Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Greind, greining og Group

 

Frá greiningardeildum bankanna streyma álitsgerðir og greiningar, spádómar og speki. Ekki er það nú allt jafnfrábært. Það er t.d. minnstætt á dögunum, þegar Kaupþing batt vonir við það í afkomuspá sinni fyrir 365, að „góð innlend dagskrágerð [skilaði] auknum tekjum til félagsins á árinu“. Merkilegt nokk, var ekkert á það minnst að verkfall handritshöfunda vestanhafs (sem allt útlit er fyrir að verði langt og strangt) hafi minnstu áhrif á tekjurnar, en ef grípa þarf til mikilla endursýninga í stað þess að sýna glænýja þætti að vestan, er ekki útilokað að einhverjir áskrifendur fari að hugsa sig um.

Í Morgunkorni Glitnis  í morgun var bent á skýrslu er greiningardeild bankans hefur unnið um lausafjárvandann, stöðu og horfur. Orðið skýrsla er raunar fullhástemmt, því þetta er glærupakki, sem fróðlegt hefði verið að heyra kynninguna með. Ég ætla ekki að rekja efni glæranna, en víkja að niðurstöðunum, sem teknar eru saman aftast í kynningunni. Hvað skyldi nú vera þar efst á blaði?

Við teljum líklegast að sveiflur verði á helstu mörkuðum næstu mánuði

Var það virkilega?! Verða sveiflur á helstu mörkuðum? Og við sem höfðum búist við því að þar myndi ekkert haggast og öll línurit vera flöt! Svona eins og í línuritinu að ofan.

Þetta er sama greiningardeild og benti mönnum á það fyrir rúmum mánuði að kauptækifæri fælust í Kaupþingi, eftir hagnaður bankans var nokkuð undir væntingum.

Við höldum 6 mánaða markgengi okkar á Kaupþingi óbreyttu í 1.320 kr. á hlut og ráðleggjum fjárfestum að kaupa hlutabréf Kaupþings.

Síðan hefur gengi Kaupþings fallið um 17% úr 1.116 kr. í 925 kr. , en í sumar náði það langhæst í 1.280 kr.

FL Group

Áfram má halda. Í frétt hjá Dow Jones Newswires frá í morgun um sölu FL Group á 8% hlut sínum í AMR, móðurfélagi American Airlines, er það haft eftir Árna Frey Ólafssyni, greinanda hjá Glitni, að salan sé jákvæð þar sem hún „minnki áhættuna í eignasafni þeirra“. Heldur hann að FL Group sé lífeyrissjóður?

Annars er svo margháttaður misskilningur í gangi um FL Group, að maður veit ekki hvar á að byrja. Jafnvel stjórnarformaðurinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, virtist ekki vera með eðli félagsins á hreinu í forsíðuviðtali við Viðskiptablaðið í gær:

Þrátt fyrir að markaðsvirði FL hafi lækkað að undanförnu er undirliggjandi rekstur félagsins enn með ágætum.

Undirliggjandi rekstur? Hvaða rekstur hefur fjárfestingafélag með höndum? Fyrir utan smávægilegt skrifstofuhald er hann vitaskuld enginn.  Gengi félagsins ræðst alfarið af því hvernig fjárfestingarnar lukkast og staðan er á mörkuðum, eins og FL Group er að súpa seyðið af núna. En Jóni Ásgeiri er kannski vorkunn, því rekstrarkostnaðurinn hjá FL Group hefur verið ævintýralegur. Óskiljanlegur raunar.

Aftur að greiningu Glitnis á sölu FL Group á AMR-bréfunum: Salan kann í sumra augum að vera jákvæð, því hún eyðir einhverri óvissu um félagið og menn hafa af því áhyggjur að AMR eigi eftir að fara illa út úr frekari hækkunum á olíumörkuðum. En þegar til þess er horft, að  AMR er í þann veginn að selja frá sér umtalsverðar eignir og fjárhagsstaðan því að batna (líkt og Hannes Smárason hvatti til í frægu bréfi), hlýtur það að vekja spurningar um bolmagn FL Group, að það geti ekki beðið þess í von um að hlutafjárverðið hækki ögn.

Í því samhengi er einnig áhugavert að velta fyrir sér gengi hlutabréfa í AMR á undanförnum árum. Sem sjá má á línuritinu voru hlutabréf félagsins nánast penníbréf fyrir fimm árum, en þá hafði erfiður samruni við Trans World Airways og áfallið við árásirnar á Bandaríkin 2001 reynst félaginu þungt í skauti. Árið 2003 tók hins vegar hagur Strympu að vænkast nokkuð ört og vonir voru bundnar við að félagið væri komið á beinu brautina. Sumir töldu jafnvel að hlutabréfaverðið kæmist í svipaðar hæðir og fyrir áratug, þegar það var í ríflega $60. Kannski Hannes hafi verið einn þeirra, en á einhverju hlýtur hann að hafa byggt stöðutökuna í AMR.

Ég veit ekki hvenær FL Group hóf að kaupa hlutafé í AMR, en líkast til gerðist það undir lok árs 2006, því á jólum í fyrra var greint frá tæplega 6% eign FL í félaginu, en þá stóð hluturinn í um $30. Við næstu viðskipti eftir áramót hækkaði gengið nokkuð, í liðlega $40, og hélst á því róli fram í næsta mánuð og einmitt þá ákvað FL Group að auka hlut sinn enn. Síðan fór aftur að halla undan fæti og hefur gengið lækkað jafnt og þétt niður í um $20, þar sem það er nú.

Það er erfitt að átta sig á því hver stefna FL Group gagnvart AMR hefur verið og hvers vegna henni er breytt nú. Eftir á að hyggja mætti halda því fram að FL Group hafi tímasett kaup sín á hlutum í AMR af mikilli nákvæmni til þess að hámarka tap sitt á viðskiptunum, en það nemur um 15 milljörðum króna. Fyrsti bitinn var tekinn þegar AMR var í hæsta verði í meira en 5 ár, en sá síðari einmitt þegar nýju hámarki hafði verið náð. Og nú er selt, þegar það er lægra en nokkru sinni á eignarhaldstíma FL Group í félaginu.

Jú, kannski það sé jákvætt í einhverjum skilningi, því það verður varla við svo búið unað. Það hefur gengið erfiðlega að ná í Hannes til þess að ræða stöðu félagsins við hann, sem hlýtur að teljast verra þegar almenningshlutafélag á í hlut. Mér segir svo hugur um að þegar það næst í hann, verði hugað að uppstokkun í yfirstjórn félagsins.


Mogginn sannar nauðsyn kristinfræðikennslu

Það er talsvert skeggrætt og kristnina og menntakerfið þessa dagana og ég get alveg tekið undir þá gagnrýni, sem fram hefur komið á frumvarp menntamálaráðherra, þar sem fjölmenningargrauturinn er tekinn fram yfir kristindóminn. Siðmenning okkar og siðfræði, sem byggist á snjallri blöndu kristni, gyðingdóms og grískrar heimspeki með síðari lagfæringum og viðbótum, tekur að mínu viti öllu öðru fram. Hún er samofin íslenskri menningu og þjóðlífi, en það væri beinlínis verið að ala á ranghugmyndum með því að láta öðru vísi. Ég tel að menn ættu að hugsa sig mjög vandlega um áður en þeir kasta því fyrir róða í nafni hins fjölmenningarlega umburðarlyndis. Með því væri verið að höggva að rótum þjóðarinnar og við vitum hvernig rótlausum, skjálfandi, litlum grösum vegnar. Verst af öllu þykir mér þó þessi póst-móderníska nálgun, að allt skuli lagt að jöfnu, en með því er í raun verið að innræta börnum, að stórt séð skipti ekkert nokkru máli.

En síðan sé ég í jólablaðinu, sem fylgdi Morgunblaðinu í dag, að það veitir örugglega ekki af aukinni kristinfræðikennslu í íslenska menntakerfinu. Þar er á síðu 83 að finna viðtal Hrundar Hauksdóttur við Láru Sveinsdóttur, leikkonu, sem fer með hlutverk Maríu Magdalenu í væntanlegri uppfærslu Borgarleikhússins á rokkóperunni Jesúsi Kristi súperstjörnu. Þar gætir óviðjafnanlegs misskilnings, sem er opinberaður í fyrirsögn og inngangi:

Leikur móður Jesú Krists

Borgarleikhúsið setur upp á næstunni Súperstar — hina sígildu og kraftmiklu rokkóperu frá 1970. Lára Sveinsdóttir fer með hlutverk Maríu Magdalenu og lék Hrund Hauksdóttur forvitni á að vita hvernig Lára upplifir hlutverk Maríu Magdalenu, móður Jesús Krists.

Það var og. Fyrir utan mismunandi beygingu á nafni frelsarans í fyrirsögn og texta kemur þarna fram ný kenning um uppruna hans. Er virkilega til of mikils mælst að fólk gerir greinarmun á Maríu Magdalenu og Maríu Guðsmóður? Það er ekki eins og menn þurfi að vera doktorar í Nýja-Testamentinu til þess að kunna á því skil, Da Vinci lykillinn ætti að duga. Hér að ofan má hins vegar sjá hluta af málverki Grecos af Maríunum tveimur.

Lára nefnir svo í viðtalinu, að í uppfærslunni komi fram að María Magdalena hafi stundað vændi, en það hefur ekkert að segja;  Hrund kippir sér ekkert upp við það að María mey hafi verið hóra, eins og hún hefur skilið það. Engin frétt í því.

Á venjulegum degi væru svona vinnubrögð eftirtektar og ámælis verð. En í jólablaði? Hrund er heppin að kjarni kristindómsins er takmarkalaus fyrirgefning og kærleikur Guðs.

 

....................

Viðbót 28.XII.2007: Vek athygli á athugasemd frá Hrund Hauksdóttur í athugasemdakerfinu, þar sem hún ber af sér sakir. Rétt skal vera rétt.


Sjá roðann í austri!

Í síðustu viku var umræða um stefnumál hins nýja meirihluta í borginni. Þar hafði Hanna Birna Kristjánsdóttir sig talsvert í frammi og vildi fá að vita hvort nýi meirihlutinn hefði stefnu og hver hún væri ef eitthvað lægi fyrir í þeim efnum. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, svaraði með jafnafdráttarlausum og snaggaralegum hætti og hans er siða, en eftir dúk og disk muldraði hann eitthvað um að það væri alveg skýrt að sér fyndist það ekkert lykilatriði að REI-listinn gerði með sér málefnasamning og kynnti hann sérstaklega.

Nú, já; jæja. Það má svo sem hafa skoðun á þeirri afstöðu borgarstjóra til borgaranna (og hann talar væntanlega fyrir hönd meirihlutans alls), en ég nenni ekki að rekja hana hér. Lesendur og Reykvíkingar eru sjálfsagt fullfærir um það og geta þá endurgoldið Degi trúnaðinn þegar þar að kemur. En ég hjó eftir öðru. Degi fannst þessar spurningar Hönnu Birnu eitthvað óþægilegar, en hann kvað samt ekki ætla að

erfa hofmóðinn eða hortugheitin við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarfulltrúa.


Mér þótti borgarstjórinn tala af fullmiklum myndugleik; svona eins og hinn smurði og goðumlíki konungur borgríkisins hefði af náð sinni ákveðið að sussa á lýðinn fremur en að láta húðstrýkja hann, eins og rétt væri.

En að öllu gríni slepptu: Hefði Dagur látið þessi orð falla við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson eða Gísla Martein Baldursson? Ég held ekki. Ég held þvert á móti að þarna sé borgarstjórinn að tala niður til Hönnu Birnu með þessum hætti og þessum orðum af því að hún er kona. Svona hefði hann aldrei talað til karlmanns.

Hvað ætli Sóley Tómasdóttir, formaður Mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar, hafi um það að segja? Hún tjáir sig oft af minna tilefni.


Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband