16.9.2007 | 17:18
Kynjamyndir kvikmynda
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins kennir ýmissa grasa að venju. Þar má meðal annars finna tvö viðtöl við tignendur Thalíu, þau Silju Hauksdóttur, leikstjóra, og Jóhann Ævar Grímsson, handritshöfund. Silja leikstýrði kvikmyndinni Dís á sínum tíma (og skrifaði handritið upp úr samnefndri metsölubók, sem hún var einn þriggja höfunda að), en í sumar leikstýrði hún næstu röð Stelpnanna fyrir Stöð 2. Ævar skrifaði handritið að Astrópíu og er einn handritshöfunda Næturvaktarinnar, grínþáttaraðar sem Stöð 2 hefur sýningar á í kvöld. Þau eru á svipuðu reki og fljótt á litið á svipuðum stað í lífinu, en Inga Rún Sigurðardóttir tók bæði þessi viðtöl.
Það hefði því ekki komið manni á óvart þó viðtölin tvö hefðu verið nokkuð keimlík, en það er öðru nær. Auðvitað eru þau Ævar og Silja ólíkt fólk, ég kannast við þau bæði, og aðkoma þeirra að kvikmyndagerðinni var með sitt hvorum hættinum. En meðan Ævar er augljóslega himinlifandi yfir að hafa ná sér á strik í þessum harða bransa er Silja mun reyndari og það skín í gegn. Ég held að allir þeir, sem hafa áhuga á kvikmyndagerð hafi gagn og gaman af því að lesa þessi viðtöl og bera þau saman.
Viðtalið við Silju er umfangsmeira og því er gert hærra undir höfði með tilvísun og stórri mynd á forsíðu. En forsíðutilvísunin er eilítið skrýtin, finnst mér. Fyrirsögnin er Sögur af báðum kynjum og undirfyrirsögnin er ❚ Fleiri kvenleikstjórar samfélagsleg nauðsyn ❚ Íslendingar aftarlega. Síðan er haft eftir Silju:
Það er staðreynd að það er alltof lítið af kvenleikstjórum á Íslandi. Það er augljóst að það að gera bíómyndir er listræn ábyrgðarstaða sem krefst gríðarlegra fjármuna og fjármögnunar. Peningarnir og aðgangur að fjármagni er eitthvað sem hefur áhrif á þetta jafnvægi og raskar þess vegna kynjahlutfallinu. Því er miður og þessu verður að breyta. Það er samfélagsleg nauðsyn að sögurnar okkar séu sagðar af báðum kynjum til jafns ef við ætlum að halda því fram að þær endurspegli samfélag okkar á raunsæjan hátt, segi okkur eitthvað um okkur sjálf.
Af þessu mætti draga þá ályktun að Silju sé mjög heitt í hamsi vegna þessa og það væri hennar helsta erindi í kvikmyndagerð. En það er nú ekki svo, þó hún sé femínisti. Hún segir enda líka:
Ég hugsa ekki mikið um að ég sé kona í þessum bransa og mér persónulega finnst kyn mitt ekki skipta máli í þessu samhengi. Í gegnum tíðina hefur það að vera kona bæði unnið með mér og á móti mér en ég velti mér ekki upp úr því.
Hið skrýtna er, að í viðtalinu inni í blaði er ekki minnst á þetta aðalatriði forsíðutilvítnunarinnar. Enda væri það alveg alveg út úr kú þar inni og myndi brjóta upp afar eðlilega og flæðandi framvindu þess. Ég veit ekki hvað veldur, en þessi framsetning er augljóslega á ábyrgð blaðsins og það lýsir ekkert sérstaklega miklum trúnaði við viðmælandann að gera að aðalatriði eitthvað, sem í hennar augum er ljóslega aukatriði í eigin lífshlaupi. Að minnsta kosti er þetta ójafnvægi Morgunlaðinu meira áhyggjuefni en henni.
En gefum okkur nú augnablik að þetta sé rétt, að hlutverk listanna sé að endurspegla samfélagið af raunsæi (sem ég er ekki viss um að sé endilega rétt athugað), hvort heldur er fyrir okkur núbúana til þess að spegla okkur í eða til þess að skilja eftir heimild fyir komandi kynslóðir. Hver segir að það verði best gert með því að listamennirnir séu eitthvert fall af lýðmengi dagsins? Hafa ekki velflestir góðir listamenn einmitt verið fremur óvenjulegir og einatt á skjön við hefðir dagsins? Er málið ekki einmitt það, að þeir eru flestir gestir í sínu samfélagi og með glöggt auga í samræmi við það?
Þeir D.W. Griffith, Cecil B. DeMille, Fritz Lang, Erich von Stroheim, Charlie Chaplin, Sergei Eisenstein, John Ford, Orson Welles, John Huston, King Vidor, Elia Kazan, Frank Capra, George Cukor, Alfred Hitchcock, Jacques Tati, Federico Fellini, Akira Kurusawa, Ingmar Bergman, Stanley Kubrick, Sidney Lumet, Sam Peckinpah, Roman Polanski, Ken Russell, Martin Scorsese, Woody Allen, Jean-Luc Godard, François Truffaut, Ridley Scott, Werner Herzog, David Lynch, Terry Gilliam, John Woo og Spike Lee, að ógleymdum þeim Hrafni Gunnlaugssyni, Friðriki Þór Friðrikssyni og Baltasar Kormáki, eiga það allir sameiginlegt að vera karlmenn, satt er það, en fyrst og fremst eiga þeir það sameiginlegt að vera óvenjulegir menn, með sjá samtímann, fortíð og framtíð með öðrum augum en aðrir. En það á líka við um þær Leni Riefenstahl (sem sjá má á myndinni að ofan), Jane Campion, Sharon Maguire, Sofia Coppola og Julie Dash.
Þessi upptalning segir hins vegar sína sögu og þá er rétt að hafa einnig í huga að ég teygi mig aðeins í upptalningu kvenleikstjóranna. Af þeim á aðeins Leni Riefenstahl öruggt sæti í kvikmyndasögunni með þeim körlum, sem upp voru taldir, og Jane Campion stingi ekki í stúf heldur. Jafnvel þó svo körlum væri kvikmyndaleikstjórn eiginlegri en konum af einhverjum óþekktum líffræðilegum ástæðum, verður því vart trúað að munurinn sé svo afgerandi. En hver veit, er klipparastarfið ekki nánast orðið kvennastétt?
Svo má auðvitað horfa á þetta frá allt öðrum vinklum ef við teljum nauðsynlegt að öllum sjónarhornum sé gaumur gefinn af þessum samfélagsspegli. Mætti ekki allt eins segja að hlutfall hægrimanna í kvikmyndagerð sé jafnvel enn lægra en hlutfall kvenna? Hvenær ætli Morgunblaðið bendi á það sem brýnt úrlausnarefni samfélagsins?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2007 | 18:19
Þöggunin
Allnokkur umræða hefur spunnist að síðustu færslu minni um málflutning Sóleyjar Tómasdóttur, ritara Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs; ekki aðeins í athugasemdum á bloggi mínum, heldur einnig í athugasemdum við bloggfærslur Katrínar Önnu Guðmundsdóttur, fyrrverandi talskonu Femínistafélagsins, bæði hér og hér. Þó verð ég að kvarta undan því, að femínistar eru enn helst að fjargviðrast yfir því hvort vitna hafi mátt til þessara orða á póstlista femínista, en sneiða nær fullkomlega hjá kjarna málsins, sem mér finnst grafalvarlegur og kalla á vitsmunalega umræðu. Svo ég endurtaki:
Mér finnst í orðum Sóleyjar felast hættuleg afstaða til lýðræðis og mannréttinda. Ég tel að hún boði siðleysi, sem felst í því að aflétta ábyrgð af einstaklingunum á gerðum sínum og láta það falla í skaut illa skilgreindu samfélagi, en um leið gerir hún því skóna að menningarsamfélögin eigi að leggja að jöfnu. Samfélögin virðist hún telja að eigi sér sjálfstæða tilvist, markmið, vilja, og réttindi, óháð einstaklingunum og þeim æðri, sem óneitanlega ber keim af fasískum sjónarmiðum. Jafnframt tel ég að röksemdafærslan feli í sér mannfyrirlitningu, sem eigi margt skylt við kynþáttahatur.
Að því sögðu er mér hins vegar ljúft og skylt að taka fram, að ég fagna því að Sóley skuli hafa gert grein fyrir skoðunum sínum með margnefndum hætti. Þó þær hafi ekki gerðar almenningi ljósar að hennar undirlagi. Eins virðist mér nauðsynlegt að taka fram að ég hef ekkert út á Sóleyju að setja þó mér finnist tilteknar skoðanir hennar ámælisverðar og öllum hugsandi mönnum og frelsisunnandi skylt að mótmæla þeim harðlega. En þvert ofan í það, sem sumir virðast ætla, vil ég endilega að Sóley opni hug sinn sem mest og oftast.
Opinber umræða á Íslandi helgast alltof oft af viðteknum viðhorfum og pólitískum rétttrúnaði, sem yfirleitt er sett fram sem almenn, óljós afstaða, en nánast aldrei í rökstuddum efnisatriðum eða tvímælalausum yfirlýsingum. Á sinn hátt er það því eins og ferskur andblær í stjórnmálaþvargið hér, þar sem flokkarnir virðast hver öðrum líkari hinum, þegar ritari Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og hálfkjörinn fulltrúi borgara Reykjavíkur stígur fram á bloggi sínum og gerir það lýðum ljóst, að þó henni þyki einstaklingarnir skipta máli, þá skipti stjórnvöld samt meira máli! Umræðan varð þá til einhvers, þó tilefnið hafi verið femínistum á móti skapi, en þetta sagði Sóley sumsé á opnum bloggi, en ekki á lokuðum póstlista. Það finnst mér vel tækt til frekari umræðu kjósenda þessa lands, því slík afstaða forystumanns stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins til eðlis lýðræðisins, ríkisins og borgara þess, er vægast sagt óvenjuleg hin síðari ár. Ég hef ekki tekið eftir því að nokkur forystumaður vinstri grænna annar hafi andmælt þessu eða talið það vera á skjön stefnu flokksins. Er það ekki frétt?
Þetta þarf að ræða.
Í ljósi alls þessa finnst mér því harla einkennilegt að lesa hvernig ég (og fleiri fauskar eins og Pétur Gunnarsson og Egill Helgason) eigi að vilja þagga niður í Sóleyju með innantómu þvaðri út í gegn, eins og einhver komst að orði. Nú verða aðrir að dæma um þvaðurstuðulinn hjá mér, en ég get ekki skilið hvernig það, að vilja taka skoðanir hennar til athugunar og gagnrýni getur talist tilraun til þöggunar.
Að mínu viti eru tvær gerðir þöggunar helstar: Ritskoðun og hundsun. Ritskoðunartilburðirnir hafa allir komið úr einni átt í þessari umræðu og varla getur Sóley kvartað undan því að hafa verið mætt með þögninni einni.
Mér þykir það ekki boðleg vörn í þessu máli, að saka menn um einelti fyrir að taka Sóleyju á orðinu og leyfa sér að draga réttmæti skoðana hennar í efa. Það lýsir í raun ótrúlegu óöryggi á málflutningum, að hlaupa strax í það skálkaskjól, en vera ófáanleg til þess að ræða efni málsins nema á vernduðum vettvangi.
Kannski Sóley sé óskeikul, að það eitt að efast um réttmæti orða hennar sé í eðli sínu rangt. Að andófið eitt sé full afsönnun á sjálfu sér. Gerast þá fleiri pápískir en ég hugði. En máske er það málið, að hér ræður trúarsannfæring meiru en skoðun. Vantrúarseggirnir eru handan sáluhjálpar en pupulinn varðar ekkert um kenninguna, sem kúrían ein á að ræða í sínum hópi, helst á sértungumáli, fyrir órekjanlega leiðsögn almættisins. Síðan skal almenningur trúa í blindni, ótta og fullvissu. Lokaður póstlisti er þá réttnefnt klaustur.
Sjálfur hyggst ég áfram negla viðeigandi nótur og ótímabærar athugasemdir á þær hurðir, sem mér þykir við þurfa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2007 | 04:39
Fasisminn og afstæðishyggjan í Femínistalandi
Það er með ólíkindum að lesa um fjörlega umræðu á póstlista femínista, sem Pétur Gunnarsson vekur athygli á, þar sem meint málsmetandi fólk er að taka upp hanskann fyrir eitthvað, sem það nefnir pólitískt íslam og fagnar að sé í sókn.
Nú er í gangi stórsókn heimsvaldasinna gegn múslimalöndum undir yfirskriftinni stríð gegn hryðjuverkum. Það er ekki tilviljun; af því þetta eru olíuauðug lönd og í öðru lagi af því pólitískt íslam er í sókn og er um þessar mundir öflugasta skipulega aflið gegn yfirgangi heimsvaldasinna (og á lítið skylt við hryðjuverk). Nauðug eða viljum þurfum við að taka afstöðu í því stríði. Ef vestrænir femínistar taka ekki skýra afstöðu gegn heimsvaldastefnunni lenda þeir óhjákvæmilega í gíslingu hjá henni.
Þórarinn Hjartarson.
Hið pólitíska íslam er ekkert annað en fasismi, hvort sem menn nenna að brjóta hinn hugmyndafræðilega vaðal til mergjar eða horfa til sögulegrar þróunar íslamismans allt frá Amin Al-Husseini til vorra daga.
Með orðinu fasismi á ég við alræðiskerfi þar sem mannréttindi og lýðræðishefðir eru að engu hafðar í nafni hins almáttuga kerfis, hvort sem markmiðin snúast um baráttu stétta, kynþátta eða trúarbragða. Nú eða kynjanna. Íslamisminn, hið pólitíska íslam hæfir þeirri skilgreiningu algerlega.
Nú grunar mig að þessum óvæntu málsvörum fasismans renni blóðið til skyldunnar aðallega vegna ímugusts á hinni meintu en óljósu heimsvaldastefnu Vesturlanda, sem Þórarinn Hjartarson víkur að. En þeim væri þá kannski hollt að kynna sér viðhorf íslamistanna vina sinna (eða óvina óvina sinna), því barátta þeirra er fyrst og fremst fyrir endurreisn kalífdómsins, sem á að ríkja yfir öllu því svæði, sem múslimar hafa einhverju sinni ráðið, og að lokum heimsbyggðinni allri. Það er nú heimsvaldastefna í lagi!
Íslamisminn kýs vitaskuld að ná þessum markmiðum með sem minnstri fyrirhöfn ef unnt er, en dregur enga dul á að það skuli gert með sverði ef ekki vill betur. Það væri því fróðlegt ef friðarpáfinn Þórarinn Hjartarson, formaður Norðurlandsdeildar Samtaka hernaðarandstæðinga, deildi með okkur skoðunum sínum á markmiðum hins pólitíska íslams við að leggja af veraldlegt lýðræði í Tyrklandi, að lögfesta sharía (lögbók íslams) meðal múslíma á Vesturlöndum þannig að hún verði landslögum æðri eða að endurheimta hinn serkneska hluta Spánar, svo fátt eitt sé nefnt. Skyldi hann telja þeim leyfilegt að beita hervaldi eða öðru ofbeldi til þess að ná þeim markmiðum? Eða fórnarlömbunum leyfilegt að verja sig?
Póstmódernísk nálgun á póstlista
Enn galnara er þó þegar Sóley Tómasdóttir, ritari Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, lætur sig hafa það að afsaka kynbundnar limlestingar vegna þess að ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins leyfði þær. Póstmódernisminn og afstæðishyggjan er svo alger þegar umræðan en ekki efnið er aðalatriðið og augljóst að henni finnst verra að einhverjir aðrir en innvígðir og innmúraðir femínistar skuli ræða um þessi mál. Tekur reyndar fram að öðrum þræði sé það sjálfsagt slæmt!
Þetta er áhugaverð umræða. Dáldið sérstakt að karlar, sem alla jafna hafa ekki mikinn áhuga fyrir femínisma skuli taka eftir baráttu þessara kvenna og sjálfsagt er það bæði gott og slæmt.
Svo heldur hún áfram að tönnlast á því að það sé umgjörð umræðunnar sem öllu skipti:
Það hlýtur að vera lykilatriði svo umræðan sé konum í hag og heimsvaldastefnunni síður, að ræða um stöðu kvenna út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra. [ ] Lykillinn að almennilegri umfjöllun um þetta mál sem önnur hlýtur að vera sá að fjölga konum í áhrifastöðum á fjölmiðlum. Karllæg sýn á heiminn er allt of dómínerandi.
Jájá, the Medium is the Massage og allt það. Lykilsetningin í þessu orðagjálfri er hins vegar sú, að ræða verði um stöðu kvenna út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra. Var það virkilega?! Er sumsé allt þetta tal hennar um kvenréttindi og hvernig hún vill breyta heiminum algerlega háð umhverfinu og ríkjandi viðhorfum? Að kvenréttindin séu alveg frábær, nema náttúrlega í feðraveldum steinaldartrúarbragða? Að mannréttindi séu ekki algild réttindi allra manna (og konur eru líka menn), heldur mismunandi eftir því hvar og með hverjum fólk elur manninn? Þvílík endemis della!
Mannréttindi eru ekki afstæð
Mannréttindi eru einmitt algild. Þau eru sjálfsögð og ófrávíkjanleg réttindi manna, algerlega burtséð frá ætt, uppruna, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, háralit eða tónlistarsmekk ef því er að skipta. Þau byggjast á því að mannleg reisn í heild sinni hvíli á því, að allir menn njóti ófrávíkjanlegs réttar til lífs, frelsis og ýmissa gæða annarra. Að viðurkennt sé, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, en það sé undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum, eins og segir í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þar segir ennfremur að séu mannréttindi fyrir borð borin og lítilsvirt, hafi slíkt í för með sér siðlausar athafnir, er ofbjóði samvisku mannkynsins, enda sé æðsta markmið almennings um heim allan að skapa veröld, þar sem menn fái notið málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um einkalíf og afkomu.
Það er því alveg með ólíkindum að hér á landi fyrirfinnist fólk, sem vill að það sé tekið alvarlega í opinberri umræðu og lætur eins og það eitt standi í fylkingarbrjósti mannréttinda, en heldur því svo fram kinnroðalaust, að einhverjir menningarheimar eða afkimar njóti réttinda eða griða, sem gangi framar mannréttindum. Ætli Sóley mæli fyrir hönd vinstrigræna um þessi mál?
Fordómar og firring
Þessi afstaða hefur þó jafnvel enn alvarlegri blæ en vikið er að að ofan. Með henni er nefnilega tekið undir þau sjónarmið að tiltekin tegund fólks eigi réttindi sín undir því en ekki algildum mannréttindum. Er það þingmannaleið frá kynþáttahyggju eða kynþáttafordómum?
Þrælahaldarar fyrri tíma reyndu að réttlæta athæfi sitt með því að þrælarnir væru tæpast menn, í besta falli börn meðal manna, sem þeir væru að aumka sig yfir og reyna að koma til einhvers þroska. Hver er munurinn á þeim málflutningi og að halda því fram, að um stöðu og réttindi kvenna einhverstaðar í svörtustu Afríku verði ekki rætt nema út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra? Má ekki réttlæta hvaða viðbjóð sem er á þeim forsendum?
Gamalkunnug stef
Þessi orðræða er ekki ný af nálinni. Bandung-kynslóðin kynnti þessa hugmynd í nafni baráttu gegn heimsvaldastefnu og hún var meira að segja innleidd í ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna um tíma. Þar gengu vitaskuld fremstir einræðisherrar vanþroskaheimsins, sem vildu hafa blóðböð sín og mannfyrirlitningu í friði og allt í nafni sérstakrar menningar og einstakra aðstæðna í landi sínu. Þessi söngur hljómar enn, bæði í Arabaheiminum og sums staðar í Afríku, en einnig í löndum á borð við Búrma og Kína. Og nú hljómar hjáróma bakrödd Sóleyjar Tómasdóttur við þann falska kúgunarbrag.
Um allt þetta hefur verið rætt og ritað í nokkru máli á undanförnum árum, en aðallega þó í tengslum við fjölmenningarsamfélagið eða innflytjendavanda (eftir því hvernig menn eru stemmdir í þeirri deilu). Ég leyfi mér hins vegar að benda á framúrskarandi bók um þessi efni, sem gefin var út fyrir 20 árum og því ómenguð af tilfinningablandinni deilu dagsins, en um leið næsta laus við umræðuhefð eftirstríðsáranna. Hún er eftir franska heimspekinginn Alain Finkielkraut og bar nafnið Dauði hugsunarinnar eða La Défaite de la pensée. Ég mæli óhikað með ensku þýðingu bókarinnar, sem fá má á Amazon fyrir um 1.700 krónur.
Femínismi á villigötum
Ég hef aldrei hrifist af femínisma fremur en annarri hugmyndafræði, enda er hugmyndafræði helst til þess fallin að binda menn á klafa kreddu. Hvað þá þegar sjálfskipaðir hugmyndafræðingar eins og Sóley leiða menn á villigötur eða hreinar ógöngur eins og að ofan er greint. Mér er meira að segja meira í nöp við femínisma en marga hugmyndafræði aðra, vegna þess hún miðast við að sækja tilteknum hópi óljós réttindi í stað þess að berjast einfaldlega fyrir mannréttindum allra, óháð því hverrar gerðar maðurinn er að öðru leyti eða í hvaða aðstæður hann hefur ratað. Eins og ég hef áður ritað um tel ég ljóst að þau réttindi þurfi nauðsynlega að vera neikvæð, það er að segja að réttindin feli í sér frelsi frá áþján annarra, en gef hins vegar lítið fyrir hin jákvæðu réttindi, sem jafnan snúast um réttinn til tiltekinna gæða. Hin fyrrnefndu snúa jafnan að einstaklingnum en hin síðarnefndu oftast að hópum. Hópar þurfa engin slík réttindi ef einstaklingarnir njóta hinna og þau eru beinlínis skaðleg, því jákvæð réttindi verða trauðla veitt án þess að vera öðrum íþyngjandi, hvort heldur er hópum eða einstaklingum.
En ég skil afstöðu femínista, sem álíta að konur séu órétti beittar sakir kynferðis síns og því verði þeir að snúa vörn í sókn. Gangi þeim allt í haginn. Það þýðir hins vegar ekki að ég sé eða þurfi að vera sammála öllum greiningum þeirra og lausnum. Og enn síður að ég eða nokkur annar allra síst konur af því að þær séu konur þurfi að gangast undir ok hins pólitíska rétttrúnaðar femínismans, sem er sjálfum sér verstur með því að ganga út frá því að allar konur hljóti að hugsa eins af því að þær eru konur og því megi og eigi að líta á þær sem hóp með eina rödd. Það er nefnilega fasismi líka.
....................
Umræða um umræðu um umræðu
Fyrst maður er fallinn í þá gryfju eftiráhyggjumannanna (póstmódernistanna), að ræða umræðuna til þrautar, er rétt að maður haldi áfram. Ég sé að Sóley hefur áttað sig á því að hún hefur eina ferðina enn verið opinskárri en málstað hennar er framdráttar. Hún telur alvarlegast að sér sé gerð upp vörn fyrir umskurð kvenna og segir að sér sé ekkert fjær, þó hún hafi tekið vörn gerendanna, þar sem þeir væru aðeins fórnarlömb samfélagsins. En hver er þá ábyrgð samfélagsins? Og hvernig er unnt að láta það sæta ábyrgð? Þessi afstaða Sóleyjar er siðlaus með öllu, því með henni eru einstaklingar ævinlega firrtir ábyrgð á gerðum sínum, svo framarlega sem samfélagið lætur athæfið óátalið eða stuðlar að því. Mér hefur skilist á femínistum að það hafi átt við um heimilisofbeldi hér fyrr á árum. Var ábyrgðin á ósköpunum aðeins samfélagsins en ekki hrottanna?
Að öðru leyti telur Sóley sig ekki þurfa að skýra mál sitt frekar og stendur því að líkindum við annað í málflutningi sínum, sem ég tel þó ekki minna alvarlegt eins og fram kom eins og tveimur km ofar í þessari færslu. En mér þykir einnig athyglisverð sú vörn, sem Katrín Anna Guðmundsdóttir, fyrrverandi talskona Femínistafélagsins, setur fram fyrir Sóleyju og raunar sjálft tjáningarfrelsið. Hún er ekki síður en Sóley upptekin af umgjörð umræðunnar og gagnrýnir það að einhverjir skuli dirfast að vitna í orð, sem látin eru falla á lokuðum póstlista. Nú má vissulega taka undir það, að það er ófyrirgefanleg ókurteisi að vitna í einkabréf án leyfis, jafnvel þó maður sé að vitna í skrif sjálfs sín til annars! En póstlisti femínista er hreint ekki einkabréf, eins og Katrín Anna gefur til kynna, heldur póstdreifingarlisti, sem mér skilst að hundruð manna eða þúsundir séu áskrifendur að. Orðsendingar á honum eru ekki innan sérstakra vébanda, þó reglur listans kveði á um að ekki megi birta hann annars staðar. Það má t.d. höfða mál vegna ærumeiðinga á honum og eins hygg ég að dómstólar myndu fallast á að birting úr honum, líkt og Pétur Gunnarsson, Egill Helgason og nú ég höfum leyft okkur, falli innan skilgreiningar á sanngjarnri tilvitnun (e. fair use) í fréttaflutningi eða lýðræðislegri umræðu.
Katrín Anna segir að póstlistinn hafi þennan skilmála til þess að mynda umræðuvettvang, þar sem fólk þorir að tjá skoðanir sínar án ótta við eftirmál utan vallar. Það sjónarmið er gott og gilt, þar sem það á við, en mér finnst það þó hæpið þegar um er að ræða póstlista, þar sem engar takmarkanir eru á þátttöku að skilmálunum undanskildum og bréfriturum er ljóst að verulegur fjöldi manna, sem þeir kunna að öðru leyti lítil skil á, fær orðsendingarnar undir nafni umsvifalaust. Þar fyrir utan er eitthvað sérstaklega galið að halda því fram, að þetta geti orðið til þess að Sóley hætti að þora að tjá skoðanir sínar. Ætli það finnist óttalausari manneskja á Íslandi hvað það varðar? Þess utan er Sóley stjórnmálamaður, sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir flokk sinn og Reykvíkinga, og því eiga orð hennar um hvaðeina, annað en einkamálefni, brýnt erindi við almenning.
Þá finnst mér skörin færast upp á bekkinn þegar Katrín Anna heldur því fram að umfjöllun þessi sé tilraun til að þagga niður í einni konu. Femínista. Já, femínista, eins og það sé til refsiþyngingar. Í umfjöllun Péturs og Egils (mín skrif voru ekki kominn út í ljósvakann þegar Katrín Anna skrifaði) var vakin athygli á orðum hennar og skoðunum, sem augljóst er af viðbrögðunum, að mörgum þykja athyglisverð, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hver lét orðin falla skipti líka máli og því var frá því greint, en þeir voru engan veginn að hjóla í manninn. Egill átti síðan auðvitað sérstakt tilefni til þess að tjá sig um málið, þar sem Sóley hafði séð ástæðu til þess að víkja orðum að honum (að Agli fjarstöddum).
Þetta þykir mér því harla fáfengileg málsvörn. En það er kannski umhugsunarvert, að aðalatriðið er sem fyrr umgjörð umræðunnar fremur en efni hennar. Lýsir það miklu trausti á málstaðnum? Eða hitt, að fólk sem hefur stigið sérstaklega fram á svið þjóðmálaumræðu til þess að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd og breyta heiminum, skuli vilja halda því skýrt aðgreindu, sem það heldur fram á opinberum vettvangi og hinu, sem liggja þarf í þagnargildi og aðeins má ræða í eigin hóp eiðsvarinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.9.2007 | 13:35
Stöð 2 og samsærið mikla
Í gærkvöldi var ég í Kastljósi Ríkissjónvarpsins hjá Þóru Arnórsdóttur til þess að fara yfir fréttir vikunnar ásamt Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, stöllu minni, sem nú er milli bæja í fjölmiðlahreppnum. Þar var meðal annars tæpt á uppsögn hennar á fréttastofu Stöðvar 2.
Ég lagði meðal annars það orð í belg, að mér þætti fjölmiðlaumfjöllunin um uppsögn hennar hafa verið furðumikil, á sama tíma og uppsögn 64 starfsmanna Icelandair hefði lítið rými fengið.
Þá var því til svarað að ef til vill gegndi öðru máli þarna um, þarna hefði verið einhverjar pólitískar vélar á ferð. Ég verð að játa að ég þekki málið ekki til hlítar, en mér heyrðist á Þóru Kristínu, að þarna hefði verið um vinnustaðapólitík að ræða, sem er allt annar handleggur en pólitískar atvinnuofsóknir eða hefndaraðgerðir, líkt og sumir gáfu til kynna þegar uppsögnin spurðist út.
Á fjölmiðlum þurfa ritstjórar að skipa liði sínu með ýmsum hætti og taka tillit til alls kyns sjónarmiða. Ekki síst á það við um sjónvarpsmiðlana, sem eru öðrum þræði í skemmtanabransanum. Slíkar ákvarðanir eru byggðar á smekk og tilfinningu, sem engin leið er að deila um af neinu viti.
Hin faglegu sjónarmið
Það tíðkast mjög þessi árin að svokölluð fagleg sjónarmið eigi að ráða á öllum sviðum. Ekki síst er skírskotað til þeirra þegar mannaráðningar eru annars vegar, en þær virðast hafa orðið mun viðkvæmari með árunum, ekki endilega vegna þess að réttlætistilfinning manna bjóði það, heldur kannski ekki síður vegna þess að fólk virðist í auknum mæli líta á sérhverja höfnun í lífinu sem endanlegan og óréttmætan dóm yfir persónu sinni. Hins vegar man ég nú ekki eftir því að það hafi nokkurn tíman verið skýrt til hlítar við hvað er átt með orðaleppnum faglegu.
Með hinni faglegu orðræðu er hins vegar gefið til kynna, að unnt sé að leggja menn við eina tiltekna mælistiku til þess að reikna út mannkosti hans. Rétt eins og það nægi að safna saman einhverri tiltekinni tölfræði úr lífshlaupi manna, slá hana inn í Excel og nota einhverja glæsilega formúlu til þess að finna út lokaeinkunn hvers og eins. En auðvitað er það ekki hægt; maðurinn er óendanlega fjölbreytt skepna og því má eins reyna að deila í hann með óendanleikanum eða núlli. Með álíka skynsamlegum niðurstöðum.
Við höfum horft upp á það undanfarin ár hvernig gengur að leggja slíkt mat á menn. Þær rannsóknir hafa líka áhrif á niðurstöðuna, rétt eins og skammtafræðin kennir okkur. Fólk fer að haga sínu faglega lífi til þess að líta betur út á pappírnum, en verður fráleitt hæfara fyrir vikið.
Auðvitað má finna atvinnugreinar, þar sem faglegar mælistikur má leggja á störf manna, fyrst og fremst í greinum þar sem auðvelt er að mæla afköst og ástæðulaust að taka tillit til annarra þátta. En þær eru fáar og fer fækkandi. Að mínu viti er fjölmiðlun alveg sérstaklega galin atvinnugrein til þess að stunda þessar faglegu mælingar. Í blaðamannastétt hafa þrifist alls kyns kynlegir kvistir, sem sumir hverjir hefðu tæpast verið umbornir á öðrum vinnustöðum. Fjölmiðlar eru enda óvenjulegir vinnustaðir; þversagnakenndar verksmiðjur þar sem skapandi fólk stendur við færiböndin. Það þarf að hafa nasasjón af öllu milli himins og jarðar og geta fyrirvaralaust gengið í öll verk. Um leið eru menn tilbúnir til þess að líta hjá alvarlegum göllum meðan kostirnir vega þyngra þegar á reynir.
Það er unnt að mennta sig í blaðamennsku og læra góð og rétt vinnubrögð, en ágætiseinkunn úr slíkum skóla er engin trygging fyrir því að menn reynist góðir blaðamenn. Starfsaldur eða afköst eru ekki heldur áreiðanlegur mælikvarði í þeim efnum. Hvað þá blaðamannaverðlaun, eins og dæmin sanna!
Pólitík hvað?
En í þessarri umræðu allri skildi ég aldrei almennilega hvað menn voru að fara með þessum ásökunum í garð Steingríms Ólafssonar, að pólitík væri rót uppsagnar Þóru Kristínar. Það hafði enda enginn fyrir því að skýra það út. En tesan var eitthvað á þá leið, að fyrst Steingrímur værir framsóknarmaður, sem meira að segja hefði unnið fyrir Halldór Ásgrímsson í forsætisráðuneytinu, þá hlyti sérhver ákvörðun hans að vera af pólitískum rótum runninn. Einmitt.
Auðvitað er það ekki nóg, að pólitísk afstaða Steingríms sé þekkt, svo álykta megi að allar hans ákvarðanir stýrist af henni. Umræddar ákvarðanir verða þá að hafa einhverja pólitíska vídd til þess að slíkt sé til umræðu (nema menn telji að hann taki mjólk í kaffið til þess að sýna samstöðu með Guðna Ágústssyni og kúabændum).
Haldi menn því fram að það hafi verið flokkspólitísk ákvörðun hjá honum að segja Þóru Kristínu upp þurfa þeir jafnframt að útskýra hvað Framsóknarflokkurinn eigi að græða á uppsögn hennar eða hvað hún eigi að hafa gert á hans hluta.
Þá ættu menn að fara varlega, því með slíkum ásökunum eru þeir í raun að gefa í skyn að Þóra Kristín hafi ekki gætt hlutleysis í fréttaflutningi sínum, að hún hafi dregið pólitískan taum, verið framsóknarmönnum sérlega mótdræg eða ámóta. Eru dæmi slíks?
Eða Halldór Ásgrímsson að hafa fyrirskipað sínum gamla undirmanni að láta nú sverfa til stáls gegn dóttur Sigríðar Jóhannesdóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingar og Alþýðubandalags, af því honum fannst Sigríður alltaf hafa horft hálfillilega til sín í þinginu hér í den?
Nei, ætli framsóknarmenn hafi ekki að einhverju þarfara að huga til þess að ná sér á strik á ný. Það starf mun eiga sér stað innan flokks þeirra og á Alþingi. Steingrímur hugsar vafalaust hlýlega til flokkssytskina sinna, en ég hef engin merki séð um það að fréttastofu Stöðvar 2 hafi verið í neinu beitt fyrir vagn Framsóknarflokksins.
Það má vel hafa þá skoðun, að Steingrímur hafi gert mistök með því að segja upp þrautreyndum fréttamanni eins og Þóru Kristínu, en þá er það fréttastofan, sem sýpur seyðið af því, og Steingrímur sjálfur áður en yfir lýkur, ef trúverðugleiki fréttastofunnar bíður varanlegan hnekki af. Eins og dæmin sanna lifa flestir fréttamenn Stöðvar 2 fréttastjóra sína af í starfi. Það kemur þá bara í ljós. En að láta eins og það sé reginhneyksli, pólitískt samsæri og óbærilegt áfall fyrir íslenska fjölmiðlun er bara bull.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.9.2007 kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.9.2007 | 03:46
Hveitibrauðsdagarnir að baki
Í dag er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 100 daga gömul og þar með telst hveitibrauðsdögum hennar lokið. Sagt er að í stjórnmálum verði nýjum valdhöfum að verða vel úr verki þessa fyrstu 100 daga, því það sé þá, sem einhver von sé til þess að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd. Afgangurinn af kjörtímabilinu fari í að sinna daglegri húsvörslu og slökkva elda. En svo má líka minna á að þessi hugmynd um 100 örlagadaga í pólitík má rekja aftur til ársins 1815, en þá liðu einmitt 100 dagar frá því að Napóleon rauf útlegð sína á Elbu þar til þeir von Blücher, Vilhjálmur prins af Óraníu og hertoginn af Wellington réðu niðurlögum herja Frakka í Waterloo, sem Abba gerði ódauðlegt hér um árið.
Það væri því ekki úr vegi að staldra við á þessum tímamótum og líta yfir farinn veg. Það veldur þó vanda, að pólitíkin hefur ekki verið fyrirferðarmikil síðan ríkisstjórnin tók við völdum, þingið í sumarleyfi, fá knýjandi mál hafa komið upp og afrekaskráin eftir því stutt. Jafnvel stórmál eins og niðurskurður þorskveiðiheimilda reyndist ekki hafa neina pólitíska vídd, en það er helst að sláttur á sumum ráðherrum Samfylkingar hafi vakið athygli. Það er kannski helst núna, sem opinber ágreiningur innan stjórnarinnar er að koma upp á yfirborðið, um vatnalögin!
Að því leytinu er vart hægt að taka störf stjórnarinnar til kostanna enn. Hins vegar vill svo til að Capacent Gallup var að birta niðurstöður skoðanakönnunar um fylgi flokkanna. Það er langur vegur frá því að í þeim felist nokkur stórtíðindi, en það má vel reyna að lesa eitthvað í þau og horfa eilítið fram á veginn, það styttist í þingsetningu og maður heyrir á þingmönnunum niðri í bæ, að þá er marga farið að klæja í fingurna. Ég hef nú reyndar ekki heyrt í nema þremur þeirra um þessa skoðanakönnun og þeir voru allir stjórnarliðar. Þeir voru á einu máli um að könnunin sýndi að stjórnarandstaðan ætti sér engrar viðreisnar von og nefndu svo ýmis dæmi um hvernig hún væri að veslast upp. Það má vera rétt athugað, en af því leiðir ekki sjálfkrafa, að allt sé í himnalagi á stjórnarheimilinu.
Mér finnst að vísu hæpið að halda því fram að fylgi við ríkisstjórnina sé að dala, líkt og gert er í fyrirsögn á mbl.is, þó það fari úr 83% í 80% á sama tíma og samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er um 69%. Án þess að hafa séð tölur um úrtak, heimtur og skekkjumörk myndi ég láta mér nægja að segja fylgið á svipuðu róli.
Nú er það altítt hér á landi, sem víðast hvar í vestrænum lýðræðisríkjum, að nýmyndaðar ríkisstjórnir njóta mikils velvilja fyrsta kastið. Það er líka athyglisvert að þegar menn eru spurðir að því hvað þeir kusu í síðustu kosningum er eins og minni margra bili; ef marka mætti þær niðurstöður hefðu ríkisstjórnarflokkarnir átt að vinna mun glæsilegri kosningasigra, en raunin var þegar talið var úr kjörkössunum. Þrátt fyrir það allt held ég að það hljóti að vera harla fátítt, að nokkur ríkisstjórn njóti stuðnings fjögurra af hverjum fimm kjósendum, nema á stríðstímum eða við álíka óvenjulegar aðstæður. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að þó ríkisstjórnarmeirihlutinn sé afar ríflegur (43 þingmenn af 63 eða 68,25% þingheims), þá fengu stjórnarflokkarnir ekki nema 63,4% atkvæða í kosningunum í vor. Umframstuðningurinn nú nemur því liðlega 17%. Ætli það verði ekki skálað í kampavíni á næsta ríkisstjórnarfundi?
Hins vegar gæti forysta Sjálfstæðisflokksins velt því fyrir sér hvers vegna fylgi flokksins dalar úr 45% í 42%, sem miðað við fyrri fylgni er ábending um að það myndi reynast í kringum 38% í kjörklefum. Það er erfitt að benda á eitthvað sérstakt, sem gerst hefur milli þessara kannana, sem gæti skýrt þá rénun. Auðvitað má vera að þetta sé innan allra vikmarka, sveiflurnar hjá flokknum hafa áður verið svipaðar og meiri án þess að sérstök tilefni hafi legið í augum uppi. Mér koma þó í hug þrjár mögulegar skýringar.
- Sú fyrsta er að nokkrar blikur eru uppi í efnahagslífinu og fleiri en áður óttast að góðærinu kunni að vera að ljúka, erlendur lánsfjárskortur kann að hafa áhrif hér, vanskil eru að aukast í fyrsta skipti í sex ár, væntingar um næstu misseri eru minni en lengi hefur verið og svo má áfram telja. Þó í því felist kannski ekki mikil sanngirni, kann sá kvíði um efnahagsmálin helst að bitna á Sjálfstæðisflokknum, hann hefur hagstjórnina alla í sínum höndum og hið undralanga góðæri verið honum tengt. Dvíni það er ekki óeðlilegt að einhverjir spyrji hvort flokknum sé að förlast. Þessu að mestu ótengt má svo benda á umræðu liðinna vikna um Grímseyjarferjuna, sem auðvitað varð Sjálfstæðisflokknum ekki til álitsauka, hún var sérstaklega tengd fyrrverandi samgönguráðherra hans, klúðrið átti sér stað á síðustu vakt flokksins í stjórnarráðinu og viðbrögðin við umræðunni nú voru ekkert sérstaklega traustvekjandi.
- Önnur skýringin kann að vera sú, að sjálfstæðismenn hafa sáralítið haft sig í frammi á hveitibrauðsdögum hinnar nýju ríkisstjórnar (og afsakið innskotið, en hvað varð um hina gagnmerku umrræðu um Bleikjuna, Þingvallastjórnina, Baugsstjórnina og allt það?). Auðvitað hafa þeir margir nýtt þetta dýrðlega sumar til þess að safna orku eftir snarpa kosningabaráttu og ekki haft mörg tilefni til þess að vera að sprikla mikið á hinu pólitíska sviði. Á sama tíma hafa flestir ráðherrar Samfylkingarinnar haft sig töluvert í frammi, þó sumpart beri tilburðirnir helst keim af kátum kúm á vori eftir langa vetrarveru í fjósi. Sumir telja að þetta lagist í haust þegar þing kemur saman, en ég er ekki viss. Stjórnunarstíll forsætisráðherra er afar lágstemmdur og svipmótið er fremur í ætt við það, sem menn hafa átt að venjast úr embættismannakerfinu en pólitíkinni. Mér kæmi ekki fullkomlega á óvart þó einhverjir dustuðu rykið af spurningunni Hvar er Geir?, sem nokkuð bar á í fyrra.
- Þriðja skýringin er sú, sem Morgunblaðið hefur verið að ýja að upp á síðkastið og ekki síst í Staksteinum föstudagsblaðsins, sem lesa má í heild sinni hér að neðan. Hún er sú að mörgum sjálfstæðismönnum lítist hreint ekki á blikuna hvað varðar samstarfið við Samfylkinguna. Þeim þykir ýmsum nóg um tilburði sumra ráðherra hennar. Ég heyri ýmsa gegna sjálfstæðismenn lýsa áhyggjum sínum af því að flokkur þeirra sýni samstarfsflokknum allt of mikið eftirlæti og sumir þeirra segja jafnvel að miðjusókn flokksins ætli engan enda að taki og hann endi vinstra megin við miðju áður en kjörtímabilið er hálfnað. Það finnst mér djúpt tekið í árinni, en í þeirri gagnrýni felst sannleikskorn og hún lýsir raunverulegum áhyggjum gegnheilla flokksmanna. Það eitt og sér ætti að vera áhyggjuefni fyrir flokksforystuna, þó ekki geti þessi 3% dýfa valdið henni andvökunáttum. En í því samhengi er hins vegar vert að horfa til þess hversu margir yfirlýstir sjálfstæðismenn hafa verið óragir við að hjóla í borgarstjórann í Reykjavík á opinberum vettvangi upp á síðkastið. Sjálfsagt er þeim í raun og sann uppsigað við tiltekin ummæli hans eða ákvarðanir, en ég á erfitt með að verjast þeirri hugsun, að einhverjir þeirra séu aðallega að hafa í hótunum við Albaníu.
Sem fyrr segir er öldungis ástæðulaust fyrir flokksforystu Sjálfstæðisflokksins að rjúka upp til handa og fóta þó fylgi Sjálfstæðisflokksins hreyfist 3% til eða frá. En það er vert að gefa því gaum ef óánægja kraumar meðal harðkjarnans svo snemma á kjörtímabilinu. Eins ef það er almennt túlkað sem áhuga- eða erindisleysi þegar lítið fer fyrir ráðherraliði flokksins. Það er síðan rétt, sem vakið er máls á í fyrrnefndum Staksteinum, að gengi Sjálfstæðisflokksins er ekki í pólitísku tómarúmi, þó ég telji fullsnemmt að rekja fléttur á borð við þær, sem lesa má að neðan. En hitt er dagljóst að framganga margra ráðherra Samfylkingarinnar undanfarna 100 daga hefur ekki orðið til þess að treysta stjórnarsamstarfið eða auka trúnað milli stjórnarflokkanna. Var hann þó ekki ærinn fyrir.
Staksteinar Morgunblaðsins, föstudaginn 31. ágúst, 2007.
Ólund hér og þar
Það má finna í ýmsum hornum Sjálfstæðisflokksins, að nú þegar nýjabrumið er farið af samstarfinu við Samfylkinguna þykir sjálfstæðismönnum það samstarf ekki sérlega skemmtilegt. Sumir þeirra telja að talsmáti bæði formanns Samfylkingar og ýmissa annarra forystumanna flokksins sé ögrandi gagnvart Sjálfstæðisflokknum.
Sjálfstæðismenn eru byrjaðir að finna að Samfylkingin getur orðið erfiður samstarfsaðili.
Framsóknarmenn finna þennan pirring innan Sjálfstæðisflokksins og þykjast sjá hann langar leiðir. Þess vegna er nú að vakna aukin bjartsýni innan Framsóknarflokksins um að þeir komist í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Þeir telja að Samfylkingin leiti að heppilegu máli til að kljúfa stjórnarsamstarfið á og stöðva við umræður um gjaldmiðilinn. Eigum við að halda krónunni eða taka upp annan gjaldmiðil?
Í ljósi þess hvernig framsóknarmenn tala er ekki hægt að útiloka að þeir heyri svona raddir innan Samfylkingar.
Vandi bæði Samfylkingar og framsóknarmanna er sá að þriðji samstarfsflokkurinn sem þeir sjá fyrir sér í slíkri ríkisstjórn, Vinstri grænir, eru ekki ginnkeyptir fyrir gjaldmiðilsskiptum.
Hins vegar mundi aðild Vinstri grænna að ríkisstjórn leysa þann flokk úr þeirri tilvistarkreppu sem hann er í og jafnvel framlengja pólitískt líf Steingríms J. Sigfússonar.
Geir H. Haarde verður að gæta að sér.
![]() |
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.8.2007 | 01:59
Árangur Ingibjargar Sólrúnar
Ég las athyglisverða bloggfærslu míns góða bloggvinar Hjartar J. Guðmundssonar, þar sem hann fjallar um væntingar stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og vonbrigði þeirra. Hann rifjar upp margvíslegar spásagnir þeirra um hvernig veröldin myndi verða betri með hana við stjórnvölinn, spásagnir, sem fæstar rættust. Þetta er ágætt safn tilvitnana, sem ber óneitanlega vott um sérkennilega persónudýrkun. Hvernig hún rímar svo við erindi nútímalegs jafnaðarmannaflokks á nýrri öld og allt það er verðugt viðfangsefni fræðimanna.
En: Ég er sammála Hirti um að Ingibjörgu Sólrúnu hafi ekki tekist að uppfylla spádóma stuðningsmanna sinna um kjörfylgi eða kosningasigra, en má hitt ekki vera augljóst að henni hefur orðið verulega ágengt við að leiða Samfylkinguna til áhrifa? Á laugardag verður ríkisstjórnin 100 daga gömul og hveitibrauðsdagar hennar að baki. Getur Samfylkingin ekki vel við unað árangur sinn á þeim tíma, sem jafnan er mikilvægastur í lífi hverrar ríkisstjórnar? Með fullri virðingu fyrir okkar ágætu flokksbræðrum í ríkisstjórn hið nýja þing hefur enn ekki látið til sín taka af alvöru sýnist manni að Samfylkingin leiði umræðuna, hvert sem hún svo leiðir.
Þá má ekki gleyma hinu, að Ingibjörgu Sólrún hefur tekist það á undraskömmum tíma, sem henni hafði ekkert gengið við áður: að ná undirtökunum í flokki sínum og ekki síst þingflokknum, sem hún gat ekkert við tjónkað áður. Í því samhengi er rétt að benda á eitt, sem ekki vakti neina athygli á sínum tíma: Þegar flokksstjórn Samfylkingarinnar samþykkti tillögu formanns síns um stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, fylgdi ein lítil tillaga með, sem samþykkt var umræðulaust. Hún gaf formanni Samfylkingarinnar fullt umboð til þess að hrókera í ríkisstjórn eins og henni sýndist, án þess að bera það undir flokksstjórn eða þingflokk.
Ingibjörg Sólrún er utanríkisráðherra og hefur allt það sviðsljós, sem henni er nauðsynlegt til þess að blómstra. Embætti hennar er einnig öðrum fremur hentugt til þess að hafa þá veislu, sem flokksformanni best hentar. Hún hefur nú þegar sýnt að hún kann að nota völd af því taginu til þess að styrkja stöðu sína.
Geta Samfylkingarmenn kvartað þó þingstyrkurinn sé minni en í þeirra villtustu draumum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.8.2007 | 11:54
Það er stórt orð einelti
Ég hef lítillega fylgst með krytunum í kringum Q-bar, enda bý ég við Ingólfsstræti og þar að auki áhugamaður um skemmtanalíf í Miðbænum. Er raunar fyrrverandi atvinnumaður á þeim vettvangi, því ég var meðal eigenda Kaffibarsins um hríð og þekki vel þann núning, sem getur orðið milli veitingastaða og íbúa.
Erna Valdís Valdimarsdóttir gekk við hér á heimilinu um liðna helgi og bauð okkur að skrifa undir mótmæli sín, en við afþökkuðum það reyndar; við höfum ekki ama af Q-bar umfram aðra veitingastaði hér í bænum.
Auðvitað er erilsamt hér í nágrenninu um helgar: hróp og vondur söngur, ill umgengni og annað það álag, sem fylgir skemmtanalífinu. Mér var hins vegar fullkunnugt um það þegar ég flutti í Miðbæinn og þarf að sýna því umburðarlyndi. Allir staðir hafa sína kosti og ókosti og mér finnast kostirnir veigameiri en ókostirnir. Einhverjir eru á öðru máli og þess vegna búa þeir annars staðar. Þannig virkar þetta nú, svona almennt, en það þýðir ekki að fólk eigi bara að láta hvað sem er yfir sig ganga hér í Miðbænum, að veitingamenn geti farið sínu fram án ábyrgðar og yppt öxlum þegar nágrannarnir ærast.
Ég skil þess vegna afstöðu Ernu mætavel, hún býr fast við Q-bar og hefur verulegt ónæði af, sem ekki hefur minnkað eftir að reykingabannið var sett á. Það veldur auknu rápi, pallurinn fyrir utan er stappfullur af fólki, en þar að auki er talsvert rennerí frá staðnum yfir í port þarna bak við, en það er við bakdyrnar hjá Ernu. Þar sinna gestirnir alls kyns erindum.
Ekki síst er þó ónæðið af völdum hávaða frá Q-bar, en hann hefur aukist til muna frá fyrri tíð. Meðan Ari í Ögri var rekinn þarna var þar afdrep peysukomma og misupprennandi skálda, þar sem Leonard Cohen hljómaði ekki ýkja hátt. Þegar Q-bar var settur á laggirnar var því aldeilis breytt, nýtt hljómflutningskerfi sett upp og beinlínis gumað af því að nú yrði allt sett í botn. Síðan hefur dunað þar HNRG og Eurotrash tónlist á fullu blasti fram undir morgun, sem er í takt við eðli staðarins.
Mér finnst það því harla léleg vörn hjá Ragnari Ólafi Magnússyni, sem á helming í Q-bar og sjá má á myndinni að ofan, að bera það upp á Ernu, að andófi hennar valdi fordómar gegn samkynhneigðum. Í vorri pólitísku réttrúnaðarkirkju eru það harla alvarlegar ásakanir, sem þyrfti þá að rökstyðja með greinarbetri hætti en Ragnar gerir. Q-bar er ljóslega sá veitingastaður, sem mestu ónæði veldur fyrir Ernu, og fráleitt að kalla það einelti, þó hún dirfist að benda á það hvaðan mestur hávaðinn komi inn á heimili sitt. Fram á morgun.
![]() |
Telur um einelti að ræða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.8.2007 | 16:18
Dellufjölmiðlar
Ég sé að vatnaskil eru í blaðaútgáfu vestanhafs, því útgáfu Weekly World News hefur verið hætt eftir 28 glæsta sögu geðveikra frétta. Í því var aldrei að finna satt orð og dellan gat verið dásamlega fyndin. Samt átti maður erfitt með að verjast þeirri hugsun að einhversstaðar væri til fólk, sem tryði fregnum blaðsins um andlitsbirtingu Elvisar á framandi hnöttum, yfirnáttúrulegar verur á vappinu ásamt geimverum og svo framvegis. Miðað við auglýsingarnar var trúgirni nokkur meðal lesendanna, þar auglýstu nær einvörðungu spámiðlar, stjörnuspekingar og ámóta. Blaðamaðurinn Stan Sinberg skrifar skemmtilega minningargrein um sinn gamla miðil á Salon.
Weekly World News svipaði um margt til hins frábæra Lundúnablaðs Sunday Sport, þar sem blaðamennirnir stærðu sig af því að ekki væri neitt satt í því nema sjónvarpsdagskráin. Meira að segja lungnahlífarnar á fáklæddum fyrirsætum blaðsins væru óekta. Þegar ég var við nám í Lundúnum vaknaði maður stundum um helgar með þynnku beint upp úr Opinberunarbókinni og þá var Sunday Sport tilvalið meðal til þess að leiðrétta fremur þungbúna afstöðu til lífsins.
En auðvitað er til nóg af illa upplýstu og trúgjörnu fólki, nú sem fyrr. Menn þurfa ekki að skoða sölutölunar hjá National Enquirer (sem selst alveg prýðilega hér á Íslandi) til þess að komast að því, því hvað má segja um allt samsæriskenningaliðið, álfaskoðarana eða allan þann fjölda, sem spilar í lottóinu af því að það lagði sig ekki fram í stærðfræði á sínum tíma?
Hér á Íslandi hefur samt ekki komið upp hrein lygapressa af þessu tagi. Þó Séð og heyrt geri út á svipaðan markað er þar ekki að finna slíkar fréttir, þó efast megi um fréttagildi blaðsins á stundum. Um tíma var DV komið á hálari ís, en fór samt ekki alla leið. Sjálfsagt er eina dæmið um hreinar lygafréttir í íslenskum miðlum Gula Pressan, sem Gunnar Smári Egilsson ritstýrði af röggsemi hér á árum áður. Að vísu var það aðeins ein síða í Pressunni og hún gat verið óborganlega fyndin. Á þeim árum gáfu kommarnir út Þjóðviljann eða Vikublaðið undir slagorðinu Til vinstri þar sem hjartað slær, en Gula Pressan valdi sér annað: Fyrir neðan beltisstað, þar sem það er sárast. En það er svo skrýtið að stöku sinnum kom upp missilningur hjá lesendum blaðsins, sem lögðu trúnað við fréttir Gulu Pressunar og býsnuðust mjög. Sem gerist reglulega þegar fréttir The Onion fara á flakk, en dæmi eru um að alvöru fréttamiðlar hafi étið þvæluna upp og birt sem sannar fréttir.
En auðvitað vantar Ísland ekki fjölmiðil, sem skáldar upp ólíkindafréttir. Við eigum alveg nóg með miskilninginn, missagnirnar og mistökin, sem reglulega má finna í þeim, sem fyrir eru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.8.2007 kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.8.2007 | 00:15
Vefur og vanræksla Valgerðar
Hinn góði ritstjóri á Eyjunni, Pétur Gunnarsson, bloggaði á föstudag um fréttir af stöðu Ratsjárstofnunar og gerði sér upp nokkra undrun yfir því hvernig Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, ætti að vera að hnýta í Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Bjarni hefur látið í ljós efasemdir um hvernig hefur verið haldið á málefnum stofnunarinnar í aðdraganda þess, að Íslendingar taki að öllu leyti við rekstri hennar og kostnaði við það, alltof margir þræðir séu lausir um hver verkefni hennar séu, í hvers þágu og svo framvegis. Sérstaklega í ljósi þess að Bandaríkjamenn telja sig ekki þurfa á merkjum frá íslenska ratsjárkerfinu að halda lengur. Lætur Pétur eins og að með þessu hljóti Bjarni að vera að agnúast út í Geir, þar sem hann hafi tekið forræði samninga við Bandaríkin með sér úr utanríkisráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið á sínum tíma.
Þetta er einkennileg skoðun hjá Pétri fyrir margra hluta sakir. Og ekki verður hún minna rannsóknarefni í ljósi þess að pólitískt átrúnaðargoð hans, Valgerður Sverrisdóttir, hafði nákvæmlega sama boðskap að flytja heimsbyggðinni í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á laugardag. Það er vitaskuld ótrúleg tilviljun, sem kann að valda byltingu í líkindastærðfræði, en við skulum líta á spunann og hvers konar vefur varð úr.
Í fyrsta lagi er óskiljanlegt að greindur maður eins og Pétur skuli ímynda sér að vegna þess að Geir hafi haldið áfram að annast samningaviðræðurnar við Bandaríkjamenn (m.a. vegna þess að Valgerður, arftaki hans í utanríkisráðuneytinu, treysti sér ekki til þess), eigi hann þaðan í frá að bera ábyrgð á öllum þar að lútandi málaflokkum. Eins og Pétur víkur raunar sjálfur að kynnti Geir niðurstöðu viðræðnanna hinn 26. september í fyrra og þar með lauk aðkomu hans að málinu. Allan þann tíma hafði utanríkisráðuneytið vitaskuld farið með forræði Ratsjárstofnunar, flugumsjónar á Keflavíkurflugvelli, Leifsstöðvar og alls þess annars, sem á grundvelli fortíðarfyrirkomulags um varnarstöðina á Miðnesheiði, var haft til umsýslu í utanríkisráðuneytinu. Þannig var það fyrir viðræðurnar, á meðan þeim stóð og eftir þær. Eða heldur Pétur virkilega að Geir hafi flutt forræði Fríhafnarinnar í KEF með sér yfir forsætisráðuneytið?
Í öðru lagi er vandalaust að átta sig á því að utanríkisráðuneytið bar fulla og algera ábyrgð á afdrifum íslenska loftvarna- og ratsjárkerfisins. Á því lék enginn vafi, eins og best má sjá á því að utanríkisráðuneytið, en ekki forsætisráðuneytið eða nokkurt annað stjórnvald, átti í viðræðum við bandarísk yfirvöld um framtíð þess á fundum í Brussel og Reykjavík, eins og fréttatilkynningar voru sendar út frá utanríkisráðuneytinu um hinn 23. febrúar og 11. maí.
Í þriðja lagi er fróðlegt að bera þessa skoðun Péturs saman við skrif hans um þessi málefni í janúar síðastliðnum. Þá kepptist hann við að lofsyngja Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi utanríkisráðherra, fyrir það að hafa innleitt glasnost í íslensk utanríkismál, hvorki meira né minna, með því að aflétta leynd af viðaukum gamla varnasamningsins frá 1951, en leyndina sagði hún bera keim af karllægu pukri í reykfylltum bakherbergjum. Bæði henni og Pétri láðist hins vegar að nefna, að ákvörðunin um afléttingu leyndarinnar var tekin í utanríkisráðherratíð Geirs H. Haardes (sem er karlmaður en reykir held ég ekki), en hins vegar var beðið með að fylgja henni eftir uns málið hafði farið sína leið í bandarísku stjórnsýslunni. Þrátt fyrir áskorun undirritaðs var leynd ekki aflétt af málaskrá ráðuneytisins til þess að upplýsa um hvernig ákvarðanatökunni var háttað og með því lauk glasnostinu frá Lómatjörn.
Pétur dró þó aðeins í land síðastliðinn vetur með fullyrðingar sínar um að forsætisráðherra hefði forræði um allt það, sem að varnarsamningnum lyti. Hann bætti við færslu sína:
Það er ofsagt hér að ofan að formleg samskipti hafi verið á höndum forsætisráðuneytisins - vitaskuld ber utanríkisráðherra stjórnskipulega ábyrgð á þessum málum en ekki forsætisráðherra.
Nú virðist Pétur hafa gleymt því öllu.
En hann veit betur og margnefnd skoðun hans er því í fjórða lagi athyglisverð fyrir þær sakir að hann er að reyna að drepa á dreif þeirri staðreynd að ábyrgðina á þessum vandræðum með Ratsjárstofnun nú hvílir á herðum skjólstæðings hans, frú Valgerðar Glasnost Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins. Frá því að Geir H. Haarde kynnti samkomulagið við Bandaríkjamenn (í félagi við Jón Sigurðsson, þáverandi formann Framsóknarflokksins og arftaka Valgerðar í Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu) í Þjóðmenningarhúsinu hinn 26. september 2006, sat Valgerður í stóli utanríkisráðherra í 240 daga, að því er virðist án þess að hirða hið minnsta um hvert stefndi með Ratsjárstofnun, þó undirsátar hennar funduðu um það með fulltrúum Bandaríkjastjórnar, en það var í maí 2006, sem varnarliðið hætti að fylgjast með merkjum frá Ratsjárstofnun. Hún vissi vel um þá stöðu og haft var eftir henni í fjölmiðlum í september síðastliðnum að þarna væri brýnt úrlausnarefni. Hún gerði bara ekkert til þess að leysa það.
Ég er enginn sérstakur aðdáandi núverandi utanríkisráðherra eða verkefnavals hennar, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur aðeins setið 80 daga í embætti og þó hún hafi sjálfsagt mátt leggja meiri áherslu á að ráða úr framtíð Ratsjárstofnunar, væri afar ósanngjarnt að leggja sökina að hennar dyrum. Sökina ber fyrst og fremst Valgerður Sverrisdóttir, átrúnaðargoð Péturs, sem hafði setið 103 daga í ráðuneytinu þegar nýja samkomulagið var kynnt og vanrækti það svo í 240 daga til viðbótar að grípa til viðeigandi ráðstafana. Værukærð og vanræksla Valgerðar í kjölfar samningsins var ekki einsdæmi eins og alþjóð varð ljóst í nóvember síðastliðnum þegar milljónatjón varð í íbúðarhúsum á Keflavíkurflugvelli vegna fyrirhyggjuleysis hins nýja húsvarðar. Það var dæmigert.
Í fimmta lagi gaf Pétur til kynna að vandræði stofnunarinnar nú megi rekja til þess að sjálfstæðismenn hafi ekki viljað afgreiða frumvarpsdrög Valgerðar Sverrisdóttur um nýja lagaumgjörð Ratsjárstofnunar úr ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Það þarf eindreginn brotavilja til þess að setja málin fram með þeim hætti. Valgerður vildi binda þetta lén við utanríkisráðuneytið fyrir fullt og fast, hafa allt óbreytt og tryggja þannig lífsviðurværi Ólafs Arnar Haraldssonar, forstjóra Ratsjárstofnunar (og fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins), þó engin ástæða væri til þess lengur að Ratsjárstofnun heyrði undir utanríkisráðuneytið fremur en umhverfisráðuneytið, svo annað ámóta fráleitt dæmi sé tekið. Eðlilegast væri vitaskuld að hún hefði verið flutt undir dómsmálaráðuneytið sem hluti af öryggiskerfum landsins, nú eða undir samgönguráðuneytið og þá væntanlega sem undirstofnun Flugmálastjórnar eða hluti Flugstoða. Það var engin tregða af hálfu sjálfstæðismanna til þess að samþykkja nýjan lagagrundvöll Ratsjárstofnunar, heldur það fyrirkomulag, sem framsóknarmenn kusu, en það miðaðist ekki við ytri þarfir eða hagsmuni þjóðarinnar. Það helgaðist annars vegar af valdahagsmunum ráðuneytisins, sem engan spón vildi missa úr sínum aski, og hins vegar valdahagsmunum Framsóknarflokksins.
Það segir kannski mesta sögu um málið að Valgerður Sverrisdóttir fékkst ekki til þess að lýsa þessu sögulega frumvarpi frá síðasta vetri, sem aldrei varð, í hádegisfréttunum í dag og bar fyrir sig nauðsynlegri leynd! Hvar var glasnostið þá, Pétur? En auðvitað stenst það ekki, fremur en annað í málflutningi framsóknarmanna, að leynifrumvarp Valgerðar hefði skipt sköpum, enda var þá engan veginn ljóst hvaða verkefnum Ratsjárstofnun skyldi sinna. Tómt mál væri að tala um að Alþingi hefði getað ákveðið það einhliða með lögum: viðræður við Bandaríkjamenn höfðu ekki einu sinni hafist þegar hún fór að bauka þetta, hvað þá að utanríkisráðuneytið hefði myndað sér einhverja afstöðu. Það blasir við að þetta tal um leynifrumvarp Valgerðar er hreinn fyrirsláttur; aumkunarvert yfirklór til þess að reyna klína ráðaleysi, vanrækslu og embættisafglöpum Valgerðar Sverrisdóttur á aðra.
Í sjötta lagi er með ólíkindum að framsóknarmenn af öllum skuli kjósa að færa vanda vegna Ratsjárstofnunar sérstaklega í tal, alveg burtséð frá trassaskap Valgerðar í embætti og öldungis óbreyttri starfsemi stofnunarinnar og kostnaði, þrátt fyrir gerbreytt umhverfi. Það er sjálfsagt að rifja upp sögu stofnunarinnar, sem er samofin flokksgæðingaharmsögu Framsóknarflokksins og beinlínis á mörkum hins löglega. Mönnum hefur blöskrað hroki Ólafs Arnar Haraldssonar, forstjóra Ratsjárstofnunar, en hann hefur látið eins og málefni stofnunarinnar komi öðrum hreint ekki við og síst almenningi, sem fær að borga brúsann. Að ekki sé minnst á framgöngu Gunnlaugs M. Sigmundssonar, sem einnig er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins. Þegar hann var framkvæmdastjóri Þróunarfélags Íslands keypti hann liðlega fjórðungs eignarhlut í Kögun, en hún fékk einkarétt til þess að annast rekstur og viðhald hugbúnaðar fyrir ratsjárkerfið. Þetta sætti miklu ámæli á sínum tíma en það breytti engu um orðinn hlut. Og allt í boði og skjóli Framsóknarflokksins.
Í sjöunda lagi snerist lokaliðurinn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 um, að gerðar yrðu ráðstafanir til að lesa úr öllum merkjum frá ratsjárstofnun, sem þýðingu hefðu varðandi eftirlit með flugvélum í lofthelgi Íslands. Við núverandi aðstæður er augjóst að eftirlit með þessum merkjum ætti annars vegar að vera hjá flugumferðarstjórn og hins vegar þeim, sem manna vaktstöðina við Skógarhlíð. Flóknara þarf það nú ekki að vera. Ég þekki lítillega til umræðu um varna- og öryggismál innan Sjálfstæðisflokksins og kannast ekki við að þar hafi verið minnsti ágreiningur um þessi mál, en vilji frú Valgerður og lærisveinn hennar liggja sjálfstæðismönnum á hálsi fyrir að hafa viljað átta sig á því, hvert skyldi vera raunverulegt verkefni Ratsjárstofnunar eftir brottför varnarliðsins, þau um það. En þá er líka rétt að rifja það upp að það var Valgerði sérstakt kappsmál, að engu yrði breytt um starfshætti innan utanríkisráðuneytisins og stofnana á þess vegum fyrir kosningarnar í maí og var engu líkara en að þáverandi utanríkisráðherra vildi ekki horfast í augu við breyttar aðstæður og nýtt hlutverk, þótt varnarliðið væri farið.
Í áttunda lagi virðist framsóknarmafían enn vilja loka augunum fyrir veruleikanum, annars vegar til þess að verja vígi gæðinganna og hins vegar til þess að dylja vanrækslu og vitleysu Valgerðar í utanríkisráðuneytinu. Í næstu viku hefjast heræfingar hér á landi, sem meðal annars fela sér sér flug orrustuþota. Þá hefst einhver söngur um að Ratsjárstofnun sé varaskeifa í þeim og þess vegna sé afar mikilvægt að starfsemi hennar verði bara áfram eins og verið hefur. Það er vitaskuld tómt píp, Ratsjárstofnun er engin varaskeifa, hvorki við slíkar æfingar né ef til hernaðar kæmi. Bandaríkjamenn koma einfaldlega með allt sitt með sér og eru ekki að púkka upp á íslenska ratsjárkerfið fremur en hið grænlenska. Eftir að varnarliðið hvarf héðan varð Ratsjárstofnun þeim einskis virði, bandarískur herafli notar aðra, nýrri og fullkomnari tækni til að fylgjast með flugumferð. Þjóðhyggjumennirnir í Framsóknarflokknum telja NORAD sjálfsagt ekki standast hinni þjóðlegu Ratsjárstofnun sinna manna snúning og því skal hvað sem tautar og raula halda öllu í horfinu á kostnað skattgreiðenda svo Ólafur Örn týni ekki gullskeifunni varaskeifunni sinni.
Látið er í veðri vaka, að merki frá Ratsjárstofnun hér hafi gildi fyrir evrópskt eftirlitskerfi Atlantshafsbandalagsins, en er það svo? Með hvaða hætti? Á þá að miðla upplýsingum héðan beint til Evrópu? Hvert? Hvaða orrustuþotum verður stjórnað í gegnum kerfið? Ef nota á kerfið með stjórnstöð fyrir orrustuþotur eða eldflaugakerfi, þarf væntanlega að setja lög um heimildir fyrir starfsmenn íslenska ríkisins til að sinna hernaðarlegum störfum. Kannski eitthvað slíkt hafi verið að finna í hinu fræga leynifrumvarpi Valgerðar. Maður verður að vona að hún eða Pétur treysti sér til þess að svara því. Þó ekki væri nema fyrir glasnostið.
Í níunda lagi var ratsjárkerfið sett upp á sínum tíma til þess að styrkja varnaviðbúnað hér vegna vaxandi spennu á Norður-Atlantshafi undir lok Kalda stríðsins. Sú spenna er löngu horfin, ratsjárkerfið gegnir engu hlutverki hvað varðar varna- og öryggishagsmuni Íslands og ný tækni hefur leyst það af hólmi þegar á þarf að halda. Er réttlætanlegt að íslenskir skattborgarar borgi milljarð á ári, svo gömlum framsóknarþingmanni haldist á þægilegri innivinnu?
Í tíunda lagi situr höfuðspurningin enn eftir: Af hverju er starfsemi af þessu tagi á vegum utanríkisráðuneytisins? Hvar í ósköpunum er þannig staðið að málum? Valgerði þóttu það óþægilegar spurningar þá og hún virðist enn vita skömmina upp á sig, þó hún virðist ekki kunna að skammast sín. Nema náttúrlega hún hafi étið þetta allt beint upp eftir Pétri. Auðvitað á utanríkisráðuneytið ekkert með að vera að vasast í þessu öllu, eins og ég hef áður ritað um; það samræmist ekki hlutverki þess að vera varnamálaráðuneyti í hjáverkum. Í krafti gamla varnasamningsins við Bandaríkin annað ríki með herafla hér á landi þótti eðlilegast að utanríkisráðuneytið færi með þau mál, sem tengdust varnastöðinni, en um leið og bandaríski fáninn var dreginn niður hinsta sinni á Keflavíkurflugvelli, þraut allar forsendur þess. Nú er enda verið að vinda ofan af því og færa hina ýmsu starfsemi til viðeigandi ráðuneyta, fyrst og fremst dómsmálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis, en ekki er útilokað að eitthvað af henni verið einkavætt. Eftir stendur þó furðan, að hin sérstöku öryggissvæði á vellinum verða áfram á vegum utanríkisráðuneytisins og það mun áfram þykjast vera varnamálaráðuneyti. Væri nær að gagnrýna forsætisráðherra fyrir að gera ekki breytingar á því fráleita fyrirkomulagi, en stefnulausir tilburðir utanríkisráðuneytisins við að leita varnasamstarfs út um allar trissur er við það að gera landið að athlægi á alþjóðavettvangi.
Forsætisráðherra á síðasta orðið um verkaskiptingu innan stjórnarráðsins, en hefur ekki tekið af skarið um breytingu á þessari tilhögun. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, lýsti skoðunum sínum á því hvernig honum þætti skynsamlegast að skipa þessum málum í erindi hinn 29. mars síðastliðinn, sem öllum áhugamönnum um öryggis- og varnamál er hollt að lesa. Þar lýsti hann einnig þeim ráðstöfunum, sem gerðar hefðu verið, og það er einkar fróðlegt að bera saman hversu misjafnlega þau Björn og Valgerður nýttu tíma sinn eftir að samkomulagið við Bandaríkjamenn var kynnt. Þar kann að vera fundin rót þess ágreinings, sem Valgerður og Pétur básúna nú að sé fyrir hendi og sé ástæðan fyrir óefnum Ratsjárstofnunar. Sumsé að þeim sjónarmiðum hefði verið lýst af sjálfstæðismönnum að gera þyrfti frekari breytingar á stjórnarráðinu, en forsætisráðherra látið það vera.
En það er enginn ágreiningur eða deilur innan Sjálfstæðisflokksins um þessi mál, heldur kaus forsætisráðherra að auðsýna ráðherra samstarfsflokks tillitssemi, ráðherra, sem hélt dauðahaldi í úrelta verkaskiptingu innan stjórnarráðsins til að verja ímyndaða framsóknarhagsmuni án hins minnsta tillits til öryggishagmuna, enda hafði Valgerður ekkert vit á þeim, þó ekki skorti belginginn. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var mynduð var mikil áhersla lögð á hraðar hendur. Þrátt fyrir áhuga á að aðskilja öryggis- og varnarmál frá utanríkisráðuneytinu (líkt og ýmsir aðrir málaflokkar voru færðir milli ráðuneyta) var það látið eiga sig, til þess að það yrði ekki túlkað formanni Samfylkingarinnar til minnkunnar. Áherslan á þann málaflokk var enda engin; í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var alls að finna eina setningu um hann:
Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál.
Þar kann tækifæri að hafa glatast fyrir persónulegar og pólitískar ástæður, sem vitaskuld ættu í fullkomnum heimi ekki að ganga fyrir þjóðaröryggishagsmunum. Á hinn bóginn sýnist manni að Ingibjörg Sólrún hafi afar takmarkaðan áhuga á öryggis- og varnarmálum, að hennar áherslur í embætti muni liggja á öðrum sviðum. Það kann því vel að vera að henni sé það að meinalausu, þó málaflokknum verði sinnt annars staðar. Enginn skyldi þó velkjast í vafa um það að ráðuneytismenn munu vinna að því öllum árum að halda í varnarmálin, enda mæla opinberir starfsmenn mátt sinn í deildarstjórum og milljörðum á fjárlögum, en líkt og við flest vilja þeir fremur vaxa en visna. Það er góður prófsteinn á pólitíska mannkosti ráðherra hvort þeir láta ráðuneytið vinna fyrir sig og þjóðina eða öfugt: að þeir og þjóðin séu spenntir fyrir vagn ráðuneytisins.
Ég skal játa að ég hef meiri trú á staðfestu Ingibjargar Sólrúnar í þeim efnum en Valgerðar Sverrisdóttur, en hvaða samanburður er það? Mér þótti Valgerður ekki merkilegur utanríkisráðherra og þessi nýlega spunaþvæla hennar, sem að ofan er rakin, varð ekki til þess að auka álit mitt á henni, hvaða hvatir sem að baki kunna að liggja.
Mæli þarft eða þegi!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.9.2013 kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.8.2007 | 19:01
Landnám á hafsbotni
Síðasta fimmtudag bárus fregnir af því frá Rússlandi að könnuðurinn Artúr Tsjílíngarov í félagi við nokkra rússneska þingmenn hefði stungið rússneska fánanum niður á hafsbotni Norðurheimskautsins og helgað Rússlandi svæðið. Auk þess tók hann bergsýni til þess að reyna að sanna að hafsbotninn, Lomonosov-hryggurinn nánar til tekið, sé hluti af rússneska landgrunninu.
Auðvitað er auðvelt að afgreiða þetta sem rússneska furðufrétt í ætt við hinar sovésku frá fyrri tíð, þar sem þróunarríki með kjarnorkuvopn og geimferðaáætlun kepptist við að sanna tæknilegan mátt sinn og megin meðan þegnarnir sultu í heimsins víðfeðmustu þrælabúðum. Þessi flöggun, liðlega fjóra kílómetra undir yfirborðinu, hefur vitaskuld enga þýðingu að alþjóðalögum, en með henni þarf enginn að velkjast í vafa um ásetning Kremlarbóndans, Vladímírs Pútíns.
Í húfi er um 1.200.000 km2 flæmi milli norðurstrandlengju Rússneska ríkjasambandsins og Norðurheimskautsins, en það er ámóta svæði og öll Vestur-Evrópa. Talið er að þar megi finna miklar olíu- og gaslindir, auk alls kyns jarðefna á borð við blýs, demanta, gulls, mangans, nikkels, platínu og tins. Þá má ekki gleyma að þar eru einnig fiskimið og ef Al Gore hefur rétt fyrir sér um bráðnun heimskautaíssins mikilvægar nýjar siglingaleiðir. Nýting þeirra náttúruauðæva er enn of erfið og kostnaðarsöm, en það kann vel að breytast á næstu áratugum, tala nú ekki um ef bráðnunarspárnar rætast að einhverju leyti. Sjálfur myndi ég ekki sýta það ef meðalhitinn á Íslandi hækkaði, þó ekki væri um nema eina gráðu.
Þessar breyttu aðstæður tækniframfarir og loftslagsbreytingar hafa endurvakið áhuga margra ríkja á auðlindanýtingu í norðri en þar er sjálfsagt um gífurleg auðævi að ræða. Þess vegna hafa mörg ríki Norðurheimskautsráðsins, fyrst og fremst Bandaríkin, Danmörk, Kanada, Noregur og Rússland verið að ræskja sig, en ekkert þeirra hefur gengið jafnlangt og Rússar.
Samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna eiga öll strandríki sjálfkrafa landgrunn allt að 200 sjómílum, sem eru einnig ytri mörk efnahagslögsögunnar. Mörg ríki, þar á meðal Ísland, eiga hins vegar mun víðáttumeira landgrunn samkvæmt ákvæðum hafréttarsamningsins. Ríkin, sem í hlut eiga, skulu senda landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna ýtarlega greinargerð um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og yfirfer nefndin greinargerðina, leggur tæknilegt og pólitískt mat á hana og gerir tillögur um ytri mörk landgrunnsins. Á grundvelli þeirra getur strandríkið svo ákveðið á endanlegan og bindandi hátt mörk landgrunnsins gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu sem liggur þar fyrir utan.
Ísland gerir tilkall til landgrunns utan 200 sjómílna í suðri, á Reykjaneshrygg og Hatton Rockall-svæðinu, og í norðaustri, í suðurhluta Síldarsmugunnar. Landgrunnið var afmarkað til suðurs með reglugerð árið 1985. Aðeins Ísland gerir kröfu um landgrunnsréttindi á Reykjaneshrygg, en á Hatton Rockall-svæðinu hafa Bretar, Írar og Danir fyrir hönd Færeyja, einnig sett fram kröfur um slík réttindi. Í suðurhluta Síldarsmugunnar gera Norðmenn einnig kröfu til landgrunnsréttinda, bæði út frá meginlandi sínu og Jan Mayen, og Danir gera kröfu um slík réttindi fyrir hönd Færeyja. Þar liggur fyrir samkomulag aðila um skiptinguna, en það veltur á því að hverjum um sig takist að sannfæra landgrunnsnefndina um tilkall sitt.
Kemur þessi dagskrá Rússa norður við heimskaut Íslendingum eitthvað við? Það er nú það. Íslendingar hafa ávallt verið fremur deigir við að halda fram landakröfum á norðurslóð og hafa raunar gefið þær frá sér, enda fremur hæpnar. En ekkert miklu hæpnari en tilkall Norðmanna til Jan Mayen eða Bjarnareyjar, svo tvö dæmi séu tekin. En það er ekki gefið að það eigi við um nýtingarrétt á heimskautahafsbotni, ef svo fer, sem horfir, að semja þurfi um hann. Ísland á aðild að Norðurheimskautsráðinu og á margvíslegra hagsmuna að gæta þar nyrðra. Nú saknar maður Eykons sárt.
Í því samhengi þurfa Íslendingar sérstaklega að halda til haga samhengi landsins við Atlantshafshrygginn, sem liggur eftir Atlantshafinu endilöngu. Ekki svo að skilja að Íslendingar eigi rétt á nýtingu hans alls (ef því væri þanig farið gætum við allt eins rakið okkur eftir öllum plötuskilum allt inn í Persaflóa!), en þau rök eru að minnsta kosti jafnhaldbær og hinar nýju kenningar Rússa, sem þeir byggja landnám sitt á hafsbotni á.
Allt þetta kann einnig að skipta máli á öðrum forsendum. Samstarf okkar við næstu nágranna okkar, Grænlendinga og Færeyinga, í Vestnorræna ráðinu verður að líkindum aðeins nánara á næstu árum og áratugum. Ekki er ósennilegt að Grænlendingar muni þegar stundir líða fram gerast aðilar að Hoyvíkursamningnum um fríverslun og þá kann að verða styttra í nánari sambúð vestnorrænu ríkjanna en nokkurn kann að óra fyrir. Grundvöllur þess kynni að verða að þjóðirnar væru samstíga í ábyrgri auðlindanýtingu og eftirliti á nýjum siglingaleiðum á norðurslóð.
Það væri kannski nærtækara og brýnna verkefni utanríkisráðuneytisins en órar um friðflytjendahlutverk Íslendinga fyrir botni Miðjarðarhafs. Og gæti jafnvel borið ríkulegan ávöxt.
![]() |
Kanadamenn gera lítið úr norðurpólsleiðangri Rússa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar