Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
14.1.2008 | 03:02
Dellumakarí í Silfrinu
Ég var að horfa á Silfur Egils nú áðan og þar kom ýmislegt forvitnilegt fram. Nefni nokkur dæmi:
Álfheiður Ingadóttur, þingmaður vinstrigrænna, vitnaði í tvo aðra stjórnmálamenn. Annars vegar Halldór Blöndal, fyrrverandi forseta Alþingis, sem hefði játað það í pistli í Morgunblaðinu í dag að hafa aulast til þess í forsetatíð sinni að fallast á flutning hússins að Vonarstræti 12 bak við Herkastalann, nú teldi hann óhjákvæmilegt að endurskoða þá ákvörðun vegna þess, sem væri að gerast við Laugaveg. Lofaði hún svo Halldór fyrir það að vera annan tveggja stjórnmálamanna, sem hefðu séð að sér og játað mistök. Hinn væri Árni Þór Sigurðsson, samflokksmaður hennar. Já, má vera og enginn efast um að þeir Halldór og Árni Þór eru ærlegir stjórnmálamenn.
En hversu mikils virði eru slíkar játningar? Ég man líka eftir iðrunartárum Árna Þórs, Dags B. Eggertssonar, upprennandi leiðangursstjóra, og fleiri R-listamanna þegar á daginn kom að Hringbrautarflutningurinn var algert heimskuklúður frá upphafi til enda. Við erum hins vegar enn að bíða eftir yfirbótinni og á henni bólar ekki. Hún kom ekki hjá R-listanum og það hefur ekki heyrst múkk um hana hjá REI-listanum. Vegfarendur mega hins vegar enn þola þennan óþolandi umferðartappa, sem myndast daglega þar sem hin flutta Hringbraut slengist inn á gamla bútinn milli Snorrabrautar og Lönguhlíðar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sá alkunni hófsemdarmaður í málflutningi, sem nú er í samstarfi við samviskulausa síbrotamenn og mexíkóskan bófaflokk eins og hann komst að orði um Sjálfstæðisflokkinn síðastliðið vor, hafði ýmislegt til málanna að leggja. Sérstaklega hvað varðaði leiðara Morgunblaðsins um vinnubrögð vegna skipunar í embætti héraðsdómar. Árni Páll var beinlínis miður sín yfir þessu öllu saman og kallar hann þó ekki allt ömmu sína:
Mér finnst leiðarahöfundurinn hafa verið í alveg ótrúlegri skógarferð. Mér fannst sérstaklega ómaklegt núna í vikunni hvernig hann í leiðara fór að vega að starfsheiðri og faglegum heiðri Péturs Kr. Hafstein og dómnefndar um hæfi dómarefna, sem er algerlega með þeim hætti að maður átti ekki til orð yfir þeirri framgöngu.
Að vísu tókst Árna Páli að lokum að finna allnokkur orð um hana, en um hvað er hann eiginlega að tala? Það má lesa umrædda forystugrein Morgunblaðsins hér en í henni er alls ekki að finna neinar þær ávirðingar, sem Árni Páll þykist hafa lesið þar. Í forystugreininni er sagt að nefndin hafi farið út fyrir valdsvið sitt og raunar seilst til valda. Ég er sammála þeirri greiningu, en jafnvel þó svo ég væri það ekki, þætti mér það alveg gild skoðun og umræðunnar virði. Hinn vammlausi og heilagi Árni Páll vill hins vegar ekki einu sinni ræða það og telur það ganga guðlasti næst að efast um óskeikulleik Péturs Kr. Hafstein. Hvaða della er þetta?
Dellan átti þó eftir að verða meiri í þættinum og enn var það Morgunblaðið, sem var til umfjöllunar. Að þessu sinni var það Reykjavíkurbréf fyrri helgar, sem hafði vakið hugsuðina til umhugsunar, en þar hafði verið fjallað sérstaklega um stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og færð rök fyrir því að forystu Sjálfstæðisflokksins hafi orðið á veruleg skyssa með því að efna til þess samstarfs. Fastir lesendur mínir þekkja vafalaust svipað stef úr þessum penna og það hefur svo sem mátt heyra og sjá víðar, enda þarf ekki mikla nasasjón af refskák stjórnmálanna til þess að átta sig á afleiknum.
Flestir hafa nefnt til hið augljósa, að Geir H. Haarde hafi skorið Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur niður úr þeirri snöru, sem hún hafði sjálf snúið sér, en án þess vinarbragðs væru hennar pólitísku dagar sjálfsagt taldir. En þá líta þeir hjá hinu, að með því margefldi Geir einnig erindi Samfylkingarinnar, sem er eini raunhæfi keppinautur Sjálfstæðisflokksins um hina víðfeðmu miðju íslenskra stjórnmála eftir að Framsóknarflokkurinn lagðist banaleguna.
Morgunblaðinu hefur orðið það á að benda á þetta og uppskar það m.a. að forsætisráðherra varði rými í að mótmæla þeim aðfinnslum í áramótagrein sinni í blaðinu. Sem sýnir að hann tekur þær ásakanir alvarlega, þó hann vilji ekki gangast við réttmæti þeirra og svari þeim með einhverjum flatneskjum um að hann sýti það ekki að hafa blásið lífi í hnignandi stjórnmálahreyfingu og ýmsa forystumenn hennar, sem ella hefðu horfið af hinu pólitíska sjónarsvið, enda líti hann ekki á það sem sitt meginhlutverk sem forystumaður í stjórnmálum sé að koma öðrum stjórnmálaforingjum fyrir pólitískt kattarnef
Nei, auðvitað er það ekki meginhlutverk neins stjórnmálamanns að gera úti um pólitíska framtíð keppinauta sinna, það verður hver og einn stjórnmálamaður að gera fyrir sig. En markmið hvers stjórnmálamanns hlýtur að vera að sannfæra kjósendur um ágæti sitt, stefnumála sinna og grundvallarskoðana og fái hann til þess umboð að gera sitt ýtrasta til þess að hrinda téðum stefnumálunum í framkvæmd og greiða götu grundvallarskoðana þeirra, sem kjósendur hans samsömuðu sig með. Liggur það ekki í augum uppi? Um leið hlýtur hann að forðast það að ýta undir framgang annara stjórnmálaskoðana og sérstaklega þeirra, sem líklegastar eru til þess að verða til spillingar eigin hugsjónum eða Þrándur í Götu.
Kannski þarna sér fundinn munurinn á pólitíkusi og stjórnmálaleiðtoga. Pólitíkusinn býður sig bara fram til þess að fá að vera með í leiðangrinum og þykist jafngóður og hver annar til þess að leysa aðsteðjandi vanda á leiðinni. Og getur jafnvel verið það. Stjórnmálaleiðtoginn veit hins vegar hvert leiðin liggur og til hvers hún er farin. Þá velur hann ekki þá samferðamenn, sem líklegastir eru til þess að afvegaleiða hann, tína af honum fylgið eða yfirgefa á ögurstundu.
Þess vegna var sannarlega athyglisvert að hlýða á viðhorf þeirra pólitíkusa, sem voru gestir Egils að þessu sinni, þeirra Álfheiðar Ingadóttur, Árna Páls Árnasonar, Björns Inga Hrafnssonar og Ragnheiðar E. Árnadóttur. Þeim þóttu það firn mikil að Morgunblaðið hvetti til langtímamarkmiða í stjórnmálum og að stjórnmálamenn hugsuðu lengra en einn leik í einu. Þetta var augljóslega hugsjónalaust fólk, allt með tölu. Viðfangsefni dagsins eru tæk til pólitískrar afstöðu sem flokkarnir eiga þá væntanlega að taka fyrirsjáanlega og andstæða afstöðu til en hugsjónir og langtímahagsmunir gilda einu. Það er þá gott að vita það.
Þá má hins vegar velta fyrir sér til hvers er verið að kjósa þetta lið til fjögurra ára. Eða til hvers er yfir höfuð verið að kjósa stjórnmálamenn til valda. Ef þetta streð allt snýst aðeins um einhver minniháttarúrlausnarefni dagsins, má þá ekki allt eins eftirláta þau grandvörum embættismönnum, sem vinna samkvæmt faglegum ferlum (eins og við erum fullvissuð um að þeir geri allir)? Þarf eitthvert fulltrúaþing til þess? Við gætum þá bara tekið upp sæmilega upplýst einveldi og krýnt einhvern huggulegan, vel menntaðan mann til þess að stýra ríkinu, gjarnan með doktorspróf. Gott ef við eigum ekki einn slíkan!
Nei, auðvitað er því ekki þannig farið. En við vitum þá hvert erindi ofagreindra í stjórnmálum er: ekkert.
Á sinn hátt má segja að það sé jafnframt vandi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna í hnotskurn, að erindi þeirra í stjórnmálum er fjarskalega óljóst. Treystir einhver sér til þess að tilgreina hver eru höfuðmarkmið ríkisstjórnarinnar umfram almennt suð um að hún vilji elska sitt land, auðga sitt land, efla þess dáð og styrkja þess hag? Jafnvel eftir að hafa lesið stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er það ekki létt verk. Ekki einu sinni um stórpólitískustu mál samtímans. Enn síður þegar hlýtt er á forystumenn stjórnarflokkanna, sem tala af stakri kurteisi í kross í flestum málum, en sjaldnast þannig að hönd sé á festandi.
Ekki minnkaði dellan þegar Grétar Mar Jónsson gekk í salinn til þess að ræða kvótakerfið í ljósi þess álits, sem meirihluti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna lét frá sér um daginn. Hann tönnlaðist á því að nú væri Íslendingum ekki stætt á því að fjalla frekar um málið fyrst nefndin hefði mótað álit sitt. Rétt eins og málið hefði aldrei verið rætt hér af neinu gagni. Að rökræða undanfarinna 24 ára skipti engu fyrir áliti þessara herra. Meira um það síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.1.2008 | 06:04
Fréttablaði flett
Það er vinsælt sport hér á Moggabloggi að blogga um fréttir af mbl.is, bæði af því að þær vekja menn gjarnan til umhugsunar en eins er mér sagt að það sé afar vænleg leið til betri lesturs. Af einhverri ástæðu hefur Vísisbloggið aldrei náð sér almennilega á strik og fyrir vikið er ekki bloggað um fréttir Vísis og Fréttablaðsins af sama móð og Árvakursmegin í tilverunni. Fréttablaðið var að detta hér inn um lúguna og því datt mér í hug að bæta aðeins úr þessu. Næg er tilefnin. Að neðan eru nokkrar fyrirsagnir úr blaðinu í dag og mislangar athugasemdir þar um.
Meta hvort forsendur fjárlaga séu brostnar
Helsta forsíðufrétt blaðsins segir af því að Fjárlaganefnd Alþingis undir forsæti Gunnar Svavarssonar hafi af því áhyggjur að verðfallið í Kauphöllinni geti orðið til þess að skattheimtur verði mun lægri en ráð var fyrir gert við samningu fjárlaga, við blasi að fjármagnsskattur verði ekki svipur hjá sjón og fyrirsjáanlegt er að tekjuskattur fyrirtækja verði rýrari. Já, þær eru margvíslegar áhyggjurnar! Ég deili þeim hins vegar ekki, því skatttekjur hins opinbera eru komnar á það stig að til mestu vandræða horfir. En þar fyrir utan gera þessi ömurlegu fjárlög ráð fyrir því að 30 milljarða króna afgangur verði af þeim, sem er ekki aðeins heimskulegt heldur rangt. Siðlaust jafnvel. En þess vegna er nóg borð fyrir báru og tollheimtumennirnir þurfa ekki að grípa til nýrra óþokkabragða gegn skattborgurum.
Meirihluti styður borgarstjórn
Fyrirsögnin er reyndar eilítið brosleg, því varla bjuggust menn við að meirihluti borgarbúa væri á móti borgarstjórn?! Hér er vitaskuld átt við að nýi meirihlutinn njóti stuðnings meirihluta borgarbúa ef marka má könnun Fréttablaðsins. Það kemur mér ekki á óvart, enda sæmilega í takt við niðurstöður síðustu kosninga, þó fylgið á vinstri vængnum hafi þéttst á Samfylkinguna, sem er nokkur sigur fyrir Dag B. Eggertsson. Samkvæmt könnuninni kæmu frjálslyndir ekki manni að (sem ég efa að yrði raunin ef kosið væri) og sömuleiðis myndi Björn Ingi Hrafnson falla út. Á því hef ég meiri trú, hann rétt marði þetta síðast sem ungi, ferski gaurinn með hugmyndagnótt og hugrekki, en núna er hann bara enn einn falur framsóknarmaðurinn.
Samkvæmt könnuninni héldi Sjálfstæðisflokkurinn sínu miðað við kosningar, sem ég kalla gott. Ég hefði allt eins átt von á því að hann væri kominn niðurí 35-7% eftir allan vandræðaganginn. Svo vekur furðu að maður ársins, Svandís Svavarsdóttir (sem hefur haft sig mikið í frammi á opinberum vettvangi og átti fínan performans framan af í REI-málinu), skuli ekki fiska betur. Hún er komin aftur í kjörfylgið (rétt rúm 13%) eftir að hafa verið í 20% þegar REI-málið stóð sem hæst. Mig grunar að hún hafi gengisfellt sjálfa sig og flokkinn með því að hoppa beint upp í með Binga eftir allar heitstrengingarnar. Þegar hugsjónirnar eru til salgs vill yfirleitt enginn kaupa.
Ásakanir saksóknara brot á mannréttindum
Texanski saksóknarinn Mike Trent skrifaði athugasemd á blogg Öldu Köldu, þar sem hún fjallaði um málefni Arons Pálma Ágústssonar, sem var sem unglingur dæmdur til tíu ára varðhalds vegna kynferðisbrots gagnvart barni þar vestra. Taldi Trent fréttaflutning af málinu á Íslandi illa brenglaðan og vildi leiðrétta þann misskilning. Kvað hann Aron Pálma hafa átt skilið 40 ár fyrir brot sín, en þau hafi verið mun fleiri en ákært var vegna. Aron Pálmi hefur sagst ætla að sækja manninn til saka fyrir ummæli sín, en Björg Thorarensen, lagaprófessor, segir í samtali við Fréttablaðið að þau ummæli ekki myndu standast stjórnarskrá hér á landi eða mannréttindasáttmála Evrópu. Ég er ekki viss um réttmæti þess. Mætti saksóknari t.d. aldrei færa í tal einhver brot Steingríms Njálssonar ef rannsóknargögn hefðu spillst svo að ekki var unnt að gefa út ákæru? Eða ef hann teldi sýknu dómara fráleita? En fórnarlambið, mætti það tjá sig? Það gæti verið athyglisverð umræða.
Á hinn bóginn þykja mér ummæli Braga Guðbrandssonar, forstjóri Barnaverndarstofu, ekkert minna en einkennileg: Svona gera menn í opinberum embættum ekki, og þykir mér sem hann gangi ekki heill til skógar, segir Bragi um Trent. Hvað má segja um þau ummæli? Að svona geri menn í opinberum embættum ekki og því vafamál að Bragi gangi heill til skógar? Ég hef engar forsendur til þess að meta réttmæti frásagnar Trents (eða geðheilbrigði hans og Braga), en hitt er annað mál að flest það, sem ég hef séð eftir Aroni Pálma haft eftir komuna til Íslands, finnst mér benda til þess að raunveruleikaskyn hans sé með öðrum hætti en gengur og gerist. Eins hefur mér þótt margir fullfljótir á sér að fordæma réttvísina í Texas. Þar var fyrir allmörgum árum ákveðið að feta þann veg, sem margir hafa mælst til þess að valinn verði hér á landi: að kynferðisbrot gegn börnum mættu engu þolgæði (zero tolerance) og að fyrir yrði refsað án afsláttarkjara. Ég hef ekki orðið var við að áköll um aukna refsigleði í þessum efnum hafi minnkað hér á landi, en þegar Íslendingur í útlöndum á í hlut virðast aðrar reglur eiga að gilda.
Ellefu þúsund manna varðlið stöðvi ofbeldi gegn börnum
Það eru samtökin Blátt áfram, sem vilja mennta liðlega 11.000 manns, aðallega opinbera starfsmenn, til þess að vera vakandi og til varnar gagnvart ofbeldi gegn börnum. Þetta er af góðum hug gert, en ég hef ákveðnar efasemdir. Blátt áfram fékk leyfi til þess að sýna vakningarleikrit í skóla annarar dóttur minnar í haust, þar sem ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og vanræksla komu einkum við sögu. Það er skemmst frá að segja að það var allt í steik í yngri bekkjunum eftir ósköpin. Dóttir mín varð miður sín yfir illsku mannanna og uppfull af spurningum, sem átta ára börn eiga ekki að þurfa að velta fyrir sér. Það var þó ekkert hjá því sem önnur telpa gekk í gegnum, en sú hafði illu heilli orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hún hljóp í algeran baklás og upplifði allt ógeðið upp á nýtt fyrir framan skólasystkini sín, en fyrir slíkum viðbrögðum höfðu þessir snillingar ekki hugsað. Til þess að bæta gráu ofan á svart var tönnlast á flatneskjunni um að barnaníð væri sálarmorð og hún, átta ára grey, spurði hinnar augljósu spurningar: Er sálin í mér dáin?
Ég hef líka efasemdir um þetta tiltekna átak. Mér hefur oft þótt nóg um hvernig hræðslan við barnaníð hefur gagntekið fjölda fólks og gert lífið ljótara með því að ala á tortryggni. Um það skrifaði ég kjallaragrein í Blaðið á sínum tíma, sem lesa má hér. Auðvitað ber okkur að halda vöku okkar og gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að bjarga börnum frá slíkri ógæfu. En það eru þekkt mörg ljót dæmi um hvernig slík árvekni getur breyst í martröð þegar fólk fer fram úr sér. Ég veit um dæmi þess hér á Íslandi að mál hafa ratað til barnaverndaryfirvalda af tilefnislausu og án þess að nokkur fótur væri fyrir, jafnvel þannig að afsanna mátti á frumstigi. En allt kom fyrir ekki, því enginn vildi bera ábyrgð á því að hafa ekki tilkynnt um eitthvað sem kannski gæti verið til í, en á hinn bóginn fylgir engin ábyrgð því að tilkynna um slíkan grun eða leggja fram tilhæfulausar eða beinlínis rangar ásakanir. Þær geta fylgt fólki út lífið og börnin eru flögguð í skýrslum alla skólagönguna.
Kerry styður Barack Obama
Er það gott eða grikkur?
Fær ekki styrk frá Mosfellsbæ
Mosfellssveitungurinn fyrrverandi, Hlynur Smári Sigurðsson, sem dæmdur var í þriggja ára fangelsi í Brasilíu fyrir kókaínsmygl þangað (!) vorið 2006, er ekki hress með að ósk hans um fjárhagsstuðning frá Mosfellsbæ skuli hafa verið hafnað. Faðir hans er engu blíðari á manninn yfir þeim málalyktum. Hlynur situr í næturfangelsi, en frá sex á morgnana til tíu á kvöldin er hann frjáls ferða sinna. En það er höggormur í hverri Paradís og Hlynur Smári þar að afla sér viðurværis sjálfur. Svo auðvitað krefst hann dagpeninga frá hinu opinbera! Er ekki allt í lagi?
Elta ekki ólar við yfirlýsingar Árna
Embættisskipanir valda ávallt deilum, en hún er að komast í harla einkennilegan farveg þessi um skipun héraðsdómara við héraðsdóm Norðurlands og Austurlands. Menn geta deilt um ákvörðun Árna M. Mathiessen eins og þeir hafa lyst á, en mér þykir þessi matsnefnd Péturs Kr. Hafstein vera komin langt út fyrir hlutverk sitt og valdsvið. Sýnist raunar að hún sé að reyna að taka sér völd, sem er grafalvarlegt mál og nær að nefndin segði af sér vegna þess en að hún sé stefnandi fjölmiðlum niður í dómhús til þess að gefa yfirlýsingar um hvers vegna hún segir ekki af sér eins og áður hafði verið hótað. Þess í stað er ráðherrum hótað aleiðingum vegna embættisskipana í framtíðinni! Ég veit ekki hvort það teygist meira úr málinu, en hitt er annað mál (og skrýtið að enginn skuli hafa tekið það upp) að embættisskipunarsaga Péturs Kr. Hafsteins sjálfs er afar forvitnileg, sérstaklega í því ljósi sem hann hefur tendrað hvað ákafast að undanförnu.
Ásökunum um svik neitað
Mál Sögu Capital gegn Dögg Pálsdóttur er forvitnilegt svo ekki sé meira sagt, en hún og sonur hennar slógu 560 milljóna króna lán hjá fjárfestingarbankanum til þess að kaupa stofnfjárbréf í SPRON síðasta sumar. Eftir að hlutabréf í SPRON voru skráð á markað í vetrarbyrjun hafa þau kolfallið og eru nú aðeins um 42% af skráningargengi hinn 23. október 2007. Nú vill Dögg ekki borga vegna þess að Gunnar Þór Gíslason, stjórnarmaður í SPRON sem jafnframt á hagsmuna að gæta í Sögu Capital,hafi stundað siðlaus innherjaviðskipti með stofnfjárhluti sína. Kaupverð Daggar hafi miðast við 100 milljarða króna heildarverðmæti á SPRON en á þeim tíma hafi stjórn SPRON verið kunnugt um að verðmat Capacent á bankanum næmi 60 milljörðum. Gunnar Þór blæs á þetta og segir verðmat Capacent hreint ekki hafa farið leynt þó það hafi farið fram hjá Dögg. Eða eitthvað þannig.
Þetta mál á eftir að skýrast betur fyrir dómi, en mér finnst hér komið enn ein röksemdin fyrir eflingu Fjármálaeftirlitsins, hertri og tvímælalausri löggjöf um fjármálastofnanir og hlutafélög og endurmenntun dómara, svo þeir skilji um hvað þessi mál snúast.
Ekki á forræði bæjaryfirvalda
Það eru sumsé kjarnorkuvopn, sem ekki eru á forræði bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ. Er gott til þess að vita að bærinn er ekki kjarnorkuveldi, enda væri ljósanóttin þá vafalaust með öðrum brag. Bæjarráðið hafnaði sumsé erindi Samtaka hernaðarandstæðinga um að lýsa sveitarfélagið kjarnorkuvopnalaust. Þetta minnir á það þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og aðrir fulltrúar Kvennaframboðsins í borgarstjórn Reykjavíkur báru fram tillögu um það í lok Kalda stríðsins, að Reykjavík yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Davíð Oddsson, sem þá var borgarstjóri, tók tillögunni vel, en taldi þó að ekki bæri að flana að neinu. Hann myndi því styðja það, að Árbæjarhverfi yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði til reynslu. Gæfist það vel væri sjálfsagt að lýsa Reykjavík alla kjarnorkuvopnalaust svæði að reynslutímanum loknum. Af einhverjum ástæðum dagaði tillaga Kvennaframboðsins uppi.
Kjarnorka fær uppreisn æru
Það er í Bretlandi en ekki Reykjanebæ, sem þessi undur hafa gerst. Stjórnvöld hafa ákveðið að leggja áherslu á orkubeislun í kjarnorkuverum til þess að stemma stigu við útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá olíu- og kolaknúnum orkuverum. Umhverfisverndarsinnar vita ekki í hvorn sandalann þeir eiga að stíga.
Hart tekið á unglingadrykkju
Það þykir fréttaefni að lögreglan á Eskifirði hafi síðan í sumar framfylgt áfengislögunum, en þau eru að stofni til síðan 1928.
Skólastarf lagað að kennaraskorti
Hæstu einkunn, sem ég hef fengið um dagana, fékk ég árið sem ég var utanskóla í menntó. Hina næsthæstu fékk ég árið sem langa kennaraverkfallið var. Þannig að kannski ég sé haldinn ákveðnum fordómum. En þessi aðlögun skólastarfsins, sem fyrirsögnin vísar til, felst í að fækka kennslustundum og þykir nánast aðdáunarverð aðlögunarhæfni. En það er svo skrýtið að mitt í þessari kennaraeklu eru skólastofurnar stappfullar af aðstoðarkennurnum, ekki má á það minnast að stefnan um skóla fyrir alla hafi kannski ekki tekist sem skyldi, einsetning skóla er órfrávíkjanleg kredda, og allra síst má minnast á að breyta þyrfti launakerfinu þannig að verðlauna mætti góða kennara, bæði til þess að halda í þá og grisja hina óhæfu jafnharðan frá. Þar ber hin pólitíska forysta kennara mikla ábyrgð.
Þarf að undirbúa opinberar framkvæmdir
Þetta er skoðun Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Villi veit hvað hann syngur. Til allrar óhamingju hefur þessi tíska ekki enn breiðst út hjá hinu opinbera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.1.2008 | 18:15
MMMM!
Fjögur þúsundasta tölublað elsta dagblaðsins á íslenska vefnum kom út í dag. Það er Vef-Þjóðviljinn, sem hér um ræðir, en hann hefur komið út á hverjum degi frá 24. janúar 1997 og fagnar því 11 ára afmæli sínu eftir 2½ viku.
Það þarf mikla elju til þess að halda úti skrifum af þessu tagi hvern einasta dag ársins, því ekki gefur líðandi stund alltaf augljós tilefni til brýninga og athugasemda eins og Vef-Þjóðviljinn hefur flutt í meira en áratug. En þau finnast nú samt og list Vef-Þjóðviljans er einmitt sú að gera það með talsverðum broddi og er fátt óviðkomandi: þar má finna umfjöllun um menningu og dægurmál rétt eins og stjórnmál og sagnfræði. Í ljósi þess að útgáfan heitir Andríki eru tilefnin þó jafnan næg, því erindrekar hins opinbera virðast óþreytandi við að leggja nýjar hömlur á borgarana og blása báknið út. Einu virðist gilda þótt nýfrjálshyggjuöflin í Sjálfstæðisflokknum hafi verið við völd í bráðum 17 ár, að því er manni skilst á vinstrimönnum.
Til allrar hamingju er Vef-Þjóðviljinn málgagn klassískrar frjálshyggju, en ekki þessarar nýju, vondu, sem er í þann veginn að sjá til þess að meira en helmingurinn af striti landsmanna renni til hins opinbera, sem svo ráðstafar gæðunum af óendanlegri ráðdeild sinni og skynsemi. Ætli það sé nokkur hætta á að hið opinbera muni láta þar staðar numið?
Þetta samsetta stöpla- og línurit sýnir glögglega skelfilegar afleiðingar hinnar taumlausu nýfrjálshyggju, sem er á góðri leið með að gera hagkerfið fullkomlega sósíalískt. Skyldi þar vera fundin enn ein skýring útrásarinnar? Að menn séu aðeins að freista þess að bjarga verðmætum undan eyðileggingarafli hins opinbera?
Nei, erindi klassísks frjálshyggjudagblaðs eins og Vef-Þjóðviljans hefur glögglega aldrei verið meira en einmitt núna. Öfugt við önnur blöð nýtur það engra tekna frá hinu opinbera, heldur er það rekið í sjálfboðavinnu og fyrir frjáls framlög lesenda, auk þess sem að hin ágæta Bóksala Andríkis skilar einhverjum tekjum. Það er full ástæða til þess að skora á fólk að styðja þetta góða og nauðsynlega framtak með því að láta fé af hendi rakna. Það má bæði gera með föstu framlagi, sem dregið er mánaðarlega af krítarkorti, eða með því að leggja inn á reikning útgáfunnar: reikningsnúmer hennar er 0512-26-000200 og kennitalan 510795-2379. Væru 4.000 krónur ekki við hæfi? Króna fyrir hvert tölublað er ekki mikið.
Umfram allt skiptir þó máli að lesa Vef-Þjóðviljann. Daglega!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.1.2008 | 01:25
Þjófkenningar
Ég á erfitt með að botna í fréttaflutningi 24 stunda af bókaþjófnaði í Kvaransfjölskyldunni. Þar fær sá stálheiðarlegi náungi Hjörleifur B. Kvaran, núverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, að tjá sig að vild um hvað orðið hafi um bækur, sem hurfu úr dánarbúi föður hans, Böðvars E. Kvaran. Böðvar var annálaður bókamaður og átti margvíslega dýrgripi, þó mér sýnist nú raunar að verðmat Hjörleifs á þeim sé út úr öllu korti, en í fréttinni er rætt er um hundrað milljónir í því samhengi. Þá hefur verðlagið á fornbókum heldur betur breyst á skömmum tíma.
Hið merkilega er að Hjörleifur talar enga tæpitungu, en vanalega verst hann allra frétta í fjölmiðlum, ekki síst þegar um ræðir eignaumsýslu hans sjálfs fyrir almenning. Hann kveðst vita að bækurnar hafi ratað í fornbókaverslun feðganna Braga Kristjónssonar og Ara Gísla Bragasonar og gott betur, þeir séu beinlínis samsekir þjófnum: Það er ljóst að eigendur verslunarinnar voru vitorðsmenn í málinu, segir Hjörleifur hiklaust og gefur eitt og annað fleira til kynna.
Blaðamaðurinn Freyr Rögnvaldsson, sem skrifar fréttina, virðist ekki með forvitnari mönnum, því hann spyr ekkert út í önnur málsatvik en þau sem Hjörleifur tilreiðir honum. Til dæmis með hvaða hætti bókunum hafi verið stolið eða hver þjófurinn hafi verið. Lesandinn getur eiginlega enga ályktun dregið af fréttinni aðra en að þeir feðgar séu glæpamennirnir og engir aðrir. En það er þá sjálfsagt að taka ómakið af þeim Frey og Hjörleifi og upplýsa málið án þess að hlífa neinum.
Hinn meinti þjófur er Böðvar Yngvi Jakobsson, heimspekingur og systursonur Hjörleifs. Hann hafði aðgang að dánarbúinu og sakar fjölskyldan hann um að hafa komið einu og öðru úr því í verð með ýmsum hætti. Þar á meðal voru bækur, sem hann fór með í Fornbókabúð Braga Kristjónssonar. Hvort þær voru keyptar af honum eða teknar í umboðssölu veit ég ekki og gildir víst einu, en ég fæ ekki séð hvernig feðgarnir máttu átta sig á því að bækurnar voru illa fengnar. Hafi þeir vitað að þær hefðu komið úr dánarbúi Böðvars E. Kvaran, sem lést fyrir liðlega fimm árum, var þá eitthvað óeðlilegt við að dóttursonur hans hefði þær undir höndum?
Nú vill svo til að ég hef átt viðskipti við Braga og Ara Gísla um áratugaskeið og aldrei orðið var við annað en að þeir séu strangheiðarlegir í viðskiptum sínum. Faðir minn heitinn, Magnús Þórðarson, var mikill bókasafnari og átti dágott safn fornbóka. Þeir bóksalar bæjarins, sem keyptu og seldu notaðar bækur, voru í misjöfnu áliti hjá honum og af sumum fór jafnvel misjafnt orð. Bragi Kristjónsson var sá bóksali, sem hann hafði í mestum metum. Ég efast því fyrirfram um það að nokkuð sé hæft í ásökunum Hjörleifs. Tala nú ekki um þegar honum er svo mikið í mun að stimpla þá sem þjófsnauta, þýfissala og nánast Fagína höfuðborgarinnar, sem leiði saklausa unga menn á hálar brautir. Svo saklausa að þeirra er í engu getið!
Ég fæ ekki betur séð en að feðgarnir eigi að leita bæði til siðanefndar Blaðamannafélagsins og dómstóla til þess að fá nöfn sín hreinsuð, sem kostur er. Málið er enn á rannsóknarstigi og engin ákæra hefur verið gefin út og þeir geta því illa varist ásökunum af þessu tagi.
Stærsti bókastuldur Íslandssögunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.1.2008 | 19:25
Einræðustjórnmál
Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lýsti því yfir í nýársávarpi sínu að væri það vilji Íslendinga, að hann bæri áfram ábyrgð á forsetaembættinu, væri hann fús að axla hana. Um leið kvaðst hann vita af eigin reynslu að enginn gæti innt þann starfa vel af hendi, nema hann nyti trausts meðal þjóðarinnar. Í leiðinni skoraði hann á þjóð sína að setja sparnað í öndvegi, gera aðhald og nýtni að aðalsmerki.
Það er gleðiefni að forseti skuli loks hafa tekið af skarið um framtíðaráform sín. Hitt er annað mál, að forsetinn hefði mátt lýsa nánar fyrir þjóð sinni hvað veldur sinnaskiptum hans. Í aðdraganda forsetakosninga 1996 sagði herra Ólafur Ragnar það skoðun sína að 16 ár væri fulllangur tími í embætti fyrir forseta; sjálfur teldi hann tvö kjörtímabil, í mesta lagi þrjú, hæfilegri tíma fyrir setu forseta í heimi hraðra breytinga, nyti hann stuðnings til þeirrar setu.
Í ljósi mikillar áherslu forsetans á traust þjóðarinnar á embættinu og stuðnings hennar við þann, sem því gegnir, er rétt að rifja upp niðurstöður síðustu forsetakosninga. Í landi þar sem kjörsókn í almennum kosningum er að jafnaði um 85% dröttuðust aðeins tæplega 63% á kjörstað, en herra Ólafur Ragnar fékk ekki nema liðlega 42% atkvæða kosningabærra manna. 58% sátu ýmist heima, skiluðu auðu eða kusu tvo frambjóðendur aðra, annan ókunnan en hinn kunnan að endemum. Þetta gerðist án þess að nokkur sérstök hreyfing hafi beitt sér fyrir því, heldur tók 122.891 kjósandi þá ákvörðun með sjálfum sér, en forsetinn sat áfram á Bessatöðum í krafti 90.662 atkvæða. Voru þau úrslit til marks um traust og stuðning þjóðarinnar?
Ekki verður séð forsetinn hafi nýtt kjörtímabilið, sem nú er að líða, til þess að brúa þessa gjá milli forsetaembættisins og þjóðarinnar. Þvert á móti hefur hirðvæðing embættisins náð nýjum hæðum og engu er líkara en forsetanum þyki á stundum nánast óþægilegt að þurfa að umgangast ótínda alþýðuna. Svo rammt hefur að þessu kveðið, að forsetinn sendi henni tóninn í viðtali, sem náðist við hann á erlendri grundu síðastliðið haust, og sagði að hún yrði veskú að gera það upp við sig hvers konar forseta hún eiginlega vildi, dándimann eins og sig eða einhvern rustíkus til heimabrúks.
Á opinberum vettvangi hefur þetta ákall forsetans eftir umræðu um eðli og inntak embættisins ekki verið fyrirferðarmikið og með yfirlýsingu sinni nú hefur forsetinn nánast útilokað að hún nái nokkru flugi. Hversu fúsir, sem menn eru til þess að ræða forsetaembættið, er hætt við að þeir kinoki sér við þá umræðu úr þessu af ótta við að slíkt verði túlkað sem sérstök gagnrýni á núverandi forseta eða inngrip í kosningabaráttuna. Þetta tvennt er að mestu óskylt, þó varla verði hjá því litið að herra Ólafur Ragnar hefur leynt og ljóst reynt að breyta embættinu að sínu höfði.
Að mörgu leyti hefur þeim áherslum forsetans verið fagnað í viðskiptalífinu. Hann hefur gengið mun lengra en forverar sínir í því að kynna Ísland og íslenskt atvinnulíf erlendis, þá kosti sem bjóðast hér á landi og ekki síður hefur hann lagt sig í líma við að greiða götu íslenskra athafnamanna erlendis. Það framlag skyldi ekki vanmeta, sérstaklega í þeim löndum þar sem stjórnvöld hafa enn öll tögl og hagldir í atvinnu- og þjóðlífi.
Sú elja herra Ólafs Ragnars hefur aftur á móti kallað á ýmsa gagnrýni. Sumir hafa sagt það ósiðlegt að notfæra sér slíkt stjórnarfar til þess að koma íslenskum árum fyrir borð og þannig sé verið að arðræna alþýðu þriðja heimsins með hinum eða þessum hættinum. Aðrir átelja að forsetinn sé nánast vikapiltur íslenskra auðmanna. Persónuleg vinátta hans við suma þeirra og náið samneyti hefur vakið ýmsar spurningar, eins og hvort það sé við hæfi að forseti lýðveldisins og fjölskylda hans þiggi far með einkaþotum sömu manna og hann keppist við að mæra við erlenda kollega sína. Hinna sömu og hafa verið fjárhagslegir bakhjarlar kosningabaráttu hans. Þeim spurningum er enn ósvarað fjórum árum síðar. Ætli þeim verði svarað nú?
Það er tæpast mikil hætta á því, enda gaf forsetinn það út að hann myndi bara ekkert tjá sig um farþágu sína. Slík svör hafa menn þurft að gera sér að góðu áður þegar óþægileg mál ber á góma og embættið hikar ekki við að skýla sér bak við uppskáldaða öryggishagsmuni til þess að verjast svara. En samt hvetur forsetinn til umræðu, þó hann virðist ekki vilja taka þátt í henni sjálfur. Sem er þeim mun einkennilegra, þegar haft er í huga að eftir sneypukosninguna 2004 talaði herra Ólafur Ragnar digurbarkalega um að nú hefði hann fengið skýrt umboð frá þjóðinni (eða a.m.k. þessum 30,91% þjóðarinnar, sem kusu hann) til þess að fylgja eftir ýmsum megináherslum, er hann hafði kynnt á blaðamannafundi. Þar á meðal var að hann myndi taka virkan þátt í samræðum þjóðarinnar um framtíð hennar og mikilvæg verkefni án þess að taka þátt í flokkspólitískri umræðu eða karpi á vettvangi stjórnmálanna. Nú er umdeilanlegt hvort hann hafi efnt seinni liðinn með fullnægjandi hætti, en fyrrihlutann vanrækir hann fullkomlega, því forsetinn hefur aðeins áhuga á einræðum, ekki samræðum.
Hins vegar þarf það ekki að vera þannig. Eftir að forsetinn kallaði eftir umræðunni urðu nokkrir til þess að svara kallinu. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður vinstrigrænna, gerði það t.d. tæpitungulaust á heimasíðu sinni. Birgir Ármannsson, þingmaður sjálfstæðismanna og forseti Allsherjarnefndar, ræddi þetta við Katrínu Jakobsdóttur, þingmann og varaformann vinstrigrænna, í viðtali á Rás 2 í haust, og þau voru furðusammála um þau úrlausnarefni, sem blöstu viðþegar forsetaembættið væri annars vegar. Nú rétt fyrir áramót ræddu þau Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisfllokksins, og Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstrigrænna í Ráðhúsi Reykjavíkur, mál þessi á síðum Fréttablaðsins og var töluverður samhljómur með þeim þó hvort syngi með sínu nefi. Eins hafa ýmsir bloggarar, sem fylgja frjálslyndum eða Framsóknarflokknum að málum bent á eitt og annað, sem betur mætti fara við búskapinn á Bessastöðum. Ég heyri suma Samfylkingarmenn tala á svipaðan veg, en ég man í svipinn ekki eftir neinum, sem hefur látið það út úr sér á opinberum vettvangi.
Má ekki ljóst vera af þeim viðbrögðum, að stjórnmálamenn eru þess albúnir að brjóta málefni þessi til mergjar? Þeir eru varla einir um að hafa skoðun á málinu; ætli það megi ekki finna einn og einn almúgamann, sem gerir það líka.
Eins og fyrr er rakið hefur herra Ólafur Ragnar breytt embættinu verulega fá því að hann náði fyrst kjöri árið 1996. Ekki síst á það við um ákvörðun hans árið 2004 um að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar, en þar tók herra Ólafur Ragnar einn (vonar maður) þá ákvörðun að gerbreyta eðli embættisins, ásýnd og umgjörð og uppskar algert fágæti í lýðræðisríkjum: völd án ábyrgðar.
Alveg burtséð frá skoðunum manna á þeim gerningi og lögmæti hans og alveg burtséð frá því hvar menn standa í afstöðu sinni til breytinga á embættinu, þá hljóta menn að vera á einu máli um að ótækt sé að forsetinn standi einn í slíkum stórræðum. Skoðanakannanir, undirskriftarsafnanir, álit forseta á almenningsáliti, hugdettur hans eða ámóta geta ekki verið grundvöllur slíkra breytinga á æðsta embætti ríkisins og stjórnskipan landsins.
Almenningur þarf að svara ákalli forsetans um opna og lýðræðislega umræðu um eðli embættisins og framtíð, en þá þarf forsetinn líka að gegna eigin kalli og taka þátt í umræðunni. Í því samhengi þarf hann ekki að óttast að þátttaka sín teljist óviðeigandi, því hann hefur gefið kost á sér og orð hans munu skoðast í því ljósi: Að þar hljómi auðmjúk orð frambjóðanda í leit að samræðu við þjóð sína, en ekki einræða óskeikuls og ósnertanlegs þjóðhöfðingja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar