27.6.2009 | 15:14
Það er stjórnarkreppa í landinu
Það er mikið skrafað um pólitíkina á Íslandi, enda um nóg að fjalla. Samt er það svo að ég hef engan séð fjalla stærsta málið, þá augljósu staðreynd að það er stjórnarkreppa í landinu.
Þetta Icesave-mál verður aðeins einkennilegra eftir því sem tíminn líður, en hvað sem mönnum kann að finnast um efni máls verður ekki hjá því litið að sífellt eru að koma upp fleiri fletir á því, sem stjórnvöld hafa ekki séð ástæðu til þess að færa í tal við þjóðina eða þingið. Ekki svona af fyrra bragði. Það eitt hlýtur að vekja menn til umhugsunar um málstaðinn. Ekki síst þegar sífellt eru að koma í ljós ný og ný atriði varðandi samninginn, sem ríkisstjórnin hefur í besta falli haft rangt fyrir sér um eða misskilið miðað við þá kynningu, sem hún hefur þó leyft.
Þeirri spurningu er einnig ósvarað, af hverju það liggi svona á að samþykkja þennan samning um svo veigamikið mál, sem allir geta verið sammála um að sé hjúpað verulegri óvissu og áhættu. Það liggur á mörgu í íslensku samfélagi, en ekki þessu. Þvert á móti er ástæða til þess að láta af óðagotinu, kynna málið og kanna til þrautar, ræða og gefa þjóðinni kost á því að móta sér upplýsta afstöðu til þess.
Það gengur ekki að Steingrímur J. Sigfússon kippi einum og einum inn á kontór til sín, fullvissi þá um að þetta sé eina færa leiðin, veifi tölvupóstum frá útlendum dándimönnum og segi leyndardómsfullur að ef fólk bara vissi það sem hann vissi, þá væri það sama sinnis. Slík röksemdafærsla innan úr myrkrum stjórnkerfisins (hvar sem er í heiminum) er nánast alltaf fölsk. Eftir allt það, sem á undan er gengið á Íslandi, væri slík leyndarhyggja enda óþolandi. Umfram allt getur Steingrímur ekki leyft sér slík mælskubrögð, til þess hefur hann ekki lengur trúverðugleika. Eftir að hann varð uppvís að því að segja þjóðinni ósatt um Icesave-málið og afvegaleiða þingið eru orð hans ein og sér einskis virði.
Skammir Steingríms
Í því ljósi var afar merkilegt að hlýða á orð Steingríms í hádegisfréttum RÚV í gær, þar sem hann lagði pólitíska framtíð sína að veði. (Eins og það sé hið mesta, sem lagt er að veði þessa dagana!) Hann hamraði á yfirgengilegu ábyrgðarleysi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna ef þeir styddu Icesave-samninginn ekki í þinginu. Hann tók þannig undir furðulegar hugmyndir Jóhönnu Sigurðardóttur um þann flöt málsins, sem hún reifaði í liðinni viku, en munurinn er sá að honum hefur gefist tími til þess að hugsa málið og Steingrímur er enginn einfeldningur.
Augljóst er að með þessu var Steingrímur ekki að ráðast að stjórnarandstöðunni nema rétt fyrir siðasakir. Þessar skammir voru ætlaðar þeim þingmönnum vinstrigrænna, sem ekki vilja styðja Icesave-samninginn.
Fjármálaráðherrann ítrekaði að sér hefði verið falinn þessi starfi af meirihluta Alþingis og það hefði hann gert af bestu getu. Með þessu var hann að ýja að ábyrgð eigin þingflokks og að nú skyldu menn veskú standa við hana. Þetta var heldur aumt klór af því að þó Steingrímur sitji í friði þingflokks síns þá var það hann sjálfur, sem sóttist eftir og fékk þennan tiltekna ráðherrastól í stjórnarmyndunarviðræðum, lagði þá tillögu fyrir þingflokkinn og fékk samþykkta. En það er deginum ljósara að hann vanrækti að leita samningsumboðs eða samningsmarkmiða vegna Icesave hjá þessum sama þingflokki. Sök bítur sekan.
Þetta offors Steingríms segir alla sögu um vanda hans. Það var nefnilega hann sjálfur, sem í vetur lagði á það alla áherslu að Alþingi hefði með ákvörðun og forræði málsins að gera á öllum stigum. En þá var hann náttúrlega ekki orðinn ráðherra. Hann var hins vegar orðinn ráðherra þegar hann sagði að þingmenn vinstrigrænna væru vitaskuld frjálsir skoðana sinna í þessum málum sem öðrum. Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni, það eru einfaldlega of margir þingmenn í hópi vinstrigrænna, sem ekki vilja styðja samninginn; vilja ekki hlýða.
Það er ástæðan fyrir þessum skömmum öllum, það er ástæðan fyrir hinni sérkennilegu biðlun til stjórnarandstöðunnar og það er ástæðan fyrir því að samingurinn var ekki lagður fyrir þingið í gær eins og fyrirhugað var.
Af hverju er Steingrímur svo örvæntingarfullur?
En af hverju er Steingrímur svona heitur í málinu, sem hann hefur augljóslega megna óbeit á? Af hverju telur hann enga betri lausn mögulega? Af hverju spáir hann nánast ragnarökum ef Alþingi skyldi leyfa sér að hafna samningstillögunni?
Engum blandast hugur um að því yrði ekki tekið fagnandi af stjórnvöldum í Lundúnum og Haag ef sú yrði raunin, en það er ekki eins og þau myndu slíta stjórnmálasambandi, setja hafnbann á landið eða leggja hald á allt íslenskt góss. Ég dvelst á Englandi um þessar mundir og af samtölum við stjórnmálamenn, blaðamenn og fjármálamenn leyfi ég mér að fullyrða að ekkert slíkt er í kortunum. Breska ríkisstjórnin hefur enga hagsmuni af því að varpa kastljósi á málið á ný og fráleitt er að gripið yrði til einhverra refsiaðgerða nema fyrir lægi skýr vanræksla Íslands á viðurkenndum og lögmætum skuldbindningum þess. Svo er ekki og svo verður ekki nema Alþingi samþykki Icesave-samningstillöguna, því með henni myndi Ísland eyða óvissu með einhliða ábyrgðarviðurkenningu. Án samþykkis Alþingis hefur samningstillagan ekkert gildi, eins og skýrt er kveðið á um í stjórnarskránni, en viðlíka ákvæði um ráðstöfunarrétt almannafjár eru grundvöllur þingræðis bæði í Hollandi og Bretlandi.
Svo enn er spurt: Af hverju leggur Steingrímur þetta ofurkapp á málið? Svarið við því er einfalt. Hann óttast ekki endalok Íslands eins og ætti að vera orðið hverjum manni ljóst heldur endalok ríkisstjórnarinnar.
Stjórnin fellur með Icesave
Nú er það ekki bundið í stjórnarskrá að ríkisstjórn beri að leggja upp laupana þó það komi ekki öllum sínum málum í gegnum þingið, skárra væri það nú. Jafnvel ekki þó um sé að ræða mál, sem stjórnin leggur mest kapp á. Vilji meirihluti þingsins styðja stjórnina áfram til annarra verka situr hún bara áfram.
Vandinn er sá að ríkisstjórninni yrði ekki sætt ef Alþingi hafnaði Icesave-samningstillögu hennar. Ekki af völdum þingsins eða þjóðarinnar, heldur utanaðkomandi áhrifa. Og ekki vegna þess að engin erlend ríki vildu neitt við Íslendinga ræða, heldur vegna þess að engin erlend ríki hefðu neitt frekar við þessa tilteknu ríkisstjórn að tala.
Þá kæmi nefnilega sannleikurinn í ljós, að samninganefndin hafði aðeins samningsumboð frá ríkisstjórninni en ekki þingflokkunum að baki henni. Stjórnin gleymdi því einu sinni sem oftar að hér á að heita þingræði og það kemur í bakið á henni núna.
Stjórnarkreppa Steingríms
Þess vegna er nú þegar stjórnarkreppa í landinu og það skýrir fullkomlega hvers vegna ríkisstjórnin vildi forðast það í lengstu lög að upplýsa þingið um innihald og eðli samningstillögu sinnar. Hún vildi bara fá stimpilinn og engar óþægilegar spurningar.
Af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar er engra slíkra óþægilegra spurninga að vænta, enda stendur þeim hjartanlega á sama um allt annað en þá trú sína að samningurinn þoki landinu nær Evrópusambandinu (þó rök hnígi að því að hann myndi gera aðild enn fjarlægari en ella). Hið sama er ekki upp á teningnum meðal vinstrigrænna. Þar hafa margir þingmenn ríkar efasemdir um samninginn, frá hinu smæsta til hins stærsta, og þess vegna er Steingrímur að reyna að þröngva þingflokknum til þess með skömmum, hótunum og handafli.
Þar er hann sjálfsagt að misreikna sig verulega. Helstu efasemdamennirnir í þingflokknum, fólk á borð við Ögmund Jónasson, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Atla Gíslason, eiga það nefnilega sammerkt að vera ákaft þingræðisfólk. Afar ólíklegt er að það muni láta framkvæmdavaldið beygja sig í þessu, jafnvel þó Ögmundur sé sjálfur hluti þess. Þó hér væri ekki um þjóðarheill að ræða verður að teljast ólíklegt að þetta fólk (og þau eiga fleiri félaga í þingflokknum og ráðherraliðinu) féllu frá grundvallarafstöðu sinni, bara af því að formaðurinn vill það.
Hvað er þá til ráða? Ríkisstjórnin er skuldbundin til þess að leggja samningstillöguna fram í þinginu, bæði við aðra samningsaðila og stjórnarskrána. Drátturinn á að leggja hana fram bendir til þess að ætlaður stuðningur við hana í þingflokki vinstrigrænna hafi minnkað en ekki aukist og því sé loks verið að kaupa tíma í málinu. Í því samhengi skyldu menn ekki vanmeta afdráttarlausa afstöðu mikils meirihluta þjóðarinnar, samblástur á Facebook og þess háttar. Engir vita betur en forystumenn þessarra ríkisstjórnar hvernig slíkur þrýstingur getur dregið kjark úr stjórnarþingmönnum og fellt ríkisstjórnir sem hendi væri veifað. Sem stendur virðist það óumflýjanlegt.
Opinber stjórnarkreppa
Þá tæki við opinber stjórnarkreppa, sem vandséð er að megi leysa á þessu þingi. Margir hafa nefnt að þá yrði þjóðstjórn að taka við, en röksemdirnar fyrir því hafa heldur veikst og hún yrði enn ósennilegri en stjórnirnar, sem á undan gengu, til þess að taka afdráttarlausar og skjótar ákvarðanir, hvað þá óvinsælar. Um leið væri lýðræðinu hætta búin, því hver ætti að veita stjórninni aðhald ef engin er stjórnarandstaðan?
Hugsanlega gæti núverandi ríkisstjórn reynt að auka meirihluta sinn og mynda nýja stjórn með Borgarahreyfingunni, en ósennilegt verður að teljast að erlend stjórnvöld myndu fallast á að þar væri komin ný stjórn með grundvallaðra eða marktækara samningsumboð en hin fyrri. Hvað þá að slík stjórn væri líklegri til sveigjanleika varðandi samninga um Icesave. Hið sama ætti við ef reynt yrði að fá Framsókn til liðs við stjórnarflokkana.
Tæknilega gætu Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndað tveggja flokka stjórn, en þess er enginn kostur sakir djúpstæðs og gagnkvæms vantrausts sem að líkindum mun taka áraraðir að græða. Þá er sá kostur eftir að mynda stjórn sjálfstæðismanna, vinstrigrænna og framsóknarmanna. Að mörgu leyti ættu þeir flokkar að geta náð vel saman um flest helstu viðfangsefni landstjórnarinnar, ótruflaðir af Evrópudraumum Samfylkingarinnar. Vandinn væri fremur persónulegs eðlis. Steingrímur hefur hvergi hlíft forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna öðru nær og þeir verið óhræddir við að standa uppi í hárinu á honum. Sérstaklega hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verið harður í horn að taka (Bjarni Benediktsson hefur hófstilltari stíl) og öllum augljóst að þar á milli ríkir gagnkvæmt óþol.
Þannig að við blasir óleysanleg stjórnarkreppa, sem aðeins má leysa með því að ganga til kosninga að nýju og er það þó ekki öruggt. Þingstyrkur flokkanna myndi örugglega breytast nokkuð, en alls væri óvíst að hlutföll á þingi breyttust nógu mikið til þess að hafa afgerandi áhrif á möguleg stjórnarmynstur. Á það að bætast við Íslands ógæfu?
Lausn Steingríms
Lykillinn að lausninni kynni að felast í fyrrgreindum orðum Steingríms um að pólitísk framtíð hans væri lögð að veði með Icesave-samningnum. Felli þingið samninginn er stjórnin í raun fallin, en við bætist fyrirheit Steingríms um að fallast á eigið sverð. Ef hann er úr sögunni væru líkurnar á stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks, Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Framsóknarflokksins allt aðrar og betri, en jafnframt gæti sú stjórn horft blákalt framan í erlenda viðsemjendur, sem enga ástæðu hefðu til þess að neita samningaumleitunum væri sú raunin. Það gæti gerst án þess að boða þyrfti til kosninga.
Væru vinstrigrænir reiðubúnir til þess að ganga til samstarfs við sjálfstæðismenn? Það yrði mörgum þeirra afar erfið spor og hin nýja flokksforysta myndi baka sér mikla óánægju í grasrótinni. En hún gat myndað stjórn með Samfylkingunni, sem einnig var á vaktinni í hruninu, og vinstrigrænir hafa löngum haft megnustu skömm á. Hafi hún þá fjöður í hatti sínum að hafa afstýrt Icesave-samningnum jafnvel þó að Steingrímur og Svavar hafi smíðað hann yrði samstarf við íhaldið sjálfsagt skjótt fyrirgefið, svo framarlega sem frekari hörmungar dyndu ekki yfir.
Það er þó ekki útilokað að stjórnarkreppan linist fyrr en varir. Kannski þingmenn vinstrigrænna lyppist niður undan barsmíðunum og setji íslenska þjóð frekar í hættu en blessaða ríkisstjórnina. Það væri þó skammgóður vermir og það vita þeir mætavel. Icesave-samningur gæti hæglega kveikt elda á Austurvelli á nýjan leik. Þeir gera sér einnig grein fyrir því hversu illa getur farið við framkvæmd samningsins með ólýsanlegum hörmungum fyrir þjóðina. Síðast en ekki síst vita þeir þó að slík svik yrðu flokknum seint fyrirgefin; ekki aðeins myndi lausafylgið sópast af honum, heldur myndi verulegur hluti flokkskjarnans fyllast viðbjóði og fara.
Þingmennirnir myndu og vita það líkast til væri pólitískur ferill hvers og eins þeirra á enda, þeir hafa afar nýlegt dæmi um það frá flokksformanni sínum hversu skjótur, snarpur og sársaukafullur trúnaðarbrestur við kjósendur er. Orðstírinn, sem Steingrímur hafði byggt upp á 26 árum í þinginu, að þar færi orðhvass og tæpitungulaus, orðheldinn og áreiðanlegur maður, þurrkaðist út á nokkrum mínútum þegar hann sagði þinginu og þjóðinni ósatt um gang Icesave-viðræðnanna. Ósannindi, sem hann mátti vita að hann yrði uppvís að innan nokkurra klukkustunda eða dægra, eins og raunin varð.
Þess vegna búum við nú við stjórnarkreppu og það er á valdi Steingríms sjálfs að leysa hana. Ekki með því að leggja pólitíska framtíð sína að veði, heldur með því að binda enda á hana. Ekki með því að leggja þjóðina að veði, heldur með því binda enda á stjórnina. Með því myndi hann leysa flokk sinn úr pólitískri kreppu í stað þess að hneppa þjóðina í ánauðarfjötra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:13 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ögmundur Jónasson, forsætisráðherra
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra
Þór Saari, fjármálaráðherra
Lilja Mósesdóttir, viðskiptaráðherra
Atli Gíslason, dómsmálaráðherra
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júliusson, sjáfarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, umhverfisráðherra
Höskuldur Þórhallsson, samgönguráðherra
Illugi Gunnarsson, iðnaðarráðherra
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra
Marat (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 15:53
Góð greining að vanda Andrés.
Hjörtur J. Guðmundsson, 27.6.2009 kl. 16:38
Hversvegna liggur á? spyrð þú André, eru menn ekki einmitt búnir að fara furðu hægt?
Er ekki IMF og alþjóðasamfélagið furðu þolinmótt að bíða svara okkar um efndir á yfirlýsingum og samningum Árna Matt og Geirs H Haarde frá annarsvegar 11. okt 2008 [hér] og hinsvegar 16 nóv 2008 [hér] og fleiri?
Er ekki annar hluti láns IMF sem koma átti í lok febrúar enn í bið vegna þessara tafa okkar?
Ekki veit ég hvað rétt er að gera í Icesave-málinu en víst er að Sjálfstæðisflokkur getur ekki fríað sig ábyrgð á því hvorki um fyrri eða síðari ákvarðanir vegna þess eða um þá stöðu sem það nú er í.
Helgi Jóhann Hauksson, 27.6.2009 kl. 17:07
Held það sé fullsnemmt að ráðgera skiptingu ráðuneyta og ráðherrastóla. Hygg að ný ríkisstjórn myndi stokka frekar upp ráðuneyti, leggja sum saman, stofna efnahagsráðuneyti o.s.frv. Eins er ég ekki viss um að Borgarahreyfingin vilji taka þátt í ríkisstjórn, hún er nánast stofnuð til þess að vera í stjórnarandstöðu og gagnleg sem slík.
Það er sjálfsagt rétt hjá Helga Jóhanni að óvissa um Icesave greiðir ekki fyrir afgreiðslu AGS, en eins og marghefur komið fram í fréttum hefur þar fyrst og fremst strandað á óvissu um ríkisfjármálin. Miðað við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í þeim er erfitt að sjá hvernig þær áhyggjur verða sefaðar í bráð, sérstaklega ef markmiðið er að snúa hjólum atvinnulífsins í gang, auka verðmætasköpun og jafnvel sjá hagvöxt á ný.
Andrés Magnússon, 27.6.2009 kl. 18:07
Sæll og takk fyrir góðan pistil sem er hverju orði sannari.
Var að hugleiða þennan kafla:
"Það gengur ekki að Steingrímur J. Sigfússon kippi einum og einum inn á kontór til sín, fullvissi þá um að þetta sé eina færa leiðin, veifi tölvupóstum frá útlendum dándimönnum og segi leyndardómsfullur að ef fólk bara vissi það sem hann vissi, þá væri það sama sinnis"
Er hér ekki komin RAUÐA KRUMLAN ógurleg?
Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 18:37
Sumir halda að Steingrímur hafi látið gera þennan samning af skepnuskap við þjóðina einvörðungu.
Það vildi enginn sem á sæti á þingi í dag vilja vera í hans sporum þ.e. að taka til æluna eftir partí útrásarvíkinganna sem var í boði Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna lengst af síðustu 18 árin.
Það er deginum ljósara að Steingrímur hefur lagt allt undir í þessu sambandi og ef hans eigin flokksmenn verða til þess að fella samninginn þá er sjálf hætt.
Steingrímur sagið sjálfur í útvarpsviðtali að þeir sem eitthvað kynnu að lesa í pólitík sæju í hendir sér hverjar afleiðinganar yrðu.
Stjórnin fellur og Steingrímur segir af sér sem formaður VG og hættir á þingi. Svo mikil yrðu vonbrigði hans með félaga sína, Ögmund og Liljurnar.
(Nokkuð áreiðanlegar heimildir).Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 18:58
Mér dettur ekki til hugar að væna Steingrím um skepnuskap. Hann er mætur maður og ég dreg ekki í efa að hann telur sig vera að vinna af fyllstu heilindum í þágu lands og þjóðar. Hinu er ekki hægt að horfa framhjá, að hann afvegaleiddi þingið með lygimálum sínum um Icesave og ég skil satt best að segja ekki hvers vegna ekki hefur verið lögð fram vantrauststillaga á hann.
Það er líka rétt athugað hjá Jóni, að hann er eki öfundsverður af hlutskipti sínu, en það má líka meta við hann að hann vék sér ekki undan þeirri ábyrgð, sem fjölmargir kjósendur fólu honum.
Ég hygg að honum hafi orðið á þrenn meginmistök, sem kunna að verða þess valdandi að hann hverfi úr stjórnmálum. 1) Hann trúði og treysti Samfylkingunni um að Icesave-vandinn yrði ekki leystur á annan hátt en með því að ná samningum (þvert á eigin sannfæringu). 2) Hann lagði samningastarfið í hendur amatörum, síns pólitíska uppeldisföður Svavari Gestssyni og nótum hans, sem virðas hafa litið á það sem hlutverk sitt að ná hvaða samningi sem var eins skjótt og kostur væri. 3) Hann laug að þingi og þjóð.
Svo einfalt er það, sorglegt en satt.
Andrés Magnússon, 27.6.2009 kl. 21:09
Það eru nokkur fleiri mistökin. Einsog að loka að sér þvert á loforð. Að veita Saga Capital og VBS lán á 2% vöxtum. Að ætla að reka gamaldags foringjapólitík á byltingartímum. Að sækja sér ekki stuðning almennings.
Doddi D (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 21:32
Ég þakka Andrési kærlega fyrir mjög góða grein.
Eina leiðin til að fá vinnufrið og sterkt vinnuljós í því erfiða náttmyrkri sem skyggir svo alvarlega á framtíðarsýn Íslands og allra landsmanna, er að Samfylkingin og hin langvarandi undirliggjandi og falska ESB dagskrá hennar hverfi af vettvangi íslenskra stjórnmála. NÚNA! Enda vita allir þeir sem bara hugsa smávegis að bæði hin leynda og sýnilega ESB-dagskrá Samfylkingarinnar er að grafa þjóðinni djúpa gröf sem hún varla kæmist uppúr aftur
Sjálfstæðisflokkur, Vinstri Grænir og Framsókn geta vel leyst vanda Íslands og stuðlað að tiltrú á að ríkisstjórn Íslands verði ekki áfram í 4 ára kaffitíma. Persónulega er ég sannfærður um að þessir þrír flokkar gætu tekið málin tröllataki. En það þarf einbeitingu, vinnufrið og athafnafrelsi.
Út með ESB handjárn Samfylkingarinnar á íslenskum stjórnmálum. Burt með þá lömunarveiki. Inn með vinnufriðinn og einbeitingu. Inn með ríkisstjórn Íslands á Íslandi og út með ríkisstjórn Evrópusambandsins á Íslandi.
Það er kominn tími til að fara í gömlu vinnufötin aftur
Gunnar Rögnvaldsson, 28.6.2009 kl. 00:50
Ef stjórnin fellur hlýtur að vera eðlilegt að Borgarar, Sjallar og Frammarar myndi stjórn ásamt klofningsliðinu úr VG.
Torfkofastjórn:
Bjarni Ben forsætisráðherra.
SGD utanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson fjármálaráðherra.
Þór Saari - viðskiptaráðherra?
Auðvitað er síðan ekkert að marka að stór hluti þjóðarinnar væli yfir þessu á Facebook.
Ef þú spyrðir 100 manns sem allir skrifuðu upp á víxil hvort þeir vilji glaðir borga, hvert heldurðu að svarið væri?
Oddur Ólafsson, 28.6.2009 kl. 09:43
Góður pistill Andrés - sammála þessu hjá þér.
Óðinn Þórisson, 28.6.2009 kl. 13:17
Frábær pistill..það verður spennandi að sjá hvernig þetta spilast.
Vilhjálmur Árnason (IP-tala skráð) 29.6.2009 kl. 15:31
Sæll kæri Andrés. Ég segi nú bara eins og Eysteinn konungur við Sigurð kóng og haft er eftir honum í Sigurðar sögu Jórsalafara : „Nú greipt þú á kýlinu“.
Hafa vart aðrar greiningar á ástandinu sést betri fram að þessu. Ég verð þó að segja að 26 ára uppsafnaður orðstír hálfa jarðfræðingsins á þingi er nú þegar farinn og gufaður upp. Tröllum gefinn.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 30.6.2009 kl. 02:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.