Leita í fréttum mbl.is

Er Ísland ekki lengur meðal Norðurlanda?

Thorvald Stoltenberg

Mbl.is segir þá forvitnilegu frétt, að gera skuli „óháða rannsókn“ á því hvernig þróa megi samstarf Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum á næstu 10-15 árum. Rannsóknin er þó ekki óháðari en svo að henni mun stýra Thorvald gamli Stoltenberg, sem sést hér að ofan, margreyndur stjórnmálamaður og diplómati, fyrir nú utan það að hann er faðir Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.

Um þetta var gefin út tilkynning í gær, en hún kom ekki upp úr engu. Þetta var ákveðið á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda, sem fram fór í Lúxemborg á mánudagskvöldið 16. júní (eftir utanríkisráðherrafund ESB), en dagskráin var vitaskuld ekki óundirbúin. Fylgjast hefur mátt með þessu á bloggi Carls Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem er harla opinskár um störf sín. Um framhaldið má svo fræðast í grein, sem Sverre Diesen, Juhani Kaskeala og Håkan Syrén, yfirmenn herafla Noregs, Finnlands og Svíþjóðar skrifuðu í Aftenposten, Helsingin Sanomat og Svenska Dagbladet í dag. Á fundinum var þó ekki aðeins rætt um utanríkis- og öryggismál, því þeir hafa sjálfsagt haft um ýmislegt að skrafa vegna þeirrar vandræðastöðu, sem upp er komin í Evrópusambandinu eftir að írskir kjósendur höfnuðu Lissabon-sáttmálanum (líttilega breyttri stjórnarskrá Evrópusambandsins).

Af tilkynningu utanríkisráðuneytisins íslenska má ætla að Ísland sé þátttakandi í þessu verkefni, þó ekkert komi reyndar fram um það. En hvar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir? Hún var ekki í Lúxemborg, svo mikið er víst. Var þó á því hamrað að allir utanríkisráðherrar Norðurlanda hefðu verið þar og síðan taldir upp ráðherrar Noregs, Finnlands, Svíþjóðar og Danmerkur. En ekki Íslands. Hér hefur enda ekkert verið um samstarf af þessu tagi rætt. Ekki opinberlega og ekki á fundum utanríkismálanefndar Alþingis. Utanríkis- og varnarmálaráðherrann hefur ekki einu sinni sent frá sér yfirlýsingu um málið, eins og hann virðist þó gera af minnsta tilefni þessa dagana.

Ég ritaði á sínum tíma um þau undur að íslenski varnarmálaráðherrann hefði skrópað á sameiginlegum fundi varnarmálaráðherra Norðurlanda á Skagen í Danmörku, sem haldin var fyrir sléttum mánuði. Ég fæ ekki betur séð en að utanríkisráðherra sniðgangi skipulega allt norrænt samstarf í utanríkismálum, nema það komi framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna við, enda er það framboð öðrum þræði á vegum Norðurlanda. Og alveg sérstaklega ef það snýst um hinn málaflokkinn hennar, varnarmálin. Hið hryggilega er að hin Norðurlöndin virðast vera komin á þá skoðun að Ísland teljist ekki með. Það er ekki vegna þess að þau vilji skilja Ísland eftir út undan í þessum efnum. Síður en svo.

En þau eru farin að ganga á lagið á öðrum sviðum, eins og kom í ljós í lok síðasta mánaðar þegar Danir, fyrir hönd Grænlendinga, buðu sumum ríkjum Norðurheimskautsráðsins á fund um hugsanlega skiptingu Norðurheimskautssvæðisins með tilliti til auðlindanýtingar. Íslandi var ekki boðið og til þess að undirstrika niðurlæginguna virtist fundurinn kom utanríkisráðuneytinu í opna skjöldu þegar um var spurt. Aðeins var að fá óljós svör um hvað ráðuneytinu skildist um fundinn, fundarefnið og áhrif hans.

En svo aftur sé spurt: Hvar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir síðastliðinn mánudag? Jú, hún var upptekin við að halda erindi á einhverri ráðstefnu suður á Melum um hlutverk örríkja undir sólinni. Á ensku var heiti ráðstefnunnar „Small States — Emerging Powers“! Grínlaust. Erindi ráðherrans hét vitaskuld Staða Íslands á alþjóðvettvangi. Miðað við störf ráðherrans sýnist mér að einfalt sé að svara spurningunni um stöðu Íslands á alþjóðvettvangi. Hún er laus til umsóknar.


mbl.is Norðurlöndin þróa samstarf í utanríkis- og öryggismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Athyglisvert.

Sigurður Þórðarson, 19.6.2008 kl. 07:42

2 identicon

Er þetta ekki bara liður í herferð ykkar íhaldsmanna gegn Samfylkingunni sem Friðrik Þór Guðmundson var að spá. http://lillo.blog.is/blog/lillo/entry/570792/

Þú ert búinn að vera að pönnkast á Þórunni Sveinbjörnsdóttur á Eyjubloggnum og nú er Ingibjörg Sólrún næst.

Sveinn Sveinsson (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 10:58

3 Smámynd: Andrés Magnússon

Ég verð að hryggja Svein og Lilló með því að samsæriskenning þeirra á ekki við rök að styðjast. Það er ekki eins og ég hafi hlíft Samfylkingarmönnum eitthvað undanfarið ár, en nú sé griðunum loks létt. Þvert á móti hef ég haft margvíslegar athugasemdir fram að færa við þá, ekki aðeins Ingibjörgu Sólrúnu og Þórunni, þó þær gefi óneitanlega flest tækifæri til þess, heldur einnig Össur Skarphéðinsson. Jóhönnu Sigurðardóttur hef ég hins vegar ekkert sett út á, þó hún sé lengra til vinstri en ég kysi. En hún er samkvæm sjálfri sér og það býr ekkert annað undir hjá henni. Ef vel er að gáð má í skrifum mínum — á bloggnum sem í prentuðu máli — einnig finna ýmsar nótur til minna góðu flokkssystkina í ríkisstjórn, þó þær séu yfirleitt ekki jafnalvarlegar. Gætir enda síður sósíalisma og oftar sjálfstæðisstefnunnar í stjórnarathöfnum þeirra en hjá kollegum þeirra í Samfylkingunni.

Ég veit ekki hvort ég hafi nokkuð verið að „pönkast“ á Þórunni. Síðustu tvær færslur á blogg mínum á Eyjunni voru fyrst og fremst skrifaðar í kerskni, þó vissulega búi þar einhver alvara að baki. Mér sýnist enda að innan Samfylkingarinnar séu ýmsir farnir að brýna hnífana og tæpast fyrir áeggjan mína. Ég hef hins vegar haft ýmsar alvarlegri aðfinnslur um framgöngu umhverfisráðherra, sem ég hef ekki legið á.

Það er hins vegar helber misskilningur ef Sveinn eða Lilló ímynda sér að ég (um aðra get ég ekki fullyrt) fari út í einhverjar herferðir eða hefndarleiðangra gegn Tótu og Sollu, svona af því bara eða af því að mér finnist eitthvað halla á flokkinn minn (sem ég er nota bene ekki fyllilega ánægður með þessa dagana, sérstaklega vegna þeirrar þjóðnýtingarstefnu, sem þingflokkurinn virðist hafa kokgleypt frá Samfylkingunni). Nei, gagnrýni set ég fram á það sem mér finnst gagnrýnisvert. Finnst mér raunar bera skylda til þess. Og þá tíunda ég ástæðurnar. Nóg er af þeim.

Ef eitthvað er hef ég verið allt of nærgætinn við ráðherra Samfylkingarinnar, sérstaklega Ingibjörgu Sólrúnu, en ár hennar í utanríkis- og varnarmálaráðuneytinu er samfellt hneyksli.

Andrés Magnússon, 19.6.2008 kl. 12:09

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hver býður þjóð til fundar um varnarmál sem ekki einu sinni hefur varnir ??

Óskar Þorkelsson, 19.6.2008 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband