
Marinó G. Njálsson, 27.6.2008 kl. 20:11
Já það er hægt að skeggræða þessa hluti en staðreyndin er sú að Baugsmenn hafa stundað hér mjög harkalega viðskiptahætti í gegnum tíðina og er það vægt til orða tekið að þeir hafi haft á sér slæmt orð. Þegar að byrgjum er stillt upp við vegg árum saman. Samkeppni er eytt. Fólki hótað ef að það fari ekki að vilja Baugsmanna um verðlag. Svona menn kúga einstaklinga með samskonar aðferðum og mafia. Síðan koma þeir sér vel fyrir á öllum köntum borðsins,
Þegar að Lúllabúð lokaði þá spurði ég gamla manninn hvað væri málið. Hann tók niðursuðudós ofan úr hillu og sagði; ok, ég borga 430 kr. fyrir þetta hjá heildsalanum. En í Bonus kostar dósin 430 kr.
Maður með konu og börn (Jón Gerald) tekur að sér verkefni fyrir þessa menn og setur sig í stórar skuldbindingar fyrir hönd Baugsmanna í USA. Það stóð aldrei til hjá þessum mönnum að standa við gerða samninga við hann. Þeim var skítsama þótt gengið yrði að eignum og lífsviðurværi fjölskyldumanns. Af hverju? Því þetta er white trash.
Það er nóg til af svona mönnum hér og þeir eru af nýrri tegund íslendinga sem hreykir sér af óförum annara sem þeir valda og ganga meira að segja svo langt að líta á sig sem hetjur. Það versta er að lýðskrumið virkar hjá þeim enda verða alltaf til meiri peningar fyrir endalausum málarekstri og P.R. hjá Baugsmönnum heldur en hjá ríkinu.
Við þurfum ekkert á svona mannskap að halda sem setur krók í öll sín viðskipti. Þeir eru óheiðarlegir og það eru engin not af óheiðarlegu fólki í frjálsu lýðræðisríki.
Ég er ósammála og ég tel að tilhæfulaus kreditreikningur upp á 60 milljónir hjá hvaða fyrirtæki sem er kalli umsvifalaust á tæmandi úttekt á viðkomandi fyrirtæki. Að fabrikkera slíkan reikning er svo sannarlega glæpsamlegt athæfi og það er þjóðin sem borgar á endanum á einn eða annann hátt þá peninga sem stolið er. Svo einfalt er það.
En ég hef áhyggjur af því að hér séu vissir aðilar orðnir svo ríkir að ekki sé hægt að koma yfir þá lögum. Hér þarf augsýnilega mun strangari löggjöf og eftirlit. Mætti ég biðja um frið fyrir þessum snekkjusiglandi og líkjördrekkandi pabbadrengjum í fjölmiðlum sem eru ekki handabandsins virði á mínum heimaslóðum.
sandkassi (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 03:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.