Leita í fréttum mbl.is

Óvinir lýðræðisins

Nýlega samþykkti Alþingi lög um fjármögnun stjórnmálastarfsemi, en hún hefur um allnokkurt skeið verið mörgum mikill þyrnir í augum sakir þess að hún hefur ekki verið opinber umfram það, sem flokkarnir hafa sjálfir kosið. Nú brá svo við að á Alþingi myndaðist þverpólitísk samstaða um kosningasvindl allra flokka, sem ég tel ekkert minna en samsæri gegn sjálfu lýðræðinu.

Þetta eru stór orð og rétt að rökstyðja þau nánar. Í skjóli þess að verulegar hömlur voru settar á möguleika stjórnmálaflokka til þess að afla sér fjár og kvaðir um upplýsingu slíkrar fjársöfnunar, ákváðu flokkarnir nefnilega að skakka leikinn sér í hag og stórauka fjárstuðning við stjórnmálaflokkana. Þetta er ekkert annað en grímulaus tilraun til þess að festa í sessi núverandi flokkakerfi um leið og nýjum framboðum er gert afar erfitt fyrir. Þau þurfa nefnilega að hlíta öllum hömlunum en fá ekki fjárstuðning frá hinu opinbera.

Að vísu er fram tekið að flokkar, sem fá meira en 2,5% atkvæða á landsvísu — þó þeir nái ekki manni á þing — skuli fá fjárstuðning líkt og gömlu flokkarnir í samræmi við atkvæðamagn. En jafnvel þar er maðkur í mysunni, því tekið er fram að styrkurinn skuli ákveðinn á fjárlögum hverju sinni, og gömlu flokkunum því í lófa lagið að svelta nýju framboðin í 1-2 ár ef þeim sýnist svo.
Þetta heitir, að það sé vitlaust gefið.

Stjórnarskrárbrot
En þetta rangt á fleiri vegu. Sem skattborgari get ég út af fyrir sig fallist á að réttkjörnir þingmenn fái almennilegan aðbúnað á þingi, þingfararkaup, sérfræðiaðstoð og ámóta. En ég get ekki fallist á það að skattfé mitt sé notað til þess að greiða fyrir málflutning þeirra stjórnmálaflokka utan þings, sem fara þvert á sannfæringu mína. Eða nokkurra stjórnmálaflokka. Verður ekki annað séð en að hér sé á ferðinni brot á stjórnarskrárákvæðum um félagafrelsi og miðað við dómafordæmi vestanhafs væri það einnig brot á stjórnarskrárákvæðum um tjáningarfrelsi. Þarna er nefnilega verið að skikka mig til þess að standa straum af stjórnmálaskoðunum annarra. Um leið er lýðræðið sjálft skekkt.

En hverjar verða afleiðingarnar af þessum ólögum takist ekki að hrinda þeim fyrir dómstólum? Jú núverandi flokkakerfi og hlutföll á þingi verða fest í sessi um ókomna framtíð. En um leið munum við sjálfsagt horfa upp á nýja stétt „lobbýista“ og margeflda þrýstihópa, sem ekki eru bundir af lögunum og geta því tekið til við stjórnmálabaráttuna óheft. Telja menn að það verði lýðræðinu til framdráttar? Og síðan munu auðmenn vitaskuld eiga greiðari leið en áður á þing. Þeir þurfa ekki að leita stuðnings eins eða neins eða gera grein fyrir fjáraustri sínum.

Hverja á að strika út?
Rétt er að taka fram að þrír þingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, sjálfstæðismennirnir Birgir Ármannsson, Einar Oddur Kristjánsson og Sigurður Kári Kristjánsson. Hafi þeir þökk fyrir. En svo voru óvinir lýðræðisins og þeir voru miklu fleiri. Að neðan eru nöfn þeirra og er kjósendum bent á að geyma listann til þess að muna hverja þarf að strika út næst:

Anna Kristín Gunnarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Árni M. Mathiesen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Drífa Hjartardóttir, Geir H. Haarde, Guðjón Ólafur Jónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Hallvarðsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Hjálmar Árnason, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Jón Kristjánsson, Katrín Fjeldsted, Katrín Júlíusdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Þór Hafsteinsson, Magnús Stefánsson, Mörður Árnason, Pétur H. Blöndal, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sæunn Stefánsdóttir, Valdimar L. Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórarinn E. Sveinsson, Þórdís Sigurðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

-------------

Að stofni til er þessi færsla viðhorfsgrein, sem birtist í Blaðinu hinn 16. desember 2006.

Leiðrétting
Mér urðu á þau óskiljanlegu og leiðu mistök að skrifa í Blaðinu að Pétur H. Blöndal hefði setið hjá í atkvæðagreiðslunni, sem vitaskuld stangaðist á við veru hans á lista yfir óvini lýðræðisins á þingi. Pétur greiddi sumsé atkvæði með ólögum þessum. Á hinn bóginn láðist mér að nefna að Einar Oddur Kristjánsson, einn besti vinur skattgreiðenda á Alþingi, hefði setið hjá. Það leiðréttist hér með og hlutaðeigandi, jafnt sem lesendur beðnir velvirðingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi grein gerir ekkert annað en að lýsa þeim sem hana skrifar.  Hvernig dettur þér í hug að fólk eigi að taka mark á þér þegar þú kallar þingmenn óvini lýðræðisins?  Það er mikið framfaraskref að bókhald stjórnmálaflokka skuli nú vera opnað og menn þurfi ekki að vera að dylgja með það að hinn og þessi styðji þetta eða hitt framboðið.  Og nú geta stjórnmálaflokkar starfað óháð fyrirtækjunum.  Það er stóra málið í þessu. 

Ég er alveg sammála því að það er rangt farið að því að tryggja aðgengi nýrra framboða - en þau hafa hvort eð er ekki verið að fá mikinn stuðning fyrirtækja.

Þetta kjaftæði um félagafrelsi stjórnarskránnar er orðið svo þreytt að  það er hreint og beint sorglegt. 

Andrés - þegar fólk kemur með mesta framfaraspor í íslenskum stjórnmálum frá upphafi - tryggir að stjórnmál séu framkvæmd fyrir opnum tjöldum en að flokkarnir séu ekki armar stórfyrirtækjablokka (eins og Sjálfstæðisflokkurinn var í Kolkrabbanum) þá kallar þú það óvini lýðræðisins.

Er eitthvað í þinni lífspeki sem er ekki á haus?

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 16:39

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Sælir eru fattlausir. Setjum nú sem svo að lögin hefðu gert bókhald flokkanna opinbert (sem þau gera ekki). Hvað kemur þessi opinbera framfærsla stjórnmálaflokkanna því við?

En það segir sína sögu, að Steingrímur telur þessi ólög „mesta framfaraspor í íslenskum stjórnmálum frá upphafi“, en finnast ákvæði stjórnarskrárinnar aðeins þreytulegt kjaftæði.

Andrés Magnússon, 16.12.2006 kl. 16:57

3 identicon

9. grein um fjármál stjórnmálasamtaka....:

9. gr.
Upplýsingaskylda um reikninga stjórnmálasamtaka.

    Stjórnmálasamtök skulu árlega skila Ríkisendurskoðun reikningum sínum, sbr. 8. gr., árituðum af endurskoðendum. Ríkisendurskoðun skal í kjölfarið birta útdrátt úr ársreikningi stjórnmálasamtaka með samræmdum hætti. Þar skal greina a.m.k. heildartekjur og heildargjöld. Þá skal flokka tekjur eftir uppruna, þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum, ásamt helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi. 

Þetta heitir fyrir mér að opna bókhald stjórnmálaflokkanna - þó þú fáir kannski ekki að gramsa í þeim persónulega þá skal nægjanlegt birt í gegnum ríkisendurskoðena að bókhaldið telst opið. 

Svo ég svari nú þessari spurningu þinni þá er ljóst að þetta mun minnka tekjur stjórnmálaflokka sem þurfa að reka sig engu að síður.  Þú getur verið ósammála því að opna bókhaldið, og þú getur verið ósammála því að auka framlögin - en þetta hangir engu að síður saman.

Ákvæði stjórnarskrárinnar eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg - en útúrsnúningur þinn á henni er sorglegur.  Þetta kemur félagafrelsisákvæðum hennar bara nákvæmlega ekkert við.  Er það brot á félagafrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar að ríkið skuli styrkja óperu sem þér líkar ekki?

Útúrsnúning þinn á mínum orðum verður þú að hafa fyrir þig - en í guðs bænum farður að hætta að snúa svona út úr stjórnarskránnni!

Svona alveg ótengt þessu - Stendurðu ennþá við að olíufélögin þrjú geti velt sektum á sig út í verðlagið?

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband