12.11.2006 | 18:55
Vandræði á Suðurlandi
Úrslitin í prófkjöri sjálfstæðismanna á Suðurlandi komu mér að mörgu leyti í opna skjöldu. Drífa Hjartardóttir á Keldum húrraði niður listann og Guðjón Hjörleifsson sömuleiðis. Ég fæ ekki séð að það hafi verðskuldað fall hjá þeim. Eins finnst mér verra að Gunnar Örlygsson hafi ekki fengið betri útkomu í prófkjörinum, þó ekki væri nema vegna þess að ég tel að við eigum að fagna týndum sauðum.
Stóri skandallinn er þó sigur Árna Johnsen, sem vafamál er að megi taka sæti á Alþingi. Ekki vegna þess að aldrei megi fyrirgefa mönnum yfirsjónir, þvert á móti ber okkur að finna fyrirgefningu í hjarta okkar gagnvart þeim, sem eitthvað verður á. En svo ég haldi nú áfram á trúarlegum nótum þá þarf hinn syndugi líka að sýna iðrun og yfirbót. Árni Johnsen hefur ekkert slíkt gert.
Hann notfærði sér aðstöðu sína sem kjörinn fulltrúi almennings til þess að skara eld að eigin köku og rauf þannig trúnað við kjósendur sína, þjóðina og lýðveldið. Og síðan þegar upp komst laug hann fullum hálsi. Í því samhengi leyfi ég mér að benda á grein, sem ég skrifaði á Strikið um þetta fyrir rúmum fimm árum.
Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn muni gjalda þessa frambjóðanda um land allt. Ég veit það að minnsta kosti um sjálfan mig, að ég mun eiga erfiðara með að kjósa Sjálfstæðisflokkinn vegna Árna. Ég vil ekki eiga það á hættu að mitt atkvæði verði til þess að gera Árna Johnsen að þingmanni í jöfnunarsæti. Kosningareglur eru hins vegar þannig að meðan sérframboð geta veitt atkvæðum sínum áfram með því að vera með sömu listabókstafi (t.d. DD) er engin leið að koma í veg fyrir að atkvæði nýtist öðrum til jöfnunar. Hvað á það að þýða?
Hvaða úræði koma til greina til þess að stöðva framboð Árna Johnsen í nafni og skjóli Sjálfstæðisflokksins? Samkvæmt skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins þarf Miðstjórn flokksins að staðfesta framboðslista, svo að hann verði boðinn fram í nafni flokksins. En er hún líkleg til stórræða? Miðstjórnin lét gott heita að stórfellt prófkjörssvindl átti sér stað í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar, svo menn geta varla vænst myndugleika úr þeirri átt. Ekki virðast meiri töggur vera í framkvæmdastjórn flokksins. Og hvað? Á maður að lifa í voninni um að Sjálfstæðisfélag Vestmannaeyja víki Árna úr félaginu og þar með flokknum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2006 kl. 03:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.11.2006 | 10:56
Morðæðið mært
Minn gamli klefanautur úr Aðalstræti, Guðmundur Magnússon, gerir að umtalsefni hvort það sé siðferðilega rétt að hampa (njóta, dreifa) listaverkum, (málverkum, skáldsögum, ljóðum o.s.frv.) sem harðstjórar og fjöldamorðingjar hafa skapað? Í því samhengi minnist hann sérstaklega á Adolf Hitler og Maó Zedong, tvö af viðurstyggilegustu gerpum mannkynssögunnar. Ég er ekki viss, það á auðvitað ekki að líta hjá verkum þeirra en það er rangt að hampa þeim.
En ég man eftir því þegar ég var í Menntaskólanum var ég einu sinni sem oftar gestkomandi á menningarheimili í Arnarnesinu. Þar í stofu fann ég sófaborðsbók á sófaborði, en það var vönduð listaverkabók með myndum Adolfs Hitlers. Myndirnar voru sumar snotrar en ekkert meira en það, en ég get ekki neitað því að mér brá ögn við að sjá skrímslinu hampað með þessum hætti. Þessu daðri við Hjalta hefur maður kynnst víðar eiginlega óskiljanlega víða og mér finnst það alltaf jafnsmekklaust að ég segi ekki ógeðfellt.
Það var á öðru heimili þar í Arnarnesinu, sem þetta náði mestum hæðum. Í stássstofunni hjá Steingrími Hermannssyni og frú Eddu tróndi nefnilega stytta af SS-riddara, gott ef hún var ekki ofan á flyglinum. Nú var þetta vafalaust merkisgripur, gjöf frá hænsnabóndanum, mannaslátraranum og ríkislögreglustjóra þriðja ríkisins Heinrich Himmler til lögfræðingsins, kollubanans og lögreglustjórans Hermanns Jónassonar. Auðvitað hefði verið fráleitt að farga styttunni, en bar henni þessi heiðursstaður á heimilinu?
Allt um það; á morgun vopnahlésdaginn 11. nóvember verður haldið málþing í Háskóla Íslands um valdatíma Maós í Kína. Þar verður öll áhersla lögð á menningarlegt framlag fjöldamorðingjans: Sagnameistarann Maó, söngtexta rauðu varðliðanna, pólitíska orðræðu Maós um menntamenn, hvernig orðskviðum formannsins var safnað, heimspeki Maós og ljóðlist hans! Nú má vera að tveir ræðumannanna fjalli blóðbað þessa mesta fjöldamorðingja mannkynssögunnar, en maður er satt að segja efins um það í ljósi þess að hið kínverska sendiráð valdaræningjanna í Peking býður í kokkteil á eftir.
Hefði ekki verið ástæða til þess að bjóða Ólafi Teiti Guðnasyni að koma og kynna íslenska þýðingu sína á Maó: hinni ósögðu sögu, meistaraverki hjónanna Jung Chan (Villtir svanir) og Jon Halliday um Maó, sem ég held að sé einmitt að koma út nú um jólin?
Með því að hampa meintri heimspeki þessa morðóða siðleysingja, ljóðlist og menningarlegu áhrifum er Háskóli Íslands að míga á grafir þeirra tugmilljóna Kínverja sem Maó drap af fullkomnu skeytingarleysi og grimmd. Hafi aðstandendur málþingsins bölvun fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2006 kl. 04:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.11.2006 | 10:02
Andrésar tveir frá fallnir
Ég segi ekki að mér hafi beinlínis brugðið þegar ég fletti Morgunblaðinu við morgunverðarborðið og sá þar minningargreinasíðu helgaða Andrési Magnússyni. En það var eilítið ónotalegt. Það er þó ekki yðar einlægur, sem þar er ritað um, heldur Andrés Magnússon, sem löngum var verkstjóri í hvalstöðinni í Hvalfirði og margir þekktu sem ágætan frístundamálara. Það var fallega um hann skrifað og hann hafði ljóslega lifað tímana tvenna og þrenna.
Á síðunni á móti var svo minnst Andrésar Ásmundssonar læknis. Við deildum ekki aðeins nafni, því það var hann, sem dró mig inn í þennan heim nakinn, grenjandi og blóðstokkinn. Með smáheppni fer maður þannig út úr honum aftur, svo ég umorði orðskvið Dana Gould lítillega. En í ljósi þess að nafni skar á naflastrenginn minn, er ekki við hæfi að ég fylgi honum síðustu skrefin?
Guð blessi minningu nafna minna beggja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 10:33
Aðgerðaáætlun Samfylkingarinnar
Ekki þurfti ég lengi að bíða tilefnis til þess að skrifa hér. Ég les á bloggi ritstjórans að Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, hafi hringt í hann og krafist hrókeringa á ritstjórn Blaðsins, en ef ekki yrði brugðist við kröfu hans myndi Samfylkingin grípa til aðgerða gegn Blaðinu. Aðgerða gegn Blaðinu?! Í hverju ættu þær að felast? Ætlar Skúli að segja upp áskriftinni? Sleppa því aftur að auglýsa í Blaðinu eins og fyrir síðustu kosningar? Leggja fram breytingartillögu við meðferð nýja fjölmiðlafrumvarpsins þar sem stjórnmálaflokkunum er ætlað neitunarvald í starfsmannahaldi fjölmiðla? Þegar stórt er spurt, svo ég vitni í skúbbmeistarann.
Nú kemur ekki fram hvað framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar gramdist svo mjög, en eftir að hafa flett Blaðinu verð ég að játa að ég átta mig ekki alveg á því. Þar var engan veginn fjallað um Samfylkinguna á þann hátt að framkvæmdastjóri flokksins ætti að fyrtast við.
Að vísu sé ég að Guðmundur Steingrímsson, frambjóðandi, telur að Blaðið hafi minna gert úr prófkjörum Samfylkingarinnar um liðna helgi en efni hafi staðið til á meðan fréttaskýring hafi verið skrifuð um slakt gengi hennar í Þjóðarpúlsi IMG Gallup Capacent (eða hvað það nú annars ágæta fyrirtæki heitir þessa vikuna). En þarna var ekkert samsæri; Blaðið kemur hvorki út á sunnudögum né mánudögum, þannig að stórmerk tíðindi úr prófkjörum Samfylkingar í Kraganum og Norðausturkjördæmi á laugardag voru einfaldlega orðin of gömul til þess að fá einhvern uppslátt í þriðjudagsblaðinu. Á hinn bóginn hefði verið ástæða til þess að fjalla meira um prófkjör flokksins í Suðurkjördæmi, en þar var ekki talið fyrr en á mánudag. Fyrstu tölur voru hins vegar ekki birtar fyrr en um hálfsjö þegar hálftími var í skil Blaðsins í prentsmiðju, en æsispennandi og sveiflukenndri talningu lauk ekki fyrr en fjórum tímum síðar. Okkur var því ókleift að fjalla meira eða betur um það.
En ég trúi því ekki að geðprúður maður eins og Skúli frændi hafi misst stjórn á skapi sínu vegna þessa, þar hlýtur eitthvað annað að koma til. Hið eina, sem mér kemur til hugar í því samhengi, er umfjöllun mín í dálkinum Klippt & skorið, þar sem einatt má finna pólitískar sneiðar í bland við almennari athugasemdir. En mér er óskiljanlegt með hvaða hætti framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar hafi þótt að flokknum vegið á þriðjudag.
Nú má raunar vera að einn frambjóðandinn í prófkjöri Samfylkingarinnar hafi orðið fúll vegna þess að ég varpaði ljósi á eftirhermuhæfileika hans í prófkjörsbaráttunni eða vegna þess að ég greindi frá því að í flokkskjarnanum væru menn farnir að litast um eftir hugsanlegum arftaka í formannsembætti ef fylgi flokksins í komandi kosningum yrði með þeim hætti sem allar skoðanakannanir undanfarið eitt og hálft ár hafa bent til. En getur verið að bræði framkvæmdastjóra flokksins stafi af því? Eða er hann fyrst og fremst framkvæmdastjóri umrædds frambjóðanda? Vilkat goð geyja og allt það.
Hvernig sem því öllu er farið og hvað sem veldur, er það hárrétt athugað hjá Hrafni Jökulssyni að það er fullkomlega óþolandi að framkvæmdastjóri stjórnmálaflokks sé hringjandi út í bæ, gefandi fyrirmæli um það hvernig fjölmiðlum sé hollast að haga sér. Og hóti þeim aðgerðum ella. Hvaða fyrirheit gefur það um erindi og heilindi flokksforystunnar?
............................
P.S. Ég ætlaði að vitna hér í fræga Borgarnesræðu, sem til skamms tíma mátti finna á vef Samfylkingarinnar, en nú finn ég hana til ólukkunar ekki. Væri ekki verðugt verkefni fyrir framkvæmdastjórann að finna hana til og setja á góðan stað?
NB: Eins og Jens Sigurðsson bendir á í athugasemd að neðan er Borgarnesræðurnar enn að finna á vef Samfylkingarinnar, bara á öðrum stað en áður. Sjálfsagt er ástæðan breytt vefsýslukerfi flokksins. Borgarnesræðuna fyrri og Borgarnesræðuna seinni má sumsé enn lesa og þá skora ég bara á framkvæmdastjórann að lesa þær! - Athugasemd bætt við hinn 10. nóvember 2006.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.11.2006 kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.3.2006 | 16:49
Enn einn bloggur
Ég veit ekki hvort ég nenni að halda blogg meðan ég er skrifandi í dagblað. Ég bloggaði á sínum tíma á Blogspot, en hann hefur í raun verið í dái síðan ég byrjaði á Blaðinu. Ég velti því að vísu fyrir mér að setja inn færslur með skrifum mínum í Blaðið, en fannst handavinnan of tímafrek. Sjáum til hvort ég nenni frekar að skrifa hér.
En hafi ég eitthvað fram að færa, sem ekki rúmast í öðrum miðlum eða á þar síður erindi, þá get ég alltaf notað þennan öryggisventil á mitt tilfinningalega skilrúm. Sjáum til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.11.2006 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar