Leita í fréttum mbl.is

Klofningur eða ekki?

Ég les um það í Fréttablaðinu að klofningur blasi við í Framsóknarflokknum vegna þess að Kristinn H. Gunnarsson hafi ekki fengið þá upphefð, sem hann hefði sjálfur kosið, í póstkosningu framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi. Blaðið vitnar í lærða stjórnmálafræðinga til vitnis um þetta, þá Birgi Guðmundsson, lektor við Háskólann á Akureyri, og Baldur Þórhallsson, prófessor við Háskóla Íslands. Á hinn bóginn er ekkert minnst á að úrsögn Valdimars Leós Friðrikssonar úr Samfylkingunni sé klofningur, sem þó hún sannanlega er og sá klofningur er þegar orðinn. Hvað þá að sú frétt rati á forsíðu.

Kannski spilar það inn í að Birgir, sem tekur dýpra í árinni en Baldur, hefur verið orðaður við framboð á vegum Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Baldur segir Kristin hafa verið fulltrúa hins almenna flokksmanns, sem hafi ekki verið hrifinn af stefnu flokksforystunnar og það komi því á óvart að hann njóti ekki meira fylgis. Já, var það? Af einhverjum ástæðum kaus þó „hinn almenni flokksmaður“ að sitja með hendur í skauti meðan hin 883 manna flokksforysta framsóknarmanna í kjördæminu kaus Magnús Stefánsson.

En aftur að Valdimar Leó, sem ég held að hljóti að vera tapsárasti stjórnmálamaður landsins um langa hríð. Í Fréttablaðinu talar hann um að tap sitt í prófkjörinu (hann sóttist eftir 3. sæti en fékk hið 14.) hafi nánast verið aftaka og kennir svo öllum öðrum um en sjálfum sér.

En hvað þóttist hann eiginlega eiga inni? Í prófkjöri Samfylkingarinnar árið 2002 lenti hann í 6. sæti með 718 atkvæði, var aðeins með ríflega þriðjung atkvæða og fékk því ekki bindandi kosningu, en fékk samt að vera með. Síðan gerist það í fyrrahaust að Guðmundur Árni Stefánsson gerist sendiherra. Varamaður hans, Ásgeir Friðgeirsson, afréð hins vegar að afsala sér þingmennsku til þess að halda áfram margvíslegum störfum fyrir Björgólfsfeðga. Og þá gerðist undrið, að Valdimar Leó fór á þing. Hann virðist hafa talið að með því hafi honum hlotnast lén fyrir guðlega náð og því hefur hann svo megna skömm á þeim vélum, sem valda því að hann verður senn af hnossinu, að hann fer í fýlu alla leið úr flokknum:

Ég ákvað að segja mig úr Samfylkingunni og starfa utan flokka það sem ég á eftir inni á þingi. Það er annars vegar vegna þess að ég er ósáttur við fyrirbrigðið prófkjör, ekki endilega mitt eigið, heldur þessa aðferð til að velja fólk á lista. Mér finnst hún ólýðræðisleg. Hins vegar vil ég fá meira frjálsræði inni á þingi til að vinna að mínum málum.

Það var og. Ég er að vísu engu nær. Ekki frekar en vinir mínir í Samfylkingunni í Suðvesturkjördæmi. Þeir vissu nánast ekkert um þennan þingskörung á þeirra vegum og það sem þeir vissu var ekkert sérlega uppörvandi. Þannig kvað fyrst að honum í þingsölum þegar hann skráði nafn sitt á spjöld hins endurreista Alþingis með því að gera hlé á ræðu sinni um frumvarp til vatnalaga til að kasta af sér vatni. Fram til þessara vatnaskila hafði sá skilningur ríkt að þingmenn héldu sig í ræðustólnum á meðan þeir flyttu mál sitt en sinntu öðrum þörfum að loknum ræðuflutningi.

Eins hnutu margir um það þegar hann sagði í umræðum á Alþingi um heimilisofbeldi og öldungis óvíttur:

Svo virðist því miður sem stjórnarliðum, herra forseti, sé algjörlega sama um ofbeldi á heimilum, ofbeldi sem konur eru fyrst og fremst beittar.“

Guðlaugur Þór Þórðarson varð til svars, þó gáttaður væri, steig í ræðustól og baðst undan aðdróttunum af þessu tagi og sagði að þó menn greindi um margt í sölum Alþingis hefði það fram að þessu ekki hvarflað að neinum að bera upp á menn illar hvatir, hvað þá skeytingarleysi um ofbeldi gagnvart konum og kvaðst vonast til þess að Valdimari hefði einfaldlega orðið fótaskortur á tungu. En þá brá svo við að Valdimar kom aftur upp og sagði orð sín standa!  Þess háttar þrætubók varð honum örugglega ekki til framdráttar, en sjálfum fannst  honum þetta greinilega alveg frábært, því í aðsendri grein í Morgunblaðinu skömmu áður hélt hann því fram að barnaníðingar hafi haft skjól af dómsmálaráðherra! 

Þó Samfylkingunni veiti örugglega ekki af öllu sínu liði í aðdraganda kosninga verð ég að játa að ég hef ákveðinn skilning á því hvers vegna forystumenn flokksins reka ekki upp ramakvein við brottför hans. En maður getur spurt sig í hvers umboði Valdimar Leó sitji áfram á þingi, einn í sínu horni. Hefði ekki verið hreinlegra hjá honum að hætta þessu bara? Það hefði enda hýrnað yfir þingflokki Samfylkingarinnar að fá eðalkratann Jón Kristin Óskarsson til liðs við sig, enda lítur út fyrir að málefni aldraðra verði meðal heitu málanna fyrir kosningar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

já, víst er hann dáldið tapsár samfylkingarþingmaðurinn sem datt svona óvart inn á þing. Ég hef ekki tekið eftir að hann hafi afrekað mikið á þingferlinum. Annars er þetta líka svona hjá okkur í Framsókn í Reykjavík norður. Þar eru þau Guðjón Ólafur og Sæunn á þingi  og voru þau í þriðja og fjórða sæti í síðustu kosningum.  Í fyrsta og öðru sæti voru Halldór og Árni og þeir hafa báðir sagt af sér þingmennsku. Árni komst þá inn með fárra atkvæða mun en mjótt var á mununum milli hans og Margrétar Sverrisdóttur.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.11.2006 kl. 11:09

2 identicon

Ég tek heilshugar undir orð Andrésar þessi grein er skrifuð með rökum og staðreindum enda veit ég ekki hvað vakir yfir Valdimari að yfirgefa Samfylkingunna það hefur ekkert komið frá honum. þann tíma sem hann hefur starfað á Alþingi. Áfram Andrés.

Kveðja Jóhann Páll Símonarson sjómaður.

Jóhann Páll Símonarson (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband