Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Hvenær má sökkva landi?

Við Andri Snær Magnason höfum að sumu leyti deilt efasemdum um virkjanir á hálendinu, en að öðru leyti ekki. Eins og gengur. Og ég verð að meta það við Andra, að hann hefur ekki ofsótt mig með endalausu virkjanatali eins og sumir vinir mínir aðrir; hefur hann þó haft sæg tækifæra, því við erum bundnir fjölskylduböndum. Ég hef líka tekið vörn hans þegar ég hef heyrt menn gagnrýna að hann, borgarbarnið, sé að hafa einhverjar meiningar um hvað sé að gerast uppi á öræfum. Eða mega ekki aðrir en handhafar sjóferðabóka og fiskverkafólk hafa skoðanir á sjávarútvegsmálum?

Málflutningur hans hefur verið á þá leið, að Íslendingar eigi að hverfa frá hálf-sovéskri stóriðjustefnu, að fremur beri að leggja rækt við huglægari atvinnugreinar og að náttúran eigi að vera alls óhult af umgengni okkar mannanna. Sér í lagi hefur hann mótmælt því að náttúruperlum sé sökkt undir vatn.

Það er því með nokkurri undran, sem ég les blogg Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs, því Andri hefur sent honum bréf. Þar rekur hann hvernig gamla hafnarsvæðið í Reykjavík — sem nú er að hluta í rúst vegna fyrirhugaðrar byggingar tónlistar- og ráðstefnuhallar — sé sár í miðbænum. Sem má svo sem taka undir.

En hvað vill Andri gera? Jú, hann vill vitaskuld sökkva svæðinu í sæ!

Punkturinn hjá honum er að með því að fjarlægja uppfyllinguna verði hin eiginlega vík, sem Reykjavík dregur nafn sitt af, til á ný, skáldum og kaffihúsaspekingum til yndis og ánægju.

Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um þessa tillögu Andra Snæs, en hún togar óneitanlega í mig. Þó ekki væri nema í þeirri von að þá verði fyrrnefnd tónlistar- og ráðstefnuhöll send út í hafsauga. Í orðsins fyllstu merkingu. En svo er það líkast einnig íhaldskurfurinn í mér og sagnfræðiáhugamaðurinn, sem tekur undir hugmynd Andra. Fortíðarþráin er svo sterk, að hún nær til daga, sem ég þekki ekki nema af myndum. Mér dettur því í hug — ef tónlistar- og ráðstefnubákninu yrði sópað burt — að viðeigandi væri að reisa skúlptúr þar í nágrenninu, sem gæti heitað Hegrinn. 


Það má víst ekki hýða þá

Einhverjir eru að furða sig á að samráðsforstjórarnir skuli ákærðir meðan olíufélögin sjálf eru fyrir rétti. Ekki ég. Hefði meira að segja kosið að félögin væru skorin úr snörunni. Ég ræddi um þetta mál á Stöð 2 fyrir um þremur og hálfu ári, eftir að í ljós kom að olíufélögin höfðu meðgengið fyrir samkeppnisyfirvöldum og leitað samninga. Mér sagðist svo frá:

Ég vona að dómstólar sekti olíufélögin ekki um eina krónu, heldur segi þeim að fara og syndga ekki framar. Því eins og ég minntist á hér fyrir viku, þá vitum við öll hverjir borga sektir olíufélaganna þegar allt kemur til alls. Það verða viðskiptavinir þeirra, ef viðskiptavinur er orðið sem ég er að leita að.

En hvað á þá að gera? Við höfum aflagt líkamlegar refsingar, svo við getum víst ekki bundið þessa kalla við kagann og látið hýða þá, þó það sé óneitanlega freistandi.

En við höfum annan kost, kost sem ég er sannfærður um að sé áhrifaríkari og réttlátari, bæði í nánd og firð. Hvað segið þið um að þessir kallar verði látnir sæta ábyrgð? Og þá meina ég þessa kalla, en ekki olíufélögin. Fyrir þessum fyrirtækjum fóru nefnilega framkvæmdastjórar, stjórnir og stjórnarformenn. Og þeir eiga að bera ábyrgð. Þeim eru borguð himinhá laun, ekki vegna þess að vinnudagurinn sé svo langur, hvað þá vegna þess að það sé svo mikill vandi að reka olíufyrirtæki á Íslandi við þessar aðstæður, heldur vegna þess að þeir eru í ábyrgðarstöðum og ábyrgðin er mikil. Og þá eiga þeir líka að sæta ábyrgð.

Þess vegna vona ég heitt og innilega að olíufyrirtækin verði látin sleppa með tiltal en að stjórnendur þeirra verði dæmdir til ævintýralegra sekta.  Þá er tryggt að neytendur verði ekki látnir borga benzínbrúsann eina ferðina enn og um leið ætti að það að forða forstjórum framtíðarinnar frá því að falla í freistni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hnika orði af þessu núna. 


mbl.is Þrír einstaklingar ákærðir vegna samráðs olíufélaganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran að liðast í sundur

Eftir að hafa komist í ham við að sálgreina vanda Samfylkingarinnar (í lengra máli en boðlegt má teljast í bloggi) get ég eiginlega ekki stillt mig um að halda áfram. Ekki þó hvað varðar forystuvanda hennar, heldur fremur málflutning. Samfylkingin hefur aldrei talað af miklum trúverðugleika um efnahagsmál og ekki síst hefur það háð flokknum hversu rígbundinn hann er meinlokunni um nauðsyn inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB). Sú þráhyggja er síst í rénun og heilu háskólarnir lagðir undir áróðurinn. En sumpart hefur Samfylkingin líka sloppið billega frá efnahagsumræðunni hér á landi með því að benda á það, sem á kann að bjáta og segja án frekari rökstuðnings: Þetta væri allt miklu betra ef við værum í ESB.

Síðustu misseri hefur þetta ekki síst reynst þeim gott haldreipi í umræðunni um gengismál og vaxtastig, enda ýmsar blikur á lofti í þeim efnum. Raunar hefur þá ekki verið minnst á inngöngu í ESB berum orðum, en þeim mun meira talað um nauðsyn þess að taka upp evruna. Það er sérumræða hversu skynsamlegt það væri — væri það á annað borð unnt án inngöngu í ESB, sem er afar hæpið — fyrir hið smáa og sveiflukennda efnahagslíf Íslands, sem ég nenni ekki að reifa að þessu sinni. Það er enda kannski óþarfi í ljósi þess að Evrópubúar sjálfir eru að verða æ óhamingjusamari með evruna.

Ég les á bloggi Heimssýnar, samtaka sjálfstæðissinna í Evrópumálum, að Milton heitinn Friedman hafi haft sínar efasemdir um Evruna og látið þær í ljós í viðtali fyrir um tveimur og hálfu ári. Taldi hann allar líkur á að Evrusvæðið myndi liðast í sundur fyrr en síðar, en vandann taldi hann einkum felast í erfiðleikum sem það hefði í för með sér að viðhalda myntbandalagi á milli ríkja með jafn ólík efnahagskerfi, menningu og tungumál. Kvaðst Friedman telja að vandamál af þessum toga myndu ennfremur aukast við það að ný aðildarríki Evrópusambandsins, sem gengu í sambandið 1. maí 2004, tækju upp evruna. Manni sýnist að þetta sé nokkuð að ganga eftir hjá karli.

Ástæðan var ef til vill frekar fyrirsjáanleg, eins og rifjað er upp í leiðara Daily Telegraph í morgun undir fyrirsögninni „Dauðadæmdur gjaldmiðill“. Þegar 11 Evrópuríki tóku upp hinn sameiginlega gjaldmiðil árið 1999 var forsendan sú að Þýskaland myndi gefa hið sterka þýska mark upp á bátinn með því skilyrði að hin ríkin myndu ekki láta hina nýju evru drabbast niður, en þau höfðu fæst öfundsverða sögu í varðstöðu um gjaldmiðla sína. Þær heitstrengingar voru sjálfsagt unnar í góðri trú, en hvernig hinum alvitru skrifræðismönnum ESB datt í hug að 11 nánast óskyld hagkerfi þvers og kruss um álfuna gætu gengið í takt er eiginlega ofvaxið skilningi manns.

Það má líka greina þetta einfaldar og halda því fram að evruríkin skiptist í tvö meginsvæði: hið rómanska og hið germanska, en þau hafa hvort haldið sína leið og um leið hefur hið samræmda vaxtastig Seðlabanka Evrópu (ECB) orðið æ óraunhæfara. Germönsku þjóðflokkarnir óttast vaxandi verðbólgu á evrusvæðinu og vilja harðkjarnapeningamálastefnu, en Rómverjarnir hafa orðið illilega fyrir barðinu á sterkri stöðu evrunnar gagnvart helstu samkeppnisgjaldmiðlum og vilja stöðva vaxtahækkanirnar. Þessi togstreita á sjálfsagt aðeins eftir að versna. Á Ítalíu hefur Norður-bandalagið lagt til að líran verði tekin upp að nýju, en í Frakklandi hefur ríkisstjórnin lagt til að aðildarríkin fái gjaldeyrismálin í sínar hendur. Gengi það eftir væri sjálfstæði Seðlabanka Evrópu fyrir bí og evran líkast til sömuleiðis áður en langt um liði.

Í þessum ólgusjó vill Samfylkingin að Íslendingar leiti vars, sleppi stýrinu og láti reka á reiðanum.


Tapið útskýrt fyrirfram

Ég er enn að reyna að átta mig á því hvað hún Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var að fara í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju um fyrri helgi. Ræðan var nú engan veginn sérlega snjöll; mestan part svona stikkorð hripuð niður í flýti. En en eitt var það, sem ég trúi ekki að formaðurinn hafi skrifað og sagt án þess að velta vel og vandlega fyrir sér:

Samfylkingin er sex ára og vandi hennar er að þrátt fyrir tilvistarkreppu og slælega frammistöðu ríkisstjórnarflokkanna hefur okkur ekki tekist að nýta þau sóknarfæri sem gefist hafa. Það segja skoðanakannanir okkur. […] Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum – ekki ennþá, ekki hingað til. Of margt fólk sem vill og ætti að kjósa okkur – allur meginþorri Íslendinga sem hafa sömu lífssýn, áhyggjur og verkefni og við – hefur ekki treyst þingflokknum fyrir landsstjórninni.

Já, var það þannig, sem í þessu lá? En nú horfir allt til betri vegar telur hinn lánlausi formaður:

Nú verður á þessu breyting. En af hverju núna? Jú, vegna þess að Samfylkingin er tilbúin, frambjóðendur eru tilbúnir og ég er tilbúin.

 

Endurtekið efni

Það var mikið að hún varð tilbúin. En hvað var hún þá að rugla í okkur kjósendum fyrir þingkosningarnar 2003? Það er rétt að rifja það upp að í þeirri kosningabaráttu var öll áhersla lögð á það í áróðri Samfylkingarinnar, að tækifærið væri þá eða aldrei. Sögulegt tækifæri til þess að velja loksins og í fyrsta sinn konu til þess að verða forsætisráðherra (sem benti raunar til þess að Samfylkingin hefði gleymt því að Margréti Frímannsdóttur hafði verið teflt fram á nákvæmlega sömu forsendum fjórum árum fyrr). Og þetta einstæða tækifæri í mannkynssögunni fælist einmitt í þessum tiltekna endurlausnara, Ingibjörgu S. Gísladóttur. Á annað var varla minnst í þeirri baráttu, hvorki stefnumál né aðra frambjóðendur. Rifjum aðeins upp:

Við vitum að við getum gert gott samfélag betra á næstu árum. Öll sjáum við fjölmörg tækifæri til framfara. Samfylkingin teflir fram þrautreyndum frambjóðendum um land allt sem eru reiðubúnir til þess að takast á við þau verkefni af miklum heilindum.

Þetta skrifaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í ávarpi sínu til kjósenda, sem birt var í dagblöðum ásamt forsetamynd af forsætisráðherraefninu hinn 9. maí 2003, daginn fyrir kjördag. Hinir „þrautreyndu frambjóðendur“ eru sumsé uppistaðan í þessum þingflokki, sem að hennar sögn hefur verið helsti vandi Samfylkingarinnar undanfarin ár, ef marka má flokksformanninn í Keflavíkurræðunni á dögunum. Helsti vandinn altso þar til nýskeð, þegar þingmennirnir virðast hafa orðið alveg frábærir aftur, því miðað við niðurstöður prófkjöra Samfylkingarinnar mun þingflokkurinn mun nánast vera óbreyttur eftir kosningar næsta vor (þó mig gruni að það kunni að fækka í honum). Er engu líkara en að þeir hafi undirgengist guðdómlega ummyndun við það að fá sakramentið hjá Sollu þarna undir kirkjuveggnum í Keflavík. Undur mikil og teikn.

Svo hélt kraftaverkakonan áfram:

Ég er reiðubúin til að leiða það starf fái Samfylkingin til þess brautargengi. Tækifæri til nýrrar sóknar er núna. Nýtum það.

Þetta sagði hún sumsé í fyrrnefndu ávarpi fyrir kosningarnar 2003. Ég veit ekki hvort hún meinti það bara ekki alveg nógu mikið þá, en núna sko… núna meinar hún það sko af fullri alvöru. Hún er tilbúin. Í alvöru.

Og svo menn ímyndi sér nú ekki að Ingibjörgu Sólrúnu skorti í alvöru í þessum efnum er rétt að rifja upp orð hennar í viðtali við Morgunblaðið hinn 19. maí 2002, þegar hún kvaðst verða borgarstjóri næstu fjögur ár nema hún hrykki upp af. „Ég er ekki á leið í þingframboð að ári ef það er spurningin sem undir liggur“ bætti hún við svo ekkert færi milli mála. Viku síðar áréttaði hún í viðtali við Ríkisútvarpið: „Já ég fullyrði algerlega að ég er ekki að fara í þingframboð að ári. Það er alveg ljóst.“ Á þessu hamraði hún svo eftir kosningarnar 2002 þegar hún var spurð hvort til mála kæmi að hún færi í þingframboð þrátt fyrir allt: „Ég bauð mig fram til að vera í fjögur ár. Mér finnst ég skuldbundin mjög mörgu fólki í því sambandi.“ Hennar orð standa. Eða hún segir þau að minnsta kosti oft. Jafnvel kosningabaráttu eftir kosningabaráttu.

 

Vanhugsuð orð

Þó ég sé viss um að fyrrnefnd orð í Keflavíkurræðunni hafi verið þaulhugsuð hjá formanni Samfylkingarinnar er ég ekki frá því að þau hafi samt verið vanhugsuð. Er hugsunin svona neyðarlega grautarleg, er formaðurinn haldinn svona alvarlegum ranghugmyndum eða er Ingibjörg Sólrún í svona mikilli afneitun? Svo mikilli að ekki dugar minna en heill stjórnmálaflokkur til þess að „kóa“ með henni?

Ég hallast að þessu síðastnefnda. Það þarf nefnilega að leggja á sig sérstaka króka til þess að komast að því að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi verið dragbítur flokksins. Það þarf ekki annað en að líta á skoðanakannanir til þess að átta sig á því hvernig sólókosningabarátta Ingibjargar Sólrúnar reytti fylgið úr rúmum 40% niður í 31% eða hvernig það fór í frjálst fall eftir að hún tók við formennskunni, úr 33%  niður í 25% þar sem það er nú. Miðað við síðustu þingkosningar lætur nærri að þriðji hver kjósandi Samfylkingarinnar hafi snúið við flokknum baki! Engin teikn eru á lofti um að það kunni að blása byrlegar á þeim 150 dögum, sem nú eru til kosninga. Við skulum ekki einu sinni minnast á skoðanakannanir, sem mæla traust á einstökum stjórnmálamönnum. 

En það má líka taka formanninn úr jöfnunni og líta á þingflokkinn út af fyrir sig. Hefur hann staðið sig svo slælega að ætla megi að kjósendur hafi sérstaka vantrú á honum umfram flokkinn sem heild, að ekki sé minnst á forystuna? Þvert á móti — ef sanngirni er gætt — getur hann státað af nokkrum afrekum sem stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar. Efst á blaði hlýtur að vera brotthvarf forystumanna beggja stjórnarflokkanna á kjörtímabilinu, svo má nefna örlög fjölmiðlalaganna, og á eftir koma í halarófu alls kyns áherslumál stjórnarinnar, sem þingflokkur Samfylkingarinnar átti mikinn þátt í að stöðva. Lög um Ríkisútvarpið eru augljóst og sígrænt dæmi, en það má líka rifja það upp að meira að segja Vatnalagafrumvarpið komst ekki yfir tálma stjórnarandstöðunnar og vissi þó varla nokkur maður um hvað það snerist.

Getur einhver nefnt dæmi um mál, þar sem Ingibjörg Sólrún tók forystu á þingi og hafði ríkisstjórnina undir? Bara eitt?

 

Forystulaus flokkur…

Nei, því er alls ekki þannig farið. Ástæðan liggur í augum uppi: Ingibjörg Sólrún er einfaldlega ekki sá forystumaður, sem margir hugðu. Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur, sagði í viðtali við Fréttablaðið eftir ógöngur Samfylkingarinnar í sveitarstjórnakosningum síðastliðið sumar (voru þær líka þingflokknum að kenna?), að Ingibjörg Sólrún nyti sín betur sem leiðtogi í stjórn en stjórnarandstöðu. Það má vera, en þá er hún ekki sá leiðtogi sem Samfylkingin þarf, þó ekki væri nema vegna hins augljósa: Samfylkingin er í stjórnarandstöðu. Stjórnmálaleiðtogar — líkt og fyrirliðar í fótbolta — þurfa bæði að kunna sókn og vörn. Þegar allir leikir tapast undir þeirra stjórn er lausnin ljós.

 

…flýtur að feigðarósi

En þó allir sjái hvert stefnir er ekkert hægt að gera. Samfylkingunni er ómögulegt að skipta um formann án þess að leyfa Ingibjörgu Sólrúnu að tapa einu sinni enn, en þá verður það væntanlega fullreynt. En mér er til efs að Ingibjörg Sólrún segi af sér ótilneydd. Til þess er afneitunin of sterk, en um hana snýst þetta nú allt saman: Afneitun. Allt það, sem hún kenndi þingflokknum um, er það, sem hún óttast um sjálfa sig. Og það er meira en hugboð, því staðreyndirnar blasa við, en hún má ekki til þess hugsa að þetta sé sér að kenna. Þannig að syndahafrarnir í þingflokknum fengu að heyra það.

Með öðrum orðum, þá var hún að útskýra tapið fyrirfram og kenna öðrum um. Það hefur til þessa ekki þótt snjall upphafsleikur í kosningabaráttu. Tala nú ekki um þegar þeir, sem hún kennir um, eru hennar eigin frambjóðendur í kosningunum! Hvernig ætlast Ingibjörg Sólrún til þess að kjósendur treysti frambjóðendum flokksins þegar hún sjálf lýsir þá óalandi og óferjandi? Fyrst og fremst hygg ég þó að vantraust kjósenda muni beinast að Ingibjörgu Sólrúnu sjálfri, dómgreind hennar og forystuhæfileikum. „Fólk er ekki fífl,“ eins og hún orðaði það svo vel í Silfri Egils á dögunum og fólk veit alveg hverjum er um ógöngur Samfylkingarinnar að kenna. 


Fátæktin

Fátæktarskýrslan svonefnda hefur valdið nokkru uppnámi. Sjálfum brá mér mest í brún að lesa stríðsletursfyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í gær: „Markmiðið á að vera útrýming fátækra barna“ en svo las ég hana aftur og áttaði mig á að mér hafði missýnst, þar stóð „Markmiðið á að vera útrýming fátæktar barna“, sem er aðeins annar handleggur. En svo sá ég á bloggnum hjá Helga Hjörvar, hinum skelegga þingmanni Samfylkingarinnar, að honum er slík útrýming ekki fjarri skapi:

Við getum fækkað fátækum börnum á Íslandi um a.m.k. 2000. [Til þess eigi …] að beita pólitískri forgangsröðun í sköttum og bótum þannig að hún þjóni frekar því markmiði að fækka fátækum börnum…

Að hótfyndninni slepptri er vert að vekja athygli á því að þessi fátæktarmæling byggist ekki á kjörum fólks heldur hlutfallslegum kjörum þeirra miðað við meðaltalið. Það er sumsé innbyggt í mælinguna að neðstu prósentin eru skilgreind fátæk óháð efnalegri stöðu. Þannig að fátæktin verður aldrei upprætt meðan það er viðmiðunin, alveg sama hvað börnin fá að bíta og brenna.

Það er afar sennilegt að á Íslandi finnist börn, sem búa við fátækt af ýmis konar völdum, og auðvitað ber okkur að gæta þeirra bræðra okkar og systra. En þessi umræða er auðvitað á fullkomnum villigötum ef það er innbyggt í kerfið að engu skipti hvernig búið er að fólki svo lengi sem einhver finnst, sem kann að hafa það betra. Er þá nokkuð annað ráð en að núllstilla ártalið og taka upp kommúnisma að kambódískri fyrirmynd? Jafna allt við jörðu?

Morgunblaðið tók þetta upp í forystugrein í gær og réði sér ekki fyrir vandlætingu og hneykslan. Ráðin voru augljós, það er glás til af peningum í landinu og nóg að endurútdeila þeim aðeins betur. Það er eins og maður hafi heyrt slíkar hugmyndir áður. Helst var nefnt að hækkun barnabóta gæti ráðið bug á þessum vanda. Dettur einhverjum heilvita manni í hug að einhverjar slíkar kerfisbætur á línuna séu besta leiðin til þess að vinda ofan af þessum illa skilgreinda vanda? Væri ekki nær að finna þau börn, sem búa við raunverulega fátækt og reyna að leysa vanda þeirra hvers og eins, því auðvitað eru aðstæðurnar jafnmismunandi og börnin, sem í hlut eiga.

----------

Annað þessu tengt: Ég hjó eftir því í umræðu um fátæktarskýrsluna, að sérstaklega var nefnt til dæmis um vandann, að til væru börn, sem gengu í notuðum fötum og sum tækju leikföng í arf frá öðrum. Litla fjölskyldan hér á hamingjuheimilinu við Ingólfsstræti býr engan veginn við fátækt þó við séum stundum blönk eins og gengur, en samt gengur heimasætan oft í fötum, sem hún hefur fengið af öðrum, og elstu leikföngin hennar eru síðan úr seinna stríði, þó auðvitað eigi hún líka glæný glitklæði og Slutz-brúður í bland. Okkur er engin minnkunn í því og stóðum raunar í þeirri trú að nýtni væri dyggð á Íslandi. Hér getur lesandinn svo farið með möntru að eigin vali um neysluæði nútímaþjóðfélags hraða og spennu og hugleitt spádóma um veltu jólaverslunarinnar.


Litlir karlar og stórir

Það var undursamlegt að horfa á viðtalsþáttinn með Milton Friedman í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi, sem Bogi Ágústsson stýrði ágætlega. Þessi endursýning frá 1984 var einkar gefandi fyrir frjálshyggjumann á miðjum aldri eins og mig, en einhverveginn hafði mér — 19 ára síblönkum menntaskólanema — tekist að öngla saman fyrir hádegisverðarfundinum, sem andmælendur Friedmans í sjónvarpssal kváðust ekki hafa efni á að sækja.

Friedman var ekki hávaxinn maður, en samt var með ólíkindum að sjá hvað hinir norrænu langintesar, Bakkabræðurnir Stefán Ólafsson, Birgir Björn Sigurjónsson og Ólafur Ragnar Grímsson, voru miklu smærri en hann. Nú, 22 árum síðar, voru skoðanir Friedmans jafnskýrar og lifandi og þá, en hinir vinstrisinnuðu viðmælendur hans voru eins og aftur úr allt annarri öld. Sem þeir vitaskuld voru. Og eru.

En þarna sátu þeir kotrosknir og drýgindalegir, krossleggjandi skankana í takt, og mótbárurnar svo fáfengilegar, einatt á misskilningi byggðar og svo illa fram settar, að aumingjahroll setti að manni. Ég veit ekki hvorum ég vorkenndi meira: þeim að skilja þessa heimild eftir sig eða Friedman að þurfa að ansa þessu rausi í klukkutíma og kortér.

Hitt er svo annað mál, að nú skilur maður betur hina furðulegu grein Stefáns Ólafssonar um Friedman, sem birt var í Lesbók Morgunblaðsins um liðna helgi. En gat Morgunblaðið virkilega ekki sýnt minningu Friedmans meiri sóma en að birta þessa síðbúnu hefnd Stefáns? Að ekki sé minnst á sjálfsvirðingu Lesbókarinnar.


Nýja skjaldarmerkið

Þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands hafi tilkynnt að nýr varnasamningur við Bandaríkin væri meira en fullnægjandi til þess að tryggja öryggi lands og lýðs þurfti norska ríkisstjórnin ekki annað en að ræskja sig á síðum Morgunblaðsins til þess að hin íslenska flýtti sér að hafa samband og óska eftir viðræðum um varnasamstarf ríkjanna. Og til þess að bíta höfuðið af skömminni var herveldið Danmörk dregið inn í viðræðurnar! Finnst mönnum reynslan af varnasamstarfi ríkjanna á öldum áður hafa verið með þeim hætti að ástæða sé til þess að endurnýja það? Aðeins 62 árum eftir að Ísland endurheimti sjálfstæði sitt? Ekki mér.

En fyrir áhugamenn um að Ísland gerist fylki í Noregi — hverjum verður boðin jarlstign núna? — má benda á hið nýja skjaldarmerki, sem sjá má hér að ofan, en einnig geta menn lagt leið sína á Cafépress til þess að kaupa margvíslegan varning merktum hinu nýja skjaldarmerki. Þar hljóta menn að finna jólagjöfina í ár. 


Gróska í fjölmiðlun

Þessi áform Viðskiptablaðsins þykja mér skynsamleg. Útgáfa vikurits er ekki hagkvæm rekstrareining (afsakið orðaleppana) og það er skrykkjóttur taktur í útgáfu tvisvar í viku. En er markaður í dvergríkinu fyrir sértæku dagblaði um og fyrir viðskiptalífið? Nei, tæpast, jafnvel þó kúnnarnir séu með dýpri vasa en gengur og gerist og vilji sjálfsagt borga meira fyrir gott og áreiðanlegt viðskiptablað, sem er án tengsla við stóru viðskiptablokkirnar.

Hvernig er þetta þá gerlegt? Það hlýtur að felast í því að efnistökin færist nær hinum almennu dagblöðum. Það er enda þróunin hjá viðskiptablöðum um heim allan og sú þróun er engan veginn ný af nálinni. Wall Street Journal hóf þá vegferð upp úr seinna stríði, Financial Times (í miklu minna mæli þó) fyrir um tveimur áratugum. Hið sama má segja um viðskiptablöð á Norðurlöndum og í Evrópu. Þar má líka búast við auknu framboði af fréttaskýringum, vönduðu lesefni, menningarumfjöllun og pólitískri orðræðu. Slíkt blað mun sjálfsagt aldrei skáka risunum, en gæti hæglega fengið alveg þokkalega útbreiðslu. En þá ber einnig að líta til þess hvar útbreiðslan liggur, því það er viðbúið að hún ágerist í menntaðri og tekjuhærri hópum þjóðfélagsins. Þeir eru ennfremur ákjósanlegri fyrir auglýsingasalana. Með þeim hætti þarf upplagið engan veginn að ná hæðum Morgunblaðsins og fríblaðanna til þess að útgáfan sé ábatasöm.

Stóra spurningin er hvort að prentmiðlarnir séu einfaldlega ekki á hröðu undanhaldi gagnvart netinu og að þessar fyrirætlanir — líkt og aðrar hræringar á blaðamarkaði — séu þá ekki byggðar á sandi eða einhverjum allt öðrum forsendum en að reka arðvænleg fyrirtæki. Það mun auðvitað reynast misjafnlega eftir miðlum, en ég held að menn eigi ekki að vera of fljótir að kasta rekunum yfir prentmiðlunum. Dagblaðalestur fór vissulega minnkandi eftir því sem vegur netsins jókst, en það hefur ýmislegt breyst undanfarin ár. Þar held ég að Fréttablaðið hafi breytt mestu. Ekki svo að skilja að það sé frábært blað, það er það alls ekki. En með sinni umfangsmiklu frídreifingu vandi það nýjar kynslóðir við blaðalestur, kynslóðir sem ella hefðu sjálfsagt farið þess á mis. Þessir nýju lesendur eru um leið líklegir til þess að skoða önnur blöð þegar þau bjóðast og margir þeirra munu vitaskuld leita í bestu blöðin. Séu blöðin nógu góð vilja þeir jafnvel borga fyrir þau. Þetta kann að reynast lykillinn að grósku á blaðamarkaði.

En á það ekki allt eins við um vikublaðið hennar Sigríðar Daggar Auðunsdóttur? Hugsanlega, en ég verð að játa að ég hef mikla vantrú á því. Ég hef reynslu af útgáfu vikurita og það er vandasamara en margur hyggur að halda þeim úti. Sérstaklega ef fókusinn á að vera á fréttir og fréttaskýringar í litlu landi þar sem lítið gerist. Fyrir nú utan það að ég hef ekki mikið álit á dómgreind og vinnulagi Sigríðar Daggar. En sjáum til, hún talar af metnaði og hver veit nema það rætist úr. Ef hún finnur aurana til þess arna. Það er alls ekki ómögulegt þó sóknarfærin virðist þröng um þessar mundir. Þeir menn eru til á Íslandi, sem eiga næga peninga og virðast endalaust vilja leggja þá í fjölmiðla burtséð frá arðsemisvæntingum. Hvernig skyldi standa á því?

 


mbl.is Viðskiptablaðið fimm sinnum í viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á barnið að heita?

Það skortir ekki á vangavelturnar um næsta áfangastað ritstjórans Sigurjóns M. Egilssonar. Þeir Reynir Traustason, Steingrímur Sævarr Ólafsson, Pétur Gunnarsson og Guðmundur Magnússon hafa allir skynsamlegar bollaleggingar fram að færa um málið og næsta réttar í aðalatriðum. En svo eru auðvitað alls kyns smáatriði og núansar, sem ekki eru jafnljósir, enda margir endar ennþá lausir.

Þó Sigurjón muni vafalaust þiggja aðstoð Jónasar Kristjánssonar skyldi enginn velkjast í vafa um að sme verður einráður kapteinn á skútunni. Formúlan verður enda gamalkunn, þetta verður síðdegisblað af gamla skólanum, prentað undir hádegi. Fréttastefnan ágeng að hætti gamla Dagblaðsins (DB) og Vísis, en á ekki að fara yfir mörkin. Svo munu menn vafalaust lesa sitt í eignarhaldið, sem sjálfsagt verður ekki til þess að lægja öldurnar innan 365, þar sem Pálmi Haraldsson í Fons er farinn að bjóða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni byrginn. Í þeim átökum munu ýmsir hluthafar í 365 vera farnir að spyrja hvernig standi á því að Jón Ásgeir, sem er ráðandi hluthafi í 365, sé jafnframt aðaleigandi miðla í beinni samkeppni við miðla 365. Við endurreisn DV sem dagblaðs utan vébanda 365 mun það varla róa mannskapinn og jafnvel kalla á athygli eftirlitsaðila.

En hvað á barnið að heita? Menn telja að eftir allt sem á undan er gengi taki „brandið“ DV orðið mið af upphaflegri merkingu orðsins, að það sé brennimerki. Og þá eru góð ráð dýr. Íslenskir fjölmiðlar gegna ekki jafnfrjálslegum nöfnum og tíðkast ytra, Boðberinn (Herald), Sólin (Sun) og Vörður (Guardian) klingja ekki fullkomlega á íslensku, en sme er þekktur fyrir gæðaprófa fyrirsagnir með því að syngja þær að hætti blaðasala fyrri ára. Við sme ræddum þetta aðeins áðan og mér heyrðist hann skotnastur í að kalla blaðið Tímann eða Dag. Er mér að vita þó ekki eitt framsóknarbein í drengnum.

Þá er bara að sjá hvort Sigríður Dögg Auðunsdóttir lætur vaða á Helgarpóstinn, Pressuna eða Nýjan stjórnvitring þegar kemur að því að nefna vikublaðið hennar. 


Atvinnumál aðstoðarmanna

Ég sá að Pétur Gunnarsson var að benda á frétt um umsókn Þorsteins Davíðssonar, aðstoðarmanns dómsmálaráðherra, um stöðu héraðsdómara í Reykjavík og er sjálfsagt að gefa eitthvað til kynna um framhaldið. Ég hef enga trú á því og hygg að Ingimundur Einarsson eigi greiðari leið að skipuninni. En Gísli Freyr Valdórsson bendir hins vegar á athyglisverða staðreynd í þessu viðfangi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband