Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
8.12.2006 | 11:59
Fjör í fjölmiðlun
Það er stormasamt í blaðaheiminum þessa dagana. Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Blaðsins, staðfesti það á starfsmannafundi hér í morgun, sem við höfðum raunar heyrt í morgunfréttum RÚV, að hann hefði sagt upp ritstjórastöðu sinni. Hann bloggaði svo sjálfur um þetta, en áður hafði Steingrímur Sævarr Ólafsson vikið að þessu, en Reynir Traustason hafði skúbbað málið í gær.
Uppsögnin vekur vitaskuld fleiri spurningar en hún svarar, en sem innanbúðarmaður hér á Blaðinu ætla ég að geyma mér að ræða innri málefni þess. Þegar þetta er ritað er það enda nánast allt á vangaveltustiginu.
En það er ljóst að fjölmiðlafjörið verður mikið á næstunni. Nákvæmlega hvað Sigurjón ætlast fyrir er enn á huldu, en það er bæði rætt um að hann hyggist stofna glænýtt dagblað og eins að hann eigi að taka hræið af DV og gera að 7 daga dagblaði, sem gæti hæglega veitt Blaðinu harða samkeppni. Ég veit ekki hvað svona skvaldur er ábyggilegt. Sagt er að Sigurjón hafi tekið ákvörðun sína á ferð í Kaupmannahöfn um daginn; gæti ég þá ekki allt eins fabúlerað um að auðvitað muni hann taka til við að ritstýra næsta blaði Mediafonden í Hollandi eða Belgíu? Það væri a.m.k ekki fráleitt í ljósi þess að Sigurjón er með heillangan uppsagnarfrest og Ár og dagur, útgáfufélag Blaðsins, gæti sett lögbann á störf hans fyrir keppinauta Blaðsins á þeim tíma og jafnvel lengur eftir því sem klásúlurnar í samningnum kveða á um. Má benda á nýfallinn hæstaréttardóm í máli Opinna kerfa í því samhengi.
Hvað sem því líður verður athyglisvert að sjá hvert Sigurjón sækir fjármagnið, sem þarf til þess að ýta nýju eða endurreistu blaði úr vör. Hann segir að 365 og Árvakur séu ekki í spilunum, en það gæti vel þýtt að Baugur kæmi við sögu. Og ef ekki Baugur þá eitthvert af dótturfyrirtækjum hans, líkt og það sem heldur Jóhanni Haukssyni úti á Útvarpi Sögu eða gefur út tímarit í samkeppni við 365 (sem aftur gæti verið skoðunarvert af Kauphöllinni eða einhverjum eftirlitsapparötum). Í því samhengi er rétt að benda á nýlegar bloggfærslur Páls Vilhjálmssonar um skyld efni. Og kannski maður ætti að líta sér nær í leit að peningaslóðinni. Og er minn gamli bekkjarbróðir Árni Hauksson ekki með eitthvert reiðufé í höndunum þessa dagana?
Þetta þarf hins vegar allt að skoða í samhengi og varðar ekki einungis framtíðaráform Sigurjóns. Það er ljóst að bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið ætla að spýta í byssuna á næstunni og mér skilst að Viðskiptablaðið hafi lokið fjármögnun nýrrar sóknar, þar sem útgáfudögum verður fjölgað og fréttafókus þess ekki aðeins á viðskiptalífinu. Svo skilst manni að Sigríður Dögg Auðunsdóttir sé að fara stofna vikurit. Hvaðan henni koma fjármunir til þess eða annað verður svo fróðlegt að sjá.
Hvað sem verður er ljóst að það er mikið stuð framundan í bransanum.
Hræringar á blaðamarkaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2006 | 10:07
Aðalhvatamaður tískustrauma?
Ég les að Jón Ásgeir Jóhannesson sé annar áhrifamesti maðurinn í breskum tískuiðnaði, samkvæmt fagtímaritinu Drapers Fashion. Ég segi ekki að það sé ómögulegt, en af hverju sér maður þá ekki fleiri Breta með sítt að aftan?
Jón Ásgeir er annar áhrifamesti maðurinn í breskum tískuiðnaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2006 | 02:54
Þjóðaröryggið og Alþjóðamálastofnun
Í vefdagbókarfærslu síðastliðinn mánudag gerði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, stólpagrín á sinn hátt að viðtali í Pólitíkinni á Stöð 2 við Silju Báru Ómarsdóttur, forstöðumann Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, sem var sent út liðinn laugardag. Og eins og Björn vitnar í á vef sínum var þetta auðvitað óttalegt raus hjá henni og bætti engu við umræðuna, sem hér á landi má varla við frekari fáfræði og þvælu. Björn segir:
Þegar þessi texti er lesinn, er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri, að höfundur hans hafi ekki minnstu hugmynd um öryggis- og varnarmál. Raunar er kannski ekki við því að búast hjá stofnun, sem kennd er við alþjóðamál og hlýtur samkvæmt þessu að vera að sinna einhverju öðru en öryggis- og varnarmálum.
En þetta er ekki alls kostar rétt hjá Birni, því Silja Bára hefur þvert á móti sérhæft sig í öryggismálum. Þannig flutti hún t.d. fyrirlestur við Akureyrarháskóla í apríl 2004 um feminískar aðferðir í alþjóðastjórnmálum. Í kynningunni á fyrirlestrinum má finna þetta gullkorn:
Sú raunhyggjustefna sem mótar grundvöll umfjöllunar um öryggismál er byggð á karllægum gildum, eins og t.d. því að gerður sé greinarmunur á lögmætu og ólögmætu ofbeldi.
Ójá, í hennar heimi er enginn munur á árásarmanni og fórnarlambi
ef fórnarlambið skyldi leyfa sér að grípa til sjálfsvarnar! Hér hlýtur að vera fundinn þjóðaröryggisráðgjafi kaffibandalagsstjórnarinnar, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hótar þjóðinni æ oftar í þingræðum.
7.12.2006 | 01:00
Óheilbrigt ástand
Það er ástæða til þess að vekja athygli á góðri grein eftir Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur í Fréttablaðinu í dag, en þar fjallar hún um heilsuhagfræði. Í innganginum segir hún frá því að til hennar hafi nýlega verið leitað með þá fullyrðingu, að hagfræði ætti ekki við þegar viðfangsefnið væri heilsa og heilbrigði. Að hennar viti er fullyrðingin röng og rökstyður hún það ágætlega í greininni. Að einmitt vegna þess hve mikils við metum heilsu og heilbrigði beri okkur að leggjast vel yfir hvernig takmörkuðum auð sé best varið í þetta nánast takmarkalausa verkefni. Þar þarf að velja og hafna.
Ég hef gluggað í skrif svonefndra húmanista að undanförnu og greini hjá þeim allnokkra gremju ef ekki óþol vegna þess hve margir trúa á æðri máttarvöld, að því er virðist skilyrðislaust og án þess að geta fært sönnur á tilvist þeirra. En það er nú einmitt skilgreiningin á trú, að hún byggist á innri vissu og er í eðli sínu ósannanleg ella væri hún ekki trú!
En þeim mun einkennilegra finnst mér hvernig skynsamasta fólk getur umhverfst í slefandi ofsatrúarmenn þegar heilbrigðismálin eru annars vegar. Þar blandast illa saman dulspekileg lotning fyrir ríkisvaldinu sem hinum eina handhafa valds yfir lífi, dauða og alls þar á milli, kredda jafnaðarhugsjónar skógarhöggsmannsins (Janteloven), og kennisetningin um að mannslíf verði ekki metin fjár.
Þá er hollt að rifja upp að ríkið er til í okkar náð en ekki öfugt, tæki til þess að sinna sameiginlegum hagsmunum borgaranna allra á sviðum, þar sem þeim verður ekki sinnt með öðrum hætti. Í þeim efnum þurfum við að takmarka verksviðið með öllum ráðum, því ella mun ríkið oftast af hinum bestu hvötum belgjast út með tilheyrandi þrengingum fyrir borgarana og sóun á fjármunum þeirra. Svo má ekki heldur gleyma hinu, að í hinu opinbera er innbyggt ábyrgðarleysi, sem gerir það að verkum að það leysir verkefni sín verr af hendi en borgararnir gera sjálfir. Engum myndi t.a.m. detta í hug að hinu opinbera væri betur treystandi en kaupmönnum til þess að verða landsmönnum úti um betri og ódýrari skó, sem þó er ekki ýkja flókinn starfi. En ef við treystum ríkinu ekki til þess, af hverju í ósköpunum halda sumir að það sé betur til þess fallið að reka óendanlega flókið apparat eins og heilbrigðiskerfið? Þar sem líf liggur beinlínis við?
Þar vefst fyrrnefnd jafnaðarhugsjón skógarhöggsmannsins vafalaust fyrir mörgum. Hlynurinn unir því illa hve hátt eikurnar teygja sig, en skógarhöggsmaðurinn kann aðeins eina leið til þess að jafna trén. Margir láta sem það sé óendanlegt óréttlæti ef einn býr við betri heilbrigðisþjónustu en annar, og flestir stjórnmálaflokkarnir hafa tekið undir þetta sjónarmið. En hvað? Fólk hirðir misvel um sig og á sú breytni engin áhrif að hafa? Læknar eru misgóðir og á að reyna að reikna það inn í kerfið með einhverjum hætti? Eða svo augljósara dæmi sé tekið á að banna fólki að leita sér lækninga erlendis, þar sem það telur sig geta keypt sér betri umönnun eða einfaldlega framhjá biðröðinni? Það er ekki heldur eins og þetta sé óþekkt í heilbrigðiskerfinu, tannlæknar starfa upp á þessi býti og þykir engum mikið um. Væri ekki nær að horfast í augu við veruleikann og gefa fólki kost á fjölbreytni í heilbrigðiskerfinu í stað þess að reyna að viðhalda miðstýrðum, sovéskum áætlanabúskap með tilheyrandi biðröðum?
En svo er það þetta með mannslífin og matið. Auðvitað er það rétt að við metum mannslíf ekki til fjár og sé maður í bráðri hættu erum við jafnan tilbúin til þess að leggja allt í sölurnar til þess að koma honum til bjargar. En samt verðmetun við sjálf okkur á hverjum degi. Með því að fallast á tiltekin laun erum við að verðmeta tíma okkar, hin einu verulega takmörkuðu gæði hverrar mannsævi. Og hvað gera menn með því að kaupa sér líftryggingu? Heilsugæslan er snar þáttur í þjóðfélaginu, en langt í frá hinn eini, sem máli skiptir. Þess vegna var aðeins helmingi nýsamþykktra fjárlaga varið til heilbrigðismála, almannatrygginga og velferðarmála, en ekki bara 100% sett í það. Um leið og menn hafa sniðið sér slíkan stakk er búið að viðurkenna að einhversstaðar liggi mörk á því hverju skuli varið í heilbrigðisiðnaðinn. Í þessu tilviki um 600.000 krónur á hvert mannsbarn á ári.
Ætli það veiti af að menn skoði heilbrigðisgeirann frá hagfræðilegu sjónarmiði? Eða þiggi einhverjar lausnir hagfræðinga á vanda hans?
6.12.2006 | 05:14
Högun og húsreglur
Skömmu eftir að ég fór að blogga á þessum vettvangi talaði ég við minn gamla kollega Pétur Gunnarsson og hann sagði mér að hann hefði yfirleitt ekki ýkja mikið fyrir færslum sínum, enda hefði hann sett sér þá vinnureglu að eyða ekki meira en fimm mínútur í hverja færslu. Þetta er góð regla og skynsamleg, því auðvitað getur svona bloggur auðveldlega orðið mikill tímaþjófur en tekjurnar eru engar. Fyrir okkur, sem höfum framfæri af því að skrifa, setur slíkt strik í reikninginn.
Þessi regla Péturs (þó ekki Peter Principle!) er ágæt og menn þurfa sjaldnast meira, eins og ofurbloggarinn Glenn Reynolds benti á í SOS-færslu (FAQ) sinni fyrir liðlega fjórum árum:
It takes less time than people think. Much of InstaPundit gets squeezed into the cracks of the day: with always-on Internet connections at home and at work, all I need is five or ten free minutes to come up with a post. (Longer stuff, like this, is done as this is being done on my laptop. Right now I'm sitting in the playroom while my daughter plays with Barbie dolls). There are a lot of wasted five-minute intervals in most peoples days. I've managed to put more of mine to work.
Glenn skrifar blogginn Instapundit, sem að mestu er byggður á ábendingum um efni annars staðar á vefnum, yfirleitt með örstuttum athugasemdum. En það eru ekki allir bloggar þannig. Mín nálgun er þannig oftast pólitísk og kallar oft á lengri athugasemdir en þeir Pétur og Glenn ástunda. Ég veit að ég skrifa oft í fulllöngu máli, en ég vil líka njóta frelsisins hér á vefnum, meðan að blaðaskrif mín eru í afar þröngum skorðum hvað lengd áhrærir. En ég skal nú samt reyna að halda aftur af ritgleðinni, þó ekki væri nema til þess að skrifa knappari, skýrari og betri stíl. Menn verða svo bara að virða það við mig þegar langlokurnar birtast; nú eða hlaupa yfir þær.
Sumir hafa þá reglu á bloggum að breyta færslunum ekki eftir að þær birtast. Ég er ekki alveg svo kalvínískur, ég er oft að fikta við orðalag eftir á og innsláttarvillur hvenær, sem ég kem auga á slíkt. En ég ætla ekki að breyta bloggfærslunum hvað merkingu og inntak varðar. Verði mér á mistök, ranghermi eða því um líkt, sem kallar á leiðréttingu eða breytta færslu, geri ég það með viðbót, sem þá verður auðkennd sem slík og með dagsetningu. Í sumum tilvikum læt ég nægja að gera það í athugasemdum við þessar ótímabæru athugasemdir mínar. Dæmi um þetta má finna hér.
Ég hef opið fyrir athugasemdir, enda finnst mér lítið vit í að vera að tjá sig með þessum hætti ef aðrir fá ekki að andæfa eða leggja orð í belg um færslurnar á sama stað. Ég er með hálfsmánaðartímatakmörk á þeim athugasemdum, en það er nú eiginlega aðeins af því að þannig var það sjálfvalið í kerfinu. En það eru kannski ágæt takmörk, því ég nenni varla að vera elta ólar við einhverjar nótur á löngu afgreitt umræðuefni. Berist hávær mótmæli frá lesendum bloggsins er ég þó alveg til í að hnika því.
En hvað með athugasemdir lesenda, ætla ég að svara þeim? Það er auðvitað upp og ofan. Sumar eru klapp á bakið, sem ekki kalla á nein svör, en aðrar geta verið óttalegt raus, sem varla kalla á nein svör umfram Sælir eru fattlausir". Ég ætla ekki að leggjast í slíkt. Síðan eru líka til vel grundvallaðar athugasemdir, þar sem málflutningur minn er gagnrýndur með röklegum hætti og þá finnst mér ég líka knúinn til þess að svara. En ég vil þá líka biðja athugasemdasmiðina í fullri vinsemd að vera sæmilega skorinorða og endilega að rökstyðja mál sitt með slóðum fremur en að líma inn heilu bálkana annars staðar að af netinu.
Kemur til greina að ritskoða athugasemdir? Já, fari menn út fyrir mörk velsæmis eða laga, mun ég ekki hika við það, sér í lagi ef um árásir á fólk úti í bæ er að ræða. Þá verður viðkomandi athugasemd bara látin hverfa út í ljósvakann með stuttri athugasemd þar um. En þar sem ég dreg sjálfur oft ekki af mér í palladómunum er mér ekki heldur stætt á öðru en að leyfa mönnum allnokkurt svigrúm í ummælum um yðar einlægan.
Þessi færsla er orðin lengri en til stóð. Ekki í fyrsta skipti og örugglega ekki í hið síðasta. Góðar stundir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.12.2006 | 00:46
Annan og Saddam
Breska útvarpið BBC tók Kofi Annan, hinn gerspillta fráfarandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, tali í dag og ræddi ástandið í Írak sérstaklega. Viðtalið hefur verið nokkuð fréttaefni, en lunga þess má lesa hér. Sérstaka athygli vakti svar Annans þegar hann var spurður hvort ástandið nú væri verra en á dögum harðstjórans Saddams Husseins:
I think they are right in the sense of the average Iraqis life. If I were an average Iraqi obviously I would make the same comparison, that they had a dictator who was brutal but they had their streets, they could go out, their kids could go to school and come back home without a mother or father worrying, Am I going to see my child again?
Og jæja. Í fyrra lífi hefur hann væntanlega hnyklað brúnirnar yfir hernaði Ítala í Abbyssiníu og síðan rætt um það hvílík gæfa það hafi verið fyrir ítalskar járnbrautarsamgöngur að Benito Mussolini skuli hafa komist til valda. En nú í þessu lífi stígur hann skrefið til fulls og heldur því fram að Saddam hafi borið öryggi og vellíðan þegna sinna sérstaklega fyrir brjósti!
Sami Saddam Hussein og beitti efnavopnum gegn eigin þegnum, beitti kerfisbundnum nauðgunum og pyntingum gegn ætluðum andstæðingum, fyllti fjöldagrafir, stóð í þjóðarmorði á Kúrdum, lét þyrlur úða benzíni yfir flóttafólk frá Karbala og kveikja í til þess að kenna uppreisnarmönnum shíta lexíu, lét ganga milli herbergja í spítala í Najaf og drepa alla sjúklinga og starfsfólk, lét nota helgidóma shíta sem miðstöðvar öryggislögreglunnar til nauðgana á konum sem körlum, beitti pyntingum á landsliðið í fótbolta þegar miður gekk í keppni, notfærði sér viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna til þess að herða heljartök sín á þegnunum, notað gjaldeyrinn sem fékkst af olíusölu og átti að nota til þess að kaupa mat og lyf til þess að reisa nýjar hallir og svo framvegis?
Nú er ástæðulaust að gera lítið úr dómgreindarskorti Kofi Annan, en í ljósi þess að sjálfur tengdist hann spillingunni í olíusölunni er kannski ekki skrýtið þó hann sakni gamla, góða Saddams.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2006 kl. 05:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
4.12.2006 | 20:47
Hamarshögg
Hér heima hafa menn gætt sín á því að verða ekki of upprifnir yfir kaupum Björgólfs Guðmundssonar á West Ham United; sjálfsagt minnugir hrakfararinnar til Stoke. Aðrir hafa hins vegar gert því skóna að loksins kunni West Ham að eignast dáleglegan stuðningsmannahóp hér á landi. Sjáum til.
Hitt er annað mál að stuðningsmenn West Ham suður á Englandi þykja misgóður söfnuður. Ég man t.d. að fyrir um 20 árum átti gamall skólabróðir minn, Stefán Jónsson, leikari og leikstjóri, beinlínis fótum fjör að launa úti í Lundúnum, þegar hópur af hömrum, fótboltabullum úr áhangandaahóp West Ham, gerði hrottalegan aðsúg að honum og nokkrum bekkjarsystkinum hans úr Guildhall School of Music and Drama.
Hér að ofan geta menn skemmt sér við að horfa á kvikmyndina Green Street/Hooligans sem greinir frá þroskasögu amerísks hobbita í slagtogi með West Ham bullum, sem eru meira en lauslega byggðar á liðsmönnum InterCity Firm, en svo nefna boltaberserkir West Ham sig. Það á ekki síður við um The Firm, þar sem Gary Oldman fór á kostum, en það má líka benda á aðrar ræmur um svipað efni þó West Ham sé ekki í aðalhlutverki, t.d. I.D. og Football Factory.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2006 kl. 05:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2006 | 11:00
Fyrst Kjartan, nú Margrét
Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin í stjórnmálunum, einmitt þegar manni hafði skilist að allt ætti að falla í ljúfa löð í miðjusókn allra flokka. Þingflokkur frjálslyndra rak Margréti Sverrisdóttur sumsé sem framkvæmdastjóra sinn í gærkvöldi og fyrr um daginn hafði formaðurinn raunar reynt að bola henni út af flokksskrifstofunni líka.
Hreyfiafl stjórnmálanna er að vísu alltaf valdafíknin og átökin eru einatt harðari eftir því sem völdin eru minni, svo það á ekki að koma fullkomlega á óvart að eitthvað þessu líkt myndi koma fyrir í Frjálslynda flokknum. Tala nú ekki um þegar flestir forystumenn flokksins virðast hafa einsett sér að gera út á mið þjóðernisjafnaðarstefnunnar, en miðað við nýjustu skoðanakönnun Capacent virðast þeir hafa fundið nokkurn hljómgrunn fyrir þeirri stefnubreytingu, fyrst og fremst á kostnað okkar sjálfstæðismanna. (Sjá athyglisverðar heimsendaspár Friðjóns út frá könnuninni.) Margrét hefur á hinn bóginn verið fremst í flokki þeirra liðsmanna frjálslyndra, sem hafa óbeit á slíkum málflutningi. Og þá er hún bara rekin. Á maður að þora að tala um nótt hinna löngu hnífa?
Nú er alveg ljóst hvar formaður Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson, stendur í þessum djúpstæðu deilum innan flokksins, en hann hefur reynt að halda sig eilítið ofan við þær upp á síðkastið og guðfaðirinn talaði um að Addi væri bara svona aumingjagóður, að hann hefði ekki fengið af sér að setja ofan í við hinn herskáa Magnús Þór Hafsteinsson. En nú er grímunni kastað og stefnir í friðarjól hjá frjálslyndum eða hitt þó heldur. Sjálf rekur Margrét uppsögn sína sem framkvæmdastjóra þingflokksins til Jóns Magnússonar, hæstaréttarlögmanns.
En eru rasismi eða kynþáttaöfgar að grípa um sig meðal frjálslyndra eða hluta flokksforystu hans? Mér hefur sýnst að hér séu tvö sjónarmið á ferðinni, annars vegar almennur beygur gagnvart útlendingum, sem Magnús Þór hefur helst talað fyrir, og hins vegar áhyggjur af sókn íslamista gegn vestrænni siðmenningu, sem Jón Magnússon hefur kveðið fastast að orði um. Orðræða Magnúsar Þórs og félaga er gamalkunn og hefur víða þekkst án þess að menn séu vændir um rasisma. Hún hefur á hinn bóginn yfirleitt aldrei fundið sér frjóan jarðveg nema þar sem atvinnuleysi er verulegt og landlægt. Því er nú aldeilis ekki að heilsa hér. Áhyggjur af íslamistum eru svo í eðli sínu ekki rasískar, því þær snúa að hugmyndafræði og trú. Sjálfur get ég alveg tekið undir þær fyrir hönd gömlu Evrópu, en fæ ekki séð að þær eigi á nokkurn hátt við hér á landi, því hvergi í Evrópu er að finna lægra hlutfall múslima en hér og flestir þeirra eru í hófsamasta lagi, þó sjálfsagt megi finna dæmi um hið gagnstæða.
Þannig að líkast til er fulldjúpt í árinni tekið að tala um kynþáttahyggju meðal frjálslyndra. En það er dagljóst, að forystumenn frjálslyndra eru að gera út á slíkar hneigðir, sem vissulega blunda með mörgum. Það þykir mönnum vitaskuld ógeðfellt, enda hófust nazistar ekki til valda í lýðræðislegum kosningum með því að lofa útrýmingarbúðum í hvern hrepp Þýskalands. En þær komu.
Hitt er svo annað mál til hvers þingflokkur frjálslyndra var að reka Margréti. Kannski þeim hafa þótt vera slíkur skoðanaágreiningur milli þingflokksins og framkvæmdastjóra hans, að ekki væri unnt að reiða sig á að hún myndi vinna fyrir hann af heilindum. En ekki þykja mér það mikil pólitísk klókindi. Margrét er eini forystumaður frjálslyndra með vott af kjörþokka, þó ekki sé þar með sagt að hinir hafi bara óþokka. Vinkona mín orðaði það sem svo, að Margrét væri hin mennska ásýnd flokksins og það er nokkuð til í því, sérstaklega þegar hún er borin saman við spýtukarlana á þingi og í borgarstjórn. Og stjórnmálaskoðanir hennar og áherslur eru með þeim hætti, að hún gæti bæði verið á vinstri kantinum í Sjálfstæðisflokknum og þeim hægri í Samfylkingunni. Báðir flokkar myndu sjálfsagt taka henni fagnandi ef hún vildi hafa vistaskipti, en til ólukkunnar eru báðir búnir að velja í aðalsæti lista sinna fyrir Alþingiskosningar.
Það er greinilega áhættusamara að vera framkvæmdastjóri aðalritari íslenskra stjórnmálaflokka en oftast áður. Fyrst Kjartan og nú Margrét. Ég sé að það er boðað til flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju kl. 12.00 á morgun. Ætli það sé ástæða fyrir Skúla Helgason, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, að óttast hrókeringar á þeirri bænastund?
Margréti Sverrisdóttur sagt upp hjá Frjálslyndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2006 kl. 05:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 102
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 59
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar