Leita í fréttum mbl.is

Borgarastyrjöld hvað?

Ástandið í Írak er Morgunblaðinu hugleikið þessa dagana, enda er það að snúast í afstöðu sinni til hernaðaraðgerða þar og telur Bandaríkjamenn og Breta ófæra um að ljúka ætlunarverki sínu þar. Forystugrein blaðsins í dag fjallar um anga málsins undir fyrirsögninni „Borgarastyrjöld í Írak“ og hefst á þessa leið:

Nú er deilt um það í Bandaríkjunum og Írak, hvort borgarastyrjöld hafi brotizt út í Írak. Auðvitað þarf ekki að deila um það. Borgarastyrjöld hefur staðið yfir í landinu í töluverðan tíma. 

Nei, það þarf ekkert að deila um það — hvorki í Bandaríkjunum né Írak — fyrst að Morgunblaðið hefur kveðið upp úr um það! Eða hvað? Hefur blaðið rétt fyrir sér um það? Ég held ekki.

En hvað er borgarastyrjöld? Fram að þessu hefur það ekki vafist sérstaklega fyrir mönnum, það þarf að vera stríð með borgurum landsins og markmið stríðsaðila þarf að vera að ná völdum í ríkinu. Meginskilyrðin eru sumsé þrjú:

  1. Átökin þurfa að eiga sér stað innan landamæra ríkisins, þátttakendurnir þurfa að mestu að vera íbúar landsins og borgararnir þurfa að eiga ríkan þátt í sjálfum átökunum.
  2. Það þarf að vera um eiginlega styrjöld að ræða, þar sem ljóst er hverjir eiga í hlut; styrjaldaraðilar þurfa að vera skipulagðir að einhverju marki, eiga sér leiðtoga, sem segja fyrir hverju þeir eru að berjast og hvers vegna og þjóðin — borgararnir — þarf að átta sig á því.
  3. Markmiðið þarf að vera völdin í ríkinu, styrjaldaraðilar þurfa annað hvort að vilja ná þeim eða halda.

Þetta síðastnefnda er einkar mikilvægt, því ættbálkaerjur og ámóta telst ekki vera borgarastyrjöld, menn verða að vera að berjast um völdin í landinu. Efist menn um það er hollt að rifja upp hvernig menn skilgreina borgarastyrjaldir í mannkynssögunni, því á þeim vettvangi eru menn afar vandfýsnir. Fæstir telja þannig herför Haralds lúfu til þess að leggja Noreg undir sig á 9. öld hafi verið eiginleg borgarastyrjöld og hið sama má segja um óöldina í Sómalíu eða Líberíu, sem standa nær okkur í tíma. Í raun má segja að aðeins séu fimm óumdeildar borgarstyrjaldir í mannkynssögunni:

  • Enska borgarstyrjöldin á 17. öld
  • Bandaríska borgarastyrjöldin á 19. öld
  • Rússneska borgarastyrjöldin upp úr byltingu
  • Spænska borgarastríðið á 4. áratugnum
  • Stríðið í Líbanon frá 1975-1990, sem kann raunar að vera að blossa upp enn á ný um þessar mundir.
Óöldin í Írak á sér vissulega stað innan landamæra Íraks og þar falla fyrst og fremst íraskir borgarar fyrir samborgurum sínum. En það er vandséð að markmið hinna stríðandi afla sé að ná völdum í gervöllu Írak. Þar stríða fyrst og fremst vopnaðir flokkar súnníta (annars vegar wahabítar, fullir trúarofstækis, og hins vegar leifar Baath-flokks Saddams Husseins, sem eru öllu veraldlegri) og skæruliðar shíta (sem aftur má aðallega skipta í þjóðhyggjumennina í al-Sadr og leppa Írana í Badr-hreyfingunni). Margir þessara hópa eiga sér fulltrúa á íraska þinginu og jafnvel í ríkisstjórn. Síðan skyldu menn ekki gleyma því að glæpaflokkar hafa einnig gengið á lagið í ringuleiðinni og eindalda ekki málið. Og loks er það íraski herinn, sem er margfalt fjölmennari en skæruliðarnir allir samanlagt, og berst fyrir sameinuðu, veraldlegu ríki. Hann er í raun eini aðilinn að þessum erjum, sem er að berjast fyrir völdum í ríkinu.

En þrátt fyrir að samtök vígamanna skreyti sig með hernaðarlegum nöfnum er ekki um neinn eiginlegan hernað að ræða, sem útskýrir m.a. hvers vegna íraska hernum gengur svo illa að stilla til friðar. Það er ekki heldur neitt hernaðarskipulag, samhæfing eða foringjar. „Hernaðurinn“ felst í hryðjuverkaárásum á óbreytta borgara, en markmiðin eru öllum óljós ef undan eru skildar eilífar hefndarárásir millum súnníta og shíta.

Ég held þess vegna að Morgunblaðið hafi rangt fyrir sér um þetta grundvallaratriði, sem það kýs að gera að leiðaraefni. Hér ræðir vissulega um innanlandsófrið, en hann er svæðisbundinn, mjög flókinn, afar tengdur óleysanlegum trúarágreiningi og miðar ekki að því að ná óskoruðum völdum í Írak.
mbl.is Maliki hefur glatað stuðningi bandamanns úr röðum sjíta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FreedomFries

Fyrst þú hefur áhuga á orðaleikjum og merkingu orða gætirðu haft gaman af þessu: http://movies.crooksandliars.com/TDS-Oliver-CivilWar.wmv

Bestu kveðjur!

FreedomFries, 29.11.2006 kl. 20:28

2 identicon

  Eina leiðin úr þessu er að sleppa Saddam lausum, gera hann sýknan allra saka og fá honum valdataumana aftur í hendur.  Kallinn væri fljótur að tökum á ástandinu, það er það sem hann gerir best.  Ólögleg innrás hinna viljugu þjóða hefur kostað margfalt fleiri mannslíf en kallinn hafði á samviskunni, og ekki munu Bush og Rumsfeld fá makleg málagjöl, er það?

bulgari (IP-tala skráð) 29.11.2006 kl. 22:15

3 identicon

Vá maður. tæmandi upptalning á öllum borgarastíðum og þau bara 5frá upphafi. Hvað með öll stríðin í Kína, það síðasta á milli hins elskaða og dáða formanns Mao gegn Chiang Kai-shek, hvað í ósköpunum var það?

Il Duce (IP-tala skráð) 30.11.2006 kl. 09:03

4 Smámynd: Erlendur Pálsson

Þannig að það er þa bara allt í lagi?

Ég er bara ekki að skilja að þessa sögustund. Þarna eru hundruðir manna felldir á viku og rökþrota menn sem studdu þessa vitleysu eru að velta sér uppúr hvað þetta á að heita?

Erlendur Pálsson, 30.11.2006 kl. 09:20

5 Smámynd: Andrés Magnússon

Eins og ég sagði þá eru þessar fimm borgarastyrjaldir að ofan óumdeildar sem slíkar. Af því að menn hafa verið nokkuð kresnir á það hvað teljist borgarastyrjöld og hvað ekki. Síðan má auðvitað finna fjöldan allan af stríðum, sem eru umdeilanlegri. Ófriðurinn í Kína var t.d. fyrst og fremst milli stríðsherra án þess að þjóðin (eða þjóðirnar) hefði mikið um það að segja og stýrðist svo æ meira af áhuga erlendra ríkja á landinu. Markmið þjóðernissinna var alla tíð að ná og halda völdum í Kína öllu, en kommúnistarnir voru engan veginn með það markmið fyrr en á seinni stigum, allra síst úrþvættið Maó formaður.

Andrés Magnússon, 30.11.2006 kl. 09:32

6 Smámynd: Andrés Magnússon

Annars sé ég að sumum finnst þetta orðhengilsháttur hjá mér að vera að velta þessu fyrir mér. Má vera, en tilefnið var nú aðeins þessi fullyrðing leiðarahöfundar Morgunblaðsins, sem mér finnst afar hæpin. Fyrir nú utan hitt að allar umræður um þessi mál eru svo eldfimar, að ég hefði haldið að það væri til bóta ef menn væru a.m.k. á sömu síðu um orðfærið og grundvallarhugtök.

Andrés Magnússon, 30.11.2006 kl. 10:34

7 identicon

3 spurningar: 

1. Hvað með allar þessar ?

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_civil_wars 

2. Hvaðan hefur þú þín meginskilyrði? - Wikipedia segir: "the warring groups must be from the same country and fighting for control of the political center, control over a separatist state or to force a major change in policy. The second criterion is that at least 1,000 people must have been killed in total, with at least 100 from each side." - http://en.wikipedia.org/wiki/Civil_war

3. Hvaða máli skiptir það eiginlega hvað þetta er kallað?

Einar Jón (IP-tala skráð) 30.11.2006 kl. 14:50

8 Smámynd: FreedomFries

Varðandi kommúnistana, þá finnst mér að fyrst við ætlum að fara að skilgreina hluti, þá þurfi það sama að ganga yfir allar kommúnískar byltingar og borgarastríð sem þeim fylgdu. Annað hvort tökum við þau gild eða ekki. Hvað með borgarastríðið í Finnlandi eftir rússnesku byltinguna? Rauðliðar og hvítliðar skiptu sér í skýrar fylkingar, og börðust um völdin í öllu landinu, og öll þjóðin tók afstöðu. Það má hins vegar færa fyrir því rök að rauðliðarnir hafi raunverulega haft önnur markmið en völd í Finnlandi, eða Rússlandi, eða Kína - því byltingin er jú alþjóðleg, og lokamarkmiðið ekki að ná völdum í einu landi, heldur að kollvarpa þjóðskipulagi allra kapítalískra ríkja. "Íslamófasistarnir" og allir þeir veruleikafirrtu vitfirringar sem eru að heyja Jihad í Írak hafa auðvitað ekki að markmiði að ná völdum í Írak, heldur er markmiðið að kollvarpa þjóðskipulaginu öllu - þeirra "bylting" er líka einhvernveginn alþjóðleg...?

Bestu kveðjur!

FreedomFries, 5.12.2006 kl. 19:14

9 Smámynd: FreedomFries

Varðandi kommúnistana, þá finnst mér að fyrst við ætlum að fara að skilgreina hluti, þá þurfi það sama að ganga yfir allar kommúnískar byltingar og borgarastríð sem þeim fylgdu. Annað hvort tökum við þau gild eða ekki. Hvað með borgarastríðið í Finnlandi eftir rússnesku byltinguna? Rauðliðar og hvítliðar skiptu sér í skýrar fylkingar, og börðust um völdin í öllu landinu, og öll þjóðin tók afstöðu. Það má hins vegar færa fyrir því rök að rauðliðarnir hafi raunverulega haft önnur markmið en völd í Finnlandi, eða Rússlandi, eða Kína - því byltingin er jú alþjóðleg, og lokamarkmiðið ekki að ná völdum í einu landi, heldur að kollvarpa þjóðskipulagi allra kapítalískra ríkja. "Íslamófasistarnir" og allir þeir veruleikafirrtu vitfirringar sem eru að heyja Jihad í Írak hafa auðvitað ekki að markmiði að ná völdum í Írak, heldur er markmiðið að kollvarpa þjóðskipulaginu öllu - þeirra "bylting" er líka einhvernveginn alþjóðleg...?

Bestu kveðjur!

FreedomFries, 5.12.2006 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband