Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
31.12.2007 | 18:25
Nú árið er liðið…
Þá er komið að lokum þessa árs, sem um margt var gjöfult en það tók líka á að öðru leyti eins og gengur.
Í stjórnmálunum voru heilar þingkosningar og stjórnarskipti, en jafnþverstæðukennt og það hljómar urðu samt engin stórtíðindi á þeim vettvangi. Nema ef menn vilja ræða um þá pólitísku lífgjöf, sem Geir H. Haarde veitti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og á alveg eftir að trega. Sá dagur kemur.
Framsóknarflokkurinn nánast geispaði golunni í þingkosningunum og á tæpast mikið eftir. Allra síst þegar þeirra helsta vonarstjarna, Björn Ingi Hrafnsson, sýndi hvers trausts hann er verður í stjórnmálum og kaus að láta annarlega hagsmuni ganga fyrir hagsmunum borgarbúa. Önnur vonarstjarna í íslenskum stjórnmálum, Svandís Svavarsdóttir, var valin maður ársins á Rás 2 í dag, sem er mér fullkomlega óskiljanlegt. Víst stóð hún sig vel þegar REI-málið var í uppnámi, en þegar á reyndi kom hún upp um sig sem enn einn valdagírugan stjórnmálamanninn og allar heitstrengingarnar fóru út um gluggann.
Ástandið á mörkuðum hefur verið mörgum hugleikið og ástæða til, þar skiptust á ekki minni skin og skúrir en í veðurfarinu. Ég nenni þó ekki að fjalla um það að sinni, en drep kannski niður penna síðar um það hvers kann að vera að vænta. En það er kannski meiri ástæða til þess að huga að hinum séríslensku efnahagsmálum, sem héldu hraðar til Helvítis á liðnu ári en svartsýnustu menn gerðu skóna. Ekki vegna óvarkárni á mörkuðum, gjaldmiðilsins eða vaxtastigsins; nei, það eru ríkisfjármálin, sem eru á góðri leið með að gera íslenskt efnahagslíf nánast ólæknandi. Nú renna um 47% vergrar landsframleiðslu til hins opinbera, en þar á bænum komast menn ekki lengur yfir það að eyða peningunum, heldur safna þeim líkt og ríkið skil arði! Þriðjungur vinnufærra manna starfar á vegum hins opinbera. Engin teikn eru á lofti um að snúið verði af þessarri óheillabraut, en vandinn grefur um sig, þannig að sífellt verður erfiðara og sársaukafyllra að uppræta hann. Eiga skattgreiðendur enga málsvara eftir á þingi?
Sem rifjar upp aðra óhamingju liðins árs, en það var óvænt og ótímabært fráfall Einars Odds Kristjánssonar, athafnamanns frá Flateyri. Það var mikill skaði og ég syrgi hann mikið.
Verður næsta ár betra? Ég vona það, þó ekki væri nema vegna þess að við kunnum að sjá eðlilegra tíðafar á mörkuðum og í fjármálalífi þjóðarinnar, þar sem menn ganga um sali af áræði en ekki glannaskap, varfærni en ekki deiglu. Ég óttast hins vegar að hinir lýðræðislega kjörnu valdhafar átti sig ekki á þeim vindum og að þar haldi partýið áfram á fullum dampi, enda eru menn þar að eyða annarra manna peningum undir því yfirskyni að án þess fengi fagurt mannlíf ekki þrifist. Það er meinið.
Gleðilegt ár og þakka hið liðna!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.12.2007 | 19:16
de mortuis nil nisi bonum, sed…
Morðið á Benazir Bhutto í Pakistan vekur að vonum ugg um framtíðarhorfur í þessu margbrotna landi og heimshluta. Yfirvöld í Pakistan hafa aðeins völd í landinu að hluta til, alls kyns öfgahópar vaða þar uppi, talíbanar hafa flúið þangað næsta óáreittir og ráða lögum og lofum í Wasíristan, en margir telja að Osama bin Laden hafi fundið þar skjól, vafi leikur á hvar hollusta leyniþjónustunnar liggur, réttarfarið er illilega mengað af steinaldarlögbók múslima, einræðisstjórn Musharrafs hershöfðingja stendur tæpar en margur hyggur og landið er kjarnorkuveldi. Það er því full ástæða til þess að hafa áhyggjur af næstu dögum og framtíð landsins.
Ég verð hins vegar að játa að mér þykir alveg nóg um hvernig menn eru þegar farnir að taka frú Bhutto í dýrðlinga tölu, að því er manni virðist fyrir það eitt að hún féll fyrir morðingja hendi. Bæði herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hafa talað um eins og hún hafi verið frelsisins hinsti kyndilberi og nú píslarvottur lýðræðisins.
Rómverjar kenndu okkur að um hina látnu skyldi ekkert mæla nema gott eitt, en það á ekki alltaf við, þó ekki væri nema í von um að menn læri að varast víti þeirra, sem á undan gengu. Í þessu tilviki er eins og menn gleymi því fullkomlega að sjálf tíðkaði Benazir Bhutto ekki alltaf lýðræðislega stjórnarhætti, mannréttindi voru henni ekki helgur bókstafur og stjórnarhætti hennar mætti fremur nefna þjófræði en lýðræði. Ekki nóg með það, heldur þótti hún aukin heldur alveg sérdeilis óhæfur leiðtogi, ekki aðeins á mælikvarða Pakistans, heldur Asíu allrar og hefur sú álfa þó haft úr einvalaliði óhæfra og spilltra einræðisherra að spila á umliðnum áratugum.
Menn gætu haft það hugfast að Bhutto var tvívegis kjörin forsætisráðherra, en í bæði skiptin sett af vegna spillingar af sitt hvorum forsetanum. Einhverjir kunna að spyrja hvort það hafi ekki aðeins verið upplognar sakir til þess að koma frá þessari fyrstu konu í forystu múslimaríkis, en þá má minna á að yfirvöld í Frakklandi, Póllandi, Spáni og Sviss hafa einnig tekið þátt í saksókninni, líkt og Interpol, sem gaf út handtökuskipun á hendur henni og eiginmanni hennar á síðasta ári. Það segir svo sína sögu, að hluti af samkomulagi Bhutto við Musharraf hershöfðingja var sakaruppgjöf, niðurfelling á öllum ákærum og að Pakistan legðist ekki áfram gegn því að hún fengi aðgang að svissneskum bankareikninum sínum, þar sem hún hafði nurlað saman jafnvirði tæpra 100 milljarða íslenskra króna með útsjónarsemi.
Aðrir hafa sagt sem svo, að hún kunni að hafa verið fingralöng, en ástæða hafi verið til þess að líta hjá því, þar sem Musharraf sé of veikur fyrir til þess að geta haldið aftur af hinum íslömsku öfgaöflum, en með hennar tilstyrk gæti það gengið. Má vera, en fortíðin gaf ekkert sérstök fyrirheit um það. Þegar talíbanar komust til valda í Afganistan fagnaði Bhutto því og taldi að þeir gætu komið friði og ró á í landinum, þó aðferðirnar væru nokkuð harkalegar. Hún vonaðist til þess að valdataka talíbana gæti opnað markaði í Mið-Asíu og sendi þeim bæði fjárhags- og hernaðaraðstoð.
Musharraf hélt tryggð við þá stefnu þar til árásirnar á Bandaríkin árið 2001 sannfærðu hann um að þeir væru vondur félagsskapur. En það er ekkert sem bendir til þess að hann eigi von um að brjóta öfgahópana á bak aftur eða að innan hersins sé raunverulegur vilji til þess. Sagt er að hann hafi gert sér grein fyrir því og þess vegna samið við Bhutto um heimkomuna í von um að saman ættu þau meiri sjens. Stofufangelsun hennar var sjónarspil og margir töldu að hún væri aðeins þáttur í miklu og löngu leikriti þeirra Bhuttos og Musharraf. Ómögulegt er að segja hvað hæft var í því og það skiptir enda litlu máli úr því sem komið er.
Auðvitað er leitt að Benazir Bhutto skyldi falla fyrir morðingjum og vandi Pakistans er ekki minni nú en fyrr, en það gerir hana hvorki að móður Teresu né Ghandi. Einu gildir hver stóð þar að baki, en um það er allt á huldu skilst manni, þó ég heyri það í Ríkissjónvarpinu, að Jón Ormur Halldórsson sé búinn að leysa morðgátuna úr fjarska.
Hörmuleg áminning um fórnir sem færðar eru fyrir lýðræði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.12.2007 | 13:35
Hægrimenn sniðgengnir í Silfrinu
Um daginn ákváðu nokkrir femínistar að sniðganga Silfur Egils vegna þess hvernig þeim þótti Egill Helgason velja sér viðmælendur. Þótti þeim hann á einhvern hátt ekki gera sjónarmiðum femínismans nægilega hátt undir höfði og nefndu jafnvel til lagaákvæði um skyldur Ríkisútvarpsins við að gæta hlutleysis og allt það.
Í Silfrinu áðan voru þau Guðfinna S. Bjarnadóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Jón Magnússon, Aðalsteinn Baldurson og Margrét Pála Ólafsdóttir að ræða málefni dagsins. Hvernig stendur á því að ekki var einn einasti viðmælandi þarna, hægra megin við miðju? Kosningaúrslit og skoðanakannanir benda til þess að hægrisinnuð viðhorf njóti nokkurrar útbreiðslu í þjóðfélaginu.
Það er helvíti hart fyrir hægrimann eins og mig að þurfa að þola það í eigin húsum, að finnast Jóni Magnússyni og Margréti Pálu mælast skynsamlegast fyrir um ástand og horfur í stjórnmálum.
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar