Leita í fréttum mbl.is

Nei er svarið

Senn verða atkvæði greidd á Alþingi um Icesave-uppgjafarsamningana. Mikið hef verið látið með fyrirvara þá, sem fylgja eiga samþyktinni, en þeir munu einu gilda. Á þeim mun enginn taka mark, en hið eina sem upp úr stæði væri viðurkenning þingsins á ábyrgð ríkisins. Hún er engin núna, en með samþykkt þingsins á samningunum myndi hún loks liggja fyrir og allt annað yrði samkomulagsatriði, þar sem Íslendingar væru einvörðungu þolendur og stjórnvöld í Lundúnum og Haag gerendur. Það má ekki verða.

Þess vegna er svarið nei. Það er hið eina rétta sem góðir þingmenn og góðir Íslendingar geta til þeirra mála lagt. Sérstaklega þeir, sem unna frelsi landsmanna og sjálfstæði landsins. Allt annað væru svik við land og þjóð, sem lengi munu verða uppi. Og nú er komið að einstökum þingmönnum að velja og hafna. Vilja þeir skrá nöfn sín á spjöld sögunnar sem þjóðníðingar eða ekki?

Svarið er nei; Íslandi allt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Tek undir þetta af öllu mínu hjarta. Þetta má ekki gerast!

.

Svarið er nei; Íslandi allt!

Gunnar Rögnvaldsson, 27.8.2009 kl. 19:45

2 identicon

Hjá þér og vinum þínum Andrés hefur þetta aðeins snúist um eitt. Að reyna að láta þá sem eru að púsla einhverju saman úr rústunum líta út eins og svikara. Það á semsagt að koma sök af þeim sem raunverulega settu landið á hausinn. Þetta er nákvæmlega eins og militaristarnir í Þýskalandi létu eftir fyrra stríðið. Þeir komu öllu í kalda kol, en kenndu svo krötunum og gyðingunum um. Þetta er einhver ómerkilegasti málflutningur sem hefur sést í pólitík á Íslandi. En fólk er ekki alveg svona vitlaust - vonandi - Hannes Hólmsteinn var rekinn burt af Austurvelli í dag.

Egill (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 20:04

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Hárrétt hjá þér kæri Andrés.

Alþingi má ekki samþykkja þessa svikasamninga.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 27.8.2009 kl. 21:13

4 Smámynd: Óttar Felix Hauksson

Steingrímur og Jóhanna hafa slegið skjaldborg um fjárhirslur erlendra ríkja og ota nú spjótsoddunum sínum að íslenskum almenningi. Það á að hrekja hann að helgrindum fátæktarvítisins. Þau eru þess albúin að hrinda honum fram af. Steingrímur kallar þetta "real politik" og  reynir að réttlæta ódæðið fyrir sjálfum sér. Raunpólitíkin hans snýst nefnilega aðeins um að sitja í stjórn, sama hvað það kostar. Þó samherjarnir snúi við honum bakinu, þjóðin sé leidd í ánauð Icesave- samningsins og fullveldinu fórnað á altari Evrópusambandsins. Þá er hann raunverulega í stjórn með Samfylkingunni. Það er "real"! Hann heldur kannski enn að hann sé til vinstri, en hann er grænni en maður hélt, ef hann heldur að almenningur í landinu líti enn þá á hann sem vinstri mann. Þvílíkur tækifærissinni! Það er illa komið fyrir þingmönnum Sjálfsæðisflokksins ef þeir ætla að samfylkja með Steingrími og öðrum stjórnarliðum og samþykkja þennan ánauðarsamning. Barátta Íslendinga fyrir efnalegu sjálfstæði og fullveldi er ævarandi. Aldrei láta deigann síga þó slíkir hælbítar sem Steingrímur séu meðal vor.   

Óttar Felix Hauksson, 28.8.2009 kl. 00:46

5 Smámynd: Andrés Magnússon

Egill:

Ég og vinir mínir eru ekki sammála um Icesave-uppgjafarsamningana og gildir einu hvort það eru vinir mínir til vinstri eða hægri. Þó merki ég það að æstustu ESB-sinnarnir í mínum vinahópi virðast vera algerlega til í hvað sem varðandi Icesave í vanstilltri von um að það greiði götu Íslands til fyrirheitna landsins. Ég nenni ekki að reyna að koma tauti við þá.

Að ég — eða vinir mínir — séum „að láta þá sem eru að púsla einhverju saman úr rústunum líta út eins og svikara“ er fráleitt píp, því það byggist á þeirri fölsku forsendu að þeir „sem eru að púsla einhverju saman úr rústunum“ hafi unnið sér einhver stig inn út á þær tilraunir. Hverjir eru ekki að reyna „að púsla einhverju saman úr rústunum“? Ætli það eigi ekki við um alla, útrásarberserki sem lopakomma?

Nei, ég gagnrýni þá, sem eru að gera illt verra. Hverjir eru þeir, „sem raunverulega settu landið á hausinn“? Eru það Bjöggarnir, Bakkabræður, eða Baugsmafían? Djöfullinn Davíð, Jón EES Hannibalsson eða Jónas Friðrik Jónsson? Geir H. Haarde og Árni Math; Milton Friedman eða hin alþjóðlega lánsfjárkreppa; Gordon Brown eða fólkið sem keypti flatskjá á Visa rað og pallbíl með Lýsingu?

Nei, um þátt ofangreindra vegna bankahrunsins má vel deila, þar til við verðum öll blárri í framan en blá höndin á góðum degi, en það snerist þrátt fyrir allt um gjaldþrot einkabanka. Fyrir vikið riðaði greiðslukerfið til falls, en það stóð nú samt. En það setti ekki landið á hausinn. Daginn sem Glitnir féll máttu allir vita að offitusjúklingurinn ríkissjóður væri á leiðinni á vatn og brauð og við það myndu margir gráta. Það gengi ekki að þriðjungur vinnufærra manna væri á launum hjá hinu opinbera. En landið var samt ekki komið á hausinn. Það blasti við að sparifjáreigendur og kröfuhafar bankanna myndu ekki ríða feitum hesti frá gjaldþroti bankanna, en samt var landið ekki komið á hausinn. Það var jafnaugljóst að íslensk fyrirtæki — jafnháð og þau voru orðin lánsfé og fyrirgreiðslu bankanna — myndu eiga í miklum erfiðleikum við bankafallið, en eigi að síður var landið ekki á hausnum.

Það eru hin seinni viðbrögð eða viðbragðaleysi, sem eru að setja landið á hausinn. Forgangsröðunin hjá ríkisstjórninni segir sína sögu. Þingstörfin segja sína sögu. Ríkisfjármálin segja sína sögu. Peningamálin segja sína sögu. Fyrirætlanir um að koma bankakerfinu á árið 2003 segja sína sögu. Allt er þetta gert að hætti stjórnvalda í Berlín 1945, þar sem teflt var fram ímynduðum herdeildum. Nú er verið að verja ímynduðum fjármunum. Aukin verðmætasköpun skiptir stjórnvöld hins vegar engu máli, manni virðist sem þeim finnist hún meira að segja frekar til óþurftar.

Ofan á allt þetta kemur hin einkennilega ofuráhersla á Icesave-uppgjafarsamningana. Kostnaðurinn er í besta falli hrikalegur, í versta falli mun hann valda landauðn og það ekki á ýkja löngum tíma. Hið hryllilega er auðvitað það að þetta vilja stjórnvöld gera að nauðsynjalausu. Ríkissjóði ber ekki að standa straum af þessu, enda þyrfti þá enga sérstaka samninga um það. En það var þessi ríkisstjórn sem ákvað af óskiljanleganlegum ástæðum að ganga til uppgjafarsamninga, skipaði til þess viðvaninga, skeytti engu um fyrra samkomulag um umgjörð samninganna og úr urðu þessi ósköp, sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag.

Ekki þar fyrir, ég tel að fyrri ríkisstjórn hafi gert mistök með þessu „samkomulagi“ í nóvember. Hún átti að láta hart mæta hörðu og standa á réttinum.

Um það þýðir þó ekki að fást úr því sem komið er, en af því má og á að draga lærdóm. Menn hafa ímyndað sér alls kyns hluti um „lausn“ þessara mála, að þau mætti græja pólitískt, með persónulegum samböndum, vísa til hagsmunamats, höfða til Evrópuhugsjónarinnar, varnahagsmuna og hvers eins. En allt hefur það til einskis reynst, verra en einskis raunar. Þess vegna er fráleitt að ímynda sér að einhverjir fyrirvarar, eftiráklækir myndu einhverjir segja, dugi Íslendingum til nokkurs nema frekari bölvunar. Þessu verður ekki reddað.

En það er eitt og aðeins eitt eftir óreynt. Hið fyrsta og augljósasta reyndar, einmitt það sem gæti drepið okkur úr Dróma. Það er rétturinn. Hvað sem líður hagsmunum evrópska bankakerfisins, pólitískum fautaskap Browns og Barrosos, réttlátri reiði sparfjáreigenda og því öllu, þá eru Evrópuríkin þrátt fyrir allt réttarríki. Þar gilda lög og réttur, sem eru öllu hinu æðra. Blasir það ekki við að Íslendingar verða að leita réttar síns?

Einmitt þar er annar hundur grafinn. Velflestir þingmenn virðast hafa gleymt því, nema kannski blessaðir framsóknarmennirnir. Punkturinn við ríki, er nefnilega skefjalaus sókn þess til réttlætis. Ríkið fær veruleg völd frá lýðnum, m.a. til valdbeitingar, í nafni þess að það muni einskis láta ófreistað við vörn sameiginlegra og ófrávíkjanlegra hagsmuna þjóðarinnar. Þess vegna er ekki hætt við saksókn glæpamanna þó einhver reikni út að það svari ekki kostnaði, því réttlætið verður ekki metið til fjár og það mundi reynast óendanlega kostnaðarsamt ef krimmarnir vissu að of dýr saksókn gæti viðhaldið frelsi þeirra.

Hugsanavilla sjálfstæðismanna og Borgarahreyfingar á þingi (að maður minnist ekki á hvatir stjórnarþingmanna) er af þessum toga. Þeir vita hvað er rétt, en telja hentugra að leita sátta og samninga, semja sig frá vandanum. En þarna má ekki semja. Þarna verður ríkisvaldið að standa á réttinum. Sé vafi á réttinum þarf að eyða honum og það verður aðeins gert með einum hætti.

Allir heimsins fyrirvarar eru til einskis í þeim efnum. Eftir stæði viðurkenning Alþingis Íslendinga á ábyrgð ríkissjóðs, en restin væri tæknileg úrlausnaratriði. Það er sú flekkun, sem ég óttast og þau varnaðarorð snúast ekki um hræðileg afglöp og ábyrgð ríkisstjórnarinnar, heldur sæmd Íslendinga og hvort hér verði lífvænlegt til frambúðar eður ei.

Íslandi allt! Segjum nei.

Andrés Magnússon, 28.8.2009 kl. 01:14

6 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Just say no.

Eyþór Laxdal Arnalds, 28.8.2009 kl. 11:45

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Því miður var svarið já, og hjáseta Sjálfstæðismanna vekur mína undrun allavega. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.8.2009 kl. 17:23

8 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sammála Ásthildur. Maður er gáttaður á hjásetu þingmanna Sjálfstæðisflokksins, nema með tveimur undantekningum : Árni J og Birgir Á sögðu nei. Húrra fyrir þeim og Framsókn í þessu máli.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 28.8.2009 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband