Leita í fréttum mbl.is

Hriktir í Bifröst

Brestur er kominn í regnbogasamfélagið á Bifröst, litlu minni en ef Múspellssynir riðu þar. En svo eru auðvitað spaugilegar hliðar málsins. Félagslífið á Bifröst er jafnan skemmtilegt og um daginn var haldin þar spurningakeppni, en spyrillinn var víst enginn annar en margumræddur Runólfur Ágústsson, nýfráfarinn rektor, en hann samdi jafnframt spurningarnar sjálfur. Spurning sex mun hafa hljóðað eitthvað á þessa leið: „ABBA er hljómsveit sem allir eiga að þekkja. Hin alþekkta beitta sænska samfélagsrýni hjómsveitarinnar kom þeim á sínum tíma í fremstu röð. Eitt þeirra bestu laga þeirra hefst á orðunum „Everybody screamed“. Hvert er framhald þeirra orða sem einnig er heiti lagsins?“ Eins og allir vel lesnir menn vita er svarið: „…when I kissed the teacher“. Sannast enn, að raunveruleikinn er lygilegri en nokkur skáldskapur. Ef sagan er sönn, en hún er eiginlega of góð til þess að það skipti öllu máli.

Annars getur þetta sérkennilega Bifrastarmál haft víðtæk áhrif, því nú eru tveir háskólar landsins rektorslausir, Bifröst og Háskólinn í Reykjavík, sem Guðfinna S. Bjarnadóttir er á förum frá. Í báðum tilvikum má finna pólitíska vinkla á. Bryndís Hlöðversdóttir, sem nú starfar sem staðgengill rektors, elur vonir um að vera ráðin í rektorsstól, en mikill kurr er vegna þess í háskólasamfélaginu. Ráðning hennar sem forseta lagadeildar þótti sérkennileg á sínum tíma, enda var hún ráðin án auglýsingar og sjálfsagt engin dæmi um það í alvöruháskólum, að í slíkt virðingarembætti sé fenginn lögfræðingur án framhaldsmenntunar, fræðastarfs, starfa í praxís eða gráðu utan hins almenna prófs.

En auðvitað var ráðning Bryndísar ekki algerlega út í loftið þó eftir sætu akademískar efasemdir. Bryndís sat á þingi fyrir Samfylkinguna þegar hún var ráðin og varamaður hennar hét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem er formaður Samfylkingarinnar og sárvantaði einmitt þingsæti. Runólfur, þáverandi rektor, er vitaskuld kunnur stuðningsmaður hennar í Samfylkingunni, en forseti lagadeildarinnar — sem vék úr sæti fyrir Bryndísi — var Ingibjörg Þorsteinsdóttir, vinkona nöfnu sinnar og dyggur liðsmaður hins fræga framtíðarhóps hennar, sem nú heyrir blessunarlega fortíðinni til. En nú reynir á það hvert Bifrastarlénið fer og kann þá enn að höggvast úr baklandi flokksformannsins, sem veiktist mjög í umliðnum prófkjörum Samfylkingarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband