Leita í fréttum mbl.is

Hneykslið heldur áfram

Það ber vissulega vott um að það sé að rofa til í kollinum á þessum herramönnum, að nú eigi allir starfsmenn Orkuveitunnar að fá að njóta peningaprentvélarinnar í kjallara kastalans á Bæjarhálsi 1. En það ber vott um slægð og sjálfsbjargarviðleitni, ekki réttsýni og siðferðisvitund. Eins og þeir greina sjálfir frá:

Ljóst sé að umræða undanfarinna daga hafi ekki jákvæð áhrif á REI og það góða starf sem þar sé unnið. Þar hafi meginþungi umræðunnar beinst að afmörkuðum þætti sem sé sala á hlutabréfum til starfsmanna. Viðkomandi starfsmenn séu sammála því að það séu hagsmunir þeirra og fyrirtækisins að friður ríki um starfsemi þess og sýna því niðurstöðunni fullan skilning.

Þetta er sem sagt almannatengslaaðgerð, ekkert annað.

Á hitt má fallast, að það er miður að meginþungi umræðunnar skuli hafa beinst að þessum afmarkaða þætti hennar. Við getum þá kannski tekið að ræða veigameiri þætti málsins; af nógu er að taka.

Ég vil þó staldra við þennan afmarkaða þátt aðeins lengur. Gefum okkur eitt augnablik að það sé alveg frábært mál að almenningsfyrirtæki noti einokunartekjur sínar til þess að breyta sér í vogunarsjóð. Í þá stöðu komst fyrirtækið með því að hafa borgarbúa og borgarsjóð í ábyrgðum um leið og tekjurnar komu einnig úr vasa borgarbúa. Þessir sömu borgarbúar eru jafnframt eigendur fyrirtækisins.

Skýrt hefur verið frá því að stefnt sé að skráningu hins nýja sameinaða Reykjavík Energy Invest á hlutabréfamarkað, sem hugsanlega gefur vísbendingu um hversu lengi atvinnumennirnir í áhættufjárfestingum hyggjast staldra við. Ef helmingurinn af framtíðarsýn forystumanna fyrirtækjanna reynist á rökum reistur er ekki ólíklegt að verðmæti þess aukist næsta hratt, þó auðvitað sé ekkert í hendi um það. Svo ég spyr:

Af hverju í ósköpunum er eigendum fyrirtækisins
ekki gefinn kaupréttur í fyrirtækinu?

Það voru þeir, sem byggðu Orkuveituna og fyrirrennara hennar upp, og það eru þeir, sem hafa lagt fram megnið af verðmætunum, sem hið nýja fyrirtæki er reist á. Um það höfðu þeir ekkert val, hvorki um uppbyggingu fyrirtækisins né hvort þeir keyptu þjónustu hennar.

Það er alveg ljóst að fyrirtækið hefur okrað á eigendum sínum og viðskiptamönnum fyrst það á alla þessa fjármuni aflögu og hefur það þó einbeitt sér að því að gereyða peningum í vitleysu, bruðl og gæluverkefni mörg undanfarin ár. Þá var hafður uppi alls kyns fyrirsláttur og fals um það hvers vegna fjárþörf fyrirtækisins væri svo rúm. Eins voru arðgreiðslur til Reykjavíkurborgar oft býsna ríflegar, sem vitaskuld var ekkert annað en dulin skattheimta.

Allt þetta báru borgarbúar, borguðu og brostu. Nú skilst manni að auðgast megi á verðmætum, sem þrátt fyrir allt hafi byggst upp hjá fyrirtækinu, víðar en hjá hinum einokuðu viðskiptamönnum og eigendum fyrirtækisins. Og þess vegna eru nú allar þessar vélar, að græða á því pening, þó svo að stjórnendum borgarinnar og fyrirtækisins hafi ekki viljað spyrja kjörna fulltrúa eigendanna, hvað þá eigendurna sjálfa. Þeir vildu ekki einu sinni umræðu um það, hvað þá meir, sem vekur ákveðnar spurningar um tilganginn og meðölin.

En hvað verður um arðinn ef allt gengur vel? Fá eigendurnir hann? Nei, en það er talað um að þeir muni njóta hans. Já, já, eins og þeir hafa notið arðsins af Orkuveitunni til þessa. Þessa óljósa arðs af einokunni á þeim sjálfum. Og öll vitum við hvað borgin fer vel með fjármuni almennings. Næstum því jafnvel og Orkuveitan. Það verður aðeins enn ein tegund skattheimtu, en menn skyldu ekki ímynda sér eitt augnablik að það verði til þess að útsvarið lækki.

Ég bíð spenntur eftir að borgarstjóri eða stjórnarformaður fyrirtækisins sýni það frumkvæði að bjóða eigendunum kaupréttartilboð, fyrst nú liggur fyrir viðurkenning þeirra á því að einhver tiltekinn hópur eigi það skilið. Getur nokkur hópur verið betur að því komin en hinn óspurði eigendahópur, sem jafnframt hefur unað eiginfjársöfnun úr öllu hófi og það á eigin kostnað? Það hlyti enda að styrkja fyrirtækið mjög ef það yrði raunverulegt almenningshlutafélag á fyrsta degi skráningar á markaði, með dreift eignarhald,
áþreifanlega tiltrú almennings og svo framvegis.

Hvernig væri að ræða það mál sérstaklega og til hliðar við aðra anga málsins? Án þess að draga af okkur við að brjóta þá til mergjar. 


mbl.is Samþykkt að endurskoða sölu á hlutabréfum í REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárlagaboginn spenntur

Þá er fjárlagafrumvarpið komið og það fór fram úr mínum myrkustu martröðum. Eins og ég hafði tæpt á í færslunni um fund Geirs H. Haardes, forsætisráðherra, þótti mér líklegt að aukning ríkisútgjalda yrði á bilinu 8-10%. Því var raunar haldið fram af Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, að útgjaldaaukningin næmi um 8%, en sá útreikningur er hæpinn í meira lagi. Þá lítur ráðherrann til áætlana um heildarútgjöld ríkisins fyrir 2007 að meðtöldum fjáraukalögum og því öllu og ber hið nýja fjárlagafrumvarp saman við það. Hvaða líkur standa til þess að útgjöld vegna 2008 verði aðeins þau, sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu? Eru uppi áform um að leggja af fjáraukalög?

Nei, því er ekki þannig farið og raunar frekar varlegt að áætla að hlutföllin milli fjárlaga og endanlegra reikningsskila verði hin sömu. Hinn rétti mælikvarði er vitaskuld að bera saman fjárlög 2007 og fjárlög 2008, en þar til frumvarpið verður afgreitt sem lög höfum við ekki annað í höndunum en frumvarpið. Við getum a.m.k. verið nokkuð viss um að ekki munu upphæðirnar lækka í meðförum þingsins.

Lítum þá á fjárlagafrumvarpið, A-hluta þess, nánar til tekið. Þar inni eru ráðuneytin öll, æðsta stjórn ríkisins og vaxtagjöld ríkissjóðs. Í sjálfu sér eiga vaxtagjöldin ekki heima þarna, þau eru ekki rekstarkostnaður í neinum skilningi, en látum gott heita, þau lækka meðaltal útgjaldaaukningarinnar eilítið, sem þá vegur að einhverju leyti upp á móti verðbólgunni, sem ekki er tekið tillit til í þessum tölum. Væri hún tekin með lækkaði útgjaldaaukningin sjálfsagt um 2% í viðbót, en ég læt þar vera; í fjárlagafrumvörpum er enda reynt að gera ráð fyrir verðbólgu fyrirfram.

En svona lítur þetta þá út samkvæmt frumvarpinu, í milljörðum talið:

 Fjárlög ’07Frumv. ’08Mismunur
Æðsta stjórn ríkisins3,3103,183-3,85%
Forsætisráðuneyti1,1871,31110,46%
Menntamálaráðuneyti46,25250,95810,17%
Utanríkisráðuneyti9,70811,76621,20%
Landbúnaðarráðuneyti13,82214,0161,41%
Sjávarútvegsráðuneyti3,0043,39413,01%
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti20,81523,43212,57%
Félagsmálaráðuneyti32,69840,19822,94%
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti144,649156,6038,26%
Fjármálaráðuneyti36,38648,76034,01%
Samgönguráðuneyti23,32942,34581,51%
Iðnaðarráðuneyti4,2564,6809,96%
Viðskiptaráðuneyti1,6691,86011,47%
Hagstofan0,5950,6295,64%
Umhverfisráðuneyti4,9515,45610,20%
Vaxtagjöld ríkissjóðs20,63021,7645,50%
Alls367,260430,35517,18%

 

Sem sjá má er útgjaldaaukningin meiri en tvöföld sú, sem fjármálaráðherra boðaði. Jafnvel þó svo við reiknuðum verðbólguna inn í og væri hún aðeins rétt tæplega tvöföld.

Ég er auðvitað bara úr máladeild, dæmi eru um að Excel reikni ekki alltaf rétt og ég er viss um að tölspekingar fjármálaráðuneytisins geta nefnt hitt og þetta, sem þurfi að taka með í reikninginn til þess að dæmið líti betur út. Það kann jafnvel að vera sanngjarnt að horfa til einhvers af því. En það verður bitamunur, ekki fjár.

Svo á ég alveg eftir að fara út í þá sálma í hvað þessum gegndarlausum fjármunum er varið. Það verður efni í lengri færslu.


Lífsleikni 201


Það má rétt vera að ekki sé unnt að láta lokið við tilsögn í lífsleikni fyrir átta ára aldur, þó undirstöðuatriðinum sé komið á hreint þá. Þegar krakkar fara að stálpast blasa við ný viðfangsefni og nýr vandi. Þá mætti halda framhaldsnámskeið í lífsleikni, helst ekki síðar en um 13 ára aldur. Það er alltof seint að fara að halda því að fólki í menntaskóla.

Ég ætla ekki að gera lesendum það að birta þann bálk allan, en hann heitir Hávamál og stendur fyllilega fyrir sínu, þó uppruninn sé aftur í grárri forneskju en við kunnum fyllilega skil á. Það má lesa þau öll á netútgáfu Snerpu. Þar er tæpt á öllu því, sem er verið að býsnast við að kenna í lífsleikni í Menntaskólanum í Kópavogi, og miklu, miklu meira.

„læri að meta áhuga- og hæfnisvið sín á gagnrýninn og raunhæfan hátt“
Sá er sæll
er sjálfur um á
lof og vit meðan lifir.
Því að ill ráð
hefir maður oft þegið
annars brjóstum úr.

[…]

Skósmiður þú verir
né skeftismiður,
nema þú sjálfum þér sér.
Skór er skapaður illa
eða skaft sé rangt,
þá er þér böls beðið.

„þjálfist í að skoða sjálfan sig og aðra á gagnrýninn og uppbyggjandi hátt“ 
Sá einn veit
er víða ratar
og hefir fjöld um farið
hverju geði
stýrir gumna hver,
sá er vitandi er vits.

[…]

Það er enn um þann
er þú illa trúir
og þér er grunur að hans geði:
hlæja skaltu við þeim
og um hug mæla.
Glík skulu gjöld gjöfum.

„þjálfist í að tjá og fylgja eftir skoðunum sínum, tilfinningum og hugðarefnum á opinberum vettvangi og í vinahópi“
Kópir afglapi
er til kynnis kemur,
þylst hann um eða þrumir
Allt er senn,
ef hann sylg um getur,
uppi er þá geð guma.


„fái tækifæri til að taka þátt í og njóta list- og menningarviðburða“

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.


„læri að taka ábyrga afstöðu til kynlífs“

Og nær morgni,
er eg var enn um kominn,
þá var saldrótt sofin.
Grey eitt eg þá fann
innar góðu konu
bundið beðjum á.

[…]

Ráðumk þér, Loddfáfnir,
að þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Annars konu
teygðu þér aldregi
eyrarúnu að.


„taki ábyrga afstöðu til fíkniefna og lyfja“

Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Vegnest verra
vegur-a hann velli að
en sé ofdrykkja öls.

[…]

Óminnishegri heitir
sá er yfir öldrum þrumir.
Hann stelur geði guma.
Þess fugls fjöðrum
eg fjötraður var'g
í garði Gunnlaðar.


„geti átt auðgandi og gefandi samskipti við einstaklinga óháð kyni, kynferði, þjóðerni, trú og líkamlegu og andlegu atgervi“ 

Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Auði betra
þykir það í ókunnum stað.
Slíkt er volaðs vera.

[…] 

Haltur ríður hrossi,
hjörð rekur handarvanur,
daufur vegur og dugir.
Blindur er betri
en brenndur sé:
Nýtur manngi nás.

„læri að taka ábyrga afstöðu sem neytandi í flóknu og margbreytilegu samfélagi“
Mikið eitt
skal-a manni gefa:
Oft kaupir sér í litlu lof.
Með hálfum hleif
og með höllu keri
fékk eg mér félaga.

„læri að umgangast sjálfan sig og umhverfi sitt af virðingu“
Hjarðir það vitu
nær þær heim skulu
og ganga þá af grasi.
En ósvinnur maður
kann æva-gi
síns um mál maga.


Lífsleikni 101


Í athugasemdum við færslu um lífsleikni hér að neðan er meðal annars sett fram sú rhetoríska spurnig hvort lestur ljóða sé ekki ámóta tímaeyðsla á skólagöngunni og lífsleikni. Ég held reyndar alls ekki að svo sé. Því birti ég hér á eftir námskeiðið Lífsleikni 101 í heild sinni, eins og síra Hallgrímur Pétursson gekk frá því. Það má kenna og temja börnum á nokkrum stundum fyrir átta ára aldur.

Heilræði

Ungum er það allra best,
að óttast Guð, sinn herra,
þeim mun viskan veitast mest,
og virðing aldrei þverra.

Hafðu hvorki háð né spott,
hugsa um ræðu mína,
elska Guð og gjörðu gott,
geym vel æru þína.

Foreldrum þínum þéna’ af dyggð,
það má gæfu veita,
varast þeim að veita styggð,
viljir þú gott barn heita.

Hugsa um það helst og fremst,
sem heiðurinn má næra
Aldrei sá til æru kemst,
sem ekkert gott vill læra.

Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum.
Hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.

Oft er sá í orðum nýtur,
sem iðkar menntun kæra,
en þursinn heimskur þegja hlýtur,
sem þrjóskast við að læra.

Vertu dyggur, trúr og tryggur,
tungu geymdu þína,
við engan styggur né í orðum hryggur,
athuga ræðu mína.

Lítillátur, ljúfur og kátur,
leik þér ei úr máta.
Varast spjátur, hæðni, hlátur;
heimskir menn sig státa.

Víst ávallt þeim vana halt:
vinna, lesa, iðja,
umfram allt þó ætíð skalt
elska Guð og biðja.


Hindurvitni og heilbrigðisstéttir

Dr. Kwac's Quick Cancer Cure

Vildi vekja athygli á nýrri færslu Péturs Tyrfingssonar á Eyjunni, en sá góði herra skrifar alltof sjaldan. En hann skrifar alltaf þannig, að tíma manns er vel varið í lesturinn. Að þessu sinni færir hann í tal kerlingarbækur, kukl og skottulækningar, sem virðast njóta skjóls eða afskiptaleysis heilbrigðisstétta. Orð í tíma töluð. Ein glefsa:

Við höfum öll stjórnarskrárbundinn rétt til að vera heimsk og vitlaus og boða öðrum galskapinn. Aftur á móti er okkur bannað það ef við höfum tekið okkur á herðar ábyrgð læknis, sálfræðings, hjúkrunarfræðings o.s.frv. Almenningur verður að geta treyst þessum fagstéttum og þeim er gert að byggja störf sín á vísindalegri þekkingu. 

Nú er ég þeirrar skoðunar að fólki eigi að vera frjálst að leita þeirra lækninga, sem því sýnist. En meðan hér er við lýði einokun miðaldagilda í heilbrigðisiðnaði verða þau að lúta ströngum skilyrðum. Einokunin er veitt á þeirri forsendu að gildin búi yfir einstakri þekkingu; fyrir vikið fá þær aðgang að meðölum, sem öðrum er bannaður nema að þeirra ráði, og fær þeim í hendur vald um líf og dauða. Leggi þær skottulækningar af þessu tagi að jöfnu við eigin fræði, þá er grundvöllur einokunarinnar brostinn.


Lífsleikni í MK

Ég les hjá Birni Bjarnasyni að hann hefur verið að fá fyrirspurnir frá Kópavogi, nokkuð á misskilningi byggðar:

Greinilegt er, að lífsleiknikennari í Menntaskólanum í Kópavogi hefur bent nemendum sínum á að senda mér tölvuspurningar um refsingar og þyngd þeirra. Þetta sannar mér enn, hve nauðsynlegt er, að kenna nemendum, að dómarar ákveða þyngd refsinga en ekki dómsmálaráðherra. Alþingi ákveður refsirammann með lögum en dómarar, hve mikið af honum er nýtt hverju sinni.

Áhyggjur Björns, fyrrverandi menntamálaráðherra, eru skiljanlegar, því ekki verður annað af færslu hans skilið en að menntaskólakennari í lífsleikni átti sig ekki á undirstöðuatriðum í stjórnskipulagi landsins. Svo geta menn velt því fyrir sér hvort ábendingar kennarans um fjöldafyrirspurnir til dómsmálaráðherra séu í einhverjum öðrum tilgangi en einungis til uppfræðslu nemendanna.

En ég hjó eiginlega eftir öðru. Lífsleikni í menntaskóla?! Hér ræðir um fólk á barmi þess að vera fullorðið og það er verið að kenna því lífsleikni. Nasasjón sú, sem ég hef af þeirri námsgrein í grunnskólum, varð ekki til þess að efla tiltrú mína á menntakerfinu, námskrárgerð eða virðingu pedagóga fyrir tíma skjólstæðinga sinna.

Ég hef hins vegar ekki nennt að fetta fingur út í það, því það er ekkert nýtt að grunnskólar séu öðrum þræði dagvistarstofnanir. Þannig var það líka þegar ég var að slæpast þar fyrir 30 árum eða svo. En þurfi fólk að læra lífsleikni í menntaskóla leyfi ég mér að draga í efa að það sé nægilega vel undirbúið til þess að eiga erindi í menntaskóla. Sem aftur leiðir til spurninga um hvort það sé endilega hið eina rétta hlutverk íslenska menntakerfisins að gera stúdenta úr öllum, sama hvað það kostar. Sama hvaða „fræði“ eru lögð til grundvallar eða ekki. En það er nú efni í aðra færslu.


Lofsöngur til Krónunnar

Ég var gerður út af örkinni til þess að kaupa inn til helgarinnar og fór eins og oftast út í Bónus í Kjörgarði. Ég veit að maður á helst ekki að leggja í verslunarferð þangað eftir kl. 15.00, allra síst á föstudegi, en ákvað að taka sjensinn. Það voru mistök. Búðin var enn stappaðri en venjulega og grískt Ginnungagap við kassana, enda sýndist mér afgreiðslufólkið flest vera erlendir unglingar í starfskynningu. Eins og atvinnuástandið er hérna er erfitt eða vonlaust við það að eiga og Bónus engan veginn sér á báti hvað það varðar, eins og ég minntist á í síðdegisútvarpi Ríkisútvarpsins fyrr í dag.

En þetta varð mér um megn, svo ég sneri frá og leitaði hælis í kjallaranum í Kjörgarði, í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar nánar tiltekið, en þar ræður ríkjum frændi minn Þorlákur Einarsson, sem sjálfsagt er gáfaðasti, fróðasti og skemmtilegasti verslunarstjóri Reykjavíkur, að Braga Kristjónssyni fornbóksala undanskildum.

Eftir andlega nærandi samræður við Þorlák hóf ég verslunarleiðangurinn á ný og þá rifjaðist upp fyrir mér að einhverjir höfðu mjög mært hina nýju verslun Krónunnar við Fiskislóð úti á Granda. Ég var aldrei neitt hrifinn af Krónunni úti í JL-húsi, en ég ákvað að slá til og prófa þessa nýju Krónu-verslun.

Það er skemmst frá að segja að þessi verslun var ekki nógsamlega dásömuð í mín eyru. Hún er alveg frábær. Þarna er hátt til lofts og vítt til veggja, bjart og hreinlegt. Þó það væri föstudagseftirmiðdagur og klukkan að verða sex var engin örtröð þarna. Vöruúrvalið var alveg ágætt og það er sérstök ástæða til þess að benda á dagvöruna. Grænmetið var ekki lagerafgangur vikunnar eins og maður lendir alltof oft í hjá keppinautnum og mér finnst alveg til sérstakrar fyrirmyndar að kjötiðnaðarmennirnir starfa fyrir allra augum bak við glervegg. Verðið var sambærilegt við það, sem gerist hjá Bónus, en upplifunin var miklu nær því sem maður á að venjast í Hagkaupum eða Nóatúni. Þannig að mér fannst ég fá miklu meira fyrir peningana, bæði hvað varðar vörugæði og þægindi, sem ég met nokkurs. Þarna voru næg bílastæði og starfsfólkið sýndi af sér þjónustulund og gott viðmót, alveg frá kerrumeistaranum til kassadömunnar.

Ég mun halda tryggð við Melabúðina þegar ég vil gera okkur dagamun og Nóatún eða Hagkaup þegar ég vil njóta breiðs vöruúrvals. En hvað stórinnkaupin varðar held ég að Krónan hafi verið að eignast nýjan fastakúnna.


Meira um minningagreinar

Fyrir hálfu ári, upp á dag, skrifaði ég athugasemd hér á blogginn um það hvernig Morgunblaðið væri í heljargreipum minningagreina, þær tækju of mikið rými, klyfu blaðið í herðar niður og hindruðu eðlilegar breytingar á því. Ég gerði mér vitaskuld grein fyrir því, að þær væru hluti af því, sem gerði MorgunblaðiðMogganum okkar, og hluti af því, sem gerir Ísland að Íslandi. En samt taldi ég að þessu þyrfti að breyta með einhverjum hætti og nefndi sitthvað um það, sem gera mætti til þess:

Morgunblaðið gæti áfram birt stutt æviágrip þeirra, sem bornir eru til grafar þann daginn, og síðan gæti blaðið jafnframt — líkt og tíðkast í stærri blöðum erlendis — birt eigin minningargreinar um merkilegt fólk, 1-2 í hverju tölublaði. Í bresku stórblöðunum er þessi háttur hafður á og greinarnar eru jafnan svo vel skrifaðar að þær eru hið ágætasta lesefni. Sjálfur glugga ég reglulega í þær, enda fær maður þar oft nasasjón af merkisfólki, sem maður hefur oft ekki einu sinni vitað að væri til. Þar er líka kærkominn spegill af mannseðlinu, sem fjölmiðlar ná yfirleitt illa um að fjalla með öðrum hætti. 

Viðtökur lesenda minna við þessum hugmyndum voru almennt vinsamlegar, þó einhverjir hefðu áhyggjur af því að blaðið færi að stunda mannajöfnuð með þessum hætti, að draga hina horfnu í dilka merkismanna og annarra. Ég benti hins vegar á, að þó við vildum allt til vinna til þess að fólk væri jafnrétthátt í lífinu, mætti vel viðurkenna það, að fólk hefði misjafnlega unnið úr sjálfu sér og tækifærum lífsins og að slík uppgjör væru fullkomlega við hæfi að leiðarlokum. Engin ástæða væri til þess að reyna að jafna um menn, einmitt þegar stóri jafnaðarmaðurinn, sláttumaðurinn slyngi, væri nýbúinn að gera þá hnífjafna.

En fólk getur verið merkilegt fyrir margra hluta sakir. Peningasöfnun liðþjálfa í Hjálpræðishernum getur þannig reynst þyngri á metunum í þessu samhengi en auðsöfnun moldríks verðbréfagosa. Eða góður barnakennari merkari en menntamálaráðherra. Jafnvel Paris Hilton (sé hún dauðleg) gæti uppskorið minningargrein, ekki endilega vegna framlags hennar til mannsandans heldur kannski fremur vegna þess sem frægð hennar segir okkur um mannseðlið.

Nú sýnist mér að Morgunblaðið sé að feta einhverja braut í líkingu við þá, sem ég nefndi. Upp á síðkastið hefur blaðið fengið ýmsa vel ritfæra menn eða eigin blaðamenn til þess að skrifa minningargreinar um valda menn á miðopnu blaðsins, en meiri heiður getur Morgunblaðið ekki sýnt mönnum. Og það eru ekki aðeins menningarpáfar, stjórnmálamenn eða aðrir fínimenn, sem hljóta þann sess; í gær skrifaði Sigmundur Ó. Steinarsson fallega og persónulega grein, sem samt átti erindi við lesendur alla, um Ásgeir Elíasson, fótboltaþjálfara, sem varð bráðkvaddur í liðinni viku.

Nú vona ég aðeins að blaðið haldi áfram á þessari leið, birti áfram dánarauglýsingar og æviágrip, líkt og birt eru nú þegar í upphafi minningagreina, en taki afganginn inn á Netið með loforði um að þar verði ævarandi bautasteinn. Það er ekki dýrt og verður æ ódýrara. Hið eina, sem ég sé að gæti verið verra í því samhengi, er að í ljósi þeirra kynslóða, sem hverfa næstu áratugi, er viðbúið að afreksmennirnir þyki fleiri karlkyns en kvenkyns. Það má treysta því að tölfræðifemínistarnir haldi því til haga. En í millitíðinni geta þeir kannski talið dálksentimetrana eins og þeir birtast um náina núna og kyngreint þá.


Tilraunir

eniac.jpg

Kæru lesendur! Biðst forláts á því að hér stendur yfir örlítil tilraunastarfsemi með blogghugbúnað. Reyni að halda því ónæði í lágmarki.

AM


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband