Leita í fréttum mbl.is

Utanríkisráðherra er ekki vandanum vaxinn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ávarpar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna

Í athugasemd við fyrri færslu var imprað á því að tilgangur minn með því að skrifa um utanríkismál væri fyrst og fremst sá að taka Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til bæna. Því var ekki þannig farið þó vissulega væri ekki hjá því komist að gagnrýna framgöngu hennar í því máli. En athugasemdin vakti mig til umhugsunar um þetta liðlega ár, sem hún hefur setið í stóli utanríkis- og varnarmálaráðherra. Hvernig hefur hún eiginlega staðið sig?

Skemmst er frá því að segja að ráðherratíð hennar hefur verið samfellt hneyksli.

Um það er þó rétt að fjalla í lengra máli. Miklu lengra. Byrjum á því að rifja upp hvað stóð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um utanríkis- og öryggismál. Það er ekki langt mál:

Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verða nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu. Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak og vill leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi. Íslendingar eiga að stefna að því að taka forystu í baráttunni gegn mengun hafsins og alþjóðlegu starfi til að bregðast við loftslagsbreytingum. Að öðru leyti byggist stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum á þeim gildum sem legið hafa til grundvallar samvinnu vestrænna lýðræðisríkja, norrænu samstarfi og viðleitni þjóða heims til að auka frelsi í alþjóðlegum viðskiptum. Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að allar meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál verði teknar í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

Á ársafmæli ríkisstjórnarinnar um daginn hafði Geir H. Haarde, forsætisráðherra á orði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi að ríkisstjórnin hefði efnt um 80% af stefnumiðum stjórnarsáttmálans, en af því tilefni sögðu gárungarnir að þá gæti hún vonandi sagt af sér 27. ágúst ef áfram miðaði jafnvel. En hvernig hefur stefnumiðunum um alþjóðamálin verið fylgt eftir? Miðað við þessa stuttu málsgrein hér að ofan mætti ætla að það gæti ekki verið flókið mál. En það hefur greinilega vafist fyrir utanríkisráðherranum. Tökum það lið fyrir lið:

Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verða nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu.

Mannréttindi eru alls ekki lögð til grundvallar utanríkisstefnunni, eins og best sást í blóðbaðinu í Tíbet á dögunum. Þvert á móti lagði utanríkisráðherra lykkju á leið sína til þess að ítreka stuðning Íslands við stefnuna um „eitt Kína“ og lagðist gegn þjóðaratkvæðagreiðslu á Taívan! Það er nú aldeilis virðing fyrir mannréttindum, lýðræði og friðsamlegri úrlausn deiluefna. Þar fyrir utan hafa ráðherrann og háttsettir embættismenn hennar verið einstaklega iðnir við að hitta erlenda ráðamenn vegna framboðsins til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, en stór hluti þeirra ræður ríkjum þar sem mannréttindaástandið er bágborið. Sumir raunar í ríkjum, þar sem ástandið er svívirðilegt. Á svoleiðis smotterí hefur ekki verið minnst.

Ráðherranum hefur raunar verið tíðrætt um hlutverk Íslands í friðarumleitunum og vísað til síns frábæra ferðalags til Ísraels og Palestínu í því samhengi. Út úr því kom vitaskuld ekkert, en fyrir skömmu skutu Tyrkir (keppinautar um öryggisráðssætið) okkur ref fyrir rass í þeim efnum með alvöru framlagi til friðar fyrir botni Miðjarðarhafs.

Þróunarsamvinnan er svo enn í aftursætinu, en breytingar á þeim vettvangi snúast aðallega um það hvort hún eigi að vera í sérstofnun eða á kontór í ráðuneytinu. Jú, ráðherrann lagði fram mikið þróunarsamvinnufrumvarp í febrúar, en það komst ekki upp úr nefnd og afdrif þess óljós.

Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak og vill leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi.

Já, var það? Hvernig? Með því að kalla heim eina friðargæsluliðann? Við skulum ekki einu sinni minnast á fíflaganginn og falsið með lista hinna staðföstu þjóða, en hitt væri fróðlegt að vita, hvað felst í harmi ríkisstjórnarinnar.

Íslendingar eiga að stefna að því að taka forystu í baráttunni gegn mengun hafsins og alþjóðlegu starfi til að bregðast við loftslagsbreytingum.

Í þessum efnum hefur ráðherrann ekkert gert ef marka má fréttatilkynningalista ráðuneytisins. Nema menn vilji telja með þriggja ára verksamning við Búnaðarskólann á Hvanneyri um uppbyggingu alþjóðlegs landgræðsluskóla. Nær allt frumkvæði Íslands í þessum efnum má rekja annað í stjórnkerfinu, ekki síst til forseta lýðveldisins, en fráleitt er að ræða um forystu á því sviði.

Að öðru leyti byggist stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum á þeim gildum sem legið hafa til grundvallar samvinnu vestrænna lýðræðisríkja, norrænu samstarfi og viðleitni þjóða heims til að auka frelsi í alþjóðlegum viðskiptum.

Svo sanngirni sé gætt hefur þetta sjálfsagt að miklu leyti verið efnt, en til þess að gæta sanngirni er líka fátt sem hefur kallað á sérstaka aðkomu ráðherrans að eilífðarverkefnum ráðuneytisins. Þó má nefna ónærgætni í samstarfi við bandamenn okkar í Afganistan og Írak, ókurteisi við utanríkisráðherra Bandaríkjanna á dögunum, vanhugsaða viðurkenningu á sjálfstæði Kosovo, náin samskipti við útlagaríkið Íran þvert á samþykktir alþjóðasamfélagsins og sitthvað fleira. Þar ræðir samt fremur um grunnhyggni en grundvallarstefnubreytingar (ef fyrrnefnt rof í samstarfi við hin Norðurlöndin er undan skilið). En jafnvel þó þar væri allt í sóma væri það starf bara business as usual og ekki beinlínis tilefni til þess að útdeila fálkaorðum. Hvað þá stórriddarakrossum.

Hins vegar má vel spyrja að því hvort yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar um Evrópumálin og gjaldmiðilinn séu til þess fallin að greiða fyrir hagfelldum alþjóðaviðskiptum. Í vetur jókst Evrópuumræðan talsvert og eftir því var tekið að utanríkisráðherra skipti eilítið um gír í henni. Til þess að komast upp úr tæknilegu argaþrasi hagaði hún máli sínu þannig að Evrópumálin væru ekki síst spurning um eðli og erindi Íslands í heiminum, hvort Ísland tilheyrði Evrópu eða ekki. Það er ekkert að því að setja málin fram með þeim hætti, en hversu skynsamlegt er það hjá utanríkisráðherra Íslands að skipa landinu þannig í sveit með löndum Austur-Evrópu, sem vilja fyrir alla muni samsama sig Evrópu og fjarlægja sig aldalöngum og kæfandi faðmlögum rússneska bjarnarins? Íslendingar eru hreint ekki í þeirri stöðu og hafa ekkert að sanna um evrópskt eðli sitt. Málflutningur ráðherrans vakti hins vegar efasemdir um það. Nýjasta frumkvæðið — sérstakt auglýsingainnlegg í júlí-ágúst hefti Foreign Affairs — undirstrikar þetta enn frekar. Það eru nær einvörðungu óburðug nýhagkerfi á borð við Serbíu, Jemen, Sádí-Arabíu, Turk & Caicos, Macau, Azerbajdzhan, Máretaníu, Kúrdistan og Tanzaníu, sem kaupa sér umfjöllun með þessum hætti. Er ástæða til þess að skipa Íslandi á bekk með þeim?

Enn einkennilegri og hættulegri var þó árás utanríkisráðherra á íslensku krónuna í viðtali á Morgunvakt Rásar 2 hinn 23. apríl. Þar sagði ráðherrann að íslenska krónan væri efnahagslífinu ekki vörn til framtíðar, hún væri frekar hættuvaldur. Bætti hún því svo við að Íslendingar hefðu tveggja kosta völ: evru eða krónu. Líkast til hefur enginn gengið jafnlangt í að tala niður gjaldmiðilinn undanfarin ár, sem vitaskuld er stóralvarlegt athæfi. Ekki síst hjá öðrum tveggja forystumanna ríkisstjórnar, en í flestum öðrum löndum heims hefðu orð af þessu tagi valdið tafarlausu gengishruni á mörkuðum. Það gerðist til allrar hamingju ekki, en hvaða áhrif ætli þau orð hafi haft á erlenda spákaupmenn? Kostnaðurinn kann að vera að koma í ljós núna. 

Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál.

Þetta hefur nú aldeilis ekki gengið eftir. Þvert á móti hefur verið hringlað þvílíkt í þeim efnum að undrum sætir og hvert hneykslið eltir annað. Það er búið að leggja niður Ratsjárstofnun (eftir að ráðherrann sagði forstjóranum upp og sagði svo ósatt um málsatvik) og stofna nýja Varnarmálastofnun, samkvæmt nýjum varnarmálalögum, sem voru samþykkt áður en nýtt hættumat liggur fyrir, þrátt fyrir að ráðherrann hefði sjálfur kynnt Alþingi að hættumatið ætti að legga til grundvallar nýrri stefnu í varnarmálum: „Undirstaða haldgóðrar varnarstefnu Íslands til framtíðar er að fram fari vandað og faglegt hættumat fyrir Ísland sem byggt sé á bestu þekkingu“. Fyrir nú utan hitt að varnir landsins eru enn fullkomlega ótryggðar, hvað sem líður þeim erlendu flugsveitum, sem hingað koma endrum og sinnum sér til skemmtunar og heilsubótar.

Hamrað var á því að hin nýja stofnun ætti alls ekki að koma nálægt borgaralegum verkefnum og var það ein helsta röksemdin fyrir henni og lögunum. Það vakti því verulega athygli þegar ráðherrann handvaldi  nýjan forstjóra þessarar stofnunar úr löggæslunni, manneskju sem enga þekkingu hefur á varnarmálum þrátt fyrir að 8. grein laganna kveði sérstaklega á um það. Þarna var því bæði vikið frá stefnu ríkisstjórnarinnar, markaðri stefnu, og hinum nýsamþykktu lögum, sem varnarmálaráðherrann lagði sjálfur fram!

Það var enda ekki einu sinni búið að stofna Varnarmálastofnun þegar Ellisif Tinna Víðisdóttir, nýskipaður forstjóri hennar, kom fram í viðtali á Morgunvakt á rás 1 Ríkisútvarpsins hinn 21. maí og fór að útskýra það af miklum móð að hlutverk stofnunarinnar væri að mestu leyti borgaralegt, gæti tekið til löggæsluverkefna og hvaðeina! Með ólíkindum er að löglærðum forstjóranum hafi ekki verið ljós eigin lagaheimildir og skorður á þessari stofnun, sem sagt er að hún hafi komið svo mikið nálægt við að móta. Það er raunar efni í sérfærslu.

Og samráðsvettvangur stjórnmálaflokkanna um öryggismál? Hann er óstofnaður ennþá, enda sjálfsagt eitthvað enn sem varnarmálaráðherrann vill véla um í friði frá tilsjón Alþingis.Og þá verður hann til lítils eins og stjórnarandstaðan hefur keppst við að benda á, án þess að vera virt viðlits, hvað þá meir. Í vor var raunar komið eilítið annað hljóð í strokkinn hjá ráðherranum, sem útskýrði dugleysið með því að samráðsvettvangurinn ætti að vera inni á gafli hjá óstofnuðu rannsóknarsetri um varnir og öryggi. Með öðrum orðum á engin tilsjón að vera af hálfu Alþingis, heldur mega þingmenn ræða hver við annan hjá einhverju nýju háskólabattaríi, sem kannski verður stofnað einhverntíman. Eitthvað með álíka vigt og Alþjóðamálastofnun HÍ, Smáríkjasetrið eða Evrópufræðasetrið? Þetta er náttúrlega argasta móðgun við þingið og lýðræðislega stjórnarhætti.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að allar meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál verði teknar í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

Tja, hvar værum við stödd ef ríkisstjórnin legði ekkert sérstaklega upp úr því? Það kom nú aldeilis í ljós í apríl hvernig utanríkis- og varnarmálaráðherrann virðir þá lögbundnu skyldu sína. Nær væri að tala um svívirðu í því samhengi. Það að utanríkisráðherra beri lagaskylda til samráðs við nefndina um meiriháttar ákvarðanir myndi undir venjulegum kringumstæðum þýða að tæpast að þyrfti að tiltaka það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ekki fremur en að þar þurfi að standa að ráðherrar hyggist kappkosta að fara að landslögum. Í þessu tilviki var þó ekki vanþörf á.

Þegar utanríkis- og varnarmálaráðherrann fór með einkaþotu á Búkarest-fund leiðtoga Atlantshafsbandalagsins ásamt forsætisráðherra lágu margvísleg mjög mikilvæg mál fyrir fundinum. Ráðherrann hafði ekki fyrir því að kynna neitt af því fyrir utanríkismálanefnd Alþingis. Nefndarmenn höfðu hins vegar pata af því af lestri erlendra fjölmiðla og var óskað eftir fundi með utanríkisráðherra. Hún synjaði þeirri ósk! Hafði eitthvað miklu mikilvægara við tíma sinn að gera.

Þetta er fullkomlega óskiljanleg framkoma. Ekki síst í ljósi þess hvað var svo samþykkt á fundinum.  Í Búkarestar-yfirlýsingunni var fastaráði bandalagsins falið að leggja fram tillögur fyrir næsta leiðtogafund um hvernig megi veita öllum löndum og lýðum NATO eldflaugavarnir. Á þessa ráðagerð var fallist af íslenskum stjórnvöldum án þess að það hafi í nokkru verið rætt hér á landi, en ef af verður er afar sennilegt að koma þurfi fyrir gagnflaugum hér á landi og hugsanlega nýrri ratsjárstöð. Nú hafa engar slíkar fyrirætlanir verið samþykktar enn, en í stuðningi Íslands við yfirlýsinguna felst eigi að síður nokkur skuldbinding. Ég fagna því svo sem, en hitt er óþolandi að svo veigamikið mál skuli hafa hlotið samþykki Íslands fullkomlega umræðulaust.

Til þess að bíta höfuðið af skömminni var varnarmálaráðherrann spurður út í þetta í Kastljósi Ríkissjónvarpsins eftir að heim var komið. Ráðherrann eyddi málinu og hélt því fram eða virtist halda að til stæði að gagnflaugakerfi Bandaríkjamanna í Tékklandi og Póllandi ætti að verja varnarsvæði NATO alls, sem er fjarri lagi. Annað hvort fór Ingibjörg Sólrún með fals eða hitt — sem er engu skárra — hún vissi ekki hvað hún var að undirrita. Var 37. grein Búkarestar-yfirlýsingarinnar þó merkilega afdráttarlaus og olli t.d.  talsverðri fjölmiðlaumfjöllun í Noregi.

— — —

Í ljósi alls þessa, auk hins er nefnt var í fyrri færslu um Norðurlandasamstarf, blasir við að utanríkis- og varnarmálaráðherrann hefur varla gert tilraun til þess að standa við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um málaflokk sinn. Til þess að bæta gráu ofan á svart virðist Ingibjörg Sólrún einfaldlega ekki vandanum vaxinn. Hvert sem litið er blasir við klúður eða vanefndir, vanþekking eða fals. Varnarmálin, sem hún sóttist svo ákaft eftir, eru orðinn einn grautur óljósra markmiða og enn torkennilegri framkvæmdar, jafnvel lögbrota og valdþurrðar. Að ekki sé minnst á pólitískar ráðningar og aðrar verri. Hin nýja utanríkisstefna… tja, hvar er hún? Er ekki nær að tala um fullkomið stefnuleysi?

Staðreyndin er sú, að Solla hefur siglt og villst inn á allt önnur mið en áður hefur verið gert, blandar saman innri og ytri vörnum eftir þörfum eða hugdettum og utanríkisstefnan er orðin eitthvert óskiljanlegt moð. Og ekki aðeins að smekk þess hauks, sem hér skrifar; ekki síður þegar litið er til þeirra hugsjóna, sem Samfylkingin hefur sett fram í þeim efnum, hvort heldur ræðir um kosningastefnu eða samþykkt landsfundar.

Og hvað má þá segja um stóra verkefnið, sem hefur forgang á öll önnur og allt annað: framboðið í öryggisráðið? Er ekki hverjum manni ljóst að möguleikar Íslands í því kjöri hafa að engu orðið á vakt Ingibjargar Sólrúnar? Ekki verður því þó um kennt, að ekki hafi verið nógu til þess kostað. Áætlaður kostnaður utanríkisráðuneytisins eru 12 milljarðar á þessu ári. Milljarður á mánuði! Hverjar ætli líkurnar séu á því að ráðuneytið haldi sig innan þeirrar áætlunar?

Ég hef haft rækilegar efasemdir um þetta ríkisstjórnarsamstarf frá upphafi og þær hafa lítt dalað. Ekki gagnvart krötunum, þeir eru ágætir fyrir sinn hatt, þó mig greini á við þá um margt. En Kvennalistinn er jafnliðónýtur í ríkisstjórn og hann var í stjórnarandstöðu.

Þegar litið er til þessa fyrsta árs Ingibjargar Sólrúnar í stóli utanríkis- og varnarmálaráðherra má ljóst vera að hún hefur engan áhuga á að framfylgja stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, dugleysi hennar stendur landinu fyrir þrifum og dugnaðurinn er því til óþurftar. Þegar kemur að samskiptum við umheiminn vill hún ekki segja þrjótunum til syndanna, en aðrar yfirlýsingar hafa reynst þjóðinni til skaða. Til hvers er hún þá?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þakka þér fyrir að halda þessu til haga.

Orðagjálfrið, þversagnirnar í málflutningnu og sjálfsupphafningin hjá þessu duglausa liði er farið að sliga venjulegt fólk.

Ragnhildur Kolka, 20.6.2008 kl. 12:41

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Væri ekki ráð að leita sér aðstoðar vegna þessarar Ingibjargarfóbíu...þetta hlýtur að vera erfitt

Jón Ingi Cæsarsson, 20.6.2008 kl. 15:56

3 Smámynd: Sigurjón

Aldrei hafði ég nú mikið álit á ISG og ekki batnaði það við hennar ,,störf" sem utanríkisráðherra...

Sigurjón, 20.6.2008 kl. 17:39

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Jón Ingi:
Er þetta það eins sem þú getur sagt? Ekki svo að skilja að það komi á óvart, það er erfitt að verja vondan málstað.

Hjörtur J. Guðmundsson, 20.6.2008 kl. 22:09

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Annars snilldar samantekt Andrés!

Hjörtur J. Guðmundsson, 20.6.2008 kl. 22:30

6 Smámynd: Andrés Magnússon

Fælni felst í órökréttum ótta við eitthvað. Eins og lesa má að ofan er margt að óttast og ég tel mig einmitt hafa fært rök fyrir því.

Hitt er svo merkilegt að Jón Ingi gerir engar efnislegar eða málefnalegar athugasemdir við eitt einasta atriði í færslunni. Ætti þó að vera af nógu að taka! Hvað má lesa út út því?

Andrés Magnússon, 20.6.2008 kl. 23:51

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér sýnist nú að maðurinn með trukkahúfuna hafi ekki lesið þessa samantekt á þversögnum utanríkisráðherra í orði og svo á borði.

Þetta er frábær grein Andrés og mikið gustukaverk að setja þessa hluti í samhengi. Embættistíð IS hefur verið ein allsherjar öfugmælavísa og efast ég um að það hefði náð að fylla paragraf ef þú hefðir tekið saman afrekin.  Þú hefðir kannski náð fyrirsögninni á þeim stíl og frá því setið í harðlífri ritstíflu eins og skussi á prófdegi.

Maður spyr sig hvað hafi orðið um aðhaldið og virka stjórnarandstöðu. Ég man aldrei eftir annarri eins fjarvist og þögn. Raunar gildir það um alla þessa ríkistjórn, sem virðist algerlega aflimuð frá þjóðarsálinni.  Áttu þeir við þetta, þegar heit um gagnsæi flugu sem hæst? Var það í merkingunni ósýnilegur?

Ég vona að þessi vandaði pistill komist undir augu sem flestra svo mönnum verði ljós sú hræsni og tvöfeldni, sem ríkir í utanríkismálum.  Það ber þó að hafa í huga að IS stendur ekki ein, né starfar af geðþótta, þótt það megi sannarlega skilja af skrifunum.  Hér eru fleiri með puttana í.

Kemur þá helst upp hinn Fóíski farsi um kurteysisheimsóknir erlendra flugsveita til að fullnægja lámarkskvóta um varnir undir þeim formerkjum að fylgjast með sovéskri flugumferð.  Ég hlýt að hafa sofið þegar kalda stríðið var endurvakið.

Frámunalegt samkrull almennrar löggæslu og varnarmálastefnu ber angan Bjarnar Bjarnasonar, sem virðist telja að borgarar þessa lands séu helsta ógnin við borgara þessa lands.  Vopnvæðingartiltæki hans bera vitni um það sérsveitir sínar, sem kosta 8 milljónir á útkall, þar sem verið er að bösta fíkla og smáþjófa.

Ekki má heldur gleyma nýlegu frumvarpi, sem gefur lögreglu frítt spil á að handtaka borgara án sektar né glæps ef þeir voga sér að safnast saman og nýta borgaralegan rétt sinn til að koma á framfæri kröfum sínum. Hvar var stjórnarandstaðan í þeim gerningi?  Hvar fellur þetta inn í mannréttindaheitstrengingarnar?

Það er raunar að verða eina leiðin til að ná til ríkisstjórnarinnar, sem hundsar nánast allar kröfur og umræður um úrbætur á öllum sviðum. Það dugar raun ekki einusinni til. Skrílslæti heita það og dónaskapur. Þessi mótmæli voru skipulögð og því ekkkert að marka þau eins og svo eftirminnilega var viðkvæðið í Rei málinu.

Kannski var það Dario Fo, sem skrifaði þennan farsa. Það hefur bara gleymst að segja frá því svo við getum hlegið með.

Ég fagna því að hafa svo skelegga penna sem þig Andrés, þótt við séum ekki alltaf á pari með viðhorfin.  Þetta er knýjandi mál, sem

Jón Steinar Ragnarsson, 21.6.2008 kl. 04:22

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

...sem verður að varpa kastljósi á.

Afsaka gloppur og villur. Stundum verður manni fótaskortur á lyklaborðinu, þegar hjartað ræður för.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.6.2008 kl. 04:27

9 Smámynd: Landfari

Þetta var mikil og góð samantekt. Bara svoan fyrir forvitni sakir, hvað ertu lengi að skrifa svona? Þetta virðist vera mjög vandað og malefnalegt hjá þér. Nú bíður maður eftir gagnrýninni og þá er ég að meina eithvað haldbetra en þetta hjá Jóni Inga, sem því miður er allt og mikið til af hér í bloggheimum.

Samfylkingin á góða penna líka og vænti ég þess að sjá hér þessari grein svarað lið fyrir lið. Annars veður maður líklega að afskrifa Ingibjörgu Sólrúnu því eins og þú lýsir þessu er hana ekki á vetur setjandi.

Landfari, 21.6.2008 kl. 10:59

10 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Satt að segja er ekkert flókið bak við það að ég svaraði ekki einstökum liðum... ég nennti því ekki

Jón Ingi Cæsarsson, 21.6.2008 kl. 11:30

11 identicon

Sem sagt kvörtun Jóns Inga er frekar sú að Andrés skuli bara á annað borð skrifa pistilinn en ekki hvað pistillinn inniheldur.

En það væri gaman að sjá einhvern reyna að hrekja skrif Andrésar.

Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 12:30

12 identicon

Ísland á sér utanríkisstefnu, og á vitanlega að vera tilbúið til viðræðna við hvern sem við okkur vill tala, út frá henni.

Íran er þar engin undantekning.  Að stimpla  Íran sem eitthvað sérstakt útlagaríki er hreinn og beinn áróður. Íran hefur í sjálfu sér ekki neina sérstaka sérstöðu sem greinir landið frá öðrum ríkjum sem eru í ónáðinni hjá Hvítahúsinu. Nema þá helst að eiga álíka gapandi vitlausan forseta og Amríkanar.

Það er leiðinlegt að sjá svona vitleysu í annars ágætum skrifum. 

Sveinn (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 16:54

13 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég sakna eilítið afrakstur langra æfinga Samfylkingarinnar í list svokallaðra samræðustjórnmála í svörum Jóns Inga.

Sigurjón Þórðarson, 21.6.2008 kl. 20:34

14 identicon

Þetta er ein stór flenging - frábær grein sem ætti að birta sem víðast.

Barði Barðason (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 14:38

15 identicon

Neisko Andrés, ertu þá haukur eftir allt. Takk fyrir pistilinn. Hann birtir svo skemmtilega mynd af hauknum sem  skrifaði að það var hin ánægjulegasta dægradvöl að lesa hann. Sannarlega eitthvað haukslegt við hann. Fyrst þetta langa rennsli um loftin blá, hátt, hátt uppi. Svo steypiflugið hratt, hratt, lóðbeint niður. Klærnar glenntar. Nú fellur bráðin. En, æ, hún slapp.

Sönn saga af váki (sem er skyldur hauki).

Haust eitt kom músvákur í Skerjafjörðinn. Hann hélt þar þeim einu háttum sem hann kunni og vokaði yfir fjörunni. En veiddi aldrei neitt svo sæist og virtist ráðvilltur á framandi slóðum. Hröfnunum var meinilla við hann. Þeir óttuðust hann ekki hið minnsta og lögðu lykkju á leið sína til að renna í hann og rífa í stélið á honum. Alltaf varð vákurinn jafn fornemaður yfir því. En aldrei sást hann ýfa sig neitt gegn hrafni. Kannski var hann sólskríkja í váksham. Einn morguninn var hann horfinn.

Af þessari sögu er ekki hægt að læra neitt.

K.S. (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 20:49

16 Smámynd: Anna Sigrún Baldursdóttir

Má maður eiga von á fleiri svona ítarlegum úttektum á ráðherrum ríkisstjórnarinnar? Þá meina ég bæði ráðherrum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Væri áhugavert.

Anna Sigrún Baldursdóttir, 24.6.2008 kl. 09:50

17 Smámynd: Andrés Magnússon

Þið fyrirgefið málhvíldina, en ég brá mér úr bænum og netsambandið slitrótt.

Jón Steinar: Ég tel lítinn vafa leika á því að aukin flugumferð rússneskra sprengjuflugvéla (ekki aðeins eftirlitsflugvéla) stendur í sambandi við minni umsvif Bandaríkjamanna á Norður-Atlantshafi. Í stórveldapólitíkinni fær tómarúm aldrei að þrífast. Ég átta mig hins vegar ekki alveg á því hvað þú ert að fara um handtökuheimildir lögreglu. Í XIII. kafla frumvarpsins er áskilið að til uppþots eða fjölmennra óeirða þurfi að hafa komið áður en heimildin er virk. Friðsamleg mótmæli falla ekki undir það.

Landfari: Ætli ég hafi ekki verið um þrjá tíma að skrifa þetta. Stór hluti þess tíma fór þó í að kanna heimildirnar, sem vísað er til. Lengi lifi Google!

Sveinn: Meinið er nú einmitt það, að Ísland á sér ekki ýkja grundvallaða utanríkisstefnu umfram þetta almenna, sem nú verður æ loðnara. Mín skoðun er sú að við eigum að velja okkur vini. Útlagaríki á borð við Norður-Kóreu eigum við ekkert að sælda saman við. Eða Íran, sem er ríkja líklegast til þess að slíta hinn stóra frið með skelfilegum hætti. Íransstjórn er í höndum ofstækismanna, sem hafa þá trú að heimsslitin séu eftirsóknarverð, kjarnorkuvæðast leynt og ljóst og hafa margítrekað ásetning sinn um gereyðingarstríð fái þeir tækifæri til. Mohammed el Baradei segir að miðað við það, sem menn á annað borð vita um kjarnorkuvæðingu Írana, gætu þeir smíðað kjarnorkuvopn á 6-12 mánuðum. Íran er útlagaríki í alþjóðasamfélaginu, en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna greip til refsiaðgerða árið 2006 eftir að Íranir neituðu að verða við tilmælum þess. Það hunsaði einnig Alþjóðakjarnorkumálastofnunina og fyrir vikið var hert á refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna með samþykkt öryggisráðsins nr. 1747 í mars í fyrra.

K.S.: Já, ég er haukur í utanríkis, öryggis- og varnarmálum.  Það þýðir ekki að ég skilji ekki dúfurnar. Vandinn er sá að þessa dagana spígsporar monthani á haugnum við Rauðarárstíg: ýfir fjaðrirnar, reigir kambinn og galar fullur sjálfsánægju, en engum til gagns eða ánægju.

Anna Sigrún: Ég þori nú engu að lofa um það að ég skrifi fleiri úttektir í þessum dúr. En þeir hafa sumir gefið tilefni til, þó engin jafnist þau við utanríkis- og varnarmálaráðherrann.

Andrés Magnússon, 25.6.2008 kl. 12:27

18 identicon

Allir vita að Andrés er með Ingibjörgu Sólrúnu á heilanum, er í einhvers konar heilögu stríði gegn henni. Skil vel að þessi texti sé ekki settur fram á prenti því hann stenst ekki blaðamennskukröfur. Nokkrir punktar.

1. Frumvarpið um þróunarsamvinnu sem verður sjálfsagt afgreitt í haust er stórmerkilegt eins og félagasamtök eins og þau sem ég vinn fyrir viti vel. Núgildandi lö eru frá 1985 og málefnið er núna tekið nýju og miklu betri tökum, loksins kominn ráðherra sem hefur alvöru áhuga á málinu. Dæmi um það er aðild að DAC eftirlitsstofnun OECD um þróunarsamvinnu. Nú lýkur framsóknarsveitamennsku og hreinum fjandskap Sjálfstæðismanna í garð þróunarsamvinnu.

2. Ég er mjög ánægður með áherslu á friðsamlega lausn deilumála, stjórnmálasamband við Palestínu og allar aðgerðir gagnvart Írak. Fréttatilkynningininn á vef Hvíta hússins er sögulegt gagn frá 2003, Ísland er aldrei lengur talið upp með viljugum þjóðu í Írak, þökk sé Isg. Og vel að merkja, útganga Íslands vakti mikla athygli í Ameríku. Almennt er ég líka mjög ánægður með breyttar áherslur í friðargæslunni.

3. Stór plús er líka að loksins kom ráðherra sem tók á fangaflugsmálinu og lýsti frati á stríðið gegn hryðjuverkum. Furðulegt að sjá Andrés kvarta fyrst yfir skorti á mannréttindum í utanríkisstefnunni og síðan yfir að Condi Rice hafi verið móðguð: Hvernig? Með því að mótmæla Guantanamo! Aumingja Andrés, þetta er ansi mikið rugl hjá þér. Man líka ekki betur en þú hafir stutt Íraksinnrásina mest allra Íslendinga, sá þig í Silfrinu.

4. Ísland skipaði sér í fremstu röð á loftslagsráðstefnunni á Balí. Hið besta mál. Veit reyndar að Andrés er á Bush línunni í loftslagsmálum.

5. Mér fannst ferlega flott af isg að fara til Afganistan. Það myndi ekki margir forverar hennar hafa þorað því. Ætli Andrés hafi farið?

6. Ég veit ekki mikið um Varnarmálastofnun nema að gamli forstjórinn var ráðinn fyrir Framsóknaklíku og var á himinháum launum sem Íslendinga kúguðu út úr Bandaríkjamönnum. Hefði verið hneyksli að halda því áfram og skrítið að Andrés styðji það. Ég er ánægður með að Frakkar séu hér og las góða grein eftir ISG í Mogganum um daginn um varnarmál. Sýnist hún hafa leyst vel úr langvinnu klúðri Davíðs og félaga sem trúðu því aldrei að Bandaríkin myndu fara með liðið héðan.

7. Hef líka lesið að öryggisráðsframboðið sé norrænt framboð og las greinaflokk í Fréttblaðinu með viðtölum að fjölda útlendinga og Íslendinga sem sýndi allt aðra mynd en Andrés gerir. Stuðningur virðist hafa aukist en Davíð næstum eyðilagði málið með því að lýsa opinberlega yfir frati á framboð Íslands en hætta því samt alls ekki formlega. Í staðinn puðraðist það niður og Ísland missti stuðning ríkja. Valgerður Sverrisdóttir sagði frá þessu ásamt fleirum.

8. Kíkti líka á þess færslu þar sem Andrés talar um norrænan fund 16. júní sem isg hafi ekki verið á - hvernig gat hún verið á fundi það kvöld og síðan í Reykjavík á þjóðhátíðardaginn? Hún hefur ekki komist á fundinn. Hvað hefði Andrés sagt ef hún hefði ekki verið heima á 17. júní? Hann hefði sennilega sakað hana um landráð eða eitthvað ennþá verra.

Að lokum: Mikið er gott að Bush (og Andrés) eiga ekki lengur neina vini í íslenska utanríkisráðuneytinu.

Sverrir (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 01:12

19 identicon

Flott grein Andrés.

Sverrir: Halldór Ásgrímsson þorði að fara til Afganistan, og án slæðu! Afgangurinn af textanum þínum er líka allur ekki byggður á raunveruleikanum.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 18:29

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir góða grein Andrés

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.6.2008 kl. 06:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband