Leita í fréttum mbl.is

Þjóðarsáttin, taka 2

 Þjóðarsáttin, taka 2

Þeir Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra handsala þjóðarsáttina að tjaldabaki, aðfaranótt 2. febrúar 1990. Að baki þeim er dr. Ólafur R. Grímsson stjórnmálafræðiprófessor, sem vottaði sáttina fyrir hönd þjóðarinnar.

Úr Göfuglyndi á ögurstundu, 23. kafla bókarinnar Íslandssaga 3b, 20. öldin — Sagan öll,
eftir dr. Ólaf Ragnar Grímsson. (Útg. Global Center; Garðabær, 2008.)


Lærdómar sögunnar

Þjóðarsáttin búin til.

Síðastliðinn sunnudag varð Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir því að verða áttræður og af því tilefni var boðað til málþings um foringjann. Hann vann sér til frægðar að verða þrisvar forsætisráðherra og nafn hans mun lengi uppi fyrir að segja það skýrt í stefnuræðu sinni árið 1988 að eitt meginatriðið í stefnu ríkisstjórnar hans væri að hverfa frá almennt viðurkenndum, vestrænum aðferðum við stjórn efnahagsmála. Hér á landi giltu einhver önnur efnahagslögmál.

Afleiðingar hagfræðikenninga Steingríms þekkja menn mætavel. Undir hans stjórn komst verðbólgan í 37% árið 1985, en með óvinsælum aðgerðum tókst honum þó að þoka henni niður í 20-30%. Ekki leið þó á löngu þar til í stefndi að ríkisstjórnin missti öll tök á hagstjórninni. Árið 1989 fundust til allrar hamingju menn utan hennar, utan stjórnmálanna raunar, sem þóttust eygja leið út út ógöngunum og tóku frumkvæðið í þeim efnum, vegna þess að ríkisstjórnin var vonlaus.

Þeir sköpuðu þjóðarsátt.

Til þessa hefur ekki mikið verið um það deilt hvernig þjóðarsáttin varð til og hvernig úr henni vannst. Auðvitað kom ríkisstjórnin að þjóðarsáttinni. Ýmsar aðgerðir henni tengdar voru á forræði hins opinbera. En hún áttu þar ekkert frumkvæði, heldur stóð frammi fyrir orðnum hlut og lét til leiðast. Þeir, sem muna þessa tíma eða nenna að rýna í samtímaheimildir, vita hins vegar að ríkisstjórnin var hreint ekkert áhugasöm um þessa tilraun og því má jafnvel halda fram að stjórnin hafi nánast klúðrað henni. Allt fór það þó vel að lokum.

Þess vegna kom mörgum á óvart að á fyrrnefndu málþingi til heiðurs Steingrími steig herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á stokk og lýsti þessum þætti lýðveldissögunnar með nokkuð öðrum hætti en menn hafa átt að venjast. Aðalstef ræðu forsetans (fyrir utan almennt hól um feril afmælisbarnsins), var sú frumlega tilgáta að þjóðarsáttin hafi verið smíð þáverandi ríkisstjórnar, en vegna göfuglyndis og stjórnvisku Steingríms hafi hann leyft aðilum vinnumarkaðarins að eiga heiðurinn. Þessi tilgáta er hrein firra. Það var öllum ljóst hvernig í þessum málum lá þá, sagnfræðingar hafa um þau fjallað síðan og einhverjir stjórnmálafræðingar víst líka. Guðmundur Magnússon sagnfræðingur, sem ritaði bókina Frá kreppu til þjóðarsáttar (2004), greinir frá því á bloggi sínu að hann hafi í rannsóknarskyni rætt við stjórnmálamenn, embættismenn og forystumenn á vinnumarkaði á tíma þjóðarsáttar:

Niðurstaðan var afdráttarlaus og kom ekki óvart. Allt frumkvæði að samningunum, gerð þeirra og eftirfylgni var verk stéttarsamtakanna. Ríkisstjórnin var í hlutverki þiggjanda í því ferli öllu.

Nú er tilgangur forsetans með þessum tilbrigðum við söguna svo sem öllum ljós.

Herra Ólafur Ragnar var fjármálaráðherra í þessari sömu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir í febrúar 1990. Hann var því aðeins öðrum þræði að skjalla Steingrím Hermannsson; fyrst og fremst var hann að baða sjálfan sig í dýrðarljóma þjóðarsáttarinnar. Fullkomlega óverðskuldað. Og þó.

Gleymum ekki því að herra Ólafur Ragnar var sjálfsagt óvinsælasti fjármálaráðherra Íslandssögunnar. Sem slíkur átti hann drjúgan þátt í því með Steingrími að í þvílíkt óefni var komið, að aðilar vinnumarkaðarins sáu sig knúna til þess að fella áratugalangar deilur, taka höndum saman og gera það, sem ríkisstjórnin var fullkomlega vanmáttug til. En við hyllum ekki brennuvarginn fyrir lykilhlutverk hans í hetjudáð slökkviliðsins.

Við þetta er staldrað vegna þess að við þurfum að gæta þess að sagan sé ekki afbökuð og fölsuð. Þó ekki væri nema til þess að mönnum sé unnt af læra af henni, því vanræki menn það eru þeir dæmdir til þess að endurtaka hana. Einkum þó mistökin. En það er líka eitthvað einstaklega aumt við það að reyna að eigna sér heiður með þessum hætti og um leið láta eins og hinir raunverulegu frumkvöðlar hafi fyrir náð Steingríms leyfst að eiga heiðurinn. Hvað er forsetinn að gefa í skyn um þá?

Hvaða lærdóma getum við dregið af þjóðarsáttinni? Ég átti þess kost að ræða við Einar Odd Kristjánsson á liðnu sumri, skömmu áður en hann varð bráðkvaddur. Þá þegar voru nýjar blikur á lofti í efnahagsmálunum, niðurskurður fiskveiðiheimilda blasti við og alþjóðlegir lánsfjármarkaðir farnir að nötra. Hann lagði ofuráherslu á að verðbólgunni mætti ekki hleypa af stað aftur. Nánast allt væri betra. En ef hún nú léti kræla á sér, þá mætti alls ekki gera illt verra með því að hefja á ný víxldans kaupgjalds og verðlags. Á sá lærdómur ekki erindi í dag?

Einar Oddur var ekki stærilátur maður og hann lét sér í léttu rúmi liggja þó einhverjir væru að reyna að eigna sér þjóðarsáttina eftir á. „Þeim líður betur að muna þetta svona,“ sagði hann. Máske, en þar með er ekki sagt að við eigum að líða þeim það. Þó ekki væri nema til þess að geta dregið rétta lærdóma af réttri sögu.

 

......................

Grein þessi birtist upphaflega í Viðskiptablaðinu 26. VI. 2008.


Utanríkisráðherra er ekki vandanum vaxinn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ávarpar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna

Í athugasemd við fyrri færslu var imprað á því að tilgangur minn með því að skrifa um utanríkismál væri fyrst og fremst sá að taka Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til bæna. Því var ekki þannig farið þó vissulega væri ekki hjá því komist að gagnrýna framgöngu hennar í því máli. En athugasemdin vakti mig til umhugsunar um þetta liðlega ár, sem hún hefur setið í stóli utanríkis- og varnarmálaráðherra. Hvernig hefur hún eiginlega staðið sig?

Skemmst er frá því að segja að ráðherratíð hennar hefur verið samfellt hneyksli.

Um það er þó rétt að fjalla í lengra máli. Miklu lengra. Byrjum á því að rifja upp hvað stóð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um utanríkis- og öryggismál. Það er ekki langt mál:

Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verða nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu. Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak og vill leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi. Íslendingar eiga að stefna að því að taka forystu í baráttunni gegn mengun hafsins og alþjóðlegu starfi til að bregðast við loftslagsbreytingum. Að öðru leyti byggist stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum á þeim gildum sem legið hafa til grundvallar samvinnu vestrænna lýðræðisríkja, norrænu samstarfi og viðleitni þjóða heims til að auka frelsi í alþjóðlegum viðskiptum. Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að allar meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál verði teknar í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

Á ársafmæli ríkisstjórnarinnar um daginn hafði Geir H. Haarde, forsætisráðherra á orði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi að ríkisstjórnin hefði efnt um 80% af stefnumiðum stjórnarsáttmálans, en af því tilefni sögðu gárungarnir að þá gæti hún vonandi sagt af sér 27. ágúst ef áfram miðaði jafnvel. En hvernig hefur stefnumiðunum um alþjóðamálin verið fylgt eftir? Miðað við þessa stuttu málsgrein hér að ofan mætti ætla að það gæti ekki verið flókið mál. En það hefur greinilega vafist fyrir utanríkisráðherranum. Tökum það lið fyrir lið:

Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verða nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu.

Mannréttindi eru alls ekki lögð til grundvallar utanríkisstefnunni, eins og best sást í blóðbaðinu í Tíbet á dögunum. Þvert á móti lagði utanríkisráðherra lykkju á leið sína til þess að ítreka stuðning Íslands við stefnuna um „eitt Kína“ og lagðist gegn þjóðaratkvæðagreiðslu á Taívan! Það er nú aldeilis virðing fyrir mannréttindum, lýðræði og friðsamlegri úrlausn deiluefna. Þar fyrir utan hafa ráðherrann og háttsettir embættismenn hennar verið einstaklega iðnir við að hitta erlenda ráðamenn vegna framboðsins til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, en stór hluti þeirra ræður ríkjum þar sem mannréttindaástandið er bágborið. Sumir raunar í ríkjum, þar sem ástandið er svívirðilegt. Á svoleiðis smotterí hefur ekki verið minnst.

Ráðherranum hefur raunar verið tíðrætt um hlutverk Íslands í friðarumleitunum og vísað til síns frábæra ferðalags til Ísraels og Palestínu í því samhengi. Út úr því kom vitaskuld ekkert, en fyrir skömmu skutu Tyrkir (keppinautar um öryggisráðssætið) okkur ref fyrir rass í þeim efnum með alvöru framlagi til friðar fyrir botni Miðjarðarhafs.

Þróunarsamvinnan er svo enn í aftursætinu, en breytingar á þeim vettvangi snúast aðallega um það hvort hún eigi að vera í sérstofnun eða á kontór í ráðuneytinu. Jú, ráðherrann lagði fram mikið þróunarsamvinnufrumvarp í febrúar, en það komst ekki upp úr nefnd og afdrif þess óljós.

Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak og vill leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi.

Já, var það? Hvernig? Með því að kalla heim eina friðargæsluliðann? Við skulum ekki einu sinni minnast á fíflaganginn og falsið með lista hinna staðföstu þjóða, en hitt væri fróðlegt að vita, hvað felst í harmi ríkisstjórnarinnar.

Íslendingar eiga að stefna að því að taka forystu í baráttunni gegn mengun hafsins og alþjóðlegu starfi til að bregðast við loftslagsbreytingum.

Í þessum efnum hefur ráðherrann ekkert gert ef marka má fréttatilkynningalista ráðuneytisins. Nema menn vilji telja með þriggja ára verksamning við Búnaðarskólann á Hvanneyri um uppbyggingu alþjóðlegs landgræðsluskóla. Nær allt frumkvæði Íslands í þessum efnum má rekja annað í stjórnkerfinu, ekki síst til forseta lýðveldisins, en fráleitt er að ræða um forystu á því sviði.

Að öðru leyti byggist stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum á þeim gildum sem legið hafa til grundvallar samvinnu vestrænna lýðræðisríkja, norrænu samstarfi og viðleitni þjóða heims til að auka frelsi í alþjóðlegum viðskiptum.

Svo sanngirni sé gætt hefur þetta sjálfsagt að miklu leyti verið efnt, en til þess að gæta sanngirni er líka fátt sem hefur kallað á sérstaka aðkomu ráðherrans að eilífðarverkefnum ráðuneytisins. Þó má nefna ónærgætni í samstarfi við bandamenn okkar í Afganistan og Írak, ókurteisi við utanríkisráðherra Bandaríkjanna á dögunum, vanhugsaða viðurkenningu á sjálfstæði Kosovo, náin samskipti við útlagaríkið Íran þvert á samþykktir alþjóðasamfélagsins og sitthvað fleira. Þar ræðir samt fremur um grunnhyggni en grundvallarstefnubreytingar (ef fyrrnefnt rof í samstarfi við hin Norðurlöndin er undan skilið). En jafnvel þó þar væri allt í sóma væri það starf bara business as usual og ekki beinlínis tilefni til þess að útdeila fálkaorðum. Hvað þá stórriddarakrossum.

Hins vegar má vel spyrja að því hvort yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar um Evrópumálin og gjaldmiðilinn séu til þess fallin að greiða fyrir hagfelldum alþjóðaviðskiptum. Í vetur jókst Evrópuumræðan talsvert og eftir því var tekið að utanríkisráðherra skipti eilítið um gír í henni. Til þess að komast upp úr tæknilegu argaþrasi hagaði hún máli sínu þannig að Evrópumálin væru ekki síst spurning um eðli og erindi Íslands í heiminum, hvort Ísland tilheyrði Evrópu eða ekki. Það er ekkert að því að setja málin fram með þeim hætti, en hversu skynsamlegt er það hjá utanríkisráðherra Íslands að skipa landinu þannig í sveit með löndum Austur-Evrópu, sem vilja fyrir alla muni samsama sig Evrópu og fjarlægja sig aldalöngum og kæfandi faðmlögum rússneska bjarnarins? Íslendingar eru hreint ekki í þeirri stöðu og hafa ekkert að sanna um evrópskt eðli sitt. Málflutningur ráðherrans vakti hins vegar efasemdir um það. Nýjasta frumkvæðið — sérstakt auglýsingainnlegg í júlí-ágúst hefti Foreign Affairs — undirstrikar þetta enn frekar. Það eru nær einvörðungu óburðug nýhagkerfi á borð við Serbíu, Jemen, Sádí-Arabíu, Turk & Caicos, Macau, Azerbajdzhan, Máretaníu, Kúrdistan og Tanzaníu, sem kaupa sér umfjöllun með þessum hætti. Er ástæða til þess að skipa Íslandi á bekk með þeim?

Enn einkennilegri og hættulegri var þó árás utanríkisráðherra á íslensku krónuna í viðtali á Morgunvakt Rásar 2 hinn 23. apríl. Þar sagði ráðherrann að íslenska krónan væri efnahagslífinu ekki vörn til framtíðar, hún væri frekar hættuvaldur. Bætti hún því svo við að Íslendingar hefðu tveggja kosta völ: evru eða krónu. Líkast til hefur enginn gengið jafnlangt í að tala niður gjaldmiðilinn undanfarin ár, sem vitaskuld er stóralvarlegt athæfi. Ekki síst hjá öðrum tveggja forystumanna ríkisstjórnar, en í flestum öðrum löndum heims hefðu orð af þessu tagi valdið tafarlausu gengishruni á mörkuðum. Það gerðist til allrar hamingju ekki, en hvaða áhrif ætli þau orð hafi haft á erlenda spákaupmenn? Kostnaðurinn kann að vera að koma í ljós núna. 

Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál.

Þetta hefur nú aldeilis ekki gengið eftir. Þvert á móti hefur verið hringlað þvílíkt í þeim efnum að undrum sætir og hvert hneykslið eltir annað. Það er búið að leggja niður Ratsjárstofnun (eftir að ráðherrann sagði forstjóranum upp og sagði svo ósatt um málsatvik) og stofna nýja Varnarmálastofnun, samkvæmt nýjum varnarmálalögum, sem voru samþykkt áður en nýtt hættumat liggur fyrir, þrátt fyrir að ráðherrann hefði sjálfur kynnt Alþingi að hættumatið ætti að legga til grundvallar nýrri stefnu í varnarmálum: „Undirstaða haldgóðrar varnarstefnu Íslands til framtíðar er að fram fari vandað og faglegt hættumat fyrir Ísland sem byggt sé á bestu þekkingu“. Fyrir nú utan hitt að varnir landsins eru enn fullkomlega ótryggðar, hvað sem líður þeim erlendu flugsveitum, sem hingað koma endrum og sinnum sér til skemmtunar og heilsubótar.

Hamrað var á því að hin nýja stofnun ætti alls ekki að koma nálægt borgaralegum verkefnum og var það ein helsta röksemdin fyrir henni og lögunum. Það vakti því verulega athygli þegar ráðherrann handvaldi  nýjan forstjóra þessarar stofnunar úr löggæslunni, manneskju sem enga þekkingu hefur á varnarmálum þrátt fyrir að 8. grein laganna kveði sérstaklega á um það. Þarna var því bæði vikið frá stefnu ríkisstjórnarinnar, markaðri stefnu, og hinum nýsamþykktu lögum, sem varnarmálaráðherrann lagði sjálfur fram!

Það var enda ekki einu sinni búið að stofna Varnarmálastofnun þegar Ellisif Tinna Víðisdóttir, nýskipaður forstjóri hennar, kom fram í viðtali á Morgunvakt á rás 1 Ríkisútvarpsins hinn 21. maí og fór að útskýra það af miklum móð að hlutverk stofnunarinnar væri að mestu leyti borgaralegt, gæti tekið til löggæsluverkefna og hvaðeina! Með ólíkindum er að löglærðum forstjóranum hafi ekki verið ljós eigin lagaheimildir og skorður á þessari stofnun, sem sagt er að hún hafi komið svo mikið nálægt við að móta. Það er raunar efni í sérfærslu.

Og samráðsvettvangur stjórnmálaflokkanna um öryggismál? Hann er óstofnaður ennþá, enda sjálfsagt eitthvað enn sem varnarmálaráðherrann vill véla um í friði frá tilsjón Alþingis.Og þá verður hann til lítils eins og stjórnarandstaðan hefur keppst við að benda á, án þess að vera virt viðlits, hvað þá meir. Í vor var raunar komið eilítið annað hljóð í strokkinn hjá ráðherranum, sem útskýrði dugleysið með því að samráðsvettvangurinn ætti að vera inni á gafli hjá óstofnuðu rannsóknarsetri um varnir og öryggi. Með öðrum orðum á engin tilsjón að vera af hálfu Alþingis, heldur mega þingmenn ræða hver við annan hjá einhverju nýju háskólabattaríi, sem kannski verður stofnað einhverntíman. Eitthvað með álíka vigt og Alþjóðamálastofnun HÍ, Smáríkjasetrið eða Evrópufræðasetrið? Þetta er náttúrlega argasta móðgun við þingið og lýðræðislega stjórnarhætti.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að allar meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál verði teknar í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

Tja, hvar værum við stödd ef ríkisstjórnin legði ekkert sérstaklega upp úr því? Það kom nú aldeilis í ljós í apríl hvernig utanríkis- og varnarmálaráðherrann virðir þá lögbundnu skyldu sína. Nær væri að tala um svívirðu í því samhengi. Það að utanríkisráðherra beri lagaskylda til samráðs við nefndina um meiriháttar ákvarðanir myndi undir venjulegum kringumstæðum þýða að tæpast að þyrfti að tiltaka það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ekki fremur en að þar þurfi að standa að ráðherrar hyggist kappkosta að fara að landslögum. Í þessu tilviki var þó ekki vanþörf á.

Þegar utanríkis- og varnarmálaráðherrann fór með einkaþotu á Búkarest-fund leiðtoga Atlantshafsbandalagsins ásamt forsætisráðherra lágu margvísleg mjög mikilvæg mál fyrir fundinum. Ráðherrann hafði ekki fyrir því að kynna neitt af því fyrir utanríkismálanefnd Alþingis. Nefndarmenn höfðu hins vegar pata af því af lestri erlendra fjölmiðla og var óskað eftir fundi með utanríkisráðherra. Hún synjaði þeirri ósk! Hafði eitthvað miklu mikilvægara við tíma sinn að gera.

Þetta er fullkomlega óskiljanleg framkoma. Ekki síst í ljósi þess hvað var svo samþykkt á fundinum.  Í Búkarestar-yfirlýsingunni var fastaráði bandalagsins falið að leggja fram tillögur fyrir næsta leiðtogafund um hvernig megi veita öllum löndum og lýðum NATO eldflaugavarnir. Á þessa ráðagerð var fallist af íslenskum stjórnvöldum án þess að það hafi í nokkru verið rætt hér á landi, en ef af verður er afar sennilegt að koma þurfi fyrir gagnflaugum hér á landi og hugsanlega nýrri ratsjárstöð. Nú hafa engar slíkar fyrirætlanir verið samþykktar enn, en í stuðningi Íslands við yfirlýsinguna felst eigi að síður nokkur skuldbinding. Ég fagna því svo sem, en hitt er óþolandi að svo veigamikið mál skuli hafa hlotið samþykki Íslands fullkomlega umræðulaust.

Til þess að bíta höfuðið af skömminni var varnarmálaráðherrann spurður út í þetta í Kastljósi Ríkissjónvarpsins eftir að heim var komið. Ráðherrann eyddi málinu og hélt því fram eða virtist halda að til stæði að gagnflaugakerfi Bandaríkjamanna í Tékklandi og Póllandi ætti að verja varnarsvæði NATO alls, sem er fjarri lagi. Annað hvort fór Ingibjörg Sólrún með fals eða hitt — sem er engu skárra — hún vissi ekki hvað hún var að undirrita. Var 37. grein Búkarestar-yfirlýsingarinnar þó merkilega afdráttarlaus og olli t.d.  talsverðri fjölmiðlaumfjöllun í Noregi.

— — —

Í ljósi alls þessa, auk hins er nefnt var í fyrri færslu um Norðurlandasamstarf, blasir við að utanríkis- og varnarmálaráðherrann hefur varla gert tilraun til þess að standa við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um málaflokk sinn. Til þess að bæta gráu ofan á svart virðist Ingibjörg Sólrún einfaldlega ekki vandanum vaxinn. Hvert sem litið er blasir við klúður eða vanefndir, vanþekking eða fals. Varnarmálin, sem hún sóttist svo ákaft eftir, eru orðinn einn grautur óljósra markmiða og enn torkennilegri framkvæmdar, jafnvel lögbrota og valdþurrðar. Að ekki sé minnst á pólitískar ráðningar og aðrar verri. Hin nýja utanríkisstefna… tja, hvar er hún? Er ekki nær að tala um fullkomið stefnuleysi?

Staðreyndin er sú, að Solla hefur siglt og villst inn á allt önnur mið en áður hefur verið gert, blandar saman innri og ytri vörnum eftir þörfum eða hugdettum og utanríkisstefnan er orðin eitthvert óskiljanlegt moð. Og ekki aðeins að smekk þess hauks, sem hér skrifar; ekki síður þegar litið er til þeirra hugsjóna, sem Samfylkingin hefur sett fram í þeim efnum, hvort heldur ræðir um kosningastefnu eða samþykkt landsfundar.

Og hvað má þá segja um stóra verkefnið, sem hefur forgang á öll önnur og allt annað: framboðið í öryggisráðið? Er ekki hverjum manni ljóst að möguleikar Íslands í því kjöri hafa að engu orðið á vakt Ingibjargar Sólrúnar? Ekki verður því þó um kennt, að ekki hafi verið nógu til þess kostað. Áætlaður kostnaður utanríkisráðuneytisins eru 12 milljarðar á þessu ári. Milljarður á mánuði! Hverjar ætli líkurnar séu á því að ráðuneytið haldi sig innan þeirrar áætlunar?

Ég hef haft rækilegar efasemdir um þetta ríkisstjórnarsamstarf frá upphafi og þær hafa lítt dalað. Ekki gagnvart krötunum, þeir eru ágætir fyrir sinn hatt, þó mig greini á við þá um margt. En Kvennalistinn er jafnliðónýtur í ríkisstjórn og hann var í stjórnarandstöðu.

Þegar litið er til þessa fyrsta árs Ingibjargar Sólrúnar í stóli utanríkis- og varnarmálaráðherra má ljóst vera að hún hefur engan áhuga á að framfylgja stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, dugleysi hennar stendur landinu fyrir þrifum og dugnaðurinn er því til óþurftar. Þegar kemur að samskiptum við umheiminn vill hún ekki segja þrjótunum til syndanna, en aðrar yfirlýsingar hafa reynst þjóðinni til skaða. Til hvers er hún þá?


Er Ísland ekki lengur meðal Norðurlanda?

Thorvald Stoltenberg

Mbl.is segir þá forvitnilegu frétt, að gera skuli „óháða rannsókn“ á því hvernig þróa megi samstarf Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum á næstu 10-15 árum. Rannsóknin er þó ekki óháðari en svo að henni mun stýra Thorvald gamli Stoltenberg, sem sést hér að ofan, margreyndur stjórnmálamaður og diplómati, fyrir nú utan það að hann er faðir Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.

Um þetta var gefin út tilkynning í gær, en hún kom ekki upp úr engu. Þetta var ákveðið á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda, sem fram fór í Lúxemborg á mánudagskvöldið 16. júní (eftir utanríkisráðherrafund ESB), en dagskráin var vitaskuld ekki óundirbúin. Fylgjast hefur mátt með þessu á bloggi Carls Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem er harla opinskár um störf sín. Um framhaldið má svo fræðast í grein, sem Sverre Diesen, Juhani Kaskeala og Håkan Syrén, yfirmenn herafla Noregs, Finnlands og Svíþjóðar skrifuðu í Aftenposten, Helsingin Sanomat og Svenska Dagbladet í dag. Á fundinum var þó ekki aðeins rætt um utanríkis- og öryggismál, því þeir hafa sjálfsagt haft um ýmislegt að skrafa vegna þeirrar vandræðastöðu, sem upp er komin í Evrópusambandinu eftir að írskir kjósendur höfnuðu Lissabon-sáttmálanum (líttilega breyttri stjórnarskrá Evrópusambandsins).

Af tilkynningu utanríkisráðuneytisins íslenska má ætla að Ísland sé þátttakandi í þessu verkefni, þó ekkert komi reyndar fram um það. En hvar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir? Hún var ekki í Lúxemborg, svo mikið er víst. Var þó á því hamrað að allir utanríkisráðherrar Norðurlanda hefðu verið þar og síðan taldir upp ráðherrar Noregs, Finnlands, Svíþjóðar og Danmerkur. En ekki Íslands. Hér hefur enda ekkert verið um samstarf af þessu tagi rætt. Ekki opinberlega og ekki á fundum utanríkismálanefndar Alþingis. Utanríkis- og varnarmálaráðherrann hefur ekki einu sinni sent frá sér yfirlýsingu um málið, eins og hann virðist þó gera af minnsta tilefni þessa dagana.

Ég ritaði á sínum tíma um þau undur að íslenski varnarmálaráðherrann hefði skrópað á sameiginlegum fundi varnarmálaráðherra Norðurlanda á Skagen í Danmörku, sem haldin var fyrir sléttum mánuði. Ég fæ ekki betur séð en að utanríkisráðherra sniðgangi skipulega allt norrænt samstarf í utanríkismálum, nema það komi framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna við, enda er það framboð öðrum þræði á vegum Norðurlanda. Og alveg sérstaklega ef það snýst um hinn málaflokkinn hennar, varnarmálin. Hið hryggilega er að hin Norðurlöndin virðast vera komin á þá skoðun að Ísland teljist ekki með. Það er ekki vegna þess að þau vilji skilja Ísland eftir út undan í þessum efnum. Síður en svo.

En þau eru farin að ganga á lagið á öðrum sviðum, eins og kom í ljós í lok síðasta mánaðar þegar Danir, fyrir hönd Grænlendinga, buðu sumum ríkjum Norðurheimskautsráðsins á fund um hugsanlega skiptingu Norðurheimskautssvæðisins með tilliti til auðlindanýtingar. Íslandi var ekki boðið og til þess að undirstrika niðurlæginguna virtist fundurinn kom utanríkisráðuneytinu í opna skjöldu þegar um var spurt. Aðeins var að fá óljós svör um hvað ráðuneytinu skildist um fundinn, fundarefnið og áhrif hans.

En svo aftur sé spurt: Hvar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir síðastliðinn mánudag? Jú, hún var upptekin við að halda erindi á einhverri ráðstefnu suður á Melum um hlutverk örríkja undir sólinni. Á ensku var heiti ráðstefnunnar „Small States — Emerging Powers“! Grínlaust. Erindi ráðherrans hét vitaskuld Staða Íslands á alþjóðvettvangi. Miðað við störf ráðherrans sýnist mér að einfalt sé að svara spurningunni um stöðu Íslands á alþjóðvettvangi. Hún er laus til umsóknar.


mbl.is Norðurlöndin þróa samstarf í utanríkis- og öryggismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanvirða við íslenskt mál

Fáninn skorinn niður

Jú, auðvitað er það vanvirðing við fánann, þjóðina og ríkið, að skera fánann niður. Þessi yfirlýsing anarkista, sem greinir frá í fréttinni, finnst mér þó ekki minni vanvirða. Við íslenskt mál.

„Við leggjum engar sérstakar mætur á Jörund…“

Ég þarf ekki að vita meira um þetta lið. 

En ég var ekki minna óánægður með kónana, sem komu á Austurvöll í morgun og spilltu hátíðarstemmningunni þar með því að ráfa um með kröfuspjöld, sem á stóð: „Íslenska ríkisstjórnin brýtur mannréttindi. Vér mótmælum allir“. Eða eitthvað í þá áttina. Sumir voru með sömu áletrun á ensku, svo þetta færi nú ekki fram hjá erlendum sendimönnum, sem voru viðstaddir þessa hátíðarstund.

Einn af þessum körlum stillti sér upp fyrir aftan mig, þar sem ég stóð framarlega í mannfjöldanum á suðausturhorni Austurvallar. Mér varð það á að spyrja hann hverju þeir væru að mótmæla og eftir nokkur spennuþrungin andartök (maðurinn nötraði svo að ég hélt hann væri að fá hjartaáfall) spurði hann mig á móti hvort ég vissi ekki að ríkisstjórnin hefði verið dæmd fyrir mannréttindabrot á alþjóðavettvangi. Ég nennti ekki að fara að diskútera það allt við manninn (að þetta væri álit, hvorki úrskurður né dómur, og svo hitt að deilur um atvinnuréttindi og veiðiheimildir vörðuðu tæpast mannréttindi), en fann að því að þeir væru að skyggja á þessa hátíðarstund. Það væri synd að segja að hann hafi tekið því vel. En hann færði sig annað.

Þjóðhátíðin er nákvæmlega það, hátíð þjóðarinnar. Forsetinn, ráðherrarnir og pótintátarnir allir eru gestir þjóðarinnar, eins og vel sést á þeirri hefð að í ræðuhöldunum á Austurvelli eru hinir tignu gestir aldrei ávarpaðir í upphafi, eins og tíðkast á flestum fundum. Ávarpið er aðeins eitt: „Góðir Íslendingar!“

Nú má vel vera að þessir mótmælendur hafi réttmætar umkvartanir fram að færa, en þá eiga þeir að reka þau erindi við þá, sem þeir telja að hafi brotið á sér, og velja sér réttan stað og stund til þess. Það er þjóðhátíðin ekki. Á þeirri hátíð eru mótmælendur boðflennur og veisluspillar. Hafi þeir skömm fyrir.


mbl.is Skar íslenska fánann á Stjórnarráðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttum hjálparhönd

Finnbogastaðir

Mér brá þegar mér bárust fréttir af því að Finnbogastaðir í Trékyllisvík hefðu brunnið til kaldra kola. Mér rann til rifja þegar ég las um að Mundi á Finnbogastöðum stæði eftir eignalaus, en þó hann hafi sjálfur komist með naumindum út úr eldhafinu brunnu rakkar hans inni. Hef ég þó aldrei komið þangað og aldrei hitt Munda, Guðmund Þorsteinsson.

Samt finnst mér eins og ég þekki Munda eilítið og sé málið skylt eftir að hafa lesið um hann í bókinni hans Hrafns Jökulssonar vinar míns, Þar sem vegurinn endar. Ekki aðeins vegna þess að hún er með betri bókum íslenskum, sem ég hef lesið, heldur vegna hins sem Hrafn hefur ekki þreyttst á að brýna fyrir mér, lesendum sínum og lærisveinum í skákinni, að við erum ein stór fjölskylda. (Og einum stærri fjölskylda í dag en í gær, því Krummi varð afi í morgun!) Þess vegna er mér málið skylt, því við Mundi erum einhvernveginn skyldir (þó Íslendingabók segi það nú aðeins í níunda lið).

Mundi er 65 ára gamall. Faðir hans byggði húsið sem brann í dag og þar fæddist Guðmundur. Fjölskylda hans hefur búið undir Finnbogastaðafjalli í að minnsta kosti 12 kynslóðir. Finnbogastaðir eru einn af 8 bæjum sem eru í byggð í Árneshreppi. Samheldni er aðalsmerki Árneshreppsbúa þegar á móti blæs og sveitungar hans ætla að hjálpa Munda; þeir ætla ekki að láta staðar numið fyrr en þeir eru búnir að reisa karli nýtt hús.

Félag Árneshreppsbúa hefur því stofnað styrktarreikning fyrir Munda á Finnbogastöðum, en reikningsnúmerið er 1161-26-001050 og kennitala 451089-2509.

Það eru blikur á lofti í efnahagslífinu, sumir blankir, margir uggandi. En það er hjóm eitt hjá því að horfa upp á ættaróðalið fuðra upp og allar eigurnar með. Fyrir hálfsjötugan mann. Ég skora því á lesandann að sýna örlæti, samstöðu og hlýhug með því að leggja Munda hjálparhönd. Framlag hvers og eins þarf ekki að vera mikið, en margt smátt gerir eitt stórt.

Svo sakar ekki nema fyrir þessa allra vantrúuðstu að minnast Munda í bænum okkar.
 


Sögufölsun Samfylkingar

REI-listinn

Ég var líkt og endranær á laugardagsmorgnum að hlusta á Vikulokin í Ríkisútvarpinu, þar sem Hallgrímur Thorsteinsson ræðir fréttir vikunnar við tilfallandi spekinga. Ég nenni nú ekki að fara í alla umræðuna þar, hún var upp og ofan eins og gengur. Borgarstjórnarmálin bárust vitaskuld í tal og sýndist sitt hverjum. Þá gerðist það enn einu sinni að fulltrúar Samfylkingarinnar, að þessu sinni borgarfulltrúinn Sigrún Elsa Smáradóttir og þingmaðurinn (og varaformaður Samfylkingarinnar) Ágúst Ólafur Ágústsson, héldu fram sígildri sögufölsun Samfylkingarinnar um meirihlutamyndanir í Reykjavík á þessu kjörtímabili.

Sögufölsunin felst í þeim fullyrðingum að núverandi meirihluti hafi á einhvern hátt verið myndaður með klækjum, prettum og óheilindum, ólíkt öðrum meirihlutum. Sem hliðarrök er jafnan tiltekið að Ólafur F. Magnússon hafi einhvernveginn minna umboð í borgarstjórn en aðrir, sem vitaskuld er firra: Hann er réttkjörinn og er ekki sá borgarfulltrúanna, sem fæst atkvæði hefur að baki sér. Eins að þessi meirihluti sé alveg sérstaklega veikur með aðeins eins manns meirihluta.

Ágúst Ólafur og Sigrún Elsa voru enn við þetta heygarðshornið og sagði að sjálfstæðismenn hefðu myndað núverandi meirihluta með því að „pikka út einn mann yfir í sinn hóp“ úr REI-listanum og að í því fælust sérstök óheilindi. Sigrún Elsa hélt svo áfram (og talaði líkt og hún hafi verið þátttakandi samstarfinu fyrir hönd framsóknarmanna) og sagði að Björn Ingi Hrafnsson hafi hins vegar hrökklast úr meirihlutasamstarfi við sjálfstæðismenn vegna málefna einvörðungu og þannig hafi REI-listinn orðið til. Þarna liggur fölsunin.

Mönnum er hollt að rifja upp þeirra eigin orð, Björns Inga og Dags B. Eggertssonar, þegar þeir lýstu aðdraganda myndunar REI-listans á blaðamannafundi í beinni útsendingu af Tjarnarbakkanum við Iðnó. Þar kom ekkert fram um málefni, enda entust REI-listanum ekki 100 dagar til þess að berja saman málefnaskrá sína. En í máli Björns Inga kom fram að hann hafi verið heill í sínu samstarfi við sjálfstæðismenn, hann verið að reyna að ná málamiðlun um ágreining í borgarstjórnarflokknum og ekki átt von á öðru en að úr leystist. Þegar að símtal barst. Það var Dagur B. Eggertsson, sem vildi hitta hann og rauf þannig viðræðuferli þáverandi meirihlutaflokka.

Það var sumsé Dagur, sem átti frumkvæðið, og klækina, prettina og óheilindin má því rekja lóðbeint til Samfylkingarinnar. Efist menn um það geta þeir velt því fyrir sér að hann var áður búinn að „pikka út einn mann“ annan til þess að leggja drög að þessum klækjastjórnmálum. Hann hafði sumsé talað við fyrrnefndan Ólaf F. Magnússon, sem þá var í leyfi úr borgarstjórn, og tryggt sér stuðning hans við hinn nýja, ómyndaða meirihluta. Þessu lýsti Dagur sjálfur og talaði um að Ólafur væri í raun „guðfaðir“ nýja meirihlutans! Málefni hvað?

Ekki að það skipti öllu máli, þessar meirihlutamyndanir allar voru bara „politics as usual“. En það segir sitt um pólitísk heilindi Samfylkingarinnar í borgarstjórn að hún getur ekki sagt satt um nokkurn hlut í þessu samhengi, heldur getur hún ekki annað en að leggja á sig langa króka hvað eftir annað til þess að segja ósatt og halla réttu máli.


Hvalir, shmalir...

Það er ekki öll heimsbyggðin gapandi vegna hvalveiða. Andfætlingur imprar á mikilvægari áhyggjuefnum en hvölum: kvölum.

Sem minnir mig á annað. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra (en ekki Einar K. Guðfinnsson matvælaráðherra?!) var stödd á leiðtogafundi FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, um daginn. Líkt og Robert Mugabe, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist enn vera við völd í Zimbabve. Skyldi hún hafa rætt við hann um þessi mál? Í ljósi áhuga utanríkisráðherra á aðildarviðræðum við Afríkusambandið væri annað undarlegt.


Hvíti snákurinn kemur

 Whitesnake

Ég er búinn að vera aðdáandi Whitesnake í 28 ár, æ síðan þeir Jon Lord og Ian Paice gengu til liðs við David Coverdale, sinn gamla félaga úr Deep Purple. Þeir gengu síðar sinn veg, en hápunkti náði bandið líkast til árið 1987 þegar gítarsnillingurinn John Sykes (Thin Lizzy) hjálpaði Coverdale til við að búa til sándið, sem aflaði þeim þeirra vinsælda, sem hljómsveitin lifir enn á. Ég hef fyrir löngu misst sjónar á tíðum mannabreytingunum, enda á Coverdale sveitina rekur og ræður menn eftir þörfum. Núna er hann með gítarleikarana Doug Aldrich (spilaði um hríð með Dio) og Reb Beach (Winger og Dokken), þannig að ég gerði ráð fyrir nóg af rifjárnsgítartilþrifum í bland við hársprey í Laugardalshöllinni, þaðan sem ég var að koma.

Mér kom hins vegar skemmtilega á óvart að bandið hljómaði talsvert nær nútímanum en ég hafði búist við, en án þess að skemma gömlu lögin. Jú, Coverdale er farinn að eldast eilítið, en það kemur ekki að sök nema þegar hann er að reyna að syngja á því háa céi, sem hann tamdi sér 1987-1993. En gamla, góða djúpa blúsröddin er þarna ennþá og þannig naut hann sín best. Það kom vel í ljós snemma á tónleikunum þegar hann tók Fool for Your Lovin' sem var fyrsti alvöru smellurinn með gamla Whitesnake. Seinna komu fleiri gamlir standardar eins og Ain't Gonna Cry No More, Love Ain't No Stranger og Ain't No Love in the Heart of the City. Einnig hljómuðu nokkur ný lög og ljóst að bandið er enn undir áhrifum frá Zeppelin. Mest bar þó á metsölulögunum af plötunni Whitesnake (1987), lögum á borð við Is This Love, Here I Go Again, Crying in the Rain, Still of the Night og Give Me All Your Love. Undir lokin kom Whitesnake svo á óvart með því að taka gamla Deep Purple lagið Burn, með smá viðkomu í Stormbringer. Síðast kom Coverdale einn fram á sviðið og söng Soldier of Fortune einn og óstuddur. Tær snilld.

Tónleikarnir voru miklu skemmtilegri en ég eiginlega þorði að vona. Bandið var þétt, hafði gaman af þessu og stemmningin í salnum var fyrirtak. Íslendingar geta verið kaldir áheyrendur, en Coverdale — sjómaður sem hann er — átti ekki í vandræðum með að stjórna salnum til dáða.

Ég sá Whitesnake tvisvar á níunda áratugnum í London, og síðan fyrir 18 árum, fyrst á Donington og svo í Reiðhöllinni ef ég man rétt. Skrýtnir tónleikar. Coverdale ekki í miklu stuði en gítarleikararnir Steve Vai og Adrian Vandenberg héldu tónleikunum uppi. Ég missti því miður af seinni tónleikunum þá helgina, því kvöldið eftir var Coverdale lagstur með hálsbólgu og Pétur heitinn W. Kristjánsson gerðist staðgengill hans. Það hefði ég viljað sjá. Fyrir þá tónleika tók ég símaviðtal við Coverdale fyrir Morgunblaðið, sem var einkar ánægjulegt; hann er herramaður og með hærri greindarvísitölu en gengur og gerist í þungarokkinu.

Set af þessu tilefni inn Whitesnake-lagið Crying in the Rain af plötunni 1987, þó fyrri útgáfa á Saints & Sinners hafi einnig verið ágæt. Læt einnig fylgja Soldier of Fortune með Deep Purple, sem Coverdale syngur af innlifun og Ritchie Blackmore leikur á kassagítar af ekki minni tilfinningu. Á þau má hlýða í tónlistarspilaranum efst til hægri hér á síðunni.


Misskilningur og spuni

msuppkvaðning Hæstaréttar

Í athugasemdum við þarnæstu færslu hér á undan stakk Marinó G. Njálsson niður penna og fannst lítil ástæða til þess að vera að gera athugasemdir við málflutning Baugsmanna og raunar nánast ámælisvert að leyfa sér það. Ég geri það nú sjaldnast að svara athugasemdum lesenda minna öðru vísi en með nótum á sama stað, þær eru yfirleitt ekki tilefni sjálfstæðra færslna. Viðbrögð Marinós þykja mér hins vegar að mörgu leyti dæmigerð fyrir útbreidd viðhorf, sem mér þykja á misskilningi byggð. Því er sjálfsagt að huga nánar að þeim, hluti fyrir heild og allt það.

Æi, Andrés, nú er sjálfstæðismaðurinn í þér alveg að drukkna í já-bræðrakórnum.  Mér finnst með ólíkindum að nokkrum manni detti í hug að ákæruvaldið og aðrir þeir sem bökkuðu þetta mál upp hafi komið knarrreistir frá því.  En ég sé að það er einhver hópur innan "bláu fylkingarinnar" sem er þessarar skoðunar.

 

Skoðanir mínar á Baugsmálinu snúast fyrst og fremst um áhuga minn á því að réttvísin nái fram að ganga. Það þykir mér ekki hafa gerst í þessu máli og upphaflegir sakborningar sloppið með ólíkindum frá armi laganna. Ákæruvaldinu hafa vafalaust orðið á mistök, en ekki síður eru dómstólarnir þó gagnrýnisverðir. Það kemur pólitík ekkert við. Hins vegar hafa sumir sakborningarnir ekki þreyttst á að því að gera málið pólitískt og sumir hafa trúað þeim. Í máli Hreins Loftssonar er svo vikið að einhverri óljósri pólitískri ábyrgð dómsmálaráðherra, sem af dagatali má sjá að er úr lausu lofti gripin. Ég sé að ýmsir þingmenn hafa tekið undir það og þá er pólitíkin kannski loks farin að spila inn í. Hitt er svo annað mál, að ég fæ illa séð að ég sé að drukkna í einhverjum já-bræðrakór sjálfstæðismanna; ég hef ekki tekið eftir því að margir sjálfstæðismenn séu að hafa sig í frammi um þessi mál á þeim forsendum. Fyrir nú utan hitt, að ég er í mikilli fýlu út í Sjálfstæðisflokkinn þessa dagana eftir að þingflokkur hans tók upp þjóðnýtingarstefnu í auðlindamálum.

Þau "svik" sem Tryggvi og Jón Ásgeir eru dæmdir fyrir byggja á túlkun á bókhaldslögum og framsetningu gagna.  Ég þori að fullyrða að hver einasti atvinnurekandi í landinu veltir því fyrir sér í hverjum mánuði hvort tiltekin bókhaldsfærsla eigi að vera á þennan háttinn eða hinn.  Og ég þori að fullyrða að ekki eitt einasta fyrirtæki í landinu myndi koma athugasemdalaust út úr jafn ítarlegri skoðun á bókhaldi og Baugur fór í gegnum.  Það getur vel verið að menn hafi ákveðið að láta reyna á einhverjar túlkanir og hugsanlega fært "hagstæðara" bókhald, en það hefur ekki ennþá verið sýnt fram á að einn eða neinn hafi skaðast eða hagnast á þessu.  Það hafi því ekkert auðgunarbrot verið framið.

 

Það er einfaldlega rangt að Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson hafi aðeins verið dæmdir fyrir „túlkun á bókhaldslögum og framsetningu gagna“, eins og Marinó heldur. Þeir voru dæmdir fyrir að misnota aðstöðu sína til þess að hlunnfara almenningshlutafélag með margvíslegum hætti. Minnsti vafi í málinu var allur færður þeim í hag, í mörgum tilfellum þvert á fyrri dómafordæmi. Þess vegna er í dómnum einnig lýst margháttuðum lögbrotum, sem þó þykir ekki ástæða til þess að dæma þá til refsingar vegna. Í ljósi þeirra fjárhæða, sem um var að tefla, má ætla að þarna sé komið nýtt fordæmi, sem gera muni hvítflibbaglæpi nánast ókeypis héðan í frá.

Marinó tekur upp tuggu Baugsmanna um að ekki hafi „ennþá verið sýnt fram á að einn eða neinn hafi skaðast eða hagnast á þessu“. Þetta er liður í þeirri lygi, sem þeir hafa verið óþreytandi að halda fram, að fyrirtækið Baugur hafi ekki haft neitt við neitt að athuga, enda hafi í raun verið að ásaka þá fyrir að stela frá sjálfum sér. Á þessum tíma var Baugur almenningshlutafélag, en ekki einkafyrirtæki fjölskyldunnar. Það laut því sérstaklega ströngum skilyrðum, sem stjórnendurnir litu fullkomlega hjá. Þegar þeir tóku peninga út úr fyrirtækinu, veittu sjálfum sér ólöleg lán (með veði í óútfylltum víxli Schrödingers, sem kannski eða kannski ekki var í tiltekinni skúffu), fölsuðu afkomutölur, gáfu út falska reikninga, létu fyrirtækið borga margvíslegan einkakostnað og hvaðeina… er þá ekki ljóst að einhver skaðaðist af því? Og að einhver hagnaðist?

Í því samhengi geta menn einnig velt því fyrir sér hvernig eignarhlutur Bónusfjölskyldunnar í Baugi komst úr fjórðungi í þrjá fjórðu á tveimur árum. Hvaðan komu peningarnir? Við því hafa engin viðhlítandi svör fengist.

Fyrst og fremst voru það þau Jón og Gunna, almennir hluthafar í Baugi, sem sköðuðust af þessu. Þau fjárfestu í almenningshlutafélagi, fullviss um að strangar reglur og lög, tryggðu að þar væri ekkert óhreint á ferð, að upplýsingagjöf væri í stakasta lagi og annað eftir því. Svo var ekki og arðurinn var minni, en hann hefði ella verið. Til þess að gera illt verra er ljóst að stjórnendurnir voru uppteknari af því að sinna eigin hagsmunum en hagsmunum almenningshlutafélagsins, en hið versta var þó að þeir hagsmunir sköruðust og stjórnendurnir lögðu sig raunar í líma við að láta þá skarast. Þarf einhver að efast um ásetninginn?

Þessu til viðbótar verður að nefna að það voru ekki aðeins hluthafar í almenningshlutafélaginu Baugi, sem sköðuðust af þessum myrkraverkum. Allur markaðurinn skaðaðist af þeim, bæði vegna þess að tiltrú fjárfesta á regluverk, skilvirkni og viðskiptasiðferði hefur minnkað, en einnig vegna þess að með því að krukka í afkomutölurnar var verið að skekkja allar markaðsupplýsingar, sem fjárfestum voru tiltækar. Þegar þeim leist svona ljómandi vel á afkomuna hjá Baugi varð raunveruleg afkoma annarra fyrirtækja á verðbréfaþingi ekki jafnálitleg og ella.

Baugsmenn voru þó ekki aðeins að tjakka afkomuna upp, þeir tjökkuðu hana líka niður, þegar leið að afskráningu félagsins af markaði. Tilboð þeirra í hlutina var síðan aðeins í samræmi við meðalverð Baugs á markaði (sem hafði raunar haldist furðustöðugt). Hin óskráða regla er sú, að þegar stjórnendur og ráðandi hluthafar kaupa út aðra hluthafa, gera þeir það á yfirverði, því gengið er út frá því sem vísu að þeir hafi gleggri þekkingu og yfirsýn á rekstur þess en almennir hluthafar, enda felist í því áhugi þeirra á afskráningunni. Þar fyrir utan er það svo beinlínis rangt að engir hluthafar almenningshlutafélagsins Baugs hafi gert athugasemdir og talið sig hlunnfarna. Nú, fimm árum eftir að Baugur var afskráður úr Kauphöllinni, eru enn til meðferðar mál hluthafa, sem ekki vildu sætta sig við útkaupin og töldu verðið rangt.

Ég hélt, þegar þetta mál fór af stað, að nú hefðu Baugsmenn verið teknir í bólinu.  Þetta gat varðað ímynd landsins í viðskiptum að ungir auðmenn gætu ekki valtað yfir lög og reglur.  Svo komu ákærurnar og þvílíkur sparðatíningur.  Að telja upp færslur af VISA-korti til að sýna fram á að Jón Ásgeir hefði keypt sér dýr jakkaföt.  Þeir hefðu haft meira upp úr því að krefja hann um virðisaukaskattinn af jakkafötunum, en að eltast við þetta sem umboðssvik eða fjárdrátt.  Ekki fór heldur erlenda pressan mjúkum höndum um ákærurnar og þar var sagt, að greinilegt væri að þessir menn hefðu ekki skilning á því hvernig fyrirtæki væru rekin.

 

Sparðatíningurinn, sem Marinó nefnir, nam tugmilljónum króna í einkaneyslu, sem Jón Ásgeir og Tryggvi reyndu að láta almenningshlutafélagið Baug bera. Stór hluti af því var siðferðislega ámælisverðari en kaup á jakkafötum. Verjendur þeirra nefndu þeim til varnar, að þeir félagar hefðu ávallt átt verulegar fjárhæðir inni hjá félaginu. Sú vörn er reynd í nær öllum fjárdráttarmálum, að sakborningar hafi aðeins tekið sér fjármuni, sem þeim bar á einhvern hátt. Fram til þessa hafa dómstólar aldrei virt þau rök viðlits.

Hvað erlendu pressuna áhrærir er Marinó væntanlega að vísa til frásagnar lausamannsins Ians Griffiths, sem skrifaði grein í The Guardian, þar sem hann gerði gys að því að Jón Ásgeir væri sakaður um að hafa dregið sér hamborgara. Ian Griffith var sá blaðamaður, sem Baugsmenn handvöldu til þess að afhenda ákæruskjölin á sínum tíma, en hann er jafnframt annar höfundur bókarinnar The Ice Man Cometh, sem boðuð var útgáfa á í fyrra (hún átti upphaflega að heita Sex, Lies and Supermarkets), en hefur af einhverjum ástæðum enn ekki komið út á almennum markaði, þó sent hafi verið út kynningarefni, mynd af kápunni birt og ISBN-númer útgefin. Hinn höfundurinn, Jonathan Edwards, hefur ótrúlegt en satt unnið fyrir Baug hjá Capcon-Argen, sem á sínum tíma gaf út heilbrigðisvottorð um bókhaldið hjá Baugi.

Ég veit ekki hvort Björn Bjarnason eigi að segja af sér eða ekki út af þessu, en mér finnst það með ólíkindum að hann (og Össur) telji sig geta verið ráðherra og haldið á sama tíma úti blogg-síðum, þar sem þeir veitast að nafngreindum mönnum og fyrirtækjum.  Það er ekki að mínu mati ekki sæmandi, eða eins og Vilmundur Gylfason sagði:  "Löglegt en siðlaust."  Ég ætla ekki að setja út á það, að þeir tjái sig um málefni, en í hvert sinn sem þeir beina skrifum sínum að aðila sem gæti þurft að leita til stjórnvalda um afgreiðslu sinna mála, þá setur þá niður í mínum huga.  Efast ég ekki um að þetta séu vænstu menn og miklir vinir vina sinna, en óvild í garð annarra verða þeir að bera í hljóði.

 

Björn Bjarnason og Össur Skarphéðinsson eru fyrst og fremst kjörnir þingmenn, svo ráðherrar. Málfrelsi þeirra á ekki að skerðast vegna upphefðar þeirra í stjórnarráðinu, síður en svo. Það er síðan rangt að þeir hafi veist að nafngreindum mönnum og fyrirtækjum, þó þeir hafi fjallað um bæði menn og fyrirtæki án þess að það hafi verið tómt lof. Stundum jafnvel gagnrýni. Ég leyfi mér að fullyrða að það hafi þeir aldrei gert að tilefnislausu og ávallt innan þeirra marka, sem opinber umræða býður. Bæði með lögmætum hætti og siðlegum. Það sér það enda hver maður að þeir væru harla ónýtir stjórnmálamenn ef þeir þegðu af ótta við að einhverjum kynni ekki að líka það, sem þeir segja. Svo framarlega, sem það tengist ekki stjórnarathöfnum þeirra.

Baugsmálið kann að vera útkljáð fyrir Hæstarétti en af því má og þarf margvíslega lærdóma að draga. Menn geta deilt um upphafið ef þeir vilja, en að mínu viti er augljóst að þar var um einföld, subbuleg fjársvik að ræða. Annað er í besta falli misskilningur, en í rótina spuni í þágu hinna seku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband