Leita í fréttum mbl.is

Hvar er Íslandsdeild Amnesty?

Ég bara spyr: Hvar er Íslandsdeild Amnesty? Hér á landi er fjöldi pólitískra fanga og hið opinbera kemst upp með að brjóta alþjóðasáttmála, stefna samskiptum við vinveitt ríki í hættu og vera á mála hjá erlendum stórfyrirtækjum.

Eða svo skilst manni á „frétt“, sem Saving Iceland hefur sent frá sér, en samkvæmt henni eru dauðasveitir Ríkislögreglustjóra og Rio Tinto í óða önn við að smala saman frelsissveitum stóriðjuandstæðinga. Ætli það verði settar upp bráðabirgðafangabúðir á þjóðarleikvanginum? Manni sýnist að Kynþáttaeftirlitið hafi komið að málum með því að mæla út „utlendigar“ þegar önnur ámóta „frétt“ er lesin á vef samtakanna.

Baráttuaðferðir þessa hóps dæma sig auðvitað sjálfar og hugmyndafræðingana, sem að baki standa. En maður skyldi samt ekki vanmeta skaðann, sem slíkir hópar getað valdið. Ekki endilega hér á landi, heldur ekki síður erlendis með svona málflutningi. Allur almenningur mun seint sjá rausið, en svona „fréttir“ eiga aldeilis upp á pallborðið vinstrivillingunum, sem vilja trúa nánast hverju sem er, svo framarlega, sem það styður óra þess um stóru samsærin. Og slíkt getur hratt undið upp á sig með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, eins og menn þekkja af hinum fjölþjóðlega flokki iðjulausra róttæklinga, sem ferðast um heiminn til þess að valda óeirðum í kringum alþjóðlegar efnahagsráðstefnur og ámóta.

Það er eitthvað, sem vert er að hafa áhyggjur af. Ekkert er þessu fólki greinilegar kærar en að gerast píslarvottar. En það vill ekki borga sektir, beinlínis til þess að sitja inni, svo það geti skreytt sig með stolnum fjöðrum og sagst vera „pólitískir fangar“, sem auðvitað gerir lítið úr raunverulegum pólitískum föngum hvarvetna. Það fagnar refsivistinni, svo þá er rétt að spyrja sig hvaða refsing geti mögulega verið við hæfi. Það má víst ekki flengja það á beran bossann á torgum úti, þó slík niðurlæging væri líkast til best til betrunar þeirra fallin. En mér finnst að þá ætti réttvísin að krefjast annarar refsingar, auk fjársekta og varðhalds til vara. Til dæmis brottvísunar útlendinga úr landi og nokkurra ára banns við ferðalögum hingað, Schengen-banns við fólki utan þess og færslu á gátlista Schengen-kerfisins (SIS) fyrir alla. Ætli það væri ekki refsing, sem kæmi við kaunin á kónunum?

Mönnum kann að finnast það harkaleg viðbrögð, en þá ættu þeir að hafa hugfast að þetta eru nákvæmlega sömu aðferðir og notaðar eru gegn fótboltabullum í Evrópu. Hver er munurinn á þeim og Saving Iceland


Einar Oddur Kristjánsson

Þegar ákvörðun um sumarleyfi varð ekki lengur frestað ráðguðumst við hjónin við góða vinkonu okkar, öllu kunnugri landsbyggðinni, og spurðum hvert hún myndi fara til þess að eiga náðuga daga. „Nú, auðvitað til mömmu og pabba,“ svaraði Brynhildur Einarsdóttir án þess að hugsa sig tvisvar um. Og það gerðum við.

Einar Oddur og Sigrún tóku alúðlega á móti okkur þegar við komum til vikudvalar í næsta húsi við þau hjónin á Sólbakka. Í raun leið okkur fremur eins og við værum snúin heim í faðm fjölskyldunnar en að við værum aðkomufólk og telpurnar okkar hændust að þessum skrýtna afa og góðu ömmu á augabragði.

Þrátt fyrir að Einar Oddur ætti í nokkrum önnum þessa viku — það var verið að þinga um niðurskurð þorskveiðiheimilda og fjöregg Vestfjarða — lét hann eins og hann hefði ekkert betra við tímann að gera en að sinna okkur, segja okkur sögur og sögu, útskýra náttúruundrin, tala um pólitík, menningu og atvinnuuppbyggingu, fortíð og framtíð, hringrás lífsins og heimspeki; ekkert var honum óviðkomandi. Hann hafði leiftrandi frásagnargáfu, var samræðusnillingur og góður hlustandi, en þetta þrennt fer til ólukkunnar sjaldnast saman.

Það er óþarfi að rekja hin margvíslegu afrek Einars Odds á lífsleiðinni hér, en við færðum sumt af því í tal við hann þessa viku. Hann svaraði fúslega ýmsum spurningum þar um og bætti einu og öðru við þá fróðleg sögu, sumu með bliki í augum og prakkarabrosi. En það vottaði ekki fyrir stærilæti yfir glæstum ferli, þvert á móti reyndi hann að gera sem minnst úr sínum hlut. Það var frekar þegar hann leiddi okkur í gegnum gróðurvin sína á Sólbakka, einn fegursta garð landsins, sem hann talaði af fullu og verðskulduðu stolti. Þar átti hvert tré nafn (jafnvel latnesk, þó ekki sé víst að Linnaeus hefði kannast við þau öll) og sögu, sem einatt tengdist fjölskyldunni, en þegar talið barst að henni minnkaði stoltið ekki eða augljós ástúðin.

Garðræktin laut engu skipulagi, heldur fékk að þróast, og jafnvel ekki að fullu ljóst hver ræktaði hvern; Einar Oddur garðinn eða garðurinn Einar Odd. En gróðinn var gagnkvæmur, að ógleymdum ávinningi allra hinna, sem fá að njóta ávaxtanna um ókomna tíð.

Það var í aldingarðinum á Sólbakka, sem við kvöddum Einar Odd, allt of snemma fannst okkur. Og þó við værum að halda heim á leið, þótti okkur við fremur vera að fara að heiman. Við hétumst að hittast hið fyrsta og ekki síðar en að ári í Önundarfirði. Það heit munum við efna, þó það verði með öðrum hætti en við hlökkuðum til, því viku síðar var Einar Oddur örendur.

Dauði hans er mikill skaði, fyrst og fremst fyrir Sigrúnu og fjölskylduna alla, sem við finnum sárt til með. En skaðinn er einnig mikill fyrir íslenska þjóð, sem hefur misst manninn, sem náði að hrífa hana með sér úr viðjum stöðnunar og sundurþykkju og skapa þjóðarsátt með því að rifja upp hin eilífu og augljósu en stundum gleymdu sannindi, að við erum öll á sama báti.

Andrés Magnússon og Auðna Hödd Jónatansdóttir.

 

 

 

 

....................

Greinin hér að ofan er minningargrein, sem við hjónin skrifuðum um Einar Odd vin okkar í Morgunblaðið í dag. Ég hef ekki verið viðstaddur fjölmennari kveðjuathöfn, en hvert sæti Hallgrímskirkju var fyllt og fjöldi manns stóð á göngunum að auki. Ég giska á að þarna hafi verið 1.200-500 manns. Athöfnin var hátíðleg og tónlistarflutningurinn einstakur. Ég verð líka að minnast á líkræðu síra Hjálmars Jónssonar, vinar og fyrrum þingbróður Einars Odds. Hún var óvenjuleg, en afar falleg og persónuleg um leið og hún var óður til lífsins og mjög í anda Einars Odds. Ég held að hann hafi flutt hana óskrifaða, sem jók á orðkynngina. Í lokin, eftir blessunina, stóð öll líkfylgdin og söng einum rómi Ó, fögur er vor fósturjörð. Það var óviðjafnanlegt.

Að kveðjuathöfninni lokinni var haldið til erfisdrykkju í Súlnasal Hótel Sögu, sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð til. Þar var margt um manninn og góður andi. En það var erfitt að hitta hana Sigrúnu, ekkju Einars Odds, því hvað hefur maður að segja við slíkar aðstæður? Orð eru öldungis ófullnægjandi, en þau eru bráðnauðsynleg samt. En mest föðmuðum við hana nú og kysstum. Og hina vini okkar í fjölskyldunni, sem báru sig vel en eru harmi lostin. Ég er dapur þegar ég skrifa þessar línur og veit ég á eftir að sakna hans um alla tíð. Guð blessi minningu hans og gæti hans nánustu.


mbl.is Mikill fjöldi við kveðju- og minningarathöfn um Einar Odd Kristjánsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minni trú á stjórnmálaflokkum?

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er flennifyrirsögn: „Minni trú á stjórnmálaflokkum“ og þar svo kynnt ýtarleg umfjöllun inni í blaði um aukningu mótmælaaðgerða hvers konar. Raunar er það svo að í greininni er ekki að finna neina innistæðu fyrir fyrirsögninni, helst að hún eigi að vera einhverskonar túlkun á tilgátu, sem dr. Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor, setur fram í viðtali, en hann telur að „heildarlausnir stjórnmálaflokkanna henti [fólki] ekki lengur“ líkt og áður. Bendir hann á dvínandi þátttöku í flokksstarfi og minni kjörsókn til dæmis um það hvernig hefðbundið stjórnmálastarf hafi misst byr á sama tíma og óhefðbundið stjórnmálastarf hafi sótt í sig veðrið.

Það er vafalaust nokkuð til þessu hjá dr. Gunnari Helga, en mér fannst ekki koma nægilega vel fram hjá honum hvers vegna þessarar þróunar hefur gætt nær hvarvetna á Vesturlöndum á undanförnum árum, en að því er mér virðist (þó ég hafi ekki grafist sérstaklega fyrir um það) án þess að samhengið sé beint eða augljóst. Kjörsókn á Vesturlöndum hefur minnkað mismikið eftir löndum, en áhugi á mótmælum hefur ekki aukist meira eða minna eftir því hversu mikil kjörsóknin er. Það best ég veit. Ég held að menn ættu ekki að vanmeta áhrif tískustrauma í þessum efnum. Þeir geta haft víðtæk áhrif en rista sjaldnast djúpt.

Fyrirsögnin vakti mig hins vegar til umhugsunar, þó hún hafi ekki verið botnuð í greinabálkinum. Ég er ekki frá því að mikið sé til í henni og það hefði sjálfsagt verið athyglisverðara rannsóknarefni heldur en götuleikhús hrínandi dekurbara velferðarríkja Vesturlanda, sem ljóslega hafa alltof rúman tíma og ráðstöfunarfé. Sem kannski má líta á sem enn eina skrautfjöðrina í hatt kapítalismans. Hann hefur auðgað lýðræðisríkin svo mjög, að orðin er til ný stétt iðjuleysingja, sem getur ferðast heimshorna á milli til þess að sýna af sér dáraskap og skemmdarfýsn án þess að mönnum þyki það tiltökumál.

Eða hvað? Það má þá kannski minna á það, að einmitt þannig urðu liðsmenn hryðjuverkasamtaka á borð við Baader-Meinhof til: þeim fannst kröfulabbið 1968 ekki skila miklum árangri en hrifust æ meir af ofbeldi því, sem helstu hetjur þeirra í þriðja heiminum voru lofsungnar fyrir. Í því samhengi geta menn svo velt fyrir sér dálæti því, sem róttæklingarnir núna hafa á Hamas, Che Guevara og ámóta herrum. Ég sá meira að segja tvo hálsklúta ættaða frá rauðu khmerunum í hópi þessara mótmælenda um daginn. Hvaða skilaboð eru fólgin í því?

Kannski er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þeim hneigðum öllum, kommúnískir og fasískir fjöldamorðingjar fyrri ára kváðust að minnsta kosti bera hagsmuni mannkyns sér fyrir brjósti, þó fórna yrði nokkrum einstaklingum, stéttum eða þjóðum fyrir dýrðina. Grænstakkar nútímans draga hins vegar enga dul á það, að þeim þykir ekkert til um hagsmuni manna þegar jarðargyðjan er annars vegar. Þó margir í þeirra hópi segist vera trúlausir ber hugmyndafræðin öll merki trúarkreddu og sannfæringarofsinn við útbreiðslu fagnaðarerindisins, píslarvættishneigðin og hugmyndir um hið einstaka hlutverk þeirra segir sína sögu.

En aftur að spurningunni um minnkandi trú á stjórnmálaflokkum. Í könnunum á trausti almennings á stofnunum þjóðfélagsins undanfarin ár hefur greinilega komið fram að traust á Alþingi hefur farið minnkandi, jafnt og þétt. Það er því ekki óvarlegt hjá dr. Gunnari Helga að álykta sem svo, að eðlilegt sé að fólk leiti eftir nýjum farvegi til þess að koma áhugamálum sínum og umkvörtunarefnum á framfæri. Það getur enda verið ofureðlilegt og sjálfsagður réttur manna í lýðræðisþjóðfélagi, svo fremur sem þau mótmæli rjúfa ekki lög eða almannareglu.

En sú leið getur einnig verið varasöm. Hún býður heim hættunni á múgræði, en lýðræðisfyrirkomulagið og réttarríkið er einmitt tæki siðaðra manna til þess að hafa hemil á múgnum, þeirri hvikulu, bráðráðu og blóðþyrstu skepnu. Eins er það engan veginn óþekkt að þrýstihópar eða samsærismenn reyni að beita slíku fyrir sig til þess að ná fram tilteknum markmiðum, sem aldrei næðu fram að ganga á torgi lýðræðisins, þar sem hófsemi, umburðarlyndi og tillitssemi ríkja jafnan. Slíkt er ekki óþekkt hér á landi fremur en annars staðar, þar sem dómstólar, löggjafi og framkvæmdavald eru beitt þrýstingi með slagorðaglamri, en frelsið og réttur sögð eiga að víkja fyrir alls kyns dægurflugum félagsverkfræðinnar.

Helstu stofnanir lýðræðisins geta að miklu leyti sjálfum sér um kennt með því að láta undan slíkum þrýstingi, ekki síst þegar meintir „fagaðilar“ hafa látið til sín taka, að sögn til þess að bæta mannlífið en undantekningalaust með þeirri hliðarverkun að eldur er skaraður að eigin köku. Dómarar eru átaldir fyrir að gæta höfuðreglu eins og þeirrar að hver maður sé saklaus uns sekt hans er sönnuð; löggjafinn eftirlætur framkvæmdavaldinu að semja lögin, sem aftur eftirlætur skrifræðinu það, en löggjafinn samþykkir ósköpin svo eftir pöntunum; forsetinn dúkkar svo upp með sjálfstætt löggjafarvald en löggjafarvaldið lætur undir höfuð leggjast að greiða úr þeim vafa. Og svo framvegis.

Trúnaðarbrestur trúnaðarmanna
Það er þó ekki svo, að þessar helstu greinar ríkisvaldsins séu aðeins leiksoppar aðstæðna, sem hafi veikt sig með undanlátssemi. Þvert á móti hafa þær verið gerendur í þessum skollaleik. Þingmenn flokkanna hafa eftirlátið forystumönnum sínum æ meiri völd, þannig að þeir eru á mörkunum að halda trúnað við umbjóðendur sína. Þá hafa flokkarnir, sem eiga fulltrúa á Alþingi, allt í einu og umræðulaust orðið hluti af ríkinu og valdakerfi þess, án þess að þess finnist staður í stjórnarskrá. Og það er ekki eins og kjósendur hafi látið sig það miklu varða, miklu fremur láta þeir í sér heyra ef þingmenn dirfast að hlíta samvisku sinni og skipta um flokk og þá aðallega til þess að atyrða þá, krefjast afsagnar og hafa uppi gífuryrði um að flokkarnir eigi þingsætin, rétt eins og þingmenn séu viljalausar atkvæðavélar.

Í því samhengi er rétt að minnast á það, að enginn talaði hærra og af meiri einurð fyrir því, að núverandi stjórnmálaflokkar á Alþingi yrðu löghelgaðir með svo miklum fjárframlögum að þeir skila umtalsverðum rekstrarafgangi, en einmitt Morgunblaðið. Auðvitað var það sérkennilegt að blaðið skyldi aðhyllast kvótakerfi, byggt á veiðireynslu, í þessum efnum. Sjálfum þótti mér það ótrúlegur óheiðarleiki af þingheimi að samþykkja þessar vélar gegn lýðræðinu og borgurum landsins. Kjósendum þótti það þó ekki meira hneyksli en svo að þeir endurkusu langflesta af þessum óvinum lýðræðisins, en þeir eru eftirtaldir enn á þingi:

Arnbjörg Sveinsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Árni M. Mathiesen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Geir H. Haarde, Guðlaugur Þór Þórðarson, Helgi Hjörvar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Jón Kristjánsson, Katrín Júlíusdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson, Pétur H. Blöndal, Siv Friðleifsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Þetta eru 25 þingmenn af 63, þannig að það er minnihluti þingsins. En ætli það sé nokkur hætta á því að þessi ólög verði úr gildi felld? Ég get ekki talað fyrir aðra, en trú mín á stjórnmálaflokkunum og Alþingi minnkaði verulega þegar þessi lög voru samþykkt, að ekki sé minnst á traust og virðingu.

Það má líka spyrja hvar öryggisventillinn á Bessastöðum var þegar kom að þessum lögum. Eða virkar hann bara þegar bestu vinir hans í auðmannastétt landsins telja hagsmuni sína í hættu? Áfram má spyrja hvort stjórnmálaflokkarnir eigi skilið aukna trú almennings þegar stærsti stjórnmálaflokkur landsins býður fram þjóf, sem dæmdur var fyrir að misnota traust almennings og aðstöðu, sem hann komst í í skjóli þess. Eða þegar stjórnmálaforingi, sem er sérstaklega er mærður fyrir tæpitunguleysi og prinsippmennsku, kallar eftir netlöggu, krefst svo afsökunarbeiðni, þegar á það er bent, og hrópar loks „ég sagði það alltaf“, þegar hann heldur að vindurinn hafi snúist. Eða þegar fyrrverandi stjórnarflokkur snýst til ákafrar stjórnarandstöðu en bendir um leið á að hinn nýi stjórnarsáttmáli sé eins og úr sínu hjarta. Eða þegar hinn nýi stjórnarflokkur gleymir öllum heitstrengingunum og lætur það verða sitt fyrsta verk í ríkisstjórn að raða sínu fólki á garðann?

Jú, sjálfsagt er minni trú á stjórnmálaflokkum og ekki að ófyrirsynju. Þeir geta sjálfir sér um kennt. En það geta góðir menn lagað, því þeir finnast enn. Jafnvel í stjórnmálaflokkunum. Lýðræðið finnur á hinn bóginn ekkert svar í mótmælaaðgerðum, skemmdarverkum og múgæsingu. Hugum að því. 


mbl.is Minni trú á stjórnmálaflokkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vangaveltur um varnarmál

Vildi vekja athygli á ágætri og öfgalausri grein um varnarmál Íslands á viðsjárverðum tímum. Hana skrifaði Júlíus Sigurþórsson í laugardagsblað Morgunblaðsins, en hann birti hana jafnframt á bloggi sínum. Hana má lesa hér.

Grímur tvær

Ég las skemmtilegt viðtal Hávars Sigurjónssonar við Benedikt Erlingsson, leikara, í síðustu Lesbók. Þar sagði hann m.a.:

Ég horfi stundum á einhvern hollívúddþátt í sjónvarpinu og verð djúpt snortinn af honum og finnst hann eiga við mig brýnt erindi. Svo fer ég í Þjóðleikhúsið og horfi á eitthvað sem lagðir hafa verið í miklir norrænir peningar og samískir danshöfundar hafa fórnað húsi og fjölskyldu til að gera að veruleika. Og mér finnst ég hafa farið hreina erindisleysu. Kannski er þetta partur af moldviðrinu. Það er ekki lengur allt sem sýnist. Mér finnst ég t.d. hafa upplifað á þorrablóti úti á landi meiri og sterkari leiklist en á stóra sviði Borgarleikhússins. Þarna eiga sér stað sterkari tjáskipti og það er meira rafmagn í loftinu og leiklistin er eins og heilandi hönd sem gerir alla glaða. Ef ég ætti að veita verðlaun fyrir annað hvort þá myndi þorrablótið fá Grímuna frá mér.

Þetta minnir mig á orðaskipti þeirra Einars Benediktssonar og Guðmundar Kambans í Kaupmannahöfn, sem Jakob F. Ásgeirsson skráði eftir meistara Kristjáni Albertssyni í bókinni Margs er að minnast. Kristján hafði tekið sér það fyrir hendur að leiða þessa tvo vini sína saman, en fundurinn varð ekki sérlega árangursríkur; kergja var í Kamban yfir blankheitum, óréttlæti heimsins og því skilningsleysi, sem honum fannst hann mæta sem leikritaskáld, og Einar hóf samtalið á því að biðjast afsökunar á því að hann væri um stundarsakir í bindindi:

„Hafið þér nokkurn áhuga á leikritaskáldskap?“ spurði Kamban Einar Benediktsson og auðheyrt að svo fannst honum ekki vera.
Einar svaraði: „Það hafa víst fáir Íslendingar eytt fleiri kvöldum í leikhúsum en ég.“
Þá sagi Kamban: „Ég hef svo háar hugmyndir um hlutverk leikhúsanna að ég fer nær aldrei á leiksýningar, því flest af því sem þar er sýnt er svo lítils virði.“

Benni lýsir gerólíkri afstöðu og vafalaust heilbrigðari. Bæði fyrir sig og áhorfendur. Hann áttar sig líka á því að leikhúsið getur verið með ótal mörgu sniði:

Leikhúsið er byssa og í það er sett kúlan sem er verk höfundarins, og púðrið eru leikararnir og sá sem miðar er leikstjórinn en það er leikhússtjórinn sem tekur í gikkinn því hann ákveður hvenær hleypt skuli af. Og stundum er miðað á höfuð áhorfandans, stundum hjartað en svo eru líka til leikhús sem miða á kynfæri áhorfandans. Það er eitt í Kópavogi.

....................

Annars er sérstök ástæða til þess að mæla með fyrrgreindri bók þeirra Jakobs og Kristjáns, sem fá má í nýútkominni kilju. Hún er bráðskemmtileg og fróðleg, enda var Kristján þriggja alda maður, hann fæddist í Fróðafriði 19. aldar, upplifði hvernig heimurinn breyttist í stríðinu mikla og enn frekar í Seinni heimsstyrjöldinni, því hann bjó í Þýskalandi þegar það braust út, dvaldi þar til 1943 og var síðan í Kaupmannahöfn til stríðsloka. Því var ekki fyrr lokið en Kalda stríðið skall á og þar var Kristján þátttakandi, bæði fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi og ekki síður fyrir eigin hönd og frjálsrar hugsunar í hinni hörðu hugmyndabaráttu áratuganna, sem á eftir sigldu.

Kristján hafði ótrúlegt minni og gat farið orðrétt með ræður, sem hann hafði heyrt einu sinni, endur fyrir löngu. Ísland hefur sjálfsagt ekki átt annan eins heimsborgara fyrr og síðar, hann var víðförull, höfðingjadjarfur og forvitinn menningarjöfur, sem hitti ótrúlegasta fólk á lífsleiðinni og náði trúnaði þeirra flestra. Má nefna Matthías Jochumsson og Þorstein Erlingsson, Konrad Adenauer og Maxím Gorkí. Sjálfur lýsir hann líkast til öldunum sínum þremur best þegar hann minnist á það undur þegar hann 13 ára frétti af því afreki Louis Blériot að fljúga með naumindum yfir Ermarsund þar sem það er styst, en aðeins 50 árum síðar sat hann skemmtilegan kvöldverð með Neil Armstrong og félögum, sem flogið höfðu til Tungslins án verulegra vandkvæða.

Firðirnir og fiskurinn

Samgöngur á Vesturlandi eru allar aðrar en þær voru fyrir aðeins nokkrum árum, að maður tali ekki um hvernig ástandið var fyrir um tveimur áratugum, þegar Mýrarnar voru eitt svað hvert vor og Vestfirðir varla fyrir aðra en áhugamenn um torfæruakstur. Maður sér líka hvað samgöngurnar hafa bætt lífsgæðin mikið, ekki aðeins hvað atvinnulífið áhrærir heldur sálarlífið líkað. En síðan hefur svo margt fleira breyst. Það er t.d. ekki að sjá að Stykkishólmur hafi orðið fyrir þeim áföllum, sem margir bjuggust við þegar útgerðin þar lagðist nánast af. Grundarfjörður og Ólafsvík eru vísast viðkvæmari fyrir niðurskurði á fiskveiðiheimildum, en þó sér maður að það eru ýmsir atvinnumöguleikar aðrir í þeim blómlegu byggðum.

Hér á Vestfjörðum eru aðstæður hins vegar með allt öðrum hætti. Hér stendur og fellur öll byggð með fiskinum. Ferðamennska er vissulega orðin ágæt búbót á sumrin, en það er langur vegur frá því að hún eða aðrar atvinnugreinar skáki sjávarútveginum. Flutningur á opinberum störfum eða ámóta aðgerðir verða aldrei annað en lélegir plástrar hér vestra. Fyrir nú utan það, að ég minnist þess ekki að nokkurs staðar í heiminum hafi útbelgingur hins opinbera verið atvinnulífinu til blessunar. Og finnst mönnum virkilega ekki fullreynt á byggðastefnuna?

Það má vel vera rétt, að skera þurfi niður fiskveiðiheimildir með afgerandi hætti, eins og nú er rætt. En það má líka taka undir það, að fiskifræðin er engan vegin skotheld fræðigrein, hún er full af óþekktum stærðum og samhengi; vitneskja mannanna er jafnvel minni en í veðurfræði og við þekkjum öll hversu nákvæmar spár veðurfræðinga eru til 2-3 daga, hvað þá vikna. Með fullri virðingu fyrir Hafrannsóknastofnun eru fræðimennirnir þar ekki handhafar stórasannleika í þessum efnum og það má ekki síst rekja til þess að þar hafa menn fengið að reisa sér fílabeinsturn óáreittir. Af hverju rekur Háskóli Íslands ekki öfluga sjávarrannsóknastofnun, þó ekki væri nema til þess að veita Hafró eðlilega fræðilega samkeppni? Eða Landsamband íslenskra útvegsmanna? Það myndi auðvitað ekki tryggja hagfelldari niðurstöður, en það myndi færa okkur nákvæmari niðurstöður og örari þróun fræðanna.

Nú ríður hins vegar á að bregðast við með réttum hætti og við höfum ekki betri gögn að styðjast við en þau, sem Hafró tilreiðir oss. Niðurskurður á aflaheimildum virðist því óumflýjanlegur. Ísland býr til allrar hamingju við mesta hagsældarskeið í sögu þjóðarinnar, þannig að það er borð fyrir báru. En mismikið. Á Flateyri blasa við erfiðleikar eftir að Kambur lagði niður starfsemi sína og þó hin nýstofnaða Oddatá með sínar djúpu rætur á Flateyri kunni að milda skellinn er ljóst að starfsemin verður með miklu minna sniði en verið hefur. Á Ísafirði hefur rækjuvinnslu Miðfells verið hætt ótímabundið og víðar á kjálkanum eru menn uggandi yfir atvinnuástandinu.

Í athugun Hagfræðistofnunar kemur fram að Vestfirðir eru sá landshluti, sem síst þolir slíkar búsifjar. Að mínu viti er það ekki ofmælt. Vestfirðir mega ekki við neinni röskun á þessu sviði, því þar er að nánast engu öðru að hverfa, sem gagn er af. Landnytjar eru af skornum skammti, þjónustugreinar hafa þar frekar dregist saman en hitt ef Ísafjörður er undanskilinn, stóriðju er þar nær engin von nema kannski hugmyndir um olíuhreinsunarstöð, sem ég hygg að menn þurfi nú að taka til gaumgæfilegrar og alvarlegrar skoðunar. Tímar sértækra aðgerða eru til alrar hamingju löngu liðnir, enda gáfust þær aldrei vel, en ég hygg að það væri hreint glapræði ef ekki yrði tekið sérstakt tillit til sérstöðu Vestfjarða þegar kemur að sjávarútvegi. Þar eru mönnum aðrar bjargir bannaðir og það er beinlínis ömurlegt að hugsa til þess að byggðirnar hér vesluðust upp með Gullkistuna hér beint fyrir utan.

Á faraldsfæti

Fjölskyldan af hamingjuheimilinu við Ingólfsstræti lagði land undir fót sem fyrr segir, en við höfum einbeitt okkur að Vesturlandi og Vestfjörðum og sjáum heldur betur ekki eftir því. Ég hef ferðast um þessar slóðir áður, en samt hef ég verið að sjá ótal margt nýtt og náttúruundrin blasa hvarvetna við. Ég var líka svo lánsamur að fá lánaðan mikinn eðaljeppa fyrir ferðina, Toyota Landcruiser af fínustu gerð, með 5 lítra V8 benzínorkuveri undir húddinu og öllum hugsanlegum þægindum að innan. Það gerir ferðina vitaskuld miklu þægilegri og öruggari heldur en ef við hefðum verið að flengjast þetta á fjölskyldubílnum (án þess að ég sé neitt að lasta VW Passatinn okkar). Þess vegna skil ég ekki hvað minn góði kunningi, Sverrir Jakobsson, er að agnúast út í jeppana og kallar þá „þjóðfélagsmein“. Öðru nær, jepparnir veita öryggi, frelsi og ánægju, sem við hefðum ella orðið af.

Ég má til með að minnast á aksturslagið á vegunum. Það ber ekki á öðru en að áróður undanfarinna vikna hafi borið mikinn árangur, því á gervallri ferð okkar höfum við aðeins tvisvar séð til ökumanna, sem aka hraðar en góðu hófi gegndi. En þá má líka minnast á að áróðurinn gegn hraðakstri er meira en lítið villandi. Hraður akstur einn og sér þarf ekki að vera hættulegur, bjóði aðstæður. Gallinn er sá, að aðstæður eru nær alls staðar með þeim hætti að ökumenn mega hafa sig alla við og svigrúm fyrir mistök er nær ekkert.

Sökin á slysum í umferðinni liggur auðvitað áfram hjá ökumönnum, sem ber að aka í samræmi við aðstæður, en það er ekki hægt að líta hjá því að víða er vegakerfið stórhættulegt, merkingar lélegar og tilviljanakenndar, vegrið sjaldséðari en hvítir hrafnar og þar fram eftir götum. Gleggsta sögu segir þó Reykjanesbrautin, þar sem engin dauðaslys hafa orðið eftir tvöföldun og lýsingu hennar. Vegakerfið og umferðarlöggjöfin miðast við fyrri tíma, þegar bílar voru miklu færri og lakari en nú. Það má hæglega aka ódýrustu fólksbílum á 130 km hraða án þess að meiri hætta stafi af en á 90 km hraða bjóði aðstæður það. Það gera þær ekki og að því mætti Kristján L. Möller huga.

Þó mér hafi virst flestir virða hraðatakmarkanir er ekki þar með sagt, að aksturlagið hafi allt verið til fyrirmyndar. Þar skera ökumenn með tjaldvagna sig sérstaklega úr. Þeir eru margir á bílum, sem eru á mörkum þess að valda vögnunum með nægilegu öryggi, en ég veit ekki til þess að lögregla hafi nokkurt eftirlit með slíku. Vagnarnir eru auk þess oft nokkru breiðari en bílarnir, en það er eins og ökumennirnir hafi steingleymt því og blússa því áfram á sínum venjulega stað á veginum, meðan vagninn skagar inn á gagnstæða akrein, svo öðrum stafar hætta af.

En þrátt fyrir slíkar kvartanir stendur upp úr hið mikla ferðafrelsi, sem tæknin og samgöngubæturnar hafa fært okkur. Það er ekki nema um öld síðan flest fólk fór varla yfir í næstu sókn alla ævi, nema líf lægi við. Og ekki nema um áratugur síðan enginn fór akandi um Vestfirði af gamni sínu. Nú er öldin önnur og þau lífsgæði skipta miklu, bæði fyrir heimamenn og okkur gestina.

Frí á fríi

Ég hef ekkert bloggað að undanförnu, aðallega vegna þess að ég hef verið að njóta sumarleyfis í þessari miklu blíðu undanfarnar vikur, en við höfum lagst í ferðalög hér innan lands. Síðan skal ég líka játa, að ég hef öðrum þræði verið að forðast það að hólfa niður líf mitt í bloggheimum. Ég þekktist boð um að hreiðra um mig á Eyjunni, en ég vil ekki hætta að blogga á Moggablogginu (þó ekki væri nema til þess að skaprauna Stebba Páls). Ég hugsa að ég reyni að skipa því þannig að á Eyjunni fjalli ég fyrst og fremst um fréttir og atburði líðandi stundar, en á Mogga stingi ég fremur niður penna um annað það er fangar hugann. Sjáum til.

Bloggskrifin velta líka á því hvernig manni endist tími og andagift, því sannast sagna er maður oft býsna tæmdur eftir hin daglegu skrif í Viðskiptablaðið. Þar fyrir utan er mér síðan fremur illa við það að skrifa ókeypis, því það er af skrifum, sem ég og fjölskyldan höfum lífsviðurværið. Mín heittelskaða eiginkona umber bloggið sem sérkennilegt áhugamál bóndans, en ég veit að henni gremst sá tímaþjófur stundum. En kannski maður selji bara auglýsingar á síðuna og græði milljónir. Og kannski ekki.

En hér sit ég í yndislegu veðri vestur á fjörðum, á stéttinni hjá Langa Manga á Ísafirði nánar tiltekið, svala mér á einum ísköldum og drekk í mig götulífið hér um leið og ég bergi á Netinu þráðlaust. Ég verð að minnast á það að hjá Langa Manga er kaffið sko ekkert slor heldur, með því betra á landinu.

..................

Biðst forláts á því að útlitið á Eyju-bloggnum mínum er ekki upp á marga fiska og viðmótið enskuskotið. Laga það er ég kem úr fríinu.


Setning helgarinnar

Ég er mjög viðkvæmur fyrir klisjuskotnu máli og forðast það eins og pestina.

Egill Helgason útskýrir það í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Blaðinu hinn 9.VI.2007, að sér sé lífsins ómögulegt að taka svo til orða að eitthvað „stæði sem stafur á bók“, eins og málpípur 365 hafa hvað eftir annað fullyrt að hann hafi gert um samningaumleitanir milli hans og Ara Edwald. Það forðist hann eins og sjálfa pestina. Klisjupestina sumsé. 


Laun og öfund

Það er nokkuð fjargviðrast þessi dægrin yfir launamálum í Seðlabankanum og það er ekki örgrannt um að það hvarfli að manni að sá mikli áhugi sé lítillega litaður af því hver gegnir stöðu formanns bankastjórnar í kastalanum við Kalkofnsveg. Hvað sem því líður finnst mér nánast sjálfgefið að æðstu yfirmenn hafi hærri laun en undirsátar sínir, bæði í samræmi við ábyrgð en einnig til þess að viðhalda eðlilegri valdauppbyggingu innan fyrirtækis eða stofnunar.

Þess þekkjast auðvitað dæmi að undirmenn séu betur launaðir en yfirboðarar sínir, en það á þó yfirleitt aðeins við um millistjórnendur og eru undantekningartilvik, sem yfirleitt stafa af mjög sérstökum aðstæðum. Ég man t.d. eftir því í netbólunni að góðir forritarar (eða bara forritarar, góðir sem slakir) voru svo fágætir, að margir stjórnendur réðu þá til sín á talsvert hærri launum en þeir sjálfir nutu. Maður heyrir sjaldan af ámóta núorðið. Það gaf enda ekki alltaf góða raun fremur en við ofeldi kálfa og mér skilst að mannauðsfræðingar vari mjög við slíku.

Það þarf hins vegar ekki að hafa nein áhrif út fyrir fyrirtækið eða stofnunina, því slík launastefna snýst aðallega um strúktúrinn innanhúss, þó hvatinn að launahækkunum komi að utan líkt og í tilviki Seðlabankans, sem þarf að keppa við viðskiptabanka og fjármálafyrirtæki um sérfræðinga, en þar tíðkast afar há laun, enda kvartar fjármálageirinn undan manneklu. Hjá viðskiptadeildum háskólanna er hins vegar mikið af upprennandi starfskröftum langt komnir í pípunum, þannig að það lagast vonandi brátt.

Ofurlaun á fjármálamarkaði
Þessi ofurlaun í fjármálaheiminum eru ekki séríslenskt fyrirbæri, þau tíðkast um heim allan. Þau helgast að miklu leyti af því að sérþekking þessi er afar dýrmæt og verðmætaskapandi og væru menn ekki nægilega vel haldnir ykist hættan á því að þeir færu einfaldlega að praktísera í eigin nafni á markaðnum, eins og er raunar mikið um engu að síður. Og svo eru ábatakerfin og kaupréttarákvæðin við, mönnum til enn frekari hvatningar.

En þar kemur einnig annað til. Erlendis er litið á störf af þessu tagi sem a young man's game, því menn brenna harla hratt upp í þessum geira og það er ör nýliðun af áræðnum og kappsömum mönnum, sem þurfa ekki að vera nema hársbreidd betri eða hraðari en hinir lítillega eldri samstarfsmenn til þess að afraksturinn sé milljörðum hærri. Þegar ég var við nám í Lundúnum var mér t.d. boðið starf sem gjaldeyrismiðlari af kunningja, sem hélt að ég kynni eitthvað á peninga fyrst ég væri að læra við London School of Economics. Kaupið var gersamlega klikkað; mér reiknaðist svo til að árslaunin væru meiri ég hafði gert ráð fyrir að þéna um dagana sem blaðamaður. Þegar ég hváði var hins vegar útskýrt fyrir mér að það væri sjálfsagt ekki hægt að finna meira slítandi starf í City, vinnutíminn væri langur og ömurlegur, streitan gífurleg og flestir væru útbrunnir eftir tvö ár. Enginn hefði verið lengur á gólfinu hjá þessu fyrirtæki en fjögur ár. Hefðu menn áhuga á rólegra starfi ættu þeir að reyna við skóla eða stofnanir, en þá væri kaupið líka mun lægra fyrir mun lengri starfsævi. Væri ég ekki til í að leggja hart að mér til þess að geta farið á eftirlaun vel fyrir þrítugt?

Nú hefur maður reyndar ekki séð neitt svipað upp á teningnum hér heima. Maður heyrir af ofurlaunum hjá hinum og þessum snillingum á fjármálamarkaði, en eins hafa þeir margir auðgast með því að spila sjálfir á markaðnum, svona til hliðar (sem aftur kann að vekja aðrar spurningar). En ég hef ekki orðið var við að mönnum sé vikið til hliðar fyrir aldurs sakir fyrr en komið er undir fimmtugt og þá er mönnum einatt kippt út og upp, sumsé færðir ofar í virðingarstigann en hið daglega at minnkað.

Veikt stoðkerfi
Þannig að kannski er hér um aðra hefð að ræða en ytra, sjálfsagt hefur smæð þrælamarkaðarins hér veruleg áhrif og svo má ekki gleyma því, að þrátt fyrir allt er þessi geiri atvinnulífsins vart búinn að slíta barnskónum. Hann hefur að sönnu vaxið gríðarlega hratt og mikill árangur náðst, en umhverfið ekki náð að fylgja á eftir. Gleggsta dæmið um það er að það er nú fyrst, sem menn hafa ákveðið að breyta viðskiptaráðuneytinu úr skrifstofuskúffu í ráðuneyti. Lagalegt umhverfi þessarar starfsemi er á margan hátt frumstætt (og hið sama má svo sem segja um lög um hlutafélög og bókhald) og tilsjón með fjármálastarfsemi mætti vera margfalt betri.

Þar á ég fyrst og fremst við Fjármálaeftirlitið (FME), sem ég tel að sé einfaldlega ekki í stakk búið til þess að halda fjármálastofnunum og eigendum þeirra við efnið og almenningi og lánadrottnum rólegum. Ekki vegna þess að FME sé lélegt, heldur vegna þess að það á sáralítið í þessa jötna, sem íslenskar fjármálastofnanir eru orðnar. Þar veldur þrennt helst:

Í fyrsta lagi eru lagaheimildir FME ekki nægilega skýrar og dómstólar hafa mjög látið fjármálastofnanir og eigendur þeirra njóta vafans, rétt eins og um hefðbundin fyrirtæki í einkaeigu væri að ræða. En svo er ekki. Fjármálafyrirtæki hafa traust almennings á fjármála- og jafnvel efnahagslífi allrar þjóðarinnar í hendi sér. Fari einn banki á hausinn veikjast allir hinir og geta riðað til falls þó allt sé í stakasta lagi hjá þeim. Eins og hræðileg dæmi eru um utan úr heimi. Samskonar skilningsleysi íslenskra dómstóla á sérstöku eðli almenningshlutafélaga hefur bæði veikt stöðu almennra hluthafa og hlutafjármarkaðarins, sem er vanþroskaðri fyrir vikið.

Í öðru lagi hefur FME átt í miklum vandræðum við að haldast á sérfræðingum. Það getur ekki boðið launakjör á við bankana og til þess að bæta gráu ofan á svart hafa bankar og fjármálastofnanir hirt af þeim heimalingana. Fyrir vikið er stofnanaminnið þannig skemmra, þeir sem best þekkja styrk og veikleika FME færast jafnharðan hinu megin borðsins og þannig mætti áfram telja. Að vísu ber að nefna að bankarnir munu hafa haldið að sér höndum hvað ráðningar frá FME áhrærir síðustu misseri, að mér skilst fyrir vinsamleg tilmæli frá Jónasi Fr. Jónssyni forstjóra þess. Rétt er að geta þess að hann hefur eflt stofnunina mikið undanfarið ár, en hefur skort ytri stuðning til þess að gera eftirlitið klárt í þann krappa sjó, sem því er ætlað að sigla.

Í þriðja lagi er afleiðing þessa tvenns, sem er að FME hefur ekki það vægi, sem fjármálamálamarkaðnum er nauðsynlegt. Þegar erfitt er að laða til sín hæfa og reynda starfsmenn bitnar það á vinnubrögðunum og minna mark er á því tekið, bæði af fjármálastofnunum og hinum sem eiga að geta treyst á umsagnir þess. Einstaklingar innan fjármálastofnana (sem margir eru mjög áhættusæknir) kunna því að tefla á tæpara vað en ella, en aðrir markaðsaðilar, ekki síst erlendir, eiga erfiðara með að átta sig á íslenskum fjármálastofnunum, af því að FME er næsta óþekkt stærð í þeirra huga.

Ég hygg að það kunni að vera eitt mikilvægasta verkefni Björgvins G. Sigurðssonar, nýskipaðs viðskiptamálaráðherra, að styrkja FME til mikilla muna. Ég veit að það yrði stóru bönkunum þremur alls ekki á móti skapi. Þeir vilja að sönnu ekki meira reglugerðarfargan eða meira íþyngjandi skýrslugjöf í daglegum rekstri, en eru á hinn bóginn vel tilbúnir til þess að fallast á meiri inngrip FME og samstarf við það, þegar ástæða þykir til, sumsé þegar grunur er uppi um að eitthvað sé að. Að undanförnu hefur það reglulega gerst að erlendar greiningardeildir hafa efast mjög um íslensku bankana og erlendir fjölmiðlar hafa gert því skóna að þeir kunni að tengjast peningaþvætti úr austurvegi eða ámóta. Þetta hafði veruleg áhrif á störf íslenskra fjármálastofnana og hefði getað farið á versta veg. Þar munaði kannski minnu en flestir gera sér grein fyrir. Sterkt, virkt og virt Fjármálaeftirlit hefði getað fyrirbyggt að slíkar efasemdir, og hviksögur, byggðar á þekkingarleysi, kæmust af stað eða að minnsta kosti kveðið þær niður hratt og örugglega með óyggjandi hætti. FME eins og það var þá, var þess engan veginn megnugt og naut ekki þeirrar virðingar eða trúverðugleika sem til þurfti.

Mér finnst vel koma til greina að fjárframlög til FME séu í ríkari mæli veltutengd við umfang fjármálastarfsemi og nauðsynlegt er að gera stofnunina miklu sjálfstæðari. Meðal annars þannig að Fjármálaeftirlitið geti ráðið til sín milljónkrónumenn eftir þörfum í stað þess að vera bundið af opinbera launakerfinu. Um leið væri æskilegt að í ráðningarsamninga þeirra væri bann við starf hjá íslenskum fjármálastofnunum í 5 ár eftir að störfum við FME lýkur.

Öfundin
Ég man ekki eftir því að menn hafi býsnast yfir hlutnum hjá duglegum togarasjómönnum á aflahæstu skipum flotans, þó þar væri oft um ævintýralegar upphæðir að ræða. Þvert á móti var jafnan um það talað af virðingu og aðdáun. Menn eru ekki síður fengsælir á fjármálamarkaðnum í dag, en menn vita að starfið er slítandi og ekki á vísan að róa; duttlungar markaðarins eru ekki minni en duttlungar náttúrunnar. Þess vegna æsa fæstir sig yfir háum launum á þeim vettvangi (þó menn hafi gert athugasemdir við suma kaupréttarsamninga og ekki af ástæðulausu).

Hlutverk Seðlabankans hefur einnig breyst á umliðnum árum, en það er ekki minna mikilvægt en fyrr, öðru nær. Það ríður engu minna á en áður, að Seðlabankinn hafi yfir færustu sérfræðingum að ráða, og sennilegast hefur aldrei verið mikilvægara en nú, að bankastjórnin sé algerlega sjálfstæð og óháð, en í því felst meðal annars að hún þarf að geta horft þráðbeint í augun á stjórnendum annarra banka, stjórnmálamönnum og aðilum vinnumarkaðarins án þess að blikna.

Það er vinsælt að agnúast út í launakjör og eftirlaun æðstu stjórnenda hins opinbera, helst með þeirri afleiðingu að Alþingismenn eru svo illa launaðir að hæfileikaríkt fólk þarf að færa umtalsverðar fjárhagslegar fórnir til þess að gefa sig að þeim veigamiklu störfum fyrir þjóðina. Ekki síst hafa verkalýðsrekendur verið duglegir við reka upp öfundarkvein. Þannig sagði Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins,  í viðtali við RÚV, að undanfarin ár hefði „sjálftökuliðið í þjóðfélaginu“ tekið sér launahækkanir, sem séu langt umfram það, sem verkalýðshreyfingin hafi samið um. Kröfugerð hennar í næstu kjarasamningum myndi væntanlega taka mið af því.

Forysta Starfsgreinasambandsins er að vísu óvenjugalin miðað við það sem gengur og gerist í verkalýðsiðnaðinum, en frá ASÍ heyrðust svipuð sjónarmið. Ég get ekki tekið mark á pípunni í verkalýðsrekendum um laun annarra fyrr en þeir aflétta launaleyndinni af sjálfri sér. Þessi tónn um „sjálftökuliðið“ er því einkar falskur, enda hlýtur Kristjáni Gunnarssyni að vera kunnugt um að þannig var þessi tiltekna launahækkun alls ekki þannig vaxin, ekki fremur en hjá æðstu stjórnendum ríkisins. Og Guðrún Zoëga, formaður kjararáðs, hafði raunar greint frá því að laun seðlabankastjóra hafi sem slík engin áhrif á ákvarðanir um launakjör æðstu embættismanna. Hvers vegna er Kristján þá að hræsna í málinu og tala um að þetta muni hafa áhrif á næstu kröfugerð sína? Kannski hann hafi vakið falskar vonir hjá einhverjum félagsmanna sinna, en þetta er innantómt bull hjá manninum og hann veit það.

Kannski vandinn sé sá, að Íslendingar hafa alltof lengi lagt trúnað við það að launajöfnuður sé markmið í sjálfu sér og engir lengur og meir en íslenskir stjórnmálamenn (og þar er enginn flokkur undanskilinn). Um leið ganga flestir út frá því sem vísu að einhverjir þar til bærir aðilar eigi að véla sérstaklega um það, að enginn beri nú örugglega of mikið úr býtum. Maður heyrir enda oft að menn hafa meiri áhyggjur af því en að einhver búi við of krappan kost. Þau viðhorf má kannski kenna við kreppusósíalisma síðustu aldar, en ég hygg að þar búi að baki mun eldri kennd, sumsé öfund. Af þeirri dauðasynd ætti enginn að láta stjórnast, jafnvel þó einhverjir reyni að klæða hana í búning stjórnmálastefnu.


mbl.is Launahækkun seðlabankastjóra var málamiðlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband