2.1.2008 | 19:25
Einræðustjórnmál
Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lýsti því yfir í nýársávarpi sínu að væri það vilji Íslendinga, að hann bæri áfram ábyrgð á forsetaembættinu, væri hann fús að axla hana. Um leið kvaðst hann vita af eigin reynslu að enginn gæti innt þann starfa vel af hendi, nema hann nyti trausts meðal þjóðarinnar. Í leiðinni skoraði hann á þjóð sína að setja sparnað í öndvegi, gera aðhald og nýtni að aðalsmerki.
Það er gleðiefni að forseti skuli loks hafa tekið af skarið um framtíðaráform sín. Hitt er annað mál, að forsetinn hefði mátt lýsa nánar fyrir þjóð sinni hvað veldur sinnaskiptum hans. Í aðdraganda forsetakosninga 1996 sagði herra Ólafur Ragnar það skoðun sína að 16 ár væri fulllangur tími í embætti fyrir forseta; sjálfur teldi hann tvö kjörtímabil, í mesta lagi þrjú, hæfilegri tíma fyrir setu forseta í heimi hraðra breytinga, nyti hann stuðnings til þeirrar setu.
Í ljósi mikillar áherslu forsetans á traust þjóðarinnar á embættinu og stuðnings hennar við þann, sem því gegnir, er rétt að rifja upp niðurstöður síðustu forsetakosninga. Í landi þar sem kjörsókn í almennum kosningum er að jafnaði um 85% dröttuðust aðeins tæplega 63% á kjörstað, en herra Ólafur Ragnar fékk ekki nema liðlega 42% atkvæða kosningabærra manna. 58% sátu ýmist heima, skiluðu auðu eða kusu tvo frambjóðendur aðra, annan ókunnan en hinn kunnan að endemum. Þetta gerðist án þess að nokkur sérstök hreyfing hafi beitt sér fyrir því, heldur tók 122.891 kjósandi þá ákvörðun með sjálfum sér, en forsetinn sat áfram á Bessatöðum í krafti 90.662 atkvæða. Voru þau úrslit til marks um traust og stuðning þjóðarinnar?
Ekki verður séð forsetinn hafi nýtt kjörtímabilið, sem nú er að líða, til þess að brúa þessa gjá milli forsetaembættisins og þjóðarinnar. Þvert á móti hefur hirðvæðing embættisins náð nýjum hæðum og engu er líkara en forsetanum þyki á stundum nánast óþægilegt að þurfa að umgangast ótínda alþýðuna. Svo rammt hefur að þessu kveðið, að forsetinn sendi henni tóninn í viðtali, sem náðist við hann á erlendri grundu síðastliðið haust, og sagði að hún yrði veskú að gera það upp við sig hvers konar forseta hún eiginlega vildi, dándimann eins og sig eða einhvern rustíkus til heimabrúks.
Á opinberum vettvangi hefur þetta ákall forsetans eftir umræðu um eðli og inntak embættisins ekki verið fyrirferðarmikið og með yfirlýsingu sinni nú hefur forsetinn nánast útilokað að hún nái nokkru flugi. Hversu fúsir, sem menn eru til þess að ræða forsetaembættið, er hætt við að þeir kinoki sér við þá umræðu úr þessu af ótta við að slíkt verði túlkað sem sérstök gagnrýni á núverandi forseta eða inngrip í kosningabaráttuna. Þetta tvennt er að mestu óskylt, þó varla verði hjá því litið að herra Ólafur Ragnar hefur leynt og ljóst reynt að breyta embættinu að sínu höfði.
Að mörgu leyti hefur þeim áherslum forsetans verið fagnað í viðskiptalífinu. Hann hefur gengið mun lengra en forverar sínir í því að kynna Ísland og íslenskt atvinnulíf erlendis, þá kosti sem bjóðast hér á landi og ekki síður hefur hann lagt sig í líma við að greiða götu íslenskra athafnamanna erlendis. Það framlag skyldi ekki vanmeta, sérstaklega í þeim löndum þar sem stjórnvöld hafa enn öll tögl og hagldir í atvinnu- og þjóðlífi.
Sú elja herra Ólafs Ragnars hefur aftur á móti kallað á ýmsa gagnrýni. Sumir hafa sagt það ósiðlegt að notfæra sér slíkt stjórnarfar til þess að koma íslenskum árum fyrir borð og þannig sé verið að arðræna alþýðu þriðja heimsins með hinum eða þessum hættinum. Aðrir átelja að forsetinn sé nánast vikapiltur íslenskra auðmanna. Persónuleg vinátta hans við suma þeirra og náið samneyti hefur vakið ýmsar spurningar, eins og hvort það sé við hæfi að forseti lýðveldisins og fjölskylda hans þiggi far með einkaþotum sömu manna og hann keppist við að mæra við erlenda kollega sína. Hinna sömu og hafa verið fjárhagslegir bakhjarlar kosningabaráttu hans. Þeim spurningum er enn ósvarað fjórum árum síðar. Ætli þeim verði svarað nú?
Það er tæpast mikil hætta á því, enda gaf forsetinn það út að hann myndi bara ekkert tjá sig um farþágu sína. Slík svör hafa menn þurft að gera sér að góðu áður þegar óþægileg mál ber á góma og embættið hikar ekki við að skýla sér bak við uppskáldaða öryggishagsmuni til þess að verjast svara. En samt hvetur forsetinn til umræðu, þó hann virðist ekki vilja taka þátt í henni sjálfur. Sem er þeim mun einkennilegra, þegar haft er í huga að eftir sneypukosninguna 2004 talaði herra Ólafur Ragnar digurbarkalega um að nú hefði hann fengið skýrt umboð frá þjóðinni (eða a.m.k. þessum 30,91% þjóðarinnar, sem kusu hann) til þess að fylgja eftir ýmsum megináherslum, er hann hafði kynnt á blaðamannafundi. Þar á meðal var að hann myndi taka virkan þátt í samræðum þjóðarinnar um framtíð hennar og mikilvæg verkefni án þess að taka þátt í flokkspólitískri umræðu eða karpi á vettvangi stjórnmálanna. Nú er umdeilanlegt hvort hann hafi efnt seinni liðinn með fullnægjandi hætti, en fyrrihlutann vanrækir hann fullkomlega, því forsetinn hefur aðeins áhuga á einræðum, ekki samræðum.
Hins vegar þarf það ekki að vera þannig. Eftir að forsetinn kallaði eftir umræðunni urðu nokkrir til þess að svara kallinu. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður vinstrigrænna, gerði það t.d. tæpitungulaust á heimasíðu sinni. Birgir Ármannsson, þingmaður sjálfstæðismanna og forseti Allsherjarnefndar, ræddi þetta við Katrínu Jakobsdóttur, þingmann og varaformann vinstrigrænna, í viðtali á Rás 2 í haust, og þau voru furðusammála um þau úrlausnarefni, sem blöstu viðþegar forsetaembættið væri annars vegar. Nú rétt fyrir áramót ræddu þau Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisfllokksins, og Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstrigrænna í Ráðhúsi Reykjavíkur, mál þessi á síðum Fréttablaðsins og var töluverður samhljómur með þeim þó hvort syngi með sínu nefi. Eins hafa ýmsir bloggarar, sem fylgja frjálslyndum eða Framsóknarflokknum að málum bent á eitt og annað, sem betur mætti fara við búskapinn á Bessastöðum. Ég heyri suma Samfylkingarmenn tala á svipaðan veg, en ég man í svipinn ekki eftir neinum, sem hefur látið það út úr sér á opinberum vettvangi.
Má ekki ljóst vera af þeim viðbrögðum, að stjórnmálamenn eru þess albúnir að brjóta málefni þessi til mergjar? Þeir eru varla einir um að hafa skoðun á málinu; ætli það megi ekki finna einn og einn almúgamann, sem gerir það líka.
Eins og fyrr er rakið hefur herra Ólafur Ragnar breytt embættinu verulega fá því að hann náði fyrst kjöri árið 1996. Ekki síst á það við um ákvörðun hans árið 2004 um að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar, en þar tók herra Ólafur Ragnar einn (vonar maður) þá ákvörðun að gerbreyta eðli embættisins, ásýnd og umgjörð og uppskar algert fágæti í lýðræðisríkjum: völd án ábyrgðar.
Alveg burtséð frá skoðunum manna á þeim gerningi og lögmæti hans og alveg burtséð frá því hvar menn standa í afstöðu sinni til breytinga á embættinu, þá hljóta menn að vera á einu máli um að ótækt sé að forsetinn standi einn í slíkum stórræðum. Skoðanakannanir, undirskriftarsafnanir, álit forseta á almenningsáliti, hugdettur hans eða ámóta geta ekki verið grundvöllur slíkra breytinga á æðsta embætti ríkisins og stjórnskipan landsins.
Almenningur þarf að svara ákalli forsetans um opna og lýðræðislega umræðu um eðli embættisins og framtíð, en þá þarf forsetinn líka að gegna eigin kalli og taka þátt í umræðunni. Í því samhengi þarf hann ekki að óttast að þátttaka sín teljist óviðeigandi, því hann hefur gefið kost á sér og orð hans munu skoðast í því ljósi: Að þar hljómi auðmjúk orð frambjóðanda í leit að samræðu við þjóð sína, en ekki einræða óskeikuls og ósnertanlegs þjóðhöfðingja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
31.12.2007 | 18:25
Nú árið er liðið…
Þá er komið að lokum þessa árs, sem um margt var gjöfult en það tók líka á að öðru leyti eins og gengur.
Í stjórnmálunum voru heilar þingkosningar og stjórnarskipti, en jafnþverstæðukennt og það hljómar urðu samt engin stórtíðindi á þeim vettvangi. Nema ef menn vilja ræða um þá pólitísku lífgjöf, sem Geir H. Haarde veitti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og á alveg eftir að trega. Sá dagur kemur.
Framsóknarflokkurinn nánast geispaði golunni í þingkosningunum og á tæpast mikið eftir. Allra síst þegar þeirra helsta vonarstjarna, Björn Ingi Hrafnsson, sýndi hvers trausts hann er verður í stjórnmálum og kaus að láta annarlega hagsmuni ganga fyrir hagsmunum borgarbúa. Önnur vonarstjarna í íslenskum stjórnmálum, Svandís Svavarsdóttir, var valin maður ársins á Rás 2 í dag, sem er mér fullkomlega óskiljanlegt. Víst stóð hún sig vel þegar REI-málið var í uppnámi, en þegar á reyndi kom hún upp um sig sem enn einn valdagírugan stjórnmálamanninn og allar heitstrengingarnar fóru út um gluggann.
Ástandið á mörkuðum hefur verið mörgum hugleikið og ástæða til, þar skiptust á ekki minni skin og skúrir en í veðurfarinu. Ég nenni þó ekki að fjalla um það að sinni, en drep kannski niður penna síðar um það hvers kann að vera að vænta. En það er kannski meiri ástæða til þess að huga að hinum séríslensku efnahagsmálum, sem héldu hraðar til Helvítis á liðnu ári en svartsýnustu menn gerðu skóna. Ekki vegna óvarkárni á mörkuðum, gjaldmiðilsins eða vaxtastigsins; nei, það eru ríkisfjármálin, sem eru á góðri leið með að gera íslenskt efnahagslíf nánast ólæknandi. Nú renna um 47% vergrar landsframleiðslu til hins opinbera, en þar á bænum komast menn ekki lengur yfir það að eyða peningunum, heldur safna þeim líkt og ríkið skil arði! Þriðjungur vinnufærra manna starfar á vegum hins opinbera. Engin teikn eru á lofti um að snúið verði af þessarri óheillabraut, en vandinn grefur um sig, þannig að sífellt verður erfiðara og sársaukafyllra að uppræta hann. Eiga skattgreiðendur enga málsvara eftir á þingi?
Sem rifjar upp aðra óhamingju liðins árs, en það var óvænt og ótímabært fráfall Einars Odds Kristjánssonar, athafnamanns frá Flateyri. Það var mikill skaði og ég syrgi hann mikið.
Verður næsta ár betra? Ég vona það, þó ekki væri nema vegna þess að við kunnum að sjá eðlilegra tíðafar á mörkuðum og í fjármálalífi þjóðarinnar, þar sem menn ganga um sali af áræði en ekki glannaskap, varfærni en ekki deiglu. Ég óttast hins vegar að hinir lýðræðislega kjörnu valdhafar átti sig ekki á þeim vindum og að þar haldi partýið áfram á fullum dampi, enda eru menn þar að eyða annarra manna peningum undir því yfirskyni að án þess fengi fagurt mannlíf ekki þrifist. Það er meinið.
Gleðilegt ár og þakka hið liðna!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.12.2007 | 19:16
de mortuis nil nisi bonum, sed…
Morðið á Benazir Bhutto í Pakistan vekur að vonum ugg um framtíðarhorfur í þessu margbrotna landi og heimshluta. Yfirvöld í Pakistan hafa aðeins völd í landinu að hluta til, alls kyns öfgahópar vaða þar uppi, talíbanar hafa flúið þangað næsta óáreittir og ráða lögum og lofum í Wasíristan, en margir telja að Osama bin Laden hafi fundið þar skjól, vafi leikur á hvar hollusta leyniþjónustunnar liggur, réttarfarið er illilega mengað af steinaldarlögbók múslima, einræðisstjórn Musharrafs hershöfðingja stendur tæpar en margur hyggur og landið er kjarnorkuveldi. Það er því full ástæða til þess að hafa áhyggjur af næstu dögum og framtíð landsins.
Ég verð hins vegar að játa að mér þykir alveg nóg um hvernig menn eru þegar farnir að taka frú Bhutto í dýrðlinga tölu, að því er manni virðist fyrir það eitt að hún féll fyrir morðingja hendi. Bæði herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hafa talað um eins og hún hafi verið frelsisins hinsti kyndilberi og nú píslarvottur lýðræðisins.
Rómverjar kenndu okkur að um hina látnu skyldi ekkert mæla nema gott eitt, en það á ekki alltaf við, þó ekki væri nema í von um að menn læri að varast víti þeirra, sem á undan gengu. Í þessu tilviki er eins og menn gleymi því fullkomlega að sjálf tíðkaði Benazir Bhutto ekki alltaf lýðræðislega stjórnarhætti, mannréttindi voru henni ekki helgur bókstafur og stjórnarhætti hennar mætti fremur nefna þjófræði en lýðræði. Ekki nóg með það, heldur þótti hún aukin heldur alveg sérdeilis óhæfur leiðtogi, ekki aðeins á mælikvarða Pakistans, heldur Asíu allrar og hefur sú álfa þó haft úr einvalaliði óhæfra og spilltra einræðisherra að spila á umliðnum áratugum.
Menn gætu haft það hugfast að Bhutto var tvívegis kjörin forsætisráðherra, en í bæði skiptin sett af vegna spillingar af sitt hvorum forsetanum. Einhverjir kunna að spyrja hvort það hafi ekki aðeins verið upplognar sakir til þess að koma frá þessari fyrstu konu í forystu múslimaríkis, en þá má minna á að yfirvöld í Frakklandi, Póllandi, Spáni og Sviss hafa einnig tekið þátt í saksókninni, líkt og Interpol, sem gaf út handtökuskipun á hendur henni og eiginmanni hennar á síðasta ári. Það segir svo sína sögu, að hluti af samkomulagi Bhutto við Musharraf hershöfðingja var sakaruppgjöf, niðurfelling á öllum ákærum og að Pakistan legðist ekki áfram gegn því að hún fengi aðgang að svissneskum bankareikninum sínum, þar sem hún hafði nurlað saman jafnvirði tæpra 100 milljarða íslenskra króna með útsjónarsemi.
Aðrir hafa sagt sem svo, að hún kunni að hafa verið fingralöng, en ástæða hafi verið til þess að líta hjá því, þar sem Musharraf sé of veikur fyrir til þess að geta haldið aftur af hinum íslömsku öfgaöflum, en með hennar tilstyrk gæti það gengið. Má vera, en fortíðin gaf ekkert sérstök fyrirheit um það. Þegar talíbanar komust til valda í Afganistan fagnaði Bhutto því og taldi að þeir gætu komið friði og ró á í landinum, þó aðferðirnar væru nokkuð harkalegar. Hún vonaðist til þess að valdataka talíbana gæti opnað markaði í Mið-Asíu og sendi þeim bæði fjárhags- og hernaðaraðstoð.
Musharraf hélt tryggð við þá stefnu þar til árásirnar á Bandaríkin árið 2001 sannfærðu hann um að þeir væru vondur félagsskapur. En það er ekkert sem bendir til þess að hann eigi von um að brjóta öfgahópana á bak aftur eða að innan hersins sé raunverulegur vilji til þess. Sagt er að hann hafi gert sér grein fyrir því og þess vegna samið við Bhutto um heimkomuna í von um að saman ættu þau meiri sjens. Stofufangelsun hennar var sjónarspil og margir töldu að hún væri aðeins þáttur í miklu og löngu leikriti þeirra Bhuttos og Musharraf. Ómögulegt er að segja hvað hæft var í því og það skiptir enda litlu máli úr því sem komið er.
Auðvitað er leitt að Benazir Bhutto skyldi falla fyrir morðingjum og vandi Pakistans er ekki minni nú en fyrr, en það gerir hana hvorki að móður Teresu né Ghandi. Einu gildir hver stóð þar að baki, en um það er allt á huldu skilst manni, þó ég heyri það í Ríkissjónvarpinu, að Jón Ormur Halldórsson sé búinn að leysa morðgátuna úr fjarska.
![]() |
Hörmuleg áminning um fórnir sem færðar eru fyrir lýðræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.12.2007 | 13:35
Hægrimenn sniðgengnir í Silfrinu
Um daginn ákváðu nokkrir femínistar að sniðganga Silfur Egils vegna þess hvernig þeim þótti Egill Helgason velja sér viðmælendur. Þótti þeim hann á einhvern hátt ekki gera sjónarmiðum femínismans nægilega hátt undir höfði og nefndu jafnvel til lagaákvæði um skyldur Ríkisútvarpsins við að gæta hlutleysis og allt það.
Í Silfrinu áðan voru þau Guðfinna S. Bjarnadóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Jón Magnússon, Aðalsteinn Baldurson og Margrét Pála Ólafsdóttir að ræða málefni dagsins. Hvernig stendur á því að ekki var einn einasti viðmælandi þarna, hægra megin við miðju? Kosningaúrslit og skoðanakannanir benda til þess að hægrisinnuð viðhorf njóti nokkurrar útbreiðslu í þjóðfélaginu.
Það er helvíti hart fyrir hægrimann eins og mig að þurfa að þola það í eigin húsum, að finnast Jóni Magnússyni og Margréti Pálu mælast skynsamlegast fyrir um ástand og horfur í stjórnmálum.
30.11.2007 | 16:37
Greind, greining og Group
Frá greiningardeildum bankanna streyma álitsgerðir og greiningar, spádómar og speki. Ekki er það nú allt jafnfrábært. Það er t.d. minnstætt á dögunum, þegar Kaupþing batt vonir við það í afkomuspá sinni fyrir 365, að góð innlend dagskrágerð [skilaði] auknum tekjum til félagsins á árinu. Merkilegt nokk, var ekkert á það minnst að verkfall handritshöfunda vestanhafs (sem allt útlit er fyrir að verði langt og strangt) hafi minnstu áhrif á tekjurnar, en ef grípa þarf til mikilla endursýninga í stað þess að sýna glænýja þætti að vestan, er ekki útilokað að einhverjir áskrifendur fari að hugsa sig um.
Í Morgunkorni Glitnis í morgun var bent á skýrslu er greiningardeild bankans hefur unnið um lausafjárvandann, stöðu og horfur. Orðið skýrsla er raunar fullhástemmt, því þetta er glærupakki, sem fróðlegt hefði verið að heyra kynninguna með. Ég ætla ekki að rekja efni glæranna, en víkja að niðurstöðunum, sem teknar eru saman aftast í kynningunni. Hvað skyldi nú vera þar efst á blaði?
Við teljum líklegast að sveiflur verði á helstu mörkuðum næstu mánuði
Var það virkilega?! Verða sveiflur á helstu mörkuðum? Og við sem höfðum búist við því að þar myndi ekkert haggast og öll línurit vera flöt! Svona eins og í línuritinu að ofan.
Þetta er sama greiningardeild og benti mönnum á það fyrir rúmum mánuði að kauptækifæri fælust í Kaupþingi, eftir hagnaður bankans var nokkuð undir væntingum.
Við höldum 6 mánaða markgengi okkar á Kaupþingi óbreyttu í 1.320 kr. á hlut og ráðleggjum fjárfestum að kaupa hlutabréf Kaupþings.
Síðan hefur gengi Kaupþings fallið um 17% úr 1.116 kr. í 925 kr. , en í sumar náði það langhæst í 1.280 kr.
FL Group
Áfram má halda. Í frétt hjá Dow Jones Newswires frá í morgun um sölu FL Group á 8% hlut sínum í AMR, móðurfélagi American Airlines, er það haft eftir Árna Frey Ólafssyni, greinanda hjá Glitni, að salan sé jákvæð þar sem hún minnki áhættuna í eignasafni þeirra. Heldur hann að FL Group sé lífeyrissjóður?
Annars er svo margháttaður misskilningur í gangi um FL Group, að maður veit ekki hvar á að byrja. Jafnvel stjórnarformaðurinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, virtist ekki vera með eðli félagsins á hreinu í forsíðuviðtali við Viðskiptablaðið í gær:
Þrátt fyrir að markaðsvirði FL hafi lækkað að undanförnu er undirliggjandi rekstur félagsins enn með ágætum.
Undirliggjandi rekstur? Hvaða rekstur hefur fjárfestingafélag með höndum? Fyrir utan smávægilegt skrifstofuhald er hann vitaskuld enginn. Gengi félagsins ræðst alfarið af því hvernig fjárfestingarnar lukkast og staðan er á mörkuðum, eins og FL Group er að súpa seyðið af núna. En Jóni Ásgeiri er kannski vorkunn, því rekstrarkostnaðurinn hjá FL Group hefur verið ævintýralegur. Óskiljanlegur raunar.
Aftur að greiningu Glitnis á sölu FL Group á AMR-bréfunum: Salan kann í sumra augum að vera jákvæð, því hún eyðir einhverri óvissu um félagið og menn hafa af því áhyggjur að AMR eigi eftir að fara illa út úr frekari hækkunum á olíumörkuðum. En þegar til þess er horft, að AMR er í þann veginn að selja frá sér umtalsverðar eignir og fjárhagsstaðan því að batna (líkt og Hannes Smárason hvatti til í frægu bréfi), hlýtur það að vekja spurningar um bolmagn FL Group, að það geti ekki beðið þess í von um að hlutafjárverðið hækki ögn.
Í því samhengi er einnig áhugavert að velta fyrir sér gengi hlutabréfa í AMR á undanförnum árum. Sem sjá má á línuritinu voru hlutabréf félagsins nánast penníbréf fyrir fimm árum, en þá hafði erfiður samruni við Trans World Airways og áfallið við árásirnar á Bandaríkin 2001 reynst félaginu þungt í skauti. Árið 2003 tók hins vegar hagur Strympu að vænkast nokkuð ört og vonir voru bundnar við að félagið væri komið á beinu brautina. Sumir töldu jafnvel að hlutabréfaverðið kæmist í svipaðar hæðir og fyrir áratug, þegar það var í ríflega $60. Kannski Hannes hafi verið einn þeirra, en á einhverju hlýtur hann að hafa byggt stöðutökuna í AMR.
Ég veit ekki hvenær FL Group hóf að kaupa hlutafé í AMR, en líkast til gerðist það undir lok árs 2006, því á jólum í fyrra var greint frá tæplega 6% eign FL í félaginu, en þá stóð hluturinn í um $30. Við næstu viðskipti eftir áramót hækkaði gengið nokkuð, í liðlega $40, og hélst á því róli fram í næsta mánuð og einmitt þá ákvað FL Group að auka hlut sinn enn. Síðan fór aftur að halla undan fæti og hefur gengið lækkað jafnt og þétt niður í um $20, þar sem það er nú.
Það er erfitt að átta sig á því hver stefna FL Group gagnvart AMR hefur verið og hvers vegna henni er breytt nú. Eftir á að hyggja mætti halda því fram að FL Group hafi tímasett kaup sín á hlutum í AMR af mikilli nákvæmni til þess að hámarka tap sitt á viðskiptunum, en það nemur um 15 milljörðum króna. Fyrsti bitinn var tekinn þegar AMR var í hæsta verði í meira en 5 ár, en sá síðari einmitt þegar nýju hámarki hafði verið náð. Og nú er selt, þegar það er lægra en nokkru sinni á eignarhaldstíma FL Group í félaginu.
Jú, kannski það sé jákvætt í einhverjum skilningi, því það verður varla við svo búið unað. Það hefur gengið erfiðlega að ná í Hannes til þess að ræða stöðu félagsins við hann, sem hlýtur að teljast verra þegar almenningshlutafélag á í hlut. Mér segir svo hugur um að þegar það næst í hann, verði hugað að uppstokkun í yfirstjórn félagsins.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.11.2007 | 12:05
Mogginn sannar nauðsyn kristinfræðikennslu
Það er talsvert skeggrætt og kristnina og menntakerfið þessa dagana og ég get alveg tekið undir þá gagnrýni, sem fram hefur komið á frumvarp menntamálaráðherra, þar sem fjölmenningargrauturinn er tekinn fram yfir kristindóminn. Siðmenning okkar og siðfræði, sem byggist á snjallri blöndu kristni, gyðingdóms og grískrar heimspeki með síðari lagfæringum og viðbótum, tekur að mínu viti öllu öðru fram. Hún er samofin íslenskri menningu og þjóðlífi, en það væri beinlínis verið að ala á ranghugmyndum með því að láta öðru vísi. Ég tel að menn ættu að hugsa sig mjög vandlega um áður en þeir kasta því fyrir róða í nafni hins fjölmenningarlega umburðarlyndis. Með því væri verið að höggva að rótum þjóðarinnar og við vitum hvernig rótlausum, skjálfandi, litlum grösum vegnar. Verst af öllu þykir mér þó þessi póst-móderníska nálgun, að allt skuli lagt að jöfnu, en með því er í raun verið að innræta börnum, að stórt séð skipti ekkert nokkru máli.
En síðan sé ég í jólablaðinu, sem fylgdi Morgunblaðinu í dag, að það veitir örugglega ekki af aukinni kristinfræðikennslu í íslenska menntakerfinu. Þar er á síðu 83 að finna viðtal Hrundar Hauksdóttur við Láru Sveinsdóttur, leikkonu, sem fer með hlutverk Maríu Magdalenu í væntanlegri uppfærslu Borgarleikhússins á rokkóperunni Jesúsi Kristi súperstjörnu. Þar gætir óviðjafnanlegs misskilnings, sem er opinberaður í fyrirsögn og inngangi:
Leikur móður Jesú Krists
Borgarleikhúsið setur upp á næstunni Súperstar hina sígildu og kraftmiklu rokkóperu frá 1970. Lára Sveinsdóttir fer með hlutverk Maríu Magdalenu og lék Hrund Hauksdóttur forvitni á að vita hvernig Lára upplifir hlutverk Maríu Magdalenu, móður Jesús Krists.
Það var og. Fyrir utan mismunandi beygingu á nafni frelsarans í fyrirsögn og texta kemur þarna fram ný kenning um uppruna hans. Er virkilega til of mikils mælst að fólk gerir greinarmun á Maríu Magdalenu og Maríu Guðsmóður? Það er ekki eins og menn þurfi að vera doktorar í Nýja-Testamentinu til þess að kunna á því skil, Da Vinci lykillinn ætti að duga. Hér að ofan má hins vegar sjá hluta af málverki Grecos af Maríunum tveimur.
Lára nefnir svo í viðtalinu, að í uppfærslunni komi fram að María Magdalena hafi stundað vændi, en það hefur ekkert að segja; Hrund kippir sér ekkert upp við það að María mey hafi verið hóra, eins og hún hefur skilið það. Engin frétt í því.
Á venjulegum degi væru svona vinnubrögð eftirtektar og ámælis verð. En í jólablaði? Hrund er heppin að kjarni kristindómsins er takmarkalaus fyrirgefning og kærleikur Guðs.
....................
Viðbót 28.XII.2007: Vek athygli á athugasemd frá Hrund Hauksdóttur í athugasemdakerfinu, þar sem hún ber af sér sakir. Rétt skal vera rétt.
Trúmál og siðferði | Breytt 28.12.2007 kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
14.11.2007 | 02:18
Sjá roðann í austri!
Í síðustu viku var umræða um stefnumál hins nýja meirihluta í borginni. Þar hafði Hanna Birna Kristjánsdóttir sig talsvert í frammi og vildi fá að vita hvort nýi meirihlutinn hefði stefnu og hver hún væri ef eitthvað lægi fyrir í þeim efnum. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, svaraði með jafnafdráttarlausum og snaggaralegum hætti og hans er siða, en eftir dúk og disk muldraði hann eitthvað um að það væri alveg skýrt að sér fyndist það ekkert lykilatriði að REI-listinn gerði með sér málefnasamning og kynnti hann sérstaklega.
Nú, já; jæja. Það má svo sem hafa skoðun á þeirri afstöðu borgarstjóra til borgaranna (og hann talar væntanlega fyrir hönd meirihlutans alls), en ég nenni ekki að rekja hana hér. Lesendur og Reykvíkingar eru sjálfsagt fullfærir um það og geta þá endurgoldið Degi trúnaðinn þegar þar að kemur. En ég hjó eftir öðru. Degi fannst þessar spurningar Hönnu Birnu eitthvað óþægilegar, en hann kvað samt ekki ætla að
erfa hofmóðinn eða hortugheitin við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarfulltrúa.
Mér þótti borgarstjórinn tala af fullmiklum myndugleik; svona eins og hinn smurði og goðumlíki konungur borgríkisins hefði af náð sinni ákveðið að sussa á lýðinn fremur en að láta húðstrýkja hann, eins og rétt væri.
En að öllu gríni slepptu: Hefði Dagur látið þessi orð falla við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson eða Gísla Martein Baldursson? Ég held ekki. Ég held þvert á móti að þarna sé borgarstjórinn að tala niður til Hönnu Birnu með þessum hætti og þessum orðum af því að hún er kona. Svona hefði hann aldrei talað til karlmanns.
Hvað ætli Sóley Tómasdóttir, formaður Mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar, hafi um það að segja? Hún tjáir sig oft af minna tilefni.
26.10.2007 | 11:29
Upphaf umbúðaþjóðfélagsins
Ég rakst á þessa mynd á vef Spectator, eins ágætasta vikurits Lundúna, þar sem fjallað er um fréttir, pólitík, bókmenntir og lífsins lystisemdir jöfnum höndum. Hún minnti mig á þá orðræðu, sem gjarnan heyrist um meinta streitu nútímaþjóðfélags. Eða hvernig óhamingja heimsins eigi að hafa hafist með iðnbyltingunni. Rétt eins og mannkyn hafi allt búið í sælu hobbita-samfélagi fram að því. En ætli menn hafi ekki verið ögn stressaðir þegar meirihluti barna dó áður hann komst á legg eða hungurvofan var sífellt yfirvofandi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2007 | 02:40
Á ég að gæta bróður míns?
Mér var bent á það að í helgarblaði DV mætti finna klausu um undirritaðan í Sandkorni, sem sjá má hér til hliðar. Nú ber að horfa til þess að DV fjallar jafnan um stjórnmál af einstakri vanþekkingu, þannig að oft verður úr prýðilegt skemmtiefni fyrir áhugamenn um stjórnmál, en þessi klausa er svo grautarleg, að hún er ekki aðhlátursefni. Ekki einu sinni þegar rausið um talíbana Gísla Marteins Baldurssonar hefst og meintan klofning, sem óneitanlega hlýtur að skrifast á Björn Bjarnason".
Líkast til er það Sigurjón Magnús Egilsson, fyrrverandi ritstjóri á Blaðinu, sem þarna heldur á penna; að minnsta kosti er höfundur með Björn Bjarnason á heilanum og telur það mikilvægt að tilgreina að ég sé fyrrverandi blaðamaður á Blaðinu, líkt og það sé hápunktur ferils míns að hafa unnið með honum! En ég er sumsé blaðamaður á Viðskiptablaðinu.
En það er nú ekki aðalmálið, heldur hitt að höfundur segir mig hafa fallið í þá gryfju að fjalla ekki hlutlaust um uppákomur í borginni, en það rekur hann til bróðernis míns, enda eigi ég að hafa vandlega gætt hagsmuna Kjartans Magnússonar, bróður míns og borgarfulltrúa, í ræðu og riti.
Nú er skemmst frá því að segja, að ég hef alls engar fréttir skrifað af orrahríðinni á vettvangi borgarinnar. Á hinn bóginn hef ég skrifað talsvert um REI-málið í Viðskiptablaðið og á blogga mína, bæði á Moggabloggi og á Eyjunni, og jafnvel rætt þessi mál stuttlega í Kastljósi Ríkisútvarpsins. Allt hefur það hins vegar verið annað hvort undir nafni eða í þar til gerðum skoðanadálkum; sumt í nokkrum hálfkæringi annað í rammri alvöru. Þar hef ég ekki hikað við að benda á skálkana í Orkuveitunni, vandræði Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, mysumaðka Björns Inga Hrafnssonar og hvernig Svandís Svavarsdóttir virðist hafa selt sálu sína næsthæstbjóðandi. En á Kjartan bróður eða einhverja sérstaka hagsmuni hans í þessum málum öllum hef ég ekki minnst.
Að njóta eða gjalda bróðernis
Það kemur sjálfsagt engum á óvart nema hinum djúphyglu stjórnmálaskýrendum DV að skrif mín og málflutningur bera keim af lífsviðhorfum mínum, sem sumir segja að séu nokkuð til hægri við miðju. Öfugt við flesta blaða- og fréttamenn nú orðið hef ég aldrei dregið dul á stjórnmálaskoðanir mínar eða þá staðreynd, að ég er félagi í Sjálfstæðisflokknum. Ég fæst enda að mestum hluta við skoðanaskrif, þannig að það kemur hreint ekki að sök að hafa grundvallaðar skoðanir. Mér finnst fullkomlega ástæðulaust að gera mér upp hlutleysi, það er enginn hlutlaus nema hóran.
Ég veit ekki hvað sandpárari DV á við um að ég hafi gætt hagsmuna Kjartans bróður míns í ræðu og riti. Auðvitað legg ég allt hið besta til hans; ekki aðeins af því að hann er bróðir minn, heldur af því að mér finnst hann grandvar og réttsýnn maður, duglegur og fylginn sér, einmitt þeirrar gerðar, sem á að sitja í borgarstjórn.
Hvað mín margvíslegu skrif varðar hefur Kjartan þó til þessa aðeins goldið bróðernisins en ekki notið. Vegna þess að hann er bróðir minn hef ég aldrei kunnað við að skrifa staf um hann eða hans verk, eins og það er rík ástæða til þess að meta hvort tveggja. Ég veit líka að honum hafa ekki alltaf líkað öll mín skrif og stundum beinlínis haft af þeim ama, því ég get verið vígreifur á ritvellinum og þá álykta sumir sem svo að ég hljóti að vera að enduróma eitthvað frá honum og kenna honum svo um. Í sumum tilvikum hefur fólk kosið að misskilja það á þann veg. Þeir, sem þekkja okkur bræður báða, vita betur.
Ég á að gæta bróður míns, hvað sem bróðurþelinu á DV líður. Ég ætla nú samt að þessum línum rituðum að láta það vera að vera að úttala mig um hann í umfjöllun um stjórnmál. Það væri ekki aðeins kjánalegt að reyna eitthvað slíkt, heldur ósanngjarnt. Bæði gagnvart lesendum og honum.
17.10.2007 | 21:08
Tilbrigði um stef
Á forsíðu Fréttablaðsins í morgun var sniðug mynd eftir Gunnar V. Andrésson, sem ég held að sé djákni íslenskra blaðaljósmyndara. En hún minnti mig á eitthvað.
Það var að rifjast upp fyrir mér á hvað hún minnir. Þarna er á ferð svipað myndmál og Brynjar Gauti Sveinsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, fangaði við svipað tækifæri fyrir tæpum þremur árum.
Þá var Þórólfur Árnason, borgarstjóri, við það að hrökklast frá völdum, og sú mynd sagði eiginlega alla söguna án þess að frekari skýringa væri þörf. Á henni sést Þórólfur borgarstjóri á hlaupum undan fjölmiðlafólki. Hann reisir upp fingur til merkis um að hann hafi engin svör, vilji frið og þurfi meiri tíma en aftast á myndinni sést sama táknið og Gunnar V. notaði líka, en það vísar á neyðarútgang úr Ráðhúsinu, sem borgarstjóra veitti ekki af. Myndin nær asa augnabliksins fullkomlega, fangar ringulreiðina í Ráðhúsinu á þessum dögum og er um leið táknræn fyrir atburðarrásina sem leiddi til afsagnar Þórólfs.
Það er Ólöf Rún Skúladóttir, sem er holdgervingur gervallrar fjölmiðlastéttarinnar á myndinni, en það er líka gaman að benda á að í hópi þeirra, sem á eftir ganga, grillir í Dag B. Eggertsson, nýráðinn borgarstjóra.
Þessi mynd Brynjars Gauta þótti svo snilldarleg að hún var valin fréttamynd ársins 2004 af Blaðaljósmyndarfélagi Íslands (BLÍ) og var þó sægur annarra sögulegra atburða það ár, sem gáfu af sér fjölda frábærra fréttamynda.
Stundum heyrir maður það viðhorf utan að sér að á Íslandi gerist svo fátt, að lítil von sé til þess að fá almennilegar fréttaljósmyndir, og aðrir láta eins og fréttaljósmyndir séu nánast eins og skraut með hinum skrifuðu fréttum. Þetta er hvort tveggja rangt. Það er raunar með ólíkindum hvað við eigum mikið af snjöllum blaðaljósmyndurum og frá þeim streymir urmull góðra fréttamynda, eins og við njótum á hverjum degi í blöðunum. Þær eru ekki bara eitthvert skraut, því sé myndin nógu góð verður hin skrifaða frétt lítið annað en skýringartexti. Ekkert íslensku blaðanna nálgast Morgunblaðið í myndnotkun, en Fréttablaðið hefur verið að sækja sig á, þó hönnum þess leyfi ekki miklar æfingar í þá veru. DV getur síðan öðrum blöðum fremur gert góðum myndum sérstök skil, en geldur þess að fréttastefna blaðsins er aðeins á ská við hina miðlana.
Til þess að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að taka fram, að ég er alls ekki að gefa í skyn að Gunnar V. Andrésson hafi gerst fingralangur eftir mótífi myndar sinnar. Öðru nær, enda þarf Gunnar ekkert að fá að láni annars staðar frá. Nær er að tala um tilbrigði við stef og með mynd sinni er hann að hreyfa hattbarðið til Brynjars Gauta.
Menning og listir | Breytt 18.10.2007 kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar