4.8.2009 | 18:22
Gylfi Magnússon byrjar í pólitík
Ég sé að Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hefur ráðið til sín Benedikt Stefánsson sem aðstoðarmann ráðherra. Ég þekki þá báða af góðu, Gylfi var nágranni minn á æskuárunum og Benedikt bekkjarbróðir í Melaskóla, auk þess sem leiðir okkar hafa einnig legið tvisvar saman á starfsævinni. Þeir Gylfi og Benedikt eru báðir skynsamir menn og bæta hvor annan ágætlega upp, Gylfi hefur mest haldið sig í akademíunni, en Benedikt í athafnalífinu, var t.d. hjá deCODE á uppgangstíma þess og nú síðast í greiningardeild Landsbankans. Benni á rætur að rekja til krata (hann er sonur Stefáns Benediktssonar), en ég held að Gylfi hafi staðið nær Sjálfstæðisflokknum, a.m.k. man ég eftir honum á kosningaskrifstofu flokksins í Vestur- og Miðbæ hér til forna. Báðir eru þeir kurteisir menn, með fínlegan (að ég segi ekki lærðan) húmor og kunna að horfa víðar en til sérgreinar sinnar.
Ég set samt sem áður spurningamerki við þessa ráðningu. Jafnvel upphrópunarmerki líka.
Gylfi var skipaður ráðherra án umboðs frá kjósendum og rætt um að hann væri faglegur og ópólitískur ráðherra. Á sínum tíma var gefið til kynna að þar að baki lægi einkar göfugar hvatir um nýja stjórnarháttu og að best væri að sem flestir ráðherrar væru sóttir utan þings. Það er önnur umræða, en hins vegar grunar mann að það hafi meiru ráðið um skipan utanþingsráðherranna að stjórnarflokkarnir voru í vandræðum með ráðherraskipan úr þingflokkunum og síðan hafa almannatengslaráðgjafarnir örugglega mælt með því.
Látum það allt samt vera og föllumst einfaldlega á málatilbúnað stjórnarmeirihlutans, að Gylfi sé faglegur og ópólitískur ráðherra. En til hvers í fjáranum vantar hann þá pólitískan aðstoðarmann?
Aðstoðarmenn ráðherra standa eilítið utan við stjórnsýslunna, þeir eru ráðnir beint af ráðherra, án auglýsingar, og engum dylst að þeir eru pólitískir og persónulegir starfsmenn ráðherrans en ekki ráðuneytisins. Ráðuneytisstjórar hafa ekkert yfir þeim að segja og þeir láta sig hverfa úr ráðuneytinu um leið og ráðherrann.
Vanti Gylfa aðstoð til þess að sinna sínum faglegu ráðherrastörfum er urmull af fólki til þess innan ráðuneytisins. Hann þyrfti ekki að sækja neinn til slíkra starfa utan ráðuneytisins nema af því að aðstoðarmaðurinn er pólitískur. Sem þýðir að ráðherrann er pólitískur. Þessi ráðning er viðurkenning viðskiptaráðherra á því. Það blasir við.
Með því er Gylfi auðvitað að taka undir þá gagnrýni, sem að honum hefur verið beint undanfarnar vikur, að hann sé orðinn rammpólitískur. Það hafa menn ekki síst þótt merkja af einarðri og pólitískri vörn hans í Icesave-vandræðum ríkisstjórnarinnar, en auk Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra er Gylfi eini ráðherrann, sem hefur haldið uppi vörnum fyrir þann vonda málsstað.
En gott og vel, af hverju skyldi Gylfi ekki vera pólitískur eins og hver annar? Jú, það er vegna þess að hann er ókjörinn. Embættismannsígildi, var okkur sagt. Þrátt fyrir að kosið hafi verið til Alþingis síðan Gylfi varð ráðherra vildi hann ekki taka sæti á framboðslista, þó honum hafi verið boðið það. Hann er sumsé að seilast lengra en að var stefnt, tekur þátt í hinni pólitísku orrahríð, án þess að gefa kjósendum færi á að veita sér umboð, hvað þá að þeir geti svipt hann því. Það er sama hvað Gylfi reynist arfaslakur, kjósendur geta ekki veitt honum lýðræðislegt aðhald.
Þetta er nokkur vandi. Sams konar vandi og ég hygg að hafi gert hrunið eins ömurlegt og raun ber vitni, þar sem samhengið vantaði milli valda og ábyrgðar.Þarna þarf Gylfi að gera upp við sig hvort hann ætlar að vera faglegur og ópólitískur ráðherra eða hella sér út í pólitík. En hann getur ekki gera hvort tveggja. Nú þegar hann hefur valið að vera póltískur ráðherra skuldar hann þjóðinni svör um það í hvers umboði hann sitji. Hver veit nema honum gefist kostur að sækja sér það fyrr en varir.
Ráðinn aðstoðarmaður viðskiptaráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Bíddu var hann ekki með aðstoðarmann fram að kosningum? en sú ráðning var tímabundin fram að kosningum því hann var ekki viss hvort hann héldi áfram sem ráðherra??
Geir (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 20:23
Jú smá google
http://www.dv.is/frettir/2009/5/4/gylfi-endurnyjar-ekki-samninga-vid-adstodarmenn/
Geir (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 20:24
Jú, Helga Valfells var hjá honum í rúmna tvo mánuði. Held það blandist engum hugur um að starf hennar var ekki pólitískt í eðli sínu. Ekki einu sinni viss um að ráðherrann og aðstoðarmaðurinn hafi alveg áttað sig á eðli starfsins (!). Þorfinnur Ómars var svo ráðinn upplýsingafulltrúi af Bjögga sl. haust, en aðeins tímabundið. Sá starfi fólst aðallega í að þjónusta erlenda blaðamenn, sem þá komu enn í stríðum straumum til Reykjavíkur.
Andrés Magnússon, 4.8.2009 kl. 20:51
Mér finnst alltaf kómískt þegar talað er um vald okkar til að svipta ráðherra embætti sínu - því hingað til hefur valdið ekkert verið. Ráðherrar hafa undanfarin ár ítrekað delerað hér á landi án nokkurra afleiðinga.
Jú vissulega hafa kjósendur þetta vald á fjögurra ára fresti eins og sjallar hafa verið duglegir við að nefna í gegnum tíðina - en umbjóðandinn, kjósandinn, hefur ekki nokkurn tímann getað sagt upp samningnum við einstaka ráðherra, þó að vissulega hafi heilli stjórn verið sagt upp í byrjun árs.
Helga Vala (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 20:58
Hvaða máli skiptir það hvort og hvar Gylfi er í pólitík? Annars þætti mér það ekki á nokkurn hátt óeðlilegt að hann verði pólitískari og spili með. Hvernig má annað vera? Hann situr í ráðherrastól.
Ég fæ samt ekki skilið þessa röksemd um að kjóstendur geti ekki veitt honum aðhald. Standi hann sig illa og þá væntanlega verr en aðrir ráðherrar ætti að vera vandalítið fyrir formenn viðkomandi stjórnarflokka að skipta honum út. Í mínum huga búa faglegu ráðherrarnir við mun minna öryggi en aðrir ráðherrar.
Magnús Freyr (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 21:08
Fólk hefur nú bara víst getað sagt ráðherrum upp. Eða hvers vegna heldur þú Helga að Björgvin G. sé ekki ráðherra núna? Eða Ingibjörg Sólrún?
Máni Atlason (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 21:53
Almenningsálitið kom Gylfa í embætti með einum eða öðrum hætti. Fólk hefur fengið nóg af "lýðræðislega kjörnum fulltrúum", enda hefur komið í ljós að þeir ganga atbeina glæpamanna. Þetta er því rökfræðilega brothættur pistill, byggður á skinhelgi...kv
Eiki S. (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 22:51
Ég veit ekki, þetta er sum sé viðmiðið. að menn ráði sér aðstoðarmann. Þá eru þeir orðnir pólitíkusar. Hingað til hafa ráðherrar ráðið léttadrengi úr ungliðahreifingunum. ferska úr háskólapólitíkinni. En þegar Gylfi ræður sér Hagfræðing með mikla starfsreynslu þá er það merki um að loksins sé hann orðinn pólitíkus. Er þetta ekki ansi langsótt.
Geir Guðjónsson (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 00:54
Þetta er nú meira. Þarf að draga pabba gamla upp til að skaffa efni? Ég veit ekki betur en að Benedikt sjálfur (hann er fullorðinn maður og sjálfráða) sé nú frekar á blárri kantinum. Annars sýnist mér helst að þér finnist ráðiningin vera pólitísk af því að Gylfi "er pólitískur" en ekki sá sem ráðinn var!
Karl Roth, 5.8.2009 kl. 10:21
Hver sem að maðurinn er, hverjum sem hann er undan, og hverjar sem eru hans skoðanir, ætti ekki að skipta meiri máli ferill hans, undanfarin ár? Við ættum að halda því á lofti hverjir voru í ábyrgðarstöðum hjá bönkunum og við landsstjórnina og hver var þeirra hlutur.
Pétur Henry Petersen, 5.8.2009 kl. 13:20
Ég held að þetta séu klárlega sjónarmið sem þarft er að ræða og það er ekkert endilega afgreitt með því hvoru megin við stjórnmálaásinn menn standa.
Það er klárt að hér sitja tveir ráðherrar, án lýðræðislegs umboðs, ráðnir inn sem fagaðilar sem er gott og blessað en hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá skortir þá umboðið.
Andrés, þú mátt klárlega gera meira af því að skrifa meira um hið pólitíska ástand sem hér ríkir sem og önnur málefni enda þykir mér fáir standast þér snúning í orðræðu og riti.
Magnús V. Skúlason, 5.8.2009 kl. 16:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.