Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
19.11.2008 | 16:46
Er evran svarið?
Þessa dagana virðist þorri fólks kominn á þá skoðun eftir vandlega yfirvegun peningamálastefnu að Íslendingar þurfi að taka upp evruna svo skjótt sem auðið er. Sjálfur er ég því ekki samþykkur og hygg að þessi almenna skoðun sé tæpast grundvölluð á öðru en óþoli á íslensku krónunni. Nema náttúrlega meðal evrókratanna, sem vilja evruna af hugsjón eða sem agn inn í Evrópusambandið (ESB).
Í þessu samhengi hefur mönnum jafnan láðst að gaumgæfa markmiðin með gjaldmiðilsskiptum önnur en þessu almennu, að krónan sé svo lasin að hún sé ekki á marga vetur setjandi. Sumir nefna að landið þurfi tryggan og stöðugan gjaldmiðil, að ekki veiti af almennilegum lánveitanda til þrautavara og svo framvegis. Vandinn er sá að evran er ekkert sérstaklega vel til þess að uppfylla þau skilyrði, sem helst eru nefnd fyrir nýjum og betri gjaldmiðli hér á landi.
Umræðan um upptöku evru á sér stað víðar en á Íslandi. Þannig eru efnahagsvandræði lygalaupsins Gordon Brown enn að aukast og hann er á góðri leið með að taka Breta með sér í fallinu. Því hafa ýmsir spekúlantar þar í landi farið að ræða um það hversu tilvalið væri fyrir þá að taka upp evruna við fyrstu hentugleika. Meðal hinna fremstu í þeim flokki er hinn meinti Íslandsvinur Willem Buiter.
Því fer hins vegar fjarri að sú skoðun njóti sams konar hylli á Englandi og hér. Martin Wolf, aðstoðarritstjóri Financial Times og helsti penni blaðsins um efnahagsmál, skrifar ágæta grein um þau mál í blaðið í dag, sem sérstök ástæða er til þess að hvetja menn til þess að lesa.
Það sem er merkilegast við grein og greiningu Wolfs á ástandinu er þó það, að ef orkujöfnuður landanna er undanskilinn verður ekki séð að nokkur munur sé á Íslandi og Bretlandi hvað varðar aðsteðjandi vanda.
Margir hafa kvartað undan því að umræðan um þessi mál hér á landi sé óþroskuð, sem vissulega má taka undir. Til hennar gefst sjálfsagt nokkur tími nú, en það er óþarfi að reiða okkur einvörðungu á Íslands helstu heila til þess að leiða hana. Í þeim efnum getum við notið þrætubókar okkar bresku vina. Og óvina, eftir atvikum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
14.11.2008 | 13:29
Það ætti einhver annar að skoða þetta
Auðvitað er það rétt hjá Landsbankanum að svara ekki fyrirspurninni á annan hátt. Bankaleynd leyfir það ekki og nógu standa bankarnir völtum fótum svo þeir fari ekki að rugla í því.
Löggjafinn á enda ekkert með að vera að setja sig í stellingar sem rannsakari og dómsvald.
Það vekur hins vegar spurningar hvort málið kalli ekki einmitt á athugun annarra til þess bærari yfirvalda.
Jón Ásgeir hefur með yfirlýsingum og málshöfðunarhótunum sínum staðfest að hann sé potturinn og pannan í því að hreinsa bestu bitana út úr 365 í nýtt og nánast óspjallað félag. Hann sjálfur. En nú má hann ekki eins og nokkuð hefur verið um fjallað veita nokkru félagi forstöðu, hafa prókúru eða annað ámóta, af því að hann er dæmdur maður.
Vel má vera að hann sé með hið nýja félag leppað í bak og fyrir, en fyrir liggur viðurkenning hans á því hver sé aðalmaðurinn. Vissi Landsbankinn það ekki? Er ekki augljóst að hann var að taka þátt í óhreinindum með dæmdum manni? Það mætti og ætti að rannsaka.
Báru fyrir sig bankaleynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.11.2008 | 16:49
Varnarmálaráðherrann á hnjánum
Þessi frétt á Vísi vakti athygli mína. Ekki síst þó myndatextinn. Er þetta utanríkisráðherra, sem þarna er á hnjánum?
En grínlaust, gengur þetta áhugaleysi varnarmálaráðherrans ekki landráðum næst? Að það sé erlendum herjum í sjálfsvald sett hvort þeir komi hingað eða ekki. Eða er staðan máske þannig að hernám Breta er næsti leikur? Það er ein leið inn í Evrópusambandið.
12.11.2008 | 13:10
Bullið á Bessastöðum
Ég held að forsetinn sé endanlega búinn að spila út. Herra Ólafur Ragnar Grímsson er stakur bindindismaður, þannig ekki er unnt að kenna Bakkusi um þessa makalausu ræðu forsetans yfir sendimönnum erlendra ríkja, þar sem hann hellti úr skálum reiði sinnar, bæði sér og Íslandi til skaða og skammar. Gæti hugsast að hann hafi fengið taugaáfall í geðshræringu liðinna vikna þegar allir hans bestu vinir standa uppi auralausir og sumir ærulausir?
Vandinn felst vitaskuld í því að forsetinn hefur óáreittur fengið að reka eigin utanríkisstefnu undanfarin misseri, því þó þetta sé alvarlegasta bullið frá Bessastöðum til umheimsins er þetta fráleitt fyrsta útspilið af hálfu forsetans, sem hann hefur tekið upp á án samráðs við utanríkisráðuneytið. Það fær hins vegar að taka til eftir hann með misgóðum árangri.
Það má rétt vera að Íslendingar ganga ekki að öllum þeim vinum vísum, sem við töldum okkur eiga. Sumir hafa reynst okkur andsnúnir og margir þeirra eru hikandi gagnvart Íslandi. Er það vænlegt til árangurs að ráðast á þá með óbótaskömmum? Eða að rausa um hvað réttast væri að gera við Keflavíkurflugvöll? Það væri nær að forsetinn upplýsti þjóðina um það hvers vegna hans frábæru vinir á Indlandi og í Kína hafa ekki reynst tryggari og örlátari en raun ber vitni. Og hvað með hans hnattrænu tengsl til bandarískra auðmanna?
Hirðvæðing forsetaembættisins var hlægileg á sínum tíma. Erindrekstur forsetans og þjónkun við auðmenn og útrásarvíkinga var skammarleg. Ég nenni ekki einu sinni að minnast á ógeðið í kringum fjölmiðlalögin 2004, nema að þar tók forsetinn sér völd án ábyrgðar. Þá ömurlegu slóð er hann enn að feta, landi og þjóð til verulegs tjóns, nú þegar við síst megum við því.
Herra Ólafur Ragnar verður að þegja af sér. Ella á hann að segja af sér. Best færi á því að hann gerði hvort tveggja.
Forsetinn gagnrýndi nágrannaríki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.11.2008 | 13:01
Fornsögur af FL Group
Undanfarin dægur hefur nokkuð borið á fréttum um að Hannes Smárason, þáverandi stjórnarformaður FL Group, hafi mokað þremur milljörðum króna út úr almenningshlutafélaginu til þess að ljá Pálma Haraldssyni í Fons (áður Feng) til þess að kaupa danska lágfargjaldafélagið Sterling. Sem síðan var selt nokkrum sinnum milli Sterling og FL Group við sífellt hærra verði, þó aldrei linnti taprekstrinum og flestum öðrum bæri saman um virði félagsins lækkaði ört.
Ég átta mig þó ekki fullkomlega á því hvers vegna þessi frétt er núna að koma upp á yfirborðið. Sjálfur skrifaði ég þessa frétt í Blaðið hinn 23. september árið 2005. Hún var að vísu því marki brennd að enginn vildi staðfesta hana eða ræða málið undir nafni. Enginn vildi hins vegar neita henni og þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan komst ég lítið lengra með fréttina.
Mér þykir því harla merkilegt, að nú þegar þessi frétt er rifjuð upp, skuli í raun engar betri heimildir vera fram komnar fyrir því sem gerðist. Maður skilur mætavel að þátttakendur í þessum barbabrellum skuli ekki vilja opinbera hvað átti sér stað, en það voru fleiri til frásagnar. Þannig voru í stjórninni fulltrúar almennra hluthafa, sem sögðu af sér vegna þessa máls, en þeir sögðu aldrei fullum fetum frá því sem gerðist.
Kannski Agnes Bragadóttir nái því fram nú þegar hún hefur dregið málið fram á ný. Hún kveðst hafa óyggjandi heimildir fyrir fréttinni nú, sem hún hafi ekki haft á sínum tíma, en nefnir þær svo ekki. Fyrir því geta þó verið ýmsar haldbærar ástæður og ástæðulaust að fetta fingur út í það. En hver skyldi þessi skotheldi heimildarmaður vera? Þar hlýtur Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, að koma sterklega til greina, en hann var meðal æðstu stjórnenda hjá FL Group á þessum tíma og mér var raunar sagt þá, að hann hafi verið virkur þátttakandi í þessum fjármunaflutningum. Þess vegna hafi hann líka verið kvaddur með mikilli rausn, þegar hann lét af störfum hjá félaginu skömmu síðar.
Nú vísar Hannes þessu enn og aftur alfarið á bug. Ég átta mig ekki á því hversu trúverðug sú afneitun er. En í ljósi þeirra orða, sem Inga Jóna Þórðardóttir, fulltrúi almennra hluthafa, lét falla um stjórnarhætti félagsins þegar hún sagði af sér á sínum tíma, þykir mér einsýnt að hún þurfi að stíga fram og greina frá því hvernig málið horfði við henni og nákvæmlega hvað gerðist.
Enn frekar hljóta menn þó að velta fyrir sér hver þáttur Ragnhildar Geirsdóttur, þáverandi forstjóra FL Group var, en hún lét af störfum með einn glæsilegasta starfslokasamning Íslandssögunnar í kjölfar þessara atburða. Sem engir voru ef marka mátti orð hennar á þeim tíma og afneitun Hannesar nú.
Ef eitthvað er hæft í þessu blasir við að þarna var á ferðinni glæpsamlegt athæfi, samsæri stjórnenda og sumra eigenda almenningshlutafélags gegn öðrum hluthöfum. Það kallar á rannsókn.
Eða hvað? Samkvæmt dómum í Baugsmálinu var þarna kannski aðeins um viðskipti að ræða. Já, þau voru margslungin viðskiptin í nýja hagkerfinu.
Það er mikið talað um ábyrgð manna í samfélaginu. Það væri því máske ástæða til þess að velta fyrir sér ábyrgð dómara í Baugsmálinu, sem vildu fremur láta halla á réttvísina en þessa snillinga viðskiptalífsins. Í því samhengi geta menn velt fyrir sér hvernig sakborningar gátu fengið sýknu í afar venjulegu og lágkúrulegu tollsvikamáli vegna innflutnings á bílum, þar sem lögin eru skýr, sægur dómafordæma og réttarframkvæmdin í föstum skorðum um áratugabil.
Ábyrgðin liggur nefnilega víðar en oftast er talað um. Hver er til dæmis ábyrgð Viðars Más Matthíassonar og félaga hans í yfirtökunefnd? Sú nefnd var sett á laggirnar til þess að sýna fram á að markaðurinn gæti sjálfur tekið á ýmsum álitaefnum, sem upp kæmu, en hlutverk nefndarinnar var að leggja mat á það hvenær yfirtökuskylda myndaðist í hlutafélögum þegar einstakir hluthafar eða hluthafahópar væru orðnir svo ráðandi innan félags, að aðrir hluthafar mættu sín einskis.
Það er skemmst frá því að segja að Viðar Már og nefnd hans sá aldrei ástæðu til þess að úrskurða að yfirtökuskylda hefði myndast. Jafnvel ekki þegar 25% hlutafjár í FL Group skipti um hendur, öll stjórnin (nema Hannes) sagði af sér og í hana settust Jón Ásgeir Jóhannesson, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Sigurður Bollason og Magnús Ármann. Pálmi Haraldsson var ennfremur ekki langt undan í eigendahópnum. En seisei nei, Viðar Már taldi af og frá að þessir kappar væru að vinna saman, en samanlagt voru þeir með liðlega 60% hlutafjár í félaginu.
Því er við að bæta að nefndin lognaðist út af í sumar, engum harmdauði, enda erindi hennar og trúverðugleiki að engu orðin.
Rúmum mánuði eftir að ég skrifaði fyrrnefnda frétt var boðað til hluthafafundar hjá FL Group. Þar var samþykkt að auka hlutafé félagsins um 2/3, 44 milljarða króna, en það yrði þá samtals um 65 milljarðar króna og um 50 milljarðar þess handbærir til frekari fjárfestinga. Þetta var samþykkt með lófataki og raunar virtust flestir viðstaddra hinir ánægðustu með ástandið. Ekki þó allir, Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, spurði ýmissa óþægilegra spurninga, sem lutu að væntanlegri hlutafjáraukningu, kaupunum á Sterling og þrálátan orðróm um heimildarlausan fjármunaflutning stjórnenda hjá félaginu í sumar sem leið. Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður, varð til svara og svaraði í stuttu máli ekki. Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri Verðbréfastofunnar, kvaddi sér einnig hljóðs, en var ekki jafngagnrýninn og Vilhjálmur. Sagði þó að sér sýndist menn ekki hugsa jafnvel um vörnina og sóknina. Það reyndust orð að sönnu þegar allt heila klabbið brann upp á mettíma. En ætli menn hefðu ekki átt að gefa orðum Vilhjálms meiri gaum.
Ég tók viðtal við Skarphéðinn Berg eftir fundinn og þar hafði hann m.a. þetta að segja við lesendur Blaðsins (spurningar mínar eru feitletraðar):
Vilhjálmur Bjarnason spurði á fundinum út í meinta fjármunaflutninga í heimildarleysi og ég hjó eftir því að þú nefndir að þess sæist ekki stað í sexmánaðauppgjörinu. En var það ekki einmitt málið? Mínar heimildir herma að greiðslan hafi verið látin ganga til baka, einmitt til þess að það kæmi ekki fram í uppgjörinu.
Það er bara rangt. Þegar endurskoðandi skoðar bókhald og fjárreiður félags skoðar hann það ekki á tilteknum tímapunkti, heldur lítur á tiltekið tímabil. Ef það hafa átt sér stað svona greiðslur, sem ég veit raunar ekkert um annað en það sem ég hef séð í fjölmiðlum, á það að koma fram við endurskoðun á reikningum.
En er það ekki mikilvægt fyrir almenningshlutafélag eins og FL Group að þegar slíkur kvittur kemst á kreik hvort sem hann er réttur eða rangur að eyða öllum vafa sem fyrst?
Jújú, enda hef ég sagt að endurskoðun á bókhaldi og fjárreiðum félagsins vegna þessa árs hefst á næstu dögum. Þá verður vafalaust kannað hvort eitthvað er til í þessum sögum.
Var skoðað sérstaklega af stjórninni hvort einstakir stjórnendur FL Group hafi komið að kaupum Fons á Sterling á sínum tíma?
Mér dettur ekki í hug að svo sé. Það er ekkert kannað á hverjum morgni, sem menn mæta í vinnuna, hvort þeir hafi eitthvað á prjónunum en að sinna þeim verkefnum, sem þeim eru falin. Ég veit ekki til þess að það sé nokkurt tilefni til þess að vera með slíkar getgátur. Það er ekkert í starfsemi félagsins, sem mér er kunnugt um, sem bendir til þess að hlutirnir séu með öðrum hætti en þeir eiga að vera.
Það mætti kannski spyrja Skarpa aftur núna? Eða ættu þar til bær yfirvöld e.t.v. loksins að skoða málið? Það væri gustuk, þó ekki væri nema til þess að fá á hreint afstöðu dómstóla til viðskipta af þessu tagi.
Hannes vísar ásökunum á bug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2008 | 14:13
Bankaraunir
Egill Helgason bendir á furðulega ráðstöfun hjá Royal Bank of Scotland. Fyrir um þremur árum kom út skýrsla frá greiningardeild þessa banka, þar sem fjallað var um KB banka, sem svo var nefndur það misserið. Þar var varað við einu og öðru hjá bankanum, sem eftir á að hyggja átti sjálfsagt við fleiri banka hér á landi.
Á þeim tíma var þessari gagnrýni tekið víðs fjarri, ekki aðeins af bönkunum, heldur afgreiddu ýmsir fjölmiðlar aðfinnslurnar, sem hroðvirkni, áróður eða öfund! Stórfenglegast var þó að lesa grein í Fréttablaðinu hinn 27. nóvember 2005, þar sem höfundur lýsti af fágætum næmleik og skáldlegu innsæi hvernig þessi lélega skýrsla var búin til:
Taktfastur slátturinn í lestinni er svæfandi og tíminn líður hratt þegar maður er önnum kafinn. Tom Jenkins situr í lestinni og hamast við að klára síðustu kaflanna [svo!] í stuttri greiningu sem á að senda viðskiptavinum bankans. Veröldin þýtur hjá utan lestargluggans og tíminn líka. Hann verður að ná að klára þetta Lestin nálgast stöðina og hann lýkur við skýrsluna. Hefði kannski þurft að tékka nokkur atriði, en ákveður að setja punktinn aftan við og skýrslan er til. Hann finnur til feginleika um leið og hann bítur í neðri vörina og það er eins og hann verði skömmustulegur um stund. Síðan tekur straumur mannfjöldans hann með sér að næsta áfangastað.
Hver ætli sé skömmustulegur núna?
Sjálfur skrifaði ég forystugrein Blaðsins um þetta hinn 25. nóvember 2005. Mér sýnist að leiðarinn hafi elst furðuvel, þó hitt hafi að vísu komið á daginn að það var líkast til Kaupþing, sem stóð bankanna best að vígi.
Vafi um KB banka
Yfirleitt er litið svo á að heimskreppan mikla hafi hafist í New York hinn 29. október 1929, en menn gleyma því gjarnan að markaðurinn náði sér aftur á strik um hríð og um mitt næsta ár töldu flestir að niðursveiflan væri að baki. En undirstöðurnar voru veikar og það hrikti í stoðum fjármálastofnana. Hinn 11. desember 1930 komst einkabankinn United States Bank í þrot, en þó öðrum bönkum hefði verið í lófa lagið að koma honum til bjargar, höfðu hinir fínu bankamenn engan áhuga á því þar sem eigendurnir voru gyðingar. Þegar út spurðist að banki með svo voldugt nafn væri farinn á hausinn var ekki að sökum að spyrja: Á einni nóttu glötuðu allir bankar trausti almennings og kreppan hófst af alvöru og stóð í tæpan áratug.
Bankar eru hornsteinn efnahagslífsins og til þess að þeir geti gegnt hlutverki sínu þurfa þeir að hafa afar traustan fjárhag og bolmagn til þess að mæta áföllum. Fyrst og síðast þrífast bankastofnanir þó á trausti. Trausti almennings og annarra bankastofnana.
Að utan berast nú fregnir um að erlendar bankastofnanir efist um stjórn KB banka, að hann hafi tekið of mikla áhættu, m.a. með lánveitingum til skuldsettrar yfirtöku á fyrirtækjum og kaupum bankans sjálfs í þeim. Þá er vakin athygli á stærð bankans, hann sé ekki nógu stór til þess að geta forðast vandræði, en hann sé of stór til þess að íslenska ríkið geti hlaupið undir bagga með honum ef illa fer.
Hér er ekki um neinar bölbænir að ræða, en hinar erlendu bankastofnanir hafa augljóslega ríkar efasemdir um bankann, sem er ekki aðeins stærsti banki Íslands, heldur stór á evrópskan mælikvarða. Þær efasemdir munu óhjákvæmilega vekja efasemdir um aðra íslenska banka, hvernig sem þeim er stjórnað.
Íslenskir athafnamenn í útrás þekkja vel hvernig Baugsmálið hefur varpað skugga á önnur íslensk fyrirtæki á erlendri grundu. Vangaveltur af því taginu geta reynst fyrirtækjum afar erfiðar, en bönkum geta þær riðið að fullu.
Yfirmenn KB banka hafa með réttu bent á að hinar erlendu bankastofnanir hafi farið nokkuð geyst fram og nefnt dæmi um að þeir fari með meiri gætni, en þar var haldið fram. En á sama tíma geta þeir kennt sjálfum sér um. Þeir hafa ekki svarað ýmsum áleitnum spurningum um stöðu bankans eða eytt vafa um tilteknar ákvarðanir, fjárfestingar og viðskipti, sem ýmsum sögum fer af.
Slíkur vafi er óþolandi og KB banka ber að gera út um hann með hreinskilnum hætti, ekki aðeins vegna bankans sjálfs eða annarra íslenskra banka, heldur vegna íslensks efnahagslífs og orðspors landsins á alþjóðavettvangi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.11.2008 kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar